Hæstiréttur íslands
Mál nr. 178/2000
Lykilorð
- Stjórnarskrá
- Eignarréttur
- Lífeyrissjóður
- Örorka
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 19. október 2000. |
|
Nr. 178/2000. |
Einar Vigfússon (Ástráður Haraldsson hrl.) gegn Lífeyrissjóði sjómanna (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) |
Stjórnarskrá. Eignarréttur. Lífeyrissjóður. Örorka. Gjafsókn.
E var sjómaður í rúm 40 ár þar til hann varð fyrir starfsorkuskerðingu á árinu 1994 í kjölfar gerviliðsaðgerðar á mjöðm vegna brjóskeyðingar og slitgigtar. Hann greiddi iðgjöld af tekjum sínum til L, samkvæmt þeim lögum er giltu á hverjum tíma. E hafði fengið greiddan örorkulífeyri úr hendi L frá 1. maí 1995 á grundvelli örorkumats sem þá lá fyrir og síðara mats, allt samkvæmt reglum sem gilt höfðu á þeim tíma er greiðslur fóru fram. Taldi E að réttur hans til elli- og örorkulífeyris hefði verið skertur með breyttum reglum sem L hafi beitt með afturvirkum og ólögmætum hætti. Deilt var um það hvort réttur E til elli- og örorkulífeyris úr hendi L yrði ákveðinn samkvæmt þeim réttarreglum sem voru í gildi þegar hann greiddi iðgjöld til L eða reglum sem í gildi voru eftir að réttur hans til örorkulífeyris varð virkur á árinu 1995 þegar örorkumat vegna starfsorkuskerðingarinnar lá fyrir. L var sýknaður af kröfum E með vísan til dóms Hæstaréttar 23. mars 2000 í málinu 340/1999, en kröfur E lutu að sömu efnisatriðum og um var deilt í því máli.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. maí 2000 og krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 846.617 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. maí 1995 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að viðurkennt verði að stefnda beri að greiða sér örorkulífeyri frá 5. apríl 1999 til 65 ára aldurs í samræmi við 13. gr. áður gildandi laga nr. 49/1974 um Lífeyrissjóð sjómanna, þannig að heildarstigafjöldi til grundvallar útreikningi örorkubóta teljist 97,368 stig frá 1. febrúar 1995. Ennfremur verði viðurkenndur réttur hans til þess að njóta ellilífeyris úr hendi stefnda frá 65 ára aldri þann 5. maí 2003, þannig að reiknigrundvöllur ellilífeyris verði talinn 97,368 stig frá 1. febrúar 1995. Að lokum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti in solidum úr hendi stefnda og lögmanns hans.
Málsatvik og málsástæður aðila eru rakin í héraðsdómi. Áfrýjanda var metin örorka á árinu 1995 og voru greiðslur örorkulífeyris til hans ákveðnar af stefnda í samræmi við reglugerð, sem sett var á grundvelli 5. gr. laga nr. 94/1994 um Lífeyrissjóð sjómanna, en lögin og reglugerðin tóku gildi 1. september 1994. Réttur áfrýjanda til örorkulífeyris var því ekki orðinn virkur, er reglur þessar tóku gildi.
Í dómi Hæstaréttar 23. mars 2000 í málinu nr. 340/1999 var dæmt um kröfur sjóðfélaga stefnda, sem hóf töku örorkulífeyris á árinu 1995 eins og áfrýjandi. Krafðist hann örorkulífeyris úr hendi stefnda á grundvelli laga nr. 49/1974 með síðari breytingum. Hélt hann því fram að fyrrnefnd reglugerð sjóðsins frá 1994 hefði ekki verið gild heimild til skerðingar örorkulífeyris þess, sem hann hefði átt rétt á samkvæmt áðurgreindum lögum. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að heimild löggjafans til að skerða virk lífeyrisréttindi sé mun þrengri en þegar um sé að ræða réttindi, sem einungis séu væntanleg, þegar skerðingin öðlast gildi. Er þar og vísað til fjárhags stefnda, þegar hinar breyttu reglur voru settar, en greiðsluþrot hafi verið óumflýjanlegt að öllu óbreyttu. Var talið að skerðing allra óvirkra lífeyrisréttinda sjóðfélaga, svo sem hún birtist í fyrrgreindri reglugerð, hafi verið reist á almennum grundvelli og jafnræðis milli sjóðfélaga hafi nægjanlega verið gætt. Reglur þessar hafi verið samþykktar af samtökum sjómanna og vinnuveitenda þeirra. Var talið að sú skerðing lífeyrisréttinda, sem í reglunum fólst, hafi verið innan þeirra marka, sem 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, nú 72. gr. hennar, setur því að unnt sé að skerða eignarréttindi manna án þess að bætur komi fyrir. Með lögum nr. 45/1999 hefðu verið settar nýjar reglur um lífeyrisrétt sjóðfélaga stefnda. Færi um lífeyrisrétt viðkomandi sjóðfélaga samkvæmt þeim eftir 1. júlí 1999, en engum haldbærum rökum hefði verið skotið undir þá kröfu að réttur hans frá þeim tíma skyldi ráðast af lögum nr. 49/1974. Var stefndi sýknaður af kröfum sjóðfélagans.
Kröfur áfrýjanda í þessu máli lúta að sömu efnisatriðum og um var deilt í framangreindu máli. Þegar litið er til þess fordæmis, sem felst í niðurstöðu Hæstaréttar í því, þykir verða að staðfesta hinn áfrýjaða dóm.
Með hliðsjón af málsatvikum og hagsmunum áfrýjanda eru ekki efni til að taka til greina kröfu stefnda um að áfrýjandi og lögmaður hans verði in solidum dæmdir til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Þykir rétt að málskostnaður milli aðila fyrir Hæstarétti falli niður.
Um gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Einars Vigfússonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 2. nóvember sl. að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað með stefnu birtri 15. mars 1999 af Einari Vigfússyni kt. 050538-4359, Hjaltabakka 28, Reykjavík, á hendur Lífeyrissjóði sjómanna, kt. 460673-0119, Þverholti 14, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þessar:
1. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu kröfu að fjárhæð 1.216.148 krónur með dráttarvöxtum af 17.280 krónum frá 5. maí 1995 til 5. júní 1998, þá af 34.590 krónum frá þeim degi til 5. júlí 1995, þá af 51.921 krónu frá þeim degi til 5. ágúst 1995, þá af 69.302 krónum frá þeim degi til 5. september 1995, þá af 86.755 krónum frá þeim degi til 5. október 1995, þá af 104.269 krónum frá þeim degi til 5. nóvember 1995, þá af 121.860 krónum frá þeim degi til 5. desember 1995, þá af 139.394 krónum frá þeim degi til 5. janúar 1996, þá af 156.918 krónum frá þeim degi til 5. febrúar 1996, þá af 174.509 krónum frá þeim degi til 5. mars 1996, þá af 192.130 krónum frá þeim degi til 5. apríl 1996, þá af 209.782 krónum frá þeim degi til 5. maí 1996, þá af 227.464 krónum frá þeim degi til 5. júní 1996, þá af 245.258 krónum frá þeim degi til 5. júlí 1996, þá af 263.032 krónum frá þeim degi til 5. ágúst 1996, þá af 280.826 krónum frá þeim degi til 5. september 1996, þá af 298.732 krónum frá þeim degi til 5. október 1996, þá af 316.679 krónum frá þeim degi til 5. nóvember 1996, þá af 334.631 krónu frá þeim degi til 5. desember 1996, þá af 352.594 krónum frá þeim degi til 5. janúar 1997, þá af 370.480 krónum frá þeim degi til 5. febrúar 1997, þá af 388.427 krónum frá þeim degi til 5. mars 1997, þá af 406.384 krónum frá þeim degi til 5. apríl 1997, þá af 424.331 krónu frá þeim degi til 5. maí 1997, þá af 442.409 krónum frá þeim degi til 5. júní 1997, þá af 460.456 krónum frá þeim degi til 5. júlí 1997, þá af 478.544 krónum frá þeim degi til 5. ágúst 1997, þá af 496.662 krónum frá þeim degi til 5. september 1997, þá af 514.831 krónu frá þeim degi til 5. október 1997, þá af 533.070 krónum frá þeim degi til 5. nóvember 1997, þá af 551.369 krónum frá þeim degi til 5. desember 1997, þá af 569.648 krónum frá þeim degi til 5. janúar 1998, þá af 587.897 krónum frá þeim degi til 5. febrúar 1998, þá af 606.246 krónum frá þeim degi til 5. mars 1998, þá af 624.555 krónum frá þeim degi til 5. apríl 1998, þá af 642.935 krónum frá þeim degi til 5. maí 1998, þá af 694.844 krónum frá þeim degi til 5. júní 1998, þá af 746.923 krónum frá þeim degi til 5. júlí 1998, þá af 799.086 krónum frá þeim degi til 5. ágúst 1998, þá af 851.137 krónum frá þeim degi til 5. september 1998, þá af 902.905 krónum frá þeim degi til 5. október 1998, þá af 954.729 krónum frá þeim degi til 5. nóvember 1998, þá af 1.006.780 krónum frá þeim degi til 5. desember 1998, þá af 1.058.973 krónum frá þeim degi til 5. janúar 1999, þá af 1.111.185 krónum frá þeim degi til 5. febrúar 1999, þá af 1.163.708 krónum til 5. mars 1999 og loks af 1.216.148 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
2. Að viðurkennt verði með dómi að meta beri örorku stefnanda miðað við þau störf sem aðild hans að stefnda eru tengd.
3. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda beri að greiða stefnanda örorkulífeyri frá 5. apríl 1999 til 65 ára aldurs í samræmi við 13. gr. áður gildandi laga nr. 49/1974 þannig að heildarstigafjöldi til grundvallar útreikningi örorkubóta teljist 97,368 stig frá 1. febrúar 1995.
4. Að viðurkenndur verði réttur stefnanda til þess að njóta ellilífeyris úr hendi stefnda frá 65 ára aldri þann 5. maí 2003 þannig að reiknigrundvöllur ellilífeyris verði talinn 97,368 stig frá 1. febrúar 1995.
5. Að stefndi verið dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál samkvæmt málskostnaðarreikningi að viðbættu álagi er nemi virðisaukaskatti.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi auk lögmælts virðisaukaskatts.
Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni
Stefnandi var sjómaður í rúm 40 ár þar til hann varð fyrir starfsorkuskerðingu á árinu 1994 í kjölfar gerviliðsaðgerðar á mjöðm vegna brjóskeyðingar og slitgigtar. Hann greiddi iðgjöld af tekjum sínum til stefnda, upphaflega samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð sjómanna nr. 78/1970 en síðar samkvæmt lögum nr. 49/1974, er leystu þau lög af hólmi, og að öðru leyti samkvæmt þeim lögum er giltu á hverjum tíma.
Stefnandi hefur fengið greiddan örorkulífeyri úr hendi stefnda frá 5. maí 1995 á grundvelli örorkumats sem þá lá fyrir og síðara mats, allt samkvæmt reglum sem gilt hafa á þeim tíma er greiðslur fóru fram. Stefnandi telur að réttur hans til elli- og örorkulífeyris hafi verið skertur með breyttum reglum sem stefndi hafi beitt með afturvirkum og ólögmætum hætti.
Þær reglur, sem stefnandi vísar til í þessu sambandi, voru settar með reglugerð, sem tók gildi 1. september 1994 og sett var með heimild í 5. gr. laga nr. 94/1994. Hina meintu ólögmætu skerðingu telur stefnandi þrenns konar.
Í fyrsta lagi segi í 11.3 gr. reglugerðarinnar að fyrstu 3 árin eftir örorkutap skuli örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðsfélaga til að gegna því starfi er hann hefði gegnt og aðild hans að sjóðnum sé tengd. Að því tímabili loknu skuli örorkutap metið á ný með tilliti til vanhæfni sjóðsfélaga til almennra starfa. Örorka stefnanda var endurmetin þann 13. mars 1998 og samkvæmt niðurstöðu tryggingarlæknis var örorka hans enn 100% með tilliti til fyrri starfa en 50% hvað varðaði almenn störf frá 1. apríl 1998. Vegna þessa hafi örorkulífeyrir stefnanda verið skertur um 50% frá 5. maí 1998 um 33.489 krónur á mánuði.
Í öðru lagi hafi orðið skerðing á örorkulífeyri stefnanda með reglugerðinni vegna framreiknings stigafjölda. Samkvæmt 11.5 gr. reglugerðarinnar skyldi hámark örorkulífeyris miðast við áunninn lífeyrisrétt að viðbættum lífeyri sem svaraði til þess stigafjölda sem hann hefði áunnið sér til 60 ára aldurs en ekki til 65 ára aldurs eins og lögbundið var samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 49/1974. Stefnandi hafi orðið fyrir skerðingu örorkulífeyris vegna þessa.
Í þriðja lagi hafi skerðing á framreikningi stigaeignar áhrif á greiðslu ellilífeyris. Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 49/1974 komi fram að hámark örorkulífeyris skyldi miða við áunninn lífeyrisrétt samkvæmt 12. gr. laganna að viðbættum lífeyri er svaraði til þess stigafjölda sem sjóðsfélagi hefði áunnið sér fram til 65 ára aldurs. Þannig hafi viðmiðunartími ókominna iðgjaldaára stefnanda verið styttur um fimm ár með setningu reglugerðarinnar. Breyting þessi komi til með að hafa áhrif á fjárhæð þess ellilífeyris sem stefnandi eigi rétt á þegar hann nái 65 ára aldri.
Í málinu er deilt um það hvort réttur stefnanda til elli- og örorkulífeyris úr hendi stefnda verði ákveðinn samkvæmt þeim réttarreglum sem voru í gildi þegar hann greiddi iðgjöld til stefnda eða reglum sem í gildi voru eftir að réttur hans til örorkulífeyfis varð virkur á árinu 1995 þegar örorkumat vegna starfsorkuskerðingarinnar lá fyrir.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að forsendum örorkumats hafi verið breytt með þeim breytingum sem gerðar voru á 1. mgr. 13. gr. laga nr. 49/1974 með lögum nr. 44/1992. Samkvæmt hinni breyttu lagareglu skyldi miða örorkumat við vanhæfni sjóðsfélaga til almennra starfa en fyrstu fimm árin skyldi miða við vanhæfni sjóðsfélaga til þeirra starfa sem aðild hans að sjóðnum var tengd, þ.e. fyrri störf. Með þessari fimm ára takmörkun hafi réttindi sjóðsfélaga verið skert verulega. Fyrir lagabreytinguna hafi ákvæðið verið ótakmarkað að þessu leyti. Þá skyldi miða örorkuna við fyrri störf, þau störf sem aðild að sjóðnum byggðist á, ótímabundið fram til þess tíma er sjóðsfélagi hæfi töku ellilífeyris. Umrædd breyting samkvæmt lögum nr. 44/1992 hafi þó aldrei komið til framkvæmda þar sem lögin hafi fallið úr gildi við setningu laga nr. 94/1994, áður en örorka stefnanda hafi verið endurmetin. Með lögum nr. 94/1994 hafi nær öll lagaákvæði um efnislegan rétt sjóðsfélaga stefnda verið felld úr lögum og mælt svo fyrir í 5. gr. laganna að skipa skyldi efnisreglum í reglugerð sem samin skyldi af stjórn stefnda og staðfest af fjármálaráðherra. Reglugerðin hafi síðan verið sett samkvæmt lagaheimild í fyrrnefndri lagagrein og hafi hún tekið gildi þann 1. september 1994. Í 11.3. gr. hennar sé fjallað um forsendur örorkumats. Hafi þá enn verið aukið við þá skerðingu sem fyrst hafi komið fram með setningu laga nr. 44/1992. Þar segi að fyrstu þrjú árin eftir örorkutap skyldi örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðsfélaga til að gegna því starfi er hann hefði gegnt og aðild hans að sjóðnum væri tengd. Að því tímabili loknu skyldi örorkutap metið á ný með tilliti til vanhæfni sjóðsfélaga til almennra starfa.
Stefnandi telur að umrædd breyting hafi skert réttindi hans verulega. Hafi örorka hans verið endurmetin í samræmi við grein 11.3 þann 13. mars 1998 og hafi tryggingarlæknir þá komist að þeirri niðurstöðu að örorka stefnanda væri enn 100% með tilliti til fyrri starfa en 50% hvað varðar almenn störf frá 1. apríl 1998. Vegna þessa hafi örorkulífeyrir stefnanda verið skertur um 50% frá 5. maí 1998, eða um 33.489 krónur á mánuði. Krefst stefnandi þess að honum verði greiddur örorkulífeyrir miðað við 100% örorku í samræmi við niðurstöðu tryggingarlæknisins og efnisákvæði 1. mgr. 13. gr. áður gildandi laga nr. 49/1974 um Lífeyrissjóð sjómanna.
Þá er krafa stefnanda reist á því að aldursviðmiðun við framreikning stiga við útreikning örorkulífeyris hafi breyst með reglugerðinni. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 49/1974 skyldi bæta við áunninn lífeyrisrétt lífeyri, er svaraði til þess stigafjölda, sem sjóðsfélagi hefði áunnið sér til 65 ára aldurs en samkvæmt reglugerðinni skyldi aðeins framreikna stig til 60 ára aldurs.
Á matsdegi hafi heildarstigaeign stefnanda, miðað við greidd iðgjöld, verið samtals 61,561 stig. Samkvæmt 11.5. gr. reglugerðarinnar skyldi hámark örorkulífeyris stefnanda miðast við áunnin lífeyrisrétt að viðbættum lífeyri sem svaraði til þess stigafjölda sem hann hefði áunnið sér til 60 ára aldurs. Þannig hafi samkvæmt 11.6. og 11.11. gr. reglugerðarinnar átt að framreikna stefnanda stig miðað við meðaltal síðustu fimm almanaksára, allt til þess dags, er hann næði 60 ára aldri. Lagt hafi verið til grundvallar að meðalstigasöfnun stefnanda síðustu fimm ár hefði verið 4,442 stig. Hafi sá stigafjöldi verið margfaldaður með þeim árafjölda sem stefnandi hafi átt eftir að sextugsaldri eða 3,333 ár. Samkvæmt þessum reiknireglum hafi stefndi talið að miða bæri örorkulífeyri stefnanda við 76,366 stig. Á þessum grundvelli hafi stefnandi fengið greiddan örorkulífeyri samtals að fjárhæð 62.833 krónur frá 5. maí 1995 og síðan að teknu tilliti til verðlagsbreytinga sem miðist við lánskjaravísitölu. Sú fjárhæð sé reiknuð þannig, sbr. 11.7. gr., sbr. og 10.2. gr., að miðað sé við grundvallarlaun að fjárhæð 48.399 krónur er margfaldist með margfeldi stigafjölda og stuðulsins 1,7, þ.e. 48.399 krónur x (76,366 x 1,7)% = 62.833 krónur.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefnda beri að greiða honum örorkulífeyri miðað við þau lög sem voru í gildi þegar hann ávann sér umrædd réttindi. Stytting á því viðmiðunartímabili um fimm ár, sem lagt hafi verið til grundvallar við framreikning stigafjölda stefnanda, hafi leitt til þess að örorkulífeyrir stefnanda hafi verið skertur um rúm 36%. Ef framreiknun stiga hefði farið fram samkvæmt lögum nr. 49/1974, sem hafi verið í gildi þegar stefnandi hafi áunnið sér umrædd réttindi, hefði heildarstigaeign hans verið talin samtals 97,368 vegna þess að þá hefði bæst við stigaeign stefnanda framreiknuð stig fyrir 5 ár. Þannig hefði átt að leggja til grundvallar að stefnandi hefði áunnið sér 61,561 stig, auk framreiknunar stefnda frá matsdegi til 60 ára aldurs, samtals 14,805 stig og að auki framreiknun er næmi 5 x 4,442 stigum fyrir tímabilið frá 60 ára aldri til 65 ára aldurs. Samkvæmt því hefðu bæst við heildarstigaeign stefnanda 21,002 stig að teknu tilliti til þeirrar skerðingar sem falist hafi í 30 ára reglu 9. gr. laganna, þ.e. 61,561 + 14,805 + 21,002 = 97,368 stig.
Sú skerðing sem stefnandi hafi sætt í samræmi við framgreindar breytingar á reglum lífeyrissjóðs stefnda hafi haft í för með sér lækkun á örorkulífeyri stefnanda sem nemi 17.280 krónum á verðlagi þess dags er stefndi hóf greiðslur sínar til stefnanda þann 5. maí 1995. Á þingfestingardegi nemi mánaðarleg skerðing þannig 18.723 krónum. Stefnandi hafi reiknað út hina mánaðarlegu skerðingu og vísar hann í því sambandi til sundurliðunar á dskj. nr. 13. Grundvöllur fjárkröfu stefnanda sé reistur á þessum útreikningi en styðjist jafnframt við útreikning Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingarfræðings frá 19. desember 1995.
Þriðja skerðingin, sem stefnandi telur sig verða fyrir, varði greiðslu ellilífeyris. Skerðing á framreikningi stigaeignar, sem hér að framan hefur verið lýst, muni jafnframt hafa áhrif á fjárhæð þess ellilífeyris sem stefnandi eigi rétt á þegar hann nái 65 ára aldri þann 5. maí 2003. Komi skerðing stefnda á framreikningi stigafjölda til framkvæmda við útreikning ellilífeyris stefnanda, myndi skerðing stigafjölda hafa sömu áhrif til lækkunar á ellilífeyri eins og örorkulífeyri. Þannig sé ljóst að ellilífeyrir stefnanda yrði allt að 36% lægri en hann hefði orðið samkvæmt lögum nr. 49/1974, þ.e. að miðað yrði við 76,366 stigaeign í stað 97,368. Telur stefnandi að reikna beri stigaeign hans með tilliti til útreiknings ellilífeyris miðað við þær framreikningsforsendur sem gilt hafi í tíð laga nr. 49/1974.
Stefnandi styður kröfur sínar í málinu þeim rökum að lífeyrissjóðsréttindi þau sem hann hafi stofnaði til í gildistíð laga nr. 49/1974 með iðgjaldagreiðslum til stefnda njóti eignarverndar og friðhelgi samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995. Sú túlkun stefnanda hafi verið staðfest af Hæstarétti með dómi réttarins uppkveðnum þann 28. maí 1998 í máli Svavars Benediktssonar gegn stefnda. Þær breytingar sem stefndi hafi framkvæmt á reglum lífeyrissjóðsins hafi leitt til verulegrar réttindaskerðingar stefnanda. Þau réttindi verði ekki af stefnanda tekin, með lögmætum hætti, nema fullnægt sé þeim grundvallarskilyrðum, sem fram komi í 72. gr. stjórnarskrárinnar, um að enginn verði skyldaður til þess að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Til þess þurfi skýr lagafyrirmæli enda komi fullt verð fyrir. Samkvæmt framangreindu hefði aðeins verið hægt að svipta stefnanda þeim lífeyrisréttinum, sem um er fjallað í þessu máli, ef fullnægt hefði verið þeim þríþætta áskilnaði sem fram komi í 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Stefnandi heldur því fram að engu hinna þriggja skilyrða sé fullnægt. Skerðingin hafi ekki verið gerð til almannaheilla heldur til hagsbóta fyrir einn hóp sjóðsfélaga á kostnað annarra, m.a. stefnanda, engin lagafyrirmæli hafi heimilað umræddar skerðingar auk þess sem ekkert verð hafi komið þar fyrir. Af þessu sé ljóst að skerðing stefnda á réttindum stefnanda hafi verið ólögmæt og því marklaus að lögum. Því beri stefnda að standa stefnanda skil á örorku- og ellilífeyri í samræmi við efnisreglur laga nr. 49/1974 og dómkröfur þessa máls.
Þá telur stefnandi að skerðing stefnda á lífeyrisréttindum hans hafi falið í sér skýrt brot á jafnræðisreglunni. Stefnandi vísar í því sambandi til 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. stjórnskipunarlög nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995, og til 14. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur telur stefnandi að í nýjum reglum, sem tekið hafi gildi þann 1. september 1994 við setningu reglugerðar Lífeyrissjóðs sjómanna, sbr. 5. gr. laga nr. 94/1994, hafi eigi verið gætt jafnræðis gagnvart sjóðsfélögum. Sé ljóst að aðgerðir stefnda hafi miðað að því að styrkja stöðu afmarkaðs hóps sjóðsfélaga, aðallega á kostnað örorkulífeyrisþega. Í greinargerð með lögum nr. 94/1994 komi fram að megintilgangur setningar laganna hafi verið tvíþættur. Annars vegar hafi verið ætlunin að færa efnisreglur um réttindi sjóðsfélaga úr lögum þannig að unnt væri að skipa reglum sjóðsins með reglugerð án afskipta Alþingis. Hins vegar hafi tilgangurinn verið sá að breyta þessum sömu efnisreglum í ljósi fjárhagsstöðu sjóðsins. Hvergi sé þó vikið að því í umræddri greinargerð að ætlunin hafi verið að skerða réttindi sjóðsfélaga. Við setningu umræddrar reglugerðar hafi hins vegar verið gripið til þess ráðs að skerða réttindi eins hóps sjóðsfélaga og hafi réttindi örorkulífeyrisþega verið þannig skert verulega eða 36% í tilfelli stefnanda.
Skerðingin sé þar að auki í andstöðu við efnisákvæði 20.2. gr. í umræddri reglugerð þar sem segi að áunnin réttindi, sem stofnast hafi fyrir 1. september 1994, skuli haldast. Byggt er á því af hálfu stefnanda að heimildir stefnda til þess að skerða réttindi stefnanda hafi takmarkast af þeim reglum sem gilt hafi um stefnda á þeim tíma sem stefnandi hafi stofnað til þeirra réttinda sem hann geri nú tilkall til. Í lögum nr. 49/1974 hafi ekki verið að finna neina heimild til þeirrar skerðingar sem stefndi hafi framkvæmt á réttindum stefnanda. Slík heimild verði heldur ekki byggð á ákvæðum laga nr. 44/1992 eða lögum nr. 94/1994. Sé aðeins fjallað um það í 8. gr. laga nr. 49/1974 að tryggingafræðileg úttekt hafi átt að fara fram á 5 ára fresti. Engar breytingar á efnisreglum sjóðsins hafi farið fram í tilefni af úttektum tryggingarfræðings á þeim tíma sem stefnandi hafi áunnið sér réttindi í hinum stefnda lífeyrissjóði. Ekki hafi verið heimilt að grípa til aðhaldsaðgerða eða skerðinga á áunnum réttindum sjóðsfélaga þótt slík úttekt hefði leitt til aðhaldsaðgerða sjóðsins. Af hálfu stefnanda er í því sambandi vísað til samanburðarskýringar á 8. og 9. gr. laga nr. 49/1974. Ef slíkt hefði verið gert hefði það jafngilt því að sjóðsfélagar hefðu verið látnir taka ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með uppsöfnuðum réttindum en ekki framtíðar iðgjaldagreiðslum eins og áskilið sé í 9. gr. laganna.
Við setningu reglugerðar um Lífeyrissjóð sjómanna hafi réttindi ellilífeyrisþega ekki verið skert nema í þeim tilfellum þegar um hafi verið að ræða fyrrverandi örorkulífeyrisþega eins og stefnanda. Þessi sérstaka skerðing, sem hafi verið framkvæmd til þess að bæta fjárhagsstöðu sjóðsins og stöðu tiltekins hóps sjóðsfélaga, feli í sér mismunun og brot á jafnræði sjóðsfélaga. Hafi fjárhagsstaða sjóðsins verið slík að nauðsyn hafi borið til þess að skerða réttindi sjóðsfélaga hafi að minnsta kosti borið að framkvæma slíka skerðingu þannig að hún bitnaði jafnt á öllum sjóðsfélögum. Slíkt hefði þó ekki verið hægt að framkvæma með lögmætum hætti án þess að fullar bætur kæmu þar fyrir. Með því að skerða aðeins réttindi örorkulífeyrisþega til hagsbóta fyrir hinn almenna ellilífeyrisþega hafi sjóðsfélögum verið mismunað og brotið gegn jafnræði þeirra á milli.
Með þessari skerðing hafi stefndi brotið gegn grundvallarreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sem leggi bann við hvers konar mismunun að lögum, sem ekki verði rökstudd með málefnalegum rökum. Efnisákvæði reglugerðar Lífeyrissjóðs sjómanna, sem skerði réttindi stefnanda, séu ólögmæt og að engu hafandi. Beri því að standa stefnanda skil á lífeyrisréttindum þeim sem hann hafi gert kröfu til úr hendi stefnda með dómkröfum í málinu.
Stefnandi kveðst ítrekað hafa krafið stefnda um leiðréttingu á framangreindri skerðingu örorkulífeyris án árangurs. Stefndi hafi í engu breytt afstöðu sinni til kröfu stefnanda þrátt fyrir að hann hafi tapað öðrum málaferlum er varðað hafi sambærilegt úrlausnarefni með dómi Hæstaréttar Íslands frá 28. maí 1998 í máli nr. 368/1997. Skýri það drátt á höfðun þessa máls að stefnandi hafi ætlað að stefndi myndi sjá að sér í kjölfar endanlegrar úrlausnar þess máls. Svo hafi ekki orðið og því sé stefnandi nauðbeygður til þess að höfða mál.
Vaðandi lagarök er af hálfu stefnanda vísað til 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 97/1995, og eldri laga nr. 49/1974 um Lífeyrissjóð sjómanna. Þá byggir hann á ákvæðum laga nr. 25/1987. Kröfu um málskostnað styður hann við XXI. kafla laga um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styður hann við lög nr. 50/1988, en þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili, beri nauðsyn til að fá dæmt álag á málskostnað er nemi virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er því haldið fram að réttindi stefnanda, eins og annarra sjóðsfélaga til greiðslna úr samtryggingarlífeyrissjóðum, byggðist ekki á þeim réttarreglum sem hafi verið í gildi á þeim tíma sem greitt var í sjóðina heldur reglum sem væru í gildi þegar réttur þeirra verði virkur. Það feli því ekki í sér ólögmæta aðgerð eða afturvirka skerðingu gagnvart sjóðsfélögum, sem ekki séu farnir að fá nokkrar greiðslur úr sjóðnum, þótt reglum um slíkar greiðslur sé breytt til frambúðar. Stefnandi hafi engra greiðslna notið frá stefnda þegar reglum um örorkumöt og reiknigrundvöll örorkulífeyris hafi verið breytt. Stefnandi hafi ekki öðlast nein virk réttindi sem af honum hafi verið tekin með ólögmætum hætti.
Einnig er af hálfu stefnda vísað til þess að með setningu laga nr. 49/1958 um Lífeyrissjóð togarasjómanna hafi verið komið á lögbundnum lífeyrissjóði fyrir togarasjómenn. Með lagasetningunni hafi stjórnvöld viljað hvetja menn til að gera sjómennsku að ævistarfi, en á þessum tíma hafi gengið treglega að manna íslenska togaraflotann íslenskum sjómönnum. Hafi ríkisvaldið þó ekki tekist á hendur neina almenna ábyrgð á greiðslu lífeyris til sjóðsfélaga. Sjóðurinn hafi því verið byggður upp með iðgjöldum sjóðsfélaga og mótframlagi vinnuveitenda, eins og aðrir starfsgreinalífeyrissjóðir. Lög nr. 49/1958 um Lífeyrissjóð togarasjómanna og síðari heildarlög nr. 49/1974 hafi í öllum aðalatriðum verið sambærileg við lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
Í lögum þessum hafi verið kveðið á um hvert skipulag sjóðsins skyldi vera, iðgjöld sjóðsfélaga og mótframlag vinnuveitanda, réttindi sjóðsfélaga til elli-, örorku-, maka- og barnalífeyris. Lögin hafi jafnframt lagt þá skyldu á stjórn sjóðsins að láta tryggingarfræðing rannsaka fjárhag hans eigi sjaldnar en fimmta hvert ár og gera tillögur til úrbóta varðandi fjárhag hans væri hann ótraustur. Sjóðurinn hafi verið eign sjómanna og á ábyrgð þeirra og vinnuveitenda þeirra. Fulltrúar þessara aðila hafi sett sjóðnum reglur og hafi verið reynt á hverjum tíma að tryggja að sjóðurinn ætti fyrir skuldbindingum sínum.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að réttindi sjóðsfélaga séu háð þeirri forsendu eða því skilyrði að sjóðirnir eigi fyrir öllum skuldbindingum er á þeim hvíli, bæði virkum og væntanlegum. Því til stuðnings er m.a. bent á 8. gr. laga um Lífeyrissjóð sjómanna nr. 49/1974. Fyrirvarar um skerðingu lífeyrisréttinda sjóðsfélaga leiði einnig beint af eðli sameignar- og samtryggingar lífeyrissjóða. Sjóðirnir verði ekki á grundvelli stjórnarskrárákvæða skyldaðir til að standa undir skuldbindingum, sem þeir eigi ekki fyrir. Þegar lífeyrissjóðir eigi ekki fyrir skuldbindingum sínum samkvæmt úttekt tryggingarfræðings sé bæði rétt og skylt að skerða lífeyrisréttindi sjóðsfélaga. Slíkt geti gerst bæði með því að skerða með sama hundraðshluta allar greiðslur úr sjóðnum og/eða breyta grundvelli greiðslna, t.d. útreikningi eða viðmiðunum. Þessi sjónarmið endurspegluðust nú glögglega í 21.-24. gr., sbr. 39. gr., laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem gildi um starfsemi stefnda, eins og annarra lífeyrissjóða.
Til að mæta sífellt auknum halla á Lífeyrissjóði sjómanna og að undangengnum úttektum við árslok 1986 og 1989 hafi stjórn sjóðsins óskað eftir því við Alþingi að gerðar yrðu nokkrar breytingar á lögum um sjóðinn í því skyni að sporna við sífellt auknum hallarekstri. Í árslok 1989 hafi vantað 36.165.000.000 krónur á að höfuðstóll sjóðsins ásamt verðmæti væntanlegra iðgjalda nægði fyrir skuldbindingum sjóðsins, ef reiknað var með 2% ársvöxtun, en 20.410.958.000 krónur ef miðað var við 3% ársávöxtun. Orsakir þessa halla taldi tryggingarfræðingur sá sem úttektina gerði að væru annars vegar rýrnun eigna á undanförnum áratugum og hins vegar misvægi milli bótaákvæða og fjárhagsgrundvallar. Úttektir hafi einnig verið framkvæmdar hjá sjóðnum við árslok 1992, 1995, 1996 og 1997 og samkvæmt þeirri síðustu hafi halli sjóðsins verið liðlega 8 milljarðar og hafi stjórn sjóðsins enn á ný þurft að grípa til skerðinga á réttindum.
Þótt lífeyrisréttindi njóti verndar meðal annars eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar, megi skerða þau eins og hver önnur eignarréttindi, sé slíkt gert með réttum hætti. Allar skerðingar á réttindum sjóðsfélaga í Lífeyrissjóði sjómanna hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Tryggingarfræðingur hafi staðreynt halla á sjóðnum en til að rétta sjóðinn af, í þeim tilgangi að tryggja öllum sjóðsfélögum lífeyri, hafi verið gripið til skerðinga. Er í því sambandi vísað til úttekta við árslok 1989, 1992, 1995, 1996 og 1997. Samkvæmt síðastgreindu úttektinni sé halli sjóðsins liðlega 8 milljarðar eða um 13,3%. Þessi halli sjóðsins sé yfir þeim mörkum sem 2. mgr. 24. gr. laga nr. 129/1997 leyfi. Stjórn sjóðsins hafi því enn á ný orðið að grípa til skerðinga á réttindum, sem að mati tryggingafræðings hafi þurft að vera um 13,4% á öllum réttindum, nema barnalífeyri sjóðsfélaga. Með lögum nr. 45/1999 um Lífeyrissjóð sjómanna hafi skerðingin hins vegar verið ákveðin 11,5%. Stefnandi geti því ekki byggt þann rétt sem hann sæki í máli þessu á eignarréttar- og/eða jafnræðisákvæði 72. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Gerði dómurinn stefnda að standa við skuldbindingar, sem stefndi ætti ekki fyrir, væri dómurinn að ganga á rétt annarra sjóðsfélaga.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að dómur Hæstaréttar frá 28. maí 1998 hafi þýðingu í máli þessu þar sem aðstæður stefnanda væru ekki sambærilegar þeim sem hafi verið í því máli. Stefnandi hafi ekki hafið töku örorkulífeyris þegar nýjar reglur sjóðsins um lífeyrinn tóku gildi. Stjórn stefnda hafi aldrei lofað sjóðsfélögum öðrum og meiri örorkulífeyri en sjóðurinn gæti staðið undir á hverjum tíma. Viðurkennt sé að stjórnum lífeyrissjóða sé bæði heimilt og skylt að takmarka og breyta réttindum sjóðsfélaga eigi þeir ekki fyrir öllum áhvílandi skuldbindingum sínum. Að öðrum kosti gengi samtryggingarlífeyriskerfið ekki upp efnahagslega. Af hálfu stefnda er því haldið fram að málshöfðun stefnanda miði að því að tryggja honum sérréttindi, sem hann kjósi að láta sjóðsfélaga í stefnda að mestu standa undir.
Fari svo að fyrsta krafa stefnanda verði tekin til greina mótmælir stefndi fjárhæð hennar sem rangri og óstaðfestri. Enn fremur mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda.
Stefndi kveður framangreind rök einnig eiga við um 2. og 3. kröfu stefnanda og því beri að sýkna stefnda af þeim. Tilvísun stefnanda til 9. gr. laga nr. 49/1974 telur stefndi hreina fjarstæðu.
Um lagarök fyrir málskostnaðarkröfu vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Stefnandi var sjómaður og greiddi iðgjöld til stefnda á árunum 1970 til 1994 samkvæmt lögum sem giltu á hverjum tíma um stefnda. Þegar réttur stefnanda til örorkulífeyris kom til á árinu 1995 vegna örorku hans giltu um hann lög nr. 94/1994. Réttur stefnanda til örorkulífeyris var ákveðinn af stefnda samkvæmt reglugerð sem sett var samkvæmt heimild í 5. gr. laganna og öðlaðist gildi 1. september 1994 eins og lögin.
Óumdeilt er í málinu að stefnandi hefur fengið greiddan örorkulífeyri í samræmi við þessar reglur. Þær lagareglur sem áður giltu gátu ekki sagt til um réttindi stefnanda áður en til þess kom að stefnandi nyti þeirra. Því verður ekki fallist á þau rök stefnanda að réttur hans til örorkulífeyris hafi verið skertur þótt reglurnar, sem stefnandi hefur fengið greitt eftir, hafi verið óhagstæðari honum en þær reglur sem áður giltu.
Á sama hátt verður að telja að ellilífeyrir stefnanda verði ákveðinn samkvæmt þeim reglum sem verða í gildi þegar til töku ellilífeyris kemur. Verður heldur ekki talið að af því leiði skerðingu á réttindum stefnanda til ellilífeyris.
Þar sem niðurstaða dómsins er sú að ekki sé um nokkra skerðingu á réttindum stefnanda að ræða verður hvorki talið að brotið hafi verið gegn stjórnarskrárvernduðum eignarrétti stefnanda né jafnræðisreglu. Ekki verður heldur talið að um brot á öðrum réttarreglum hafi verið að ræða. Ber því með vísan til þessa að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda er ákveðinn 318.675 krónur og greiðist hann úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans Jóhanns Halldórssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 300.000 krónur án virðisaukaskatts, en útlagður kostaður stefnanda er 18.675 krónur.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Sigríður Ingvarsdóttir dómsformaður, Arngrímur Ísberg og Greta Baldursdóttir.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Lífeyrissjóður sjómanna, skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Einars Vigfússonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda, 318.675 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jóhanns Halldórssonar hdl., 300.000 krónur án virðisaukaskatts og útlagður kostaður 18.675 krónur.