Hæstiréttur íslands
Mál nr. 418/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Vitni
|
|
Föstudaginn 20. ágúst 2010. |
|
Nr. 418/2010. |
Jakob A. Traustason (sjálfur) gegn Gísla Guðfinnssyni (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Vitni.
Með vísan til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kærði J úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu G um að fá að leiða vitni fyrir dóm vegna öflunar ganga í tengslum við gagnáfrýjun hans til Hæstaréttar. Ekki var fallist á kröfu G um að vísa málinu frá Hæstarétti þar sem kæruheimild skorti enda talið, að virtri dómaframkvæmd Hæstaréttar í hliðstæðum málum, sbr. mál nr. 91/2009, að c. liður 1. mgr. 143. gr. fyrrgreindra laga geymdi fullnægjandi heimild til kæru þegar svo stæði á sem hér. Þá var talið að ekki yrði leyst úr því hvaða málsástæður G gæti haft upp fyrir Hæstarétti í máli sem J hefði áfrýjað en G gagnáfrýjað og var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2010, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fá að leiða vitni fyrir dóm vegna öflunar gagna í tengslum við gagnáfrýjun hans til Hæstaréttar. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila hafnað. Verði ekki á það fallist krefst hann þess „að ógilt verði málsmeðferð í héraði og máli heimvísað í hérað og þar til vara að beiðni kærða frá 19. maí sl. verði vísað frá dómi.“ Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar en til vara að þessi kostnaður verði felldur niður.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.
Að virtri dómaframkvæmd Hæstaréttar í hliðstæðum málum, nú síðast 23. mars 2009 í máli nr. 91/2009, telst c. liður 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 hafa að geyma fullnægjandi heimild til kæru þegar svo stendur á sem hér. Verður aðalkröfu varnaraðila því hafnað.
Í þessu máli verður ekki leyst úr því hvaða málsástæður varnaraðili geti haft uppi fyrir Hæstarétti í máli sem dæmt var í héraði 11. febrúar 2010 og sóknaraðili hefur áfrýjað en varnaraðili gagnáfrýjað. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Jakob A. Traustason, greiði varnaraðila, Gísla Guðfinnssyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2010.
Með beiðni móttekinni 20. maí sl. óskaði Erla S. Árnadóttir, hrl., þess fyrir hönd sóknaraðila, Gísla Guðfinnssonar, Bröndukvísl 7, Reykjavík, að fram færu skýrslutökur fyrir dómi af sex nánar tilgreindum einstaklingum vegna væntanlegrar gagnáfrýjunar sóknaraðila til Hæstaréttar á dómi héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. 8442/2009: Jakob A. Traustason gegn Gísla Guðfinnssyni.
Á dómþingi 8. júní sl. mótmælti varnaraðili, Jakob A. Traustason, því að skýrslutakan færi fram og krafðist jafnframt málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Sóknaraðili krafðist þess að beiðni hans um skýrslutöku næði fram að ganga svo og málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Málið var þá flutt um þessar kröfur málsaðila og tekið til úrskurðar.
I
Forsaga þessa vitnamáls er sú að varnaraðili höfðaði árið 2009 mál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur á hendur sóknaraðila til viðurkenningar á eignarrétti hans að nánar tilgreindu landi og gerði jafnframt ýmsar varakröfur þar að lútandi. Við fyrirtöku í málinu þann 6. júlí 2009 varð útivist af hálfu sóknaraðila. Um sumarið og haustið leitaði varnaraðili þrisvar afstöðu Hæstaréttar vegna málsmeðferðar fyrir héraðsdómi. Með dómi Hæstaréttar þann 6. nóvember sl. var tekið fram að héraðsdómara hafi borið að taka málið til dóms í þeim búningi sem það var þegar þingsókn féll niður af hálfu sóknaraðila 6. júlí 2009.
Á reglulegu dómþingi 19. nóvember 2009 var málið síðan dómtekið. Með dómi héraðsdóms 11. febrúar 2010 var viðurkenndur eignarréttur stefnanda að tveimur þriðju hlutum hins umdeilda lands en stefndi var sýknaður af kröfum stefnanda um ógildingu á eignarrétti að einum þriðja hluta í ofangreindri landspildu. Öðrum kröfum stefnanda var vísað frá dómi.
Þessari niðurstöðu áfrýjaði varnaraðili til Hæstaréttar. Sóknaraðili gagnáfrýjaði af sinni hálfu með útgáfu gagnáfrýjunarstefnu þann 26. maí 2010 sem verður þingfest í Hæstarétti 21. júlí nk. Þetta vitnamál er höfðað til öflunar gagna vegna gagnáfrýjunar hans.
II
Varnaraðili vísar til þess að með bréfi dómsins til hans, dags. 25. maí sl., hafi honum verið tilkynnt að umbeðnar skýrslutökur færu fram í gær, 8. júní 2010, án þess þó að hann hefði verið boðaður til sérstaks þinghalds um beiðnina. Samkvæmt 2. mgr. 73. gr. laga nr. 91/1991 eigi þó að taka beiðni fyrir í þinghaldi í málinu og samkvæmt 3. mgr. sömu greinar ákveði dómari hvort skilyrði séu til að verða við beiðni og bóki þá ákvörðun. Í bréfi dómsins til varnaraðila segi hinsvegar að skýrslutökur muni fara fram á boðuðum degi og telji varnaraðili slíka málsmeðferð ekki í samræmi við lögin.
Varnaraðili byggir ennfremur á því að í vitnaleiðslu sem þessari eigi gagnaðili jafnframt að fá að vita út á hvað þær muni ganga, sbr. 73. og. 78. gr. laganna og sé beiðnin gölluð þegar litið sé til fyrirmæla ákvæðisins um þennan rétt gagnaðila.
Í beiðninni sé ekki upplýst á hverju sóknaraðili hyggist byggja gagnáfrýjun sína, en í beiðninni sé væntanleg gagnáfrýjun sóknaraðila gefin upp sem ástæða beiðninnar. Gagnsök hafi ekki enn verið höfðuð og því byggi beiðnin ekki á réttum lagaákvæðum.
Varnaraðili telur jafnframt að sóknaraðili hafi með útivist í héraði fyrirgert rétti sín megin til vitnaleiðslu í málinu, en í 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991 segi að öflun sönnunargagna skuli að jafnaði fara fram fyrir þeim dómara sem fari með málið.
Varnaraðili vísar til þess að í málinu hafi ekki verið lögð fram þau gögn sem gagnáfrýjunin byggi á. Dómari sem eigi að stýra vitnaleiðslum og spyrja spurninga og jafnframt taka afstöðu til þess um hvað megi spyrja og hvað ekki, geti ekki gegnt því hlutverki sínu hafi hann ekki nein gögn sem varði viðkomandi mál. Þar sem gagnsök hafi ekki verið höfðuð séu hvort eð er ekki nein gögn til að leggja fram.
Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt b-lið 143. gr. einkamálalaga séu atriði varðandi skýrslugjöf aðila kæranleg. Stefndi verði skv. 99. gr. laganna að tilgreina í greinargerð sinni hverja hann hyggst leiða til skýrslugjafar fyrir dómi um atvik máls. Geri hann það ekki en óski þess síðar að leiða vitni sé það á forræði stefnanda, í þessu máli varnaraðila, að andmæla þeirri vitnaleiðslu og þá beri héraðsdómara að úrskurða um það hvort vitni verði leidd. Þar sem greinargerð hafi ekki verið lögð fram af hálfu sóknaraðila þessa máls við rekstur þess í héraði og þar af leiðandi engin tilkynning um hvaða vitni ætti að leiða komi þessi vitnaleiðsla varnaraðila í opna skjöldu.
Varnaraðili ítrekar sérstakar aðstæður í þessu máli þar sem útivist hafi orðið af hálfu sóknaraðila í héraði áður en greinargerð var lögð fram. Óeðlilegt sé að koma megi að vitnaleiðslum nú vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
III
Sóknaraðili vísar til þess að beiðnin hafi verið sett fram á grundvelli 76. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með tilvísun til 75. gr. Skýrt sé í lögunum að vegna áfrýjunar dóms sé unnt að beiðast gagnaöflunar og vitnaskýrslna í héraði á grundvelli 76. gr., sbr. 75. gr. Í 75. gr. sé vísað til ákvæða einkamálalaganna um vitnaleiðslur. Í þeim ákvæðum séu hvergi sett tiltekin skilyrði fyrir því að vitnin komi fyrir dóm sem liður í sönnunarfærslu. Krafa varnaraðila hafi því ekki lagastoð. Sóknaraðili sjái ekki heldur lagastoð þeirrar fullyrðingar varnaraðila að vitnaleiðslur geti ekki farið fram í fyrsta þinghaldi sem boðað sé til í málinu.
Vegna vísunar varnaraðila til ákvæðis 73. gr. nr. 91/1991 um að sérstaklega skuli tilgreind í beiðni þau atriði sem vætti á að varða bendir sóknaraðili á að í 73. gr. sé veitt heimild til vitnaleiðslu fyrir öðrum hliðsettum dómstóli en þeim þar sem mál er rekið. Því kunni að þurfa frekari rökstuðnings við í slíkum málum, en þegar beiðst sé heimildar til öflunar gagna vegna reksturs máls fyrir Hæstarétti.
Meginregla samkvæmt lögum um meðferð einkamála sé að ekki þurfi að rökstyðja sérstaklega að vitni skuli leitt fyrir dóminn og ekki sé áskilið að sérstök grein sé gerð fyrir því um hvaða atriði nákvæmlega verði spurt við vitnaleiðslurnar.
Sóknaraðili mótmælir því að það hafi þýðingu hér að útivist varð í héraði vegna mistaka mætingamanns hans. Stefndi hafi skýra lagaheimild til gagnáfrýjunar og hafi gagnáfrýjunarstefna verið gefin út. Það væri ankannalegt ef málsaðili hefði heimild til að gagnáfrýja en ekki til að setja fram kröfur og málsástæður í Hæstarétti. Samkvæmt 137. gr. laga nr. 91/1991 geti stefndi ekki beiðst endurupptöku eftir áfrýjun máls til Hæstaréttar. Þess í stað sé honum heimilt að halda uppi vörnum og kröfugerð fyrir Hæstarétti.
Þrátt fyrir að sóknaraðili hafi ekki lagt fram í Hæstarétti greinargerð um þau sjónarmið sem gagnáfrýjunin byggi á þá breyti það ekki neinu um heimild hans til að leiða vitni hér fyrir dóminn. Eðlilegt sé að um leið og gagnáfrýjun hafi verið afráðin og ákveðin með útgáfu gagnáfrýjunarstefnu verði þegar hafist handa um gagnaöflun vegna rekstrar máls fyrir Hæstarétti.
Ekki sé gert ráð fyrir að dómari sem stýri þinghaldi sem haldið sé til gagnaöflunar vegna reksturs máls fyrir Hæstarétti þekki viðkomandi mál. Honum sé ekki ætlað að taka afstöðu til efnisatriða sem fram komi í vitnaskýrslunum heldur aðeins að stýra þinghaldinu þar sem skýrslur verði teknar.
III
Í XI. kafla laga nr. 91/1991 er veitt heimild til að afla sönnunargagna fyrir öðrum dómi en þeim þar sem mál er rekið. Í 73. -76. gr. eru skilyrði og réttarfarsreglur um mál samkvæmt XI. kafla nánar tilgreind. Samkvæmt 76. gr. gildir ákvæði 75. gr. og þar með ákvæði kaflans í heild, þegar gagna er aflað í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi.
Varnaraðili ber því í fyrsta lagi við að ekki hafi verið boðað til sérstaks þinghalds um það hvort fallast ætti á beiðni sóknaraðila um öflun sönnunargagna fyrir öðrum dómi og telur að þannig beri að túlka ákvæði 2. og 3. mgr. 73. gr. laganna.
Því verklagi hefur verið fylgt að boðað sé til skýrslutöku strax við fyrstu fyrirtöku vitnamáls. Varnaraðili hefur komið fram rökstuddum mótmælum gegn því að beiðni sóknaraðila nái fram að ganga og ágreiningsefnið hefur verið tekið til úrskurðar. Krafa hans verður því ekki studd við það að ranglega hafi verið boðað til þinghalds til að taka skýrslur af vitnum, án undangenginnar ákvörðunar um það.
Varnaraðili byggir í öðru lagi á því að beiðni sóknaraðila sé ekki svo úr garði gerð sem kveðið sé á um í 1. mgr. 73. gr. laganna. Fyrir vitnaleiðslu sem þessa eigi gagnaðili að fá að vita um hvað hún muni snúast.
Fallist er á það að 73. gr. gildi einnig um beiðni um öflun sönnunargagna vegna reksturs máls fyrir Hæstarétti en ekki einvörðungu um öflun sönnunargagna fyrir hliðsettum dómstól. Í ákvæðinu er kveðið á um að sé óskað að leiða vitni skuli greint frá nafni þess, kennitölu og heimili, svo og þeim atriðum nákvæmlega sem vætti á að varða.
Fallast má á það með varnaraðila að skilyrðum ákvæðisins sé að þessu leyti ekki fylgt út í hörgul í beiðni sóknaraðila. Hinsvegar verður ekki talið að þessi annmarki leiði til þess að hafna eigi beiðni sóknaraðila með öllu. Til þess er að líta að í beiðni sóknaraðila, sem var send varnaraðila 25. maí sl., tilgreinir sóknaraðili nákvæmlega þau gögn sem hann hyggst leggja fram á dómþingi og bera undir vitni við skýrslutöku. Fjögur af þessum sex skjölum þekkir varnaraðili til hlítar þar sem hann lagði þau fram í því máli sem hann hefur áfrýjað til Hæstaréttar, þar af er eitt þeirra bréf hans til sóknaraðila þessa máls og hin þrjú gjörþekkir hann einnig enda vitnað oft og ítarlega til þeirra í stefnu hans fyrir héraðsdómi. Varnaraðili vissi einnig af tilvist hinna tveggja skjalanna sem sóknaraðili hyggst bera undir vitnin, kauptilboðs og kaupsamnings, þar sem hann gerir, í stefnu sinni til héraðsdóms, grein fyrir sölu landsins til kaupanda samkvæmt kaupsamningnum. Það að ekki sé greint frá því í beiðni sóknaraðila hvaða atriði varðandi þessi skjöl eigi að bera undir vitnin þykir ekki valda sóknaraðila slíkum réttarspjöllum að hafna eigi beiðni sóknaraðila.
Ekki verður heldur talið að hafna eigi skýrslutökum til gagnaöflunar vegna reksturs máls fyrir Hæstarétti á þeim grunni að varnaraðila séu ekki enn kunnar þær málsástæður sem sóknaraðili hyggst byggja málatilbúnað sinn fyrir Hæstarétti á.
Samkvæmt 75. gr. laga um meðferð einkamála skal dómari, sem gagnaöflun samkvæmt XI. kafla laganna fer fram fyrir, taka ákvarðanir og úrskurða um atriði varðandi framkvæmd hennar. Ekki er þó gert ráð fyrir því að dómari sem hefur það með höndum að stýra þinghaldi í slíku máli gjörþekki málið eða hafi undir höndum öll gögn þess. Beiðni sóknaraðila um skýrslutöku af vitnum verður því ekki hafnað á þeim grunni að öll gögn sóknaraðila vegna gagnáfrýjunar hans liggi ekki fyrir og séu dómara ekki kunn.
Varnaraðili telur ennfremur að sóknaraðili hafi með útivist í héraði fyrirgert rétti til að leiða vitni í málinu. Samkvæmt 137. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að endurupptaka mál þar sem útivist hefur orðið af hálfu stefnda í héraði. Stefndi getur þó ekki beiðst endurupptöku hafi stefnandi áfrýjað máli til æðra dóms. Ákvæði XXV. kafla laganna fjalla um áfrýjun og samkvæmt 3. mgr. 153. gr. þeirra er gagnaðila heimilt að gagnáfrýja hafi máli verið áfrýjað til Hæstaréttar. Hvergi kemur fram í XXV. kafla að fara skuli með gagnáfrýjun útivistarmáls í héraði á annan hátt en máls þar sem vörnum er haldið uppi í héraði. Því verður ekki talið að útivist sóknaraðila við meðferð málsins á lægra dómstigi eigi að leiða til þess að hafna beri beiðni hans um skýrslutöku af vitnum vegna reksturs máls fyrir æðra dómi.
Rök varnaraðila eru því ekki talin leiða til þess að hafna beri beiðni sóknaraðila um skýrslutökur af vitnum vegna gagnaöflunar fyrir Hæstarétti. Með vísan til þess að skilyrði 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991 eru uppfyllt og með vísan til fyrirmæla 76. gr. laganna þykja uppfyllt skilyrði þess að umbeðin gagnaöflun vegna gagnáfrýjunar til Hæstaréttar fari fram fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.
Varnaraðili, Jakob A. Traustason, greiði sóknaraðila, Gísla Guðfinnssyni, 75.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Sóknaraðila, Gísla Guðfinnssyni, er heimil vitnaleiðsla fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna öflunar gagna í tengslum við gagnáfrýjun hans til Hæstaréttar á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu E-8442/2009: Jakob A. Traustason gegn Gísla Guðfinnssyni.
Varnaraðili, Jakob A. Traustason, greiði sóknaraðila 75.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskatt.