Hæstiréttur íslands
Mál nr. 340/2003
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Óvenjulegur greiðslueyrir
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2004. |
|
Nr. 340/2003. |
Tæknival hf. (Magnús Guðlaugsson hrl.) gegn þrotabúi Íslenskrar miðlunar hf. (Ásgeir Magnússon hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Óvenjulegur greiðslueyrir.
Fallist var á með þrotabúi Í (Þ) að afhending tölvubúnaðar yrði að teljast greiðsla með óvenjulegum greiðslueyri, sem með engu móti gæti talist venjuleg eftir atvikum. Varnir T, sem reistar voru á tilvísun til laga um samningsveð, var hafnað þar sem fullyrðingar T þóttu ósannaðar. Hinu sama þótti gilda um svokallaðan fjarfundabúnað sem Í hafði afhent T. Fallist var á kröfu Þ um riftun greiðslunnar, sem var hluti skuldar Í við T, og T gert að greiða fjárhæð sem samsvaraði verðmæti umræddra muna á afhendingartíma.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. ágúst 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu krefst stefndi riftunar á greiðslu á þeim hluta skuldar Íslenskrar miðlunar hf. við áfrýjanda að fjárhæð 6.745.168 krónur, sem hann telur að fram hafi farið með afhendingu tilgreinds tölvu- og tækjabúnaðar og að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða þrotabúinu fé samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi er sá búnaður, sem um er deilt, tilgreindur í stefnu til héraðsdóms í sjö liðum. Reisir áfrýjandi sýknukröfu sína varðandi þann tölvubúnað sem tilgreindur er í 1. til 5. lið á því að búnaðurinn hafi verið seldur með söluveði samkvæmt lögum nr. 75/1997 um samningsveð. Hafi söluveðsetningunni verið rift og hinn veðsetti búnaður afhentur áfrýjanda, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga nr. 75/1997. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ekki sé sannað að umræddur búnaður hafi verið seldur með söluveði og að ráðstöfun á þessum hluta búnaðarins verði talin greiðsla á skuld Íslenskrar miðlunar hf. við áfrýjanda. Þá er fallast á það með héraðsdómi að þessi afhending verði að teljast greiðsla með óvenjulegum greiðslueyri, sem með engu móti geti talist venjuleg eftir atvikum.
Í 6. og 7. lið í stefnu eru tilgreind þrjú svokölluð fjarfundarkerfi. Reisir áfrýjandi sýknukröfu sína að því er varðar kröfu stefnda vegna greiðslu með þessum búnaði á því að áfrýjandi hafi neitað viðtöku búnaðarins en starfsmenn Íslenskrar miðlunar hf. hafi engu að síður skilið hann eftir hjá áfrýjanda. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að ekki teljist sannað að neitt annað hafi gilt í samskiptum aðila um þennan búnað en um búnað þann sem tilgreindur er 1. til 5. lið stefnu. Fyrir Hæstarétti heldur áfrýjandi því fram að fjarfundarbúnaðinn hafi með tryggingarbréfi Íslenskrar miðlunar hf. verið settur Sparisjóði Hafnarfjarðar að veði til tryggingar kröfum sparisjóðsins og geti stefndi því ekki í máli þessu haldið uppi fjárkröfu vegna búnaðarins. Málsástæða þessi var ekki höfð uppi í héraði og beindist gagnaöflun þar af leiðandi ekki að því að leiða í ljós atriði er henni tengjast. Kemst hún gegn mótmælum stefnda því ekki að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
D ó m s o r ð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Tæknival hf., greiði stefnda, þrotabúi Íslenskrar miðlunar hf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2003.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 12. júní sl., var höfðað 26. apríl 2002. Stefnandi er Þrotabú Íslenskrar miðlunar ehf., kt. 421089-0239, Skipholti 50b, Reykjavík en stefndi er AcoTæknival hf., kt. 530276-0239, Skeifunni 17, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að rift verði með dómi greiðslu á þeim hluta skuldar Íslenskrar miðlunar ehf. við stefnda sem fram fór með afhendingu tölvu- og tækjabúnaðar að fjárhæð 6.754.168 krónur og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 6.745.168 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá stefnubirtingardegi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Til vara gerir hann þær kröfur að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og dráttarvextir aðeins dæmdir frá dómsuppsögudegi. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.
II
Málavextir eru þeir að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum þann 15. ágúst 2001 var bú Íslenskrar miðlunar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Var Ásgeir Magnússon hrl. skipaður skiptastjóri búsins. Frestdagur við skiptin var 9. ágúst 2001, þegar krafa barst Héraðsdómi Reykjavíkur um gjaldþrotaskipti.
Íslensk miðlun ehf. var í viðskiptum við Tæknival hf. og keypti meðal annars þann tölvubúnað og fjarfundabúnað sem mál þetta fjallar um af félaginu. Aco hf. og Tæknival hf. voru sameinuð í AcoTæknival hf. þann 28. júní 2001. Umdeildur búnaður er eftirfarandi:
1. 8 tölvur af gerðinni Compaq EP ásamt fylgihlutum meðal annars Compaq 17” skjám, keyptar 30. desember 1999.
2. 2 stk. Compaq 18 2Gb W-Ultra SCSI3 Ho, 5,2 ms,40MB/se og 1 stk. Compaq SmartArray 221 Ultra2 Raid stýrisspjald, keypt 18. febrúar 2000.
3. 1 stk.Compaq Proliant 1600 PIII 500 netþjónn og 1 stk. Compaq PIII/500 MHz Prl. 8/16/185, keypt 28. desember 1999
4. 2 stk. Compaq 256 Mb ECC 100 Mhz, keypt 6. mars 2000
5. 1 stk. Compaq 18,2Gb W-Ultra SCSI 3, keypt 18. febrúar 2000.
6. 1 stk. MediaConnect 8000 TeamPro, fjarfundabúnaður, keyptur 30. september 1999
7. 1stk. Media Connect 8000 Director fjarfundabúnaður og 1 stk. MediaConnect 8000 TemaPro fjarfundabúnaður keyptir 8. september 1999.
Óumdeilt er að ofangreindur búnaður er í vörslum stefnda og af gögnum málsins verður ráðið að hann hafi verið afhentur stefnda í júní eða júlí 2001. Stefndi heldur því fram að hann hafi átt söluveð í þeim búnaði sem upp er talinn í liðum 1-5 og vegna vanskila Íslenskrar miðlunar ehf. hafi honum verið heimilt að taka hann til baka. Þá heldur stefndi því fram að fjarfundabúnaðinn sem upp er talinn í liðum 6-7 hafi starfsmenn Íslenskrar miðlunar ehf. skilið eftir hjá stefnda í hans óþökk og hafi stefnanda ávallt verið heimilt að sækja hann.
Skiptastjóri stefnanda tók skýrslur af fyrrum starfsmönnum hins gjaldþrota félags og kemur fram hjá stefnanda að þar hafi komið fram að umræddur tækjabúnaður hafi verið tekinn til baka af starfsmönnum Tæknivals hf. stuttu áður en bú Íslenskrar miðlunar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Af þeim sökum hafi hann ítrekað sent bréf til stefnda og óskað eftir upplýsingum um hvaða búnað væri að ræða. Upplýsingar um fjarfundabúnaðinn kveðst stefnandi ekki hafa fengið fyrr en með tölvupósti 4. mars 2002.
Að ósk stefnda var dómkvaddur matsmaður til að meta umræddan búnað til verðs og var Kjartan Bergsson verkfræðingur dómkvaddur í því skyni þann 27. nóvember 2002 og er matsgerð hans dagsett 18. mars 2003.
Aðila greinir á um hvort stefnandi hafi haft heimild til að taka til baka tölvur og tilheyrandi búnað á þeim grundvelli að hann hafi haft söluveð í búnaðinum og hvort stefndi geti skilað stefnanda fjarfundabúnaðinum eða hvort viðtaka stefnda á öllum búnaðinum sé riftanleg og í því tilviki hver fjárhæð endurgreiðslu skuli vera.
III
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að með afhendingu tækjabúnaðar til stefnda hafi stefndi fengið greiðslu upp í kröfur sínar á hendur Íslenskri miðlun ehf. með óvenjulegum greiðslueyri. Greiðslan hafi ekki verið venjuleg eftir atvikum og því riftanleg samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991.
Fjárhæð stefnukröfunnar sé fundin með þeim hætti að leggja saman kaupverð þeirra muna, án virðisaukaskatts, sem stefndi hafi viðurkennt að hafa tekið í sína vörslu. Um sé að ræða móttöku á eftirgreindum munum og kaupverð án virðisaukaskatts tilgreint fyrir aftan sem byggi á upplýsingum frá stefnda sjálfum:
1) 8 tölvur af gerðinni Compaq EP 6/500 PIII ásamt öllum þeim fylgihlutum, þar á meðal Compaq 17” skjám sem tilgreindir eru á kaupnótu nr. 568888 dagsett 30. desember 1999 og kreditreikningi nr. SR003313 dagsett 24. nóvember 2000 samtals: 1.158.400 krónur
2) 2 stk. Compaq 18, 2Gb W-Ultra SCSI 3 Ho, 5,2 ms, 40MB/se,
samtals 143.000 krónur
1 stk. Compaq Smart-Array 221 Ultra2 Raid stýrispjald
samtals 48.900 krónur
hvoru tveggja samkvæmt kaupnótu nr. 582876 dagsett 18. febrúar 2000
3) 1 stk. Compaq Proliant 1600 PIII 500 netþjónn(server)
samtals 211.552 krónur
1 stk. Compaq PIII/500 MHz Prl. 8/16/185
samtals 78.024 krónur
hvoru tveggja samkvæmt kaupnótu 567512 dagsett 28. desember 1999
4) 2 stk. Compaq 256 Mb ECC 100 Mhz samkvæmt kaupnótu 586990 dagsettri 6. mars 2000
samtals 135.650 krónur
5) 1 stk. Compaq 18.2Gb W-Ultra SCSI 3 samkvæmt kaupnótu nr. 582879 dagsettri 18. febrúar 2000
samtals 71.500 krónur
6) 1 stk. MediaConnect 8000 Teampro(A 046VCON-MC8002U) samkvæmt kaupnótu 541996 dagsettri 30. september 1999
samtals 1.522.891 krónur
7) 1 stk. MediaConnect 8000 Director (A046VCON-Mc8005U)
samtals 1.852.360 krónur
1 stk. MediaConnect 8000 TeamPro (A46VCON-MC8002U)
samtals 1.522.891 krónur
hvort tveggja samkvæmt kaupnótu 535924 dagsettri 8. september 1999.
Samtals geri þetta 6.745.168 krónur. Munir þessir hafi í flestum tilvikum verið teknir í vörslu stefnda í þann mund sem Íslensk miðlun ehf. var að hætta starfsemi, í júní eða júlí 2001 eða einum til tveimur mánuðum fyrir frestdag og gjaldþrot. Einhverjir munir kunni þó að hafa verið mótteknir af stefnda nokkru fyrir þann tíma. Sé á því byggt að tilgangurinn með móttöku hinna tilgreindu hluta hafi verið sá að minnka tjón stefnda vegna fyrirsjáanlegs gjaldþrots Íslenskrar miðlunar ehf. en félagið hafi á þessum tíma átt í miklum rekstrarerfiðleikum og hafi stefnda sem stórum hluthafa þess verið mjög vel kunnugt um það. Kröfur stefnda í þrotabú Íslenskrar miðlunar ehf. hafi numið 78.957.022 krónum.
Þá sé jafnframt á því byggt að umræddar ráðstafanir hafi með ótilhlýðilegum hætti orðið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og hafi leitt til þess að umræddir hlutir hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum þrotabúsins þegar bú Íslenskrar miðlunar ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Hafi stefnda verið kunnugt um fjárhagsstöðu félagsins enda hafi fulltrúi hans átt sæti í stjórn félagsins allt til þess tíma er bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta. Afhending á hinum tilgreinda tækjabúnaði sé því tvímælalaust riftanleg ráðstöfun með vísan til 141. gr. laga nr. 21/1991.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar stefnandi til meginreglna XX. kafla laga nr. 21/1991 og um málskostnað vísar hann til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Af hálfu stefnda kemur fram að Íslensk miðlun ehf. hafi á tímabilinu 30. júlí 1996 til 14. október 2000 keypt tæki og búnað af stefnda. Fram til 1. janúar 1998 hafi allur búnaðurinn verið seldur með eignaréttarfyrirvara en með söluveði eftir gildistöku laga nr. 75/1997 um samningsveð samkvæmt 35.-42. gr. þeirra laga. Hafi Íslensk miðlun ehf. og stefndi átt geysimikil viðskipti og hafi Íslenskri miðlun hf. verið kunnugt um viðskiptaskilmála stefnda, bæði eignaréttarfyrirvarann og síðar söluveðsskilmálana.
Kveður stefndi að vegna vanskila Íslenskrar miðlunar ehf. hafi söluveðsetningunni verið rift með samþykki Íslenskrar miðlunar ehf. á þeim munum sem um er fjallað í máli þessu að undanskildum fjarfundabúnaði og hafi Íslensk miðlun ehf. þá í kjölfar riftunarinnar afhent stefnda hina veðsettu muni.
Hvað snerti fjarfundakerfin þrjú þá kveður stefndi að starfsmenn Íslenskrar miðlunar ehf. hafi komið með þau og skilið þau eftir í húsnæði stefnda. Stefndi hafi hins vegar neitað að taka við þeim en munirnir hafi samt sem áður verið skildir þar eftir.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi, samkvæmt heimild í 38. gr. laga nr. 75/1997 um söluveð og samningi aðila, réttilega rift söluveðsetningu umrædds búnaðar að frátöldum fjarfundabúnaði. Riftun þessi hafi verið gerð með fullu samþykki Íslenskrar miðlunar ehf. Við riftunina á söluveðsetningunni hafi stefndi orðið eigandi þeirra muna er riftunin tók til og afhending þeirra til hans því alls ekki greiðsla á skuld eins og stefnandi haldi fram heldur afhending muna sem stefndi hafi átt.
Hvað varði fjarfundakerfin þrjú þá hafi Íslensk miðlun ehf. viljað skila þeim en stefndi ekki viljað taka við þeim aftur. Þeir munir hafi því fallið til stefnanda við gjaldþrot Íslenskrar miðlunar ehf. Séu munir þessir og hafi ávallt verið stefnanda til frjálsrar ráðstöfunar þegar hann vilji taka þá.
Verði þrátt fyrir neitun stefnda á viðtöku talið að um greiðslu hafi verið að ræða með fjarfundakerfunum sé þess krafist að stefnandi taki við mununum sem fullnaðargreiðslu á dómkröfum sínum hvað þá varði samkvæmt 144. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti ofl.
Varakröfu sína kveðst stefndi byggja á því að verði talið að riftunin á söluverðinu hafi falið í sér greiðslu til stefnda verði að miða við verðmæti munanna eins og þeir hafi verið á þeim degi þegar þeir voru afhentir stefnda.
Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991.
V
Ágreiningslaust er að Íslensk miðlun ehf. keypti þann búnað sem um er fjallað í máli þessu af stefnda á sínum tíma eins og fyrirliggjandi reikningar bera með sér. Þá liggur fyrir að stefndi fékk þennan búnað allan til baka fyrir gjaldþrot Íslenskrar miðlunar ehf. Hefur stefndi borið því við að búnað þann sem hann tók þannig til baka, að undanskildum fjarfundabúnaði, hafi hann selt Íslenskri miðlun ehf. með svokölluðu söluveði og vegna vanskila Íslenskrar miðlunar ehf. á að greiða kaupverðið hafi söluveðsetningunni verið rift með samþykki Íslenskrar miðlunar ehf.
Í lögum nr. 75/1997 um samningsveð segir um söluveð meðal annars að í tengslum við sölu lausafjár sé heimilt að semja um veðrétt í hinu selda (söluveð) til tryggingar kröfu seljanda til endurgjaldsins ásamt vöxtum og kostnaði sbr. a liður 1. mgr. 35. gr. laganna. Þá kemur fram í 1. tl. 38. gr. laganna að það sé skilyrði fyrir réttarvernd samnings um söluveð að samningurinn sé gerður skriflega og í síðasta lagi samtímis afhendingu söluhlutarins til kaupanda. Þá segir í 4. tl. 38. gr. að þegar vanskil verði á greiðslu krafna sem greinir í 35.gr. geti veðhafi leitað fullnustu kröfu sinnar með því að krefjast nauðungarsölu enda hafi hann áskilið sér þá heimild í söluveðssamningi. Rifti veðhafi söluveðssamningi samkvæmt heimild í veðsamningnum eða á grundvelli almennra reglna geti hann krafist afhendingar hins veðsetta úr hendi veðsala.
Reikningar þeir sem stefnandi hefur lagt fram varðandi kaup Íslenskrar miðlunar ehf. á þeim búnaði sem mál þetta fjallar um bera ekki með sér að búnaðurinn sé seldur með söluveði. Þá liggur enginn skriflegur samningur fyrir milli kaupanda og seljanda svo sem gert er ráð fyrir í 1. tl. 38. gr. laga nr. 75/1997 og er skilyrði fyrir réttarvernd samnings að þessu leyti. Stefndi hefur lagt fram illlæsilegt ljósrit reiknings vegna kaupa Íslenska álfélagsins hf. á vörum af stefnda ásamt skilmálum sem ætla má að sé á bakhlið þess reiknings. Leggur stefndi skjal þetta fram sem sýnishorn varðandi þá samningsskilmála sem hann telur að hafi gilt milli hans og Íslenskrar miðlunar ehf. varðandi kaup þess síðarnefnda á umræddum búnaði frá stefnda. Eins og rakið hefur verið bera þeir reikningar sem fyrir liggja varðandi viðskipti milli Íslenskrar miðlunar ehf. og stefnda ekki með sér að svo hafi samist með aðilum sem stefndi heldur fram og hefur stefndi ekki lagt fram haldbær gögn sem sýna fram á að umræddur búnaður hafi verið seldur með söluveði og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Verður því fyrrgreind ráðstöfun á þessum hluta búnaðarins talin greiðsla upp í skuld Íslenskrar miðlunar ehf. við stefnda.
Stefnandi byggir kröfu sína um riftun á 134. gr. laga nr. 21/1991 en þar segir að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.
Þá byggir stefnandi einnig á því að umræddar ráðstafanir séu riftanlegar með vísan til 141. gr. gjaldþrotalaganna en þar segir að krefjast megi riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu körfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.
Óumdeilt er í málinu að stefndi fékk allan þann búnað sem hér er fjallað um afhentan innan þess tímamarks sem getur um í 134. gr. gjaldþrotalaganna en frestdagur var 9. ágúst 2001 en afhending búnaðarins var í júní til júlí sama ár eða einum til tveim mánuðum fyrir frestdaginn. Þá er einnig ljóst að afhending búnaðarins til greiðslu upp í skuld við stefnda var greiðsla með óvenjulegum greiðslueyri og ljóst að greiðslan hefur skert greiðslugetu stefnanda verulega og gat með engu móti virst vera venjuleg eftir atvikum, enda hefur öðru ekki verið haldið fram af hálfu stefnda að því gefnu að um sé að ræða greiðslu á skuld við hann.
Stefndi hefur haldið því fram að fjarfundarkerfin þrjú sem upp eru talin í liðum 6-7 að framan séu í eigu stefnanda og sé honum frjálst að sækja þau. Hefur hann haldið því fram að búnaðurinn hafi verið afhentur honum gegn hans vilja. Stefndi hefur ekki lagt fram nein gögn sem styðja þessa staðhæfingu og er ekkert í málinu sem gerir sennilegt að eitthvað annað hafi gilt um þennan búnað en annan sem stefndi tók til baka sem greiðslu upp í kröfu sína á hendur Íslenskri miðlun ehf. Sú staðreynd að ekki liggur fyrir kreditreikningur vegna þessa búnaðar þykir ekki óyggjandi sönnun um þessa fullyrðingu stefnda enda á hans valdi að útbúa slíka reikninga sem hann gerði varðandi annan búnað, að hluta til með miklum afföllum.
Stefndi krefst þess að verði talið að um greiðslu hafi verið að ræða með fjarfundakerfunum taki stefnandi við þeim til baka sem fullnaðargreiðslu á dómkröfum sínum hvað þá snertir sbr. 144. gr. gjaldþrotaskiptalaganna en þar segir að ef annar hvor aðila krefjist skuli skila greiðslum í þeim mæli sem þær séu enn til enda verði það gert án óhæfilegrar rýrnunar verðmæta og jafna skuli greiðslur eftir því sem þurfi með peningagreiðslum.
Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns segir að hjá stefnda hafi fundist tvö heil sett af þrem settum af fjarfundabúnaði og hafi vantað tölvubúnað í þriðja settið og ekki vitað hvað hafði orðið um hann. Ekkert liggur fyrir hvaða fjarfundabúnaður það er sem tölvubúnað vantar í og verður því þegar af þeirri ástæðu ekki hægt að fallast á að stefnandi þurfi að taka við búnaðinum enda vandséð að það verði gert án óhæfilegrar rýrnunar verðmæta, en ekki liggur fyrir óyggjandi hvers virði búnaðurinn er í dag og hvaða þýðingu það hefur að tölvubúnaðinn vantar í hann.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið og með vísan til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verður krafa stefnanda um riftun greiðslu þess hluta skuldar Íslenskrar miðlunar ehf. sem fram fór með afhendingu tölvu og tækjabúnaðar að kaupverði 6.745.168 krónur tekin til greina. Ekki liggur fyrir í málinu sundurliðun á kröfu stefnda í þrotabú Íslenskrar miðlunar ehf. og hve mikilli lækkun hún sætti vegna hinna riftanlegu ráðstafana en með vísan til 1. mgr. 143. gr. laga nr. 21/1991 kemur stefndi að upphaflegri fjárkröfu sinni á hendur þrotabúinu og nýtur jafnrar stöðu við aðra lánadrottna sem hafa jafnréttháar kröfur.
Í 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaganna segir að ef riftun fer fram með stoð í 131.-138. gr. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemi tjóni þrotabúsins.
Eins og rakið hefur verið var Kjartan Bergsson verkfræðingur dómkvaddur til að meta verðmæti þess búnaðar sem stefndi fékk afhentan sem greiðslu upp í skuld sína. Er mat hans tvenns konar, annars vegar miðað við ársgamlan búnað og hins vegar matsverð hans þann 1. júní 2001 en í málatilbúnaði aðila er við það miðað að búnaðurinn hafi verið afhentur stefnda í júní eða júlí 2001 og ekki ágreiningur um að við það tímamark skuli miða afhendinguna.
Eins og fram kemur í matsgerðinni er það mat matsmanns að tölvubúnaður falli töluvert hraðar í verði en annar tæknibúnaður og framleiðslutæki. Þá geti tækninýjungar einnig haft ófyrirsjáanleg áhrif á hraða verðfalls tölvubúnaðar en ef engar stærri tæknisveiflur hafi orðið heldur eingöngu eðlileg framþróun megi reikna með að eins árs búnaður sé ekki seljanlegur á meira en 50% af söluvirði sambærilegs nýs búnaðar.
Um fjarfundabúnað gildi annað þar sem slíkur búnaður sé minna notaður og við kjöraðstæður. Hér skipti tækniþróun mestu máli. Ef hún er mikil þá geti eldri búnaður verið óseljanlegur en ef engar tækniframfarir hafi orðið séu 30-40% afföll á milli ára raunhæf.
Niðurstöður matsmannsins varðandi verðmæti þess búnaðar sem hér um ræðir miðað við 1. júní 2001 er að allur tölvubúnaðurinn og fylgihlutir sbr. þeir munir sem upp eru taldir í liðum 1-5 hér að framan reiknist með 50% afföllum á ári frá upphaflegum reikningi og fjarfundabúnaðurinn í liðum 6-7 reiknist með 30% afföllum á ári frá upphaflegum reikningi. Samkvæmt því er það niðurstaða matsmannsins að verðmæti þeirra muna sem hér um ræðir hafi á afhendingartíma hans til stefnda verið 4.800.000 með virðisaukaskatti eða 3.855.422 krónur að frátöldum virðisaukaskatti.
Framangreindu mati hins dómkvadda matsmanns hefur ekki verið hnekkt og verður við það miðað að hagur stefnda af hinni riftanlegu ráðstöfun samsvari mati matsmannsins miðað við það tímamark þegar stefndi fékk munina í hendur og er tjón stefnanda sömu fjárhæðar. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 3.855.422 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði en með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 er krafa stefnanda um dráttarvexti frá þeim degi er mál þetta var höfðað tekin til greina.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ásgeir Magnússon hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Magnús Guðlaugsson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Rift er greiðslu á skuld Íslenskrar miðlunar ehf. við stefnda AcoTæknival hf. sem fram fór með afhendingu tölvu- og tækjabúnaðar samtals að fjárhæð 6.745.168 krónur.
Stefndi greiði stefnanda þrotabúi Íslenskrar miðlunar ehf. 3.855.422 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. apríl 2002 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.