Hæstiréttur íslands

Mál nr. 385/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kyrrsetning
  • Rannsókn


Mánudaginn 22. júní 2015.

Nr. 385/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

Kærumál. Kyrrsetning. Rannsókn.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að felldar yrðu úr gildi kyrrsetningar sýslumannsins í Reykjavík í tilgreindum eignum hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að felldar yrðu úr gildi kyrrsetningar sýslumannsins í Reykjavík 8. nóvember 2013 í tilgreindum eignum varnaraðila. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var mál það, sem hér um ræðir, sent ríkissaksóknara til meðferðar í desember 2014. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 ber ákærendum að hraða meðferð máls eftir því sem kostur er. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2015.

I.

         Með kröfu, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 10. mars sl., krafðist sóknaraðili, X, þess að dómurinn úrskurðaði að nánar tilgreindar ákvarðanir sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 8. nóvember 2013 um kyrrsetningu á eignum hans að kröfu varnaraðila, yrðu felldar úr gildi. Lýtur krafan að fjórum kyrrsetningargerðum sem eru eftirfarandi:

         1.   K-[...] þar sem kyrrsettar voru fasteignirnar að [...] í [...], fnr. [...], [...] og [...].

         2.   K-[...] þar sem kyrrsett voru ökutækin [...],[...], skotbómulyftari með númerinu [...], fasteignin að [...] í [...], fnr. [...], hlutir í [...], kt. [...], og hlutir í [...], kt. [...].

         3.   K-[...] þar sem kyrrsett voru ökutækin [...], [...], [...], [...], [...], [...], [...] ([...]), [...] ([...]), [...] og báturinn [...].

         4.   K-[...] þar sem kyrrsett voru ökutækin [...], [...], [...], [...], [...], [...], [...]og [...].

         Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað. Þess er krafist að málskostnaðurinn beri virðisaukaskatt þar sem sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur.

         Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

         Mál þetta er rekið á grundvelli heimildar í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málið var tekið til úrskurðar um kröfu sóknaraðila 21. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi.

II.

         Lögreglan hefur haft starfsemi veitingastaðarins [...] í [...] til rannsóknar um nokkurt skeið, en þeirri rannsókn mun vera lokið. Samkvæmt gögnum málsins er sóknaraðili skráður handhafi veitingaleyfis staðarins. Rekstur hans er í höndum einkahlutafélags sem ber heitið [...], en sóknaraðili er skráður stjórnarformaður félagsins og fer einn með prókúru þess.  

         Rannsóknargögn málsins sýna að varnaraðili hafi byrjað að afla upplýsinga um reksturinn í júní 2013, en þá höfðu ítrekaðar upplýsingar borist lögreglu um að fram færi vændisstarfsemi á staðnum. Aflað var fyrsta úrskurðar dómara um heimild til að afla fjárhagsupplýsinga í þágu rannsóknarinnar 18. október 2013. Hinn 10. október og aðfaranótt 26. október 2013 fóru óeinkennisklæddir lögreglumenn á veitingastaðinn til að afla upplýsinga um hvers kyns starfsemin færi þar fram. Samkvæmt rannsóknargögnum mun lögreglumönnunum hafa verið boðin kynlífsþjónusta á staðnum gegn greiðslu. Í kjölfar síðari heimsóknarinnar fór fram húsleit á veitingastaðnum og víðar á grundvelli úrskurða dómara frá 25. október 2013. Þá voru ýmsir einstaklingar handteknir og yfirheyrðir í kjölfarið, þar á meðal sóknaraðili. Sætti hann gæsluvarðhaldi í tvær vikur á grundvelli rannsóknarhagsmuna fram í nóvember 2013.

         Með kyrrsetningarbeiðni 8. nóvember 2013 fór varnaraðili fram á það hjá sýslumanninum í Reykjavík að tilteknar eignir sóknaraðila yrðu kyrrsettar til tryggingar kröfum, allt að fjárhæð 532.887.471 krónu, vegna greiðslu sakarkostnaðar, sekta og kröfu ákæruvaldsins á grundvelli 69. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009, um upptöku jafnvirðis ágóða sóknaraðila af ætluðum brotum hans gegn 206. gr. og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sem og gegn 1. mgr. 264. gr. sömu laga. Var beiðnin sett fram þar sem hætta þótti á því að eignunum yrði skotið undan eða að þær glötuðust eða rýrnuðu til muna. Samhliða lagði varnaraðili fram beiðni þar sem krafist var kyrrsetningar á eignum tveggja félaga, þ.e. [...] og [...], vegna ætlaðra brota sóknaraðila, en fram kom að hann væri eigandi og skráður stjórnarmaður í þessum félögum.  

         Með kyrrsetningargerð nr. K-[...], sem fram fór 8. nóvember 2013, var fallist á að kyrrsettar yrðu þær eignir sóknaraðila sem getið er um í tölulið 2 í kröfugerð hans. Með kyrrsetningargerð nr. K-[...] voru einnig kyrrsettar þær eignir [...] sem getið er í tölulið 1 í kröfugerð sóknaraðila. Þá voru kyrrsett ökutæki og bátur í eigu [...] með kyrrsetningargerð nr. K-[...], sbr. kröfulið 3. Að lokum voru með kyrrsetningargerð nr. K-[...] kyrrsett þau ökutæki og lausafjármunir í eigu [...] sem getið er í kröfulið 4.

         Skýrslur voru teknar af sakborningum og vitnum frá lokum októbermánaðar fram yfir miðjan desember 2013. Þá voru skýrslur teknar af sóknaraðila og fleirum sakborningum um miðjan september 2014. Í millitíðinni fór fram rannsókn á haldlögðum gögnum. Í greinargerð varnaraðila kemur fram að við rannsókn á bankagögnum hafi vakið athygli að mikill munur væri á upp gefinni opinberri tekjuskráningu vegna rekstursins á veitingastaðnum og veltu samkvæmt tekjuskráningarkerfi. Meginuppistaða bankaveltunnar hafi verið í tengslum við greiðslukortaviðskipti. Heildarinnborganir á árinu 2013 hafi verið 84.248.928 krónur en samkvæmt virðisaukaskattkerfi hafi félagið gefið upp virðisaukaskattskylda veltu að fjárhæð 25.988.498 krónur. Á sama ári megi greina reiðufjárúttektir að fjárhæð 36.475.582 krónur. Í greinargerðinni eru veittar frekari upplýsingar af þessu tagi um fyrri rekstrarár. Þá er vikið að því að við skoðun á persónulegum bankareikningum sóknaraðila hafi komið í ljós millifærslur frá einstökum aðilum á gríðarlega háum fjárhæðum, en í einu tilviki nemi þær samtals 54 milljónum króna, en lægri fjárhæðum í öðrum tilvikum. Þá veki það athygli að samkvæmt skattframtölum sóknaraðila hafi hann gefið upp einstaklega lágar tekjur vegna síðustu ára. Í greinargerðinni segir að sóknaraðili hafi engar vitrænar skýringar getað gefið á fjármálaumsvifum sínum.

         Í greinargerðinni kemur fram að rannsókn máls vegna ætlaðra brota sóknaraðila sé lokið og hafi gögn málsins verið send ríkissaksóknara til frekari meðferðar. Við munnlegan málflutning var þess getið að það hafi verið gert í desember sl. Þá er í greinargerðinni upplýst að skattyfirvöldum hafi verið gert viðvart um ætluð skattalagabrot varnaraðila og félaga honum tengdum. Við munnlegan málflutning um kröfu sóknaraðila kom fram að formlegt erindi hafi verið sent skattrannsóknarstjóra í maí sl., en að embættið hafi vitað af málinu meðan það hafi verið í rannsókn hjá varnaraðila og hafi heitið því að hraða athugun embættisins þegar það kæmi til kasta þess. Í greinargerð segir að ekki verði gefin út ákæra á hendur sóknaraðila án undanfarandi meðferðar skattyfirvalda.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök sóknaraðila

         Sóknaraðili segir í kröfu sinni að rannsókn málsins sé enn opin í málaskrá lögreglu. Hafi aðgerðir varnaraðila valdið sóknaraðila ótæpilegu fjártjóni og mannorðshnekki. Þannig hafi sóknaraðili átt í erfiðleikum með að greiða opinber gjöld, tryggingar o.fl. Ríkisskattstjóri beiti þau félög, sem hafi verið kyrrsett, viðurlögum vegna vanskila, en hald varnaraðila á gögnum hafi staðið í vegi fyrir skilum. Félög sóknaraðila hafi verið sektuð og innheimtuaðgerðir hefjist bráðlega. Áskilur sóknaraðili sér rétt til þess að halda uppi kröfu til bóta af þessum sökum í sérstöku máli.

         Sóknaraðili tekur fram að 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar áskilji þegnum landsins rétt til þess að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Vísar sóknaraðili enn fremur til 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu í þessu sambandi, sbr. lög nr. 62/1994. Þeim sem annist rannsókn sakamála beri samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 að hraða meðferð máls. Þeim sem hafður sé fyrir sök í málinu sé því tryggður réttur til málsmeðferðar án óhæfilegs dráttar. Sérstök þörf sé á því að hraða málsmeðferð þegar sakborningur sætir þvingunaraðgerðum eða öðrum íþyngjandi aðgerðum sem takmarki frelsi hans eða forræði yfir eignum sínum. Ákvæði 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 kveði jafnframt á um að þeir sem rannsaki sakamál skuli gæta þess að mönnum verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur.

         Sóknaraðili bendir á að í 3. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008 séu ákvæði um það hvenær kyrrsetning samkvæmt greininni falli niður. Hæstiréttur hafi áður dæmt að þótt dráttur á rannsókn máls sé ekki meðal þess sem þar sé talið upp geti sakborningur átt réttmæta kröfu til þess að aflétta þeim hömlum sem kyrrsetning leggi á stjórnarskrárvarinn rétt hans til þess að njóta forræðis yfir eigum sínum ef rannsókn dregst úr hófi, sbr. dóma réttar í málunum nr. 648/2011 og 96/2015.

2. Helstu málsástæður og lagrök varnaraðila

         Af hálfu varnaraðila er athygli vakin á því að rannsókn varnaraðila laut meðal annars að fjármálaumsvifum sóknaraðila, sem hann telur að sóknaraðili hafi ekki getað skýrt með vitrænum hætti. Lúta ætluð brot ekki einungis að skipulegri vændisstarfsemi og stórfelldum skattalagabrotum, heldur einnig að ætluðu peningaþvætti, sbr. 264. gr. almennra hegningarlaga.

         Varnaraðili vísar til þess að ávinningur af ætlaðri brotastarfsemi kunni að hlaupa á hálfum milljarði króna. Verðmæti hinna kyrrsettu muna sé mun lægra en ætlaður ávinningur af brotastarfseminni. Þannig hafi um tuttugu ökutæki verið kyrrsett og sé verðmæti þeirra talið um 50 milljónir króna. Eftirgrennslan lögreglu hafi leitt í ljós að greiðslu fyrir ökutækin hafi í mörgum tilvikum borið að með sérkennilegum og óvanalegum hætti, t.d. með fullum poka reiðufjár. Þá hafi fasteignin að [...] í [...] ásamt báti og lyftara verið kyrrsett. Ætlað sé að sóknaraðili hafi lagt út um 24 milljónir króna vegna þeirra kaupa, en fasteignin hafi að öðru leyti verið fjármögnuð með yfirtöku lána. Fasteignin að [...] hafi annars vegar verið fjármögnuð með yfirtöku á láni að fjárhæð 17 milljónir króna og hins vegar hafi verið lagðar út 12 milljónir króna vegna kaupanna. Varnaraðili vekur athygli á því að í 3. tölulið 69. gr. almennra hegningarlaga sé að finna heimild til jafnvirðisupptöku á ávinningi sem brotastarfsemi hefur í för með sér. Þannig geti sparnaður sem rekja megi til refsiverðs brots talist til ávinnings af broti.

         Varnaraðili tekur fram að rannsókn málsins hafi verið margþætt og umfangsmikil. Alls hafi sex einstaklingar sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins. Sóknaraðili hafi neitað sök, en dómstólar talið að hann væri undir rökstuddum grun um aðild að brotunum og því fallist á kröfur um gæsluvarðhald. Rannsókn málsins sé nú lokið. Sönnunarstaða vegna ætlaðra brota sóknaraðila sé talin mjög sterk. Því þyki ljóst að þeir fjármunir sem kyrrsettir hafi verið við rannsókn málsins verði með dómi gerðir upptækir.

         Við munnlegan málflutning mótmælti varnaraðili því að rannsókn málsins hefði dregist. Þvert á móti hefði hún fengið skjótan framgang. Taka hefði þurft skýrslur af fjölda sakborninga og vitna, gögn málsins væru umfangsmikil og tækju meðal annars til fjárhagsupplýsinga frá fjármálastofnunum. Rannsókn af þessu tagi taki sinn tíma. Málið sé nú komið til kasta ríkissaksóknara. Þá hafnaði varnaraðili því að þau fordæmi sem sóknaraðili vísaði til ættu við í máli þessu. Jafnframt hafi lögregla beitt hófsemd í rannsóknaraðgerðum með því að leggja ekki hald á umrædda lausafjármuni, heldur beita vægara úrræði, en við kyrrsetningu hafi sakborningur áfram umráð þeirra.

IV.

         Eins og rakið hefur verið hóf varnaraðili eftirgrennslan um starfsemi [...] sumarið 2013. Beinar rannsóknaraðgerðir fóru fram í október sama ár og var varnaraðili handtekinn 26. þess mánaðar. Kyrrsetningar þær sem málið snýst um fóru fram 8. nóvember 2013. Skýrslutökur fóru fram um það leyti og síðan aftur í september 2014 eins og rakið hefur verið. Ganga verður út frá því að rannsókn varnaraðila hafi lokið er málið var sent ríkissaksóknara í desember 2014. Formlegt erindi var hins vegar ekki sent til skattrannsóknarstjóra fyrr en í maí 2015. Engar skýringar hafa komið fram á því hvers vegna málið var ekki sent fyrr til embættisins.

         Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrslausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er hliðstætt ákvæði. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 hvílir sú skylda á þeim sem rannsakar sakamál að hraða meðferð þess eftir því sem kostur er. Sakborningi er því tryggður réttur til þess að málsmeðferð á öllum stigum málsins sé án óhæfilegs dráttar. Er þetta sérstaklega mikilvægt í málum þar sem sakborningar sæta þvingunaraðgerðum eða öðrum íþyngjandi aðgerðum sem geta meðal annars takmarkað forræði þeirra yfir eignum sínum. Í því sambandi ber að leggja áherslu á að þeir sem annast rannsókn sakamála verða að gæta þess að mönnum sé ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt er eftir því sem á stendur, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008.

         Kyrrsetningagerðir þær sem sóknaraðili fer fram á að felldar verði úr gildi voru reistar á 88. gr. laga nr. 88/2008. Þar segir að lögregla geti krafist kyrrsetningar hjá sakborningi ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um hvenær kyrrsetning samkvæmt greininni fellur niður. Enda þótt dráttur á rannsókn sé ekki meðal þess sem þar er talið upp leiðir af framangreindu ákvæði stjórnarskrárinnar og laga um að hraða beri málsmeðferð, að sakborningur getur átt kröfu um að kyrrsetningu verði aflétt. Vísast í því sambandi til dóma Hæstaréttar Íslands frá 25. janúar 2012 í málunum nr. 682/2011 til 685/2011, sem og til dóms réttarins frá 10. febrúar 2015 í málinu nr. 96/2015.

         Við úrlausn á því hvort rannsókn á máli hafi dregist verður að líta til umfangs hennar með tilliti til sakarefnisins. Á það er fallist með varnaraðila að málið sé nokkuð umfangsmikið í ljósi fjölda sakborninga og þeirra gagna sem nauðsynlegt hefur reynst að afla til að varpa ljósi á eðli og umfang þess rekstrar sem um ræðir sem og á fjármálaumsvif sóknaraðila. Því telur dómurinn ekki athugavert að rannsókn hafi ekki lokið fyrr en síðla árs 2014. Málið er nú til meðferðar hjá ríkissaksóknara og skattrannsóknarstjóra. Að teknu tilliti til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og tilvitnaðra ákvæða laga nr. 88/2008 er það aðfinnsluvert að málið var ekki sent skattrannsóknarstjóra fyrr en í maí á þessu ári. Eignir sóknaraðila hafa nú verið kyrrsettar á grundvelli 88. gr. laga nr. 88/2008 í tæpa 19 mánuði. Í ljósi atvika verður að ætla að skattrannsóknarstjóri muni hraða sínum þætti í rannsókn á máli sóknaraðila og félaga honum tengdum vegna ætlaðra skattalagabrota. Telur dómurinn að ekki liggi fyrir að málið hafi í heild dregist svo lengi að ástæða sé til þess að fella kyrrsetningarnar úr gildi.

         Í ljósi framangreindrar niðurstöðu verður sóknaraðila ekki úrskurðaður málskostnaður.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Hafnað er kröfu sóknaraðila, X, um að kyrrsetningar sýslumannsins í Reykjavík frá 8. nóvember 2013 verði felldar úr gildi. Ekki verður úrskurðaður málskostnaður.