Hæstiréttur íslands
Mál nr. 305/2017
Lykilorð
- Ábyrgð
- Lánssamningur
- Fyrning
- Skuldabréf
- Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Karl Axelsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson landsréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 17. maí 2017. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins gaf Þór Steinarsson út skuldabréf 19. október 2005 til stefnda vegna námslána að fjárhæð 3.797.710 krónur, sem bundin var vísitölu neysluverðs með grunntölu 248 stig. Átti skuldin að bera vexti með tilteknum hætti og endurgreiðsla á henni að hefjast tveimur árum eftir námslok Þórs, sem stefndi kveður hafa orðið 21. desember 2005. Árlega skyldi greiða af skuldinni í tvennu lagi, annars vegar með fastri greiðslu 1. mars að fjárhæð 52.698 krónur, sem yrði framreiknuð eftir vísitölu neysluverðs miðað við grunntöluna 177,8 stig, og hins vegar með viðbótargreiðslu 1. september, en hún átti að nema 3,75% af útsvarsstofni lántakans á næstliðnu ári að frádreginni föstu greiðslunni. Í skuldabréfinu var tekið fram að stefnda væri heimilt að gjaldfella skuldina ef upplýsingar með lánsumsókn reyndust hafa verið rangar eða villandi. Stefnda væri þetta einnig heimilt „fyrirvaralaust og án sérstakrar uppsagnar ef vanskil eru veruleg, en með verulegum vanskilum er átt við 15 daga vanskil eða meiri.“ Annarra heimilda til gjaldfellingar var ekki getið. Þá var áskilið að sjálfskuldarábyrgð, sem gengist yrði undir fyrir skuldinni, myndi gilda þótt greiðslufrestur yrði „veittur á láninu einu sinni eða oftar uns skuldin er að fullu greidd.“ Neðan við undirskrift lántakans var yfirlýsing, sem áfrýjandinn Helga Björg Ragnarsdóttir ritaði undir, og sagði þar meðal annars: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól allt að neðangreindri fjárhæð ásamt vöxtum, verðbótum og dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil verða, tekst ég undirritaður á hendur sjálfskuldarábyrgð á láni þessu in solidum. Höfuðstóll ábyrgðar, tilgreindur fyrir framan undirskrift mína, breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs.“ Við hlið undirritunar áfrýjandans var fyllt út í viðeigandi eyður að fjárhæð ábyrgðar væri 6.000.000 krónur og grunnvísitala 243,2 stig. Þá undirritaði áfrýjandinn Steinar Þorsteinsson yfirlýsingu á sérstöku skjali 19. nóvember 2005 um „sjálfskuldarábyrgð vegna námsláns“, þar sem hann gekkst í ábyrgð óskipt með áfrýjandanum Helgu fyrir greiðslu á 5.000.000 krónum af skuld Þórs samkvæmt framangreindu skuldabréfi og skyldi sú fjárhæð taka breytingum eftir vísitölu neysluverðs með grunntölunni 240,7 stig. Í yfirlýsingunni var efnislega sami texti og áfrýjandinn Helga hafði samkvæmt áðursögðu ritað undir á skuldabréfinu, auk þess sem tekið var fram að áfrýjandinn Steinar hafi „kynnt sér ákvæði skuldabréfsins“, sem hann sætti sig að öllu leyti við. Óumdeilt er að stefndi hafi hvorki lagt mat á greiðslugetu Þórs í tengslum við útgáfu skuldabréfsins né veitt áfrýjendum leiðbeiningar um hvað sjálfskuldarábyrgð fæli í sér eða hverjar afleiðingar hennar gætu orðið.
Stefndi kveður fyrstu afborgun af skuldabréfinu hafa verið á gjalddaga 1. mars 2008 og hafi hún verið greidd. Eins hafi verið greiddar næstu tvær afborganir, sem hafi verið á gjalddaga 1. september 2008 og 1. mars 2009, en vanskil hafi á hinn bóginn orðið á afborgun með gjalddaga 1. september 2009.
Þór var veitt heimild 24. september 2009 til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt X. kafla a. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eins og þau hljóðuðu á þeim tíma og var innköllun til lánardrottna hans birt í Lögbirtingablaði 15. október sama ár. Við nauðasamningsumleitanir lýsti stefndi kröfu á grundvelli skuldabréfsins, annars vegar vegna áðurnefndrar afborgunar á gjalddaga 1. september 2009, 173.027 krónur, og hins vegar vegna eftirstöðva skuldarinnar, 5.024.079 krónur, sem hafi verið á gjalddaga 24. sama mánaðar. Í frumvarpi að nauðasamningi, sem umsjónarmaður með greiðsluaðlögun gerði 23. nóvember 2009, var greint frá kröfu stefnda með fjárhæðinni 5.024.079 krónur án frekari skýringa, en að henni meðtalinni voru samningskröfur á hendur Þór samtals 17.511.447 krónur. Af þeim skyldi greiða 23,3% með jöfnum mánaðarlegum afborgunum á fjórum árum og fengi stefndi þannig í sinn hlut alls 1.170.562 krónur af kröfu sinni. Nauðasamningur á grundvelli þessa frumvarps var staðfestur með úrskurði héraðsdóms 21. desember 2009 og var birt um það auglýsing í Lögbirtingablaði 2. febrúar 2010.
Samkvæmt gögnum málsins var að engu leyti staðið í skilum við stefnda eftir framangreindum nauðasamningi og fór svo að Þór beindi 25. janúar 2011 til umboðsmanns skuldara umsókn um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í samræmi við 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög hófst þann dag tímabundin frestun á greiðslum Þórs samkvæmt 11. gr. laganna, en á meðan hún stóð yfir var stefnda óheimilt að krefja áfrýjendur um greiðslu á grundvelli ábyrgðar þeirra, sbr. f. lið 1. mgr. sömu lagagreinar. Auglýst var í Lögbirtingablaði 29. júní 2011 að umboðsmaður skuldara hafi 21. sama mánaðar samþykkt umsókn Þórs og beindi þar umsjónarmaður samningsumleitana innköllun til lánardrottna hans, en við samþykki umsóknarinnar féll áðurnefndur nauðasamningur hans sjálfkrafa úr gildi samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 101/2010. Umsjónarmaðurinn gerði ásamt Þór frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun 13. september 2011. Þar kom meðal annars fram að lýst hafi verið kröfum að fjárhæð samtals 14.667.049 krónur. Að auki væri kunnugt um tvær skuldir Þórs, sem ekki hafi verið lýst, annars vegar við Innheimtustofnun sveitarfélaga vegna barnsmeðlaga að fjárhæð 810.692 krónur og hins vegar við stefnda að fjárhæð 5.606.755 krónur, en greiðsluaðlögun tæki ekki til þeirra, sbr. g. lið og i. lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 101/2010. Lagt var til að greiðsluaðlögunartímabil yrði tvö ár frá gildistöku samningsins 1. október 2011, en á því myndi Þór greiða 30% af fjárhæð krafna, sem féllu undir greiðsluaðlögun, án þess þó að kveðið yrði á um mánaðarlegar greiðslur. Lánardrottnum var veittur frestur til andmæla gegn frumvarpinu til 4. október 2011. Ráðið verður af gögnum málsins að frumvarpið hafi mætt andstöðu af hendi lánardrottna og leitaði Þór 6. október 2011 að fengnum meðmælum umsjónarmannsins nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eftir X. kafla a. laga nr. 21/1991, sbr. 18. gr. laga nr. 101/2010. Af því tilefni boðaði héraðsdómur með auglýsingu í Lögbirtingablaði til þinghalds 3. nóvember 2011 um staðfestingu nauðasamnings, sbr. 3. mgr. 63. gr. a. laga nr. 21/1991. Nauðasamningur var síðan staðfestur á grundvelli frumvarpsins með úrskurði héraðsdóms 21. desember 2011 og voru þau málalok auglýst 18. janúar 2012, en samningurinn tók ekki til kröfu stefnda á hendur Þór, sbr. b. lið 1. mgr. 63. gr. a. laga nr. 21/1991, svo sem þeim hafði verið breytt með 12. gr. laga nr. 135/2010.
Fyrir liggur að stefndi krafði Þór í fyrsta sinn frá því á árinu 2009 um greiðslu fastrar afborgunar af skuldabréfinu með gjalddaga 30. júní 2012 og síðan aukaafborgunar með gjalddaga 11. desember sama ár. Ráðið verður af gögnum málsins að engin greiðsla hafi verið innt af hendi vegna fyrrnefndu afborgunarinnar, en 26.865 krónur hafi á hinn bóginn verið greiddar inn á skuldina á síðarnefnda gjalddaganum. Í framhaldi af því krafðist stefndi greiðslna í samræmi við áðurgreind ákvæði skuldabréfsins á gjalddögum 1. mars og 1. september 2013 og 1. mars 2014, en ekki var staðið skil á þeim. Í hinum áfrýjaða dómi eru taldar upp tilkynningar, sem stefndi sendi hvorum áfrýjanda fyrir sig um stöðu skuldar Þór í byrjun hvers árs frá 2012 til 2016, svo og um vanskil á greiðslum á einstökum gjalddögum. Bú Þórs mun síðan hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 21. mars 2014 eftir kröfu hans sjálfs og lýsti stefndi 2. apríl sama ár kröfu við skiptin á grundvelli skuldabréfsins að fjárhæð samtals 6.995.103 krónur, en þar af var höfuðstóll skuldarinnar sagður nema 6.448.537 krónum. Jafnframt tilkynnti stefndi báðum áfrýjendum bréflega um gjaldþrotaskiptin síðastnefndan dag og gat þar meðal annars um fjárhæð skuldar samkvæmt skuldabréfinu, sem félli undir sjálfskuldarábyrgð þeirra, svo og þess að skuldin væri í heild fallin í gjalddaga með vísan til 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Mun skiptunum hafa lokið 9. júní 2014 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.
Stefndi höfðaði mál á hendur áfrýjendum með stefnu 5. nóvember 2014, sem hann kveður hafa verið birta þeim 13. og 27. sama mánaðar, og krafðist að þau yrðu dæmd óskipt til að greiða sér 6.446.862 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 30. júní 2012 til greiðsludags ásamt málskostnaði, en kröfu þessa reisti stefndi á sjálfskuldarábyrgð áfrýjenda á skuld Þórs samkvæmt fyrrnefndu skuldabréfi. Áfrýjendur tóku til varna í málinu, en það var fellt niður 12. nóvember 2015 að kröfu stefnda. Í framhaldi af því höfðaði stefndi mál þetta gegn áfrýjendum 14. mars 2016 á sama grundvelli og krafðist þess að þeim yrði gert að greiða sér 6.446.694 krónur með dráttarvöxtum eins og að framan greinir. Með hinum áfrýjaða dómi var sú krafa tekin til greina ásamt því að áfrýjendur voru dæmd til að greiða stefnda málskostnað. Á meðan mál þetta var rekið í héraði höfðaði stefndi einnig mál gegn Þór, sem þingfest var 5. apríl 2016, og krafðist þess með vísan til 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 að viðurkennd yrðu slit á fyrningu kröfu sinnar á hendur honum samkvæmt skuldabréfinu. Samkvæmt því, sem fram kom við munnlegan flutning máls þessa fyrir Hæstarétti, felldi stefndi niður mál sitt gegn Þór fyrir héraðsdómi.
II
Samkomulag, sem fjármálafyrirtæki, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra gerðu 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, tekur ekki til stefnda, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 29. október 2015 í máli nr. 196/2015. Þá er þess að gæta að samkvæmt 12. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn ná ákvæði 4. og 5. gr. þeirra ekki til ábyrgðar, sem gengist hefur verið í við stefnda, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, áður en þau tóku gildi 4. apríl 2009. Getur af þessum sökum engu breytt um skuldbindingargildi ábyrgðanna, sem áfrýjendur gengu í 19. október og 19. nóvember 2005 fyrir skuld Þórs Steinarssonar við stefnda samkvæmt fyrrnefndu skuldabréfi, að stefndi hafi ekki lagt mat á getu Þórs til að standa undir henni, kynnt áfrýjendum slíkt mat áður en þau tóku á sig ábyrgðina eða veitt þeim upplýsingar af þeim toga, sem um ræðir í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 32/2009. Þá eru hér heldur ekki að öðru leyti uppi atvik, sem leitt gætu til að ábyrgðum áfrýjenda yrði vikið til hliðar með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Verður þannig hafnað málsástæðum áfrýjenda, sem að þessu lúta. Jafnframt verður með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms hafnað málsástæðum áfrýjenda, sem snúa að því að stefndi hafi ekki sinnt gagnvart þeim skyldum sínum samkvæmt 7. gr. laga nr. 32/2009.
Með því að áfrýjendur stofnuðu til skuldbindinga sinna við stefnda fyrrgreinda daga á árinu 2005 ræðst af ákvæðum þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda hvort áfrýjendur geti hafa losnað undan þeim skuldbindingum fyrir fyrningu, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þegar tekin er afstaða til málsástæðna áfrýjenda, sem reistar eru á þeim grunni, verður að byggja á því að fyrning kröfu stefnda á hendur þeim var rofin með höfðun fyrra máls hans gegn þeim 13. og 27. nóvember 2014, enda var mál þetta höfðað innan sex mánaða frá því að það mál var fellt niður, sbr. 11. gr. laga nr. 14/1905. Samkvæmt 4. tölulið 3. gr. og 2. mgr. 5. gr. sömu laga verður þannig að líta svo á að krafa stefnda geti aðeins hafa fallið niður vegna fyrningar að því leyti, sem hún var orðin gjaldkræf úr hendi áfrýjenda fyrir 13. og 27. nóvember 2010.
Í skilningi upphafsorða 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 varð hluti af kröfu stefnda á hendur áfrýjendum vegna sjálfskuldarábyrgðar þeirra gjaldkræfur á hverjum gjalddaga afborgana eins og kveðið var á um þær í áðurnefndu skuldabréfi. Á þeim gjalddögum hófst þannig fyrningarfrestur kröfu stefnda á áfrýjendur sjálfstætt vegna hverrar vangoldinnar afborgunar. Þetta upphafsmark fyrningarfrestsins gagnvart áfrýjendum gat ekki færst til síðari dagsetningar fyrir þær sakir að stefndi hafi ekki á afmörkuðum tímabilum mátt krefja Þór um greiðslu skuldar hans vegna réttaráhrifa nauðasamningsumleitana hans til greiðsluaðlögunar samkvæmt X. kafla a. laga nr. 21/1991 og síðan greiðsluaðlögunarumleitana eftir lögum nr. 101/2010. Verður í því sambandi að gæta þess að þau réttaráhrif breyttu engu um heimild stefnda til að krefja áfrýjendur eftir sem áður um efndir, ef frá er talið áðurnefnt tímabil á árinu 2011 þegar yfir stóð tímabundin frestun greiðslna Þórs samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010. Í þessu sambandi gat heldur engu skipt fyrrgreint ákvæði í skuldabréfinu um að gildi sjálfskuldarábyrgðar áfrýjenda myndi ekki raskast þótt stefndi veitti Þór greiðslufrest einu sinni eða oftar, enda er ekki unnt að líta svo á að í óljósu orðalagi um þetta hafi falist skuldbinding áfrýjenda um að bera ekki fyrir sig fyrningu kröfu stefnda á hendur þeim.
Vanskil urðu sem áður segir á skuld Þórs við stefnda þegar inna átti af hendi afborgun með gjalddaga 1. september 2009. Eftir hljóðan skuldabréfsins leiddu vanskil ekki sjálfkrafa til þess að allar eftirstöðvar skuldarinnar féllu í gjalddaga, heldur veittu þau stefnda heimild til að taka ákvörðun um gjaldfellingu, sem hann nýtti sér ekki. Stefndi lýsti eftir þetta kröfu 5. nóvember 2009 við nauðasamningsumleitanir Þórs til greiðsluaðlögunar og var þar sem áður segir meðal annars greint frá kröfunni samkvæmt skuldabréfinu eins og eftirstöðvar hennar hafi allar fallið í gjalddaga 24. september sama ár, en þann dag var Þór veitt heimild til að leita nauðasamnings. Þegar leyst er úr því hvort krafa stefnda á hendur áfrýjendum vegna sjálfskuldarábyrgðar þeirra hafi þar með fallið öll í gjalddaga verður að líta til þess að stefndi lýsti hvergi sérstaklega yfir gjaldfellingu skuldarinnar og naut hann heldur ekki eftir hljóðan skuldabréfsins heimildar til þess í tilefni af nauðasamningsumleitunum Þórs. Tilgreining kröfunnar í þessu horfi í kröfulýsingu var jafnframt bein afleiðing fyrirmæla í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991 um að samningskröfur á hendur þeim, sem leitar nauðasamnings, falli sjálfkrafa í gjalddaga þegar slíkur samningur kemst á. Eftir hljóðan þess ákvæðis eru þau áhrif þó bundin við hlutaðeigandi skuldara, en gagnvart ábyrgðarmönnum leiddi af lokamálsgrein 60. gr. sömu laga að nauðasamningur haggaði ekki rétti lánardrottins til að krefja þá um fullar efndir samkvæmt upphaflegu efni ábyrgðar, enda hafði á þeim tíma ekki tekið gildi að nokkru leyti gagnstæð regla, sem nú er í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009, sbr. 36. gr. laga nr. 101/2010. Að þessu virtu gátu hvorki kröfulýsing stefnda né fyrirmæli laga leitt til þess að líta hafi mátt svo á að allar eftirstöðvar kröfu hans á hendur áfrýjendum hafi orðið gjaldkræfar á þessum tíma. Að auki verður að gæta að því að nauðsamningur Þórs til greiðsluaðlögunar, sem komst í kjölfarið á samkvæmt fyrrnefndum úrskurði héraðsdóms 21. desember 2009, féll sjálfkrafa úr gildi 21. júní 2011 þegar umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn hans um greiðsluaðlögun, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 101/2010. Urðu þar með að engu áhrif nauðasamningsins, bæði að því er varðar gjaldfellingu skuldarinnar gagnvart Þór og niðurfellingu hennar að hluta. Gagnvart áfrýjendum urðu því eftirstöðvar skuldarinnar, sem ekki voru enn komnar í umsamda gjalddaga eftir hljóðan skuldabréfsins, ekki gjaldkræfar fyrir 13. og 27. nóvember 2010.
Þegar gjaldþrotaskiptum lauk á búi Þórs 9. júní 2014 án þess að greiðsla hafi fengist upp í lýstar kröfur hófst samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 nýr tveggja ára fyrningarfrestur á kröfu stefnda á hendur honum samkvæmt skuldabréfinu. Fyrir liggur samkvæmt áðursögðu að innan þess frests fékk stefndi ekki slitið fyrningu kröfunnar eftir þeim úrræðum, sem mælt er fyrir um í 3. mgr. sömu lagagreinar, og má því ætla að hún sé nú fallin niður gagnvart Þór. Á hinn bóginn höfðaði stefndi mál þetta gegn áfrýjendum innan þessa fyrningarfrests og hefði því brottfall kröfunnar á hendur Þór engin áhrif á stöðu þeirra.
Samkvæmt því öllu, sem að framan greinir, getur eingöngu sá hluti af kröfu stefnda á hendur áfrýjendum, sem hefði átt að koma til greiðslu á umsömdum gjalddögum 1. september 2009, 1. mars 2010 og 1. september 2010 eftir hljóðan skuldabréfsins, talist fallinn niður fyrir fyrningu. Eins og stefndi hefur lagt mál þetta fyrir verður ekki ráðið hvaða fjárhæðir hefðu átt að koma til greiðslu á þeim gjalddögum og þar með að hvaða marki krafa hans á áfrýjendur eigi að sæta lækkun vegna fyrningar hennar að þessum hluta. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2017
Mál þetta sem dómtekið var 6. febrúar 2017 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 14. mars 2016 af Lánasjóði íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, Reykjavík, á hendur Steinari Þorsteinssyni, Lindargötu 57, Reykjavík og Helgu Björgu Ragnarsdóttur, Nökkvavogi 18, Reykjavík.
Kröfur aðila
Af hálfu stefnanda er þess krafist að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða honum 6.446.694 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 113.991 krónum, frá 30. júní 2012 til 1. mars 2013, en af 233.139 krónum, frá þeim degi til 1. september 2013, en af 252.050 krónum, frá þeim degi til 1. mars 2014, en af 375.555 krónum, frá þeim degi til 2. maí 2014, en af 6.446.694 krónum, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að viðbættum 24% virðisaukaskatti.
Af hálfu stefndu er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefjast stefndu þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða hvoru um sig málskostnað að mati dómsins.
Atvik máls
Hinn 19. október 2005 gaf Þór Steinarsson (hér eftir nefndur aðalskuldari) út skuldabréf til stefnanda vegna námslána sem hann hafði þegið á árunum 1997-2005. Fékk bréfið auðkennisnúmerið G-060168. Um var að ræða skuldbreytingu frá fyrra skuldabréfi nr. R-621499 en heimild til hennar var að finna í bráðabirgðaákvæði laga nr. 140/2005 um breytingu á lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Samkvæmt ákvæðum nýja skuldabréfsins var fjárhæð þess verðtryggð miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs og var grunnvísitala bréfsins 248,0 stig. Skuld samkvæmt bréfinu skyldi bera breytilega vexti sem aldrei yrðu hærri en 3% ársvextir af höfuðstól skuldarinnar. Skyldi höfuðstóllinn reiknaður út á hverjum gjalddaga áður en vextir og afborgun væru reiknuð út. Vextir skyldu reiknast frá námslokum og endurgreiðsla hefjast tveimur árum eftir námslok. Var stjórn stefnanda samkvæmt ákvæðum bréfsins falið að ákveða hvað teljast skyldu námslok í þessu sambandi. Árleg endurgreiðsla af skuldabréfinu skyldi ákvarðast í tvennu lagi, annars vegar vegar sem föst ársgreiðsla og hins vegar svonefnd viðbótargreiðsla. Föst ársgreiðsla skyldi vera 52.698 krónur miðað við vísitölu neysluverðs 177,8 stig, nema eftirstöðvar væru lægri. Þessi fjárhæð skyldi breytast á hverju ári í hlutfalli við vísitölu neysluverðs 1. janúar ár hvert og gjalddagi hennar að jafnaði vera 1. mars ár hvert. Ef námslok væru á fyrri hluta árs þ.e. á tímabilinu 1. janúar til 30. júní skyldi gjalddagi fyrstu föstu greiðslunnar vera 30. júní, tveimur árum eftir námslok, en væru námslok á síðari hluta árs, þ.e. á tímabilinu 1. júlí til 31. desember, skyldi gjalddagi fyrstu föstu greiðslunnar vera 1. mars, á þriðja ári frá námslokum. Viðbótargreiðslan skyldi reiknast sem 3,75 % af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári og skyldi fjárhæð hennar breytast samkvæmt hlutfallslegri breytingu á vísitölu neysluverð frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári. Fastagreiðslan skyldi dragast frá viðbótargreiðslunni. Gjalddagi viðbótargreiðslunnar skyldi vera 1. september ár hvert. Stefnda, Helga Björg Ragnarsdóttir, áritaði skuldabréfið um sjálfskuldarábyrgð við útgáfu þess 19. október 2005. Var ábyrgð hennar takmörkuð við 6.000.000 króna en fjárhæðin verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs, 243,2 stig. Með yfirlýsingu 19. nóvember 2005 tókst stefndi, Steinar Þorsteinsson, á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslum samkvæmt framangreindu skuldabréfi. Var ábyrgð hans takmörkuð við 5.000.000 króna en fjárhæðin verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs, 240,7 stig. Námslok voru skráð hjá aðalskuldara 21. desember 2005 og var skuld hans við stefnanda vegna þeginna námslána, samtals að fjárhæð 3.797.710 krónur, þá færð inn á skuldabréf nr. G-060168, miðað við vísitöu neysluverðs í desember sem var 248,0 stig. Eins og áður er rakið var fyrsti gjalddagi samkvæmt skuldabréfinu hinn 1. mars 2008 eða á þriðja ári eftir námslok. Sú greiðsla var innt af hendi og einnig greiðslur er féllu í gjalddaga 1. september 2008 og 1. mars 2009. Hins vegar mun greiðsla er féll í gjalddaga 1. september 2009 hafa farið í vanskil.
Með úrskurði uppkveðnum í Héraðsdómi Reykjavíkur, 24. september 2009, var aðalskuldara heimilað að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt X. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 24/2009. Var innköllun til lánadrottna birt í Lögbirtingablaðinu, 15. október 2009. Stefnandi lýsti kröfu vegna nauðasamningsumleitananna, 5. nóvember 2009. Alls lýsti stefnandi kröfu að fjárhæð 8.749.587 krónur. Þar af var höfuðstólskrafa 8.747.847 krónur en dráttarvaxtakrafa 2.100 krónur. Samkvæmt kröfulýsingunni var gjalddagi kröfunnar tilgreindur 24. september 2009. Kröfuskrá var lögð fram 13. nóvember. Í frumvarpi að nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, dags. 23. nóvember 2009, var lagt til að aðalskuldara yrði veittur greiðslufrestur í samræmi við b-lið 63. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009, til tólf mánaða. Að þeim tíma liðnum greiddi skuldari af samningskröfum sínum 85.000 krónur á mánuði í 48 mánuði eða samtals 4.080.000 krónur. Um væri að ræða greiðslu á 23,3% af heildarskuldum sem ættu undir nauðasamninginn. Að loknum afborgunum féllu eftirstöðvar samningskrafna niður. Ekki var gert ráð fyrir að trygging yrði veitt fyrir greiðslum samkvæmt frumvarpinu. Samkvæmt frumvarpinu var gert ráð fyrir að stefnandi fengi samtals greiddar 1.170.562 krónur af samningskröfu sinni. Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, 2. febrúar 2010, var tilkynnt að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 21. desember 2009, hefði héraðsdómur orðið við kröfu um staðfestingu nauðasamnings aðalskuldara til greiðsluaðlögunar. Fól nauðasamningurinn eins og áður greinir m.a. í sér greiðslufrest í tólf mánuði þ.e. til 21. desember 2010.
Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, 26. janúar 2011, tilkynnti umboðsmaður skuldara að hann hefði hinn 25. janúar móttekið umsókn aðalskuldara um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lögum nr. 101/2010. Hæfist tímabundin frestun greiðslna samkvæmt lögunum frá móttökudegi beiðninnar, sbr. lög nr. 128/2010 um breytingu á lögum nr. 101/2010. Umsóknin var samþykkt af umboðsmanni skuldara 21. júní 2011 og innköllun til lánardrottna aðalskuldara birt í Lögbirtingablaðinu, 28. júní og 6. júlí s.á. Frumvarp til greiðsluaðlögunar aðalskuldara var lagt fram 13. september 2011. Samningsumleitanir aðalskuldara við lánardrottna sína báru hins vegar ekki árangur. Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur, 6. október 2011, leitaði aðalskuldari nauðasamnings til greiðsluaðlögunar í samræmi við X. kafla laga nr. 21/1991 og krafðist þess að nauðasamningur á grundvelli samningsfrumvarps, sem samþykkt hefði verið samkvæmt 3. mgr. 63. gr. a laga nr. 21/1991, yrði staðfest. Í frumvarpinu var lagt til að skuldari fengi gefnar eftir 70% samningskrafna og veittur yrði greiðslufrestur á eftirstöðvum þeirra til tveggja ára frá og með 1. nóvember 2011 til og með 31. október 2013. Eftirstöðvar samningskrafna kæmu til greiðslu að greiðsluaðlögunartímabili liðnu samkvæmt eldri greiðsluáætlun, að teknu tilliti til niðurfellingar. Heildarfjárhæð lýstra krafna næmi samtals 14.667.049 krónum. Krafa stefnanda var ekki tekin upp í samningsfrumvarp aðalskuldara, en hún var undanþegin samningi til greiðsluaðlögunar og nauðasamningi um greiðsluaðlögun, sbr. g-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 101/2010, sbr. b-lið 1. mgr. 63. gr. laga nr. 21/1991. Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, 18. janúar 2012, var tilkynnt að nauðasamningur aðalskuldara samkvæmt frumvarpi hans frá 8. desember 2011 hefði verið staðfestur af Héraðsdómi Reykjavíkur, 21. desember 2011 og væri samningurinn því orðinn endanlegur, sbr. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991.
Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, 3. febrúar 2012, tilkynnti umboðsmaður skuldara að tímabundinni frestun greiðslna hjá aðalskuldara hefði vegna staðfests nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt X. kafla laga nr. 21/1991, lokið 21. desember 2011.
Næsti gjalddagi af skuldabréfi nr. G-060168 var þann 30. júní 2012. Vanskil urðu á greiðslunni. Þá urðu einnig vanskil á greiðslum er féllu í gjalddaga 1. mars og 1. september 2013 og 1. mars 2014.
Aðalskuldari var úrskurðaður gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 21. mars 2014. Stefnandi lýsti kröfum samkvæmt framangeindu skuldabréfi nr. G-0600168 í búið með kröfulýsingu dags. 2. apríl 2014. Jafnframt gerði hann sama dag kröfur á hendur stefndu á grundvelli ábyrgðarloforða þeirra frá 19. október og 19. nóvember 2005, með vísan til 99 gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefndu með stefnu birtri 13. nóvember og 27. nóvember 2014, þingfestri 2. desember 2014. Málið var fellt niður að kröfu stefnanda á dómþingi 12. nóvember 2015 (málið nr. E-4811/2014). Mál það sem hér er til meðferðar var höfðað 14. mars 2016.
Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar í máli þessu á sjálfskuldarábyrgðar-yfirlýsingum stefndu vegna námslána aðalskuldarans, Þórs Steinarssonar. Til námslánaskuldarinnar hafi verið stofnað með útgáfu skuldabréfs nr. G-060168, sem gefið hafi verið út 19. október 2005. Skuldabréfið hafi falið í sér skuldbreytt lán skv. bráðabirgðaákvæði laga nr. 140/2005, sem breytt hafi lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, en aðalskuldarinn hafi sótt um skuldbreytingu á fyrra skuldabréfi nr. R-021499. Við námslok aðalskuldarans í desember 2005 hafi fjárhæð samanlagðra námslána aðalskuldarans að fjárhæð 3.797.710 krónur verið færð inn á umrætt skuldabréf nr. G-060168 í samræmi við reglur stefnanda. Þegar aðalskuldarinn hafi sótt um námslán hjá stefnanda hafi verið mælt svo fyrir í lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna að námsmenn sem fengju lán úr sjóðnum skyldu undirrita skuldabréf við lántöku og leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins, ásamt vöxtum og verðtryggingu, allt að tiltekinni hámarksfjárhæð. Í þágildandi 5. gr. reglugerðar nr. 602/1997 hafi verið tekið fram að námsmenn skyldu leggja fram viðurkenningu eins til tíu manna sem tækju að sér endurgreiðslu á höfuðstól lánsins ásamt verðtryggingu, vöxtum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði vegna lánsins. Ábyrgðarmenn skyldu rita nöfn sín á skuldabréfið eða á þar til gerða yfirlýsingu. Hver ábyrgðarmaður hafi getað takmarkað ábyrgð sína við ákveðna fjárhæð. Stefnandi byggi á því að með áritun sinni á skuldabréf nr. G-060168, 19. október 2005, hafi stefnda, Helga Björg, tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldabréfsins, innan tilgreindrar hámarks-fjárhæðar, í samræmi við skilmála bréfsins. Þá hafi stefndi, Steinar, með undirritun sinni, 19. nóvember 2005, á yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna skuldabréfs nr. G-060168 tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldabréfsins, innan tilgreindrar hámarksfjárhæðar, í samræmi við skilmála bréfsins. Nauðasamningur aðalskuldara til greiðsluaðlögunar, sem staðfestur hafi verið af Héraðsdómi Reykjavíkur, 21. desember 2009, hafi fallið úr gildi er aðalskuldari hafi leitað nauðasamninga á ný við lánardrottna sína með því að óska eftir samningi um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara, 25. janúar 2011, samkvæmt lögum nr. 101/2010, sbr. 2. mgr. 63. gr. laga nr. 21/1991, eða eftir atvikum við að aðalskuldari hafi óskað eftir nauðasamningi til greiðsluaðlögunar með bréfi til Héraðdóms Reykjavíkur, 6. október 2011. Fyrir liggi að aðalskuldari hafi fengið tólf mánaða greiðslufrest gagnvart lánardrottnum sínum, þar með töldum stefnanda, með staðfestingu Héraðsdóms Reykjavíkur, 21. desember 2009, á nauðasamningi aðalskuldara til greiðsluaðlögunar. Hafi kröfur stefnanda á hendur aðalskuldara því ekki orðið gjaldkræfar á því tímabili og þar af leiðandi hafi kröfur hans á hendur stefndu ekki byrjað að fyrnast á því tímabili. Þá liggi fyrir að aðalskuldari hafi verið í greiðsluskjóli frá 25. janúar 2011 til 21. desember 2011, þegar nauðasamningur hans hafi verið staðfestur í Héraðsdómi Reykjavíkur en samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010 hafi stefnanda verið óheimilt að krefja stefndu um greiðslu ábyrgðarskuldbindinganna meðan aðalskuldari væri í greiðsluskjóli. Það sé ekki fyrr en 30. júní 2012 sem fyrningarfrestur hafi byrjað að líða gagnvart stefndu. Hann hafi verið rofinn með málssókn stefnanda á hendur stefndu, 13. og 27. nóvember 2014, og hafi tveggja ára fyrningarfrestur gagnvart aðalskuldara þá ekki verið liðinn. Fyrningarfrestur á hendur stefndu hafi þannig verið rofinn með sjálfstæðum hætti áður en krafan á hendur aðalskuldara hafi fyrnst. Stefnandi hafi fellt framangreint mál niður 12. nóvember 2015 en höfðað mál þetta 14. mars 2016. Bú aðalskuldarans, Þórs Steinarssonar, hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 21. mars 2014 og hafi umrætt námslán þá allt fallið í gjalddaga samkvæmt ákvæðum, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnufjárhæð máls þessa sundurliðist þannig:
Gjalddagi: Fjárhæð:
30.06.2012 kr. 113.991,-
01.03.2013 kr. 119.148,-
01.09.2013 kr. 18.911,-
01.03.2014 kr. 123.505,-
Gjaldfelldar eftirst. 21.03.2014 kr. 6.071.139,-
Samtals kr. 6.446.694,-
Gjaldfellingarfjárhæð per 21. mars 2014 reiknist þannig: Staða skuldar án verðbóta eftir gjalddaga 1. mars 2014 3.618.193 krónur * vt. mars 2014 (415,9) / grunnvt. (248,0), eða 6.067.768 krónur, auk 1% vaxta frá 1. mars 2014 – 21. mars 2014, 3.371 króna, eða alls 6.071.139 krónur. Krafist sé dráttarvaxta frá og með hverjum einstökum gjalddaga og af gjaldfellingarfjárhæðinni frá og með þeim degi sem krafan hafi fallið í gjalddaga samkvæmt fyrirmælum 99. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt skýrum og ótvíræðum skilmálum skuldabréfs nr. G-060168 skuli greiða hæstu lögleyfðu dráttarvexti af vanskilaskuldinni verði ekki staðið í skilum með greiðslu afborgana og vaxta á réttum gjalddögum.
Varðandi lagarök sé vísað til meginreglu kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og meginreglu kröfuréttar um skuldbindingargildi ábyrgðar-yfirlýsinga. Þá vísi stefnandi til laga nr 21/1992, laga nr. 91/1991, laga nr. 38/2001 og laga nr. 21/1991. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991. Um varnarþing vísist til ákvæða skuldabréfsins sjálfs og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt styðjist við lög nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisauka-skattskyldur og því nauðsyn að fá dæmdan virðisaukaskatt úr hendi stefndu.
Málsástæður stefndu og tilvísun til réttarheimilda
Af hálfu stefndu eru færðar þrjár málsástæður fyrir sýknu. Í fyrsta lagi sé krafa stefnanda á hendur þeim fyrnd. Í öðru lagi sé krafan á hendur þeim fallin niður þar sem stefnandi hafi ekki gætt að skyldum sínum gagnvart stefndu sem ábyrgðarmönnum og í þriðja lagi sé krafan ósönnuð.
Stefndu byggi á því að ábyrgðir þeirra séu niðurfallnar vegna fyrningar. Umræddar sjálfskuldarábyrgðir hafi komið til árið 2005 og um þær gildi því lög nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, gildi lögin einvörðungu um þær kröfur sem stofnast hafi eftir gildistöku laganna, þ.e. eftir 1. janúar 2008. Í 4. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 komi fram að kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum fyrnist á fjórum árum. Fyrningarfrestur á kröfu stefnanda gagnvart stefndu hafi þannig verið fjögur ár. Í 1. mgr. 5. gr. laganna segi að fyrningarfrestur teljist frá þeim degi sem krafa hafi orðið gjaldkræf. Þegar komi að sjálfskuldarábyrgðum byrji fyrningarfrestur að líða frá þeim degi er krafa hafi gjaldfallið gagnvart aðalskuldara. Aðalskuldarinn, Þór Steinarsson, hafi fengið heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar í september 2009. Umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum hans hafi birt innköllun í Lögbirtingarblaðinu í október 2009. Kröfulýsing hafi borist frá stefnanda, dags. 5. nóvember 2009, þar sem hann hafi gjaldfellt allt skuldabréfið og lýst kröfu að höfuðstól 8.747.487 krónur, auk dráttarvaxta til 24. september 2009, að fjárhæð 2.100 krónur. Samkvæmt kröfulýsingunni hafi sundurliðun kröfunnar verið þannig:
|
Krafa |
Gjalddagi |
Fjárhæð |
|
Skuldabréf G-060168 |
1. september 2009 |
173.027 krónur |
|
Eftirstöðvar G-060168 |
24. september 2009 |
5.024.079 krónur |
|
Ábyrgð
á skuldabréfi |
24. september 2009 |
3.550.381 krónur |
Stefnandi hafi þannig sjálfur tekið þá ákvörðun að gjaldfella allar eftirstöðvar af umræddri skuld aðalskuldara í heild sinni og sé slík gjaldfelling óafturkræf. Á gjalddaga, 1. september 2009, hafi hluti af kröfu stefnanda á hendur aðalskuldara, að fjárhæð 173.027 krónur, orðið gjaldkræfur og við gjaldfellinguna, 24. september 2009, hafi allar eftirstöðvar kröfunnar orðið gjaldkræfar. Framangreindar dagsetningar marki þannig upphaf fyrningarfrests skuldarinnar, bæði gagnvart aðalskuldara og gagnvart stefndu. Fyrningarfrestur kröfu þeirrar er stefnandi krefji stefndu um í máli þessu hafi þannig hafist 1. september 2009 af hluta kröfunnar að fjárhæð 173.027 krónur og lokið þann 1. september 2013. Fyrningarfrestur eftirstöðvanna, að fjárhæð 5.024.079 krónur hafi hafist þann 24. september 2009 og lokið 24. september 2013. Verði ekki á það fallist að stefnandi hafi gjaldfellt umrædda skuld aðalskuldara með framangreindri kröfulýsingu, dags. 5. nóvember 2009, sé á því byggt að skuldin hafi gjaldfallið í heild er framangreindur nauðasamningur til greiðsluaðlögunar vegna aðalskuldara hafi komist á, 21. desember 2009, sbr. 30. gr. nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Ákvæði 1. mgr. 30. gr. laganna sé svohljóðandi:
„Nauðasamningur hefur í för með sér, án tillits til samninga, laga eða annarra reglna, að allar samningskröfur falla sjálfkrafa í gjalddaga gagnvart skuldaranum þegar samningurinn kemst á, nema kveðið sé þar á um tiltekinn gjaldfrest. Fjárhæð samningskröfu verður ekki færð niður þótt hún falli fyrr í gjalddaga af þessum sökum en annars hefði orðið.“
Af ákvæðinu sé ljóst að þegar umræddur nauðasamningur hafi komist á, 21. desember 2009, hafi krafa stefnanda á hendur aðalskuldara, fallið í gjalddaga. Hafi því fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmönnum, í samræmi við ákvæði 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, byrjað að líða í síðasta lagi, 21. desember 2009. Með gjaldfresti, í 1. mgr. 30. gr. laganna, sé aðeins átt við þau tilvik er gjaldfrestur sé veittur einn og sér, þ.e. þegar aðalefni nauðasamnings til greiðsluaðlögunar kveði eingöngu á um að veita skuli gjaldfresti. Ákvæðið taki þannig ekki til nauðasamninga til greiðsluaðlögunar þar sem efni samnings sé jafnframt niðurfelling krafna, líkt og í tilviki umrædds nauðasamnings til greiðsluaðlögunar frá 21. desember 2009. Verði hvorki á það fallist að krafa stefnanda hafi fyrnst í heild í kjölfar gjaldfellingar stefnanda né þegar umræddur nauðasamningur hafi komist á, 21. desember 2009, sé á því byggt að stefnandi hafi fellt niður 76,7% af kröfum sínum á hendur aðalskuldara er nauðasamningurinn hafi komist á. Sú niðurfelling hafi verið án nokkurs greiðslufrests. Hafi fyrningarfrestur á að minnsta kosti 76,7% af kröfu stefnanda á hendur stefndu þannig byrjað að líða í síðasta lagi þann 21. desember 2009 og lokið í síðasta lagi 21. desember 2013. Verði ekki fallist á framanritað sé á því byggt að krafa stefnanda á hendur aðalskuldara sé fyrnd samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi hafi ekki fengið dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Það leiði af meginreglum kröfuréttar um ábyrgðir að ábyrgðarmaður verði jafnan ekki krafinn um greiðslu ef aðalkrafan sé ógild eða fallin niður. Þar af leiðandi verði að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Líkt og að framan greini hafi stefnandi ekki viðhaldið kröfu sinni gagnvart stefndu með neinum hætti, hvorki með beiðni um fjárnám, höfðun dómsmáls, eða á annan hátt, fyrr en með málshöfðun í desember 2014. Því sé krafa stefnanda gegn stefndu fallin úr gildi fyrir fyrningu samkvæmt 1. gr. laga nr. 14/1905. Í því felist að kröfuhafi eigi enga kröfu á hendur ábyrgðarmönnum og beri því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.
Stefndu byggi á því að upplýsingaskylda stefnanda gagnvart þeim hafi ekki verið virt. Samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða, frá árinu 2001 tilgreini meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er sjálfskuldarábyrgð sé sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Reglurnar feli í sér góða viðskiptahætti og séu hafðar til hliðsjónar við mat á háttsemi lánastofnana. Hafi ekki verið farið eftir þeim meginreglum sem fram komi í samkomulaginu teljist almennt ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig ábyrgðaryfirlýsingu. Umrætt samkomulag hafi verið bindandi fyrir stefnanda. Samkomulagið hafi verið unnið á vettvangi viðskiptaráðuneytisins og sé m.a. undirritað af þáverandi viðskiptaráðherra. Ljóst sé að samkomulag sem stjórnvöld beiti sér fyrir og undirriti og staðfesti fyrir sitt leyti hafi gildi fyrir opinberar lánastofnanir eins og stefnanda. Samkomulagið hafi þó í raun einungis verið staðfesting á sanngjörnum og góðum viðskiptaháttum sem í gildi séu og hafi verið gagnvart ábyrgðum einstaklinga. Þær sanngirnisreglur gildi ávallt fyrir ábyrgðir einstaklinga og þannig hafi í raun verið ónauðsynlegt að undirrita eða gangast sérstaklega undir samkomulagið. Stefnanda hafi þó ekki einungis borið að ástunda vandaða viðskiptahætti heldur einnig vandaða stjórnsýsluhætti, en stefnandi sé bundinn af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefnandi sé stjórnvald og sé þannig, auk framangreinds, skylt að koma fram af sanngirni gagnvart borgurum. Markmið stjórnsýslulaga sé að tryggja réttaröryggi borgaranna í skiptum þeirra við stjórnvöld og leggi þau ríkar kröfur á stjórnvöld um að viðhafa vönduð vinnubrögð í samskiptum sínum við borgarana. Stefnandi eigi því að ganga lengra en aðrar lánastofnanir í sanngirni gagnvart viðsemjendum sínum. Stefnandi geti allt að einu ekki borið minni skyldur en aðrar lánastofnanir og verið þannig eina lánastofnunin sem komist upp með að beita viðsemjendur sína ósanngirni og slæmum viðskiptaháttum. Sama háttsemin geti ekki talist ósanngjörn þegar einkaréttarleg lánastofnun viðhafi hana en sanngjörn þegar opinber lánastofnun eigi í hlut. Þá beri stefnanda auk þess skylda samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, til að rannsaka mál áður en þau séu leidd til lykta. Í þeirri skyldu felist m.a. að kanna greiðslugetu aðalskuldara að láni. Stefnandi beri auk þess leiðbeiningarskyldu samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en í þeirri skyldu felist m.a. að veita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi mál. Þegar sjálfskuldarábyrgð sé sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu teljist það bæði sanngjarnt og góð viðskiptavenja að lánafyrirtæki meti greiðslugetu greiðandans og upplýsi ábyrgðarmenn um hana. Það sé auk þess í samræmi við þau viðmið um góða viðskiptahætti sem fram komi í samkomulaginu og meginreglur stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu. Hafi slíkt ekki verið gert sé bersýnilega ósanngjarnt af lánafyrirtæki að bera fyrir sig loforð ábyrgðarmanna. Slíkum ábyrgðum verði því vikið til hliðar með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og 36. gr. a-d sömu laga. Stefnanda hafi borið að framkvæma greiðslumat á lántaka og kynna niðurstöðu slíks greiðslumats fyrir stefndu áður en þau gengust í ábyrgðina. Þessari skyldu, sem sanngjarnt og eðlilegt sé að stefnandi fari eftir í störfum sínum, hafi ekki verið sinnt. Greiðslumat hafi þá þýðingu að ef niðurstaða þess bendi til að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar þá beri lánveitanda að ráða ábyrgðarmanni að gangast ekki í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum lántaka. Óski ábyrgðarmaður engu að síður eftir að gangast í ábyrgð skuli lánveitandi fá skriflega staðfestingu ábyrgðarmanns þess efnis. Stefnandi hafi hvorki framkvæmt greiðslumat á aðalskuldara né kynnt stefndu slíkt mat, eða upplýsti þau um þá sérstöku áhættu er fylgi sjálfskuldarábyrgð á námslánum. Þar með hafi stefnandi ekki sinnt þeim skyldum sem sanngjarnt og eðlilegt sé að hann fari eftir í störfum sínum. Stefnandi verði að bera hallan af því að hafa ekki viðhaft þau vönduðu vinnubrögð sem honum hafi borið, enda sé að öðrum kosti vandséð að stefnandi starfi í samræmi við þau meginmarkmið, sem framangreint samkomulag byggi á, að þeir sem veiti tryggingu fyrir fjárskuldbindingum annarra geri sér grein fyrir þeirri áhættu sem þeir takist á herðar með slíkri ráðstöfun. Þessi ríka krafa, sem gera verði til stefnanda, verði ekki aðeins leidd af samkomulaginu heldur einnig af skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar, m.a. rannsóknarreglunni og leiðbeiningarskyldunni. Stefnandi hafi ekki veitt stefndu neinar upplýsingar vegna sjálfskuldarábyrgða þeirra, um eðli þeirra eða umfang áhættunnar sem í þeim hafi falist. Stefnandi hafi hvorki upplýst stefndu um það hvað fælist í því að takast á hendur umræddar sjálfskuldarábyrgðir, né kynnt þeim fjárhag eða skuldastöðu aðalskuldarans, fyrir undirritun þeirra. Líkt og að framan greini séu stefndu einstaklingar, ólöglærð og með enga sérstaka þekkingu á fjármálum. Þá hafi stefndu engan fjárhagslegan ávinning eða annan hag haft af undirritun sjálfskuldarábyrgðanna. Stefnandi sé hinsvegar lánastofnun með sérþekkingu sem samið hafi alla skilmála umrædds skuldabréfs og sjálfskuldarábyrgða stefndu einhliða. Þá beri jafnframt að skýra allan vafa neytanda í hag, í þessu tilfelli skuldara, þar meðtöldum sjálfskuldarábyrgðarmönnum, sbr. 1. mgr. 36. gr. b. laga nr. 7/1936. Stefndu byggi jafnframt á því að krafa stefnanda um greiðslu á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga stefndu sé hvoru tveggja ósanngjörn og andstæð góðri viðskiptavenju. Það hafi raunar verið viðurkennt af löggjafarvaldinu með lögum nr. 78/2009, um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, en samkvæmt þeim hafi 6. gr. laganna verið breytt þannig að krafa um ábyrgðarmenn á námslánum hafi verið felld út. Samkvæmt athugasemdum við frumvarp til laga nr. 78/2009, hafi það einkum verið gert vegna þess að krafan þótti umdeild og ekki samrýmast þeim tilgangi laga um Lánasjóð íslenskra námamanna að tryggja jafnrétti til náms. Að öllu ofangreindu virtu sé á því byggt af hálfu stefndu að víkja beri sjálfskuldarábyrgðum þeirra til hliðar að fullu, á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og 36. gr. a-d sömu laga, enda ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnanda að bera þær fyrir sig.
Ákvæði laga nr. 32/2009, sem kveði á um tilkynningarskyldu, gildi um stefnanda, sbr. 12. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna skuli ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda um tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla sé veruleg skuli ábyrgð falla niður. Stefndu byggi á því að vanræksla stefnanda á tilkynningarskyldu hafi verið veruleg og að ábyrgðin skuli af þeim ástæðum falla niður. Í fyrsta lagi hafi stefnanda borið, skv. a-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, að senda stefndu tilkynningu svo fljótt sem kostur hafi verið um vanefndir lántaka. Stefnandi hafi ekki tilkynnt stefndu um vanefndir lántaka fyrr en þremur árum síðar, með innheimtuviðvörun dags. 14. ágúst 2012. Í öðru lagi hafi stefnanda borið, skv. d. lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, að tilkynna stefndu eftir hver áramót um stöðu láns sem ábyrgð standi fyrir og senda stefndu jafnframt yfirlit yfir ábyrgðir. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi uppfyllt þessa skyldu sína. Í þriðja lagi hafi stefnanda borið, skv. c. lið 1. mgr. 7. gr. síðastnefndra laga, að tilkynna stefndu að bú aðalskuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að framangreindri skyldu hafi verið sinnt. Af þessu megi ljóst vera að stefnandi hafi að verulegu leyti vanrækt tilkynningarskyldu sína gagnvart stefndu um atvik sem sannanlega hafi haft áhrif á forsendur ábyrgðar, stefndu í óhag. Með vanrækslu sinni hafi stefnandi komið í veg fyrir að stefndu ættu þess ávallt kost að grípa inn í aðstæður og þar með leitast við að koma í veg fyrir frekari greiðslur samkvæmt ábyrgðinni.
Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, segi að lánveitandi geti ekki þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Stefnandi hafi sýnt algert tómlæti í þessum efnum og þar með komið í veg fyrir að stefndu fengju færi á að grípa inn í aðstæður og greiða gjaldfallnar afborganir hins umrædda láns eins og þær hafi staðið á gjalddaga.
Stefna málsins hafi að geyma afar takmarkaðar og beinlínis rangar upplýsingar um málsatvik. Samkvæmt kröfugerð stefnanda, og nánari sundurliðun kröfunnar, láti stefnandi líta svo út sem vanskil hafi ekki orðið á láninu fyrr en 30. júní 2012 og kveði lánið hafa gjaldfallið í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um gjaldþrot aðalskuldara, 21. mars 2014. Hins vegar sé ljóst að vanskil hafi hafist, 1. september 2009, samkvæmt kröfulýsingu stefnanda til umsjónarmanns vegna nauðasamnings-umleitana aðalskuldara til greiðsluaðlögunar, og hafi heildarskuld aðalskuldara verið gjaldfelld samkvæmt sömu kröfulýsingu, 24. september 2009. Krafa stefnanda hafi orðið gjaldkræf þann sama dag í kjölfar gjaldfellingar hennar samkvæmt framangreindri kröfulýsingu. Stefnanda sé vel kunnugt um þá staðreynd. Samt sem áður kveði stefnandi umrætt skuldabréf enn vera í gildi samkvæmt stefnu málsins og kveði vanskil ekki hafa hafist fyrr en 2012 og krefjist þannig vaxta í dómkröfu sinni frá 30. júní 2012. Þá vísi framlögð dómskjöl stefnanda til yfirlits og skuldastöðu stefndu sem ekki geti staðist í ljósi þess að umrædd skuld aðalskuldara hafi samkvæmt framangreindu verið gjaldfelld af stefnanda í september 2009, eða í síðasta lagi með tilkomu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar í desember 2009. Þannig geti málsástæður og framlögð skjöl stefnanda ekki talist færa sönnur á þá skuld sem stefnandi krefji stefndu um í máli þessu.
Stefndu byggi einnig á því að sýkna beri þau af kröfum stefnanda þar sem stefnandi hafi sýnt af sér algert tómlæti við innheimtu kröfunnar. Vanskil aðalskuldara hafi hafist árið 2009, þegar hann hafi óskað eftir heimild til nauðasamningsumleitana. Stefnandi hafi hins vegar ekki gert stefndu viðvart um vanskilin fyrr en um það bil þremur árum síðar, með innheimtuviðvörun þann 14. ágúst 2014.
Þá hafi stefnandi gjaldfellt lán sitt, 24. september 2009, án þess að stefndu hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Með því hafi stefnandi enn fremur sýnt af sér algert tómlæti og komið að auki í veg fyrir að stefndu ættu þess kost að bregðast við með því að greiða gjaldfallnar afborganir hins umrædda láns, eins og þær hafi staðið á gjalddaga.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu, geri stefndu þá kröfu til vara að dómkrafa stefnanda verði lækkuð. Sem rökstuðning fyrir varakröfu sinni vísi stefndu til þeirra málsástæðna og lagaraka sem raktar hafi verið í tengslum við aðalkröfu stefndu. Geri stefndu þær kröfur að dómurinn líti sérstaklega til hins verulega tómlætis stefnanda við innheimtu kröfunnar.
Stefndu byggi einnig á því að stefnandi hafi fellt niður 76,7% af kröfum sínum á hendur aðalskuldara er nauðasamningur hafi komst á þann 21. desember 2009. Þannig hafi fyrningarfrestur á að minnsta kosti 76,7% af kröfu stefnanda á hendur stefndu byrjað að líða, í síðasta lagi þann 21. desember 2009 og þannig lokið í síðasta lagi 21. desember 2013. Þannig beri að minnsta kosti að lækka kröfu stefnanda á hendur stefndu sem því nemi.
Enn fremur byggi stefndu á því að lækka beri kröfu stefnanda sem nemi þeim gjalddögum, sem fyrndir hafi verið, þegar fyrra mál stefnanda á hendur stefndu hafi verið höfðað. Þá byggi stefndu jafnframt á því að tómlæti stefnanda við innheimtu skuli í öllum tilvikum leiða til þess að dráttarvextir reiknist ekki fyrr en frá dómsuppsögu.
Stefndu byggi á meginreglum íslensks réttarfars samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 45. gr., 50. gr., 4. mgr. 94. gr. og 5. mgr. 101. gr. laganna, auk meginreglunnar um skýra kröfugerð skv. 1. mgr. 80. gr. laganna. Málskostnaðarkrafa stefndu eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndu byggi einnig á almennum reglum samninga- og fjármunaréttar og meginreglum laga um meðferð einkamála um sönnun og sönnunarbyrði. Stefndu byggi jafnframt á ákvæðum laga nr. 14/1905, um fyrningu kröfuréttinda, einkum 4. tölul. 3. gr. og 5. gr. laganna. Einnig byggi stefndu á ákvæðum laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og samningalaga nr. 7/1936. Þá byggi stefndu á meginreglum stjórnsýsluréttar, auk ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Forsendur og niðurstaða
Eins og áður er rakið byggja stefndu sýknu- lækkunarkröfur sínar í máli þessu aðallega á þremur málsástæðum. Í fyrsta lagi sé krafa stefnanda á hendur þeim fyrnd. Í öðru lagi sé krafan á hendur þeim fallin niður þar sem stefnandi hafi ekki gætt að skyldum sínum gagnvart stefndu sem ábyrgðarmönnum og í þriðja lagi sé krafan ósönnuð.
Óumdeilt er að um fyrningu ábyrgðarskuldbindinga stefndu fari skv. 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda og fyrnast kröfurnar því á fjórum árum. Skv. 1. mgr. 5. gr. laganna telst fyrningarfrestur ábyrgðar-skuldbindinga frá þeim degi er krafa verður gjaldkræf. Eindagi kröfu markar því upphaf fyrningarfrestsins.
Eins og áður er rakið fékk aðalskuldari, á grundvelli laga nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., heimild til að leita nauðasamnings um greiðsluaðlögun, 24. september 2009. Innköllun til lánardrottna var gefin út 15. október og lýsti stefnandi kröfu sinni samkvæmt skuldabréfi nr. G-060168, 5. nóvember. Nauðasamningurinn var staðfestur af Héraðsdómi Reykjavíkur 21. desember 2009 og fól hann í sér hlutfallslega lækkun lýstra krafna og að aðalskuldara var veittur tólf mánaða greiðslufrestur m.a. gagnvart stefnanda frá og með staðfestingardegi til 21. desember 2010, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 24/2009.
Eins og áður er rakið var afborgun af skuldabréfi nr. G-060168, sem féll í gjalddaga, 1. september 2009, í vanskilum við framangreinda kröfulýsingu stefnanda. Náði kröfulýsing stefnanda til þeirrar greiðslu og eftirstöðva skuldabréfsins.
Aðila máls þessa greinir á um hvort fyrningarfrestur gagnvart stefndu, á grundvelli ábyrgðarskuldbindinga þeirra frá 19. október og 19. nóvember 2005, hafi byrjað að líða 1. september 2009, hvað greiðsluna sem féll í gjalddaga þann dag varði, og 24. september 2009 hvað eftirstöðvar skuldabréfsins frá 19. október varði eða í síðasta lagi 21. desember 2009, við staðfestingu nauðasamnings aðalskuldara um greiðsluaðlögun eða hvort greiðslufrestur aðalskuldara samkvæmt nauðasamningnum hafi komið í veg fyrir að fyrning hæfist.
Ekki verður talið, með vísan til ákvæðis framangreinds nauðasamnings aðal-skuldara um tólf mánaða greiðslufrest, að kröfur stefnanda á hendur honum, sem lýst var með kröfulýsingu stefnanda, 5. nóvember 2009, hafi orðið gjaldkræfar að hluta eða öllu leyti 1. september 2009, þegar aðalskuldara var heimilað að leita nauðasamnings, 24. september 2009, við framangreinda kröfulýsingu eða staðfestingu nauðasamningsins, líkt og stefndu byggja á. Verður fyrningarfrestur krafna stefnanda á hendur stefndu því ekki talinn hafa byrjað að líða við framangreind tímamörk, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905, sbr. 30. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Eins og áður er rakið lauk greiðslufresti aðalskuldara samkvæmt áðurgreindum nauðasamningi, 21. desember 2010. Þá liggur fyrir að aðalskuldari sótti um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, þann 25. janúar 2011. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 128/2010 um breytingu á lögum nr. 101/2010, sem tekið hafði gildi, þegar umsókn aðalskuldara barst umboðsmanni skuldara, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010, frá móttöku umsóknarinnar. Fyrir liggur að aðalskuldari náði ekki samkomulagi við lánardrottna sína um greiðsluaðlögun og að hinn 6. október 2011 leitaði hann nauðasamnings til greiðsluaðlögunar á grundvelli X. kafla laga nr. 21/1991. Nauðasamningurinn var staðfestur 21. desember 2011 og lauk þá einnig tímabundinni frestun greiðslna skv. 11. gr. laga nr. 101/2010. Stefnandi var undanþeginn nauðasamningnum en hins vegar féllu afborganir og vextir samkvæmt skuldabréfi nr. G-060168 niður á greiðsluaðlögunartímanum, sbr. g-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 101/2010.
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið um tímabundna greiðslufrestun aðalskuldara frá og með 25. janúar til og með 21. desember 2011, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 128/2010 um breytingu á lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga verður ekki fallist á það með stefndu að krafa stefnanda á hendur þeim hafi orðið gjaldkræf á framangreindu tímabili. Verður því þá jafnframt hafnað að fyrningarfrestur kröfunnar hafi hafist á sama tímabili, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905, enda var stefnanda ekki heimilt að gjaldfella umrædda kröfu sína gagnvart aðalskuldara meðan á greiðslufrestuninni stóð, sbr. 11. gr. laga nr. 101/2010.
Samkvæmt framangreindu lauk tímabundinni frestun greiðslna aðalskuldara, 21. desember 2011, við staðfestingu nauðasamnings aðalskuldara. Fyrir liggur að vanskil urðu á greiðslum samkvæmt skuldabréfi nr. G- 060168 vegna afborgana er féllu í gjalddaga 30. júní 2012, 1. mars 2013, 1. september 2013 og 1. mars 2014 og hófst fyrningarfrestur vegna þessara greiðslna gagnvart stefndu frá og með tilgreindum gjalddögum. Aðalskuldari var úrskurðaður gjaldþrota 21. mars 2014. Krafa stefnanda á hendur stefndu vegna eftirstöðva skuldabréfs nr. G060168 varð gjaldkræf við töku bús aðalskuldara til gjaldþrotaskipta, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi lýsti kröfu í búið 2. apríl 2014. Skiptum á búi aðalskuldara lauk 9. júní 2014 og hófst þá tveggja ára fyrningarfrestur gagnvart honum, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi höfðaði mál á hendur stefndu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 13. nóvember og 27. nóvember 2014 til innheimtu á meintri skuld stefndu skv. ábyrgðarskuldbindingum þeirra. Framangreind málssókn sleit fyrningu þeirra krafna sem urðu gjaldkræfar 30. júní 2012 og síðar þ. á m. við framangreint gjaldþrot aðalskuldara. Fyrir liggur að málið var fellt niður af stefnanda, 12. nóvember 2015. Mál þetta var höfðað á hendur stefndu 14. mars 2016. Samkvæmt því sem rakið hefur verið voru kröfur stefnanda á hendur aðalskuldara ófyrndar er hann höfðaði framangreint mál á hendur stefndu í nóvember 2014 og er sýknukröfu stefndu byggðri á fyrningu krafna stefnanda á hendur aðalskuldara því hafnað.
Af hálfu stefndu er á því byggt að sá hluti krafna stefnanda, sem fallið hafi niður við nauðasamning aðalskuldara, 21. desember 2009, hafi byrjað að fyrnast gagnvart stefndu við staðfestingu nauðasamningsins. Ekki verður fallist á þessa málsástæðu stefndu enda varð niðurfærslan ekki gjaldkræf gagnvart stefndu við staðfestingu nauðasamningsins, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905.
Af hálfu stefndu er á því byggt að stefnanda hafi borið að framkvæma greiðslumat á aðalskuldara og kynna niðurstöðu matsins fyrir stefndu, áður en þau hafi gengist í ábyrgð á námslánum hans gagnvart stefnanda. Styðjist sú skylda bæði við ákvæði samkomulags Samtaka banka og verðbréfafyritækja, Sambands íslenkra sparisjóða, Neytendasamtakanna og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda frá 2001 og meginreglur um sanngjarna og góða viðskiptahætti. Sé það bæði ósanngjarnt og andstætt góðum viðskiptaháttum að byggja á ábyrgðarloforðum sem fengin hafi verið án þess að umrætt greiðslumat hafi verið framkvæmt og kynnt. Þá hafi stefnandi við öflun ábyrgðarloforðanna brotið í bága við vandaða stjórnsýsluhætti samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 auk rannsóknarreglu og leiðbeiningarreglu samkvæmt 7. og 10. gr. laganna. Þá verði til þess að líta í þessu sambandi að stefndu séu einstaklingar, ólöglærð og með enga sérstaka þekkingu á fjármálum og ennfremur að þau hafi engan fjárhagslegan ávinning eða annan hag haft af undirritun sjálfskuldarábyrgðanna. Stefnandi sé hinsvegar lánastofnun með sérþekkingu sem samið hafi einhliða alla skilmála umrædds skuldabréfs og sjálfskuldarábyrgða stefndu. Að öllu framangreindu virtu sé á því byggt af hálfu stefndu að víkja beri sjálfskuldarábyrgðum þeirra til hliðar að fullu, á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og 36. gr. a-d sömu laga, enda ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnanda að bera þær fyrir sig.
Stefnandi var ekki aðili að fyrrgreindu samkomulagi Sambands íslenskra viðskiptabanka o.fl um notkun sjálfskuldarábyrgða frá 2001. Var stefnandi því ekki bundinn af ákvæðum samkomulagsins þar á meðal ákvæðum þess um mat á greiðslugetu. Þá hafa stefndu ekki sýnt fram á að stefnandi hafi með því að láta ekki framkvæma sérstakt mat á greiðslugetu aðalskuldara gerst brotlegur við óskráðar reglur um góða viðskiptahætti eða ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936. Þykir í þeim efnum mega líta til þess hvers eðlis lánveitingar stefnanda eru, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1992, þ.e. að þeim er ætlað að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Verður að telja að stefndu hafi báðum verið þetta ljóst og jafnframt að nokkur óvissa gat verið um framtíðargreiðslugetu aðalstefnanda. Af hálfu stefndu hafa engin haldbær rök verið færð fyrir því að stefnandi hafi við öflun umræddra ábyrgða brotið í bága við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Af hálfu stefndu er á því byggt að stefnandi hafi vanrækt tilkynningaskyldu gagnvart sér samkvæmt 12. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og beri af þeirri ástæðu að fell ábyrgð þeirra gagnvart stefnanda niður, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna enda hafi vanræksla stefnanda í þessum efnum verið veruleg bæði hvað varði tilkynningar um vanefndir aðalskuldara og tilkynningar um stöðu láns aðalskuldara um áramót. Þá hafi stefnandi vanrækt að tilkynna stefndu um að bú aðalskuldara hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Stefnandi hafi þannig vanrækt tilkynningarskyldu sína gagnvart stefndu um atvik sem sannanlega hafi haft áhrif á forsendur ábyrgðar þeirra og komið í veg fyrir að stefndu ættu þess ávallt kost að grípa inn í aðstæður og þar með leitast við að koma í veg fyrir frekari greiðslur samkvæmt ábyrgðinni.
Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að stefnda, Helga Björg, fékk eftirtaldar tilkynningar um vanskil aðalskuldara, innheimtubréf vegna vanskilanna og yfirlit yfir stöðu láns í árslok: 20. janúar 2012, yfirlit vegna stöðu námslánsins í árslok 2011; 14. ágúst 2012, innheimtuviðvörun vegna afborgunar 30. júní 2012; 1. febrúar 2013, yfirlit vegna stöðu námslánsins í árslok 2012; 3. september 2013, innheimtubréf vegna afborgana 30. júní 2012 og 1. mars 2013; 3. október 2013, ítrekun vegna afborgunar 30. júní 2012 og 1. mars 2013; 2. desember 2013, ítrekun vegna afborgunar 30. júní 2012 og 1. mars 2013; 3. febrúar 2014, ítrekun vegna afborgunar 30. júní 2012 og 1. mars 2013; 5. febrúar 2014, innheimtubréf vegna afborgunar 1. september 2013; 11. febrúar 2014, yfirlit vegna stöðu námslánsins í árslok 2013; 7. mars 2014, ítrekun vegna afborgunar 1. september 2013; 13. mars 2014, innheimtubréf vegna afborgunar 1. mars 2014; 20. mars 2014, ítrekun vegna afborgunar 30. júní 2012 og 1. mars 2013; 2. apríl 2014, tilkynningu um gjaldfellingu vegna gjaldþrots aðalskuldara jafnfram því sem stefndu var boðið að gera kröfuna upp með skuldabréfi til tíu ára; 22. september 2014, innheimtubréf vegna afborgana 30. júní 2012, 1. mars 2013, 1. september 2013, 1. mars 2014 og eftirstöða per 26. mars 2014; 20. febrúar 2015, yfirlit stöðu í árslok 2014 og 29. mars 2016, yfirlit í árslok 2015.
Þá liggur fyrir að stefndi, Steinar, fékk eftirtaldar tilkynningar: 31. janúar 2012, yfirlit yfir stöðu láns í árslok 2011; 14. ágúst 2012, innheimtuviðvörun vegna afborgunar 30. júní 2012; 6. febrúar 2013, yfirlit yfir stöðu láns í árslok 2012; 3. september 2013, innheimtubréf vegna afborgana 30. júní 2012 og 1. mars 2013; 3. október 2013, ítrekun vegna afborgana 30. júní 2012 og 1. mars 2013; 2. desember 2013, ítrekun vegna afborgana 30. júní 2012 og 1. mars 2013; 3. febrúar 2014, ítrekun vegna afborgana 30. júní 2012 og 1. mars 2013; 5. febrúar 2014, innheimtubréf vegna afborgunar 1. september 2013; 17. febrúar 2014, yfirlit yfir stöðu láns í árslok 2013; 7. mars 2014, ítrekun vegna afborgunar 1. september 2013; 13. mars 2014, innheimtubréf vegna afborgunar 1. mars 2014; 20. mars 2014, ítrekun vegna afborgana 30. júní 2012 og 1. mars 2013; 2. apríl 2014, tilkynningu um gjaldfellingu vegna gjaldþrots aðalskuldara jafnfram því sem stefnda var boðið að gera kröfuna upp með skuldabréfi til tíu ára; 22. september 2014, innheimtubréf vegna afborgana 30. júní 2012, 1. mars 2013, 1. september 2013, 1. mars 2014, og eftirstöðva per 26. mars 2014; 20. febrúar 2015, yfirlit yfir stöðu láns í árslok 2014; 29. mars 2016, yfirlit yfir stöðu láns í árslok 2015.
Með vísan til framangreindra tilkynninga stefnanda til stefndu um stöðu láns í árslok og ítrekaðra tilkynninga um vanskil aðalskuldara er því hafnað að stefnandi hafi gerst sekur um verulega vanrækslu hvað tilkynningar til stefndu varðar, sbr. 2. mgr. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Þá liggur ennfremur fyrir samkvæmt því sem rakið hefur verið að stefndu var sannanlega boðið með bréfum, 2. apríl 2014, að taka yfir skuldbindingar aðalskuldara gagnvart stefnanda með skuldabréfi til tíu ára, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Er því þar með einnig hafnað að stefnandi hafi gerst sekur um tómlæti í þessum efnum líkt og stefndu halda fram.
Ekki er tölulegur ágreiningur í máli þessu. Dráttarvaxtakrafa stefnanda, hvað einstakar afborganir varðar, á sér stoð í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og hvað eftirstöðvar varðar í 3. mgr. 5. gr. laganna en bú aðalskuldara var eins og áður greinir tekið til gjaldþrotaskipta 2. apríl 2014.
Með vísan til alls framangreinds eru stefndu dæmd til að greiða stefnanda, óskipt, 6.446.694 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 113.991 krónu, frá 30. júní 2012 til 1. mars 2013, en af 233.139 krónum, frá þeim degi til 1. september 2013, en af 252.050 krónum, frá þeim degi til 1. mars 2014, en af 375.555 krónum, frá þeim degi til 2. maí 2014, en af 6.446.694 krónum, frá þeim degi til greiðsludags. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verða stefndu jafnframt dæmd til að greiða stefnanda, óskipt, 950.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndu, Steinar Þorsteinsson og Helga Björg Ragnarsdóttir, greiði stefnanda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, óskipt, 6.446.694 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 113.991 krónu, frá 30. júní 2012 til 1. mars 2013, en af 233.139 krónum, frá þeim degi til 1. september 2013, en af 252.050 krónum, frá þeim degi til 1. mars 2014, en af 375.555 krónum, frá þeim degi til 2. maí 2014, en af 6.446.694 krónum, frá þeim degi til greiðsludags. Stefndu greiði stefnanda, óskipt 950.000 krónur í málskostnað.