Hæstiréttur íslands
Mál nr. 170/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Aðfarargerð
- Áfrýjunarfjárhæð
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 9. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. febrúar 2016, þar sem aðfarargerð sýslumannsins á Suðurlandi sem fram fór hjá varnaraðila 24. ágúst 2015 fyrir kröfu að fjárhæð 578.498 krónur var felld úr gildi að því er varðaði 528.052 krónur en staðfest að hún næði til 50.446 króna. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fyrrgreind aðfarargerð verði staðfest en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 sæta úrskurðir héraðsdómara samkvæmt 15. kafla laganna kæru til Hæstaréttar. Um kærufresti, kæruna sjálfa og meðferð hennar í héraði og fyrir Hæstarétti gilda sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli. Skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. 152. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður samkvæmt þessu beitt í málinu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 6. nóvember 2006 í máli nr. 559/2006 og 12. júní 2012 í máli nr. 381/2012. Samkvæmt auglýsingu innanríkisráðuneytisins 14. desember 2015 um breytingu á áfrýjunarfjárhæð er hún 790.214 krónur vegna ársins 2016. Höfuðstóll kröfu sóknaraðila í héraði var 578.498 krónur og þar af féllst héraðsdómur á kröfu hans að fjárhæð 50.446 krónur. Þar sem hagsmunir sóknaraðila af þessu kærumáli ná ekki áfrýjunarfjárhæð verður máli þessu sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, sýslumaðurinn á Suðurlandi, greiði varnaraðila, Hrafnhildi Hlöðversdóttur, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. febrúar 2016.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 20. janúar 2016, barst dóminum 12. október 2015.
Sóknaraðili er Hrafnhildur Hlöðversdóttir, kt. [...], [...], Hveragerði, en varnaraðili er Sýslumaðurinn á Suðurlandi, Hörðuvöllum 1, Selfossi.
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi aðfarargerð nr. 033-2015-00757, sem Sýslumaðurinn á Suðurlandi framkvæmdi kl. 10:32, þann 24. ágúst 2015. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.
Varnaraðili krefst þess að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila og að aðfarargerð 033-2015-00757 sem fram fór hjá sóknaraðila 24. ágúst 2015 verði staðfest. Til vara er þess krafist að staðfest verði fjárnám fyrir kr. 28.854,- að höfuðstól vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda ársins 2013 tímabil 08-10. Jafnframt er þess krafist að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað að mati dómsins.
Málavextir
Mál þetta varðar aðfarargerð sýslumannsins á Suðurlandi nr. 033-2015-000757, sem lokið var með árangurslausu fjárnámi þann 24. ágúst 2015. Sóknaraðili var gerðarþoli, en varnaraðili gerðarbeiðandi. Samkvæmt gögnum málsins byggðist aðfararbeiðni varnaraðila á gjaldföllnum opinberum gjöldum, sem sundurliðast svo:
|
Gjaldflokkur |
Tímabil |
Höfuðstóll |
Vextir |
Kostnaður |
Samtals |
|
AB Þing- og sveitarsjóðsgjöld |
201308 |
16.322 |
3.851 |
15.000 |
35.173 |
|
AB Þing- og sveitarsjóðsgjöld |
201309 |
6.266 |
1.406 |
0 |
7.672 |
|
AB Þing- og sveitarsjóðsgjöld |
201310 |
6.266 |
1.335 |
0 |
7.601 |
|
Virðisaukaskattur |
201308 |
381.184 |
146.868 |
0 |
528.052 |
|
|
Samtals |
410.038 |
153.460 |
15.000 |
578.498 |
Forsaga málsins er sú að bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta þann 13. mars 2013. Kröfulýsingarfrestur var til 17. júní 2013 og lauk skiptum á búinu þann 28. júní það ár, en búið var eignalaust. Samkvæmt gögnum málsins lýsti Tollstjóri almennri kröfu að fjárhæð kr. 31.829.709 í búið, sem móttekin var 7. maí 2013. Kröfulýsingin var byggð á skuld vegna opinberra gjalda, m.a. staðgreiðslu- og tryggingargjalds frá árinu 2006 og út tímabilið 08 2012 og virðisaukaskatts frá 2006 út tímabilið 24 2012. Sýslumaðurinn á Selfossi lýsti einnig almennri kröfu í þrotabúið, að fjárhæð kr. 2.198.905, sem móttekin var af skiptastjóra þann 24. apríl 2013. Lýst var kröfu m.a. vegna staðgreiðslu- og tryggingargjalds fyrir tímabilið frá 09 2012 til 03 2013 og virðisaukaskatts frá tímabili 32 2012 til 48 2012.
Áður er bú sóknaraðila var tekið til skipta, þ.e. þann 6. febrúar 2013, var leiðréttingaskýrslum vegna staðgreiðslu og tryggingargjalds ársins 2012 skilað fyrir sóknaraðila á vef rsk.is. Kveður sóknaraðili að virðisaukaskattskýrslu vegna tímabilsins janúar-febrúar 2013, hafi verið skilað 6. maí 2013 en virðisaukaskattsnúmeri sóknaraðila var lokað 28. febrúar 2013.
Þann 17. febrúar 2015 gaf sýslumaðurinn á Selfossi út aðfararbeiðni á hendur sóknaraðila og var boðað til fyrirtöku hennar þann 20. apríl 2015, í málinu 033-2015-00101. Samkvæmt gögnum málsins mætti lögmaður sóknaraðila við fyrirtökuna og mótmælti því að gerðin færi fram og lagði fram bókun f.h. sóknaraðila. Fór svo að umrædd aðfararbeiðni var afturkölluð. Mótmæli sóknaraðila í umræddu máli, lutu að því að samkvæmt greiðslustöðuyfirliti sýslumannsins á Selfossi dags 17. febrúar 2015, sem aðfararbeiðnin var byggð á, væri krafist fjárnáms vegna staðgreiðslu- og tryggingargjalds fyrir tímabilið, 01 2012 til 08 2012 en samkvæmt gögnum frá skiptastjóra væri ljóst að tollstjóri hefði lýst kröfu vegna sama tímabils í þrotabú sóknaraðila. Samkvæmt greiðslustöðuyfirliti sýslumanns væri um að ræða nákvæmlega sömu fjárhæðir og að baki kröfulýsingu tollstjóra. Af hálfu sóknaraðila var því jafnframt mótmælt sem röngu og ósönnuðu að ný krafa hefði stofnast þann 10. júlí 2013 á grundvelli endurákvörðunar sem legið hefði fyrir nokkrum dögum eftir skiptalok í þrotabúi sóknaraðila. Samkvæmt sóknaraðila hefur ekki verið gefin út aðfararbeiðni að nýju á grundvelli þessara krafna né heldur höfðað mál til slita á fyrningarfresti.
Í framangreindu aðfararmáli, nr. 033-2015-000101, var einnig krafist fjárnáms vegna virðisaukaskattskuldar fyrir uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2013. Lögbundinn gjalddagi virðisaukaskatts var 5. apríl 2013, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, en samkvæmt sóknaraðila var þá ekki búið að skila virðisaukaskattsskýrslu fyrir hann. Kveður sóknaraðili að það verið gert þann 6. maí 2013 en samkvæmt því sem komi fram í bréfi varnaraðila, dags. 13. apríl 2015, “stofnaðist” þessi krafa þann 7. maí 2013. Því mótmælir sóknaraðili.
Samkvæmt gögnum málsins skilaði sóknaraðili ekki virðisaukaskattskýrslu fyrir uppgjörstímabilið VA 2013 08 (janúar til febrúar), en ríkisskattstjóri áætlaði veltu á sóknaraðila og ákvarðaði útskatt kr. 381.184, sem er sú fjárhæð sem krafist er fjárnáms fyrir vegna virðisaukaskatts í hinni umþrættu aðfarargerð. Segir í tilkynningu ríkisskattstjóra um áætlunina, dags. 8. maí 2013, að dráttarvextir reiknist frá 5. apríl 2013
Líkt og áður segir lauk framangreindu aðfararmáli nr. 033-2015-000101, með því að varnaraðili afturkallaði aðfararbeiðnina, en gaf út nýja þann 18. maí 2015. Kveður sóknaraðili nýju aðfararbeiðnina varða sömu virðisaukaskattskuld og áður, auk þing- og sveitarsjóðsgjalda vegna tekna ársins 2012, en lítilsháttar skuld hafi verið eftir álagningu 2013, sem dreift hafi verið á gjalddaga í ágúst, september og október 2013. Á greiðslustöðuyfirliti sem fylgdi aðfararbeiðni dags. 18. maí 2015 sést að þær höfuðstólsfjárhæðir og tímabil sem þar eru tilgreindar voru einnig tilgreindar í greiðslustöðuyfirliti sem fylgdi framangreindri aðfararbeiðni 17. febrúar 2015, sem var afturkölluð eins og áður segir. Sóknaraðili hafi verið boðuð í fjárnám þann 24. ágúst 2015 en hún ekki treyst sér til að mæta án lögmanns, en lögmaður hennar hafi verið erlendis og því ekki getað mætt. Hafi svo farið að gert var árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila. Lögmaður sóknaraðila hafi síðar mótmælt gerðinni við sýslumann.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili eigi ekki þau réttindi sem krafist hafi verið fjárnáms fyrir og því beri að ógilda aðfarargerðina sem lokið hafi með árangurslausu fjárnámi. Þannig skorti skilyrði þess að varnaraðili geti krafist fullnustu á kröfu með aðfarargerð og hafi varnaraðila borið að stöðva gerðina, sbr. 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Sóknaraðili heldur því fram að ágreiningslaust sé og ljóst af gögnum málsins, að sóknaraðili hafi haft uppi mótmæli við kröfu varnaraðila á fyrri stigum málsins, enda segi í bréfi varnaraðila frá 19. september að um væri að ræða sama aðila og sömu kröfur. Sóknaraðili heldur því fram að mótmælin hafi leitt líkur að því, að óvíst sé að varnaraðili eigi þau réttindi sem hann hafi krafist fullnægju á og að hann hafi ekki átt rétt á að gerðin næði fram að ganga.
Sóknaraðili byggir á því að krafa vegna virðisaukaskattsskuldar hafi stofnast við lok uppgjörstímabils virðisaukaskatts fyrir janúar-febrúar 2013. Jafnframt byggir sóknaraðili á því að krafa vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda sé vegna launatekna ársins 2012 og hafi krafa gerðarbeiðanda orðið til í lok árs 2012, þótt ekki væri ljóst fyrr en við álagningu að staðgreiðsla ársins 2012 dygði ekki til, hvort sem skuldin hafi verið vegna atvinnurekstrar sóknaraðila eða tekna hennar persónulega en framlögð gögn varnaraðila séu ekki ljós hvað það varðar.
Sóknaraðili byggir á að krafa varnaraðila hafi þegar verið til eða stofnuð áður en sóknaraðili hafi verið úrskurðuð gjaldþrota þann 13. mars 2013. Sóknaraðili byggir jafnframt á að ekki skipti máli þótt lögmæltir gjalddagar krafnanna hafi borið upp á meðan bú sóknaraðila hafi verið undir gjaldþrotaskiptum og eftir að skiptum í búinu hafi lokið. Sóknaraðili mótmælir fullyrðingu varnaraðila, sem rangri og ósannaðri, um að krafan falli ekki undir gjaldþrotaskiptin, þar sem hún hafi orðið til eftir að bú sóknaraðila hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta eða þann 7. maí 2015, sem sé óumdeilanlega á meðan bú sóknaraðila hafi enn verið undir skiptum.
Því er jafnframt haldið fram að varnaraðili hafi í raun litið svo á, þrátt fyrir framangreinda fullyrðingu, að stofnun kröfunnar hafi verið fyrr, þar sem varnaraðili hafi lagt álag á virðisaukaskattskil sóknaraðila, þann 15. apríl 2015, þegar virðisaukaskatti var ekki skilað á lögmæltum gjalddaga virðisaukaskatts þann 5. apríl 2015. Þannig komi fram í gögnum málsins að hluti af kröfu varnaraðila hafi stofnast fyrir þann tíma sem varnaraðili sjálfur haldi fram að krafan hafi stofnast en vandséð sé að hægt sé að leggja álag á kröfu sem enn hafi ekki stofnast.
Sóknaraðili byggir á því að krafan hafi sjálfkrafa fallið í gjalddaga við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar, samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Skipti engu þótt að gjalddagi kröfunnar hafi enn ekki verið kominn, enda segi í ákvæðinu að “án tillits til þess sem kann áður að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti”.
Sóknaraðili kveðst halda því fram að varnaraðili hafi átt kost á að krefja skiptastjóra um greiðslu skuldarinnar með því að lýsa kröfu í bú gerðarþola enda hafi ríflegur tími verið eftir af kröfulýsingarfresti eða um einn og hálfur mánuður. Sóknaraðili hafi á þessum tíma ekki verið bús síns ráðandi og greiðsla virðisaukaskattskuldar hefði væntanlega verið riftanleg ráðstöfun þrotamanns, sbr. 139. gr. laga nr. 21/1991. Því sé haldið fram að það sé fráleitt sem haldið sé fram af varnaraðila, að krafan komi skiptunum ekki við af því að hún hafi stofnast eftir að gjaldþrotaúrskurður hafi verið kveðinn upp en þetta sé eini rökstuðningur sem varnaraðili hafi haft uppi um réttmæti kröfunnar. Þótt litið verði svo á að krafan hafi stofnast eftir að gjaldþrotaúrskurður hafi verið kveðinn upp, heldur sóknaraðili því fram að það skipti ekki máli því krafan hafi allt að einu átt undir gjaldþrotaskiptin enda hafi skiptum ekki verið lokið í búi sóknaraðila á því tímamarki.
Í samræmi við framangreint kveðst sóknaraðili halda því fram að aðfararbeiðnir varnaraðila, bæði í fyrra og seinna aðfararmáli, hafi ekki verið í lögmætu formi og að ekki sé lögmæt aðfararheimild að baki þeim. Sóknaraðili byggir á að varnaraðila hafi borið að fá dóm fyrir kröfu sinni til þess að slíta fyrningu kröfunnar, eins og áskilið sé í 165. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 142/2010. Það hafi varnaraðili ekki gert og því hafi krafa hans verið fyrnd þegar árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá sóknaraðila.
Ákvæði 165. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið breytt með lögum nr. 142/2010, sem tekið hafi gildi 29. desember það ár. Eftir breytinguna sé áfram mælt fyrir um þá meginreglu, að þrotamaður beri ábyrgð á skuldum sínum sem ekki fáist greiddar við gjaldþrotaskiptin. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 247/2013 hafi verið svipað umfjöllunarefni og í þessu máli en þó frábrugðið að því leyti að sérákvæði séu um fyrningu þeirra krafna sem hafi verið ágreiningsefni í dómnum en svo sé ekki í þessu máli. Í niðurstöðu Hæstaréttar sé umfjöllun um lagaákvæðið og segi í forsendum dómsins:
„Á hinn bóginn er eftir breytinguna kveðið á um að ef kröfu hefur verið lýst við skiptin og hún ekki fengist greidd við þau, sé fyrningu hennar slitið gagnvart þrotamanninum og byrji þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi, sem skiptunum sé lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildi þessi sami fyrningarfrestur um hana enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma. Þá segir að fyrningu framangreindra krafna verði aðeins slitið á ný að kröfuhafi höfði mál á hendur þrotamanninum innan fyrningarfrests og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skuli því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á, að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gildi almennar reglur um fyrningu kröfunnar.“
Sóknaraðili heldur því fram að tveggja ára fyrningarfrestur á kröfunni hafi byrjað að líða frá skiptalokum þann 28. júní 2013, sbr. 165. gr. laga nr. 21/1991 og skipti þá engu þótt varnaraðili hafi ekki lýst kröfunni í bú sóknaraðila. Byggt hafi verið á því að fyrningu þessara krafna verði aðeins slitið á ný, með því að varnaraðili höfði mál innan fyrningarfrestsins á hendur sóknaraðila og fái dóm til viðurkenningar á fyrningarslitum gagnvart honum eins og skýrt komi fram í ákvæði 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Engin undantekning sé gerð til handa innheimtumanni ríkissjóðs í ákvæðinu, sem verði að fá dóm fyrir kröfu sinni eins og aðrir kröfuhafar. Í 2. mgr. sé sérstaklega tekið fram að sami fyrningartími gildi þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin.
En ekki sé nóg að höfða mál til að slíta fyrningu, varnaraðili verði líka að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu svo og að færa rök fyrir því að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma. Varnaraðili hafi heldur ekki uppfyllt þessi skilyrði ákvæðisins.
Breyti engu þótt varnaraðili hafi gefið út nýja aðfararbeiðni þann 18. maí 2015 eða áður en fyrningarfresturinn hafi verið liðinn enda gangi ákvæði 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991, framar ákvæði 52. gr. laga nr. 90/1989 um fyrningarslit.
Í fyrra aðfararmálinu hafi sóknaraðili haldið því fram að sýslumanni hafi átt eða mátt vera kunnugt um gjaldþrot sóknaraðila enda hafi hann lýst kröfu í þrotabúið. Með sama hætti sé því haldið fram að við seinni aðfarargerðina hafi sýslumanni verið fullkunnugt um mótmæli sóknaraðila við kröfunni enda beri gögn málsins vitni um það. Sérstök ástæða hafi verið fyrir sýslumann, sem jafnframt sé gerðarbeiðandi, til þess að kanna lögmæti aðfararheimildar varnaraðila, sbr. 17. gr. laga nr. 90/1989, enda krefjist réttaröryggi borgaranna þess að vandað sé til stjórnsýslu ákvarðanna þegar svona standi á, auk þess sem varnaraðili hafi ákveðnar skyldur sem lúti að því að gæta réttinda gerðarþola.
Í samræmi við framanritað kveðst sóknaraðili halda því fram að krafa varnaraðila, sem liggi til grundvallar aðfarargerð 033-2015-00757, sé fyrnd, sbr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafi ekki höfðað mál innan tveggja ára fyrningarfrests og hafi því ekki fengið dóm fyrir fyrningarslitum á kröfu sinni á hendur gerðarþola og beri af þeim sökum að ógilda fjárnámsgerðina.
Sóknaraðili hafi mikla og lögvarða hagsmuni af því að aðfararbeiðnin nái ekki fram að ganga. Sóknaraðili hafi verið með skráningar á vanskilaskrá hjá Credit Info um gjaldþrotið og árangurslaus fjárnám vegna skulda sem hafi orðið henni ofviða og leitt til gjaldþrots hennar. Tveimur árum eftir skiptalok hafi verið búið að afmá allar skráningar úr vanskilaskrá en nú hafi enn á ný bæst við færsla um árangurslaust fjárnám, sem hafi valdið verulegum takmörkunum t.d. í bankaviðskiptum sóknaraðila.
Tilgangur með framangreindu ákvæði gjaldþrotalaga hafi einmitt verið sá að gera fólki kleift að rétta úr kútnum eftir fjárhagslega erfiðleika og greiðsluþrot. Sýslumanni hafi verið fullkunnugt um mótmæli og rök sóknaraðila en samt ákveðið að gera fjárnám fyrir ólögmætum kröfum varnaraðila. Því sé haldið fram að bæði fyrri og seinni aðfararbeiðni á hendur sóknaraðila séu gróf valdníðsla af hálfu varnaraðila og sé vandséð hvaða hagsmuni varnaraðili eða innheimtumaður ríkissjóðs, hafi af því að fá aftur skráð árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila í vanskilaskrá, sem sé á sjötugsaldri. Einnig sé það verulega aðfinnsluvert að varnaraðili hafi látið skrá árangurlaust fjárnám hjá sóknaraðila, á meðan ágreiningsmál þetta sé enn óleyst.
Krafa sóknaraðila um ógildingu aðfarargerðar nr. 033-2015-00757 sé byggð á því að varnaraðili eigi ekki þau réttindi sem hann krefjist aðfarar fyrir og að hann eigi heldur ekki rétt til aðgerðin fari fram með þeim hætti sem hann krefjist, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989.
Í samræmi við allt framangreint sé þess krafist að fjárnámsgerðin nr. 033-2015-00757, á hendur sóknaraðila verði ógilt og að viðurkennt verði að krafa varnaraðila sé fyrnd.
Kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun kveður sóknaraðili vera reista á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Kröfu um málskostnað kveður sóknaraðili styðjast við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Jafnframt sé vísað til hlutlægrar bótareglu 96. gr. aðfararlaga um tjón sóknaraðila sem felist í því að þurfa að verjast kröfu varnaraðila auk tjóns sem hljótist af því að sóknaraðili fái ekki fyrirgreiðslur hjá fjármálastofnunum vegna skráningar árangurslauss fjárnám í vanskilaskrá.
Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 27. gr., og til 15., sbr. 14. kafla. Vísað er til ákvæða laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sérstaklega 99. og 165. gr., sbr. 142/2010 og XVI. kafla laganna um kröfur á hendur þrotabúi og til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt 99. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. falli allar kröfur á hendur þrotabúi í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem kunni áður að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti.
Sá dagur sem kveðinn er upp úrskurður héraðsdómara um að bú gerðarþola sé tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 99. gr. laga nr. 21/1991 segi til um það hvaða kröfur tilheyri þrotabúinu. Í 1. mgr. 72. gr. laganna segi að þegar héraðsdómari kveði upp úrskurð um að bú skuldara sé tekið til gjaldþrotaskipta taki þrotabú skuldarans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann hafi átt eða notið við uppkvaðningu úrskurðarins, nema annað leiði af réttarreglum, eðli réttindanna eða löggerningi sem verði ekki hnekkt vegna gjaldþrotaskiptanna. Í 2. mgr. sömu greinar segi að þrotabú taki við öllum fjárhagslegum skyldum sem hafi hvílt á þrotamanni á því tímamarki sem um geti í 1. mgr. nema réttarreglur eða löggerningur kveði á um annað eða það leiði af eðli skyldnanna.
Sú krafa sem ágreiningur sé um í máli þessu hafi stofnast 7. maí 2013 þegar ríkisskattstjóri hafi áætlað virðisaukaskatt hjá sóknaraðila tímabilið 2013-08 þar sem skýrslu hafi ekki verið skilað ásamt greiðslu skv. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi ekki verið um að ræða síðbúin skýrsluskil eins og fram komi í kröfugerð sóknaraðila til Héraðsdóms Suðurlands, dags. 19. október 2015, heldur áætlun, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Krafan hafi því ekki stofnast þegar bú sóknaraðila hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 13. mars 2013 og falli því ekki undir gjaldþrotaskipti sóknaraðila. Krafan hafi stofnast vegna rekstrar sóknaraðila á hans virðisaukaskattsnúmeri en ekki vegna aðgerða skiptastjóra og sé þ.a.l. ekki á forræði skiptastjóra eins og skilja megi af gögnum sóknaraðila.
Varnaraðili kveður að sóknaraðili haldi því fram að virðisaukaskattskrafan hafi fallið í gjalddaga samkvæmt 99. gr. laga nr. 21/1991 þótt krafan hafi ekki verið fallin í gjalddaga en fyrir hafi legið að virðisaukaskattsnúmeri gerðarþola hafi verið lokað 28. febrúar 2013. Ekki sé hægt að fallast á þetta sjónarmið enda geti óstofnuð krafa ekki fallið í gjalddaga. Af sömu ástæðu hafi varnaraðila ekki verið unnt að lýsa þeirri kröfu í bú sóknaraðila. Séu fullyrðingar sóknaraðila þess efnis því haldlausar. Sé þá að sama skapi haldlaus sú fullyrðing sóknaraðila að krafan sé fyrnd vegna skiptaloka 28. júní 2013, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991. Krafan hafi ekki fallið undir gjaldþrotaskiptin og eigi ákvæði 165. gr. laga nr. 21/1991 um fyrningu því ekki við.
Umrædd virðisaukaskattskrafa hafi stofnast þegar ríkisskattstjóri hafi tekið ákvörðun um áætlun kröfunnar þar sem sóknaraðili hafi ekki skilað tilskilinni skýrslu á réttum tíma. Þar af leiðandi hafi ekki verið mögulegt að lýsa umræddri kröfu í þrotabúið og beri sóknaraðili ábyrgð á greiðslu hennar eins og öðrum kröfum sem hafi stofnast eftir úrskurðardag en ekki þrotabúið eins og sóknaraðili haldi fram.
Til vara sé gerð krafa um staðfestingu fjárnámsins vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda sem lögð hafi verið á í lögboðinni álagningu opinberra gjalda 2013. Ekki sé ágreiningur um að gjaldfallin þing- og sveitarsjóðsgjöld tímabila ársins 2013 falli ekki undir gjaldþrotaskipti sóknaraðila og því beri að staðfesta fjárnámsgerðina varðandi þann hluta málsins.
Varnaraðili krefst þess að aðfarargerð sýslumannsins á Suðurlandi nr. 033-2015-00757 sem framkvæmd hafi verið með heimild í 9. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, verði staðfest. Kveður varnaraðili að beiðni hans um aðför uppfylli allar form- og efniskröfur sem gerðar séu til beiðna um aðför. Til stuðnings kröfum um málskostnað vísar varnaraðili til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um gildi aðfarargerðar sem fram fór hjá sóknaraðila þann 24. ágúst 2015. Samkvæmt því sem að framan greinir var annars vegar um að ræða fjárnám fyrir virðisaukaskattskuld fyrir uppgjörstímabilið janúar til febrúar 2013, þ.e. 2013 08, en höfuðstóll þeirrar kröfu er kr. 381.184. Hins vegar er um að ræða þing- og sveitarsjóðsgjöld fyrir tímabilin 2013 08 til og með 2013 10, en samanlagður höfuðstóll þeirra krafna er kr. 28.854, en það er sú fjárhæð sem varakrafa varnaraðila beinist að.
Í málinu hafa aðilar deilt um það hvenær krafa vegna hins vangoldna virðisaukaskatts hafi stofnast, m.t.t. þess hvort sú krafa hafi átt undir skipti á þrotabúi sóknaraðila eða ekki.
Í 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 kemur það fram að virðisaukaskatti beri að skila eigi síðar en á fimmta degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils, en hér er um að tefla uppgjörstímabilið janúar til ferbúar 2013 og var gjalddagi samkvæmt því 5. apríl 2013, en það er sá dagur sem dráttarvextir reiknast á virðisaukaskattskuldina samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra um áætlun virðisaukaskattsins, dags. 8. maí 2013. Samkvæmt þessu hefði gjalddagi skattsins verið 5. apríl 2013. Hér hagar hins vegar svo til að virðisaukaskattskýrslu var ekki skilað skv. gögnum málsins. Verður því að byggja á því við úrlausn málsins að skattkrafan hafi stofnast við það að ríkisskattstjóri tók ákvörðun um fjárhæð skattsins og skattskylduna og tilkynnti sóknaraðila um hana þann 8. maí 2013, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 368/2013. Geta ákvæði 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/191 ekki breytt þessu, enda fjárhæðin óþekkt og krafan óstofnuð skv. framansögðu.
Fyrir liggur að bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði þessa dómstóls þann 13. mars 2013. Er óumdeilt í málinu að kröfulýsingarfrestur var til 17. júní 2013 og að skiptum var lokið 28. júní 2013.
Í 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 segir að „[h]afi kröfu verið lýst við gjaldþrotaskiptin og ekki fengist greidd við þau er fyrningu slitið gagnvart þrotamanninum og byrjar þá nýr tveggja ára fyrningarfrestur að líða á þeim degi sem skiptunum er lokið. Þótt kröfu hafi ekki verið lýst við skiptin gildir þessi sami fyrningarfrestur um hana, enda fyrnist hún ekki á skemmri tíma.“ Óumdeilt er í málinu að skiptum lauk 28. júní 2013 og var því fyrningarfrestur kröfunnar ekki liðinn þegar varnaraðili krafðist aðfarar með beiðni sinni þann 18. maí 2015. Samkvæmt síðastgreindu ákvæði breytir þessu ekki að ekki hafi skiptastjóri verið krafinn um greiðslu skattsins eða kröfu vegna hans lýst í búið.
Í 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 segir að „[f]yrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. verður aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skal því aðeins veita með dómi að kröfuhafi sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrningu hennar.“ Í þessu máli hefur varnaraðili ekki ekki höfðað mál innan fyrningarfrestsins til að fá dómum viðurkenningu á fyrningarslitum, en aðfararbeiðni varnaraðila 18. maí 2015 verður ekki jafnað til málshöfðunar að þessu leyti, auk þess að ekki hefur verið sýnt fram á að varnaraðili hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfunni. Gildir þannig tveggja ára fyrningarfrestur um kröfuna frá skiptalokum 28. júní 2013. Geta ákvæði 52. gr. laga nr. 90/1989 ekki breytt þessu, enda hafa ákvæði 165. gr. laga nr. 21/1991 stöðu sérlaga gagnvart almennum ákvæðum 52. gr. laga nr. 90/1989 og ganga framar að þessu leyti. Var því umrædd krafa fyrnd skv. 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 þegar aðfarargerðin fór fram 24. ágúst 2015, en tveggja ára fyrningarfrestur hennar byrjaði að líða við skiptalok þann 28. júní 2013.
Verður samkvæmt framansögðu fallist á ógildingu fjárnámsgerðarinnar að því er varðar kröfu vegna virðisaukaskattsins.
Þing- og sveitarsjóðsgjöld sem krafist var fjárnáms fyrir voru vegna tímabilanna 2013 08 til og með 2013 10, sem voru á gjalddaga í ágúst, september og október 2013, en samanlagður höfuðstóll þeirra krafna er kr. 28.854, en það er sú fjárhæð sem varakrafa varnaraðila beinist að eins og áður segir. Voru þessar kröfur því ekki gjaldkræfar við skiptin á þrotabúi sóknaraðila og áttu ekki undir skipti á þrotabúinu. Voru fjárhæðir þessara krafna fyrst þekktar við skattálagningu 1. ágúst 2013. Sóknaraðili hefur vísað til þess að kröfur þessar hafi verið vegna tekjuársins 2012 og hafi því orðið til í lok þess árs. Ekki verður fallist á þetta og verður miðað við að kröfur þessar hafi í fyrsta lagi stofnast 1. ágúst 2013. Þá hefur sóknaraðili vísað til þess að skráning hins árangurslausa fjárnáms hjá Credit Info valdi henni verulegum ama. Er ekki hald í málsástæðum sóknaraðila varðandi varakröfu varnaraðila og verður ekki fallist á að ógilda fjárnámsgerðina varðandi þing- og sveitarsjóðsgjöldin og því fallist á varakröfu varnaraðila.
Samkvæmt framansögðu hefur verið fallist á ógildingu hinnar umþrættu fjárnámsgerðar að mestu leyti. Með hliðsjón af því er rétt að varnarðili greiði sóknaraðila málskostnað og er hann ákveðinn eftir málskostnaðaryfirliti sóknaraðila kr. 1.031.176 og hefur þá verið litið til virðisaukaskatts.
Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Aðfarargerð nr. 033-2015-00757, sem Sýslumaðurinn á Suðurlandi framkvæmdi hjá sóknaraðila, Hrafnhildi Hlöðversdóttur, þann 24. ágúst 2015, fyrir kröfu að fjárhæð kr. 578.498, er felld úr gildi að því er varðar kr. 528.052 og skal aðfarargerðin ná til krafna að fjárhæð kr. 50.446.
Varnaraðili, Sýslumaðurinn á Suðurlandi, greiði sóknaraðila, Hrafnhildi Hlöðversdóttur, kr. 1.031.176 í málskostnað.