Hæstiréttur íslands
Mál nr. 354/2002
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Kaupmáli
- Gjöf
- Kröfugerð
- Málsástæða
- Frávísunarkröfu hafnað
|
|
Fimmtudaginn 27. febrúar 2003. |
|
Nr. 354/2002. |
Kristín Ósk Ríkharðsdóttir(Kristinn Bjarnason hrl.) gegn þrotabúi Gunnars Þórs Högnasonar (Valgarður Sigurðsson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun. Kaupmáli. Gjöf. Kröfugerð. Málsástæður. Frávísunarkröfu hafnað.
K og G áttu hvort um sig helmings hlut í íbúð í fjöleignarhúsi. Í tengslum við stofnun hjúskapar milli þeirra gerðu þau kaupmála í árslok 1999 þar sem íbúðin var gerð að séreign K. Bú G var tekið til gjaldþrotaskipta í nóvember 2000 og var frestdagur við skiptin í júní það ár. Þrotabú G höfðaði mál á hendur K og krafðist þess að rift yrði ráðstöfun íbúðarinnar samkvæmt kaupmálanum og að K greiddi búinu nánar tiltekna fjárhæð. Hæstiréttur taldi ósannað að helmingshlutur G í íbúðinni hafi verið endurgjald fyrir fé sem hún hafi látið af hendi rakna til G og hafi að meginhluta runnið til atvinnurekstrar hans. Yrði því að líta svo á að K hafi fengið að gjöf hlut G í íbúðinni. Þá hafi K ekki sannað að G hafi verið gjaldfær við gerð kaupmálans. Voru kröfur þrotabúsins á hendur K því teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. ágúst 2002. Hún krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hún verði sýknuð af kröfum stefnda, en að því frágengnu að krafa hans um greiðslu verði lækkuð. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi keyptu áfrýjandi og Gunnar Þór Högnason 1. desember 1997 íbúð í fjöleignarhúsi að Bólstaðarhlíð 44 í Reykjavík fyrir 6.000.000 krónur. Af þeirri fjárhæð skyldi greiða samtals 1.800.000 krónur í tvennu lagi, annars vegar við undirritun kaupsamningsins og hins vegar 1. mars 1998. Eftirstöðvar kaupverðs áttu að greiðast með fasteignaveðbréfi að fjárhæð 4.200.000 krónur. Tekið var fram í samningnum að áfrýjandi og Gunnar skyldu hvort teljast eigandi að helmingi íbúðarinnar. Liggur ekki annað fyrir en að þau hafi efnt kaupsamninginn fyrir sitt leyti, þótt afsali fyrir íbúðinni hafi ekki verið þinglýst samkvæmt framlögðu veðbandayfirliti.
Áfrýjandi gerði kaupmála við Gunnar 30. desember 1999 í tengslum við stofnun hjúskapar þeirra á milli. Meginefni kaupmálans var skipað í tvo kafla, sem auðkenndir voru með bókstöfunum A og B. Í þeim fyrrnefnda var íbúðin að Bólstaðarhlíð 44 gerð að séreign áfrýjanda. Samhliða þessu lýsti hún því yfir í kaupmálanum að hún tæki ein að sér áhvílandi veðskuld vegna fasteignaveðbréfs, að eftirstöðvum 4.367.408 krónur, auk þess sem hún stæði sameiginlega með Gunnari í ábyrgð fyrir skuld við tollstjórann í Reykjavík vegna opinberra gjalda, sem tvö fjárnám hefðu verið gerð fyrir í íbúðinni.
Bú Gunnars var tekið til gjaldþrotaskipta 23. nóvember 2000 og er frestdagur við skiptin 14. júní sama árs. Stefndi höfðaði mál þetta 17. september 2001. Í héraðsdómsstefnu krafðist hann þess að rift yrði með dómi „þeim ráðstöfunum sem felast í A-hluta kaupmála” aðilanna, sem skráður hafi verið í kaupmálabók 30. desember 1999, svo og að áfrýjanda yrði gert að greiða sér 4.000.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi urðu aðilarnir sammála um að leita verðmats nafngreinds fasteignasala á íbúðinni að Bólstaðarhlíð 44 án dómkvaðningar, svo og að „niðurstaða þess verði lögð til grundvallar í málinu án þess að matsmaðurinn þurfi að mæta í dóminn og staðfesta það”, svo sem fært var til bókar um þetta í þinghaldi 25. febrúar 2002. Að ósk stefnda miðaði fasteignasalinn verðmat sitt við staðgreiðsluverð íbúðarinnar að frádreginni áhvílandi veðskuld annars vegar á þeim degi, sem bú Gunnars var tekið til gjaldþrotaskipta, og hins vegar á þingfestingardegi málsins 25. september 2001. Samkvæmt verðmati fasteignasalans 25. febrúar 2002 nam þetta verðmæti íbúðarinnar fyrrnefnda daginn 5.740.000 krónum, en þann síðarnefnda 4.950.000 krónum. Þessu til samræmis breytti stefndi kröfu sinni um greiðslu úr hendi áfrýjanda þannig að hann krafðist þess aðallega að henni yrði gert að greiða sér 2.870.000 krónur, en til vara 2.475.000 krónur. Með hinum áfrýjaða dómi var tekin til greina krafa stefnda um riftun, svo og varakrafa hans um greiðslu úr hendi áfrýjanda.
II.
Fyrri hlutinn í áðurgreindri dómkröfu stefnda snýr að riftun á ákvæði kaupmála áfrýjanda og Gunnars Þórs Högnasonar, þar sem mælt var fyrir um að íbúð þeirra að Bólstaðarhlíð 44, sem áður var í óskiptri sameign þeirra, skyldi verða séreign áfrýjanda, svo og að hún tæki ein að sér áhvílandi veðskuld vegna fasteignaveðbréfa og ábyrgðist jafnframt með Gunnari áðurgreinda skuld samkvæmt fjárnámum tollstjórans í Reykjavík. Af orðalagi þessa hluta dómkröfu stefnda orkar ekki tvímælis að hann leitar með málsókn sinni riftunar á þessu ákvæði kaupmálans í heild. Eru því ekki efni til að fallast á með áfrýjanda að annmarki sé á kröfugerð stefnda að þessu leyti.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi borið því við til stuðnings aðalkröfu sinni um frávísun málsins að hvorug áðurgreindra krafna stefnda um greiðslu úr hendi hennar taki mið af verðmæti íbúðarinnar að Bólstaðarhlíð 44 á þeim degi, sem eignarréttur að hlut Gunnars í henni færðist í hendur áfrýjanda, svo sem rétt hefði verið samkvæmt meginreglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Um þetta verður ekki horft fram hjá því, að í bréfi 5. febrúar 2002 til fasteignasalans, sem málsaðilar komu sér samkvæmt áðursögðu saman um að leita verðmats hjá, greindi stefndi frá þeim forsendum, sem hann vildi láta miða verðmatið við. Afrit þess bréfs var sent lögmanninum, sem fór með málið í héraði fyrir áfrýjanda. Eftir þetta var málið tekið fyrir í héraðsdómi 25. sama mánaðar og fært sem fyrr segir til bókar að samkomulag hafi orðið milli aðilanna um hvernig verðmats yrði leitað. Jafnframt var þá lagt fram verðmat fasteignasalans. Hvergi verður séð af gögnum málsins að áfrýjandi hafi hreyft athugasemdum fyrir héraðsdómi um að rétt hefði verið að miða verðmatið við aðra dagsetningu en þar var gert. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 163. gr. sömu laga eins og þeim var breytt með 17. gr. laga nr. 38/1994, er um seinan fyrir áfrýjanda að finna að þessu atriði fyrir Hæstarétti, en engu breytir í því sambandi að viðbáru þessari er nú hreyft í tengslum við formhlið málsins.
Samkvæmt framangreindu eru ekki efni til að verða við aðalkröfu áfrýjanda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.
III.
Í héraðsdómsstefnu lagði stefndi þann grunn að málsókn sinni að riftunar á áðurgreindu ákvæði kaupmála áfrýjanda og Gunnars Þórs Högnasonar væri leitað með stoð í 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Verður þó ekki annað ráðið en að kaupmálinn hafi verið gerður innan sex síðustu mánaða fyrir frestdag við gjaldþrotaskipti á búi Gunnars, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi ber áfrýjandi því við að hún hafi fyrir og eftir gerð kaupmálans látið fé af hendi rakna til Gunnars, sem að meginhluta hafi runnið til atvinnurekstrar hans. Nemi sú fjárhæð samanlögð meiru en svari til andvirðis helmings íbúðarinnar, sem færðist í hendur hennar með kaupmála þeirra. Geti sú ráðstöfun því ekki skoðast sem gjöf. Um þessa málsvörn áfrýjanda verður að líta til þess að í kaupmála hennar og Gunnars var í engu getið að helmingshluturinn í íbúðinni væri afhentur henni gegn endurgjaldi. Ekki liggja fyrir í málinu önnur haldbær gögn til stuðnings því að greiðslur áfrýjanda til Gunnars hafi farið fram í þessu skyni. Verður því að líta svo á að áfrýjandi hafi fengið helmingshluta hans í íbúðinni að gjöf, þótt hún kunni að öðru leyti að hafa átt kröfu á hendur honum vegna fjárframlaga sinna.
Í málinu hefur áfrýjandi vísað til skattframtals síns og Gunnars árið 2000 til stuðnings því að hann hafi verið gjaldfær í lok ársins 1999 og það þrátt fyrir gerð kaupmála þeirra. Svo sem réttilega greinir í héraðsdómi liggur fyrir að skuldir þeirra voru vantaldar að tilteknu leyti í framtali þessu, sem að auki getur ekki eitt út af fyrir sig nægt efni sínu samkvæmt til sönnunar um gjaldfærni Gunnars á þessu tímamarki. Að því athuguðu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að Gunnar hafi verið gjaldfær þegar kaupmáli þeirra var gerður.
Með þessum athugasemdum verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Kristín Ósk Ríkharðsdóttir, greiði stefnda, þrotabúi Gunnars Þórs Högnasonar, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2002.
Mál þetta var höfðað 17. september 2001 og dómtekið 17. f.m.
Stefnandi er þrotabú Gunnars Þórs Högnasonar, kt. 010565-5029, Fjarðargötu 11, Hafnarfirði.
Stefnda er Kristín Ósk Ríkharðsdóttir, kt. 090768-5499, Bólstaðarhlíð 44, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega 1) að rift verði með dómi þeim ráðstöfunum sem felast í A-hluta kaupmála milli stefndu og Gunnars Þórs Högnasonar, sem skráður var í kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík 30. desember 1999, og 2) að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnanda 2.870.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 23. nóvember 2000 til greiðsludags. Varakrafa stefnanda hljóðar um 1) riftun eins og í aðalkröfu og 2) að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnanda 2.475.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. september 2001 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
I
Gunnar Þór Högnason, kt. 010565-5029, og stefnda gengu í hjónaband 31. desember 1999 en höfðu þá verið í sambúð í rúman áratug og eiga þau dóttur fædda 1997.
Gunnar Þór rak verktakastarfsemi í eigin nafni fram á árið 1997 er einkahlutafélagið Eignavernd, þar sem hann er aðalhluthafi, var stofnað um reksturinn sem er einkum fólginn í viðhaldsvinnu við virkjanir og önnur mannvirki.
Bú Gunnars Þórs var tekið til gjaldþrotaskipa með úrskurði uppkveðnum 23. nóvember 2000 og var Guðmundur Örn Guðmundsson hdl. skipaður skiptastjóri í þrotabúinu en hann höfðar mál þetta fyrir hönd þess. Frestdagur við gjaldþrotaskiptin er 14. júní 2000. Kröfulýsingafresti lauk 19. mars 2001.
Lýstar kröfur eru sem hér segir. 1) Tollstjórinn í Reykjavík, opinber gjöld, vsk. o.fl. 6.010.379 kr. 2) Lýsing hf., sjálfskáb. Eignav. 9.355.2.75 kr. 3) Landsbanki Íslands hf., sjálfskáb. Visa 676.559 kr. 4) Búnaðarbanki Íslands hf., trvíxill v/yfirdráttar 360.000 kr. 5) Sparisjóður Ólafsfjarðar, yfirdráttur á tékkar. 928.058 kr. Dynjandi ehf. 3.000.000 kr. Samtals 20.320.271 krónur.
Við skýrslutöku hjá skiptastjóra 2. febrúar 2001 kvaðst þrotamaður eiga stærstan hlut í Eignavernd ehf. og að auki tvær ónýtar bifreiðar. Aðspurður kvað hann helstu ástæðu gjaldþrotsins vera fjárhagserfiðleika hjá Eignavernd ehf. Hann neitaði því að eignir hefðu verið látnar (af hendi) á síðustu mánuðum.
Í stefnu greinir frá því að Gunnar Þór hafi fengið frest fram í ágústmánuð 2001 til að reyna nauðasamninga við lánardrottna sína sem hafi ekki tekist. Síðan hafi, við skoðun á gögnum sem skiptastjóri hafi aflað sér, komið í ljós eignayfirfærslur frá þrotamanni til stefndu og hafi verið aflað frekari gagna um þær eins og hér verður rakið.
Með kaupsamningi 1. desember 1997 keyptu Gunnar Þór Högnason og stefnda að jöfnum hlutum, 50% hvort, fjögurra herbergja íbúð í fjöleignarhúsinu Bólstaðarhlíð 44, Reykjavík. Kaupverðið 6.000.000 króna var að hluta greitt með fasteignaveðbréfi að upphæð 4.200.000 krónur. Þann 30. desember 1999 skráðu þau kaupmála. Í A-hluta hans segir að fasteign að Bólstaðarhlíð 44, Reykjavík, sem hafi verið skráð í óskiptri sameign þeirra, skuli vera séreign konunnar og óviðkomandi hjúskapareignum þeirra. Hún taki að sér greiðslu veðskuldar við Húsbréfadeild Íbúðarlánasjóðs að uppgreiðsluvirði u.þ.b. 4.367.408 krónur. Sameiginlega beri þau hins vegar ábyrgð á skuld samkvæmt fjárnámum vegna skuldar við tollstjórann í Reykjavík vegna álagningar á opinberum gjöldum sem byggist að nokkru á áætluðum skattstofnum. Samkvæmt B-hluta kaupmálans er bifreið af gerðinni Ford Gocus, árgerð 1999, sem hafði verið skráð séreign Kristínar Óskar, gerð að séreign hennar en áhvílandi skuld nam rúmum 1.200.000 krónum.
II
Krafa stefnanda samkvæmt 1. tl. dómkrafna er reist á því að sú ráðstöfun, sem felst í A-hluta kaupmála milli stefndu og Gunnars Þórs Högnasonar sem skráður var í kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík 30. desember 1999, feli í sér riftanlega ráðstöfun samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl.
Krafist er riftunar ráðstöfunarinnar sem gjafagernings samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Ljóst megi vera að ráðstöfunin uppfylli skilyrði niðurlags ákvæðisins þar sem hún eigi sér stað innan 24 mánaða fyrir frestdag en stefnda sé nákomin þrotamanni í skilningi 3. gr. gjaldþrotalaga. Þá telur stefnandi að ljóst hafi mátt vera að þrotamaður hafi ekki verið gjaldfær á þeim tíma og enn síður eftir ráðstöfunina. Stefnda beri alla sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi verið.
Krafa stefnanda um greiðslu samkvæmt 2. tölulið dómkrafna er reist á því að stefnda hafi auðgast á hinni umstefndu ráðstöfun á kostnað annarra kröfuhafa þrotabúsins og valdið því samsvarandi tjóni. Stefnandi byggir endurkröfu sína aðallega á auðgunarreglum gjaldþrotaskiptaréttar, einkum með vísun til XX. kafla laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 143. gr. laganna.
Fjárhæð kröfunnar er reist á áætluðu verðmæti eignarhluta þrotamanns að frádregnum áhvílandi skuldum. Samkomulag varð milli aðila málsins um að leitað skyldi án dómkvaðningar eftir verðmati Dans Valgarðs S. Wiium hdl. og löggilts fasteignasala og jafnframt að niðurstaða þess yrði lögð til grundvallar í málinu án þess að matsmaðurinn þyrfti að mæta í dóminum og staðfesta það. Verðmat Dans S. Wiium á íbúð þeirri sem um ræðir liggur frammi, dags. 25. febrúar 2002. Samkvæmt beiðni lögmanns stefnanda var það annars vegar miðað við tímasetninguna 23. nóvember 2000 og hins vegar við 25. september 2001. Miðað við fyrri forsenduna er verðmatið (staðgreiðsluverð) 10.100.000 krónur og reiknað með að yfirtekin hefðu verið fasteignaveðbréf að eftirstöðvum u.þ.b. 4.360.000 krónur. Miðað við síðari forsenduna er verðmatið (staðgreiðsluverð) 9.540.000 krónur og reiknað með að yfirtekin hefðu verið fasteignaveðbréf að eftirstöðvum u.þ.b. 4.590.000 krónur.
III
Málsatvik eru af hálfu stefndu rakin í meginatriðum sem hér verður greint.
Þann 1. mars 1999 hafi Gunnar Þór fengið stefndu til þess að selja hlutabréf í Eygli ehf., sem hún hafi keypt 1. janúar 1998 að nafnvirði 10.000 krónur af Einari Þ. Einarssyni, til þess að lána sér persónulega m.a. til að leggja til einkahlutafélagsins. Í þeim tilgangi hafi hún selt hlutabréf að nafnvirði 1.850 krónur fyrir 1.250.000 krónur. Í apríl 1999 hafi hún síðan látið færa 500.000 krónur á bankareikninga Gunnars Þórs og 150.000 krónur beint á reikning Lýsingar hf. Samtals 650.000 krónur. Síðla árs hafi Gunnar Þór óskað eftir frekari fjármunum til að standa skil á greiðslu fyrir Eignavernd ehf. en stefnda hafi ekki verið reiðubúin til þess án þess að tryggt yrði að fjármunirnir mundu endurgreiðast eða eitthvað tryggilegt verðmæti kæmi í þeirra stað. Að ráði hafi orðið að gerður yrði kaupmáli. Þann 14. febrúar 2000 hafi stefnda selt hlutabréf í Eygli að nafnvirði 1.440 krónur á 1.500.000 krónur og þ. 25. s.m. aftur sama magn fyrir óbreytt verð. Andvirði sölunnar hafi verið greitt með tveimur tékkum, hvorum að upphæð 1.500.000 krónur. Annar hafi verið lagður beint inn á bankareikning Gunnars Þórs en af andvirði hins hafi stefnda lagt þ. 1. mars 2000 í tvennu lagi 750.000 krónur inn á bankareikninga Gunnars Þórs.
Það, sem hér var sagt um fjárhagslegar færslur, hlýtur stoð af framlögðum skjölum.
Í fylgiskjali merktu Gunnari Þór og undirrituðu af honum með sameiginlegu skattframtali hans og stefndu 1999 er greint frá kaupum hlutabréfa í Eygli ehf. og í skattframtölum 2000 og 2001 greinir frá sölu hlutabréfa samkvæmt því sem áður var sagt.
Kvittanir eða greiðsluskjöl um kaup og sölu hlutabréfanna liggja ekki frammi. Á skattframtali 2000 er meðal skulda talin 1.000.000 króna vegna hlutabréfakaupa. Samkvæmt skattframtölum hafði stefnda ekki launatekjur árið 1998 en að upphæð 997.191 krónu árið 1999 og 1.531.148 krónur árið 2000. Veðskuldir í árslok 2000 nema 4.811.456 krónum og aðrar skuldir 1.797.040 krónum.
Vitnið Einar Þorsteinn Einarsson kvað Eygli ehf. hafa verið stofnað til að koma tiltekinni uppfinningu sinni í verð. Stefnda hafi keypt hlutabréf fyrir 2.000.000 króna snemma árs 1998 og selt aftur í apríl 1999 og í febrúar 2000. Hann kvaðst hafa vísað á kaupendur og í síðara sinnið hafi stefnda fært í tal í október-nóvember 1999 að hún vildi selja.
Gunnar Þór Högnason og stefnda báru fyrir dóminum á sama veg um það að hún hefði lánað honum 650.000 krónur vorið 1999 og að hún hefði gert kaupmála að skilyrði fyrir frekari fjárframlögum sem hafi farið fram snemma árs 2000. Stefnda kvaðst hafa farið að leita fyrir sér um frekari sölu hlutabréfa í nóvember-desember 1999.
IV
Af hálfu stefndu er krafa um sýknu af riftunarkröfu byggð á því að með endurgjaldi hennar að upphæð 2.850.000 krónur (virðist vera misritun, þ.e. í stað 2.900.000 króna) vegna kaupmálans sé leitt í ljós að ráðstöfun sú, sem fólgin sé í A-hluta kaupmálans, sé ekki gjafagerningur. Einnig sé sýnt fram á með skattframtölum að Gunnar Þór hafi verið gjaldfær þegar ráðstöfunin var gerð og vegna hennar hafi greiðslustaða hans orðið mun betri en ella.
Verði á þetta fallist ber einnig að sýkna stefndu af endurgjaldskröfunni. Þótt svo fari ekki beri samt að sýkna stefndu með vísun til 145. gr. laga nr. 21/1991 enda yrði að öðrum kosti öllum stoðum kippt undan fjárhagslegum grundvelli og heimilishaldi hennar. Til þess er vísað að stefnda hafi á framfæri sínu ungt barn sem hafi búið við veikindi (að auki kom fram að hún væri barnshafandi).
Taki dómurinn endurgjaldskröfu að einhverju leyti til greina gerir stefnda, samkvæmt 28. gr. laga nr. 91/1991 og gjaldþrotalögum, gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna greiðslna hennar samtals að upphæð 4.311.498 krónur, þ.e. umgetinna greiðslna að upphæð 2.850.000 krónur og greiðslna hennar á 1.461.498 krónum til kröfuhafa samkvæmt 4. og 5. tl. í kröfuskrá.
Þá er dráttarvaxtakröfu mótmælt.
V
Gögn málsins sýna ekki svo óyggjandi sé að framlög nær þriggja milljóna króna af andvirði hlutabréfaeignar til greiðslu skulda, einkum Eignaverndar ehf., hafi að öllu leyti stafað frá stefndu.
Með samtíma gögnum eða á annan hátt er ekki sannað að gerð kaupmálans hafi verið endurgjald fyrir framlög stefndu eins og haldið er fram í málinu. Með kaupmálanum var eign Gunnars Þórs einhliða og án skilyrða lýst séreign stefndu. Gerningurinn fól því í sér gjöf sem var til nákomins, sbr. 1. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991, og var afhent innan tuttugu og fjögurra mánaða fyrir frestdag. Samkvæmt skattframtali Gunnars Þórs og stefndu árið 2000 námu skuldir þeirra aðrar en veðskuldir í árslok 1999 2.677.797 krónum. Þar er ekki getið skuldar við innheimtumann ríkissjóðs sem hafði byggst á áætlun en nemur samkvæmt kröfubréfi 18. mars 2002 811.303 krónum vegna áranna 1996 og 1997. Við gerð kaupmálans varð Gunnar Þór eignalaus að undanskildum eignarhlut í Eignavernd ehf. en ábyrgð hans á skuldum fyrirtækisins leiddi öðru fremur til gjaldþrots hans. Samkvæmt þessu er ekki leitt í ljós að Gunnar Þór hafi verið gjaldfær þrátt fyrir afhendinguna.
Skilyrði 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eru þannig uppfyllt fyrir því að fallast beri á kröfu stefnanda um riftun ráðstöfunar samkvæmt 1. lið dómkrafna hans.
Samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991 ber eftir þessari niðurstöðu að fallast á endurgjaldskröfu stefnanda. Niðurstöður Dans Valgarðs S. Wiium, sem á verður byggt samkvæmt samkomulagi aðila, eru sem að framan greinir reistar á tveimur mismunandi forsendum. Fyrir dóminum liggur engin skýring eða rökstuðningur fyrir því að velja beri aðra niðurstöðuna framar hinni og verðu því sú valin sem stefndu er hagfelldari.
Ekki er fallist á að svo sérstaklega standi á að rétt sé á grundvelli 145. gr. laga nr. 21/1991 að lækka eða fella niður kröfu stefnanda á hendur stefndu.
Um gögn til stuðnings gagnkröfu stefndu er vísað til þess sem þegar er fram komið. Að því leyti sem krafan er einnig reist á því að stefnda hafi greitt kröfur samkvæmt 4. og 5. tl. kröfulýsingarskrár skýrði stefnda svo frá að hún hafi borið ábyrgð á þeim. Gagnkrafan er ekki nægilega skýr og ótvíræð til að á hana verði fallist. Að fenginni þeirra niðurstöðu reynir ekki á úrlausn þess hvort skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt.
Samkvæmt þessu er fallist á varakröfu stefnanda samkvæmt 2. lið dómkrafna hans um greiðslu 2.475.000 króna, þó þannig að upphafsdagur dráttarvaxta er ákveðinn 17. október 2001. Málskostnaður er ákveðinn 300.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Rift er þeim ráðstöfunum, sem felast í A-hluta kaupmála milli stefndu, Kristínar Óskar Ríkharðsdóttur, og Gunnars Þórs Högnasonar, sem skráður var í kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík 30. desember 1999.
Stefnda greiði stefnanda, þrotabúi Gunnars Þórs Högnasonar, 2.475.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. október 2001 til greiðsludags.
Stefnda greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.