Hæstiréttur íslands

Mál nr. 549/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


Mánudaginn 23

 

Mánudaginn 23. október 2006.

Nr. 549/2006.

A

(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.)

gegn

Félagsmálaráði Kópavogs

(Helgi Birgisson hrl.)

 

Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.

FK krafðist þess að A yrði sviptur forsjá dætra sinna og var S, sem var forstöðumaður félagsþjónustunnar í nágrannasveitarfélagi K, fenginn til að vera sérfróður meðdómsmaður í málinu. Ekki var fallist á að S væri vanhæfur til að fara með málið í ljósi þess hvaða starfi hann gegndi og var kröfu A um að hann viki sæti því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila að meðdómsmaðurinn Sæmundur Hafsteinsson viki sæti í máli, sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að meðdómsmanninum verði gert að víkja sæti í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, Félagsmálaráði Kópavogs, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2006.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag, var þingfest 7. desember 2005.

Stefnandi er Félagsmálaráð Kópavogs, Fannborg 2, Kópavogi.

Stefndi er A, [heimilisfang].

Stefnandi gerir þær kröfur að stefndi verði með dómi sviptur forsjá dætra sinna, B, fæddrar 1991, og C, fæddrar 1992. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu.

Stefndi krefst þess að kröfum stefnanda verði hafnað og krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda að viðbættum virðisaukaskatti.

Dóminum barst í gær krafa stefnda um að Sæmundur Hafsteinsson sálfræðingur, sem er annar tveggja meðdómsmanna sem dómari hugðist kveðja til setu í dóminum við upphaf aðalmeðferðar í dag, víki sæti í málinu með vísan til g liðar 5. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Kröfunni var mótmælt af hálfu stefnanda og var málið tekið til úrskurðar eftir að lögmenn aðila höfðu tjáð sig um hana í þinghaldi fyrr í dag.

Við fyrirtöku málsins 19. júní sl. upplýsti dómarinn að hann hefði fengið sálfræðingana Sæmund Hafsteinsson og Hauk Haraldsson til að taka að sér störf meðdómsmanna í málinu. Lögmenn aðila gerðu engar athugasemdir við meðdómsmennina í þinghaldinu og var ákveðið að aðalmeðferð málsins færi fram 1. september sl. Ekki gat orðið af aðalmeðferð þann dag þar sem þáverandi lögmaður stefnda lýsti því þá yfir að stefndi hefði afturkallað umboð hans og taldi hann sig því ekki geta gætt hagsmuna stefnda frekar í málinu. Var málinu frestað að ósk stefnda til þess að hann fengi ráðrúm til að fá sér annan lögmann og í þinghaldi 12. september sl. sótti Þorbjörg Inga Jónsdóttir hrl. þing með stefnda og var þá ákveðið að aðalmeðferð málsins færi fram í dag. Eins og áður sagði barst dómara í gær símbréf frá lögmanni stefnda þar sem fram kom krafa stefnda um að Sæmundur Hafsteinsson víki sæti sem meðdómsmaður í málinu.

I.

Stefndi byggir kröfu sína á því að fyrir hendi séu aðstæður sem séu til þess fallnar að draga með réttu í efa óhlutdrægni meðdómsmannsins Sæmundar Hafsteinssonar þar sem hann sé forstöðumaður Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði. Hluti aðalstarfs hans felist þar með í því að vinna að barnaverndarmálum fyrir barnaverndarnefnd Hafnarfjarðarbæjar og sé hann aðalsérfræðingur barnaverndarnefndar í vinnslu og meðferð barnaverndarmála. Þá bendir stefndi á að gott samstarf sé eðli málsins samkvæmt milli barnaverndaryfirvalda í Kópavogi og Hafnarfirði eins og annarra barnaverndaryfirvalda á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem í máli þessu komi m.a. til skoðunar starfshættir barnaverndarnefndar Kópavogs telur stefndi útilokað að framangreindur meðdómsmaður geti, sem starfsmaður barnaverndarkerfisins, metið starfshætti ,,kollega” sinna í Kópavogi með hlutlausum hætti. Þá vísar stefndi til þess að hann hafi nýlega fengið upplýsingar um að meðdómsmaðurinn hafi sinnt verkefnum fyrir Fjölskyldusvið Kópavogsbæjar.

Stefndi tekur fram að hann hafi fyrst fengið upplýsingar um það hverjir yrðu meðdómsmenn í málinu í þinghaldi 12. september sl. en hefði þá talið að meðdómsmaðurinn væri hættur störfum hjá Hafnarfjarðarbæ en væri sjálfstætt starfandi að meginhluta til.

Af hálfu stefnanda er kröfunni um að Sæmundur Hafsteinsson víki sæti sem meðdómsmaður mótmælt og þess krafist að kröfunni verði hafnað.

Niðurstaða.

Samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 4. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 kveður dómsformaður einn upp úrskurði um hæfi meðdómsmanns. Í 5. gr. laganna er rakið í sjö stafliðum hvenær dómari, þar á meðal meðdómsmaður, sé vanhæfur til að fara með mál. Af hálfu stefnda er byggt á ákvæðum g liðar 5. gr. en þar segir að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður en þau sem talin eru upp í liðum a-f sem fallnar eru til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.

Fram er komið að Sæmundur Hafsteinsson sálfræðingur er forstöðumaður Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði og hefur sem slíkur eðli málsins samkvæmt engin afskipti af málefnum stefnanda. Ekkert er komið fram í málinu um einhvers konar tengsl meðdómsmannsins og stefnanda og þá er heldur ekkert fram komið um að hann hafi komið nálægt málum sem snerta hagsmuni stefnda enda ekki á því byggt í málinu. Við fyrirtöku málsins í dag var lagt fram tölvubréf meðdómsmannsins til dómsformanns dagsett í gær þar sem hann upplýsir að hann hafi aldrei unnið verk fyrir Kópavogsbæ og einu tengsl hans við bæinn séu þau að hann hafi unnið sem forstöðumaður á sambýli fyrir fatlaða í Kópavogi fyrir um það bil 25 árum. Ekki verður talið að þessi aðkoma meðdómsmannsins að málefnum Kópavogs veki grun um að mál þetta varði hann eða venslamenn hans verulega fjárhagslega eða siðferðislega. Þegar litið er til framangreinds verður ekki séð að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni meðdómsmannsins með réttu í efa. Verður því að hafna kröfu stefnda um að Sæmundur Hafsteinsson víki sæti sem meðdómsmaður.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfu stefnda um að Sæmundur Hafsteinsson sálfræðingur víki sæti sem meðdómsmaður í málinu.