Hæstiréttur íslands
Mál nr. 305/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Ómaksþóknun
|
|
Mánudaginn 15. júní 2009. |
|
Nr. 305/2009. |
Margrét Óskarsdóttir og Sigrún Óskarsdóttir (Sigurbjörn Þorbergsson hdl.) gegn Haraldi Ellingsen (enginn) |
Kærumál. Dómkvaðning. Ómaksþóknun.
H krafðist ómaksþóknunar samkvæmt síðari málslið 4. mgr. 79. gr. laga nr. 91/1991. Fallist var á beiðni hans, en Hæstiréttur taldi eðlilegt að taka mið af kostnaði við þingsókn þegar matsbeiðnin var lögð fram. Voru bætur hæfilega ákveðnar 40.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. maí 2009, þar sem sóknaraðilum var sameiginlega gert að greiða varnaraðila 96.800 krónur í ómaksþóknun. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að synjað verði kröfu varnaraðila um ómaksþóknun en til vara að hún verði lækkuð.
Varnaraðili hefur ekki látið kærumál þetta til sín taka.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði fer um matsbeiðni sóknaraðila eftir XII. kafla laga nr. 91/1991 þar sem mál hafi ekki verið höfðað, áður en beiðst var dómkvaðningar. Fallist er á að varnaraðili, sem sótti þing þegar matsbeiðnin var tekin fyrir 14. maí 2009, hafi átt rétt á ómaksþóknun samkvæmt síðari málslið 4. mgr. 79. gr. laganna. Verður mið tekið af eðlilegum kostnaði við þá þingsókn og eru ómaksbætur til varnaraðila hæfilega ákveðnar 40.000 krónur.
Kærumálskostnaðar hefur ekki verið krafist.
Dómsorð:
Sóknaraðilar, Margrét Óskarsdóttir og Sigrún Óskarsdóttir, greiði óskipt varnaraðila, Haraldi Ellingsen, 40.000 krónur í ómaksþóknun.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. maí 2009.
Með bréfi, dags. 4. maí 2009, mótteknu 6. maí s.á., fór Sigurbjörn Þorbergsson hdl. þess á leit við Héraðsdóm Suðurlands, f.h. Margrétar Óskarsdóttur og Sigrúnar Óskarsdóttur, að dómkvaddir verði tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn til að ,,staðreyna og meta hvort unnt sé án verulegs tjóns eða kostnaðar að skipta ca. 2,16 ha. Sumarhúsalóð land nr. 169090 og nr. 169072 úr landi jarðarinnar Miðengis í Grímsnes- og Grafningshreppi, með þeim gögnum og gæðum sem lóðinni fylgja, í tvo jafna hluta milli matsbeiðanda annars vegar og matsþola hins vegar sem eiga hana í dag til helminga í óskiptri sameign. Verði það niðurstaða matsmanna að skipting sé möguleg án verulegs tjóns eða kostnaðar skulu þeir koma með tillögu að réttlátri og sanngjarnri skiptingu lóðarinnar í tvo hluta sem taki mið af jöfnum eignarhlutföllum matsbeiðenda og matsþola, að tjón og kostnaður málsaðila verði í lágmarki og að matsbeiðendur og matsþoli fái sem jöfnust landgæði hvor í sinn hlut.“
Matsbeiðendur eru Margrét Óskarsdóttir, kt. 260533-2909, Safamýri 95, Reykjavík og Sigrún Óskarsdóttir, kt. 010135-2819, Brúnavegi 9, Reykjavík.
Matsþoli er Haraldur Ellingsen, kt. 220535-2239, Stakkahlíð 17, Reykjavík.
Af hálfu varnaraðila er beiðni sóknaraðila ekki mótmælt en þess krafist að dómurinn úrskurði honum málskostnað úr hendi sóknaraðila samkvæmt gjaldskrá Löggarðs ehf. og að við þá ákvörðun verði tekið tillit til þess að lögmaður varnaraðila hafi lagt fram greinargerð fyrir réttinn, þurft að mæta við þingfestingu málsins á Selfossi og þurfi auk þess að mæta á matsfund sem væntanlega verði haldinn á lóð málsaðila í Grímsnesi. Lögmaður sóknaraðila mótmælti framkominni kröfu um málskostnað.
Málið var þingfest þann 14. maí sl. og tekið til úrskurðar um kröfu varnaraðila um málskostnað eftir að aðilar höfðu rökstutt kröfugerð sína.
Niðurstaða.
Beiðni sóknaraðila lýtur að því að dómkvaddir verði tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn til að meta þau atriði sem greinir í matsbeiðninni. Matsbeiðnin er lögð fram án þess að matsbeiðendur hafi haft uppi kröfu vegna matsatriðanna í dómsmáli og gilda því um meðferð matsbeiðnarinnar reglur 12. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einnig 9. kafla sömu laga. Í seinni málslið 4. mgr. 79. gr. laganna er kveðið á um að ef aðrir sækja þing og krefjast þess geti dómari úrskurðað þeim ómaksþóknun úr hendi matsbeiðanda. Er því ljóst að varnaraðili á rétt á málskostnaði úr hendi sóknaraðila.
Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt gjaldskrá Löggarðs ehf. Þessi gjaldskrá er ekki lögð fram í málinu, en fram kom hjá lögmanni varnaraðila við þingfestingu málsins að hann teldi að samtals fimm og hálf klukkustund færi í rekstur málsins. Þá kom fram hjá lögmanninum að tímagjald hans væri 17.600 krónur.
Fyrir liggur að lögmaður varnaraðila hefur lagt fram greinargerð í málinu. Hann hefur einnig mætt við þingfestingu málsins og kveðst mæta eða láta mæta fyrir sig við uppkvaðningu þessa úrskurðar og á matsfund. Þegar litið er til þessa þykir tímaáætlun lögmannsins ekki óraunhæf. Þá þykir tímagjald lögmannsins ekki vera úr hófi. Verða varnaraðila því úrskurðaðar kr. 96.800 í ómaksþóknun úr hendi sóknaraðila in solidum.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Sóknaraðilar, Margrét Óskarsdóttir og Sigrún Óskarsdóttir, greiði varnaraðila, Haraldi Ellingsen, in solidum kr. 96.800 í ómaksþóknun.