Hæstiréttur íslands
Mál nr. 848/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. desember 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til miðvikudagsins 30. desember 2015 en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 21. desember 2015. Hann krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Í ljósi umfangs málsins verður fallist á kröfu sóknaraðila um að varðhaldinu verði markaður lengri tími eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. desember 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 18. desember 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. desember nk. kl. 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að kl. 3:05 aðfaranótt sunnudagsins 13. desember sl. hafi verið tilkynnt um unga stúlku í miklu uppnámi á Tjarnargötunni í Reykjavík eftir að einhver hafi gert tilraun til að nauðga henni. Á vettvangi hafi lögreglan hitt stúlkuna, A og einnig aðra stúlku sem hafi verið þar með henni, B. Brotaþoli, A, hafi verið í miklu uppnámi og setið í snjónum í rifnum buxum og grátið. Rætt hafi verið við brotaþola sem kvaðst hafa verið að ganga heim úr miðbænum þar sem hún hafi verið að skemmta sér. Þegar hún hafi gengið Tjarnargötuna hafi hún tekið eftir manni sem gekk fyrir aftan hana. Hafi hann gengið svo nálægt henni að hefði hún stoppað hefði hann rekist á hana. Kvaðst hún hafa orðið hrædd og viljað losna við manninn og því vikið aðeins til hliðar og látið hann ganga fram úr sér. Hann hafi gert það en hann hafi stöðvað för sína við Tjarnargötu [...]. Til þess að komast heim til sín hafi hún orðið ganga áfram og því ákveðið að halda för sinni áfram. Kvaðst hún hafa talað við vin sinn í síma um leið. Þegar hún hafi svo gengið fram hjá manninum hafi hann gripið í hana, reynt að taka símann af henni og kallað hana „bitch“ Hafi hún þá hent símanum frá sér til þess að hann gæti ekki tekið hann. Þá hafi hann gripið um munninn á henni, ýtt henni að húsinu, rifið buxurnar hennar og reynt að hneppa frá sínum buxum. Við þetta hafi hún öskrað eins hátt og hún gat og sparkað í hann en þá hafi hann orðið ennþá harkalegri við hana og ýtt höfðinu á henni upp að húsinu. Brotaþoli sagðist hafa verið viss um að hann ætlaði að nauðga sér og öskrað aftur. Þá hafi komið fólk að og hann hlaupið í burtu. Spurð um lýsingu á geranda sagði hún hann hafa verið dökkklæddan, grannan, u.þ.b 170 cm á hæð, með ör í andlitinu eftir bólur og stutt skegg. Tekið hafi verið fram í skýrslunni að hún hafi verið mjög skýr í framburði þrátt fyrir að hafa verið í miklu uppnámi.
Lögregla hafi einnig rætt við vitnið B. Kvaðst hún hafa verið á gangi með kærasta sínum C þegar þau hafi heyrt óp í konu. Þau hafi hlaupið í átt að ópunum og séð mann ofan á konu í garði við Tjarnargötu [...]. B sagði að C hafi kallað til þeirra og þá hafi maðurinn hlaupið í burtu.
Lögreglan hafi rætt við vitnin D og E sem hafi sagst hafa verið á gangi á Tjarnargötunni þegar þeir hafi séð karlmann hlaupa á móti sér. Þeir hafi lýst manninum á sams konar hátt, þ.e. sem dökkhærðum, með dökkt skegg, í svartri úlpu og svörtum buxum. E hafi sagt manninn vera um 170 cm á hæð.
Á meðal gagna málsins séu myndir teknar af lögreglu af áverkum brotaþola og rifnum buxum hennar.
Aðeins örfáum mínútum eftir þá tilkynningu sem að ofan greini, eða kl. 3:10, hafi borist tilkynning um árás á stúlku í Þingholtsstræti. Á vettvangi hafi lögregla hitt brotaþola, F, sem hafi verið grátandi og í miklu uppnámi. Hafi hún sagst hafa verið ein á gangi upp Bankastrætið þegar karlmaður hafi komið aftan að henni og lagt hendi sína yfir axlir hennar. Maðurinn hefði svo gripið fastar og fastar utan um hana. Hún hafi reynt að losa sig en hann hafi þá gripið um munn hennar og gengið ákveðið með hana inn Þingholtsstrætið. Þau hafi ekki verið komin langt inn þá götu þegar hann hafi kastað henni utan í bifreið sem hafi verið þar kyrrstæð og mannlaus í bifreiðarstæði. Því næst hafi hann reynt að setjast klofvega ofan á hana og henni hafi liðið allan tíman eins og hann hafi ætlað að nauðga henni. Síðan hafi líklega einhver komið að því allt í einu hafi hann hlaupið í burtu. Hún hafi lýst manninum sem litlum með svart hár, svart skegg og í svartri úlpu. Hafi hann ekkert sagt við hana. Hafi hún sagst finna til í vinstra kinnbeini eftir að henni hafi verið kastað á bifreiðina og einnig í fingrunum því hún hafi sagst hafa haldið svo fast í jakkann hans og hann hafi svo rifið sig lausan. Hún hafi sagst hafa klórað hann á öðru hvoru handarbakinu en hafi ekki vitað hvoru og hún hafi einnig bitið hann í einn fingur en hafi ekki vitað hvaða fingur. Hún hafi þó ekki verið viss um að það hefði verið svo djúpt að það sæist á honum.
Lögregla hafi rætt við vitnið G á vettvangi. Hann hafi sagst hafa gengið upp Bankastrætið og litið inn Þingholtsstrætið og þá séð mann sitjandi ofan á stúlku. Hann hafi hlaupið að þeim en um leið hafi maðurinn hlaupið burt. Vitninu hafi sýnst hann hlaupa upp Bankastrætið og svo Ingólfsstrætið í norður. Vitnið hafi lýsti manninum þannig að hann hafi verið lágvaxinn með svart hár og svart skegg. Hann hafi verið í svarti úlpu með stórum saumum, eins konar dúnúlpu.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur enn fremur fram að á upptöku úr eftirlitsmyndavél við Tjarnargötu í Reykjavík kl. 2:55,18 sjáist brotaþoli í fyrra málinu, A, ganga Tjarnargötu í átt að Vonarstræti. Á upptökunni sjáist dökkklæddur, dökkhærður og dökkskeggjaður maður ganga sömu leið kl. 02:55,35. Á upptökunni sjáist að maðurinn hafi verið klæddur í svarta vatteraða úlpu, bláleita skyrtu, dökkar buxur og svarta skó.
Á upptökum úr eftirlitsmyndavélum við Pósthússtræti sjáist dökkklæddur, dökkskeggjaður og dökkhærður maður í bláleitri skyrtu á gangi fram hjá Dómkirkjunni og um Pósthússtræti í átt að Austurstræti kl. 03:04. Strax í kjölfarið sjáist maðurinn á upptökum úr öryggismyndavél af horni Austurstrætis og Pósthússtrætis á göngu í Austurstræti í átt að Lækjargötu. Þar sjáist einnig brotaþoli úr síðara málinu, F, á göngu á undan honum. Það sjáist á upptökum hvernig maðurinn veiti henni eftirför að Lækjargötu og svo upp Bankastræti þar sem hann hafi þvingað hana með ofbeldi inn í Þingholtsstræti og svo ráðist á hana þar. Hann sjáist keyra hana harkalega í götuna, takast á við hana þar og reyna að halda henni þangað til leigubíl sé ekið norður götuna sem hann virðist fælast við og því hlaupa á brott. Árásin í Þingholtsstræti sjáist öll á upptöku úr eftirlitsmyndavél þar og átti hún sér stað á milli kl. 03:08,39 og 03:09,12.
Birtar hafi verið tvær myndir af árásarmanninum úr framangreindum upptökum í fjölmiðlum 16. desember sl. og óskað eftir upplýsingum um hann og hann beðinn um að setja sig í samband við lögreglu. Hafi það verið myndir úr upptökum af Tjarnargötu og Pósthússtræti. Fjöldi ábendinga hafi borist lögreglu í kjölfarið um að maðurinn væri kærði, X. Kærði hafði jafnframt sjálfur samband við lögreglu og sagst þekkja sig á myndunum.
Bæði A og F hafi gefið formlega kæruskýrslu hjá lögreglu vegna málsins og lýsi þær atburðum þar á sama hátt og þær gerðu á vettvangi. A hafi einnig tekið fram að árásarmaðurinn hefði reynt að þrengja að hálsi hennar með trefli sem hún var með. F tók fram að hún myndi eftir því í að kærði hefði verið í gallabuxum. Lýsti hún því jafnfram hvernig hann hefði reynt að komast inn á hana en hún slegið höndum hans frá.
Kærði neitaði sök í skýrslutöku vegna málsins. Kvaðst hann hafa verið í starfsmannapartýi og svo farið með félögum sínum í miðbæinn upp úr miðnætti á skemmtistaðinn Dillon. Hann hafi orðið viðskila við félaga sína þegar hann gekk með þeim niður Laugaveginn eftir að hafa yfirgefið Dillon. Spurður um ferðir sínar eftir að hann varð viðskila við félaga sína kvaðst hann hafa hringt í félaga sinn sem sagði honum að þeir væru á pítsastað og bauð honum að koma þangað. Kvaðst hann þá hafa ætlað að fara og hitta félaga sína en hætt við er hann sá leigubíl sem hann fór svo heim með. Taldi hann sig hafa farið heim á milli kl. 02:00 og 03:00. Kvaðst hann ekki muna frá hvaða fyrirtæki leigubílinn væri og kvaðst hafa greitt fyrir farið með reiðufé. Kærði kvaðst hafa verið mjög ölvaður þetta kvöld og hafa drukkið um 10 bjóra og 4-5 sterka drykki áður en hann fór í bæinn. Spurður um klæðnað sinn þetta kvöld kvaðst hann hafa verið í svartri dúnúlpu, gallabuxum, svörtum skóm, svartri skyrtu og blárri peysu yfir. Spurður um af hverju hann hefði gefið sig fram við lögreglu sagðist hann hafa fengið símtal að kvöldi 16. desember sl. þar sem honum var sagt að það væri mynd á fréttamiðlum sem líktist honum. Hann hafi sjálfur skoðað myndina og séð að þetta líktist honum ógurlega. Spurður hvort hann þekkti sjálfan sig á myndinni játaði hann því. Var honum sagt að önnur myndin sem var birt í fjölmiðlum hafi verið tekin við hús Happdrætti Háskólans í námunda við ráðhúsið. Kærði kvaðst ekki muna eftir því að hafa verið þar en tók það fram að hann hefði verið mikið ölvaður. Spurður hvort hann muni vel eftir umræddu kvöldi sagði hann: „Nei ég get nú ekki alveg sagt það sko“.
Húsleit fór fram á dvalastað kærða að [...] í Reykjavík í gær þar sem hann afhenti þann fatnað sem hann var í umrædda nótt í bænum. Afhenti hann lögreglu gallabuxur, svarta skyrtu, bláa peysu sem hann sagðist hafa verið í yfir skyrtuna, svarta úlpu og svarta skó.
Lögregla telur ljóst af upptökum úr eftirlitsmyndavélum og lýsingum vitna og brotaþola á útliti og klæðnaði að um sama árásarmann sér að ræða í báðum framangreindum tilvikum og séu ferðir hans raktar með upptökum frá fyrri vettvangi að þeim síðari. Síðari árásin sé öll til á upptöku. Útlit kærða kom heim og saman við útlit árásarmannsins sem sést á upptökunum. Í skýrslutöku játaði hann aðspurður að hann hefði þekkt sig á myndunum sem birtust í fjölmiðlum.
Að mati lögreglu er kærði undir sterkum grun um að vera árásarmaðurinn og hafa aðfaranótt sunnudagsins 13. desember sl., með nokkurra mínútna millibili, ráðist fyrirvaralaust með ofbeldi á tvær konur í miðborg Reykjavíkur og gert tilraun til að nauðga þeim. Það varð til bjargar í bæði skiptin skv. framburðum brotaþola og vitna að kærði varð fyrir utanaðkomandi truflun svo hann hljóp á brott. Um sérlega ófyrirleitnar, fólskulegar og hættulegar atlögur er að ræða þar sem brotamaður skeytti engu. Ætluð brot kærða geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Rannsókn málsins sé á frumstigi og ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en m.a. þurfi að taka ítarlegri skýrslur af kærða og brotaþolum og hafa upp á og taka skýrslur af fjölda vitna. Jafnframt eigi eftir að rannsaka símagögn kærða. Þetta mál sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.
Ætlað brot telst varða við 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Lögreglan krefst þess að kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi. Meðal fram lagðra rannsóknargagna sem krafan styðst við eru myndir úr eftirlitsmyndavélum. Þar á meðal eru fjöldamargar myndir sem sýna mann sem líkist kærða verulega. Lögregla lýsti eftir manninum á vefmiðlum og bárust henni mjög margar ábendingar þess efnis að hann væri kærði. Jafnframt gaf kærði sig fram við lögreglu. Á fram lagðri upptöku af skýrslutöku af honum kveðst hann í upphafi þekkja sig á myndunum en dregur síðar í skýrslutökunni úr því og telst hafa haldið í upphafi að þetta væri hann en sé nú í verulegum vafa um það.
Á fram lögðum myndum eru ferðir manns, sem líkist kærða verulega, raktar aðfaranótt 13. desember frá fyrri brotavettvangi á þann síðari. Jafnframt er lögð fram upptaka af atlögu að síðari brotaþolanum.
Dómurinn fellst á það að rannsóknargögn málsins leggi nægjanlegan grunn að því að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að kærði hafi í tvígang aðfaranótt 13. desember sl. gert tilraun til alvarlegs brots sem varðar við 194. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 19/1040. Sannist það brot getur það varðað allt að 16 ára fangelsi. Eru því uppfyllt skilyrði fyrri málsliðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Lögreglan byggir kröfu sína um gæsluvarðhald á því að rannsóknarhagsmunir séu ríkir og vísar til heimildar í a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Þótt rannsókn málsins sé ekki á algeru frumstigi er ljóst að enn þarf að taka skýrslur af vitnum sem geta gefið upplýsingar um mikilvæg atriði málsins og kanna frekari gögn. Fallist er á það með lögreglu að rannsóknarhagsmunir séu svo ríkir að kærði þurfi að sæta gæsluvarðhaldi. Telja verður raunverulega hættu á að hann kynni að hafa áhrif á vitni væri hann frjáls ferða sinna á þessu stigi rannsóknar.
Af þessum sökum er fallist á með lögreglustjóra að skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 séu uppfyllt. Enda þótt yfirheyra þurfi nokkur vitni telur dómurinn að ekki þurfi 12 daga til þess og fellst því á þá kröfu kærða að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Hins vegar verður fallist á þá kröfu lögreglustjórans að kærði sæti einangrun á meðan gæsluvarðhaldið stendur.
Ingiríður Lúðvíksdóttir héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærða, X, kt. [...], er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 23. desember nk. kl. 16.00.
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.