Hæstiréttur íslands
Mál nr. 498/2010
Lykilorð
- Samningur
- Ábyrgð
|
Fimmtudaginn 31. mars 2011. |
|
|
Nr. 498/2010. |
Héðinn hf. (Indriði Þorkelsson hrl.) gegn Dala-Rafni ehf. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) |
Samningur. Ábyrgð.
Erlent félag annaðist smíði spilkerfis í skipið D fyrir B ehf. sem seldi skipið síðar til D ehf. Um þremur mánuðum eftir afhendingu skipsins til handa D ehf. kom upp bilun í spilkerfi þess og leitaði félagið til H hf., umboðs- og þjónustuaðila hins erlenda félags á Íslandi, vegna viðgerðar. Starfsmaður hins erlenda félags annaðist síðan viðgerðina. D ehf. krafði H hf. um greiðslu viðgerðarkostnaðarins á þeim grundvelli að H hf. hefði annast viðgerðina í umboði hins erlenda félags á grundvelli umsaminnar ábyrgðar og að D ehf. hefði að minnsta kosti mátt ganga út frá því í ljósi þess að H hf. væri umboðs- og þjónustuaðili félagsins á Íslandi. H hf. taldi á hinn bóginn að viðgerðin hefði farið fram án atbeina hins erlenda félags, en óumdeilt var í málinu að D ehf. snéri sér beint til H hf. með beiðni um viðgerð sem framkvæmd var í kjölfarið. Hæstiréttur taldi að eins og atvikum málsins væri háttað yrði að fallast á að hið erlenda félag hefði haft umsjón með og framkvæmt viðgerðina og að D ehf. hefði mátt ætla að hann gæti snúið sér til H hf. sem umboðsaðila félagsins, vegna viðgerðarinnar, án þess að búast við því að H hf. myndi síðar krefja D ehf. um greiðslu vegna hennar. Voru kröfur D ehf. því teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. ágúst 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 838.386 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. maí 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Á árunum 2005 til 2007 lét einkahlutafélagið BP skip smíða fyrir sig fjögur skip í Gdansk í Póllandi. Norskt fyrirtæki, Rolls-Royce Marine AS, annaðist framleiðslu meðal annars á svokölluðum spilkerfum í skipin. Upphaflega gerðu þessi tvö fyrirtæki samning sem undirritaður er 11. nóvember 2005 um spilkerfi í eitt af þessum skipum, en í samningnum var gert ráð fyrir spilkerfum í tvö skip til viðbótar. Gunnar Helgi Hauksson sölustjóri áfrýjanda ritaði undir samninginn fyrir hönd Rolls-Royce Marine. AS. Í stað hins fyrra var undirritaður nýr og ítarlegri samningur 20. og 27. janúar 2006. Þá hefur fyrir Hæstarétt verið lagður sams konar samningur, undirritaður sömu daga, um spilkerfi í annað skip fyrir BP skip ehf. Enn mun hafa verið gerður samningur um spilkerfi í þriðja skipið en hann hefur ekki verið lagður fram í málinu. Einnig eru í gögnum málsins óundirrituð samningsdrög frá 15. febrúar 2007 um spilkerfi í fjórða skipið, en það mun vera skip stefnda. Loks mun hafa verið gerður samningur varðandi spilkerfi í enn eitt skipið, en það mun ekki hafa verið smíðað. Í undirrituðu samningunum voru sambærileg ákvæði um ábyrgð hins erlenda félags á spilkerfi í 12 mánuði frá afhendingu skips, að því gefnu að spilkerfið yrði sett upp undir yfirumsjón félagsins, en í framangreindum samningsdrögum um skip stefnda var ákvæði um ábyrgð í tvö ár frá afhendingu.
Rolls-Royce Marine AS smíðaði þannig spilkerfi fyrir BP skip ehf. í þrjú skip samkvæmt framangreindum samningum og að auki í skip það sem framangreind samningsdrög frá 15. febrúar 2007 áttu að taka til. BP skip ehf. seldu stefnda síðastgreint skip sem nefnt var Dala-Rafn VE-508 og fékk stefndi það afhent um miðjan desember 2007. Málsaðilar eru sammála um að gert hafi verið ráð fyrir að ábyrgð á spilkerfi í Dala-Rafni VE-508 hafi átt að vara í 12 mánuði.
Samkvæmt gögnum málsins var ágreiningur milli Rolls-Royce Marine AS og BP skipa ehf. um efndir síðarnefnda félagsins meðal annars vegna stýrisvélar og spilkerfis í Dala-Rafn VE-508. Hinn 12. mars 2007 ritaði áðurnefndur Gunnar Helgi tölvubréf til Björgvins Ólafssonar, fyrirsvarsmanns BP skipa ehf., þar sem minnt var meðal annars á að ógreiddur væri reikningur, að fjárhæð 43.000 evrur vegna skipsins. Hinn 4. janúar 2008 ritaði fyrirsvarsmaður Rolls-Royce Marine AS Björgvini tölvubréf þar sem meðal annars var tilkynnt um frestun á frekari þjónustu vegna spilkerfis í skipið vegna vanefnda BP skipa ehf. Þá var sett fram ósk um að fá undirritaða beiðni um verkið. Bréfi þessu svaraði Björgvin um hæl þar sem hann kvaðst ætla að kanna stöðuna og minnti á að sérstakir samningar hefðu verið gerðir fyrir hvert skip. Bréfi þessu svaraði Rolls-Royce Marine AS samdægurs og tiltók meðal annars að BP skip ehf. hefði enn ekki undirritað samning varðandi Dala-Rafn VE-508. Bréf þessi bera með sér að afrit af þeim hafi verið send áfrýjanda. Hinn 7. janúar 2008 ritaði Björgvin tölvubréf til Rolls-Royce Marine AS þar sem fram kom að stefndi væri orðinn eigandi skipsins. Hafi Þórður Rafn Sigurðsson, fyrirsvarsmaður stefnda, haft samband við sig símleiðis og tilkynnt að Gunnar Helgi hafi fengið fyrirmæli frá hinu erlenda félagi um að senda ekki mann til umsjónar við frágang spilkerfisins í skipið. Ástæðan væri vanefnd á greiðslum BP skipa ehf. á 10% af samningsgreiðslu. Bréf þetta var einnig sent Þórði Rafni og áfrýjanda. Fyrirsvarsmaður Rolls-Royce Marine AS svaraði með tölvubréfi degi síðar og sagði félagið halda að sér höndum vegna ísetningar spilkerfisins uns skuld vegna annarra skipa yrði að fullu greidd. Var bréf þetta einnig sent áfrýjanda.
Samkomulag virðist hafa náðst um að Rolls-Royce Marine AS lyki sínu verki varðandi Dala-Rafn VE-508 áður en umræddar eftirstöðvar samningsgreiðslu vegna þess skyldu inntar af hendi, en með tölvubréfi Rolls-Royce Marine AS til áðurnefnds Björgvins 29. janúar 2008, sem einnig var sent áfrýjanda, var greiðslu krafist þar sem verki væri lokið. Greiðslukrafan var ítrekuð 21. febrúar 2008 og tilkynnt að ekki yrðu gefin út viðeigandi skírteini vegna spilkerfisins fyrr en skuld væri greidd.
II
Um þremur mánuðum eftir afhendingu Dala-Rafns VE-508, eða í mars 2008, mun hafa komið upp bilun í spilkerfi skipsins, það er í svokölluðum innri grandaravindumótor þess. Munu spíssar í stjórnlokum hafa afskrúfast við notkun því gleymst hafi að líma þá fasta. Þá er í gögnum málsins minnisblað frá Þorsteini Sverrissyni, þjónustustjóra áfrýjanda, sagt ritað 10. mars 2008, þar sem fram kemur að Þórði Rafni hafi verið tilkynnt að stefndi gæti þurft að greiða fyrir viðgerðina vegna vanskila BP skipa ehf. við Rolls-Royce Marine AS, en pantaðir hefðu verið varahlutir sem myndu koma til landsins 12. mars 2008. Af gögnum málsins má ráða að viðgerð hafi farið fram í Vestmannaeyjum dagana 18. og 19. mars 2008. Óskar Sveinsson, starfsmaður Rolls-Royce Marine AS, annaðist viðgerðina. Þjónustuskýrsla (service report) Óskars er auðkennd félaginu og segir í henni að vinnan hafi farið fram undir handleiðslu Roger Hatlehol, starfsmanns þess. Hinn 25. mars 2008 sendi félagið áfrýjanda skýrslu Óskars, en reikningur áfrýjanda til stefnda er dagsettur 9. maí 2008.
Í gögnum málsins er að finna bréfaskipti vegna ætlaðra vanefnda BP skipa ehf. eftir að viðgerð fór fram. Þar á meðal er tölvubréf Guðmundar Sveinssonar, starfsmanns áfrýjanda, 21. maí 2008 til meðal annars tilgreindra starfsmanna Rolls-Royce Marine AS sem og áðurnefndra Gunnars Helga og Björgvins. Í bréfinu kemur fram að daginn áður hafi Guðmundur átt fund með Björgvini og ráðgjafa hans um óútkljáð mál þeirra í millum, en þar hafi hæst borið skuld BP skipa ehf. á 10% kaupverði spilkerfis í Dala-Rafn VE-508, að fjárhæð 43.000 evrur. Þessu tengdist einnig vinna áfrýjanda við lagfæringu á spilkerfinu, en viðgerðarkostnaður væri 838.386 krónur. Í bréfinu kemur fram að af hálfu áfrýjanda sé litið svo á að málið væri í meginatriðum á könnu Rolls-Royce Marine AS og það félag yrði að ákveða hvernig úr því skyldi leyst. Með tölvubréfi hins erlenda félags degi síðar til BP skipa ehf., sem einnig barst aðilum þessa máls, kom fram að vegna vanefnda BP skipa ehf. myndi félagið halda að sér höndum um frekari efndir. Í gögnum málsins er að finna frekari bréfaskipti milli aðila sem ekki eru efni til er að rekja sérstaklega.
III
Hvorki er ágreiningur milli málsaðilanna um að galli hafi verið á spilkerfinu né um fjárhæð reiknings vegna viðgerðar á því. Þá eru þeir sammála um að miða beri við að ef ekki hefðu komið upp deilur milli BP skipa ehf. og Rolls-Royce Marine AS hefði stefndi notið þeirrar ábyrgðar sem um ræðir og engar kröfur hefðu verið hafðar uppi á hendur honum vegna viðgerðarinnar. Óumdeilt er einnig að stefndi snéri sér beint til áfrýjanda en ekki hins erlenda félags með beiðni um viðgerð sem framkvæmd var í kjölfarið.
Áfrýjandi telur viðgerðina hafa farið fram án atbeina Rolls-Royce Marine AS. Vegna vanefnda BP skipa ehf. sé ósannað að á þeim tíma hafi Rolls-Royce Marine AS borið ábyrgð á spilkerfinu í Dala-Rafni VE-508 og hafi áfrýjandi ekki haft þá stöðu gagnvart hinu erlenda félagi að samsama megi hann því. Til að mynda hafi hann ekki verið aðili að þeim samningum sem gerðir voru um spilkerfi í umrædd skip, heldur einungis veitt aðstoð við gerð fyrsta samningsins síðla árs 2005 sem ekki hafi varðað skip stefnda. Auk þess hafi stefndi hvorki lagt fram kaupsamning um skipið né ábyrgðarskírteini. Áfrýjandi telur stefnda bera sönnunarbyrði fyrir því að atvik hafi verið með einhverjum þeim hætti að honum beri ekki að greiða óumdeilda fjárhæð samkvæmt reikningi fyrir verkið í samræmi við reglur kröfuréttar.
Stefndi reisir kröfu sína á því að áfrýjandi hafi annast viðgerðina í umboði Rolls-Royce Marine AS á grundvelli umsaminnar ábyrgðar. Að minnsta kosti hafi stefndi mátt ganga út frá því þar sem áfrýjandi hafi verið og komið fram sem umboðs- og þjónustuaðili félagsins á Íslandi og stefndi hafi ekki fengið upplýsingar frá áfrýjanda að viðgerð væri utan ábyrgðar.
IV
Samkvæmt framansögðu gerðu Rolls-Royce Marine AS og BP skip ehf. með sér nokkra samninga um spilkerfi í skip sem síðargreint félag var með í smíðum í Póllandi. Um skipið Dala-Rafn VE-508 var ekki undirritaður samningur. Þegar áðurnefnd samningsdrög frá 15. febrúar 2007 voru borin undir sölustjóra áfrýjanda við skýrslugjöf hans fyrir héraðsdómi, sagði hann: „Þessi samningur var aldrei undirritaður og það var klárt að að sko við gerum þennan samning í byrjun febrúar, þetta skjal er skrifað 15.2. og sent til BP skipa. Við gerum það samkomulag af því að hann þurfti að fá búnaðinn strax um haustið að setja framleiðslu strax í gang því annars höfðum við enga möguleika á því að koma nálægt þeim kröfum sem kaupandi gerði en fljótlega fórum við að ýta við honum af því að hann hafði ekki samþykkt samninginn og hann hafði heldur ekki borgað inn á hann.“ Málsaðilar eru eins og áður segir sammála um að miða beri við að til hafi staðið að spilkerfið skyldi vera í ábyrgð í 12 mánuði hjá hinu erlenda félagi og ef ekki hefðu komið upp deilur milli þess og BP skipa ehf. hefði stefndi notið þeirrar ábyrgðar sem um ræðir og engar kröfur hefðu verið hafðar uppi á hendur honum vegna viðgerðarinnar.
Eins og að framan er rakið var áfrýjandi jafnóðum upplýstur um samskipti BP skipa ehf. við hið erlenda félag, bæði fyrir og eftir að spilkerfið var sett í Dala-Rafn VE-508. Þá fékk stefndi á síðari stigum upplýsingar um ágreining félagana. Auk þess kom áfrýjandi fram fyrir hönd félagsins, meðal annars við gerð samningsins síðla árs 2005 og við innheimtu reiknings með bréfi 12. mars 2007 vegna skipsins Dala-Rafns VR-508. Framangreint minnisblað starfsmanns áfrýjanda um samskipti við fyrirsvarsmann stefnda vegna viðgerðarinnar er óundirritað og gaf sá sem það á að hafa ritað ekki skýrslu fyrir dómi. Minnisblað þetta verður einnig að meta í því ljósi að stefndi, sem andmælt hefur efni þess, hafði einungis samband við áfrýjanda um viðgerðina en ekki hið erlenda félag þótt ætla megi að það hefði hann gert hefði hann á þeim tíma haft vitneskju um að áfrýjandi myndi krefja hann um greiðslu fyrir verkið. Auk þess ber framangreint tölvubréf 21. maí 2008 með sér að áfrýjandi hafi sjálfur á þeim tíma talið kostnað vegna viðgerðarinnar heyra undir hið erlenda félag en síður sig. Það sem mestu skiptir er þó þjónustuskýrsla Óskars Sveinssonar, starfsmanns Rolls-Royce Marine AS. Skýrslan er skýrlega auðkennd félaginu og segir í henni að vinnan hafi farið fram undir handleiðslu Roger Hatlehol starfsmanns þess. Skýrsla þessi var send þáverandi lögmanni stefnda, til upplýsingar, með bréfi sölustjóra áfrýjanda 9. desember 2008, en í bréfinu kom fram að Óskar hafi séð um „verkið og viðgerðina.“ Að þessu virtu og eins og atvikum máls hefur verið lýst hér að framan verður fallist á með stefnda að byggja verði á því að Rolls-Royce Marine AS hafi haft umsjón með og framkvæmt viðgerðina. Hafi stefndi mátt ætla að hann gæti snúið sér til áfrýjanda sem umboðsaðila hins erlenda félags, vegna viðgerðarinnar, án þess að búast við að áfrýjandi myndi síðar krefja hann um greiðslu vegna hennar. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Héðinn hf., greiði stefnda, Dala-Rafni ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 18. maí 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. mars sl., er höfðað með stefnu sem þingfest var 8. apríl 2009.
Stefnandi er Héðinn hf., kt. 471194-3289, Gljáhellu 4, Hafnarfirði.
Stefndi er Dala-Rafn ehf., kt. 560493-2159, Fjólugötu 27, Vestmannaeyjum.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 838.386 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 9. maí 2008 til greiðsludags og málskostnað samkvæmt reikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt reikningi.
Málavextir.
Málavextir eru þeir samkvæmt lýsingu stefnda að hann mun hafa keypt skipið Dala-Rafn VE-508 af B.P. skipum ehf. og fengið það afhent í desember 2007. Hafi B.P. skip ehf. keypt spilkerfi í það af Rolls-Royce Marine AS og sé stefnandi þjónustu- og umboðsaðili Rolls-Royce á Íslandi. Stefnandi hefur lagt fram gögn sem sýna að gerður hafi verið samningur 11. nóvember 2005, en ekki 2006 eins og standi í samningnum, og hafi hann snúist um smíði á spilkerfi í eitt skip á vegum BP skipa, með möguleika á að smíða slík kerfi í tvö skip til viðbótar. Mun þarna vera um að ræða skipin Vestmannaey, Bergey og Vörð, sem í framlögðum gögnum eru sögð skip nr. 44, 45 og 46. Samningur mun hafa verið gerður 18. janúar 2006 um smíði á spilkerfi í skip nr. 44 og hafi hann komið í stað fyrrnefnds samnings sem gerður hafi verið 11.nóvember 2005, en sá samningur hafi ekki verið efndur af hálfu kaupanda. Þessi samningur og samhljóða samningur um skip nr. 45 hafi verið undirritaðir og séu milli Rolls-Royce, Noregi og BP skipa ehf., en samningur um skip nr. 46 hafi ekki verið undirritaður. Þá liggur fyrir sýnishorn af samningi dagsettum 15. febrúar 2007 um skip nr. 47, Dala-Rafn VE-508, en þessi samningur mun aldrei hafa verið undirritaður af BP skipum ehf.
Í framangreindum drögum og hinum undirrituðu samningum var ákvæði þess efnis að spilkerfið væri í ábyrgð í 12 mánuði frá afhendingu. Um þremur mánuðum eftir afhendinguna, eða í mars 2008, mun hafa komið upp galli í spilkerfinu, svokölluðum SB innri grandaravindumótor og tilkynnti stefndi stefnanda um hann. Munu spíssar í stjórnlokum hafa afskrúfast við notkun sökum þess að gleymst hefði að líma þá fasta. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi sagst myndu gera við spilkerfið enda væri það enn í ábyrgð og stefnandi þjónustu- og umboðsaðili Rolls-Royce á Íslandi. Í kjölfar viðgerðarinnar sendi stefnandi stefnda reikning en stefndi neitaði greiðsluskyldu sinni, enda væri um að ræða galla í spilkerfi sem enn væri í ábyrgð.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á reikningi að fjárhæð 838.386 krónur, útgefnum þann 9. maí 2008 með gjalddaga sama dag. Reikningurinn sé tilkominn vegna viðgerðar starfsmanna stefnanda á grandaravindumótor að beiðni stefnda, en viðgerðin hafi farið fram í Vestmannaeyjum á tímabilinu 14. mars til 9. maí sama ár. Hafi skuldin ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Stefnandi vísar til meginreglna kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga sem fái m.a. lagastoð í 45., 47., 52. og 54. gr. laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Dráttarvaxtakröfur eru reistar á reglum III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað er byggð á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir á því að um sé að ræða galla sem framleiðandi spilkerfisins beri ábyrgð á og hafi stefnandi gert við hann sem umboðs- og þjónustuaðili framleiðandans á Íslandi. Enginn samningur sé á milli stefnda og stefnanda heldur hafi viðgerðin verið unnin á grundvelli ábyrgðar í framangreindum samningi. Beri stefnanda því ekki greiðsla úr hendi stefnda fyrir viðgerðina. Telji stefnandi sig eiga einhverjar fjárkröfur vegna vinnu sinnar verði hann að beina þeim að Rolls-Royce en ekki stefnda, enda hafi stefnandi verið að sinna vinnu fyrir Rolls-Royce í skipinu vegna galla í spilkerfinu sem verið hafi í ábyrgð.
Stefndi byggir sýknukröfuna á aðildarskorti skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Ekkert réttarsamband sé á milli stefnanda og stefnda en stefnandi hafi sinnt viðgerð á hlut sem verið hefði í ábyrgð á grundvelli framangreinds samnings. Enginn samningur sé á milli stefnanda og stefnda um það verk sem stefnandi krefjist greiðslu á og beri stefndi enga ábyrgð á kröfu stefnanda. Stefndi hafi ekki ráðið stefnanda í verkið, heldur hafi það verið Rolls-Royce sem hafi ráðið stefnanda sem umboðs- og þjónustuaðila fyrir fyrirtækið á Íslandi. Sé fráleitt að stefnandi geti krafið stefnda um greiðslu kostnaðar vegna viðgerðar á hlutum sem verið hafi í ábyrgð og stefnandi hafi sinnt fyrir framleiðanda sem umboðs- og þjónustuaðili hér á landi. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að samningur liggi fyrir milli stefnanda og stefnda og að hann hafi ekki verið að sinna viðgerðinni vegna ábyrgðar Rolls-Royce.
Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar og vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu vegna viðgerðar á grandaravindumótor í spilkerfi umrædds skips sem óumdeilt er að fór fram að beiðni stefnda. Ekki er deilt um reikningsfjárhæð en stefndi hafnar greiðsluskyldu sinni á þeim forsendum að samkvæmt samningi milli BP skipa ehf. og Rolls-Royce hafi kerfið enn verið í ábyrgð er bilunin varð. Stefnandi sé þjónustu- og umboðsaðili Rolls-Royce á Íslandi og falli kostnaður vegna viðgerðarinnar því undir ábyrgðarskilmála samningsins. Beri því að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts. Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um smíði þessa skips og sé ábyrgð Rolls-Royce því ekki fyrir hendi.
Gunnar Helgi Hauksson, starfsmaður stefnanda, skýrði svo frá fyrir dómi að fyrirsvarsmanni stefnda hefði verið skýrt frá því símleiðis að svo gæti farið að hann þyrfti sjálfur að bera kostnað af viðgerðinni. Hann kvað hafa legið ljóst fyrir á þessum tíma að Rolls-Royce tæki ekki þátt í neinum ábyrgðarmálum af þessu tagi, nema BP skip gerðu upp sín mál. Hann kvað stefnanda vera samstarfsaðila Rolls-Royce hér á landi og sæi hann um ýmsa þjónustu fyrir það fyrirtæki.
Þórður Rafn Sigurðsson, fyrirsvarsmaður stefnda skýrði svo frá fyrir dómi að það hefði ekki komið fram af hálfu stefnanda að stefndi þyrfti að greiða fyrir viðgerðina fyrr en eftir að hún hafði farið fram. Hefði honum þá verið tjáð að spilið hefði verið tekið úr ábyrgð vegna ágreinings við BP skip.
Björgvin Ólafsson, fyrirsvarsmaður BP skipa ehf., skýrði svo frá fyrir dómi að samningur vegna skips nr. 44 hefði einnig átt að gilda um skip nr. 47 en hann mundi ekki eftir því að hafa skrifað sérstaklega undir samning vegna þess skips. Hann kannaðist við að ágreiningur hefði verið við samningsaðilann um greiðslur. Hann kvað að eftir að smíði skipanna hafi verið lokið hafi hann framselt ábyrgð til kaupenda skipanna, þar á meðal stefnda.
Umrædd viðgerð fór fram á tímabilinu 14. mars til 9. maí 2008 og var reikningur gefinn út þann dag. Gerðir voru samningar milli BP skipa ehf. og Rolls-Royce um smíði spilkerfis í önnur skip og heldur fyrirsvarsmaður BP skipa því fram að samningur vegna skips nr. 44 hefði einnig átt að gilda um skip stefnda. Stefndi samdi við BP skip ehf. um kaup á skipinu og heldur fyrirsvarsmaður BP skipa því fram að hann hafi framselt ábyrgðina samkvæmt samningnum til stefnda. Ósannað er að fyrirsvarsmanni stefnda hafi verið gerð grein fyrir því að ábyrgðin væri hugsanlega ekki í gildi vegna vanefnda BP skipa ehf. og þá benda gögn málsins til þess að honum hafi ekki verið kunnugt um það fyrr en eftir að honum barst tölvupóstur frá starfsmanni Rolls-Royce þann 22. maí 2008, eða eftir að viðgerð lauk. Stefndi var ekki aðili að samningi BP skipa ehf. og Rolls-Royce og stóð það því stefnanda næst að tryggja sér sönnun fyrir því að ábyrgðin væri ekki í gildi gagnvart stefnda. Stefnandi ber hallann af því að hafa látið það undir höfuð leggjast og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda 250.000 krónur í málskostnað.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp dóminn. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Dala-Rafn ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Héðins hf. í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.