Hæstiréttur íslands

Mál nr. 67/2012


Lykilorð

  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Óvígð sambúð


 

                                     

Fimmtudaginn 20. september 2012.

Nr. 67/2012.

 

M

(Erlendur Þór Gunnarsson hrl.)

gegn

K

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

 

Frávísun frá héraðsdómi. Óvígð sambúð.

K og M bjuggu í óvígri sambúð um þriggja ára skeið. K höfðaði almennt einkamál gegn M og krafðist þess aðallega að viðurkenndur yrði eignarréttur hennar til jafns við hann að 9 nánar tilgreindum hrossum. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom meðal annars fram að K hefði kosið að höfða almennt einkamál á hendur M, en aftur á móti rökstutt kröfur sínar með vísan til þess að hún hefði innt af hendi framlög til sameiginlegrar eignamyndunar á sambúðartíma aðila. Þar sem ekki væri unnt að fá úr því leyst í almennu einkamáli hvort almenn eignamyndun hefði átt sér stað í óvígðri sambúð væri um að ræða þverstæðu í málsgrundvelli K sem ekki yrði bætt úr fyrir dómi. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2012, að fengnu áfrýjunarleyfi 25. sama mánaðar. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefndu. Að því frágengnu krefst hann þess að kröfu hans að fjárhæð 1.512.817 krónur með vöxtum samkvæmt 3., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2009 til 16. janúar 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, verði skuldajafnað við fjárkröfu stefndu. Þá krefst hann aðallega  málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður.

Stefnda krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að áfrýjanda verði gert að greiða sér 1.885.175 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. mars 2010 til greiðsludags. Að því frágengnu krefst stefnda þess að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að hestinum A frá [...], skráningarnúmer [...] að áfrýjandi verði dæmdur til að gefa út afsal til hennar. Í öllum tilvikum krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi bjuggu málsaðilar í óskráðri sambúð um þriggja ára skeið. Er óumdeilt að sambúðinni lauk í nóvember 2009 en aðila greinir á um upphaf hennar. Kveður stefnda áfrýjanda hafa flutt inn til sín seinni hluta sumars 2006 en áfrýjandi heldur því fram að það hafi verið í nóvember sama ár.

Á sambúðartíma aðila voru níu nafngreind hross skráð sem eign áfrýjanda á tímabilinu 31. desember 2006 til 10. september 2009. Þá liggur fyrir að áfrýjandi hefur ráðstafað þessum hrossum, öðrum en A frá [...], en hann seldi  B fimm þeirra 29. júlí 2010 og C þrjú þeirra 7. október sama ár.

II

Í máli þessu, sem höfðað er sem almennt einkamál, krefst stefnda þess aðallega að viðurkennt verði að áðurgreind níu hross verði talin sameign hennar og áfrýjanda í jöfnum eignarhlutum. Styður hún þá kröfu með því að verðgildi hrossanna hafi aukist á sambúðartíma aðila vegna tamningar og þjálfunar sem hún hafi greitt fyrir. Varakröfu sína byggir hún á því að um sé að ræða beinan útlagðan kostnað hennar við að auka verðgildi hrossanna á sambúðartíma auk þess sem hún hafi veitt áfrýjanda lán. Þrautavarakröfu sína byggir hún á því að hún hafi keypt umræddan hest sem hafi fyrir mistök verið skráður á nafn áfrýjanda. Kveður stefnda þrautavarakröfuna bera með sér að hún hafi allan sambúðartímann verið í góðri trú um að aðilar væru að vinna saman að eignamyndun og hún hafi verið óspör á fé til að auka verðmyndun hrossanna.

Í málatilbúnaði sínum byggir stefnda kröfur sínar á óskráðum meginreglum um fjárskipti við slit óvígðrar sambúðar og lúta meginröksemdir hennar að því að hún hafi með fjárframlögum sínum aukið verðmæti hrossanna á sambúðartímanum. Því eigi hún rétt á að fá helmings eignarhlutdeild í þeim, en að öðrum kosti eigi hún kröfu á að fá framlög sín endurgreidd. Þó krefst hún sem fyrr segir til þrautavara viðurkenningar á því að hún eigi eitt hrossanna ein.

 Stefnda hefur tekið þann kost að höfða almennt einkamál á hendur áfrýjanda, en aftur á móti rökstutt kröfur sínar með vísan til þess að hún hafi innt af hendi framlög til sameiginlegrar eignamyndunar á sambúðartíma aðila. Í málatilbúnaði sínum sem og í málflutningi hér fyrir dómi var lögð áhersla á það af hálfu stefndu að ágreiningur aðila snerist í raun og veru um eignamyndun á sambúðartíma þeirra. Ekki er unnt í venjulegu einkamáli að fá leyst úr því hvort almenn eignamyndun hafi átt sér stað í óvígðri sambúð, þar sem meðal annars verður að taka mið af framlögum beggja aðila til sameiginlegra þarfa, heldur verður það að gerast með öðrum hætti. Samkvæmt því er um að ræða þverstæðu í málsgrundvelli stefndu sem ekki verður bætt úr og er því óhjákvæmilegt að vísa máli þessu sjálfkrafa frá héraðsdómi þegar af þeirri ástæðu, sbr. dóma Hæstaréttar 28. september 2006 í máli nr. 76/2006 og 27. apríl 2012 í máli nr. 204/2012.

Rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Áfrýjandi naut gjafsóknar við rekstur málsins í héraði. Í gjafsóknarleyfi innanríkisráðuneytisins 6. júní 2011 var tekið fram að gjafsóknarhafa bæri við rekstur málsins að gera þá réttarkröfu að málskostnaður verði tildæmdur gjafsóknarhafa eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Fyrir héraðsdómi gerði áfrýjandi kröfu um málskostnað án tillits til veittrar gjafsóknar. Fyrir Hæstarétti krafðist áfrýjandi málskostnaðar í héraði en tók ekki sérstaklega fram að hans væri krafist eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Með kröfu sinni á hendur stefndu um málskostnað í héraði telst áfrýjandi hafa uppfyllt skilyrði leyfisbréfsins. Verður ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað staðfest.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2011.

Mál þetta, sem var dómtekið 7. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af K, [...], á hendur M, [...], [...], með stefnu birtri 20. september 2010.

Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkenndur verði eignarréttur stefnanda í 9 hrossum, nánar tiltekið; D frá [...], skr. nr. [...], E frá [...], skr. nr. [...], F frá [...], skr. nr. [...], G frá [...], skr. nr. [...], H frá [...], skr. nr. [...], I frá [...], skr. nr. [...], J frá [...], skr. nr. [...], A frá [...], skr. nr. [...] og K frá [...], skr. nr. [...], og  verði hrossin talin sameign stefnanda og stefnda í jöfnum eignarhlutföllum.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 1.885.175 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15.mars 2010 til greiðsludags.

Til þrautavara er þess krafist að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að hestinum, A frá [...], skr. nr. [...] og að stefndi verði dæmdur til að gefa út afsal til stefnanda.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Stefndi krefst aðallega sýknu af aðal- og varakröfu stefnanda og frávísunar þrautavarakröfu hans. Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Til þrautavara er krafist skuldajafnaðar við fjárkröfur stefnanda, að því marki sem þær kunna að verða teknar til greina, skv. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, að fjárhæð 1.512.817 kr. með almennum vöxtum skv. 3. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 1.12.2009 til 16.1.2011, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Krafist er málskostnaðar í öllum tilvikum eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Einnig er krafist virðisaukaskatts á málskostnað þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili.

Málavextir

Ágreiningur málsins lýtur að fjármálalegum skiptum málsaðila í kjölfar slita á óvígðri sambúð þeirra. Ágreiningur er um það hvenær sambúðin hafi stofnast. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi flutt inn til hennar seinni hluta sumars 2006, en stefndi heldur því fram að hann hafi flutt inn til stefnanda 28. nóvember 2006. Sambúðinni lauk í nóvember 2009.

Hinn 12. janúar 2010 sendi stefnandi stefnda beiðni um að aðilar freistuðu þess að ná samkomulagi um skiptingu eigna og skulda.

Hinn 5. febrúar 2010 var framangreind beiðni ítrekuð og hinn 15. febrúar var skorað á stefnda að ganga til samninga um fjárhagslegt uppgjör, en allt án árangurs.

Innheimtubréf var sent stefnda, 15 mars 2010, en hann hefur í engu sinnt því. Innheimtutilraunir hafa skv. framansögðu engan árangur borið og er stefnanda því nauðsyn að fá dóm um kröfur sínar á hendur stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að stefndi hafi flutt inn á heimili sitt seinni hluta sumars árið 2006 og flutt af heimili í nóvember 2009. Stefnandi hafi verið nokkuð vel stæð fjárhagslega, átt skuldlitla íbúð og haft ágætar tekjur. Hún hafi lagt meira af mörkum til framfærslu, heimilishalds og samneyslu, enda með hærri tekjur.

Stefnandi kveður að um mitt ár 2007 hafi hún ásamt systur sinni stofnað félagið L ehf, kt. … og stefndi tekið sæti í framkvæmdastjórn ásamt stefnanda. Hlutaféð hafi verið greitt af stofnendum. Félagið hafi keypt flutningabifreið ásamt tengivagni á myntkörfuláni frá Avant hf. og stefndi fengið atvinnu við að aka bifreiðinni og verið á launaskrá og þegið föst laun hjá félaginu frá stofnun þess þar til félagið hafi nánast orðið að hætta rekstri vegna verkefnaskorts. Myntkörfulán vegna bifreiðakaupanna hafi verið fengið með sjálfskuldarábyrgð stefnanda sem hafi setið illa í skuldasúpu við gengisfall krónunnar og glímir nú við illviðráðanlegar skuldir.

Stefnandi kveður að málsaðilar hafi haft sameiginlegan áhuga á hestamennsku og fjárfest töluvert og hafi stefnandi greitt háar fjárhæðir til kaupa á hrossum og til ýmissa útgjalda tengda hestamennsku, eins og t.d. tamningar, fóðrunar og hagagöngu.

Stefnandi kveður að við sambúðarslitin hafi stefndi verið skráður eigandi að 9 hrossum. Þau hafi öll verið keypt á sambúðartíma aðila og hafi stefnandi talið sig hafa eignast með fjárframlögum sínum hlutdeild í verðmæti hrossanna enda hafi verðgildi þeirra aukist vegna tamningar og þjálfunar þeirra sem stefnandi greiddi auk fóðrunar þeirra á sambúðartíma aðila.

Stefnandi kveður hrossin sem þau hafi eignast á sambúðartímanum, og skráð séu á stefnda, vera eftirfarandi: D frá [...], skr.nr. [...], E frá [...], skr.nr. [...], F frá [...], skr.nr. [...], G frá [...], skr. nr. [...], H frá [...], skr. nr. [...], I frá [...], skr. nr. IS2003235763, A frá [...], skr. nr. [...], J frá [...], skr. nr. [...], K frá [...], skr. nr. [...]. Kaupverð hrossanna hafi verið lágt ef undan sé skilið kaupverð eins hross, A frá [...], sem var 700.000 kr. og hafi það verið greitt af stefnanda, en kaupverð hinna hrossanna hafi verið um 60.000 kr. hvert hross, enda hafi þau verið ung og ótamin. Stefnandi telur að mikið hafi verið lagt í þessi hross og hafi hún að stórum hluta staðið straum af þeim kostnaði. Hún taldi sig vera að fjárfesta með þessum fjárframlögum sínum en annað hafi komið á daginn.

Stefnandi telur að stefndi hafi beitt hana ofríki og ber að hann hafi krafist þess að hrossin yrðu skráð sem hans eign, þótt hann hefði lítið lagt af mörkum hvort heldur til kaupanna eða reksturs þeirra. Stefnandi telur að gögn málsins sýni framlög hennar til eignamyndunar í hrossunum.

Stefnandi kveður varakröfu málsins vera byggða á beinum útlögðum kostnaði stefnanda við að auka verðgildi hrossanna sem hafi verið keypt á sambúðartíma aðila og stefndi tekið í sína vörslu við sambúðarlok, þ.m.t. eitt hross þar sem stefnandi greiddi allt kaupverðið. Þá hafi stefnandi þurft að leggja stefnda til fé vegna slæmrar fjárhagsstöðu hans. Stefndi hafi hinn 21.8.2009 fengið lán hjá stefnanda að fjárhæð 200.000 kr. sem hann hafi lofað að endurgreiða innan skamms tíma en ekki staðið við það. Undir lok sambúðartímans hafi fjárhagur stefnda verið orðinn verulega slæmur vegna atvinnuleysis og hafi stefnandi í tvígang hlaupið undir bagga með honum. Í fyrra skiptið, hinn 7.9.2009, með láni að fjárhæð 100.000 kr. og í síðara skiptið, hinn 1.12.2009, með láni að fjárhæð 200.000 kr. en þá hafi sambúð þeirra verið lokið.

Stefnandi kveður útreikninga stefnufjárhæðar vera byggða á framlögðum skjölum. Á dskj. nr. 3 séu sjö reikningar frá M ehf. vegna tamningar og þjálfunar á árinu 2007, samtals 327.684 kr. Á dskj. nr. 4 sé kvittun, dags. 19.9.2007, vegna greiðslu 700.000 kr. til seljanda hestsins A frá [...]. Á dskj. nr. 5 séu 3 reikningar frá [...] vegna fóðrunar hrossa, samtals að fjárhæð 148.440 kr. Á dskj. nr. 6 sé reikningur frá [...], að fjárhæð 35.569 kr., vegna byggingavara sem notaðar hafi verið vegna hagagöngu hrossanna. Á dskj. nr. 7 sé greiðsla að fjárhæð 12.000 kr. til Búnaðarsambands [...] vegna sýningar merar, G frá [...]. Á dskj. nr. 8 séu greiðslur vegna tamninga og járninga hrossa að fjárhæð 69.500 kr. Á dskj. nr. 9 séu greiðslur vegna tamninga og járninga hrossa að fjárhæð 49.982 kr. Á dskj. nr. 10 séu þrír reikningar, dags. 1.2.2008, 1.3.2008 og 1.4.2008, frá [...], vegna leigu á stíum en einungis sé gerð krafa um helming reikningsfjárhæðar og er því krafa skv. þessum lið samtals að fjárhæð 42.000 kr. Allir framangreindir reikningar er beinn útlagður kostnaður stefnanda vegna títtnefndra 9 hrossa.

Á dskj. 11, 12, og 13 séu tilgreindar lánveitingar stefnanda til stefnda sem var illa staddur fjárhagslega og gat illa staðið einn undir rekstri hrossanna. Á dskj. nr. 11, dags. 21.8.2009, er lánveiting að fjárhæð 200.000 kr. Á dskj. nr. 12, dags. 7.9.2009, lánveiting að fjárhæð 100.000 kr. Á dskj. nr. 13, dags. 1.12.2009, lánveiting að fjárhæð 200.000 kr.

Samtala tilgreindra fjárhæða á dskj. nr. 3-13 sé 1.885.175 kr. og sé það stefnufjárhæð varakröfu máls þessa. Dráttarvaxta sé krafist frá 15. mars 2010 eins og tilgreint sé í innheimtubréfi, dags. 15.3.2010.

Þrautavarakrafa stefnanda sé sú að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að hestinum A frá [...], skr. nr. [...] og að stefndi verði dæmdur til að gefa út afsal vegna hestsins til stefnanda. Stefnandi kveðst hafa keypt þennan hest, en fyrir mistök hafi hann verið skráður á nafn stefnda sem ekki hafi skilað honum til stefnanda, þrátt fyrir beiðni.

Eins og þrautavarakrafan beri með sér þá hafi stefnandi allan sambúðartímann verið í góðri trú um að aðilar væru að vinna saman að eignamyndun enda hafi hún verið óspör á fé til aukinnar verðmyndunar hrossanna. Stefnandi hafi ítrekað freistað þess að ganga frá fjárhagslegu uppgjöri en stefndi hafi í engu sinnt ítrekuðum beiðnum þar að lútandi.

Stefnandi byggir á því að litið sé á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og því fari um fjármál þeirra eftir almennum reglum fjármunaréttar. Stefnandi reisi kröfur sínar á óskráðum meginreglum um fjárskipti við slit óvígðrar sambúðar. Við slit á óvígðri sambúð taki hvor aðili það sem hann sannanlega á. Stefnandi telji að jafnt í fræðum sem dómaframkvæmd hafi verið litið svo á að líta beri fram hjá formlegum eignarheimildum við fjárskipti milli sambúðarfólks, ef þær fari ekki saman við þau gögn sem fyrir liggi um framlög sambúðarfólksins til eignamyndunarinnar. Eigi þetta ekki hvað síst við í tilvikum þar sem sambúð hafi staðið stutt og ekki hafi stofnast til verulegrar fjárhagslegrar samstöðu milli sambúðarfólks. 

Þá telji stefnandi óumdeilt að hrossin 9 hafi verið keypt á sambúðartíma aðila og að stefnandi hafi lagt umtalsverða peninga til að auka verðgildi þeirra svo og til fóðrunar þeirra og séu lögð fram gögn þeirri staðhæfingu til grundvallar. Þá hafi stefnandi greitt ein fyrir eitt hrossið sem stefndi hafi tekið í sína vörslu. Þar sem öll hrossin séu skráð sem eign stefnda sé óhjákvæmilegt að krefjast viðurkenningar á eignarhlutdeild stefnanda.

Við mat á eignarhlutdeild málsaðila í hrossunum beri að líta til þess hvað hvort þeirra um sig lagði sannanlega fram til kaupa á þeim og til tamninga, þjálfunar svo og til fóðrunar og annars kostnaðar er féll til vegna hrossanna á sambúðartíma aðila.

Varakrafan sé byggð á því að krefjast endurgreiðslu á fjárframlagi stefnanda, sem hún lagði fram í góðri trú að með því eignaðist hún hlutdeild í sameign. Þá hafi stefnandi veitt stefnda lán sem stefndi hafi skuldbundið sig til að endurgreiða. Stefnandi hafi borið ótakmarkað traust til stefnda og látið það eftir stefnda að skrá öll hrossin sem hans eign, þrátt fyrir mikinn kostnað stefnanda.

Þrautavarakrafan sé byggð á því að stefnandi hafi sannanlega keypt fyrir eigið fé hestinn A frá [...].

             Um lagarök varðandi slit sambúðar í lifanda lífi kveður stefnandi að byggt verði á fræðiritum og dómum og megi í því sambandi vísa til Hrd. 1989:9, 1993:800, 1965:231, 1982:1141, 1982:1412, 1981:128, 1990:1581, 1993:677 og 1997:232. Þá sé vísað til meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga en reglur þessar fá m.a. stoð í lögum nr. 7/1936 auk almennra reglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Krafa um dráttarvexti sé byggð á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðjist við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum er gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur. Því er honum nauðsyn að fá dóm fyrir skatti þessum.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi telur að málsaðilar hafi stofnað til óvígðrar sambúðar 28. nóvember 2006 en þá hafi hann flutt lögheimili sitt til stefnanda. Hann telur að málsaðilar hafi verið jafningjar í sambandi sínu og bæði lagt sitt af mörkum til samneyslu sinnar. Stefndi hafi lagt mikið til samneyslunnar, m.a greitt 1.152.422 kr. vegna matar- og drykkjarkaupa á tímabilinu frá nóvember 2007 og fram til nóvember 2009. Auk þess hafi stefndi lagt út fyrir ýmsum munum sem stefnandi sé með í vörslum sínum eftir sambúðarslit þeirra. Þá hafi stefndi lagt út fyrir ýmisskonar viðhaldi á bifreið í eigu stefnanda, [...]. Hann hafi einnig keypt ýmis heimilistæki sem séu í vörslum stefnanda. Þá hafi stefndi hinn 30. apríl 2008 keypt hnakk handa stefnanda. Því sé mótmælt málavaxtalýsingu stefnanda þar sem fram komi að stefnandi hafi lagt mun meira af mörkum til framfærslu, heimilishalds og samneyslu en stefndi.

Stefnandi hafi haldið því fram að hrossin 9 hafi verið keypt á sambúðartíma aðila. Hrossin D og F hafi hins vegar verið keypt í júlí 2006, áður en aðilar málsins fluttu saman og því ekki keypt á sambúðartíma þeirra. Þá haldi stefnandi því fram að hún hafi greitt a.m.k. meirihluta þeirra gjalda sem til urðu vegna umræddra hrossa. Því hafni stefndi sem röngu og ósönnuðu. Stefndi hafi tekið ríkan þátt í öllum kostnaði vegna hrossanna, bæði vegna hesthúss, tamningar, fóðrunar og hagagöngu. Auk þess hafi stefnandi haft hross í hesthúsi stefnda sem varð einnig fyrir miklum kostnaði vegna þess.

Stefndi kveður að hinn 8. janúar 2010 hafi stefnandi fært öll þau hross sem um er deilt í málinu á nafn N, vinkonu stefnanda, í gegnum aðgang stefnda á skráningarvef Búnaðarfélags Íslands (forritið World fengur). Stefndi hafi í framhaldinu haft samband við lögreglu og kært athæfið. Hinn 12. janúar sl. hafi lögregla haft samband við N, sem færði hestana samdægurs yfir á stefnanda. Í framhaldinu virðist stefnandi hafa nýtt sér aðgang stefnda að kerfinu, og fært þau yfir á sitt eigið nafn. Það hafi ekki verið fyrr en 18. janúar sl. sem stefnandi færði hestana endanlega yfir á stefnda.

Stefndi byggir á eftirfarandi málsástæðum.

Stefndi kveðst í fyrsta lagi krefjast sýknu á aðal- og varakröfu stefnanda vegna aðildarskorts. Stefndi sé ekki lengur eigandi að 8 af þeim 9 hestum sem aðalkrafa stefnanda varði. Stefnda var nauðsyn á að selja hestana upp í skuld sem hann hafi verið í við tvo aðila. Hestarnir G, H, F, J og I hafi verið framseldir til B gegn því að skuldin væri lækkuð. Hestarnir D, E, og K hafi verið framseldir til C gegn því að skuldin væri lækkuð. Ef stefnandi telur sig hafa eignarrétt á þeim hestum ætti hún því að snúa sér að eigendum þeirra en ekki stefnda. Þessar upplýsingar ætti stefnandi að eiga auðvelt með að afla sér í gegnum skráningarvef Búnaðarfélags Íslands, þar sem hestar stefnanda væru skráðir auk þeirra hesta sem þrætt sé um í máli þessu. Eini hesturinn sem þrætt sé um og er enn í eigu stefnda sé A frá [...]. Krafa um sýknu vegna aðildarskorts sé byggð á 2. mgr. 16. gr. l. um meðferð einkamála nr. 91/1991 og meginreglum einkamálaréttarfars.

Krafa um sýknu byggist einnig á því að stefndi sé eigandi umræddra hesta og hafi stefnandi enga lögvarða kröfu til eignarréttar á hestunum. Með aðalkröfu sinni hafi stefnandi markað máli sínu þann farveg að hún krefst 50% eignarréttar yfir nánar tilgreindum níu hestum. Hún telur að það geti hún á þeim grundvelli að hún hafi lagt út fyrir ýmsum hlutum sem varða daglegt uppihald og tamningu hestanna. Burtséð frá gildi þeirra reikninga, en þeir verða dregnir í efa hér að neðan, telji stefnandi að svo hægt sé að viðurkenna kröfu stefnanda þurfi hún að sýna stöðugar greiðslur sem eðlilega verði til vegna hestanna, og sýna að í hverjum mánuði, eða með öðrum reglulegum hætti, hafi hún greitt fyrir fóður, hesthús, tamningu o.fl. sem nauðsynlegt er til umhirðu hesta. Það hafi hún ekki gert með framlagningu handahófskenndra reikninga frá mismunandi tímabilum á sambúðartíma þeirra. Þá þurfi stefnandi að sanna að reikningarnir séu vegna uppihalds þeirra hesta sem um sé þrætt en ekki hesta í eigu stefnda. Ekki hafi verið lagt fram neitt yfirlit yfir samfelldan kostnað sem stefnandi hefur haft af hestunum eins og ætla mætti ef stefnandi ætti eitthvað tilkall til eignarréttar í umþrættum hrossum. Ekki virðist af framlögðum gögnum að hún hafi lagt út fyrir fóðri á þessum tíma, nema hvað varðar örfáar vikur og hafi ekki heldur lagt út fyrir plássum í hesthúsi eða öðrum kostnaði sem verði til vegna hestanna. Farið er nánar yfir gildi hvers og eins reiknings hér að neðan, bæði hvað varði sýknu á aðal- og varakröfu stefnanda

Stefnandi heldur því fram að hún hafi greitt fyrir hestinn A frá [...] og miðað við aðalkröfu hennar krefst hún einungis 50% eignarréttar í hestinum þrátt fyrir það. Í því felist í raun viðurkenning á að stefndi eigi a.m.k. helming í þeim hesti og beri því strax af þeim sökum að hafna varakröfu stefnanda sem varðar útlagðan kostnað vegna hestsins. Eignarhlut sinn byggi hún á millifærslu sem millifærð hafi verið á óþekktan aðila hinn 19.9.2007. Ekki komi fram á millifærslunni hver viðtakandinn sé, eða af hvaða tilefni millifærslan sé. Handskrifaðar athugasemdir á útprentun millifærslunnar breyti því ekki. Óljóst sé því hvað greitt hafi verið fyrir hestinn, hvort það hafi verið 700.000 kr. eða einhver lægri tala. Stefndi viðurkennir að stefnandi hafi upphaflega keypt hestinn, þó ekki liggi fyrir hvaða verð hafi verið greitt fyrir hann. Þann hest hafi hún hins vegar gefið stefnanda. Stefndi leggi fram tvær yfirlýsingar því til stuðnings. Þennan hest hafi stefndi sömuleiðis séð um allt frá byrjun og greitt þann kostnað sem fylgt hafi hestinum, bæði vegna tamningar, fóðurs og húsaskjóls. Þá bendi það ótvírætt til eignarréttar stefnda að umræddir hestar voru skráðir á hann í skráningarkerfi Búnaðarfélags Íslands, og hafi eignarhald hans ekki verið dregið í efa af stefnanda fyrr en nú. Fullyrðingar stefnanda um að ofríki stefnda hafi orðið til þess að skráningin var með þessum hætti séu bæði haldlausar og órökstuddar.

Þá virðist sem stefnandi telji að það hafi áhrif á matið, á hvort stefnandi hafi eignast hlutdeild í umræddum hestum, þar sem hún hafi borið meginþungann af allri samneyslu aðila. Þeirri staðhæfingu er hafnað. Stefnandi geri ekkert til að sýna fram á þessa staðhæfingu og séu engin gögn lögð fram af hálfu stefnanda til að styrkja þá röksemdafærslu. Stefndi telur að hann hafi án vafa staðið til jafns við stefnanda hvað útgjöld vegna daglegs heimilisreksturs varði. Því til stuðnings bendi hann á framlögð dómskjöl, bæði færsluyfirlit af debet- og kreditkortareikningi sínum á sambúðartíma aðila. Þá sé lagt fram sérstakt dómskjal þar sem tekin séu saman útgjöld stefnanda sem hann hafi átt til matar og drykkjarkaupa á sambúðartíma, en það séu 1.152.422 kr. Auk þess megi sjá af framlögðum færsluyfirlitum að stefndi hafi notast að stórum hluta við lausafé, en það sjáist skýrlega af færsluyfirlitum, þar sem fjölmargar færslur séu með úttektum úr hraðbönkum. Auk þess væru greiðslur hjá bensínstöðvum og veitingastöðum ekki inni í ofangreindri tölu, en þeir fjármunir hafi sömuleiðis nýst stefnanda í samneyslu. Gerður sé fyrirvari um að lagðar verði fram frekari sundurliðanir á færslureikningum stefnda eftir því sem málatilbúnaður stefnanda gefi tilefni til. Sé hér sérstaklega vísað til útlistana vegna færslna frá bensínstöðvum, veitingastöðum o.fl. aðilum, þar sem líkur séu til að greiðslur stefnda hafi nýst stefnanda einnig.

Um útlagðan kostnað stefnanda. Samkvæmt. dskj. nr. 3 eru lagðir fram 7 reikningar frá M ehf., vegna tamninga og járninga ótiltekinna hesta. Einungis á einum reikningi komi skýrlega fram fyrir hvaða hest sé greitt, reikningi nr. 36, en á reikningi nr. 32 hafi einnig verið handskrifað, inn á reikninginn, nafnið „E“. Óljóst sé hvort kröfuhafinn eða stefnandi hafi gert það sjálfur. Þegar þessir reikningar hafi verið gefnir út hafi hesturinn ekki verið kominn í eigu stefnda og því óljóst hvernig hægt sé að krefja hann um tamningu á hestinum. Kaupdag hestsins megi sjá í útskrift úr skráningarkerfi Búnaðarfélags Íslands, en hann sé skráður á nafn stefnda 13.7.2007. Þeir tveir reikningar sem gefnir hafi verið út og merktir E séu dagsettir annars vegar 25. júní 2007 og hins vegar 9. júlí 2007. Sú tamning sem greitt sé fyrir hafi þá farið fram töluvert fyrr en dagsetning reikninga segi til um.

Þessir reikningar sýni því einungis að stefnandi hafi einhvern tímann borgað fyrir tamningu og járningu á hestum, en óljóst sé hvaða hesta greitt var fyrir. Fyrir liggur að stefnandi hafi átt nokkurn fjölda hesta á sambúðartíma aðila og því gætu þessir reikningar allt eins verið vegna hesta stefnanda sjálfs. Skorað sé á stefnanda að leggja fram óyggjandi gögn sem sýni fyrir hvaða hesta verið sé að greiða. Þá óski stefndi eftir því að stefnandi leggi fram millifærslur sem sýni að hún hafi í raun og veru greitt þessa reikninga. Eini stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins sé N, náin vinkona stefnanda, og því ekki úr vegi að efast um hvort reikningarnir hafi verið greiddir í raun og veru. 

Samkvæmt dskj. nr. 5 eru lagðir fram 3 reikningar frá [...]. Stefnandi heldur því fram að hún hafi greitt þá reikninga frá [...] fyrir stefnda, vegna uppihalds hesta í hans eigu. Á þeim tíma sem um ræðir hafi stefndi eingöngu verið með 1 hest á N, D, meðan stefnandi væri með þrjá af sínum hestum. Greiðsluskylda ætti af þeim sökum að liggja að stærstum hluta hjá stefnanda. Þá komi hvergi fram fyrir hvaða hesta greitt sé. Skorað sé á stefnanda að sýna fram á, með óyggjandi gögnum, að umþrættir reikningar séu vegna hesta í eigu stefnda. Þrátt fyrir þetta hafi stefndi greitt hluta þessara reikninga með millifærslum á reikning hennar þó þeir hafi verið stílaðir á stefnanda og að hluta til vegna hesta í hennar eigu. Aðilar hafi verið í sambúð á þessum tíma og því væri útgjöldum oft og tíðum skipt eftir því hvernig fjárráð aðila væru á hverjum tíma. Stefnandi hafi sannarlega greitt fyrir tvo neðangreinda reikninga. 

·                Reikningur nr. [...], að fjárhæð 60.950 kr., hafi verið á eindaga 27.3.2008. Hinn 25.3.2008 hafi stefndi millifært samtals 180.000 kr. í tveimur færslum inn á reikning stefndu, sem greiðslu, m.a. fyrir þennan reikning.

·                Reikningur nr. [...] að fjárhæð 35.120 kr. hafi verið á eindaga 9.5.2008. Hinn 6.5.2008 hafi stefndi millifært 80.000 kr. inn á reikning stefnanda sem greiðslu m.a. fyrir þennan reikning.

Skv. dskj. nr. 6 kveðst stefnandi hafa greitt fyrir ýmsa hluti, hliðgrind, lamir og læsingar frá [...] í [...], sem notaðir hafi verið við gerð réttar fyrir hagagöngu, í landi O, [...] í [...]. Á reikningnum komi hvergi fram hver hafi greitt fyrir umræddar vörur. Nóta, sem virðist hafa verið heftuð við, sé einnig svo ólæsileg að ómögulegt sé að greina hver rétthafi kortsins sé sem hafi greitt fyrir vörurnar. Skorað sé á stefnanda að sýna fram á að hún hafi í raun og veru greitt fyrir þessar vörur. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að vörurnar hafi einvörðungu nýst stefnda en ekki stefnanda. Það liggi fyrir að stefnandi hafi átt á þessum tíma a.m.k. fjögur hross sem einnig voru sett í hagagöngu á þetta svæði. Í versta falli væri stefnandi að greiða sína hlutdeild í hagagöngunni hjá O. Stefnandi hafi einnig greitt sinn hluta, en gangan væri greidd með verkframlagi og efniskostnaði við gerð réttar sem notuð hafi verið fyrir hrossin. Hluti kostnaðarins væri greiddur, formlega séð af félaginu L ehf., en af millifærslum af reikningi stefnda mætti sjá að það væri í raun og veru hann sem hafi greitt fyrir stærstan hluta þeirra framkvæmda sem hafi þurft að ráðast í vegna hagagöngunnar. Samtals hafi efniskostnaður við smíði réttarinnar verið 85.569 kr. skv. framlögðum reikningum.

Samkvæmt. dskj. nr. 7 kveðst stefnandi hafa greitt fyrir reikning frá Búnaðarsambandi [...], vegna kynbótasýningar á [...], nr. [...]. Á reikningnum komi fram að hann sé vegna G frá [...]. Stefndi telur að þrátt fyrir að stefnandi hafi greitt fyrir eina kynbótasýningu á einum hesti veiti það henni síður en svo eignarrétt á hestinum, og jafnvel ekki heldur hlutdeild í hestinum. Alvanalegt sé að sambýlisfólk, eins og aðilar málsins hafi verið, greiði hvort fyrir annað lágar upphæðir líkt og þá sem um ræði í málinu. Af framlögðum gögnum megi einnig sjá að stefndi hafi greitt háar fjárhæðir vegna hesta stefnanda og stefnda og geti þessi lága fjárhæð ekki dugað til þess að viðurkenna eignarrétt af nokkru tagi í hestum stefnda.  

Samkvæmt dskj. nr. 8 leggur stefnandi fram millifærslur á nokkra aðila og telur að greitt hafi verið fyrir tamningar og járningu hrossa stefnda. Hvergi á þessum millifærslum komi fram fyrir hvað hafi verið greitt, eða fyrir hvaða hesta sé greitt. Ómögulegt sé að ráða af þessum gögnum að þessar millifærslur hafi verið að einhverju leyti tengdar stefnda eða hestum í hans eigu. Skorað sé á stefnanda að leggja fram þær upplýsingar, með óyggjandi gögnum, reikningum eða öðrum skjölum sem sýni skýrlega fram á ástæður millifærslna. Eina af millifærslunum hafi stefndi þó sannanlega greitt.

Hinn 22.1.2007 hafi stefnandi lagt 32.000 kr. inn á P. Þremur dögum áður, hafi stefndi lagt 30.000 kr. inn á stefnanda sem greiðslu vegna þessa reiknings.

Millifærslu hinn 5.7.2007, að fjárhæð 24.000 kr., telji stefndi ekki vera vegna hesta hans. Millifærslan sé á N, nána samstarfskonu stefnanda til margra ára. Margar ástæður gætu verið fyrir millifærslunni og verði að leggja sönnunarbyrði á stefnanda að sýna fram á að greiðslan sé í raun vegna hesta stefnda.

Millifærsla hinn 5.7.2007 á R sé að sama skapi órökstudd og óljóst fyrir hvað hafi verið greitt.

Skv. dskj. nr. 9 leggur stefnandi enn fram þrjár órökstuddar millifærslur, tvær á R og eina á S. Líkt og hér ofan er skorað á stefnanda að leggja fram óyggjandi gögn um ástæður millifærslna.

Hinn 5.6.2007 hafi stefnandi millifært 22.000 kr. til R. Hinn 11.6.2007 hafi stefndi millifært á stefnanda 10.000 kr. Þessi greiðsla hafi verið vegna umræddrar millifærslu. Það sem út af standi skv. reikningnum átti stefnandi að greiða.

Hinn 8.7.2008 hafi stefnandi millifært 15.607 kr. á R. Stefndi telur að millifærslan sé sér óviðkomandi og ekki vegna hesta í hans eigu.

Hinn 22.7.2008 hafi stefnandi millifært 10.375 kr. á S. Stefndi telur að millifærslan sé óviðkomandi sér og ekki vegna hesta í sinni eigu.

Skv. dskj. nr. 10 leggur stefnandi fram þrjá reikninga vegna mánaðarleigu á stíum fyrir tímabilið janúar-mars 2008 frá [...]. Stefnandi telur að hann hafi greitt fyrir þessa leigu með millifærslum á reikning stefnda.

Á eindaga reiknings að fjárhæð 28.000 kr. hinn 12.2.2008 leggi stefndi 40.000 kr. inn á reikning stefnanda.

Á eindaga reiknings að fjárhæð 28.000 kr. hinn 12. 3.2008 leggi stefndi 100.000 kr. inn á reikning stefnanda.

Á eindaga reiknings að fjárhæð 28.000 kr. hinn 14.4.2008 leggi stefndi 150.000 kr. inn á reikning stefnanda.

Vísað sé til dskj. 39 varðandi umræddar millifærslur. Þá megi benda á að ekki sé minnst á kostnað vegna leigu á hesthúsi á öðru tímabili en þessu þriggja mánaða tímabili í framlögðum gögnum stefnanda. Í stefnu telji stefnandi að stefndi eigi að greiða helming þessara þriggja reikninga og viðurkenni þar með að hún beri einhverja greiðsluskyldu vegna eigin hesta sem geymdir hafi verið í hesthúsum. Athyglisvert sé að stefnandi minnist ekkert á þann kostnað sem orðið hafi til vegna leigu á hesthúsum og fóðri fyrir utan þrjá mánuði í byrjun árs 2008. Allan sambúðartíma aðila hafi stefndi staðið undir leigu á hesthúsi og kostnaði vegna fóðrunar hestanna, bæði sinna og að hluta eða öllu leyti, hesta stefnanda. Greiðslur fyrir hesthúsið hafi farið fram með mismunandi hætti, bæði með staðgreiðslu og með vinnuframlagi eða vörum, t.d. heyi. Á árinu 2008 greiði stefndi þó 224.000 kr. inn á reikning eiganda hesthússins, T, kt. [...], með fjórum greiðslum. Engin gögn hafi verið lögð fram um greiðslu hlutdeildar hennar í kostnaði, hvorki vegna umrædds hesthúss né fóðurs.

Stefnandi heldur því fram að millifærslur frá henni til stefnda á dskj. 11-13 hafi verið einhverskonar lán. Stefndi hafnar því. Með millifærslunum væri stefnandi að greiða fyrir útlagðan kostnað stefnda vegna leigu á hesthúsi og fóðri fyrir hesta stefnanda, auk annarra vara sem stefndi hafði lagt út fyrir vegna hesta stefnanda. Millifærslurnar hafi ekki greitt allan kostnað sem varð til vegna hesthúsanna og hesta stefnanda heldur einungis hluta hans.  

Um útlagðan kostnað stefnda vegna hestanna á sambúðartíma. Öfugt við stefnanda hafi stefndi séð að meginstefnu til um alla sína hesta, þ.e. þá hesta sem skráðir hafi verið á hann, auk þess sem hann hafi séð um hesta stefnanda að hluta. Útlagður kostnaður vegna þeirra hesta sem skráðir höfðu verið á hann á sambúðartímabili þeirra sé afar mikill.

Á árinu 2009 hefði útlagður kostnaður stefnda vegna sinna hesta í [...] verið 210.932 kr. með vsk. Ekki séu aðgengilegar tölur frá öðrum tímabilum, en ætla megi að kostnaðurinn sé svipaður á öðrum tímabilum. Einnig megi benda á færsluyfirlit bæði debet- og kreditkortareiknings hans þar sem sé að finna fjölda greiðslna til [...]verslana. Áskilinn sé réttur til þess að sundurliða þær upplýsingar sem þar komi fram með skýrum og skilmerkilegum hætti.

Stefndi hafi greitt leigu vegna hesthúsaplássa, bæði fyrir hann og stefnanda,  fyrir bæði árið 2007 og 2008. Það megi sjá af millifærslum á eiganda hesthússins þar sem hluti hesta hans og stefnanda hafi verið geymdir á tímabilinu. Á þessu tímabili (2007-2008) hafi stefndi verið með hesta sína og hesta stefnanda á tveimur mismunandi stöðum. Á árinu 2007 hafi hann verið með 6 hesta samtals og greitt fyrir það 18.000 kr. fyrir hesthúsapláss og fóður. Á árinu 2008 hafi hann verið með 6 hesta hjá T og 2 hesta hjá U. Greiðsla fyrir hesthúsapláss og fóður fyrir hvern hest, hjá þessum tveimur aðilum, hafi verið 18.000 kr. í þá sex mánuði ársins sem hrossin eru í hesthúsi. Á árinu 2009 hafi aðilar málsins fengið inni í öðru hesthúsi þar sem kostnaður hafi verið minni og sé sá kostnaður ekki inni í neðangreindum útreikningum. Stefndi hafi einnig verið með hrossin í hagagöngu en kostnaðurinn af henni hafi verið 12.000 kr. pr. hest í þá sex mánuði ársins sem þeir hafi verið í hagagöngu. Hestar stefnda hafi allajafna verið á húsi frá 1. janúar til 1. júlí ár hvert og í hagagöngu frá þeim tíma og fram að áramótum. Í neðangreindum útreikningum sé miðað við að þeir hafi verið í hagagöngu frá 2007 til 2009, að því undanskildu að kostnaður vegna hagagöngu sé miðaður við sambúðarslit, þ.e. nóvember 2009, og sé kostnaður stefnda miðaður við þann mánuð. Hestarnir hafi verið í hagagöngu hjá O sem áður hafi verið nefndur. Áætlaður kostnaður vegna hvers og eins hests, eingöngu vegna þessara kostnaðarliða, sé því sem hér segir fyrir árin 2007, 2008 og 2009:

·                E frá [...]. Keyptur [...]2007. Kostnaður 300.000 kr.

·                A frá [...]. Keyptur [...]2007. Kostnaður 276.000 kr.

·                D frá [...]. Keyptur [...] 2006. Kostnaður 420.000  kr.

·                F frá [...]. Keypt [...] 2006. Kostnaður 420.000 kr.

·                J frá [...] 1. Keypt [...]2008. Kostnaður 72.000 kr.

·                G frá [...]. Keypt [...]2007. Kostnaður 252.000 kr.

·                H frá [...]. Keypt [...]2007. Kostnaður 252.000 kr.

·                I frá [...]. Keypt [...]2007. Kostnaður 252.000 kr.

·                K frá [...]. Keypt [...]2009. Kostnaður 24.000 kr.

Stefndi hafi greitt hesthúsaleigu hjá T í peningum en þær millifærslur séu eingöngu fyrir hluta ársins 2008, samtals 224.000 kr. Greiðsla fyrir árið 2007 og hluta ársins 2008 hafi verið með reiðufé og fóðri. U væri greitt með heyrúllum sem U nýtti fyrir sína eigin hesta. Hagagangan hafi verið greidd með verkframlagi og efniskaupum, til hagsbóta fyrir landeiganda sem leyfði stefnda og stefnanda hagagöngu á landi sínu.

Stefnandi heldur því fram að hún hafi lagt út fyrir allri tamningu hesta stefnda. Það sé alrangt, þar sem stefndi hafi bæði tamið sín hross að hluta til sjálfur og einnig greitt öðrum fyrir tamningu sinna hesta.

Um hlutdeild í verðmætasköpun á sambúðartíma. Stefnandi virðist halda því fram að aðilar eigi umrædd hross í sameign vegna framlaga hennar til uppihalds hrossanna. Samkvæmt þeim meginreglum sem gildi um fjárskipti milli sambúðarfólks í lifanda lífi, eigi sambúðarmaki að fá hlutdeild í þeirri eignamyndun sem verði til á sambúðartíma og hann stuðli að, með beinum peningagreiðslum, vinnu, lánsfé og afborgunum af lánum, yfirtöku skulda o.s.frv. Til þess að hægt sé að veita stefnanda hlutdeild í verðmætasköpun á sambúðartíma sé nauðsynlegt að hún sýni fram á, í fyrsta lagi að hafa veitt atbeina að verðmætasköpun og í öðru lagi að verðmæti hestanna hafi aukist á sambúðartíma svo einhverju nemi. Óumdeilt sé að stefndi hafi keypt alla þá hesta sem þrætt sé um, fyrir utan einn, A frá [...]. Til þess að hægt væri að sýna skýrlega fram á eignaaukningu sem stafi af framlögum stefnanda sé nauðsynlegt að kalla til dómkvaddan matsmann, enda ekkert sem liggi fyrir í málinu um að hestarnir séu verðmeiri í dag en þeir hafi verið þegar þeir hafi verið keyptir. Ekki sé hægt að líta svo á að hestarnir verði smátt og smátt að eign stefnanda með smávægilegum framlögum til tamningar og fóðrunar dýranna. Nauðsynlegt sé að sýna fram á aukið verðgildi þeirra.

Nokkur dýranna hafi einnig verið keypt á síðustu mánuðum sambúðar aðila. Í því sambandi megi benda á J frá [...], sem hafi verið keypt [...]2008 og K frá [...] sem keyptur hafi verið [...]2009, um tveimur mánuðum fyrir sambúðarslit. Stefnandi þurfi sérstaklega að sýna fram á veruleg framlög frá sinni hendi til þessara hesta svo mögulegt sé að veita henni hlutdeild í þeim. Auk þess liggi ekkert fyrir um verðmætaaukningu hestanna á sambúðartíma.

Verði sýknað af aðal- og varakröfu stefnanda krefst stefndi aðallega frávísunar á þrautarvarakröfu hans. Stefnandi krefst til þrautavara 100% eignarréttar í hestinum A frá [...]. Þessi kröfugerð uppfylli ekki meginreglur einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð. Varakröfur séu því marki brenndar að þær geti ekki veitt stefnanda rýmri rétt en þegar aðalkrafa stefnanda sé viðurkennd. Í máli þessu hafi stefnandi markað máli sínu þann farveg að krefjast aðallega 50% eignarréttar í níu tilgreindum hestum, þ. á m. A frá [...]. Krafa um 100% eignarrétt á hestinum geti því aldrei verið varakrafa á eftir kröfu um 50% eignarrétt í sama hesti. Stefndi telur að vísa eigi kröfunni frá af þessum sökum. Frávísunarkrafan sé byggð á meginreglum einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð.

Verði sýknað af aðal- og varakröfu stefnanda en ekki fallist á frávísunarkröfu stefnda varðandi þrautarvarakröfu stefnanda er krafist sýknu af þeirri kröfu stefnanda. Vísast í sömu málsástæður og komi fram í kafla 2 hér að framan varðandi það.

Vísað sé sérstaklega til umfjöllunar hér að framan um umþrættan hest, A frá [...]. Ítrekað sé að umræddur hestur hafi verið gjöf til stefnda og hafi hann séð um hestinn frá því að hann hafi verið keyptur, séð um tamningu eða lagt út fyrir henni, auk allra annarra þarfa hestsins. 

Ef kröfur stefnanda um greiðslu peningakrafna verði viðurkenndar að einhverju leyti lýsi stefndi yfir skuldajöfnuði gegn þeim kröfum, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi hafi greitt fyrir fjöldann allan af heimilistækjum á heimili stefnanda, sem hann hafi ekki fengið í sinn hlut þegar þau slitu samvistum. Krafist sé skuldajafnaðar í samræmi við eftirfarandi reikninga og millifærslur á reikningsyfirliti:

1.              7.9.2007, sjónvarp, 13.989 kr. [...]

2.              17.1.2008, þvottavél, 56.290 kr. [...]

3.              15.3.2008, rúmdýnur, 46.600 kr. [...]

4.              24.4.2009, sjónvarp, 49.990 kr. [...]

5.              22.6.2009, fortjald á tjaldvagn, 170.525 kr. [...]

6.              16.10.2009, frystikista, 87.989 kr. [...]

Gerður sé áskilnaður um framlagningu reikninga kaupa stefnda á rúmdýnum frá [...] og sjónvarps frá [...].

Einnig sé krafist skuldajafnaðar vegna reikninga sem hafi verið greiddir fyrir viðhald á einkabifreið stefndu:

1.              05.06.2008, kr. 28.503 – [...]

2.              04.09.2008, kr. 53.148 – [...] 

3.              04.12.2008, kr. 70.703 – [...]

Þá hafi stefndi keypt hnakk handa stefnanda þann 30.4.2008, 148.750 kr. í versluninni, [...], og er krafist skuldajafnaðar við kröfur stefnanda vegna greiðslu hnakks, sem stefnandi hafi í vörslum sínum. Keyptir hafi verið tveir hnakkar og sé sú tala sem komi fram á færsluyfirliti því tvöföld ofangreind tala. Gerður er áskilnaður um framlagningu reiknings vegna kaupa á hnakknum.

Stefndi krefst einnig skuldajafnaðar hvað varðar útlagðan kostnað hans vegna hesta stefnanda.

·                Á árinu 2007 hafi verið 2 hestar á húsi stefnda í sex mánuði og hafði stefnandi keypt tvo hesta til viðbótar á árinu og hafi þeir verið í tvo mánuði í hesthúsi. Kostnaður stefnda af þeim sé 288.000 kr., þ.e. 18.000 kr. á mánuði fyrir hvern hest.

·                Á árinu 2008 hafi verið a.m.k. 4 hestar á húsi stefnda og hafi kostnaður hans verið 432.000 kr., þ.e. 18.000 kr. á mánuði fyrir hvern hest í sex mánuði.

Á árinu 2009 hafi aðilar verið með hesta sína á nýjum stað, í hesthúsi á vegum [...]bæjar. Stefndi hafi greitt öll þau gjöld sem féllu til á þeim tíma vegna reksturs hesthússins. Grunnleiga þess hafi þó verið afar lág og ekki krafist skuldajafnaðar vegna hennar. Stærsti kostnaðarliður vegna reksturs hússins hafi verið kaup á spæni undir hestana. Stefndi hafi keypt spæni á mörgum stöðum á árinu 2009 vegna hestanna, stór hluti innkaupa hans hafi þó farið í gegnum [...] og hefur verið lagt fram yfirlit yfir viðskipti stefnda við fyrirtækið á árinu. Á yfirlitinu sé að finna kaup á spæni og sagi fyrir hestana:

·                25 kg. af spæni, fyrir 31.902 kr. auk 7.816 kr. í virðisaukaskatt.

·                18. kg. af sagi, fínu, (orange), 11.594 kr. auk 2841 kr. í vsk. 

·                16 kg. af spæni, kögglað, 9781 kr. auk 2396 kr. í vsk.

Samtals sé því krafist skuldajafnaðar á 66.330 kr. vegna kaupa á spæni. Þetta sé þó ekki tæmandi upptalning á kaupum stefnda á spæni á árinu 2009. Samtals sé því krafist skuldajafnaðar á höfuðstóli 1.512.817. kr.

Stefndi telur að öll skilyrði skuldajafnaðar séu fyrir hendi, ef vera skyldi að einhver hluti fjárkrafna stefnanda verði samþykktur. Kröfurnar séu sambærilegar, þ.e. fjárkröfur milli sömu aðila, og einnig sé hægt að líta svo á að krafa stefnda sé fallin í gjalddaga við sambúðarslit aðila, þegar hann hafi ekki fengið þá muni sem hann sannanlega hafi greitt fyrir, eða ekki fengið greiddan kostnað sem hann sannarlega hafi lagt út fyrir. Slík krafa sé því gild í þessum skilningi og mögulegt að skuldajafna henni.

Stefndi krefst vaxta skv. 3. gr. sbr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá sambúðarslitum, en þá hafi orðið til krafa stefnda um endurgreiðslu á þeim útgjöldum sem voru í þágu stefnanda. Dráttarvaxtakrafa sé studd við 5., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga og sé hún miðuð við mánuð eftir að greinargerð hafi verið lögð fram á dómþingi.

Stefndi byggir kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar, m.a. um gjafir og skuldbindingargildi samninga. Stefndi byggir kröfur sínar einnig á meginreglum hjúskaparréttar, er varða fjárskipti í lifanda lífi við sambúðarslit. Krafa um skuldajöfnuð sé byggð á 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála og meginreglum kröfuréttar um skuldajöfnuð. Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi vaxtakröfu er vísað til III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988, en stefnandi þessa máls er ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnda.

Niðurstaða

Málsaðilar stofnuðu til óvígðrar sambúðar á árinu 2006. Ágreiningur er með aðilum um hvort það hafi verið seinni hluta sumars, svo sem stefnandi heldur fram, eða 28. nóvember 2006, eins og stefndi telur. Sambúð þeirra stóð fram í nóvembermánuð 2009. Í greinargerð stefnda er það viðurkennt að um óvígða sambúð hafi verið að ræða. Við aðalmeðferð málsins taldi stefndi hins vegar að um slíka sambúð hefði ekki verið að ræða, þar sem stefndi hafi aldrei flutt lögheimili sitt til stefnanda. Hér vísar stefndi til 3. mgr. 7. gr. lögheimilislaga nr. 21/1990 og 100. gr. laga um skipti dánarbúa o.fl. nr. 20/1991. Tilvísun stefnda til nefndra lagaákvæða á ekki við hér. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 52/1973 um tilkynningu aðsetursskipta bar stefnda að tilkynna um aðsetursskipti sín er hann flutti frá [...], [...] til stefnanda. Og samkvæmt 2. gr. lögheimilislaga nr. 21/1990 er lögheimili manns sá staður þar sem maður hefur fasta búsetu. Stefndi hefur ekki mótmælt því að hafa búið hjá stefnanda á nefndu tímabili og voru málsaðilar því í óvígðri sambúð, samanber og málflutningsyfirlýsingu stefnda í greinargerð hans.

Stefnandi kveðst hafa átt litla skuldlitla íbúð við upphaf sambúðar og haft ágætar tekjur. Stefndi kveðst hafa búið í Danmörku og misst vinnu sína þar og flutt á árinu 2006 til Íslands og búið að [...]. Hann hafi farið að vinna hjá verktakafyrirtæki og hætt þar vorið 2007. Þá hafi hann farið að vinna hjá  [...]. Þar vann hann þar til stefnandi hafi stofnað fyrirtækið L ehf. og félagið keypt vörubíl er hann ók. Verkefni hafi síðan dregist saman og hann hafi farið á atvinnuleysisbætur á árinu 2008 til 2010. Stefnandi gekkst í sjálfskuldaábyrgð vegna bifreiðakaupanna en þau voru fjármögnum með myntkörfuláni. Við sambúðarlok var stefnandi því mjög illa stæð fjárhagslega.

Aðalkrafa stefnanda lýtur að því að viðurkenndur verði eignarréttur að nánar tilgreindum níu hrossum og þau verði talin sameign málsaðila í jöfnum hlutföllum. Stefnandi er því að krefjast viðurkenningar á hlutdeild í þeirri eignarmyndum sem hún telur að átt hafi sér stað á sambúðartímanum. Ágreiningslaust er að sex af níu hrossum hafi verið keypt á sambúðartíma auk þess sem stefndi viðurkennir að stefnandi hafi keypt hrossið A frá [...] og heldur því síðan fram að stefnandi hafi gefið sér hrossið. Því hefur stefnandi andmælt. Stefndi kveðst hins vegar hafa keypt hrossin D og F áður en sambúð hófst. Engin gögn liggja fyrir í málinu um kaup þessi. Einungis liggur fyrir yfirlýsing C frá 6. desember 2010 en þar segir að sumarið 2006 hafi hann haft hjá sér nefnd hross sem stefndi hafi keypt fyrr um sumarið. Dómurinn lýtur svo á að með þessari yfirlýsingu sé ekki komin fram lögfull sönnun þess að stefndi hafi eignast hross þessi áður en sambúð málsaðila hófst.

Sú yfirlýsing stefnanda að málsaðilar hafi keypt hestana saman (að A frátöldum) og staðið saman að rekstri, umsjón og umhirðu hestanna, þ.e. „verið saman í hestamennskunni“ fær einnig stoð í framburðum N, V og R, en þær unnu að tamningu hestanna. Hjá N kom fram að hún hafi gefið reikningana út á stefnanda að ósk málsaðila og stefnandi greitt fyrir þá eftir því sem hún best myndi. Hjá V kom fram að hún hafi haft samskipti við báða málsaðila en það hafi oftast verið stefnandi sem hafi komið og greitt fyrir þjónustuna. Hjá R kom fram að stefnandi hafi greitt fyrir þjónustuna. Í málsgögnum er einnig að finna staðfestingar á því að stefnandi hafi greitt reikninga vegna hrossanna. Með vísan til þess sem að framan greinir er fallist á með stefnanda að hrossin níu sé eignarmyndun sem átt hafi sér stað á sambúðartíma málsaðila og að stefnandi hafi tekið þátt í þeim kostnaði sem varð þeirra vegna. Dómurinn telur því að málsaðilar hafi átt nefnd hross að jöfnu þá er sambúð þeirra lauk.

Hinn 20. september 2010 er stefnda birt stefna málsins. Hinn 7. október 2010 eru þrjú hrossanna þ.e. E, D og K, skráð á C. Engin önnur skjalleg gögn hafa verið lögð fram um hross þessi. Samkvæmt greinargerð stefnda var þessi ráðstöfun gerð til lækkunar á skuld stefnda við C. Fyrir dómi kvaðst stefndi aftur á móti hafa selt C þau á 150.000 kr. C staðfesti það og kvaðst hafa keypt hrossin um mánaðamótin september/október 2010. Engin gögn hafa verið lögð fram um þá sölu. Vitnið býr í [...] en í skýrslu fyrir dómi kom fram að hann taldi að tvö hrossanna væru í Borgarfirði og eitt norður í landi. Þá kom fram að C og stefndi hafi verið vinir í rúma fjóra áratugi. Framburður vitnisins var ekki trúverðugur.

Hinn 11. október 2010 eru hrossin G, I, H, F og J skráð á nafn B. Hún er fyrrverandi eiginkona stefnda. Stefndi og vitnið B sögðu ástæðu skráningarinnar vera þá að stefndi skuldaði henni framfærslufé vegna skilnaðar þeirra árið 2006. Hafi hún samþykkt að taka við hestunum gegn því að skuldin lækkaði um 400.000 kr. Mætta upplýsti að hún stundaði sjálf ekki hestamennsku. Þá upplýstu hún og stefndi fyrir dómi að til stæði að þau tækju upp sambúð að nýju. Framburður mættu var ekki trúverðugur.

Eftir stefnubirtinguna hinn 20. september 2010 mátti stefnda vera ljóst að ágreiningur var um eignarhaldið á hrossunum. Þrátt fyrir það afsalar hann hrossunum, án þess að láta stefnanda vita. Viðtakendurnir eru annars vegar aldavinur stefnda og hins vegar fyrrverandi eiginkona hans, sem hann hyggst taka upp sambúð við að nýju. Að mati dómsins er hér um málamyndagerninga að ræða, til þess eins að koma hrossunum undan skiptum, er stefnda var ljóst að stefnandi myndi gera eignartilkall til þeirra að jöfnu við stefnda.

Með vísan til þess sem að framan greinir er aðalkrafa stefnanda um viðurkenningu á eignarrétti hennar í níu nánar tilgreindum hrossum tekin til greina og þau talin sameign stefnanda og stefnda í jöfnum eignarhlutföllum.

Með vísan til þessarar niðurstöðu, sem og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 kr. og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Stefndi hefur gjafsókn til að taka til varnar í máli þessu. Kostnaður málsins greiðist því úr ríkissjóði þar á meðal þóknun lögmanns stefnda, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., sem þykir hæfilega ákvörðuð 500.000 kr., og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Viðurkenndur er eignarréttur stefnanda, K í 9 hrossum, nánar tiltekið; D frá [...], skr. nr. [...], E frá [...], skr. nr. [...], F frá [...], skr. nr. [...], G frá [...], skr. nr. [...], H frá [...], skr. nr. [...], I frá [...], skr. nr. [...], J frá [...], skr. nr. [...], A frá [...], skr. nr. [...] og K frá [...], skr. nr. [...], og verða þau sameign stefnanda og stefnda, M, í jöfnum eignarhlutföllum.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 kr. í málskostnað.

Gjafvarnarkostnaður stefnda greiðist úr ríkis­sjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., 500.000 krónur.