Hæstiréttur íslands
Mál nr. 760/2013
Lykilorð
- Lánssamningur
- Starfslokasamningur
- Erlend réttarregla
|
|
Fimmtudaginn 22. maí 2014. |
|
Nr. 760/2013.
|
Magnus Carl Lejdstrom (Gísli Guðni Hall hrl.) gegn Arion banka hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Lánssamningur. Starfslokasamningur. Erlend réttarregla.
A hf. krafði M um greiðslu skuldar samkvæmt tveimur lánssamningum milli M og K hf. Deildu aðilar um það hvort tiltekið ákvæði í samningi um starfslok og almenna afléttingu milli M og K hf. hefði leyst M undan greiðsluskyldu samkvæmt lánssamningunum, en samningurinn tók í fyrsta lagi gildi 3. nóvember 2008. Í niðurstöðu Hæstaréttar var rakið að samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki hefði Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun 21. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda frá K hf. til A hf., sem þá hét NK hf. Með ákvörðuninni hefðu kröfuréttindi K hf. færst þegar í stað í hendur A hf., nema þau hefðu verið sérstaklega undanskilin, án þess að koma hefði þurft til sérstaks framsals í hverju og einu tilviki. Þar sem ákvörðunin hefði verið almenns eðlis og tekin á grundvelli sérstakrar lagaheimildar hefði hún orðið skuldbindandi fyrir hlutaðeigandi skuldara við birtingu hennar. Meðal þeirra kröfuréttinda sem færðust í hendur A hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hefðu verið kröfur á hendur M samkvæmt lánssamningunum. Við gildistöku starfslokasamningsins milli M og K hf. hefði sá banki því ekki lengur verið kröfuhafi samkvæmt lánssamningunum, heldur A hf. Hefði ákvæði starfslokasamningsins aðeins tekið til krafna sem K hf. átti eða kynni að hafa átt við gildistöku hans. Var því ekki fallist á með M að hann hefði með samningsákvæðinu verið leystur undan skuldbindingum sínum samkvæmt lánssamningunum. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um greiðsluskyldu M.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. desember 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram krefst stefndi greiðslu á tveimur lánum sem áfrýjandi tók hjá Kaupþingi hf., er þá hét Kaupþing banki hf., á grundvelli lánssamninga sem gerðir voru 1. desember 2005 og 31. október 2007. Samkvæmt samningunum skyldi bera undir Héraðsdóm Reykjavíkur sérhvern ágreining sem risi vegna þeirra, svo sem stefndi gerði með því að höfða mál þetta gegn áfrýjanda, auk þess sem íslensk lög skyldu gilda um úrlausn ágreiningsins.
Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar áfrýjandi meðal annars til þess að með ákvæði b. liðar 2. gr. í samningi um starfslok og almenna afléttingu milli sín og Kaupþings banka hf. hafi hann verið leystur undan greiðsluskyldu samkvæmt áðurgreindum lánssamningum. Með ákvæðinu var því lýst yfir að Kaupþing banki hf. leysti áfrýjanda undan „öllum gjörðum, orsökum gjörða, skuldbindingum, bótaábyrgð, kröfum og heimtingu sem það kann að eiga, þekktum eða óþekktum, skilyrtum eða með öðrum hætti, og hvort sem er tilgreindar sérstaklega eða ekki, án tillits til þess hvenær þær féllu til, fram að þeim degi sem Kaupþing undirritar þennan samning.“ Í samningnum var kveðið á um að hann skyldi túlkaður samkvæmt lögum New York ríkis í Bandaríkjunum. Eru aðilar sammála um að sú meginregla gildi við túlkun samninga eftir þeim lögum að þá beri að skýra eftir orðanna hljóðan, svo framarlega sem samningstextinn sé skýr og ótvíræður. Í samræmi við 13. gr. samningsins tók hann í fyrsta lagi gildi 3. nóvember 2008 þegar áfrýjandi ritaði undir hann eins og nánar er gerð grein fyrir í héraðsdómi.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 21. október 2008 ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda frá Kaupþingi banka hf. til stefnda er þá hét Nýi Kaupþing banki hf. Með 1. lið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins var öllum eignum fyrrnefnda bankans, þar á meðal kröfuréttindum, ráðstafað til þess síðarnefnda nema þeim sem væru sérstaklega tilgreindar í viðauka með henni. Af þessu ákvæði leiddi að kröfuréttindi Kaupþings banka hf. færðust þegar í stað í hendur stefnda án þess að koma þyrfti til sérstaks framsals í hverju og einu tilviki. Þar sem ákvörðunin var almenns eðlis og tekin á grundvelli sérstakrar lagaheimildar varð hún jafnframt skuldbindandi fyrir hlutaðeigandi skuldara við birtingu hennar án þess að tilkynna þyrfti hverjum og einum þeirra um að kröfurnar hefðu flust yfir til stefnda. Fyrir liggur að ákvörðunin var birt samdægurs á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins á íslensku og degi síðar á ensku.
Meðal þeirra kröfuréttinda sem færðust í hendur stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins voru kröfur á hendur áfrýjanda á grundvelli lánssamninganna tveggja. Þegar áðurgreindur starfslokasamningur milli áfrýjanda og Kaupþings banka hf. tók gildi var sá banki því ekki lengur kröfuhafi samkvæmt samningunum, heldur stefndi. Sé ákvæði b. liðar 2. gr. samningsins túlkað eftir orðanna hljóðan tók það aðeins til þeirra krafna sem Kaupþing banki hf. átti eða kynni að hafa átt við gildistöku hans. Þar sem kröfur samkvæmt lánssamningunum voru ekki þar á meðal verður þegar af þeirri ástæðu ekki fallist á með áfrýjanda að hann hafi með ákvæðinu verið leystur undan þeim skuldbindingum.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Magnus Carl Lejdstrom, greiði stefnda, Arion banka hf., 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2013.
Mál þetta sem dómtekið var 27. september 2013 var höfðað 25. júní 2012 af Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, á hendur Magnusi Carl Lejdstrom, 7 Butternut Hollow Rd., Greenwich, CT 06830, Bandaríkum Norður-Ameríku.
Kröfur aðila
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 254.288.922 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 231.429.472 krónum frá 29. október 2010 til 1. desember 2010 og af kr. 254.288.922 frá 1. desember 2010 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt mati réttarins ásamt virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningum eða eftir mati dómsins, auk álags. Við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.
Atvik máls
Stefnandi réðst í maí 2005 til starfa hjá Kaupþingi banka hf. og dótturfélögum hans í New York, Kaupthing New York Inc. og Kaupthing Securities Inc. Var starf hans aðallega í því fólgið að veita dótturfélögunum forstöðu.
Með lánssamningi dagsettum 1. desember 2005 veitti Kaupþing banki hf. stefnda lán að jafnvirði 117.956.759 krónur til að fjármagna kaup stefnda á hlutum í Kaupþingi banka hf. Lánið skyldi endurgreiða ásamt vöxum með einni greiðslu 1. desember 2010. Með lánssamningi dagsettum 31. október 2007 veitti Kaupþing banki hf. stefnda ennfremur lán að fjárhæð 11.823.808 sænskar krónur til kaupa á hlutum í bankanum. Lánið skyldi endurgreiðast ásamt vöxtum 31. október 2010.
Til tryggingar endurgreiðslu framangreindra lána setti stefndi, Kaupþingi banka hf., að handveði hluti sína í bankanum, sbr. samning um veðsetningu hluta, dagsettan 1. desember 2005 og síðari viðauka, dagsettan 31. október 2007. Samkvæmt lánssamningnum frá 1. desember 2005 var persónuleg ábyrgð stefnda á endurgreiðslu lánsins takmörkuð við 10% skuldarinnar, eins og hún væri á hverjum tíma. Stefndi bar hins vegar fulla persónulega ábyrgð á greiðslu skuldarinnar samkvæmt lánssamningnum frá 31. október 2007.
Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið, með heimild í lögum nr. 125/2008, ákvörðun um að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf. og víkja stjórn félagsins frá störfum, þegar í stað. Þá var bankanum jafnframt skipuð skilanefnd, sem tók við öllum heimildum stjórnarinnar og rekstri bankans. Var stefnda, ásamt öðrum stjórnendum dótturfélaga Kaupþings banka hf., tilkynnt um framangreinda ákvörðun Fjármálaeftirlitsins með tölvubréfi starfsmanns Kaupþings banka hf., sama dag og ákvörðunin var tekin. Voru stjórnendur dótturfélaganna beðnir að leita lögfræðiráðgjafar, þar sem félögin störfuðu, um möguleg áhrif ákvarðana Fjármálaeftirlitsins á dótturfélögin, hvort nauðsynlegt væri að tilkynna yfirvöldum, þar sem félögin störfuðu, um stöðu mála og hvort nauðsynlegt væri að grípa til lagalegra aðgerða af þessu tilefni. Í framhaldi af tölvubréfinu 9. október mun fljótlega hafa verið hafist handa við að ljúka starfsemi dótturfélaga Kaupþings banka hf. í New York. Stefndi ritaði starfsmanni Kaupþings banka hf. tölvubréf, 13. október 2008, þar sem hann lýsti því hvernig gengi að loka starfseminni í New York. Í bréfinu kemur fram að leitað hafi verið til lögmannsstofunnar, Nixon Peabody, vegna réttarstöðu starfsmanna. Hinn 14. október 2008 tilkynnti starfsmaður Kaupþings banka hf. stefnda að skilanefnd Kaupþings banka hf. hefði ákveðið að hætta starfseminni í New York, eins fljótt og auðið væri, og að stefnda væri falið að slíta öllum ráðningarsamningum við starfsmenn, 17. október 2008, með eins stuttum uppsagnarfresti og kostur væri. Lögmannsstofan, Nixon Peabody, sendi stefnda tvö tölvubréf, 16. október 2008, og fylgdu þeim í viðhengjum drög að uppsagnarbréfi fyrir alla starfsmenn dótturfélaga Kaupþings banka hf. í New York, að stefnda meðtöldum, og samningur um starfslok og almenna afléttingu (á ensku „Separation and General Release Agreement“). Gert var ráð fyrir að stefndi undirritaði uppsagnarbréf til starfsmanna en að Kaupþing banki hf. myndi undirrita uppsagnarbréfið til stefnda. Sérstaklega var tekið fram að samningurinn við stefnda og annan tilgreindan starfsmann innihéldi gagnkvæm afléttingarákvæði ( á ensku „mutual release“ ákvæði). Með tölvubréfi, 20. október, var stefnda falið að halda áfram með lokun starfseminnar í New York og uppsögn ráðningarsamninga og annarra samninga í samræmi við áætlun stefnda. Með bréfi, 20. október 2008, var stefnda formlega sagt upp störfum og er uppsagnarbréfið undirritað af formanni skilanefndar Kaupþings banka hf. Bréfinu fylgdu drög að samningi um starfslok og almenna afléttingu, sem sögð eru, hvað form og efni varði, í samræmi við vilja Kaupþings banka hf. Tekið er fram að það sé skilyrði fyrir starfslokagreiðslu (á ensku „severance payment“) að stefndi undirriti og endursendi samninginn um starfslok og almenna afléttingu með þeim hætti og innan þeirra tímamarka sem fram komi í samningsdrögunum. Hinn 21. október 2008 gerðu stefndi og Kaupthing Securities Inc. með sér tímabundinn ráðgjafarsamning til 31. desember 2008 og var hann f.h. Kaupthing Seurities Inc. undirritaður af formanni skilanefndar Kaupþings banka hf. Samkvæmt honum tók stefndi að sér að slíta starfsemi dótturfélaga Kaupþings banka hf. í New York.
Hinn 21. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um yfirfærslu á öllum eignum Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf. (nú Arion banki hf.). Þá var jafnframt ákveðið að Nýi Kaupþing banki hf. tæki við öllum tryggingarréttindum Kaupþings banka hf., þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum, sem tengdust kröfum bankans. Var ákvörðunin birt á íslensku m.a. á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins, 21. október, og á ensku á heimasíðunni ekki síðar en 22. október.
Skilanefnd Kaupþings banka hf. undirritaði samninginn við stefnda um starfslok og almenna afléttingu, 29. október 2008. Stefndi undirritaði samkomulagið 3. nóvember 2008.
Með bréfi 25. maí 2011 tilkynntu lögmenn stefnanda stefnda að stefnandi hefði fengið lánssamninga stefnda og Kaupþings banka hf. frá 1. desember 2005 og 31. október 2007, ásamt tryggingum, framselda, með ákvörðun Fjármálaeftirlitins, 21. október 2008. Báðir samningarnir væri í vanskilum og væri skorað á stefnda að greiða vanskilin ekki síðar en 6. júní 2011. Stefnandi svaraði erindi lögmanna stefnanda með bréfi, 8. júní 2011. Hafnaði hann kröfugerð stefnanda m.a. með þeim rökum að samkvæmt ákvæði 2(b) í samkomulagi hans og Kaupþings banka hf., um starfslok og almenna afléttingu, hefði bankinn fallið frá öllum kröfum á hendur honum.
Í máli þessu greinir aðila á um skyldu stefnda til að greiða stefnanda skuld samkvæmt framangreindum lánssamningum frá 1. desember 2005 og 31. október 2007.
Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda
Stefnandi kveður kröfur sínar grundvallaðar á lánssamningi, sem Kaupþing banki hf. hafi gert við stefnda, 1. desember 2005, þar sem stefnda hafi verið veitt lán vegna hlutabréfakaupa, upphaflega að höfuðstólsfjárhæð 117.956.759 krónur og á lánssamningi, sem Kaupþing banki hf. hafi gert við stefnda, 31. október 2007, þar sem stefnda hafi verið veitt lán vegna hlutabréfakaupa, upphaflega að höfuðstólsfjárhæð 11.823.808 sænskar krónur. Í lánssamningunum, sbr. ákvæði 2.3, komi fram að lánin hafi verið veitt til fjármögnunar kaupa á hlutum í Kaupþingi banka hf. Fyrir liggi að Kaupþing banki hf. hafi fellt niður persónulegar ábyrgðir tiltekinna starfsmanna bankans, vegna lána til kaupa á hlutum í bankanum, en slitastjórn Kaupþings banka hf. síðar rift umræddri ákvörðun um niðurfellingu ábyrgðar á grundvelli ákvæða gjaldþrotalaga og hafi Hæstiréttur staðfest umrædda riftun. Stefnandi telji hins vegar ljóst að niðurfelling persónulegrar ábyrgða hafi ekki náð til lána stefnda, þ.e. þeirra lána sem stefnandi krefji hann um. Af því leiði jafnframt að lánunum hafi verið ráðstafað til stefnanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 21. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., nú stefnanda máls þessa, Arion banka hf. Stefnandi teljist þannig kröfuhafi samkvæmt lánssamningunum. Þá byggi stefnandi á því að samkomulag Kaupþings banka hf. og stefnda um starfslok og almenna afléttingu hafi engin áhrif á réttindi stefnanda samkvæmt framangreindum lánssamningum. Samkomulagið hafi tekið gildi gagnvart Kaupþingi banka hf., 3. nóvember 2008, en framsal lánssamninganna til Nýja Kaupþings banka hf., nú stefnanda, hafi farið fram 21. október 2008. Eftirgjöf Kaupþings banka hf. geti ekki náð til annarra krafna en Kaupþing banki hf. hafi átt á hendur stefnda, þegar framangreint samkomulag hafi öðlast gildi. Ljóst sé að persónuleg ábyrgð stefnda, samkvæmt lánssamningnum frá 1. desember 2005, hafi verið takmörkuð við 10% skuldarinnar, sbr. ákvæði 6.1. í lánssamningnum. Af því leiði jafnframt, að mati stefnanda, að ábyrgð stefnda sé takmörkuð við 10% af fjárhæð þess lánssamnings, sem ráðstafað hafi verið til stefnanda með umræddri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Sé stefndi því einungis krafinn um 10% af gjaldfallinni samningsfjárhæð þess lánssamnings, ásamt áföllnum samningsvöxtum, auk dráttarvaxta, eða sem svari til persónulegrar ábyrgðar hans samkvæmt ákvæði 6.1. í lánssamningnum. Stefnandi byggi á því að um gjaldfallna skuldbindingu sé að ræða. Vísi stefnandi því til stuðnings til þess að stefnda hafi borið skv. ákvæði 2.4. í lánssamningnum frá 1. desember 2005 að endurgreiða lánið ásamt áföllnum vöxtum með einni greiðslu, 1. desember 2010, og skv. ákvæði 2.4. í lánssamningnum frá 31. október 2007 að endurgreiða lánið, ásamt áföllnum vöxtum, með einni greiðslu, 31. október 2010. Engin greiðsla hafi borist frá stefnda. Þá hafi stefndi að öðru leyti ekki orðið við greiðsluáskorun stefnanda vegna lánanna. Á gjalddaga lánssamningsins frá 1. desember 2005, 1. desember 2010, hafi heildarlánsfjárhæðin, að viðbættum áföllnum vöxtum, að teknu tilliti til takmarkaðrar ábyrgðar stefnda, numið samtals 22.859.450 krónum. Sé þess krafist að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda fjárhæðina í íslenskum krónum auk vaxta sem séu jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum, sbr. 1. ml. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sem birtir séu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. sömu laga, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga til greiðsludags. Á gjalddaga, 31. október 2010, hafi höfuðstóll lánsfjárhæðar stefnda, samkvæmt lánssamningnum frá 31. október 2007, ásamt áföllnum samningsvöxtum, numið samtals 13.849.759 sænskum krónum. Sölugengi stefnanda á sænskum krónum á gjalddaga hafi verið 16,71. Staða höfuðstóls lánsfjárhæðarinnar, ásamt áföllnum samningsvöxtum í íslenskum krónum, við gjalddaga samningsins þ.e. að teknu tilliti til umbreytingar hennar yfir í íslenskar krónur, sbr. heimild í ákvæði 3.5. í lánssamningnum, hafi því numið samtals 231.429.472 krónum. Sé þess krafist að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda lánsfjárhæðina í íslenskum krónum, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga til greiðsludags. Stefnufjárhæðin samkvæmt þessu nemi því samtals 254.288.922 krónum. Verði fallist á dómkröfu stefnanda feli það í sér að lánssamningurinn frá 1. desember 2005 hafi átt að bera vexti en um hæð þeirra verði ekki litið til þess sem um hafi verið samið í lánssamningnum sjálfum heldur beri að miða vexti við það að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu, án þess að tiltaka hverjir þeir væru, þ.e. vexti jafnháa vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum. Samkvæmt yfirliti yfir útreikning heildarlánsfjárhæðar lánssamninganna og þróun, þ. á m. vaxta til og með gjalddaga, 31. október 2010 og 1. desember 2010, sundurliðist krafa stefnanda þannig:
a) Lán nr. 0690-35-3019
1. Höfuðstóll heildarlánsfjárhæðar
auk vaxta .............................................................. ............. ISK 228.594.504
2. 10% lánsskuldbindingar skv. lið 1,
sbr. gr. 6.1. lánssamningsins..................................................... ISK 22.859.450
b) Lán nr. 0690-35-6355
1. Höfuðstóll heildarlánsfjárhæðar lánssamnings
nr. 6355 auk samningsvaxta.................................................. ISK 231.429.472
Stefnufjárhæð........................................................................... ISK 254.288.922
Um útreikning á höfuðstól heildarlánsfjárhæðarinnar, ásamt vöxtum, vísist enn fremur til framlagðs yfirlits yfir lánin og þróun þeirra, þ.m.t. varðandi tilgreiningu vaxta á tímabilinu, til og með gjalddaga, 31. október og 1. desember 2010. Stefnandi krefjist dráttarvaxta af skuldinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá gjalddaga til greiðsludags. Krafa stefnanda um dráttarvexti byggi á ákvæði 3.6. í lánssamningi nr. 3019 og ákvæði 3.5. í lánssamningi nr. 6355, en ákvæðin kveði á um að við vanskil beri lántaka að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags, sbr. einnig 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um varnarþing vísi stefnandi einkum til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi efndir á lánsskuldbindingu stefnda sé einkum vísað til meginreglu samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga. Um dráttarvaxtakröfu vísi stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 5. gr. sömu laga. Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda
Stefndi byggir á því að með fyrirliggjandi samningi, „Separation and General Release Agreement“, hafi Kaupþing banki hf. leyst stefnda undan öllum kröfum, þekktum sem óþekktum, sem bankinn hafi átt eða kynni að hafa átt á hendur stefnda, sbr. nánar orðalag (b)-liðar 2. gr. samningsins. Fyrirliggjandi lánssamningar falli þar undir. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda. Um samninginn og túlkun hans gildi lög New York ríkis. Stefndi leggi fram yfirlýsingu Tammy Marzigliano, meðeiganda lögmannsstofunnar Outten and Golden, LLP, um túlkunarreglur og dómafordæmi í málum, þar sem reynt hafi á túlkun samninga um almenna afléttingu krafna. Stefndi leggi sérstaka áherslu á eftirfarandi atriði:
- Ákvæði (b)-liðar 2.gr. samningsins sé skýrt og afdráttarlaust. Það hafi grundvallarþýðingu við túlkunina. Kröfur á grundvelli samninga á milli aðila falli ótvírætt undir orðalag ákvæðisins. Þar af leiði að ekkert geti leitt til annarrar niðurstöðu heldur en stefndi haldi fram um þetta atriði. Eftirfarandi viðbótarröksemdir séu í raun aukaatriði, eins skýrt og orðalag ákvæðisins sé að þessu leyti.
- Þegar samningsákvæði um afléttingu ábyrgða sé orðað með almennum hætti og tiltekið að það taki jafnt til þekktra sem óþekktra krafna, sé sérstök ástæða til að túlka það í óhag þeim, sem aflétti. Hafi ætlun aðila verið að undanskilja tilteknar kröfur hefði það þurft að koma fram í samningnum.
- Vilji stefnda, þegar framangreindur samningur, „Separation and General Release Agreement“, hafi verið gerður, hafi verið að ákvæði um afléttingu ábyrgða hans tæki til allra hugsanlegra krafna, þekktra sem óþekktra. Hugsanlegar kröfur á grundvelli lánssamninganna hafi verið einu mögulega þekktu kröfurnar. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að það hafi verið vilji stefnda að hinar umstefndu kröfur væru undanskildar. Slík sönnun sé að mati stefnda algerlega útilokuð.
· Samningsaðilar hafi annars vegar verið Kaupþing banki hf., á þeim tíma stærsta fyrirtæki Íslands, og hins vegar stefndi, sem starfsmaður. Samningurinn sé undirritaður af Steinari Þór Guðgeirssyni, formanni skilanefndar Kaupþings banka hf. og hæstaréttarlögmanni. Hafi bankinn ætlað framangreindum samningi annað efnisinnihald en hann hafi verði bankinn að bera hallann af því.
Stefndi byggi á að þau túlkunarsjónarmið, sem hér hafi verið rakin, séu í samræmi við lög í New York ríki, sem gildi um samninginn. Fyrir þeim sé gerð nánari grein í áðurnefndri yfirlýsingu Tammy Marzigliano og vísi stefndi til hennar til fyllingar.
Stefndi vísi til meginreglna kröfuréttar um kröfuhafaskipti og um mótbárurétt skuldara. Kröfuhafaskipti með framsali séu að meginreglu heimil, en framsal hafi ekki gildi gagnvart skuldara fyrr en eftir að honum hafi borist tilkynning þar um. Allt þar til slík tilkynning berist skuldara geti hann hvort sem er samið um viðkomandi kröfu við framseljanda eða greitt hana, þannig að bindandi verði fyrir framsalshafa, að uppfylltu skilyrði um grandleysi. Í tilviki málsaðila hafi stefnda ekki verið tilkynnt um framsal krafna á hendur honum frá Kaupþingi banka hf. til stefnanda, þegar framangreindur samningur hefi verið gerður. Stefnda sé því rétt að byggja á samningnum gagnvart stefnanda á sama hátt og gagnvart Kaupþingi banka hf. Stefndi árétti ennfremur að þegar umræddur samningur hafi verið gerður hafi honum ekki verið kunnugt um áðurgreinda ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og hvað í henni hafi falist, með tilliti til hinna umstefndu krafna. Ákvörðunin hafi ekki sérstakt gildi í Bandaríkjunum, hún hafi ekki hlotið viðurkenningu þar í landi með dómsúrskurði eða öðrum viðlíka hætti.
Stefndi bendi loks á, sem viðbótarrök, að drög að umræddum samningi hafi legið fyrir 16. október 2008, þ.e. áður en Fjármálaeftirlitið hafi tekið ákvörðunina 21. október 2008. Samningurinn hafi ekkert breyst að þessu leyti eftir þetta tímamark. Hafi skilanefnd Kaupþings banka hf. litið svo á að samningurinn hefði ekki tekið til krafna samkvæmt fyrirliggjandi lánssamningum, vegna framsals, þá hafi hún jafnframt leynt framsalinu fyrir stefnda, sem hljóti þá að skoðast sem svik í viðskiptum þessara aðila. Stefndi byggi einnig á því að persónuleg ábyrgð hans samkvæmt lánssamningunum hafi verið felld niður, með ákvörðun stjórnar Kaupþings banka hf., 25. september 2008, og með munnlegum yfirlýsingum lykilstjórnenda á fyrri stigum. Stefnandi hafi ekki öðlast ríkari rétt gagnvart stefnda heldur en Kaupþing banki hf. hafi áður átt, samkvæmt meginreglum kröfuréttar um kröfuhafaskipti, sbr. einnig fyrirliggjandi yfirlýsingu stefnanda frá 14. janúar 2011. Að þessu leyti sé málið sambærilegt öðrum málum, þar sem Kaupþing banki hf. hafi verið talinn réttur aðili til að beina riftunarkröfu að starfsmönnum, sem notið hafi niðurfellingar, en engri slíkri kröfu sé til að dreifa í þessu máli. Málskostnaðarkrafa stefnda sé gerð með stoð í 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en gerð sé krafa um sérstakt álag á málskostnað, með vísan til 2. mgr. 131. gr. sömu laga. Stefndi byggi á að málsóknin sé án nokkurs tilefnis. Áður en málið hafi verið höfðað hafi stefndi kynnt stefnanda framangreint samkomulag. Stefnandi hafi lagt samkomulagið fram við þingfestingu, en í stefnunni sé ekki tekist á við þýðingu þess með neinum hætti. Þá vísist til þess, sem að framan sé rakið, að fyrir stefnda sé þetta mál risastórt og valdi honum miklum áhyggjum og erfiðleikum. Þess sé krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því kostnað af skattskyldu lögmannsþjónustu.
Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu greinir aðila á um skyldu stefnda til að greiða stefnanda skuld samkvæmt framangreindum lánssamningum Kaupþings banka hf. og stefnda frá 1. desember 2005 og 31. október 2007.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að hann hafi fengið kröfur samkvæmt lánssamningunum og þau tryggingarréttindi, sem þeim fylgdu, framseldar með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 21. október 2008, og séu þær enn í fullu gildi. Af hálfu stefnda er aðallega á því byggt að skyldur stefnda samkvæmt lánssamningunum hafi fallið niður með gildistöku samnings Kaupþings banka hf. og stefnda um starfslok og almenna afléttingu.
Í 13. gr. samnings Kaupþings banka hf. og stefnda um starfslok og almenna afléttingu segir skv. fyrirliggjandi íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda:
Þessi samningur skal taka gildi við (a) móttöku Kaupþings á þessum samningi, löggiltum af starfsmanninum, í samræmi við 12. mgr.; og (b) löggildingu þessa samnings af til þess bærum fyrirsvarsmanni bankans („gildistökudagurinn“).
Efnislega felur framangreint ákvæði í sér, með hliðsjón af fyrirliggjandi enskum frumtexta þess, að samningur stefnda og Kaupþings banka hf. um starfslok og almenna afléttingu öðlist gildi frá því tímamarki að Kaupþing banki hf. veiti eintaki af samningnum, undirrituðu af stefnda, móttöku og við undirritun samningsins af hálfu Kaupþings banka hf., að fullnægðu skilyrði 12. gr. samningsins um 14 daga frest stefnda til undirritunar. Fyrir liggur og er ómótmælt að samningurinn var undirritaður af hálfu Kaupþings banka hf., 29. október 2008, en af stefnda, 3. nóvember 2008. Ekki liggur fyrir hvernig eða hvenær samningnum var, eftir undirritun stefnda, komið í hendur Kaupþings banka hf. en óhætt að ganga út frá því að það hafi verið í fyrsta lagi 3. nóvember 2008. Af hálfu stefnanda hefur ekki verið á því byggt að samningurinn hafi verið afhentur Kaupþingi banka hf. eftir lok 14 daga frestsins skv. 12. gr. samningsins.
Fyrir liggur og er óumdeilt að framangreindir lánssamningar stefnda og Kaupþings banka hf. frá 1. desember 2005 og 31. október 2007 voru yfirfærðir til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 21. október 2008. Óumdeilt er að sú ákvörðun var gerð opinber á íslensku á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins sama dag og hún var tekin og birt á ensku á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins ekki síðar en 22. október. Verður að ætla að stefnda hafi verið umrædd ákvörðun kunn eða mátt vera hún kunn eigi síðar en 22. október, áður en hann undirritaði samninginn við Kaupþing banka hf. um starfslok og almenna afléttingu, 3. nóvember 2008, enda um ákvarðanir að ræða sem haft gátu veruleg áhrif á starfsemi þess fyrirtækis eða þeirra fyrirtækja sem hann hafði veitt forstöðu í New York og hans eigin réttarstöðu gagnvart Kaupþingi banka hf. Verður að leggja sönnunarbyrði á stefnda fyrir því að honum hafi ekki verið um þessar ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins kunnugt fyrir 3. nóvember 2008. Verður hann að bera hallann af að hafa ekki fullnægt þeirri sönnunarbyrði.
Eins og rakið hefur verið byggir stefndi á því að með fyrirliggjandi samningi, um starfslok og almenna afléttingu hafi Kaupþing banki hf. leyst hann undan öllum kröfum, þekktum sem óþekktum, sem bankinn hafi átt eða kynni að eiga á hendur stefnda, sbr. nánar orðalag (b)-liðar 2. gr. samningsins. Fyrirliggjandi lánssamningar frá 1. desember 2005 og 31. október 2007 falli þar undir. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda. Í þýðingu löggilts skjalaþýðanda er ákvæði (b)-liðar 2. gr. samnings Kaupþings banka hf. og stefnda um starfslok og almenna afléttingu, eftirfarandi:
Starfsmaðurinn ábyrgist og staðfestir, eftir bestu vitneskju sinni, að hann hefur ekki átt þátt í neinni háttsemi sem gæti valdið Kaupþingi bótaábyrgð. Í trausti þessarar ábyrgðar og staðfestingar leysir Kaupþing stjórnanda undan öllum gjörðum, orsökum gjörða, skuldbindingum, bótaábyrgð, kröfum og heimtingu sem það kann að eiga, þekktum eða óþekktum, skilyrtum eða með öðrum hætti, og hvort sem er tilgreindar sérstaklega eða ekki, án tillits til þess hvenær þær féllu til, fram að þeim degi sem Kaupþing undirritar þennan samning.
Samkvæmt orðalagi framangreinds ákvæðis nær umsamin niðurfelling skuldbindinga stefnda gagnvart Kaupþingi banka hf. eingöngu til þeirra skuldbindinga, sem hvíldu á stefnda gagnvart Kaupþingi banka hf., þegar samningurinn var undirritaður af Kaupþingi banka hf. Verður við skýringu ákvæðisins að hafa hliðsjón af 9. gr. samningsins sem er svohljóðandi í löggiltri íslenskri þýðingu:
Allur samningurinn. Starfsmaðurinn staðfestir og samþykkir að þessi samningur endurspeglar allan samninginn á milli aðilanna varðandi viðfangsefni þessa skjals og leysir að fullu af hólmi sérhvern og alla fyrri samninga og samkomulagsaðgerðir á milli aðilanna að þessum samningi, þar með talið tilboðsbréfið, nema að því leyti sem sérstaklega er tilgreint í þessu skjali. Það er enginn annar samningur nema eins og fram kemur í þessu skjali. Starfsmaðurinn staðfestir að hvorki Kaupþing né neinn af starfsmönnum þess eða aðrir fyrirsvarsmenn hafa veitt starfsmanninum nein loforð önnur en þau sem eru í þessum samningi.
Samkvæmt 8. gr. samningsins um starfslok og almenna afléttingu skal hann túlkaður og skýrður í samræmi við lög New York ríkis. Framangreint ákvæði 9. gr. samningsins felur í sér svonefnda „Parole evidence“ reglu en samkvæmt henni og þeim lögum sem um samninginn gilda ber við skýringu hans og túlkun á vilja samningsaðila, fyrst og fremst að líta til orðalags samningsins en ekki annarra atvika sem tengst geta samningnum, þar á meðal samningaviðræðna, a.m.k. í þeim mæli sem orðalag samningsins er nægilega ótvírætt og skýrt. Þessu til stuðnings má vísa til þeirra tveggja lögfræðiálita, sem fyrir liggja í málinu, varðandi þær réttarheimildir New York ríkis, sem við eigi í málinu og skýringu þeirra.
Með vísan til alls framangreinds verður þeirri málsástæðu stefnda hafnað að tilvitnað ákvæði (b)-liðar 2. gr. samnings aðila um starfslok og almenna afléttingu hafi falið í sér niðurfellingu á skuldbindingum stefnda samkvæmt lánssamningunum frá 1. desember 2005 og 31. október 2007. Er sú niðurstaða á því reist að samningarnir höfðu, eins og áður er rakið, verið framseldir Nýja Kaupþingi banka hf., ásamt umsömdum tryggingum, 21. október 2008, en tilvitnað ákvæði (b)-liðar 2. gr. ekki öðlast gildi fyrr en í fyrsta lagi 3. nóvember 2008 og ákvæðið eingöngu náð til þeirra skuldbindinga, sem á stefnda hvíldu gagnvart Kaupþingi banka hf., við undirritun bankans 29. október.
Stefndi byggir auk framangreindrar málsástæðu á því að persónuleg ábyrgð hans samkvæmt lánssamningunum hafi verið felld niður með ákvörðun stjórnar Kaupþings banka hf., 25. september 2008, og með munnlegum yfirlýsingum lykilstjórnenda á fyrri stigum. Stefnandi hafi ekki öðlast ríkari rétt gagnvart stefnda heldur en Kaupþing banki hf. hafi áður átt, samkvæmt meginreglum kröfuréttar um kröfuhafaskipti, sbr. einnig fyrirliggjandi yfirlýsingu stefnanda frá 14. janúar 2011. Að þessu leyti sé málið sambærilegt öðrum málum, þar sem Kaupþing banki hf. hafi verið talinn réttur aðili til að beina riftunarkröfu að starfsmönnum, sem notið hafi niðurfellingar, en engri slíkri kröfu sé til að dreifa í þessu máli.
Af hálfu stefanda er á því byggt, hvað framangreinda málsástæðu stefnda varðar, að ekkert liggi fyrir í málinu um að Kaupþing banki hf. hafi fallið frá persónulegri ábyrgð stefnda samkvæmt umræddum lánssamningum og sé því mótmælt að um slíka niðurfellingu hafi verið að ræða.
Stjórn Kaupþings banka hf. ákvað, 25. september 2008, að heimila forstjóra bankans að fella niður ábyrgðir starfsmanna á lánum, sem bankinn hefði veitt þeim til kaupa á hlutum í bankanum. Ekki liggur fyrir í málinu að forstjóri bankans hafi tilkynnt stefnda um slíka niðurfellingu eða stefndi og forstjórinn undirritað samkomulag þess efnis. Þá liggur ekkert fyrir í málinu sem styður að slík niðurfelling verði byggð á yfirlýsingum lykilstjórnenda Kaupþings banka hf. Yfirlýsing stefnanda frá 14. janúar 2011 þess efnis að yfirlýsing stjórnar Kaupþings banka hf. frá 25. september 2008 væri bindandi fyrir stefnanda skiptir skv. framangreindu ekki máli fyrir úrslit máls þessa. Umræddri málsástæðu stefnda er því hafnað.
Ekki er ágreiningur um fjárhæðir í máli þessu. Með vísan til alls framangreinds verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 254.288.922 krónur auk dráttarvaxta eins og í dómsorði greinir en dráttarvextir vegna greiðslu, sem féll í gjalddaga 31. október 2010, verða reiknaðir frá þ.d. en ekki 29. október eins og stefnandi krefst. Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefnandi, Magnus Carl Lejdstrom, greiði stefnanda, Arion banka hf., 254.288.922 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 231.429.472 krónum frá 31. október 2010 til 1. desember 2010 en af 254.288.922 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Málskostnaður fellur niður.