Hæstiréttur íslands

Mál nr. 428/2001


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Ábyrgð
  • Veð
  • Afurðalán


Miðvikudaginn 8

 

Miðvikudaginn 8. maí 2002.

Nr. 428/2001.

Sparisjóður Vestfirðinga

(Sveinn Sveinsson hrl.)

gegn

Skinney-Þinganesi hf.

(Bjarni G. Björgvinsson hdl.)

 

Lausafjárkaup. Ábyrgð. Veð. Afurðalán.

K hf. (síðar S hf.) seldi T ehf. tiltekið magn af heilfrystum þorski, sem áður hafði verið veðsettur Landsbanka Íslands (L) til tryggingar kröfu L vegna láns sem L hafði veitt K hf. vegna kaupa á fiskinum. Í tengslum við þessi viðskipti K hf. og T ehf. hafði E (síðar S) gefið út yfirlýsingu til L um greiðslu til L og greiðsluskilyrði. Kom síðar upp ágreiningur milli S hf. og S um efni yfirlýsingarinnar. Með vitnisburði fyrrum forsvarsmanns T ehf. var talið liggja fyrir að skilyrði umræddrar yfirlýsingar væri fullnægt og S með því orðið greiðsluskyldur samkvæmt henni. Voru kröfur S hf. samkvæmt þessu teknar til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. nóvember 2001. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda, svo og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málavextir eru þeir að í október 1996 seldi Kambfell hf. Trostan ehf. tæp 62 tonn af heilfrystum þorski, svonefndum rússaþorski, og var söluverð hans 6.706.015 krónur. Samkvæmt skýrslu þáverandi framkvæmdastjóra Kambfells hf. fyrir héraðsdómi hafði þessi fiskur áður verið veðsettur Landsbanka Íslands til tryggingar kröfu bankans vegna láns, sem hann hafði veitt félaginu vegna kaupa á fiskinum. Í tengslum við þessi viðskipti Kambfells hf. og Trostans ehf. gaf Eyrasparisjóður 24. október 1996 út yfirlýsingu til Landsbanka Íslands og sendi afrit hennar til samningsaðilanna. Er yfirlýsing þessi í heild sinni tekin upp í hinum áfrýjaða dómi, en mál þetta snýst um ágreining aðila um efni hennar. Með yfirlýsingunni „staðfestir“ sparisjóðurinn „greiðslu til Landsbanka Íslands“ vegna framangreindra fiskkaupa Trostans ehf. af Kambfelli hf. Þá segir í yfirlýsingunni: „Greiðsla verði innt af hendi jafnóðum og veðsettar verða afurðir unnar úr þessum fiski ...“.

Á þessum tíma var í gildi milli Trostans ehf., og Eyrasparisjóðs samningur um „framleiðslulán til sjávarútvegs“ svonefndur afurðalánasamningur. Samkvæmt honum viðurkenndi félagið að skulda sparisjóðnum framleiðslulán „vegna sjávarafurðaframleiðslu og rekstrarvörubirgða“ á nánar tilgreindu tímabili allt að tiltekinni hámarksfjárhæð. Skyldi lánið samkvæmt 1. gr. samningsins „eingöngu veitt til greiðslu hráefnis- og rekstrarkostnaðar við framleiðslu sjávarafurða“. Til tryggingar láninu veðsetti félagið samkvæmt 3. gr. samningsins sparisjóðnum með fyrsta veðrétti að sjálfsvörsluveði „allar tegundir afurða og rekstrarvara“, sem það átti eða kynni að eignast við framleiðslu á því tímabili, sem samningurinn tók til.

Fyrrum forsvarsmaður Trostans ehf. bar fyrir héraðsdómi að félagið hafi framleitt saltfiskafurðir úr framangreindum rússaþorski. Ekki mundi hann nákvæmlega hvenær þessi fiskur var unninn, en taldi að það hafi örugglega verið í nóvember og fram í desember 1996 og hafi vinnslu úr honum verið lokið fyrir þau áramót.

 Samkvæmt gögnum málsins óskaði Trostan ehf. sex sinnum eftir veitingu lána vegna framleiðslu þorskafurða á grundvelli framangreinds afurðalánasamnings við Eyrasparisjóð á tímabilinu frá október 1996 til janúarloka 1997. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi barst aðeins ein greiðsla frá Eyrasparisjóði til Landsbanka Íslands á grundvelli framangreindrar yfirlýsingar. Var það 25. nóvember 1996 og fjárhæð hennar 1.053.000 krónur. Kemur fram af gögnum málsins að þessi greiðsla var innt af hendi í tengslum við veitingu sparisjóðsins á einu framangreindra afurðalána til Trostans ehf. vegna framleiðslu félagsins á saltfiskafurðum á tímabilinu 15. til 21. nóvember 1996, sem og að Trostan ehf. hafi ekki í öðrum tilvikum farið fram á að sparisjóðurinn ráðstafaði hluta veittra afurðalána til greiðslu fyrir rússaþorskinn.

 Í skýrslu þáverandi framkvæmdastjóra Kambfells hf. fyrir héraðsdómi kom fram að félagið hafi greitt Landsbanka Íslands það sem ógreitt var vegna fiskviðskiptanna og þar með leyst til sín kröfu bankans á hendur Eyrasparisjóði vegna framangreindrar yfirlýsingar. Fyrir liggur að Kambfell hf. sameinaðist stefnda Skinney-Þinganesi hf., sem höfðaði mál þetta á hendur Eyrasparisjóði til heimtu þess hluta söluandvirðis rússaþorsksins, sem enn var ógreiddur. Eftir að málið var höfðað sameinaðist og Eyrasparisjóður áfrýjanda, Sparisjóði Vestfirðinga.

 

 

II.

Með yfirlýsingu sinni 24. október 1996 staðfesti Eyrasparisjóður, eins og að framan er rakið, greiðslu til Landsbanka Íslands vegna framangreindra fiskkaupa Trostans ehf. Skyldi sú greiðsla innt af hendi jafnóðum og veðsettar yrðu afurðir unnar úr hinum keypta fiski. Samkvæmt ákvæðum framangreinds afurðalánasamnings Trostans ehf. og sparisjóðsins öðlaðist hann veð í afurðum fyrirtækisins jafnharðan og þær voru framleiddar án þess að til frekari samninga eða tilkynninga þyrfti að koma og án tillits til þess hvort sótt var um afurðalán vegna viðkomandi framleiðslu. Fyrir liggur með framangreindum vitnisburði fyrrum forsvarsmannns Trostans ehf. að félagið vann afurðir úr umræddum fiski í nóvember og desember 1996. Við þá framleiðslu öðlaðist sparisjóðurinn veð í afurðunum á grundvelli ákvæða afurðalánasamningsins. Þar með var skilyrði samkvæmt yfirlýsingunni 24. október 1996 fullnægt og varð sparisjóðurinn með því greiðsluskyldur samkvæmt henni. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að af kröfu stefnda, Skinneyjar-Þinganess hf., greiðast frá 1. júlí 2001 dráttarvextir samkvæmt 1. mgr 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Áfrýjandi, Sparisjóður Vestfirðinga, greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur  Héraðsdóms Austurlands 15. ágúst 2001:

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 23. maí sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Austurlands með stefnu, birtri 30. október 2000.  Málið var þingfest 21. nóvember 2000. Málið var endurupptekið 15. ágúst 2001 samkvæmt 115. gr. laga nr. 91/1991 og dómtekið að nýju að loknum munnlegum málflutningi.

Stefnandi er Skinney-Þinganes hf., kt. 480169-2989, Krossey, Hornafirði. 

Stefndi er Sparisjóður Vestfirðinga, kt. 610269-2499, Aðalstræti 17, Ísafirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 6,706,015 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 6,706,015 frá 31.10.1996 til greiðsludags allt að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð kr. 7,653,500.- inntum af hendi þann 25.11.1996 að fjárhæð kr. 1,054,500.- og þann 21. júní 1999 að fjárhæð kr. 6,600,000.-  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað skv. framlögðum málskostnaðarreikningi. 

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaðar af öllum kröfum stefnanda og honum verði gert að greiða stefnda málkostnað að mati réttarins auk virðisaukaskatts.

                Mál þetta var upphaflega höfðað gegn Eyrasparisjóði. Við munnlegan málflutning upplýsti lögmaður stefnda hins vegar að Eyrasparisjóður hafi við samruna gengið inn í Sparisjóð Vestfirðinga, kt. 610269-2499 og hafi hinn síðarnefndi tekið við varnaraðild málsins.

Málsatvik.

                Haustið 1996 falaðist fyrirtækið Trostan ehf. á Patreksfirði eftir því við Kambfell ehf. á Reyðarfirði að kaupa svonefndan ,,rússafisk”, þ.e.a.s óunninn frosinn fisk sem var í eigu síðarnefnda fyrirtækisins.  Féllst Kambfell ehf. á að selja Trostan ehf. 60 tonn af óunnum frosnum fiski með því skilyrði að viðskiptabanki Trostans ehf. gæfi út ábyrgðaryfirlýsingu til tryggingar greiðslu kaupverðsins.  Hafði hið umrædda magn af ,,rússafiski” verið veðsett Landsbanka Íslands hf., Eskifirði til tryggingar á skuld Kambfells ehf. við Landsbankann vegna kaupa Kambfells ehf. á þessu tiltekna magni af óunnum fiski.  Landsbanki Íslands hf. á Eskifirði hafði samband við Eyrasparisjóð á Patreksfirði vegna þessara viðskipta, en Eyrasparisjóður var viðskiptabanki Trostans ehf.  Þann 24. október 1996 gaf Eyrasparisjóður út svohljóðandi yfirlýsingu:

“Yfirlýsing

Eyrasparisjóður Bjarkargötu 1, Patreksfirði, kt. 520169-1139 staðfestir með yfirlýsingu þessari greiðslu til Landsbanka Íslands Eskifirði v/kaupa Trostans e.h.f á 60 tonnum af  “rússafiski” í eigu Kambfells h.f., kt. 510996-2239.

Kaupverð er USD 1420 auk 14% virðisaukaskatts.

Ráðstöfunarreikningur: 0166 22 04000 eigandi Landsbanki Íslands, Eskifirði.

Greiðsla verður innt af hendi jafnóðum og veðsettar verða afurðir unnar úr þessum fiski, og þá samkvæmt reikningi sem þá skal liggja fyrir.  Í reikningi þessum komi enda fram gengi það sem viðskiptin byggjast á.”

 

Yfirlýsingu þessari var beint til Landsbanka Íslands á Eskifirði, en afrit send Kambfelli ehf. og Trostan ehf.

Hið selda mun hafa verið afhent Trostan ehf. í októbermánuði 1996.  Þann 25. nóvember 1996 barst greiðsla að fjárhæð kr. 1,053,000.- frá Eyrasparisjóði til Landsbankans.  Eftir það varð ekki um frekari greiðslur að ræða frá Eyrasparisjóði vegna þessara viðskipta.  Þann 28. janúar 1998 þingfesti Kambfell ehf. mál fyrir Héraðsdómi Austurlands til innheimtu skuldar á hendur Trostan ehf. og stefnda.  Skömmu síðar sömdu allir aðilar málsins um, að málið yrði fellt niður án kostnaðar í kjölfar þess að Trostan ehf. setti tryggingar fyrir greiðslu skuldarinnar.  Þær tryggingar voru í formi víxla og handveðs í hlutabréfum.  Hlutabréfin voru seld og gekk andvirði þeirra upp í skuld Trostans.  Trostan ehf. hefur verið úrskurðað gjaldþrota.  Þegar ekki barst greiðsla inn á reikning Landsbanka Íslands á Eskifirði vegna þessara kaupa leysti Kambfell ehf. til sín kröfuna frá Landsbankanum.  Kambfell ehf. hefur nú verið sameinað stefnanda, sem hefur nú tekið við sóknaraðild málsins.  Er mál þetta höfðað til greiðslu á eftirstöðvum kröfunnar.

                Í skýrslu Björns Ármanns Ólafssonar fyrir dómi, en hann var framkvæmdastjóri Kambfells ehf. á þeim tíma þegar þessi viðskipti áttu sér stað, kom fram að þegar Trostan ehf. hafi sóst eftir að kaupa það magn af frosnum óunnum fiski sem var í eigu Kambfells ehf. hafi hann haft samband við Landsbanka Íslands á Eskifirði þar sem samþykki bankans væri skilyrði þess að af kaupum gæti orðið.  Eftir að kaupin hafi átt sér stað hafi vitnið haft samband við Trostan ehf. og Eyrasparisjóð til að fá upplýsingar um hvort veðsetning á afurðum vegna þessara viðskipta hafi átt sér stað og var honum m.a. tjáð af sparisjóðnum að vinnsla væri í gangi hjá Trostan ehf. og að sparisjóðurinn byggist við því að greiðslur vegna þessara viðskipta kæmu fljótlega.

                Hilmar Jónsson, útibússtjóri Sparisjóðs Vestfirðinga, fyrrum sparisjóðsstjóri Eyrasparisjóðs, skýrðir frá því fyrir dómi að almennt færu veitingar afurðarlána fram með þeim hætti, þegar fyrirtæki væru samþykkt í afurðarlánaviðskipti við bankastofnun, að útbúinn væri sérstakur framleiðslulánasamningur, sem jafnframt væri trygging og veð í hinu veðsetta, sem væri allt hráefni og allar afurðir í eigu fyrirtækisins sem framleiðslu-lánasamningurinn tæki yfir.  Síðan væri lánað út á framleiðslu fyrirtækisins í hverju sinni tiltekið hlutfall af verðmæti afurðanna og gengi það alla jafna þannig fyrir sig að lántaki gæfi reglulega út skýrslu um það hvað viðkomandi fyrirtæki hefði framleitt og á hvaða verði framleiðslan yrði seld. Vitnið skýrði frá því að Eyrasparisjóður hefði á tímabilinu frá lokum október 1996 til janúar 1997 aðeins einu sinni fengið tilkynningu frá Trostan ehf. um að framleiddar hefðu verið afurðir úr því hráefni sem Kambfell ehf. hefði selt fyrirtækin.  Hefði Eyrasparisjóður þá greitt kr. 2,100,000. inn á reikning í Landsbanka Íslands á Eskifirði skv. beiðni Trostans ehf. Sagði vitnið, að hann hefði alltaf staðið í þeirri meiningu að ekki hefði verið framleitt meira úr því hráefni sem Kambfell ehf. hefði selt Trostan ehf. Gæti sparisjóðurinn ekki haft eftirlit með því hvað fyrirtæki sem sparisjóðurinn hafi gert afurðarlánasamning við væri að framleiða í hvert og eitt skipti og yrði sparisjóðurinn að treysta á upplýsingar frá viðkomandi fyrirtæki.  Hins vegar hafi sparisjóðurinn lent í vandræðum með viðskipti sín við Trostan ehf. og hafi greiðslur ekki alltaf runnið í gegnum sparisjóðinn vegna viðskipta fyrirtækisins.  Sagði vitnið að hann teldi að yfirlýsing Eyrasparisjóðs frá 24. október 1996 fæli ekki í sér að sparisjóðurinn hefði tekið að sér að ábyrgjast greiðslur vegna þessara viðskipta.  Aðspurður sagði vitnið að hann hefði ekki sjálfur viljað skrifa upp á slíka yfirlýsingu þar sem viðleitni væri til að túlka þær á þann veg að í þeim fælist ábyrgðaryfirlýsing. Að hans áliti hefði sparisjóðurinn annað hvort gefið út hreinar ábyrgðaryfirlýsingar, eða hann kæmi ekki nærri slíkum yfirlýsingum. Yfirlýsingin frá 24. október 1996 hefði verið gefin að vitninu fjarverandi og án hans samþykkis, af skrifstofustjóra sparisjóðsins, Jensínu Kristjánsdóttur.

                Í skýrslu Eiríks Brynjólfs Böðvarssonar fyrrum framkvæmdastjóra Trostans ehf. fyrir dómi kom fram að óskað hafi verið eftir ábyrgð frá viðskiptabanka Trostans ehf. við kaup fyrirtækisins á rússafiski af Kambfelli ehf.  Hins vegar hafi fyrirtækið ekki getað fengið hefðbundnar bankaábyrgðir en hafi á hinn bóginn getað fengið yfirlýsingu þess efnis að Eyrasparisjóður mundi koma áfram greiðslum vegna þessara viðskipta.  Kom fram í skýrslu vitnisins að þessi yfirlýsing hefði átt að duga til að tryggja efndir Trostans ehf. á skuldbindingum fyrirtækisins gagnvart Kambfelli ehf.  Ástæða þess, að ekki hafi verið hægt að ganga frá málum eins og til var ætlast, er að erfiðleikar við sölu á afurðum Trostans ehf. leiddu til þess, að ekki varð úr veitingu afurðarlána fyrir þær afurðir sem unnar höfðu verið úr því hráefni sem Kambfell ehf. seldi fyrirtækinu.  Í viðskiptum Trostans ehf. og Eyrasparisjóðs hafi hins vegar verið í gildi afurðarlánasamningur og með þeim samningi hafi sparisjóðurinn eignast veð í öllum afurðum fyrirtækisins.  Ekki hafi hins vegar tíðkast að gera sérstaka gerninga til að stofna veð yfir einstökum hlutum þeirra afurða sem fyrirtækið framleiddi.  Á grundvelli þessa samnings hafi fyrirtækið fengið greidd afurðarlán.  Taldi vitnið að Trostan ehf. hafi lokið við vinnslu úr því hráefni sem fyrirtækið hafði keypt af Kambfelli ehf. fyrir árslok 1996.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að með yfirlýsingu Eyrasparisjóðs frá 24. október 1996 hafi sparisjóðurinn ábyrgst greiðslu kröfu Kambfells ehf. á hendur Trostans ehf.  Byggir stefnandi sérstaklegar á því að ábyrgðin hafi verið skilyrðislaus gagnvart Kambfelli ehf. en til vara að öll skilyrði fyrir ábyrgðinni hafi verið uppfyllt, sbr. það að reikningur sem tilgreindi viðskiptagengi hafi legið fyrir í upphafi.  Með hliðsjón af ákvæðum laga um lausafjárkaup nr. 39/1922, einkum 12. – 16. gr. þeirra laga, hafi aðalkrafan verið orðin gjaldkræf þegar Trostan ehf. barst reikningur vegna viðskiptanna.  Jafnframt byggir stefnandi málsókn sína á meginreglum samninga-, kröfu- og kauparéttar um efndir og skuldbindingargildi samninga og loforða.

Til vara byggir stefnandi á því að jafnvel þó að ábyrgðaryfirlýsing Eyrasparisjóðs teljist af einhverjum ástæðum ekki gild sem slík hafi Eyrasparisjóður bakað Kambfelli ehf. tjón með saknæmum og ólögmætum hætti enda hafi yfirlýsing Eyrasparisjóðs frá 24. október 1996 verið ákvörðunarástæða fyrir viðskiptunum gagnvart Kambfelli ehf.

Málsástæður og lagarök stefnda:

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að með yfirlýsingu Eyrarsparisjóðs frá 24. október 1996 hafi sparisjóðurinn ekki verið að taka á sig ábyrgð á greiðslu vegna viðskipta Trostans ehf. og Kambfells ehf.  Hafi með yfirlýsingunni eins og í hliðstæðum tilfellum aðeins verið að lýsa því yfir að ef til þess kæmi að fiskinum yrði framvísað til veðsetningar hjá Eyrarsparisjóði vegna veittra afurðarlána skyldi sparisjóðurinn sjá til þess jafnóðum og slíkt gerðist að greiðslur yrði inntar ef hendi til Landsbankans á Eskifirði.  Þá byggir stefndi á því að í yfirlýsingunni sé það hvergi tekið fram að Eyrarsparisjóður ætli að taka ábyrgð á þeim viðskiptum sem þar eru tilgreind, eingöngu sé verið að lofa að koma tilteknum greiðslum á framfæri jafnóðum og veðsettar yrðu afurðir sem unnar yrðu hinu selda.  Hafi veðsetning afurðanna verið algjört skilyrði fyrir því að greiðslur verði sendar áfram og er af hálfu stefnda mótmælt fullyrðingum þess efnis að Eyrarsparisjóður hafi tekið ábyrgð á greiðslu kaupverðsins til stefnanda.

Þá heldur stefndi því fram að það hafi verið forsenda þess að Eyrarsparisjóður hafi getað staðið við yfirlýsingu sparisjóðsins frá 24. október 1996 að þær afurðir sem unnar hafi verið úr hinum selda fiski yrðu veðsettar hjá stefnanda vegna veitingu afurðarlána. Krafa stefnanda í máli þessu er byggð á því, að með yfirlýsingu Eyrasparisjóðs frá 24. október 1996 hafi stefndi tekið á sig ábyrgð á greiðslu vegna viðskipta Trostans ehf. og Kambfells hf.

 Það hafi alfarið verið í höndunum á Trostans ehf. sem kaupanda fisksins að óska eftir afurðaláni tryggðu með veði í unnum afurðum úr þeim fiski sem um ræðir í máli þessu.  Það hafi Trostan ehf. aðeins einu sinni gert.  Ef litið sé yfir allar veðsetningar og afurðarlánaveitingar Trostans ehf. hjá Eyrasparisjóði á tímabilinu frá því á seinni hluta októbermánaðar 1996 til loka janúar 1997 vegna þorsks sé aðeins einu sinni um að ræða veitingu afurðarláns vegna vinnslu Trostans ehf. á fiski frá Kambfelli ehf. Hafi Eyrasparisjóður því ekki átt nokkra möguleika á að senda frekari greiðslur til stefnanda þar sem þær aðstæður hafi ekki skapast að um frekari greiðslur yrði að ræða frá Eyrasparisjóði vegna þessara viðskipta.

                Um lagarök vísar stefndi til meginregla kröfu- og samningaréttar svo og laga um lausafjárkaup.  Málskostnaðarkröfuna byggir hann á 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða:

                Mál þetta á rætur að rekja til sölu Kambfells ehf. á 60 tonnum af óunnum frosnum fiski til Trostans ehf. í októbermánuði 1996.  Í málinu er deilt um gildi yfirlýsingar sem Eyrasparisjóður gaf út þann 24. október 1996 á hendur Landsbanka Íslands hf., Eskifirði, en þar segir m.a. að Eyrasparisjóður ,,staðfestir með yfirlýsingu þessari greiðslu til Landsbanka Íslands Eskifirði v/kaupa Trostans e.h.f. á 60 tonnum af "rússafiski" í eigu Kambfells h.f. ...“  Af hálfu stefnanda er því haldið fram að með yfirlýsingu þessari hafi Eyrasparisjóður gengist í ábyrgð fyrir greiðslu Trostans ehf. vegna kaupa þessara, en af hálfu stefnda er því haldið fram, að með yfirlýsingu þessari hafi sparisjóðurinn einvörðungu verið að lýsa því yfir að hann mundi koma tilteknum greiðslum inn á reikning Landsbanka Íslands á Eskifirði.

                Við túlkun á gildi framanritaðrar yfirlýsingar ber fyrst að líta til þess að í yfirlýsingu þessari segir berum orðum að Eyrasparisjóður staðfesti með yfirlýsinu þessari greiðslu til Landsbanka Íslands vegna viðskipta Trostans ehf. og Kambfells ehf.  Með hliðsjón af skýrslum fyrir dómi frá þeim Birni Ármanni Ólafssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Kambfells ehf. og Eiríki Brynjólfi Böðvarssyni, fyrrum framkvæmdastjóra Trostans ehf., verður að fallast á þá fullyrðingu stefnanda að framangreind yfirlýsing Eyrasparisjóðs hafi verið ákvörðunarástæða Kambfells ehf. fyrir viðskiptunum. 

                Ennfremur verður að líta til þess að Eyrasparisjóður samdi einhliða yfirlýsingu þessa og ákvað þannig efni hennar og orðalag.  Eyrasparisjóður, sem er lánastofnun, verður eðli málsins samkvæmt að bera hallan af því ef orðalag í yfirlýsingu sparisjóðsins er óljóst eða efni hennar óskýrt að öðru leyti. Hilmar Jónsson, sem var sparisjóðsstjóri Eyrasparisjóðs á þeim tíma sem viðskipti þessi áttu sér stað, bar fyrir dómi að hann hafi ekki átt þátt í að gefa út þá yfirlýsingu sem sparisjóður gaf út þann 24. október 1996 og hefði hann staðið gegn slíku þar sem viðleitni væri til að túlka yfirlýsingar af þessu tagi sem ábyrgðaryfirlýsingar.  Styrkja þessi ummæli þá niðurstöðu að stefndi hafi mátt vita hvaða væntingar þessi yfirlýsing sparisjóðsins myndi vekja hjá þeim aðilum sem hana vörðuðu. Skiptir hér engu þó að hin umdeilda yfirlýsing hafi borið yfirskriftina ,,yfirlýsing” og að ekki sé berum orðum sagt í yfirlýsingunni að Eyrasparisjóður taki að sér ábyrgð fyrir efndum kröfunnar.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður því að ganga út frá því að með yfirlýsingu sinni frá 24. október 1996 hafi Eyrasparisjóður skuldbundið sig gagnvart Landsbanka Íslands hf., sem var veðhafi í hinu selda auk þess að vera viðskiptabanki Kambfells ehf. til að tryggja að krafa Kambfells ehf. á hendur Trostan ehf. yrði efnd.  Gekk Eyrasparisjóður þannig í ábyrgð fyrir kröfunni að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru í yfirlýsingu þessari. 

                Í yfirlýsingunni eru tilgreind tvö skilyrði.  Hið fyrra er að greiðsla verði innt af hendi jafnóðum og veðsettar verða afurðir unnar úr hinum selda fiski.  Síðara skilyrðið er að fyrir liggi reikningar þar sem komi fram gengi það sem viðskiptin byggjast á.  Ekki er í máli þessu um það deilt að Kambfell ehf. hafi gefið út reikning vegna viðskipta þessara þar sem tilgreint er það gengi sem viðskiptin byggi á.  Ágreiningurinn er hins vegar um það hvort að stofnað hafi verið til veðsetningar til Eyrasparisjóðs á þeim afurðum sem unnar voru úr því hráefni sem Kambfell ehf. hafi selt Trostan ehf. og hver eigi að bera hallan af því ef ekki hafi verið stofnað til þessarar veðsetningar.  Við úrlausn um þetta atriði verður að líta til þess að Eyrasparisjóður hafði gert svonefndan afurðarlánasamning við Trostan ehf., dags. 1. október 1996 sem gilti fyrir framleiðslutímabilið 1. október 1996 til 30. september 1997, en viðskipti þessi voru gerð á þeim tíma.  Í samningi þessum kom fram að Trostan ehf. veðsetur sparisjóðnum með fyrsta veðrétti að sjálfsvörsluveði ,,allar tegundir afurða og rekstrarvara sem hann á eða eignast kann við framleiðslu á fyrrnefndu framleiðslutímabili, þ.m.t: Freðfisk...”.  Fram kom í skýrslum þeirra Hilmars Jónssonar og Eiríks Brynjólfs Böðvarssonar fyrir dómi, að í viðskiptum þeirra hafi verð framfylgt því vinnulagi að ekki hafi verið gerðir sérstakir gerningar við stofnun veðs í framleiðslu Trostans ehf. heldur hafi veðréttur Eyrasparisjóðs í þeim afurðum sem Trostan ehf. framleiddi byggt á aðfurðalánasamningi þessum. 

Ekki verður talinn leika vafi á því að Trostan ehf. hafi framleitt afurðir úr því hráefni sem fyrirtækið keypti hjá Kambfelli ehf. á þeim framleiðslutíma sem framangreindur afurðarlánasamningur tók til. Hafi Eyrasparisjóður talið að afurðalánasamningur hans við Trostan ehf. næði ekki til þeirra afurða sem unnar voru úr þeim fiski sem keyptur var af Kambfelli ehf. hefði sparisjóðnum verið í lófa lagið að stofna sérstaklega til veðsetningar yfir þessum afurðum með sérstökum gerningi þar að lútandi. Hvernig sem þessu var háttað, var það aðeins á færi Eyrasparisjóðs og Trostans ehf. að uppfylla skilyrðið um veðsetningu afurða unnum úr þeim fiski, sem keyptur hafði verið af Kambfelli ehf.  Eyrasparisjóður gat ekki með því að setja þetta skilyrði komið sér undan að efna þá yfirlýsingu sem hann hafi gefið heldur bar sparisjóðnum að sjá til þess að tryggt væri að skilyrði þetta yrði uppfyllt eða bera ella hallan af.  Hvorki viðtakandi yfirlýsingarinnar, Landsbanki Íslands, né Kambfell ehf. gátu aðhafst nokkuð það sem leitt gæti til þess að skilyrði þessu yrði fullnægt, heldur var það alfarið í hendi Eyrasparisjóðs.

                Með hliðsjón af framangreindu verður að fallast, að stefndi beri ábyrgð gagnvart stefnanda á eftirstöðvum kröfu hans á hendur Trostan ehf.

Að fenginni þessari niðurstöðu er ekki er tölulegur ágreiningur dómkröfur stefnanda í máli þessu.

Verður stefndi samkvæmt því dæmdur til að greiða stefnanda kr. 6.706.015 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31.10.1996 til greiðsludags allt að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð kr. 7.653.500 inntum af hendi þann 25.11.1996 að fjárhæð kr. 1.054.500 og þann 21. júní 1999 að fjárhæð kr. 6.600.000.

Stefndi greiði stefnanda kr. 300.000 í málskostnað.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi greiði stefnanda kr. 6,706,015 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31.10.1996 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð kr. 7,653,500 inntum af hendi þann 25.11.1996 að fjárhæð kr. 1,054,500 og þann 21. júní 1999 að fjárhæð kr. 6,600,000.

Stefndi greiði stefnanda kr. 300.000 í málskostnað.