Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-165
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fjármálafyrirtæki
- Ógilding samnings
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 9. maí 2019 leitar Guðrún Hjaltalín Jóhannsdóttir eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. apríl sama ár í málinu nr. 552/2018: Landsbankinn hf. gegn Guðrúnu Hjaltalín Jóhannsdóttur og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðanda verði gert að greiða sér 44.140.189 krónur auk dráttarvaxta, að frádreginni innborgun að fjárhæð 918.439 krónur, samkvæmt samningi frá 9. mars 2012 um lán sem leyfisbeiðandi og Kristinn G. Þórarinsson, þáverandi maki hennar, tóku hjá gagnaðila. Lánið mun hafa verið veitt á grundvelli samkomulags frá sama degi um uppgjör eldri lána leyfisbeiðanda og Kristins frá gagnaðila. Bú Kristins var tekið til gjaldþrotaskipta 14. desember 2016 og hefur gagnaðili fallið frá kröfu á hendur honum samkvæmt lánssamningnum. Leyfisbeiðandi reisir kröfu sína um sýknu af kröfu gagnaðila á því að víkja eigi samkomulaginu og láninu til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Byggir hún á því að meiri hluti lána sem gerð hafi verið upp samkvæmt samkomulaginu hafi verið henni óviðkomandi og tengst að mestu rekstri fyrirtækis í eigu Kristins. Þá hafi ekki verið gert greiðslumat við lántökuna og hafi gagnaðili að auki verið í yfirburðastöðu við gerð samningsins og beitt miklum þrýstingi til að ná honum fram. Héraðsdómur tók kröfu gagnaðila til greina að hluta en í dómi Landsréttar var á hinn bóginn fallist á kröfu hans að öllu leyti.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sér bersýnilega rangur að efni til þar sem nánar tilgreindar rangfærslur í dóminum hafi haft áhrif á niðurstöðu réttarins. Þá vísar hún til þess að mat Landsréttar á skilyrðum fyrir beitingu 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 sé í andstöðu við dómaframkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum. Loks telur leyfisbeiðandi málið varða mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.