Hæstiréttur íslands
Mál nr. 102/2002
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Forsenda
- Umboð
- Ógilding samnings
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2002. |
|
Nr. 102/2002. |
Peder Nielsen(Tómas Jónsson hrl.) gegn Þráni Hjálmarssyni (Andri Árnason hrl.) |
Lausafjárkaup. Forsendur. Umboð. Ógilding samnings.
Þ, sem var bóndi að atvinnu en rak einnig vörubifreið í atvinnuskyni, hafði komist í samband við Á í gegnum blaðaauglýsingu og taldi Á sig geta útvegað Þ vörubifreið frá Danmörku. Þ gerði Á grein fyrir verðhugmyndum sínum og að bifreiðin þyrfti að vera búin svokölluðum loftbúkka. Bauð Á Þ til Danmerkur að skoða vörubifreið sem Á kvað fást fyrir endurgjald sem væri í samræmi við verðhugmyndir Þ, að meðtöldum þeim breytingum sem gera þyrfti á bifreiðinni við að búa hana loftbúkka. Í Danmörku ritaði Þ samþykkivokölluðum loftbúkka. Bauð Á Þ til Danmerkur að skoða vörubifreið sem Á kvað fást fyrir endurgjald sem væri í samræmi við verðhugmyndir Þ, að meðtöldum þeim breytingu sitt án fyrirvara á reikning seljandans, P, fyrir bifreiðinni ásamt fylgihlutum, m.a. loftbúkka. Eftir komu Þ til Íslands kom í ljós að kostnaður við að útbúa bifreiðina loftbúkka var mun meiri en Á hefði talað um og þegar í kjölfarið tilkynni Þ Á að ekki gæti orðið af kaupunum. P taldi samning hafa verið kominn á um kaupin og krafði Þ um greiðslu á reikningnum. Var talið að Þ hafi haft réttmæta ástæðu til að líta svo á að Á hefði haft stöðuumboð sem sölumaður fyrir P í viðskiptunum. Var Þ því heimilt að beina tilkynningu sinni um að ekki yrði úr kaupunum að Á. Þá var fallist á með P að formlega gildur samningur hafi komist á milli aðilanna en ekki aðeins gefin út viljayfirlýsing, svo sem Þ hélt fram. Var talið að gera hafi mátt þá kröfu til P, sem hefði atvinnu af því að selja vörbifreiðir og gámabifreiðir, að hann kannaði rækilega hvort forsendur Þ um útbúnað bifreiðarinnar og verð stæðust, en hins vegar hafi hann látið það sig einu gilda. Ófullnægjandi upplýsingar af hálfu P hafi leitt til þess að Þ gekk til kaupanna í trausti þess að kostnaður við að breyta bifreiðinni væri mun minni en raun varð á. Var fallist á með Þ að ósanngjarnt væri af hálfu P að bera samninginn fyrir sig og að honum yrði því vikið til hliðar í heild með stoð í 36. gr. samningalaga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2002. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 180.000 danskar krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. ágúst 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til þess að um sumarið 2000 sá stefndi auglýsingu í dagblaði, þar sem boðin var til sölu notuð vörubifreið af árgerð 1992, ekin 340.000 kílómetra. Var ásett verð 2.200.000 krónur auk virðisaukaskatts. Er stefndi bóndi að atvinnu, en rekur einnig vörubifreið í atvinnuskyni samhliða því starfi. Hringdi hann í símanúmer, sem gefið var upp í auglýsingunni, þar sem Árni Sigurpálsson varð fyrir svörum. Reyndist bifreiðin þá vera seld. Árni taldi sig hins vegar geta útvegað aðra vörubifreið frá Danmörku og bað stefndi hann að athuga fyrir sig með slíka bifreið, búna svokölluðum loftbúkka og með burðargetu fyrir 26 tonn til vöruflutninga. Er komið fram að með loftbúkka sé átt við að tveir öxlar eru undir bifreið að aftan og sé hún þannig útbúin að lyfta megi öðrum þeirra upp ef lítil eða engin byrði er á bifreiðinni. Nokkru síðar hafði Árni samband við stefnda og bauð fyrir hönd áfrýjanda að selja honum aðra vörubifreið, sem uppfyllti kröfur stefnda um gæði. Ásett verð var hins vegar hærra en stefndi taldi sig hafa bolmagn til að greiða og varð ekki af viðskiptunum. Við skýrslutöku fyrir dómi taldi stefndi að sú bifreið hafi átt að kosta 2.500.000 krónur.
Enn hafði Árni samband við stefnda, þar sem hinn fyrrnefndi var staddur í Danmörku, og bauð honum fyrir hönd áfrýjanda til kaups Scania vörubifreið af árgerð 1990, sem ekið hafði verið 450.000 kílómetra. Fengist hún fyrir endurgjald, sem væri í samræmi við verðhugmyndir stefnda. Kveður stefndi Árna hafa hvatt sig til að koma tafarlaust til Danmerkur til að skoða bifreiðina og jafnframt boðist til að greiða flugfargjaldið hvort sem af kaupunum yrði eða ekki. Hélt stefndi utan 15. ágúst 2000 og skoðaði umrædda bifreið samdægurs. Var hún ekki búin loftbúkka, en að öðru leyti virðist stefndi í meginatriðum hafa sætt sig við ástand hennar og verð. Er meðal málskjala reikningur áfrýjanda 16. ágúst 2000 til stefnda fyrir bifreiðinni ásamt fylgihlutum, sem voru loftbúkki, gámagrind og vindstýri. Samanlagt verð bifreiðarinnar og fylgihlutanna á reikningi áfrýjanda var 180.000 danskar krónur. Undirritaði stefndi skjalið þar sem skráð er: „Køber accepterer hermed købet.“ Hélt áfrýjandi til Íslands 17. ágúst 2000. Sama dag var fylgihlutunum komið fyrir á palli annarar vörubifreiðar, sem áfrýjandi seldi til Íslands, og lagði skip úr höfn í Danmörku með þá tveimur dögum síðar. Er komið fram að fylgihlutirnir voru ekki nýir og keyptir á bílapartasölu í samráði við stefnda. Ekki liggur fyrir um verð þeirra, en stefndi telur verðmæti þeirra vera lítið.
Stefndi kveðst hafa kannað hjá nokkrum bifreiðaverkstæðum þegar að morgni föstudags 18. ágúst 2000 hver kostnaður yrði af því að útbúa bifreiðina með loftbúkka. Hafi hann einnig haft samband við Heklu hf., sem hafði umboð fyrir Scania bifreiðir. Þau svör hafi fengist að styrkja þyrfti grind bifreiðarinnar verulega og að kostnaður yrði milli 500.000 til 1.000.000 krónur. Væri auk þess alls ekki víst að unnt yrði að breyta bifreiðinni með þessum hætti. Kveðst stefndi hafa hringt samdægurs í Árna og sagt honum að með þessu væri nú í ljós leitt að kostnaður við að breyta bifreiðinni væri margfalt hærri en gengið hafi verið út frá við samningsgerðina. Gæti samkvæmt því ekki orðið af kaupunum. Hafi hann jafnframt endurgreitt Árna kostnað vegna utanferðarinnar og búist við að málinu væri þar með lokið. Skýrði Árni áfrýjanda frá þessari breyttu afstöðu stefnda og ákvað áfrýjandi að senda bifreiðina ekki til Íslands við svo búið. Er hún enn á starfsstöð áfrýjanda og hefur hann ekki reynt að selja hana öðrum. Við meðferð málsins hafa aðilar ekki orðið á eitt sáttir um það hvenær stefndi tilkynnti Árna ákvörðun sína að hætta við kaupin. Í stefnu áfrýjanda til héraðsdóms var það sagt hafa gerst 18. eða 19. ágúst 2000, en í skýrslu sinni fyrir dómi taldi Árni stefnda ekki hafa haft samband við sig fyrr en 21. sama mánaðar. Hefur áfrýjandi eftir það haldið sig við þá dagsetningu. Stefndi heldur fast við að samtalið hafi orðið 18. ágúst 2000 og að áfrýjandi hefði samkvæmt því getað náð fylgihlutunum til sín aftur áður en skip lagði úr höfn með þá 19. sama mánaðar.
Af hálfu áfrýjanda var stefndi krafinn um greiðslu á áðurnefndum reikningi með bréfi þáverandi lögmanns þess fyrstnefnda 15. september 2000. Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um efndir á samningi þeirra og var stefnan þingfest fyrir héraðsdómi 1. mars 2001.
II.
Aðilana greinir á um það hver staða Árna Sigurpálssonar hafi verið í samskiptum þeirra. Hefur stefndi skýrt svo frá að hann hvorki tali né lesi dönsku og hafi viðskiptin í Danmörku orðið fyrir milligöngu Árna, sem túlkaði fyrir stefnda allt, sem fram fór. Árni hafi orðið fyrir svörum þegar stefndi gaf sig upphaflega fram vegna auglýsingar í dagblaði á Íslandi og síðan boðið honum til kaups fyrir hönd áfrýjanda tvær aðrar bifreiðir. Hafi stefndi aldrei haft tilefni til að ætla annað en að Árni kæmi fram sem umboðsmaður áfrýjanda í viðskiptunum. Áfrýjandi reisir kröfur sínar hins vegar á því að Árni hafi ekki haft stöðu umboðsmanns í viðskiptunum við stefnda. Sjálfur tali áfrýjandi ekki íslensku og hafi milliganga Árna eingöngu verið kunningjagreiði við sig. Fyrir dómi skýrði áfrýjandi svo frá að hann stundi verslun með notaðar vörubifreiðir og gámabifreiðir og hafi Árni haft milligöngu fyrir sig við sölu nokkurra slíkra bæði í Danmörku og á Íslandi. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu áfrýjanda að Árni geti hafa haft stöðu umboðsmanns í einhverjum fyrri tilvikum þar sem áfrýjandi seldi bifreiðir, en það hafi ekki átt við nú. Árni skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi enga bifreið selt fyrir áfrýjanda því það hafi hann jafnan gert sjálfur. Hlutverk sitt hafi eingöngu verið að túlka og gefa upplýsingar ef menn hafi viljað leita eftir þeim. Þetta hafi hann gert í greiðaskyni við áfrýjanda og aldrei fengið neitt fyrir það í sinn hlut ef undan sé skilinn flugfarmiði í eitt skipti.
Um nánari samskipti sín við Árna segir stefndi að frá upphafi hafi hinum fyrrnefnda verið ljóst hvaða kostum sú bifreið yrði að vera búin, sem stefndi hygðist kaupa. Hinu sama gegndi um það verð, sem hann teldi sig geta greitt. Hafi Árni staðhæft að unnt yrði að útbúa Scania bifreiðina, sem um ræðir í málinu, með loftbúkka fyrir 50.000 til 150.000 krónur og að forsendur sínar um heildarverð stæðust því. Árni hafi komið sér í samband við Eið Jónsson, sem reki bifreiðaverkstæði í Köldukinn, og talið að hann væri reiðubúinn að vinna verkið fyrir greiðslu á þessu verðbili. Þegar stefndi hafi sjálfur talað við Eið í síma frá Danmörku hafi hinn síðastnefndi hins vegar ekki viljað tjá sig neitt um kostnað við verkið fyrr en eftir skoðun á bifreiðinni og loftbúkkanum. Engu að síður hafi Árni staðið fast á því að þetta væri unnt og lagt hart að sér að ganga til samninga um kaup á bifreiðinni. Hafi stefndi treyst orðum Árna og því undirritað reikning áfrýjanda. Árni staðfesti í framburði sínum fyrir dómi að stefndi hafi viljað fá bifreið með loftbúkka. Hann mótmælti því hins vegar að hafa fullyrt neitt um kostnað við að útbúa bifreiðina þannig að hún fullnægði kröfum stefnda. Hann hafi komið honum í samband við Eið og svör fengist frá honum. Stefndi hafi sjálfur skoðað bifreiðina og að öðru leyti fengið þær upplýsingar um hana, sem óskað var eftir og að því búnu tekið ákvörðun um kaupin. Þá hafi stefndi fengið senda mynd af bifreiðinni og skoðunarvottorð fyrir hana áður en hann hélt til Danmerkur 15. ágúst 2000.
III.
Meðal málsgagna er yfirmatsgerð 15. október 2001, sem aflað var undir rekstri málsins í héraði að tilhlutan stefnda. Er hún gerð af Höskuldi Guðmundssyni, bifreiðasmíðameistara og Guðmundi Bjarnasyni, vélvirkjameistara og rekstrartæknifræðingi, sem svöruðu þar þeim spurningum hvort unnt væri að festa loftbúkkann á bifreiðina þannig að hún fengi fullnægjandi burðargetu og yrði skráningarhæf, hver kostnaður yrði af verkinu og hvort breytingin svaraði kostnaði þegar litið væri til þess hvað sambærileg vörubifreið, útbúin með loftbúkka, kostaði. Í matsgerð þeirra kom fram að fara yrði nákvæmlega eftir leiðbeiningum framleiðanda bifreiðarinnar. Grind hennar væri úr 8 millimetra þykku stáli, en það væri veikasta grindin, sem notuð var á þeim tíma þegar bifreiðin var smíðuð. Í loftbúkkanum væri hins vegar 9,5 millimetra þykkt stál og væru aldrei soðnir saman grindarbitar úr misjafnlega þykku stáli því mikil hætta væri á að sprungur mynduðust í þynnri grindinni á samskeytum. Var síðan ítarlega lýst hvernig styrkja yrði grind bifreiðarinnar og breyta hemlakerfi hennar til þess að unnt væri að útbúa hana með loftbúkka. Töldu þeir kostnað við breytinguna nema 824.572 krónum. Verð bifreiðarinnar á kaupdegi væri 2.221.653 krónur þegar tillit hefði verið tekið til uppskipunargjalds, gjalda vegna ökurita, virðisaukaskatts og annars óhjákvæmilegs kostnaðar auk sjálfs kaupverðsins. Heildarverð bifreiðarinnar, eftir að hafa verið útbúin með loftbúkka, væri því 3.046.225 krónur. Söluverð sambærilegrar bifreiðar á Íslandi í ágúst eða september 2000 töldu þeir hafa verið 2.116.500 til 2.365.500 krónur. Ekki sé teljandi munur á verði bifreiðar af þessari gerð eftir því hvort hún sé með eða án loftbúkka þegar hún sé orðin jafn gömul og sú, sem hér var um að ræða, en þann mun töldu þeir geta numið um 200.000 krónum. Síðustu spurningunni í matsbeiðninni svöruðu þeir neitandi. Yfirmatsmenn staðfestu matsgerðina fyrir dómi.
Eiður Jónsson gaf skýrslu fyrir dómi, en hann gerði stefnda tilboð í júní 2001 um að festa loftbúkkann undir bifreiðina fyrir 45.000 krónur auk virðisaukaskatts. Kom fram við skýrslutökuna að hann hafi sent þáverandi lögmanni áfrýjanda tilboðið. Staðfesti Eiður að í boði hans fælist ekki annað en að rafsjóða loftbúkkann fastan, en ekki væri þar gert ráð fyrir að styrkja grind bifreiðarinnar eða gera neitt annað en „það sem beðið var um.“
Áfrýjandi reisir kröfur sínar á þeirri málsástæðu að samningur hafi komist á milli aðilanna, sem stefndi sé bundinn af. Vísar hann um það til reikningsins, sem áður var getið, og fyrirvaralausrar undirritunar stefnda á hann. Stefndi hafi skoðað bifreiðina vandlega fyrir kaupin og fylgihlutirnir hafi verið keyptir samkvæmt ósk hans sjálfs, sem hafi ráðið vali á þeim. Þá séu engar aðstæður fyrir hendi, sem geti leitt til þeirrar niðurstöðu að stefndi geti lýst sig óbundinn af samningnum. Hann hafi átt þess kost að kynna sér eftir þörfum kostnað við að útbúa bifreiðina með loftbúkka, þar á meðal hjá Heklu hf., áður en hann gekk til kaupanna. Með því að gera það ekki hafi hann tekið áhættu og verði hann sjálfur að bera ábyrgð á því að forsendur hans um kostnað hafi ekki staðist. Er því loks mótmælt að Árni Sigurpálsson hafi gefið bindandi yfirlýsingar eða loforð um kostnað við að breyta bifreiðinni, auk þess sem hann hafi ekki haft umboð til að koma fram fyrir hönd áfrýjanda við kaupin.
Í málatilbúnaði sínum byggir stefndi aðallega á því að bindandi samningur hafi ekki komist á milli aðilanna. Hafi hann ekki litið á reikning áfrýjanda sem kaupsamning eða ígildi hans, heldur sem viljayfirlýsingu um kaup þar sem átt hafi eftir að kanna betur hver kostnaður fylgdi þeim. Forsendur hans fyrir kaupunum hafi legið alveg ljósar fyrir og eftir heimkomu hans hafi strax fengist upplýsingar um að þær stæðust ekki. Hafi það verið tilkynnt umboðsmanni áfrýjanda án tafar. Þá hafi ýmis atriði enn verið óútkljáð, sem ekki sé kveðið á um í reikningnum. Verði hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að samningur hafi komist á telji hann sig óbundinn af honum. Vísar hann um það til III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum og þá einkum til 33. gr. og 36. gr. laganna, sem hann telur eiga hér við. Málsástæður aðilanna eru að öðru leyti raktar í héraðsdómi.
IV.
Í bréfi þáverandi lögmanns áfrýjanda til stefnda 15. september 2000 var tekið fram að hinn síðastnefndi hafi upphaflega sett sig í samband við umboðsmann áfrýjanda, Árna Sigurpálsson. Í stefnu var stöðu Árna hins vegar lýst svo að hann hafi verið aðstoðarmaður áfrýjanda hér á landi. Undir rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti var hlutverki hans lýst með þeim hætti, sem nánar var gerð grein fyrir í II. kafla að framan. Er þar einnig rakið hvað Árni lagði sjálfur til mála um það atriði í skýrslu sinni fyrir dómi. Að öllu virtu verður fallist á með stefnda að hann hafi haft réttmæta ástæðu til að líta svo á að Árni hefði stöðuumboð sem sölumaður fyrir áfrýjanda í viðskiptunum. Var stefnda heimilt að beina tilkynningu sinni um að ekki yrði úr kaupum að Árna.
Af hálfu áfrýjanda er komið fram að hann hafi í starfsemi sinni jafnan haft þann hátt á að gera kaupanda bifreiðar reikning og hafi þá ekki verið gerður eiginlegur kaupsamningur. Í tilviki stefnda hafi ekki verið um staðgreiðsluviðskipti að ræða, heldur gert ráð fyrir að stefndi greiddi kaupverðið inn á bankareikning áfrýjanda, sem skyldi senda hið selda um hæl. Heldur hann fram að sú aðferð sé í samræmi við algenga viðskiptahætti. Stefndi undirritaði reikninginn um samþykki sitt án fyrirvara. Að virtu því, sem að framan er rakið, verður fallist á með áfrýjanda að formlega gildur samningur hafi komist á milli aðilanna en ekki aðeins gefin út viljayfirlýsing, svo sem stefndi heldur fram. Breytir engu um það þótt ekki hafi samkvæmt hljóðan reikningsins eða með öðru móti verið gengið frá alveg öllum atriðum, sem tengdust viðskiptum aðilanna.
Svo sem áður er komið fram stundar áfrýjandi verslun með notaðar vörubifreiðir og gámabifreiðir. Í málatilbúnaði hans er viðurkennt að stefndi hafi frá upphafi gert þær kröfur að sú bifreið, sem hann hugðist kaupa, hefði burðargetu fyrir 26.000 tonna farm og að verð hennar mætti ekki fara yfir 2.500.000 krónur. Engu að síður átti umboðsmaður áfrýjanda frumkvæði að því að bjóða fram bifreið, sem hann vissi að væri ekki í samræmi við forsendu stefnda um burðargetu þeirrar bifreiðar, sem hann vildi kaupa. Þegar litið er til þessarar vitneskju áfrýjanda, efni samningsins og stöðu aðilanna við kaupin mátti gera þá kröfu til áfrýjanda að hann kannaði rækilega hvort þessar forsendur stefnda stæðust áður en hann seldi hinum síðarnefnda bifreiðina. Það gerði hann hins vegar ekki, en lét sig einu gilda hvort bifreiðin uppfyllti væntingar stefnda. Leiddu ófullnægjandi upplýsingar af hálfu áfrýjanda til þess að stefndi gekk til kaupanna í trausti þess að kostnaður við að breyta bifreiðinni væri sá, sem áður hefur verið greint frá. Kom í ljós strax eftir kaupin að kostnaðurinn og þar með heildarverð bifreiðarinnar færi langt fram úr áður gefnum forsendum og um leið verðmæti slíkra bifreiða í kaupum og sölum. Verður samkvæmt öllu því, sem að framan er rakið, fallist á með stefnda að ósanngjarnt sé af hálfu áfrýjanda að bera samninginn fyrir sig og að honum verði samkvæmt því vikið til hliðar í heild með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms samkvæmt því staðfest um annað en málskostnað. Verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Peder Nielsen, greiði stefnda, Þráni Hjálmarssyni, samtals 650.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2001.
Mál þetta var höfðað 15. febrúar 2001 og dómtekið 20. þ.m.
Stefnandi er Peder Nielsen, Cvr-nr. 30606213, Lögslundvej 12, 7160 Törring, Danmörku.
Stefndi er Þráinn Hjálmarsson, kt. 120156-4389, Kletti, Geiradal, Reykhólahreppi, Barðastrandarsýslu.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 180.000 danskra króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. ágúst 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
I
Stefnandi rekur í Törring, Danmörku verslun með vörubifreiðar og tengivagna og heitir fyrirtækið Peder Nielsen Autoimport-Export Aps. Hann hefur haft nokkur viðskipti við Íslendinga og hefur Árni Sigurpálsson aðstoðað hann við þau, m.a. við túlkun, en Árni hefur átt heima í Danmörku. Stefnandi og Árni hafa borið að milli þeirra sé kunningsskapur og milliganga Árna verið á honum reist en ekki umboðsmennsku. Í bréfi lögmanns stefnanda, sem hann ritaði stefnda 15. september 2000, er Árni þó tilgreindur sem umboðsmaður fyrirtækis stefnanda. Stefndi er bóndi sem stundar vörubílaakstur í hjáverkum og talar hvorki né les dönsku.
Stefndi sneri sér til Árna Sigurpálssonar vegna auglýsingar sem hann birti í DV 3. júní 2000 fyrir hönd fyrirtækis stefnanda um Scania vörubifreið á loftfjöðrum en hún reyndist vera seld er til kom. Stefndi óskaði etir því við Árna að hann athugaði fyrir sig um útvegun á vörubifreið búinni loftbúkka með 26.000 kg. heildarburð. Fram er komið að Árni hafi boðist til að útvega stefnda bifreið sem var búin loftbúkkum og átti að kosta um 2,5 milljónir króna en stefnda hafi þótt of dýr. Er komið var nokkuð fram í ágúst 2000 hringdi Árni í stefnda frá Danmörku, lýsti fyrir honum bifreið af Scania gerð sem fyrirtæki stefnanda hafði til sölu, án loftbúkka og með flutningatank, og sendi honum skráningarvottorð og mynd. Varð úr að stefndi þáði boð um að fara utan til að skoða bifreiðina sem hann gerði þriðjudaginn 15. ágúst 2000. Er á staðinn kom skoðaði stefndi hina falboðnu bifreið. Ljóst er að þeir Árni hafa rætt um kostnað við að búa hana loftbúkkum og hefur stefndi borið að Árni hafi sagt að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af honum. Árni hafi hringt í Eið Jónsson, sem rekur bifreiðaverkstæði að Árteigi í Ljósavatnshreppi, og haft eftir honum að kostnaður yrði 100.000 til 150.000 krónur. Sjálfur hafi hann hringt í Eið og borið þetta undir hann en hann ekki viljað staðfesta og ekkert viljað segja nema hann hefði hlutinn fyrir framan sig. Fyrir dómi staðfesti Eiður framangreinda frásögn stefnda um símtal þeirra. Hann kvaðst þekkja Árna Sigurpálsson og hafi Árni rætt um breytingu á vörubifreið með því að setja loftbúkka undir hana. Stefndi setti fram óskir um nokkrar minniháttar lagfæringar eða breytingar á bifreiðinni, s.s. um nýja hjólbarða. Þá óskaði hann eftir viðbótarhlutum, sem þurfti að fá í annarri verslun, þ.e. loftbúkka, gámagrind og vindstýri, og valdi þá sjálfur. Stefnandi bar fyrir dóminum að hann hefði ekki keypt þessa hluti fyrr en hann vissi að stefndi vildi fá þá.
Í málinu liggur frammi reikningseyðublað, faktura, merkt áðurgreindu fyrirtæki stefnanda. Það er útfyllt með tilgreiningu um “1 stk. Scania 143 4x2 Topliner 470 HK” skráða fyrsta sinn í desember 1990 og að auki um loftbúkka, gámagrind og vindstýri. Þyngd 8200 kg. Verð samtals 180.000 danskar krónur að meðtöldum flutningi til Íslands. Þá segir að um virðisaukaskattsfrjálsan útflutning sé að ræða. Skjalið er undirritað af stefnda 16. ágúst 2000 og segir næst fyrir ofan undirskriftina að kaupandi samþykki hér með kaupin (köber accepterer hermed köbet). Stefndi fékk frumrit skjalsins í hendur. Stefnandi bar að venja væri í viðskiptum sínum að kaupsamningar væru í formi undirritaðra reikninga eins og hér um ræðir.
Daginn eftir, þ.e. fimmtudaginn 17. ágúst, tóku stefndi og Árni Sigurpálsson sér flugfar til Íslands eftir að viðbótarhlutirnir höfðu að stefnda viðstöddum verið settir á aðra vörubifreið sem stefnandi (firma hans) hafði selt til Íslands og stefnandi vissi að færi með skipi laugardaginn 19. ágúst.
Stefndi kveðst, sbr. greinargerð hans, hafa þegar að morgni 18. ágúst hringt á nokkur verkstæði og fengið uppgefið að vandkvæðum gæti verið bundið að festa loftbúkka á vörubifreið og kostnaður gæti numið allt frá 500.000 krónum til einnar milljónar króna. Jafnframt hafi hann hringt í Heklu, umboðsaðila Scania á Íslandi, og fengið þar þær upplýsingar að mjög kostnaðarsamt væri að breyta bifreiðinni á þennan hátt þar sem styrkja þyrfti grind hennar og væri óvíst að það væri unnt. Stefndi hafi þá strax haft samband við Árna Sigurpálsson og tjáð honum að ekki gæti orðið af kaupunum þar sem orð hans um þetta stæðust ekki. Stefndi bar fyrir dómi að hann hefði sagt Árna að hann mundi sjálfur borga fargjaldið sem hann hafði áður lagt út fyrir. Um þetta segir í stefnu að stefndi hafi hringt í Árna á föstudag eða laugardag eftir að þeir komu til Íslands, þ.e. 18. eða 19. ágúst, og hafi þá verið komnar vöflur á stefnda sem hafi sagt að hann vildi kaupa bifreiðina með þeim kjörum að stefnandi kostaði þær breytingar á henni sem fælust í því að setja nefnda viðbótarhluti á hana. Fyrir dóminum bar Árni Sigurpálsson að samtal þeirra stefnda, er hinn síðarnefndi hafi tilkynnt sér að hann væri hættur við kaupin, hafi verið á mánudeginum (21. ágúst) og hafi hann samdægurs látið stefnanda vita um það. Stefndi fullyrti á hinn bóginn að samtalið hafi átt sér stað föstudaginn 18. ágúst.
II
Í stefnu segir að samkvæmt kaupsamningnum/reikningnum skyldi greiða kaupverðið þegar í stað og bifreiðin skyldi send til Íslands í beinu framhaldi þess. Hún skyldi flutt með bílferju til Seyðisfjarðar og stefndi hafi getað ekið henni þaðan til verkstæðis Eiðs Jónssonar, Árteigi í Kinn ef hann vildi semja við hann um breytingar á bifreiðinni en þangað hafi viðbótarhlutirnir verið sendir og bíði þeir þess að verða settir í bifreiðina.
Stefnandi vísar til meginstafa laga um skuldbindingargildi samninga og til laga nr. 7/1936 og nr. 39/1922. Vísað er til meginstafa laga um þá hollustu sem viðsemjendum beri að auðsýna hvor öðrum í samningsskiptum. Stefndi hafi skrifað undir kaupsamninginn vitandi vits um að það hefði í för með sér fyrirhöfn og fjárútlát stefnanda við öflun viðbótarhluta í hina keyptu bifreið og fyrirhöfn og kostnað við flutning þeirra til Íslands (skuldbindandi athöfn og tómlæti stefnda).
Stefndi byggir á því í fyrsta lagi að ekki verði talið að reikningseyðublaðið jafngildi kaupsamningi og undirskrift hans á reikninginn sé því ekki skuldbindandi á sama hátt og undirskrift kaupsamnings. Einungis hafi verið um viljayfirlýsingu að ræða. Um það er vísað til þess að kaupverðið hafi ekki verið reitt fram við undirritun, eftir hafi verið að kveða á um tiltekin atriði s.s. varðandi afhendingu bifreiðarinnar, greiðslu kaupverðs og hver skyldi greiða kostnað við flutning og verkstæðisvinnu og stefndi hafi átt eftir að staðfesta að upplýsingar Árna Sigurpálssonar væru réttar.
Verði talið að komist hafi á bindandi kaupsamningur með undirritun stefnda á reikningseyðublaðið byggir stefndi í fyrsta lagi á því að hann hafi verið svo háður stefnanda eða umboðsmanni hans að ósanngjarnt sé að bera samninginn fyrir sig og því skuli víkja honum til hliðar. Í öðru lagi byggir stefndi á því að óheiðarlegt sé af stefnanda að bera samninginn fyrir sig vegna atvika sem voru fyrir hendi við samningsgerðina og hann hafði vitneskju um.
Að lokum er málsvörn stefnda reist á því að honum hafi verið heimilt að rifta kaupin vegna brostinna forsendna.
Á því er byggt af hálfu stefnda að Árni Sigurpálsson hafi verið umboðsmaður stefnda í umræddum viðskiptum og hvað sem öðru líður hafi stefnda verið rétt að halda að svo væri.
III
Eftir höfðun málsins, eða 21. maí 2001, var að beiðni stefnda dómkvaddur matsmaður, Kristján G. Tryggvason bifvélavirkjameistari, til að meta eftirfarandi:
“1. Hvort mögulegt sé að festa á vörubifreið, af gerðinni Scania 143 4x2 Topliner, loftbúkka þann sem fylgdi kaupunum þannig að bifreiðin hljóti fullnægjandi burð og sé skráningarhæf.
2. Hver sé kostnaðurinn við slíkar breytingar, sundurgreint eftir efni og vinnu.
3. Hvort slíkar breytingar svari yfirleitt kostnaði, þannig að þetta komi hagstæðar út en að kaupa vörubifreið af svipaðri gerð búna loftbúkka.”
Í matsgerð, dags. 3. júlí 2001, segir að unnt sé að setja búkka og gámagrind á bifreiðina án þess að styrkja grindina. Kostnaður er metinn 144.420 krónur og er þá miðað við tilboð frá Eiði Jónssyni Árteigi um að festa loftbúkka þann, sem honum hafi verið sendur, á bifreiðina fyrir 45.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti. Fyrir dóminum bar Eiður að tilboðið hafi miðast við að sjóða loftbúkkann á grind bifreiðarinnar án breytinga eða styrkinga. Um þriðja matsatriðið segir að það fari etir verði en matsmaðurinn teldi heppilegra að bifreið væri með frágenginn búkka og gámagrind.
Að beiðni stefnda voru Guðmundur Bjarnason, vélvirkjameistari og rekstrartæknifræðingur, og Höskuldur Guðmundsson bifreiðasmíðameistari dómkvaddir sem yfirmatsmenn 17. september 2001 til að leggja mat á öll hin sömu atriði og metin höfðu verið undirmati. Matsgerð þeirra er dagsett 15. október 2001. Heildarniðurstaða þeirra er að ekki borgi sig að setja búkka á umrædda bifreið og fá hana síðan skráða hér á landi þótt það sé tæknilega unnt. Ekki sé teljandi munur á verði bifreiðar af þessari gerð eftir því hvort hún sé með eða án loftpúða. Verðmunur á nýrri bifreið í september 2000 eftir því hvort hún sé með eða án búkka nemi u.þ.b. 1.000.000 króna og hafi sú upphæð afskrifast niður í u.þ.b. 200.000 krónur á tíu ára bifreið. Kostnaður við breytingu er metinn 824.572 krónur og sé hluti hins mikla kostnaðar fólginn í því hversu mikið þurfi að styrkja grind bifreiðarinnar. Yfirmatsmennirnir staðfestu matið fyrir dómi.
IV
Við það verður miðað eftir því sem fram er komið að Árni Sigurpálsson hafi verið umboðsmaður stefnanda í viðskiptaferli aðila.
Bifreið sú, sem um ræðir, er í Danmörku og hefur ekki farið úr vörslum stefnanda. Ekki er upplýst um verðmæti þeirra viðbótarhluta, sem stefnandi sendi til Íslands og fóru með skipi 19. september 2000, en þeir hafa einnig lotið umráðum hans. Það, sem haldið er fram af hálfu stefnanda varðandi umsaminn flutning bifreiðarinnar til Íslands, hlýtur ekki stoð af gögnum málsins.
Undirrituð yfirlýsing stefnda á umstefndan reikning felur í sér að hann samþykkti að kaupa það sem á honum greinir, bifreið og viðbótarhluti. Samningurinn er ófullkominn m.a. að því leyti að ekki er kveðið á um sendingu frá afhendingarstaðnum, starfsstöð stefnanda. Í samræmi við það, sem stefnandi heldur fram, verður litið svo á eftir efni skjalsins að um staðgreiðsluviðskipti skyldi vera að ræða og hönd seldi hendi á báðar hliðar, sbr. 14. gr. laga nr. 39/1922. Stefndi fór hins vegar til Íslands án þess að greitt væri eða samið um gjaldfrest fremur en að samið væri um sendingu bifreiðarinnar. Það styður þá ályktun dómsins af því, sem að öðru leyti er fram komið, að kaupin hafi verið háð þeirri verulegu forsendu stefnda að fyrirhuguð breyting væri ekki of kostnaðarsöm og að stefnanda hafi verið kunnugt að um ákvörðunarástæðu væri að ræða, sbr. m.a. það sem segir í tilvitnuðu bréfi lögmanns stefnanda: “Ætíð lá ljóst fyrir að til þess að hægt yrði að koma til móts við kröfur Þráins um bifreið þyrfti að kaupa ódýrari bifreið en þá sem honum var upphaflega boðin og að gera þyrfti á hinni keyptu bifreið breytingar.” Breytingin reyndist hins vegar verða óhæfilega dýr og komst stefndi að raun um það þegar við komuna til Íslands 18. september 2000, sem síðar var staðfest með yfirmatsgjörð, að framangreind forsenda var röng. Hann tilkynnti samdægurs á fullnægjandi hátt og svo gilt sé í skiptum aðila að hann væri hættur við kaupin.
Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda að kröfum stefnanda. Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 500.000 krónur en útlagður matskostnaður stefnda nemur 103.000 krónum.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Þráinn Hjálmarsson, er sýknaður af kröfum stefnanda, Peder Nielsen.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.