Hæstiréttur íslands

Mál nr. 212/2004


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Kjarasamningur


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. nóvember 2004.

Nr. 212/2004.

Reykjavíkurborg

(Gunnar Eydal hrl.)

gegn

Arngunni Sigurþórsdóttur

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

og gagnsök

 

Opinberir starfsmenn. Kjarasamningur.

Kennarinn A höfðaði mál gegn R til greiðslu vangreiddra launa. Samkvæmt vinnuskýrslu A, sem skólastjóri hafði útbúið haustið 2001, var vinnutími hennar ekki samfelldur og þar mynduðust eyður. A hélt því fram að skólastjóri hafi gefið þau fyrirmæli að kennarar ættu að vera í skólanum í umræddum eyðum en skólastjórinn kvaðst ekki hafa gert kröfu um slíka viðveru. Talið var, að viðverutími A hafi vegna þessa verið lengri en sá tími sem tilgreindur var undir launaliðum í vinnuskýrslu. Samkvæmt kjarasamningi skuli vinnutími kennara vera samfelldur. Hafi ætlunin verið sú að A hefði ekki samfellda viðveruskyldu í samræmi við vinnuskýrslu þótti ekki sýnt gegn andmælum hennar að henni hafi verið gerð nægileg grein fyrri því.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. maí 2004 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 13. júlí 2004. Hún krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 231.211 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 137.764 krónum frá 1. janúar 2002 til 1. mars sama ár, en af 231.211 krónum frá þeim degi til greiðsludags, svo og að ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verði staðfest. Til vara krefst hún þess að héraðsdómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði segir.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að um dráttarvexti af kröfu gagnáfrýjanda, Arngunnar Sigurþórsdóttur, fer samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Aðaláfrýjandi, Reykjavíkurborg, greiði gagnáfrýjanda 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

            

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2004.

 

Mál þetta var þingfest 19. desember 2002.  Það var dómtekið 14. nóvember sl. en flutt að nýju þann  29. janúar 2004 og dómtekið sama dag.         

Stefnandi er Arngunnur Sigurþórsdóttur, Kaplaskjólsvegi 69, Reykjavík.

Stefndi er Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu við Tjarnargötu, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 231.211 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt. 6. mgr. l. gr. laga nr. 38/2001 af 137.764. krónum frá 1. janúar 2002 til 1. mars s.á., en frá þeim degi af 231.211 krónum til greiðsludags.

Til vara að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 140.285 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. mgr. l. gr. laga nr. 38/2001 af 83.587 krónum frá l. janúar 2002 til l. mars s.á., en frá þeim degi af 140.285 krónum til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt gjaldskrá Löggarðs ehf.

Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.

Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og í því tilviki verði málskostnaður látinn niður falla.

Málavextir

Málavextir eru þeir að stefnandi er lærður kennari og hefur sem slík starfað við Grandaskóla í Reykjavík, frá árinu 1988 og kennt textílmennt.  Hún er félagsmaður í Félagi grunnskólakennara, sem er eitt af aðildarfélögum Kennarasambands Íslands.

Með kjarasamningi Kennarasambands Íslands (KÍ) og Launanefndar sveitarfélaga (LN), er undirritaður var 9. janúar 2001, varð sú breyting á vinnutíma kennara að framvegis skyldi hann vera samfelldur.  Þá varð einnig grundvallarbreyting á eðli vinnuskýrslna kennara, en vinnuskýrslur eru gerðar í upphafi hvers skólaárs.  Í bókun 8 í kjarasamningi aðila segir að aðilar séu sammála um að grundvallarbreytingar verði á eðli vinnuskýrslu.  Vinnuskýrslan greini frá skipulagningu vikulegrar vinnuskyldu kennara undir verkstjórn skólastjóra og rammi þannig af daglega viðveru kennara í skóla.  Vinnuskýrslan rammi einnig af töflusetta yfirvinnu.  Skólastjóra sé heimilt að færa til störf innan þess ramma.  Vinnuskýrsla sé tilkynning skólastjóra um vinnumagn kennara til launaafgreiðslu.  Breytingar á rammanum sé einungis hægt að gera með samþykki beggja eða uppsögn ráðningar með lögmætum uppsagnarfresti.

Samkvæmt gr. 2.1.6.l í kjarasamningi KÍ og LN er vikuleg vinnuskylda kennara 42.86 klst.  á viku miðað við fullt starf og 37 vikna starfstíma grunnskóla.

Samkvæmt grein 2.1.3 í kjarasamningi KÍ og LN skal vinnutími starfsmanna vera samfelldur.  Samkvæmt gr. 2.1.6.5 skal skólastjóri við upphaf skólaárs ákveða dagleg mörk viðverutíma.  Skal hann vera samfelldur og liggja innan marka dagvinnutímabils eftir því sem við verður komið.  Samkvæmt sömu grein skal viðverutími, annar en kennsla, þó aldrei vera utan dagvinnumarka nema með samþykki kennara.  Samkvæmt grein 2.1.2 er heimilt að haga vinnu með öðrum hætti en segir í 2. kafla kjarasamningsins, náist um það samkomulag milli skólastjóra og kennara.  Slíkt samkomulag er þó háð samþykki viðkomandi stéttarfélags

Hinn 11. september 2001 var undirrituð af stefnanda og skólastjóra Grandaskóla, vinnuskýrsla fyrir vinnu stefnanda í Grandaskóla.  Vinnuskýrslan var fyrir skólaárið 2001/2002 og skyldi gilda frá 1. ágúst 2001 til 31. júlí 2002.  Á vinnuskýrslu var starfshlutfall stefnanda ákveðið 100% og hlutfall yfirvinnu 0,33 á viku.  Launaflokkur stefnanda skyldi vera 236-4 og orlofsprósenta 13.04%.  Almenn kennsla hennar skyldi vera 28 stundir og fagleg störf kennara skyldu unnin 9.15 stundir á viku.

Vinnutími stefnanda hófst kl. 0815 að morgni alla daga vikunnar. Mánudaga, þriðjudaga, fimmtudaga og föstudaga lauk vinnutíma hennar kl. 1600, en miðvikudaga kl. 1530.  Í vinnuskýrslu stefnanda voru eyður og lítur stefnandi svo á  að þær eyður teljist til vinnutíma og að þannig hafi viðvera hennar í skólanum á viku hverri verið 38 klst. og 15 mínútur en samkvæmt nefndum kjarasamningi skyldi viðvera hins vegar vera 33 klst. og 3 mínútur.  Viðvera stefnanda hafi þannig verið 4 klst. og 27 mínútum lengri en vikuleg vinnuskylda  Vísar stefnandi í því sambandi til gr. 2.1.3 í kjarasamningi KÍ og LN um að vinnutími starfsmanna skuli vera samfelldur.  Sé miðað við að viðveru hafi lokið kl. 1330 á föstudögum, en á því byggir varakrafa stefnanda, þá er viðvera stefnanda samkvæmt vinnuskýrslu 2 klst. og 42 mínútum lengri en vikuleg viðveruskylda.

Samkvæmt grein 2.3.l telst yfirvinna sú vinna sem fram fer utan tilskilins daglegs vinnutíma, svo og vinna sem innt er af hendi umfram vikulega vinnuskyldu, þótt á dagvinnutímabili sé.

Ágreiningur kom upp í Grandaskóla um launauppgjör og gerðu nokkrir kennarar athugasemdir við launauppgjör, stefnandi þar á meðal.  Hinn 1. mars 2002 var undirrituð ný vinnuskýrsla stefnanda og þar tekið mið af samfelldum vinnutíma.

Stefndi heldur því fram að athugasemdir við vinnuskýrslu stefnanda hafi komið fram í kjölfar fundar félags grunnskólakennara með kennurum Grandaskóla þann 5. febrúar 2002.  Þar hafi komið fram það mat félagsins að vinnutilhögun kennara innan skólans, eins og hún er tilgreind í stundatöflu einstakra vinnuskýrslna og sett niður af skólastjóra í samráði við viðkomandi kennara, sé bindandi.  Þannig hafi félagið haldið því fram að í tilviki stefnanda bæri henni að fá greitt fyrir samfelldan vinnutíma við önnur fagleg störf á föstudögum til kl. 1600 þrátt fyrir að bæði kennsla stefnanda sem og störf annarra kennara Grandaskóla væri löngu lokið þann dag.

Í kjölfar þessa skilnings stéttarfélags stefnanda hafi skólastjóri séð sig knúinn til að óska eftir að vinnuskýrsla stefnanda yrði endurskoðuð og áður umsaminn sveigjan­leiki tekinn án þess þó að breyta í nokkru vinnuframlagi stefnanda.  Samkvæmt undirritaðri stundaskrá og vinnuramma stefnanda, dags. 1. mars 2002, hafi faglegri vinnu verið ráðstafað í beinu framhaldi af kennslu stefnanda og vinnutími stefnanda samkvæmt vinnurammanum 30 klst. og 43 mín. á viku, en samkvæmt kjarasamningi skuli vinnurammi kennara (viðvera í skóla) vera allt að 33 klst. og 31 mínúta.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 5. júní 2002, var Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, sem fer með yfirstjórn skólamála í umboði borgarráðs Reykjavíkur, krafin um leiðréttingu á launum þriggja kennara við Grandaskóla, fyrir það tímabil sem vikuleg vinnuskylda og vinna samkvæmt vinnuskýrslum fóru ekki saman.

Með bréfi Fræðslumiðstöðvar, dags. 9. júlí 2002, var kröfunni hafnað.   Það var aðallega byggt á því að viðkomandi kennarar og skólastjóri Grandaskóla hefðu gert samkomulag um að hluti af vinnuskilum skyldu vera utan hefðbundins ramma.  Með bréfi Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, dags. 19. ágúst 2002, var kröfunni enn hafnað.

Í bréfum Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur er því m.a. haldið fram, að fulltrúar Félags grunnskólakennara hafi á sameiginlegum fundi vegna málsins lýst því yfir að skólastjóra og kennurum hafi verið heimilt að flytja til vinnu með þeim hætti sem vísað er til.  Þessu hafnar stefnandi alfarið og heldur því fram að fulltrúi Félags grunnskólakennara hafi aldrei gefið til kynna að heimilt væri að setja á vinnuskýrslu, vinnuramma, sem væri rýmri en nemur vinnuskyldu kennara undir stjórn skólastjóra, án þess að til kæmu yfirvinnu­greiðslur.  Það sé hins vegar sameiginlegur skilningur aðila að þegar settur hefur verið réttur rammi, þá sé skólastjóra og kennara heimilt að gera samkomulag um að ákveðnum hluta af vinnuskyldu sé gegnt utan þess ramma.

Eftir að öllum kröfum var hafnað af Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, var erindið sent borgarlögmanni til skoðunar og hafnaði hann einnig kröfunni.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Á því er byggt í máli þessu að vinnuskylda stefnanda undir verkstjórn skólastjóra hafi samkvæmt vinnuskýrslu í upphafi skólaárs haustið 2001 numið 33 klst. og 3 mínútum.   Viðvera hennar innan skólans, með eyðum í stundaskrá, hafi numið 38 klst. og 15 mínútum, en til vara 35 klst. og 45 mínútum.  Eftir gerð síðasta kjarasamnings KÍ og LN sé vinnutími kennara samfelldur.  Því eigi stefnandi, með vísan til gr. 2.3.1. í kjarasamningi KÍ og LN, að fá umframtíma, vegna viðveru sinnar í skólanum, greiddan í yfirvinnu.

Nánari rökstuðningur sé sá að samkvæmt bókun 8 í kjarasamningi KÍ og LN þá greini vinnuskýrsla frá vikulegri vinnuskyldu kennara og sé þannig tilkynning skólastjóra til launagreiðanda um vinnumagn viðkomandi kennara.

Samkvæmt grein 2.1.3. í sama samningi skuli vinnutími kennara vera samfelldur.  Aðilar kjarasamnings KÍ og LN hafi túlkað það svo að eyða teljist nú til vinnutíma kennara, sbr. spurningar og svör sem komin séu frá samstarfsnefnd aðila.  Þannig séu í raun ekki, eftir síðasta kjarasamning kennara, til eyður í vinnutíma þeirra.  Kennsla og önnur störf innan skólans eigi að mynda eina samfellda heild.

Viðvera stefnanda vegna starfa sem falli undir verkstjórn skólastjóra sé almenn kennsla, 28 kennslustundir pr. viku eða 18 klst. og 40 mínútur pr. viku, verkstjórnar­þáttur 9.14 klst. pr. viku, sem samsvari 9 klst. og 8 mínútum, gæsla 0.33 klst. pr. viku eða 20 mínútur, frímínútur, kaffitímar og matartímar alls 4 klst. og 55 mínútur pr. viku.  Samtals 33 klukkustundir og 3 mínútur á viku sem sé vikuleg viðvera stefnanda.

Viðverutími, sem jafnframt sé vinnutími kennara, sé samkvæmt vinnuskýrslu 35 klst. og 45 mínútur eða 2 klst. og 42 mínútum umfram vikulega viðveruskyldu, ef miðað sé við að vinnu á föstudögum hafi lokið kl. 12.50, en 38 klst. og 15 mínútur, ef miðað sé við að viðveru hafi lokið kl. 1600 á föstudögum eins og aðalkrafan geri ráð fyrir.  Þar sé um að ræða vinnu upp á 4 klst. og 27 mínútur umfram viðveruskyldu.  Vinna umfram vikulega viðveruskyldu teljist yfirvinna í skilnings greinar 2.3.1. í kjarasamningi KÍ og LN.

4. Á því er byggt að það sé óheimilt að greiða lægri laun en kjarasamningur KÍ og LN segi til um og sé um það vísað til 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opb. starfsmanna.  Sú staðreynd að ekki sé greitt fyrir vinnu þessa sé í andstöðu við grein 2.3.1 í kjarasamningi þeim er stefnandi fái greidd laun eftir og sé þannig í andstöðu við ofangreint lagaákvæði.  Sé í þessu sambandi einnig vitnað til l. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega o.fl. svo og grunnreglu 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Vitnað er til almennra reglna kröfuréttar um vangreidd laun.  Um dráttarvexti vísar stefnandi til laga nr. 38/2001.  Um málskostnað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.

Krafið sé um vangreidd laun fyrir tímabilið ágúst 2001 til og með febrúar 2002, eða fram til þess tíma er vinnurammi hafi verið leiðréttur.

Í aðlakröfu sé miðað við að vinnutími sé 4 klst. og 27 mínútur umfram viðveru­skyldu á viku.

Aðalkrafa stefnanda sundurliðast þannig:

Ágúst - desember 2001 17 vikur 4.45 klst. pr viku x 1.821.07           137.764 kr

Janúar - febrúar 2002 8 vikur 4.45 klst. pr. viku x 1.875.71                 66.775 kr.

Orlof 13.04% af  204.539                                                            26.672 kr.                

Samtals                                                                                      231.211 kr.

 

Í varakröfu sé miðað við að vinnutími sé 2 klst. og 42 mínútum umfram viðveru­skyldu á viku.

Varakrafa stefnanda sundurliðist þannig.

Ágúst-desember 2001 17 vikur 2.7 klst. pr. viku x 1.821.07 pr. klst.             83.587 kr.

Janúar-febrúar 2002 8 vikur 2.7 klst. pr. vikur x 1.875.71      40.515 kr.

Orlof 13.04%               16.183 kr.

Samtals                        140.285 kr.

 

Um orlof vitnar stefnandi til vinnuskýrslu, en þar komi fram að orlofsprósenta hennar sé 13.04%.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Aðalkrafa

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að heimilt hafi verið að útbúa vinnuskýrslu stefnanda með þeim hætti sem gert var.  Þrátt fyrir að kjarasamningurinn geri ráð fyrir því að vikuleg vinnuskylda kennara, undir verkstjórn skólastjóra, komi fram í vinuskýrslu hans sé ekki óheimilt samkvæmt kjarasamningnum að ráðstafa vinnuskyldunni með öðrum hætti.  Í 2. kafla kjarasamnings aðila sé fjallað um vinnutíma en í grein 2.1.2 komi skýrt fram að heimilt sé að haga vinnu með öðrum hætti en í kaflanum greini, semjist svo um á milli starfsmanna og forráðamanna stofnunar.  Þá segi í grein 2.1.6.5 um viðverutíma kennara, að viðverutími skuli liggja innan marka dagvinnutímabils eftir því sem við verði komið.  Af orðalagi ákvæðisins verði augljóslega ráðið að ekki sé gert ráð fyrir fortakslausri skyldu varðandi tilhögun á viðveru kennara.  Jafnframt bendi stefndi á að í bókun 8 með kjarasamningi aðila sé gert ráð fyrir því að kennari og skólastjóri geti breytt vinnutímarammanum séu þeir sammála um slíkt.  Um framangreinda bókun og önnur ákvæði um vinnuramma sé fjallað á bls. 84-85 í kjarasamningi aðila, en þar megi lesa um sameiginlega túlkun aðila á efni vinnurammans.  Þar segir m.a. að öll vinna sem falli utan vinnurammans sé yfirvinna nema samkomulag hafi orðið um annað og jafnframt segi að vinnurammanum verði ekki breytt nema með samþykki beggja aðila.  Þá geti vinna innan vinnurammans verið breytileg frá degi til dags og viku til viku. Réttur skilningur á þessari sameiginlegu túlkun aðila feli í sér að skólastjóri og kennari geti gert með sér samkomulag um ákveðinn sveigjanleika á því hvenær kennari inni af hendi umsamin störf.

Þá hafi fulltrúar Félags grunnskólakennara, Skólastjórafélags Íslands og Launanefndar sveitarfélaga lýst því ítrekað yfir á sameiginlegum kynningarfundum í Reykjavík fyrir kennara og skólastjórnendur að túlka beri ofangreind ákvæði kjarasamnings þannig að þau lýsi meginreglu.  Kennara og skólastjóra sé, þrátt fyrir það heimilt að semja um frávik, sem t.d. gætu falið í sér að hluta af vinnuskilum sé skilað utan hefðbundins vinnuramma.  Á fundi Fræðslumiðstöðvar með fulltrúum allra samningsaðila þann 13. ágúst sl. hafi öll ofangreind sjónarmið verið staðfest af samningsaðilum.  Ákvæði kjarasamnings aðila hafi því heimilað þá ráðstöfun vinnutíma stefnanda sem fram komi í framlagðri vinnuskýrslu hennar og því beri að sýkna stefnda.

Stefnandi og skólastjóri Grandaskóla hafi undirritað vinnuskýrslu stefnanda þann 11. september 2001 án nokkurra athugasemda af stefnanda hálfu.  Stefnandi hafi því samþykkt þá vinnutilhögun sem þar sé að finna, en eins og vinnuskýrslan beri greinilega með sér sé yfirvinna stefnanda á umræddu tímabili ákveðin 0,33 klst. á viku.  Með engu móti sé unnt að líta einungis til stundatöfluhluta á vinnuskýrslu stefnanda og þeirrar röðunar á faglegri vinnu sem þar komi fram, án tengsla við aðrar upplýsingar á umræddri vinnuskýrslu.  Með vinnuskýrslunni hafi verið ákveðið að yfirvinna stefnanda á skólaárinu 2001-2002 væri 0,33 klst. á viku.  Stefnandi hafi samþykkt það yfirvinnumagn og hafi því ekki gert ráð fyrir að sú ráðstöfun á vinnutíma sem fram komi í stundatöflu vinnuskýrslunnar leiddi til yfirvinnugreiðslna umfram það sem vinnuskýrslan tilgreini.

Eins og sjá megi af vinnuskýrslu stefnanda hafi það verið ætlun skólastjóra að gefa kennurum, þ.á m. stefnanda, möguleika til þess að ráðstafa því sjálfir hvenær þeir ynnu þau faglegu störf sem ekki krefðust fyrir fram ákveðinnar viðveru þeirra.  Þannig hafi verið ætlunin að gefa kost á sveigjanlegri vinnutíma til hagsbóta fyrir kennara skólans.

Jafnframt megi sjá af vinnuskýrslu stefnanda að þessi tilhögun hafi ekki átt að leiða til sérstakra yfirvinnugreiðslna umfram það sem komi fram á vinnuskýrslu.  Þessi tilhögun á vinnutíma stefnanda sé heimil samkvæmt gildandi kjarasamningi og hafi verið samþykkt af stefnanda án athugasemda.

Af stefnu málsins verði ekki annað ráðið en í kröfu stefnanda felist að aðeins megi leggja til grundvallar þá vinnutilhögum sem komi fram í sjálfri stundatöflu vinnuskýrslunnar.  Í trássi við aðrar þær upplýsingar sem fram komi á umræddri vinnuskýrslu telur stefnandi að miða beri lok vinnuskyldu hans við niðurröðun faglegra starfa og þar sem vinnutími kennara sé samfelldur, sbr. ákvæði kjarasamnings aðila, beri að greiða yfirvinnu fyrir tíma umfram viðveruna 33 klst. og 48 mínútur.  Þessi skilningur stefnanda eigi sér hvorki stoð í vinnuskýrslu aðila né kjarasamningi aðila.  Ef þeir tímar sem tilgreindir séu í sjálfri vinnuskýrslunni séu settir upp í vinnuramma og tekið tillit til matar- og kaffitíma samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins sé vinnurammi stefnanda 30 klst. og 43 mín.  Þegar litið sé til vinnuskýrslu stefnanda í heild en ekki þröngrar skoðunar á stundatöfluhluta vinnuskýrslunnar fái túlkun stefnanda ekki staðist.  Augljóst megi vera, ef aðeins mætti leggja til grundvallar niðurröðun vinnu eins og hún komi fram í stundatöflu stefnanda, hefði niðurröðun faglegrar vinnu hennar verið allt önnur.  Þá hefði faglegri vinnu verið raðað í beinu framhaldi við aðra vinnu stefnanda eins og fram komi í vinnuskýrslu stefnanda, dags. 1. mars 2002, en tekið skuli fram að engar efnisbreytingar á vinnuskyldu stefnanda komi fram á þeirri skýrslu.  Aðeins sé þar verið að færa til faglega vinnu.

Telji dómurinn að kjarasamning aðila megi aðeins túlka með þeim hætti að miða skuli vinnuskyldu stefnanda við stundatöflu vinnuskýrslurnar án tillits til annarra upplýsinga sem þar komi fram og að samþykki stefnanda fyrir þeirri tilhögun á vinnuskyldu sinni sé ekki bindandi fyrir stefnanda, byggi stefndi á því að um afsakanlegan misskilning á gerð vinnuskýrslunnar sé að ræða.

Umrædd vinnuskýrsla hafi verið fyrsta vinnuskýrslan samkvæmt hinum nýja kjara­samningi og margir þættir við framkvæmd kjarasamningsins ekki komnir í rétt horf.  Allar upplýsingar á vinnuskýrslu stefnanda fyrir tímabilið 1. ágúst 2001 til 31. júlí 2002 séu réttar nema þá þær að niðurröðun vinnunnar í stundatöfluhluta séu ekki í beinu framhaldi af annarri vinnu stefnanda.  Eins og áður segi skýrist sú niðurröðun af því að veita stefnanda tækifæri til að ráðstafa sjálf þeim tíma til faglegra starfa sem ekki krefjist fyrir fram ákveðinnar viðveru hennar.  Sú niðurröðun eigi að mati stefnda stoð í kjarasamningi aðila, en sé svo ekki að mati dómsins megi af öllum atvikum þessa máls sjá að hér sé um mjög afsakanlega mistúlkun að ræða sem rekja má til nýs kjarasamnings og þeirra breytinga sem þá hafi verið að innleiða.  Í þessu sambandi bendi stefndi jafnframt á bréf Kennarafélags Reykjavíkur til trúnaðarmanna sinna, dags. 20. maí 2001.

Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á 130. gr., sbr. 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Telji dómurinn þrátt fyrir allt að stefnda beri að greiða yfirvinnu vegna niðurröðunar á faglegum störfum í stundatöfluhluta vinnuskýrslu, dags. 11. september 2001, byggir stefndi á því að lækka beri kröfur stefnanda verulega.  Í því sambandi skuli sérstaklega bent á þá áralöngu venju að kennarar ljúki vinnu sinni á föstudögum þegar kennslu þeirra lýkur.  Í stefnu og öðrum gögnum sem stefnandi leggi fram sé þessi venja staðfest af stefnanda.  Af þessum sökum geti því greiðsla vegna vinnuskyldu eftir kennslu stefnanda á föstudögum ekki komið til enda hafi stefnandi sýnilega ekki unnið eftir kennslu sína á föstudögum.

Afstaða stefnanda til tímanna á föstudögum sýni jafnframt að sú faglega vinna sem sett hafi verið niður seint á daginn og í engum tengslum við aðra vinnu stefnanda hafi ekki verið unnin á þeim tíma sem hún var sett niður.  Þá þurfi að hafa það í huga að það er skólastjóri sem ákveði hvort starfsmaður vinni yfirvinnu.  Af vinnuskýrslu stefnanda verði ráðið að yfirvinna stefnanda hafi verið ákveðin 0,33 klst. á viku.  Augljós mistök hafi átt sér stað, telji dómurinn að unnt sé að lesa meiri yfirvinnu út úr vinnuskýrslu stefnanda.  Stefnanda megi vera kunnugt um að ekki hafi verið ætlunin að vinna stefnanda leiddi til meiri yfirvinnu en fram komi í launalið vinnuskýrslunnar.  Í ljósi þessara atvika beri að fara mjög varlega í viðurkenningu á einhverri yfirvinnu umfram það sem réttbær aðili hafi þegar ákveðið í tilviki stefnanda.  Af framangreindu beri því að lækka dómkröfur stefnanda verulega.

Þá hafi aðilar kjarasamningsins augljóslega gert ráð fyrir því að framkvæmd kjarasamningsins myndi ekki ganga snurðulaust fyrir sig fyrsta árið, sbr. bréf Kennarafélags Reykjavíkur til trúnaðarmanna sinna, dags. 20 maí 2001.  Í ljósi þessa, annarra atvika málsins og aðdraganda þess misskilnings sem kröfur stefnanda byggi á mæli öll sanngirnisrök með því að lækka kröfur stefnanda.

Verði varakrafa stefnda tekin til greina og kröfur stefnanda lækkaðar krefst stefndi þess að málskostnaður verði felldur niður í samræmi við ákvæði 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Í máli þessu byggir stefndi m.a. á lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda nr. 72/1996, lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991, kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla frá 9. janúar 2001, almennum reglum vinnuréttarins, almennum reglum stjórnsýsluréttarins og almennum reglum samninga- og kröfuréttar.

 

Niðurstaða

Eins og fyrr getur var nýr kjarasamningur gerður milli Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga hinn 9. janúar 2001.  Gildistími samningsins er 1. janúar 2001 til og með 31. mars 2004.

Samkvæmt grein 2.1.3 í kjarasamningnum skal vinnutími starfsmanns vera samfelldur.

Í grein 2.1.6.5 segir varðandi viðverutíma að við upphaf skólaárs skuli skólastjóri ákveða dagleg mörk viðverutíma.  Skal hann vera samfelldur og liggja innan marka dagvinnutímabils eftir því sem við verður komið.  Viðverutími annar en kennsla skal þó aldrei vera utan dagvinnumarka nema með samþykki kennara.  Í grein 2.3.1 í kjarasamningi, þar sem yfirvinna er skilgreind, segir að yfirvinna teljist sú vinna, sem fram fer utan daglegs vinnutíma, svo og vinna sem innt er af hendi umfram vikulega vinnutímaskyldu.

Haustið 2001, eða áður en kennsla hófst, útbjó skólastjóri Grandaskóla, Kristjana Margrét Kristjánsdóttir, vinnuskýrslu stefnanda, í samræmi við nefnda grein kjarasamningsins.  Bar Kristjana fyrir dómi að jafnan þegar hún hefði útbúið vinnuskýrslur kennara hafi hún undirritað þær og afhent þær viðkomandi kennara eða sett í hólf kennarans í skólanum.  Hafi kennararnir haft skýrslurnar undir höndum í nokkra daga og getað gert athugsemdir við þær ef svo bæri undir.

Stefnandi skrifaði undir sína vinnuskýrslu og gerði ekki athugasemdir við skýrsluna áður en hún undirritaði hana.  Bar stefnandi fyrir dómi að hún hafi ekki gert athugasemdir við skýrsluna fyrr en hún fór að vinna eftir henni eða þegar hún gerði sér grein fyrir að þetta gekk ekki upp.  Hún kvaðst ekki hafa gert athugasemdir við skólastjórann en hafi rætt við trúnaðarmann og aðila hjá Kennarasambandinu.

Í vinnuskýrslu stefnanda kemur fram að kennsluskylda hennar er 28 tímar, almenn yfirvinna er 0,33 tímar og fagleg störf kennara 9,15 tímar.  Samkvæmt vinnuskýrslunni er vinnutími stefnanda ekki samfelldur og myndast þar eyður.

Fyrir liggur að í kjölfar hins nýja kjarasamnings komu upp vissir erfiðleikar við gerð vinnuskýrslna.  Samkvæmt framburði Kristins Kristjánssonar, starfsmanns hjá Félagi íslenskra sveitarfélaga, höfðu skólastjórar ekki á þeim tíma tölvuforrit til þess að gera vinnuskýrslur sem sniðið var að hinum nýja kjarasamningi.  Hið nýja forrit hafi ekki almennt komið í gagnið fyrr en haustið 2002.  Bar Kristinn að ef skólastjórinn hefði stuðst við hið nýja forrit hefði ekki verið verið hægt að útbúa vinnuskýrslu stefnanda eins og gert var haustið 2001. 

Kristjana bar fyrir dómi að hún hefði viljað koma tímum vegna faglegra starfa inn á vinnuskýrsluna, þ.e. 9 klst. og 15 mínútur, og skýrslan því unnin með þessum hætti.  Bar hún að á fundum um hinn nýja kjarasamning hafi alltaf komið fram að þrátt fyrir ákveðinn ramma skyldu kennarar ekki vera rígbundnir heldur hafa ákveðinn sveigjanleika.  Hefði hún því litið svo á að kennarar hefðu um það frjálst val hvenær þeir ynnu þessa faglegu vinnu, að öðru leyti en því að tími fyrir kennarafund var fastákveðinn á þriðjudegi svo og viðverustund á miðvikudegi til þess að foreldrar gætu náð sambandi við kennara á vissum tíma. 

Hún bar einnig fyrir dómi að hún hefði orðið vör við ákveðna óánægju hjá kennurum með vinnuskýrslur en hún hefði ekki fengið neinar ákveðnar athugasemdir þar að lútandi.  Hún bar að það hefði ekki verið fyrr en á fundi kennara, í febrúar 2002, með fulltrúa frá Kennarasambandinu sem hún hafi gert sér fulla grein fyrir því hvernig skyldi standa að gerð vinnuskýrslna.  Hafi hún þá strax breytt öllum vinnuskýrslum kennara við Grandaskóla.  Liggur fyrir að vinnuskýrslu stefnanda var breytt 1. mars 2002.

Í 2. kafla kjarasamnings KÍ og LN, þar sem fjallað er um vinnutíma, segir í grein 2.1.2 að heimilt sé að haga vinnu með öðrum hætti en í kaflanum greini með samkomulagi starfsmanna og forráðamanna stofnunar.  Einnig sé heimilt að semja við einstaka starfsmenn um rýmkun á dagvinnutímabili og um ákveðið frjálsræði um hvenær vinnuskyldu er gegnt.  Leita skal samþykkis viðkomandi stéttarfélags þegar heimilda þessara er neytt.

Eins og áður er rakið leit skólastjóri Grandaskóla svo á, á þessum tíma, að tilgreina þyrfti fjölda tíma vegna faglegra starfa kennara í vinnuskýrslu, enda þótt kennarar hefðu að mestu frjálsar hendur um það hvenær sú vinna væri unnin.  Styður framburður Harðar Grétars Gunnarssonar, íþróttakennara, og Jóns Thoroddsen, myndmenntakennara, fyrir dómi þessa fullyrðingu skólastjórans, en í framburði Harðar kom fram að skólastjóri hefði ekki gert kröfu til þess að hann ynni eða væri til staðar í skólanum á þeim tímum sem eyður sköpuðust samkvæmt vinnuskýrslu hans.  Stefnandi heldur því hins vegar fram að skólastjóri hafi gefið þau fyrirmæli að kennarar ættu að vera í skólanum á þeim tímum þar sem eyða hefði skapast samkvæmt vinnuskýrslu og jafnframt hafi kennurum borið að láta vita af því ef þeir færu út.  Stefnandi bar fyrir dómi að hún hefði alltaf, nema á föstudögum, sem hafi verið frjáls, verið til staðar í skólanum á þessum tímum og verið til taks.

Samkvæmt framburði Birgis Björns Sigurjónssonar, forstöðumanns kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar, er það meginhugsunin með kjarasamningnum að vinna eigi að vera skipulögð og eyður í vinnu kennara séu á kostnað vinnuveitanda og er það í sjálfu sér ekki umdeilt í málinu, sé ekki um annað samið.  Ljóst er, samkvæmt vinnuskýrslu stefnanda, að eyður mynduðust í vinnutíma hennar.  Leit hún svo á að henni bæri að vera í skólanum á þeim tíma, nema á föstudögum.  Þykir ekki sýnt fram á annað en að viðverutími hennar hafi samkvæmt því verið lengri en sá tími sem tilgreindur var undir launaliðum í vinnuskýrslu.

Samkvæmt kjarasamningnum skal vinnutími kennara vera samfelldur, eins og áður greinir.  Hafi ætlunin verið sú að stefnandi hefði ekki samfellda viðveruskyldu í samræmi við vinnuskýrslu og hefði að mestu frjálst val um það hvar og hvenær hin faglegu störf væru unnin, þykir ekki sýnt fram á, í tilviki stefnanda og gegn andmælum hennar, að henni hafi verið gerð nægileg grein fyrir því. 

Ljóst þykir að vegna óvissu um framkvæmd hins nýja kjarasamnings, að þessu leyti, urðu mistök við gerð vinnuskýrslu stefnanda sem telja verður að stefndi beri ábyrgð á gagnvart stefnanda, enda skylda skólastjóra við upphaf skólaárs að ákveða dagleg mörk viðverutíma, sbr. grein 2.1.6.5 í kjarasamningi KÍ og LN, eins og áður greinir.

 Ber því, samkvæmt framansögðu, að taka til greina varakröfu stefnanda í málinu, en eins og fram hefur komið lýsti stefnandi því yfir fyrir dómi að hún hefði litið svo á að hún hefði frjálsan tíma á föstudögum og er því ekki fallist á aðalkröfu hennar.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 300.000 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Reykjavíkurborg, greiði stefnanda, Arngunni Sigurþórsdóttur, 140.285 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. mgr. l. gr. laga nr. 38/2001 af 83.587 krónum frá l. janúar 2002 til l. mars s.á., en frá þeim degi af 140.285 krónum til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.