Hæstiréttur íslands

Mál nr. 335/2010


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Kjarasamningur
  • Slysatrygging
  • Tómlæti


Fimmtudaginn 10. febrúar 2011.

Nr. 335/2010.

Vigdís Þórný Kjartansdóttir

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og

(Kristín Edwald hrl.)

Dvalarheimilinu Ási

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

Líkamstjón. Kjarasamningar. Slysatrygging. Tómlæti.

V krafðist skaðabóta úr hendi vinnuveitanda síns, D, og vátryggjandans, S hf., vegna líkamstjóns sem hún hlaut við vinnu sínu í nóvember 2006. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að óumdeilt sé að tilkynning um slysið hefði borist stefnda, S hf., í mars 2009. Yrði fallist á með S hf. að þá hafi verið liðinn sá frestur sem kveðið væri á um í 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Var S hf. því sýknað af kröfu V. Í málinu bar D fyrir sig að með því að hafa tekið sérstaka vátryggingu hjá S hf. væri það laust undan eigin skuldbindingu til greiðslu slysabóta, sbr. reglur sem fjármálaráðherra hefði sett á grundvelli kjarasamnings. Hæstiréttur taldi sýnt að fyrir tilstuðlan V hefði D í ágúst 2007 verið tilkynnt um slys hennar og að D hefði í engu getið þess að hafa tekið tryggingu samkvæmt fyrrgreindum reglum sem leystu það undan ábyrgð. Hefði D borið að tilkynna V þetta svo að hún gæti þá leitað réttar síns hjá vátryggjandanum. Voru kröfur V á hendur D því teknar til greina.    

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. júní 2010. Hún krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 1.895.680 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. mars 2009 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu.

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi, Dvalarheimilið Ás, krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi slasaðist 8. nóvember 2006. Fyrir liggja upplýsingar um að hún hafi strax sama dag leitað til heilsugæslunnar á Selfossi vegna slyssins og kvartað „um eymsli í vöðvum og vinstra megin í hnakka og herðum, öll undirlögð.“ Hún var í læknismeðferð og rannsóknum á heilsugæslunni framan af ári 2007. Kemur meðal annars fram í gögnum málsins að hún hafi gengist undir segulómskoðun í mars 2007 og hafi þar komið fram einkenni sem bentu til slits á sin „ofankambsvöðva.“ Áfrýjandi leitaði til Örnólfs Valdimarssonar bæklunarlæknis 30. maí þetta ár. Í vottorði hans 15. september 2008 kemur fram að hún hafi gengist undir aðgerð 13. ágúst 2007 „þar sem losað var um klemmu undir axlarbeini (decompression) og tekinn hluti af viðbeinsenda út við viðbeinslið til þess að létta verknum þaðan (AC resectio).“ Í örorkumatsgerð læknanna Leifs N. Dungal og Atla Þórs Ólasonar 10. nóvember 2008, sem nokkur grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi, voru svonefnd batahvörf áfrýjanda talin hafa verið 13. október 2007. Varanleg örorka var þar metin 12% og varanlegur miski til 12 stiga.

Óumdeilt er í málinu að tilkynning um slysið barst stefnda, Sjóvá – Almennum tryggingum hf., 4. mars 2009. Verður fallist á með þessum stefnda að þá hafi verið liðinn sá frestur sem kveðið er á um í niðurlagi 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, þar sem segir að sá sem eigi rétt til bóta samkvæmt slysatryggingu  glati rétti sínum „ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á.“ Leiðir þetta til þess að hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur að því er varðar þennan stefnda.

Kröfu sína á hendur stefnda, Dvalarheimilinu Ási, byggir áfrýjandi á því að í kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands, sem í gildi hafi verið þegar hún varð fyrir slysinu, hafi verið kveðið á um að starfsmenn skyldu vera slysatryggðir og um skilmála fyrir trygginguna skyldu gilda sérstakar reglur nr. 30/1990 og 31/1990 sem fjármálaráðherra hefði sett. Fyrrnefndu reglurnar, sem hér eiga við, eru meðal málsgagna. Í þeim er meðal annars kveðið svo á að tilkynna skuli slys eins fljótt og unnt sé til launaskrifstofu ríkisins. Aðilar eru sammála um að stefndi, Dvalarheimilið Ás, komi í stað launaskrifstofunnar í lögskiptunum við áfrýjanda sem um ræðir í málinu. Byggir þessi stefndi sýknukröfu sína á því að samkvæmt sérstöku ákvæði í reglunum taki slysatrygging samkvæmt þeim ekki til starfsmanna sjálfseignarstofnana, sem óumdeilt er að áfrýjandi tilheyri, ef viðkomandi stofnun tekur tryggingu vegna þeirra og tryggingin bætir dauða eða varanlega örorku. Með því að hafa tekið slíka vátryggingu hjá meðstefnda, Sjóvá – Almennum tryggingum hf., hafi stefndi, Dvalarheimilið Ás, verið laust undan sinni eigin skuldbindingu til greiðslu slysabóta samkvæmt reglunum.

Í málinu liggur fyrir að starfsmaður stéttarfélags áfrýjanda tilkynnti stefnda, Dvalarheimilinu Ási, um slysið með tölvubréfi 22. ágúst 2007. Í svari þessa stefnda 4. september sama ár er tekið fram að áfrýjandi hafi verið búin að hafa samband vegna málsins og staðfest að hún hafi verið við störf í þágu stefnda þegar hún slasaðist. Þess var í engu getið að stefndi hefði tekið tryggingu sem samkvæmt fyrrgreindum reglum leysir stefnda sjálfan undan ábyrgð samkvæmt reglunum. Verður fallist á með áfrýjanda að stefnda, Dvalarheimilinu Ási, hafi borið að tilkynna henni þetta svo hún gæti þá leitað réttar síns hjá vátryggjandanum. Með því að láta það farast fyrir verður talið að þessi stefndi geti ekki byggt á því gagnvart henni að hann hafi losnað undan ábyrgð sinni með því að taka vátrygginguna. Krafa áfrýjanda hefur ekki sætt tölulegum andmælum. Verður stefndi, Dvalarheimilið Ás, dæmt til að greiða áfrýjanda kröfuna og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að fella niður málskostnað gagnvart stefnda, Sjóvá – Almennum tryggingum hf.

Dómsorð:

Stefndi, Dvalarheimilið Ás, greiði áfrýjanda, Vigdísi Þórnýju Kjartansdóttur,   1.895.680 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. mars 2009 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.000.000 krónur.

Stefndi, Sjóvá – Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfu áfrýjanda.

Málskostnaður gagnvart stefnda, Sjóvá – Almennum tryggingum hf., fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2010.

Mál þetta sem tekið var til dóms 5. febrúar sl., er höfðað með birtingu stefnu 29. júní 2009.

Stefnandi er Vigdís Þórný Kjartansdóttir, Lambhaga 19, Selfossi.

Stefndu eru Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Kringlunni 5 og Dvalarheimilið Ás, Hverahlíð 20, Hveragerði.

Stefnandi krefst þess að stefndu greiði stefnanda óskipt 1.895.680 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. mars 2009 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndu greiði stefnanda óskipt málskostnað að skaðlausu samkvæmt gjaldskrá Markarinnar lögmannsstofu og að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., krefst sýknu af kröfum stefnanda og þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi, Dvalarheimilið Ás, krefst sýknu af kröfum stefnanda og þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

Málavextir

Stefnandi starfar sem sjúkraliði hjá stefnda, Ási, dvalarheimili. Um laun hennar fer samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands við samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu sem Ás dvalarheimili er aðili að.

Stefnandi lenti í slysi í starfi 9. nóvember 2006, er ekið var aftan á bifreið sem hún ók. Hún leitaði til Jórunnar Viðar Valgarðsdóttur heimilislæknis og kemur þar fram að eftir slysið hafi stefnandi m.a. haft  slæma verki í hægri öxl og gerð hafi verið MRI rannsókn af axlargrind hægra megin í mars 2007. Enn fremur komi fram að við þá skoðun hafi ,,útlitið verið mjög grunsamlegt fyrir rupturu á supraspinatus sininni, þó ekki fullkomin rifa við skoðun…“

Í vottorði Örnólfs Valdimarssonar bæklunarlæknis kemur fram að stefnandi hafi leitað fyrst til Örnólfs vegna þessa slyss 30. maí 2007. Þá kemur fram að Örnólfur hafi gert aðgerð 13. ágúst 2007 á hægri öxl, þar sem losað var um klemmu undir axlarbeini og tekinn hafi verið hluti af viðbeinsenda út við viðbeinslið til þess að létta verknum þaðan.

Stefnandi hlaut 12% varanlega örorku í slysinu samkvæmt matsgerð læknanna Leifs N. Dungal og Atla Þórs Ólasonar frá 10. nóvember 2008.

Þáverandi framkvæmdastjóri Sjúkraliðafélags Íslands, Gunnar Gunnarsson, sendi framkvæmdastjóra dvalarheimilisins tölvuskeyti 22. ágúst 2007 þar sem formlega var tilkynnt um slysið. Skrifstofustjóri Dvalarheimilisins Áss svaraði með tölvuskeyti 4. september 2007 og staðfesti að um vinnuslys hefði verið að ræða sem hefði verið tilkynnt.

Með bréfi frá 27. febrúar 2009, sem barst stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., 4. mars 2009 tilkynnti stefnandi stefnda um slysið og krafðist bóta úr slysatryggingu launþega sem dvalarheimilið Ás hefði keypt hjá stefnda, Sjóvá-Almenntum tryggingum hf. Stefndi hafnaði greiðslu bóta úr vátryggingunni, þar sem stefnandi hefði glatað öllum rétti til bóta vegna þess að ekki hefði verið tilkynnt um kröfuna innan árs frá því að stefnandi vissi um atvik sem hún væri reist á, með vísan til 51. gr. og 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveður að samkvæmt gr. 7.1.1. í kjarasamningi samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands skyldi stefnandi vera slysatryggð og hafi mismunandi bótafjárhæðir og skilmálar gilt eftir því hvort starfsmaður yrði fyrir slysi í starfi eða utan starfs. Um skilmála tryggingar þessarar gildi sérstakar reglur nr. 30/1990 og 31/1990 sem fjármálaráðherra hafi sett.

Ágreiningslaust sé að stefnandi hafi orðið fyrir slysi í starfi og eigi því reglur nr. 30/1990 við í málinu.

Í gr. 7.1.3 í ofangreindum kjarasamningi sé ákvæði um vátryggingafjárhæðir vegna varanlegrar örorku. Vegna slyss í starfi nemi bætur vegna 12% varanlegrar örorku í starfi 11.915.300 x 0,12 m.v. vísitölu 1. mars 2006, sem var 252.3 stig. Í mars 2009 hafi vísitalan verið 334,5 stig og samkvæmt því eigi bætur til stefnanda vegna 12% varanlegrar örorku að nema 1.895.680 krónum að höfuðstólsfjárhæð sem er stefnufjárhæðin í málinu.

Stefnandi telur að hvor stefndu um sig beri greiðsluskyldu gagnvart stefnanda, en í kröfugerðinni felist enn fremur það sem minna er, það er að annar hvor stefndu verði dæmdur til greiðslunnar, verði ábyrgðin ekki dæmd óskipt.

Kröfur á hendur stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

Stefnandi byggir á því að dvalarheimilið Ás hafi keypt hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. slysatryggingu fyrir starfsmenn sína, sem átt hafi að endurspegla skyldu dvalarheimilisins sem vinnuveitanda til að hafa starfsmenn slysatryggða samkvæmt áðurnefndum kjarasamningsákvæðum. Ágreiningslaust sé að stefnandi hafi þannig verið vátryggð hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., án þess að hafa verið tilkynnt það sérstaklega og án þess að stefnandi hafi fengið í hendur sérstakt vátryggingarskírteini. Krafa stefnanda á hendur Sjóvá er á því byggð að hún hafi verið vátryggð og að fjárkrafa hennar sé í samræmi við rétt hennar samkvæmt vátryggingunni sem dvalarheimilið keypti. Sjóvá hafi hafnað greiðsluskyldu með vísan til reglna 51. og 124. gr. laga nr. 30/2004 um að vátryggður glati rétti til bóta ef félagi sé ekki tilkynnt  krafa um bætur innan árs ,,frá því að hann vissi um atvik sem krafan er reist á“.

Í athugasemdum um 51. gr. í frumvarpi til laganna segi m.a.

Í þessari grein frumvarpsins eru reglur um tómlæti vátryggðs og réttaráhrif þess. Um þetta eru nú ákvæði í 30. gr. VSL. Þær reglur sem gerð er tillaga um í frumvarpsgreininni eru nokkuð rýmri í garð vátryggðs, a.m.k. veita þær honum meiri lágmarksvernd en gildandi reglur.

Stefnandi kveður að ljóst sé af orðalagi ákvæðisins að ársfrestur hefjist ekki við vátryggingaratburð, heldur við það tímamark að vátryggður hafi vitneskju um atvik, sem þurfi til þess að unnt sé að tilkynna um kröfu á hendur félaginu. Frumvarpsathugasemdirnar séu einnig til sönnunar um að það hafi ekki verið ætlun löggjafans með ákvæðinu að þrengja rétt vátryggðs frá því sem áður hafi verið. Allt þar til á árinu 2009 hafi stefnandi ekki haft tiltæka vitneskju um atvikin, sem máli hafi skipt í hennar tilviki, annars vegar um varanlega líkamstjónið, sem ekki hafi verið metið fyrr en í lok árs 2008 og hins vegar um að dvalarheimilið hefði keypt hjá Sjóvá slysatryggingu sem tekið hefði til stefnanda. Stefnandi hafi ekki gert neitt rangt í ferlinu og því fráleitt að hún hafi glatað rétti sínum samkvæmt slysatryggingunni.

Til viðbótar framangreindu byggi stefnandi á því að ákvæði laga nr. 30/2004 séu frávíkjanleg á þann veg að unnt sé að semja á annan veg en í lögunum greini, vátryggðum til hagsbóta. Hluti af skilmálum slysatryggingar stefnanda hafi verið reglur nr. 30/1991, sbr. tilvísun frá kjarasamningi. Í 13. gr. reglnanna segi að kröfur vegna tryggingarinnar ,,fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafinn fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar“. Samkvæmt reglunum nr. 30/1991 sé bótaréttur hennar samkvæmt slysatryggingunni enn fyrir hendi, sbr. einnig 2. tl. 8. gr. reglnanna og hún langt innan tímamarka með að sækja rétt sinn.

Krafa á hendur Dvalarheimilinu Ási.

Stefnandi kveður að krafa hennar á hendur ,,varastefnda“ byggist á áðurnefndum ákvæðum 7. gr. í kjarasamningi SLFÍ. Stefnandi hafi verið slysatryggð samkvæmt ákvæðunum hjá dvalarheimilinu sem vinnuveitanda. Þetta eigi aukinheldur við í tilviki stefnanda sem hafi ekki fengið tilkynningu um að slysatryggingin væri hjá Sjóvá, hvað þá að hún hafi samþykkt skuldskeytingu. Því liti stefnandi svo á að það sé henni í raun óviðkomandi hvort og þá hvar stefndi hafi keypt slysatryggingu. Sú trygging verði að skoðast sem e.k. endurtrygging eða baktrygging fyrir vinnuveitandann í þágu starfsmanns, en leysi vinnuveitanda ekki undan ábyrgð samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Krafa stefnanda sé þannig byggð á beinu kröfuréttarsambandi við vinnuveitanda hennar. Í málsástæðum fyrir kröfu á hendur Sjóvá, sé vísað til reglna nr. 30/1991. Samkvæmt 2. tl. 8. gr. reglnanna skuli vátryggður tilkynna slys svo fljótt sem unnt er til launaskrifstofu ríkisins. Eðli málsins samkvæmt beri að túlka þetta svo, þar sem dvalarheimilið sé ekki ríkisfyrirtæki, að tilkynningin skuli berast viðkomandi vinnuveitanda, eins og gert hafi verið í tilviki stefnanda af stéttarfélagi hennar. Einnig vísist til fyrningarreglunnar í 13. gr. Þessi ákvæði hafi átt við um slysatryggingu stefnanda samkvæmt kjarasamningnum og stefnandi hafi gert allt t il að viðhalda rétti sínum samkvæmt reglunum. Af því leiði að stefnandi hafi ekki glatað rétti sínum samkvæmt tryggingunni.

Sérstaklega sé á því byggt að hafi dvalarheimilið keypt slysatryggingu hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., fyrir starfsmenn sína, án þess að semja svo um að reglurnar nr. 30/1991 væru hluti skilmála, sem um slysatrygginguna gildi, leysi slík tryggingakaup dvalarheimilið ekki undan ábyrgð samkvæmt kjarasamningsákvæðum um slysatryggingu.

Við munnlegan flutning málsins reifaði lögmaður stefnanda þær málsástæður að stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. hafi borið að tilkynna stefnanda um trygginguna, skilmála hennar og ákvæði 124. gr. vátryggingarsamningalaga nr. 30/2004, að vátryggingarskírteinið hafi ekki fullnægt ákvæðum 10. gr. og 70. gr. laga um vátryggingarsamninga, að upplýsingaskyldu samkvæmt 70. gr. laganna hafi ekki verið fullnægt og að tilkynning til meðstefnda hafi verið fullnægjandi á grundvelli 134. gr. laganna.

Öllum þessum málsástæðum, sem og öðrum sem stefnandi reifaði við munnlegan málflutning málsins og ekki koma fram í stefnu, mótmæltu stefndu sem of seint fram komnum.

Málsástæður og lagarök stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi glatað rétti sínum til bóta, þar sem ekki hafi verið gerð krafa um bætur innan þess frests, sem tilgreindur sé í 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004. Fram komi í því ákvæði að sá sem eigi rétt til bóta samkvæmt slysa- eða sjúkratryggingu glati ,,þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á“.

Ákvæðið hafi að geyma ófrávíkjanlega reglu um réttaráhrif tómlætis vátryggingartaka. Það leiði af ákvæðinu að viðkomandi glati rétti sínum, tilkynni hann vátryggingarfélagi ekki um kröfu sína innan árs frá því að hann vissi um atvik sem eru tilefni kröfunnar. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 30/2004 er vísað til athugasemda við 51. gr. laganna sem hafi að geyma sambærilegt ákvæði. Þar komi fram að vátryggingarfélag hafi af því mikla hagsmuni að kröfur komi sem fyrst fram og að það hafi samfélagslega þýðingu að ljúka slíkum málum án óþarfa dráttar. Tekið er fram að ákvæðið geri kröfur til vátryggðs ,,af því að það er á hans ábyrgð ef hann gerir sér ekki grein fyrir að atvikin sem hann hefur fengið upplýsingar um veita honum rétt til vátryggingabóta“. Þá segi að ,,óhjákvæmilegt sé að skipa reglum með þessum hætti enda verði að ætlast til þess að vátryggður hafi sjálfur vara á sér í þessum efnum og í raun ekki öðrum til að dreifa í því sambandi“.

Þetta ákvæði sé hagfelldara tjónþolum en ákvæði 30. gr. eldri laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, svo sem fram komi í greinargerð með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 30/2004. Það sé ljóst að með ákvæðinu sé ætlunin að taka tillit til hagsmuna bæði vátryggingartaka og vátryggingarfélags með því að feta bil beggja. Með hliðsjón af þessu hafi löggjafinn talið sanngjarnt að veita vátryggingartaka eins árs frest til að tilkynna um atburð sem bótakrafa er risin af frá þeim tíma sem hann hafi fengið vitneskju um atvikin.

Rétt sé að taka fram, vegna tilvísunar í stefnu til fyrningarreglna, að ákvæði 124. gr. laga nr. 30/2004 sé óskylt fyrningu krafna. Um sé að ræða sérstaka reglu um réttaráhrif þess að vátryggingartaki sinni ekki tilkynningarskyldu sinni og sé reglan því annars eðlis en fyrningarreglur. Sé ákvæði 13. gr. reglna nr. 30/1991 sem og aðrar fyrningarreglur því málinu óviðkomandi, enda ekki byggt á því af hálfu stefnda að krafa stefnanda sé fyrnd.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi haft vitneskju um þau atvik sem bótakrafa hennar er reist á, sbr. 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004, þegar hún hafði verið greind með mögulega áverka á supraspinatus sininni með segulómskoðun í mars 2007. Hafi ársfrestur til að senda stefnanda tilkynningu því byrjað að líða eigi síðar en á því tímamarki. Verði ekki fallist á það, byggi stefndi á því að stefnandi hafi að minnsta kosti við aðgerð á öxl þann 13. ágúst 2007 haft vitneskju um þau atvik, en í öllu falli geti þetta tímamark með engu móti verið síðar en við batahvörf sem voru 13. október 2007. Í samræmi við skýrt orðalag 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 hafi stefnanda borið að tilkynna stefnda innan árs frá því henni var kunnugt um atvikin, hygðist hún krefjast bóta vegna tjónsins. Stefnandi hafi hins vegar ekki tilkynnt stefnda um kröfu sína fyrr en með tilkynningu sem hafi borist stefnda 4. mars 2009. Hafi ársfresturinn þá verið liðinn, hvort sem miðað er við vitneskju stefnanda um áverkana í mars 2007, aðgerðina í ágúst 2007, eða stöðugleikatímapunkt í október 2007. Verði því að sýkna stefnda af kröfu hennar á grundvelli hinnar fortakslausu og ófrávíkjanlegu reglu 1. mgr. 124. gr. laganna.

Málsástæður og lagarök meðstefnda, Dvalarheimilisins Áss.

Stefndi bendir á, að vegna þeirra málsástæðna sem stefnandi vísi til á grundvelli reglna nr. 30/1990, komi fram í 4. tl. 3. gr. þeirra reglna nr. 30/1990 að ,,slysatrygging skv. reglum þessum tekur þó ekki til starfsmanna er falla undir ákvæði 1. -3. mgr. ef viðkomandi stofnun kaupir tryggingu vegna þeirra og tryggingin bætir dauða og varanlegu örorku“. Stefndi falli nákvæmlega undir þann flokk, þ.e. Dvalarheimilið Ás hafi keypt slíka tryggingu. Því taki slysatrygging samkvæmt reglum nr. 30/1900 ekki til stefnanda. 

Þá bendir stefndi á að af orðalagi stefnu verði ekki annað séð en að stefnandi líti svo á að samkvæmt kjarasamningi SLFÍ hefði stefnandi átt að vera vátryggður hjá stefnda og að með kaupum stefnda á vátryggingu hjá meðstefnda fyrir starfsmenn sína, hafi átt sér stað skuldskeyting. Stefndi hafni þessum skilningi stefnanda. Jafnframt bendir stefndi á að stefnandi hafi ekki verið ríkisstarfsmaður og því eigi reglur nr. 30/1990 um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slyss, sem starfsmenn verði fyrir í starfi, ekki við um stefnanda, enda lúti tilvísun til reglnanna í kjarasamningi eingöngu að skilmálum tryggingarinnar. Í grein 7.1.1 í kjarasamningum segi: ,,Starfsmenn skulu slysatryggðir allan sólarhringinn fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku. Um trygginguna gilda mismunandi bótafjárhæðir og tryggingarskilmálar eftir því hvort starfsmaður verður fyrir slysi í starfi eða utan starfs. Um skilmála trygginga þessara gilda sérstakar reglur nr. 30/1900 og 31/1990 sem fjármálaráðherra hefur sett.“

Af orðalagi ákvæðisins sé ljóst að tilvísun til reglna nr. 30/1990 í fyrrnefndum kjarasamningi þjóni þeim tilgangi að tryggja að allir sjúkraliðar, hvort sem þeir eru ríkisstarfsmenn eða starfsmenn annarra heilbrigðisstofnana, njóti í öllum tilvikum sams konar tryggingarverndar.

Stefndi hafni því að ákvæði fyrrgreinds kjarasamnings og reglna 30/1900 beri að túlka þannig að stefnandi geti átt beinan kröfurétt á hendur stefnda. Í því sambandi sé rétt að hafa í huga að stefndi hafi uppfyllt allar skyldur sínar samkvæmt kjarasamningnum um slysatryggingu, enda hafi stefnandi verið vátryggð hjá meðstefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., er slys varð. Stefnandi hafi með engu móti sýnt fram á að hún hafi notið síðri tryggingaverndar en reglur 30/1900 kveði á um.

Ekki stoði fyrir stefnanda að bera því við að hún hafi tilkynnt stefnda, dvalarheimilinu Ási, um slysið, með vísan til 2. tl. 8. gr. reglna nr. 30/1900, enda séu engar sérstakar réttarverkanir tengdar því ákvæði, auk þess sem reglurnar hafi ekki átt við um hana sbr. 4. tl. 3. gr. reglnanna.

Á stefnanda og engum öðrum hafi hvílt sjálfstæð skylda til að tilkynna vátryggjanda um slysið, eins og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 30/2004 kveði á um. Í ákvæðinu segi: ,,Vátryggður glatar rétti til bóta ef hann tilkynnir félaginu ekki um kröfu sína innan árs frá því hann vissi um atvik sem hún er reist á“

Samkvæmt textaskýringu ákvæðisins verði það ekki skilið öðru vísi en að sú skylda að tilkynna tjónið til vátryggingafélags sé lögð á þann sem er vátryggður, þ.e. þann sem verði fyrir tjóni. Sú skýring eigi sér jafnframt stoð í lögskýringargögnum, en í sérstökum athugasemdum með greininni í frumvarpi til laganna segi m.a.: ,,Ákvæðið gerir kröfur til vátryggðs af því að það er á hans ábyrgð ef hann gerir sér ekki grein fyrir að atvikin sem hann hefur fengið upplýsingar um veita honum rétt til vátryggingarbóta. Er óhjákvæmilegt að skipa reglum með þessum hætti, enda verður að ætlast til að vátryggður hafi sjálfur vara á sér í þessum efnum og í raun ekki öðrum til að dreifa.“

Með hliðsjón af öllu framangreindu, og því að stefnanda var í lófa lagið að afla sér upplýsinga um hjá hvaða vátryggingarfélagi stefndi hafði keypt slysatryggingu fyrir launþega sína, sé því ljóst að á stefnanda hvíldi sjálfstæð skylda til að tilkynna tjón sitt til þess félags og verði hún að bera allan halla af þeirri vanrækslu.

Þá er kröfufjárhæð stefnanda mótmælt.

Niðurstaða

Stefnandi máls þessa varð fyrir slysi 9. nóvember 2006. Er óumdeilt að slys þetta er viðurkennt sem vinnuslys af hálfu meðstefnda, Dvalarheimilisins Áss, enda var stefnandi að sinna erindum á vegum vinnunnar, er slys varð.

Í málinu er á því byggt af hálfu stefnanda að ársfrestur samkvæmt 51. gr. og 124. gr. laga nr. 30/2004 hafi ekki verið liðinn er stefnandi tilkynnti um slys sitt til stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf. með bréfi er barst stefnda 4. mars 2009. Þá er og á því byggt að hún hafi ekki haft vitneskju um að dvalarheimilið Ás hefði keypt slysatryggingu er tók til hennar.

Í 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 segir að sá sem á rétt til bóta samkvæmt slysa- eða sjúkratryggingu glati þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á.

Meðal gagna málsins er læknisvottorð Jórunnar Viðar Valgarðsdóttur frá 14. apríl 2008. Í niðurstöðu þess kemur fram að stefnandi hafi haft einkenni frá stoðkerfi lengi. Hins vegar hafi hún versnað mikið í skrokknum eftir að ekið var aftan á hennar kyrrstæða bíl á um 70 km. hraða í nóvember 2006 og hafi hún leitað samdægurs á heilsugæsluna á Selfossi. Hún hafi fengið slæman hálshnykk og haft eftir það meiri verki í herðum og öxlum og hafi það haft sínar eftirstöðvar. Hún hafi t.d. verið skorin vegna slits á supraspinatus sin í hægri öxl í ágúst 2007.

Þá liggur frammi læknisvottorð Örnólfs Valdimarssonar bæklunarlæknis frá 15. september 2008. Í því kemur fram að vottorðið sé gefið vegna afleiðinga umferðarslyss sem stefnandi hafi orðið fyrir í nóvember 2006. Þá kemur þar fram að stefnandi hafi fyrst leitað til læknisins 30. maí 2007 vegna þessa slyss. Þar kemur og fram að segulómskoðun sem gerð var á Landspítalanum hafi sýnt mögulegan áverka á supraspinatus og því hafi verið ákveðið að gera aðgerð á öxlinni sem fór fram 13. ágúst 2007.

Læknarnir Atli Þór Ólason og Leifur N. Dungal mátu afleiðingar slyssins á heilsufar stefnanda. Niðurstaða þeirra lá fyrir í matsgerð sem dagsett er 10. nóvember 2008. Metin var varanleg 12% örorka stefnanda og batahvörf voru talin vera 13. október 2007.

Eins og að framan greinir leitaði stefnandi á heilsugæslustöð sama dag og ekið var aftan á hana og hún varð fyrir þeim meiðslum sem mál þetta er sprottið af. Hún fór í aðgerð á öxl vegna meiðslanna 13. ágúst 2007. Verður að telja að eigi síðar en við það tímamark hafi stefnanda verið kunnugt um þau atvik sem hún gæti reist bótakröfu sína á gagnvart stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. á grundvelli þeirra vátrygginga sem um ræðir í máli þessu. Frestur samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 var því liðinn þegar stefnandi tilkynnti um vinnuslysið með bréfi sem barst stefnda 4. mars 2009.

Verður þá vikið að þeirri málsástæðu stefnanda að hún hafi ekki haft vitneskju um að meðstefndi, dvalarheimilið Ás hefði keypt hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf.,  slysatryggingu sem tók til hennar.

Í stefnu er málsástæða þessi ekki reifuð að neinu öðru leyti en þessu, þ.e. að hún hafi ekki haft vitneskju um slysatrygginguna. Við munnlegan málflutning stefnanda voru reifaðar málsástæður er lutu að því að stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. hafi borið að tilkynna stefnanda um trygginguna, skilmála hennar og ákvæði 124. gr. vátryggingarsamningalaga nr. 30/2004, að vátryggingarskírteinið hafi ekki fullnægt ákvæðum 10. gr. og 70. gr. laga um vátryggingarsamninga, að upplýsingaskyldu samkvæmt 70. gr. laganna hafi ekki verið fullnægt og að tilkynning til meðstefnda hafi verið fullnægjandi á grundvelli 134. gr. laganna. Öllum þessum málsástæðum mótmæltu stefndu sem of seint fram komnum, en lögmaður stefnanda taldi þær felast í þeirri málsástæðu sinni að stefnandi hefði ekki haft vitneskju um að dvalarheimilið hefði keypt hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., slysatryggingu sem tók til hennar. Verður ekki á það fallist að ofangreindar málsástæður felist allar í þeirri málsástæðu hennar að hún hefði ekki haft vitneskju um að dvalarheimilið hefði keypt slíka slysatryggingu.

Enn síður er fallist á að stefnandi hafi einvörðungu í málflutningi verið að vísa til réttarreglna sem dómari geti beitt af sjálfsdáðum til að komast að niðurstöðu eftir því sem málsástæður gefi tilefni til. Málsástæður þær sem stefnandi reifaði við munnlegan málflutning málsins hefðu þurft að koma fram á fyrri stigum málsins, svo að stefnda væri unnt að koma að vörnum sínum vegna þeirra, leggja fram skjöl og leiða vitni, enda eru ákveðnar réttarverkanir bundnar við það hvernig ákvæðum laganna er framfylgt m.a. gagnvart þátttakendum í hópvátryggingum. Þar sem málsástæðum þessum hefur verið mótmælt sem of seint fram komnum verður ekki um þær fjallað. Þá hefur vátryggingarsamningur sá sem mál þetta lýtur að ekki verið lagður fram, eða nokkur þau skjöl sem sýnt geti fram á efni vátryggingarsamningsins og skilmála hans, eða réttmæti staðhæfingar stefnanda þess efnis að hún hafi ekki haft vitneskju um að dvalarheimilið hefði keypt slysatryggingu hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

Af hálfu stefnda er ekki byggt á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Einvörðungu er ágreiningur um hvort stefnandi hafi glatað rétti sínum til bóta á grundvelli 124. gr. laga nr. 30/2004 vegna tómlætis. Á því tilvísun stefnanda til 13. gr. reglna nr. 30/1991 ekki við í máli þessu.

                Kröfu sína á hendur meðstefnda, Dvalarheimilinu Ási, hefur stefnandi byggt á áðurnefndum ákvæðum 7. gr. samkomulags um breytingar og framlengingu á kjarasamningi milli Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands. Óumdeilt er að stefnandi var slysatryggð hjá meðstefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., á grundvelli þess ákvæðis. Jafnframt er óumdeilt að slysið var tilkynnt til meðstefnda, Dvalarheimilisins Áss, 22. ágúst 2007, sbr. 2. tl. 8. gr. reglna nr. 30/1990, en slík tilkynning hefur ekki þá réttarverkun að jafnað verði til tilkynningar um vátryggingaratburð samkvæmt 124. gr. laga nr. 30/2004, eins og ráða má af málatilbúnaði stefnanda. Þá á tilvísun stefnanda til 13. gr. reglna nr. 30/1991 ekki við í máli þessu, eins og að framan greinir.

Eins og rakið hefur verið varðandi kröfu á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., telur dómurinn að eigi síðar en við það tímamark er stefnandi fór í aðgerð á öxl í ágúst 2007, hafi henni verið kunnugt um þau atvik sem hún gæti reist bótakröfu sína á gagnvart tryggingafélaginu á grundvelli þeirra vátrygginga sem um ræðir í máli þessu. Verður fallist á það með stefnda, Dvalarheimilinu Ási, að stefnanda hafi verið í lófa lagið að afla sér upplýsinga um það, hjá hvaða vátryggingafélagi stefndi hefði keypt slysatryggingu fyrir launþega sína og var frestur samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 því liðinn þegar stefnandi tilkynnti um vinnuslysið með bréfi sem barst stefnda 4. mars 2009.

Þegar allt framanrakið er virt, verða stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Dvalarheimilið Ás, sýknaðir af kröfu stefnanda.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og þeirra vafaatriða sem eru í málinu, er rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Dvalarheimilið Ás, eru sýknir af kröfum stefnanda, Vigdísar Þórnýjar Kjartansdóttur.

Málskostnaður fellur niður.