Hæstiréttur íslands

Mál nr. 675/2011


Lykilorð

  • Vátrygging
  • Vátryggingarsamningur
  • Slysatrygging


                                     

Fimmtudaginn 14. júní 2012.

Nr. 675/2011.

Oddrún Kristófersdóttir

(Logi Guðbrandsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Vátrygging. Vátryggingarsamningur. Slysatrygging.

G, eiginmaður O, lést er vélbátnum Berki frænda hvolfdi í desember 2009 þegar verið var að sigla honum frá Vopnafirði til Reykjavíkur. O krafði V hf. um bætur úr tryggingu gullkorts VISA, en flugfargjald vegna ferðarinnar var greitt með kortinu. Deildu aðilar um það hvort G hefði verið í vinnu er hann lést eða á ferðalagi samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti með vísan til forsendna, sagði að ekki yrði litið fram hjá því að G hefði setið í stjórn þess félags sem keypti vélbátinn auk þess að vera framkvæmdastjóri þess. Hafi kaupin á bátnum og flutningur hans verið liður í þeirri starfsemi sem félaginu hafi verið ætluð. Jafnvel þótt G hefði ekki verið launaður starfsmaður félagsins þótti ljóst að hann hefði verið við vinnu í þágu þess er hann lést. Voru atvik málsins því talin falla utan gildissviðs tryggingarinnar og var V hf. sýknað af kröfu O.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 2011. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 9.000.000 krónur með 6% ársvöxtum frá 16. desember 2009 til 1. janúar 2010, með 5,7% ársvöxtum frá þeim degi til 15. mars sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. september sl., var höfðað 19. nóvember 2010

Stefnandi er Oddrún Kristófersdóttir, Blikaási 21, Hafnarfirði. 

Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 9.000.000 króna með 6% ársvöxtum frá 16. desember 2009 til 1. janúar 2010, með 5,7% ársvöxtum frá þeim degi til 15. mars s.á., en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.  

Málavextir

Málavextir eru þeir að Ívar Smári Guðmundsson og Guðmundur Sesar Magnússon lögðu af stað frá Reykjavík áleiðis til Egilsstaða hinn 15. desember 2009, kl. 7:30, með flugvél Flugfélags Íslands. Þegar þangað var komið héldu þeir för sinni áfram í bíl til Vopnafjarðar. Eini tilgangur þeirra með ferðinni var að sækja þangað vélbátinn Börk frænda NS055, sem ÍSG Ræktun ehf. hafði þá nýverið fest kaup á, og sigla bátnum til Reykjavíkur. Frá Vopnafirði héldu þeir rakleiðis um borð í bátinn og lögðu af stað til Reykjavíkur um kl. 21:00.

Við skýrslutöku hjá sýslumanninum á Eskifirði skýrði Ívar Smári svo frá að þeir hefðu skipst á að sigla um nóttina og tekið þriggja til fjögurra tíma hvíld á milli. Ívar Smári sagðist hafa verið búinn að vera við stjórn, en Guðmundur Sesar verið kominn í brúna til að taka við og hafi þeir ákveðið að sigla vel út fyrir eyjuna Skrúð til að forðast sker í kringum hana. Ívar Smári sagði að þeir hefðu verið búnir að finna fyrir smá ókyrrð skömmu áður en stór alda reis upp fyrir framan bátinn og skall á honum með þeim afleiðingum að báturinn fór strax á hvolf. Ívar Smári Guðmundsson komst lífs af en Guðmundur Sesar Magnússon drukknaði.

Þeir Ívar Smári og Guðmundur Sesar höfðu ásamt öðrum stofnað ÍSG Ræktun ehf. til þess að undirbúa kræklingaræktun og voru kaupin á bátnum liður í þeim undirbúningi. Stefnandi heldur því fram að þeir hafi ekki verið starfsmenn félagsins og að þeir hafi ekki verið á launum hjá félaginu. Þá heldur stefnandi því fram að sigling þeirra á bátnum, þegar slysið varð, hafi ekki verið þáttur í þeirri starfsemi sem fyrirhuguð var á vegum félagsins.

Í framlögðum gögnum kemur fram að Guðmundur Sesar stóð að rekstri félagsins, en hann sat í stjórn þess a.m.k. frá 2. september 2009 og sat sem framkvæmdastjóri þess frá 19. nóvember 2009.

Guðmundur Sesar Magnússon var korthafi VISA Gullkreditkorts samkvæmt vátryggingaskilmálum nr. GT32 hjá stefnda. Flugfargjald Ívars og Guðmundar Sesars með Flugfélagi Íslands frá Reykjavík til Egilsstaða var greitt með VISA Gullkorti Guðmundar hinn 14. desember 2009. Enginn ágreiningur er um það í málinu að þessi greiðsla hafi farið fram.

Stefnda var tilkynnt um slysið hinn 7. janúar 2010. Ekkja Guðmundar Sesars, stefnandi máls þessa, setti fram kröfu á hendur stefnda um dánarbætur á grundvelli gr. 4.1.2 í skilmálum tryggingarinnar. Stefndi hafnaði greiðslu bóta með vísan til gr. 1.4 í skilmálunum. Var höfnunin grundvölluð á því að Guðmundur Sesar hefði verið við vinnu þegar slysið varð og sú vinna hafi falist í að sækja bátinn austur og sigla honum suður. Því hafi ekki verið um að ræða ferðalag í skilningi skilmálanna og Guðmundur Sesar ekki verið á heimleið frá vinnu þegar slysið varð.

Höfnun stefnda var skotið til úrskurðarnefndar vátryggingamála og kvað nefndin upp úrskurð sinn 13. júlí 2010. Var niðurstaða nefndarinnar sú að miðað við allar aðstæður og reynslu Guðmundar Sesars við sjómannsstörf, og aðkomu hans að flutningi bátsins, hafi allt bent til að hann hefði verið við vinnu í umrætt sinn, óháð því hvort formlegur samningur hafi verið gerður við hann. Þá var litið til þess að flutningur bátsins var vegna áætlana um atvinnu og arðskapandi veiðar á bátnum í framtíðinni. Féllst nefndin því á það með stefnda að eiginleg heimferð hins látna hafi ekki hafist þar sem hann var við vinnu í umrætt sinn auk þess sem hann hafi verið utan alfaraleiða og þegar af þeirri ástæðu ætti stefnandi ekki rétt til bóta úr VISA gullkortstryggingu hjá stefnda.

Stefndi bendir á að útgerð bátsins, ÍSG Ræktun ehf., hafi keypt vátryggingu vegna skipverja um borð hjá Sjóvá-Almennum Tryggingum hf. Samkvæmt tryggingarskírteini hafi tveir skipverjar um borð verið tryggðir frá 14. desember 2009 að telja og sé um að ræða slysatryggingu sjómanna samkvæmt 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Auk þess hafi útgerðin verið með líftryggingu fiskimanna á smábátum hjá Sjóvá Líf. Hafi stefnandi fengið greiddar eingreiðslubætur úr slysatryggingu sjómanna frá Sjóvá í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaganna enda litið svo á að hinn látni hafi verið ráðinn um borð í skipsrúm í umrætt sinn. Slysið hafi þannig staðið í beinu sambandi við störf útgerðarinnar og hann unnið fyrir hana.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfu sína á því að í grunnákvæði VISA gullkortstryggingarinnar sé að finna í gr. 1.1 ákvæði þar sem segi að vátrygging samkvæmt eftirfarandi skilmálum sé jafnan gild á ferðalögum í allt að 60 samfellda ferðadaga. Í þessum skilmálum sé þess hvergi getið að tryggingin sé ekki gild á ferðalögum ef vátryggður er við vinnu. Geri maður hins vegar hlé á ferð sinni til þess að taka upp vinnu eða nám þar sem ferðahlé er gert, hvíli tryggingin meðan á þeirri vinnudvöl eða námsdvöl stendur, en vakni á ný þegar þeirri vinnu- eða námsdvöl lýkur.

Guðmundur Sesar hafi ekki staldrað við á Vopnafirði í umrætt sinn og hafi þar hvorki verið við vinnu eða nám. Hann hafi hins vegar verið á ferðalagi er slysið varð, en tryggingin gildi, eins og nefnt sé hér að ofan, ,,jafnan á ferðalögum“.

Stefnandi ítreki að sönnunarbyrðin um allt, sem lýtur að takmörkun á ábyrgð stefnda gagnvart stefnanda, hvíli á stefnda.

Krafa stefnanda sé byggð á VISA gullkortstryggingu og vátryggingar­skilmálum stefnanda nr. GT32.

Aðild stefnanda sé byggð á gr. 4.1.2 í skilmálum nr. GT32 og 2. og 3. mgr. 100. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.

Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á 123. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi kveður sýknukröfu sína byggða á því að atvik það sem stefnandi byggi kröfu sína á falli utan gildissviðs VISA gullkortatryggingarinnar sem fylgdi gullkorti því sem Guðmundur Sesar var með hjá VÍS og krafa stefnanda grundvallast á.

Stefnandi bendi á að því sé ekki haldið fram af stefnda að einhverjar þær takmarkanir á bótaskyldu sem nefndar eru í skilmálum VISA gullkortatryggingarinnar eigi við og bótaréttur því ekki fyrir hendi af þeim sökum. Þessar undanþágur komi einungis til álita þegar atvik sem leiðir til bótaréttar geti fallið undir bótasvið tryggingarinnar.

Þá sé ágreiningslaust að Guðmundur Sesar greiddi fyrir flugmiða frá Reykjavík til Egilsstaða hinn 15. desember 2009 með VISA gullkorti sínu.

Sýknukrafa stefnda sé í fyrsta lagi byggð á því að atvik það sem leiddi til andláts eiginmanns stefnanda hafi orðið utan alfaraleiða og falli það því ekki undir vátrygginguna, sbr. gr. 1.7 í skilmálunum, en í nefndu ákvæði segi: „Vátryggingin gildir ekki á ferðalögum á landi eða legi utan alfaraleiða.“ 

Eins og fram komi í gögnum málsins varð umrætt slys úti á sjó, nánar tiltekið í mynni Fáskrúðsfjarðar og sé því ekki um að ræða alfaraleið í skilningi skilmálanna. Með hugtakinu alfaraleið sé átt við leið sem er fjölfarin, þ.e. þar sem margir fara um og umferð er stöðug. Eigi það ekki við um þann stað þar sem slysið varð. Þegar af þeirri ástæðu telji stefndi bótarétt ekki vera fyrir hendi til handa stefnanda.

Sýknukrafa stefnda sé í öðru lagi byggð á því að umrætt atvik falli utan gildissviðs tryggingarinnar þar sem Guðmundur Sesar hafi verið við vinnu þegar hann lést.

Stefndi skilji málatilbúnað stefnanda þannig að ferð Guðmundar Sesars frá Reykjavík til Egilsstaða, áfram til Vopnafjarðar og síðan sigling þaðan suður, falli undir það að vera á ferðalagi. Bendi stefnandi á í því sambandi að ekki hafi verið staldrað við á Vopnafirði og ekki farið til vinnu eða náms. Því sé alfarið mótmælt af hálfu stefnda sem telji að slysið hafi orðið þegar Guðmundur Sesar var við vinnu en ekki „á ferðalagi“ í skilningi skilmálanna. Bent sé á að sönnunarbyrðin um það að umrætt atvik eigi undir tryggingu, þannig að bótaréttur hafi stofnast, sé alfarið hjá stefnanda.

Um trygginguna gildi vátryggingaskilmálar nr. GT32. Í 1. gr. segi að vátrygging samkvæmt skilmálunum sé að jafnaði gild á ferðalögum í allt að 60 samfellda ferðadaga. Þá segi í gr. 1.4 að þegar farið er til vinnu eða náms sé viðkomandi einungis vátryggður á útleið og heimleið. Samkvæmt þessu taki tryggingin ekki til þess þegar hinn vátryggði er við vinnu þótt í þeirri vinnu felist einhvers konar ferðalög. Guðmundur Sesar hafi verið að vinna fyrir fyrirtækið ÍSG Ræktun ehf. þegar slysið varð og hafi vinnan verið fólgin í því að sigla bátnum frá Vopnafirði til Reykjavíkur. Það að bátur sé á siglingu eða á leið milli hafna breyti ekki vinnu sjómanns um borð í ferðalag. Stefndi telji því að umræddur atburður sem leiddi til andláts eiginmanns stefnanda hafi ekki orðið þegar hann var á ferðalagi heldur þegar hann var við vinnu. Þar af leiðandi falli atvikið utan við skilmála tryggingarinnar og bætist ekki úr henni. 

Stefnandi bendi á að umrætt slys hafi orðið þegar Guðmundur Sesar var að sigla bát sem félag, þar sem hann var bæði framkvæmdastjóri og í stjórn, hafði keypt og ætlað að nota sem vinnutæki. Ferð hans til Egilsstaða og áfram til Vopnafjarðar hafi verið í þeim tilgangi að taka við bátnum og sigla honum suður. Flutningur bátsins hafi verið nauðsynlegt skilyrði þess að unnt væri að nota hann til þeirra starfa sem hann var ætlaður. Sé því augljóst að hann hafi verið að vinna að einhverju arðberandi fyrir sjálfan sig, sem og aðra, þegar hann tók að sér að sigla bátnum suður. Skipti því ekki máli í þessu sambandi hvort hann þáði laun fyrir eða var sérstaklega ráðinn til verksins með samningi. Aðalatriðið sé að þetta hafi verið liður í fyrirhugaðri atvinnustarfsemi sem m.a. hafi verið á vegum hans sjálfs. Falli atvikið því augljóslega utan við bótasvið VISA gullkortatryggingarinnar enda geti þessi athöfn hans ekki flokkast sem „á ferðalögum“ í skilningi skilmálanna og samkvæmt þeim skilningi sem almennt er lagður í það að ferðast.

Á sömu forsendum sé ekki unnt að líta svo á að Guðmundur Sesar hafi verið á heimleið úr vinnu þegar slysið varð, þar sem heimleið í skilningi skilmálanna gat ekki hafist fyrr en vinnu var lokið, þ.e. þegar báturinn var kominn að bryggju fyrir sunnan.

Því til enn frekari stuðnings, að Guðmundur Sesar hafi raunverulega verið við vinnu þegar slysið varð, bendi stefndi á að keypt hafði verið svokölluð áhafnatrygging hjá Sjóvá. Sé þeirri tryggingu ætlað að greiða bætur í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 ef sjómaður verður fyrir slysi við vinnu um borð í skipi eða í beinum tengslum við rekstur skips. Fyrir liggi að stefnandi hafi fengið greiddar dánarbætur úr þessari tryggingu, þ.e. bætur vegna vinnuslyss. Þegar af þeim sökum beri að hafna bótarétti úr VISA gullkortatryggingunni enda geti bótaréttur tæplega stofnast samhliða vegna sama atviks úr tryggingu sem greiði bætur vegna vinnuslysa og tryggingu sem greiði bætur vegna ferðalaga sem ekki tengjast vinnu. 

Stefndi vísi einkum til almennra reglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og vátryggingarskilmála VÍS nr. GT32. Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Stefnandi er ekkja Guðmundar Sesars Magnússonar sem fórst er vélbátnum Berki frænda NS055 hvolfdi í desember 2009. Guðmundur Sesar var korthafi VISA Gullkorts. Um handhafa slíkra korta gilda vátryggingarskilmálar nr. GT32 hjá stefnda. Stefnandi byggir aðild sína á gr. 4.1.2 í tryggingarskilmálunum og 2. og 3. mgr. 100. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2001. Stefnandi krefst dánarbóta úr hendi stefnda og er aðild hennar að málinu óumdeild.

Ágreiningslaust er að Guðmundur Sesar greiddi með gullkorti sínu flugfargjald sitt til Egilsstaða 15. desember 2009. Eins og áður er lýst fóru þeir Guðmundur Sesar og Ívar akandi til Vopnafjarðar og fóru rakleiðis um borð í bátinn, en ætlunin var að sigla honum til Reykjavíkur. Guðmundur Sesar fórst hins vegar er bátnum hvolfdi, eins og áður segir.

Ágreiningur í málinu lýtur að því hvort þau atvik sem stefnandi byggir kröfu sína á falli undir gildissvið VISA gullkortatryggingarinnar.

Í gr. 1.1 í skilmálunum segir að vátrygging samkvæmt eftirfarandi skilmálum sé jafnan gild á ferðalögum í allt að 60 samfellda ferðadaga ef a.m.k. helmingur þess ferðakostnaðar sem til fellur áður en ferð hefst hefur verið greiddur með VISA kreditkorti.

Í gr. 1.4 í skilmálunum segir að einstaklingur sem fer til vinnu eða náms sé einungis vátryggður á útleið og heimleið. Aðila málsins greinir á um það hvort Guðmundur Sesar var í vinnu er hann lést eða á ferðalagi.

Stefnandi byggir á því að í skilmálum tryggingarinnar sé þess hvergi getið að tryggingin sé ekki gild á ferðalögum ef vátryggður er við vinnu. Á þetta verður ekki fallist þar sem í gr. 1.4 er sérstaklega tiltekið að einstaklingur sem fer til vinnu eða náms sé einungis vátryggður á útleið og heimleið.

Fyrir liggur að félagið ÍSG Ræktun ehf. hafði keypt bátinn Börk frænda NS055 skömmu áður en umræddur atburður gerðist. Tilgangur ferðar Guðmundar Sesars og Ívars var að sækja bátinn og sigla honum til Reykjavíkur. Guðmundur Sesar og Ívar höfðu, ásamt öðrum, stofnað félagið ÍSG Ræktun ehf. til þess að undirbúa kræklingaræktun og voru kaupin á bátnum liður í þeim undirbúningi. Byggir stefnandi á því að þeir hafi ekki verið starfsmenn félagsins og hafi ekki verið á neinum launum hjá félaginu. Þá hafi sigling þeirra á bátnum, þegar slysið varð, ekki verið þáttur í þeirri starfsemi sem fyrirhuguð var á vegum félagsins.

Þegar metið er hvort Guðmundur Sesar var í vinnu er slysið varð verður ekki fram hjá því litið að hann sat í stjórn ÍSG Ræktunar ehf. og var jafnframt framkvæmdastjóri félagsins. Þá verður heldur ekki fram hjá því litið að kaupin á bátnum voru liður í þeirri starfsemi sem félaginu var ætluð og flutningur bátsins til Reykjavíkur sömuleiðis. Enda þótt Guðmundur Sesar hafi ekki verið launaður starfsmaður félagsins þykir ljóst að hann hafi, er slysið varð, verið við vinnu í þágu félagsins. Er því fallist á með stefnda að þau atvik sem stefnandi byggir kröfu sína á falli utan gildissviðs VISA gullkortatryggingarinnar, sbr. gr. 1.4 í vátryggingar­skilmálunum. Ber því þegar af þeim sökum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Oddrúnar Kristófersdóttur.

Málskostnaður fellur niður.