Hæstiréttur íslands

Mál nr. 135/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði
  • Málskostnaður


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. apríl 2004.

Nr. 135/2004.

X

(Ingvar Þóroddsson hdl.)

gegn

Akureyrarbæ

(Inga Þöll Þórgnýsdóttir hdl.)

 

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði. Málskostnaður.

Fallist var á að X yrði sviptur sjálfræði í 24 mánuði, enda væri hann ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna alvarlegs geðsjúkdóms. Hins vegar voru ekki talin lagaskilyrði til að verða við kröfu um að X yrði sviptur fjárræði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. apríl sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. mars 2004, þar sem sóknaraðili var sviptur lögræði, bæði fjárræði og sjálfræði, í 24 mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila um að hann verði sviptur lögræði verði hafnað. Til vara krefst hann að upphafleg krafa varnaraðila fyrir héraðsdómi um að hann verði sviptur sjálfræði í sex mánuði verði tekin til greina. Þá er þess krafist að kærumálskostnaður, þar með talin þóknun skipaðs verjanda hans vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, verði greiddur úr ríkissjóði.

Skilja verður greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti svo að hann krefjist þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Þá krefst varnaraðili að kærumálskostnaður, þar með talin þóknun talsmanns hans, verði greiddur úr ríkissjóði.

Fallist er á með héraðsdómara að sóknaraðili sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna alvarlegs geðsjúkdóms, sbr. a. lið 4. gr. lögræðislaga. Hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á nauðsyn þess að sóknaraðili skuli sviptur fjárræði. Eru því ekki lagaskilyrði til að verða við þeirri kröfu varnaraðila. Að þessu virtu verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að sóknaraðili verði sviptur sjálfræði í 24 mánuði.

Samkvæmt 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Samkvæmt gögnum málsins var Inga Þöll Þórgnýsdóttir héraðsdómslögmaður skipaður talsmaður varnaraðila í héraði. Það athugast að varnaraðili er sveitarfélag og var krafan fyrir héraðsdómi sett fram af lögmanni þess. Voru því engin efni til að skipa varnaraðila talsmann samkvæmt 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga. Þar sem hún var þrátt fyrir það skipuð talsmaður varnaraðila ber samkvæmt 17. gr. lögræðislaga að ákveða henni þóknun úr ríkissjóði vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Sóknaraðili, X, er sviptur sjálfræði í 24 mánuði frá uppkvaðningu hins kærða úrskurðar.

Allur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, samtals 150.000 krónur og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Ingu Þallar Þórgnýsdóttur héraðsdómslögmanns, samtals 80.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. mars 2004.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 2. þ.m., er til komið vegna kröfu Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar, kt. 410169-6229, Glerárgötu 26, Akureyri, um að X verði sviptur sjálfræði í 6 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar og að allur málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Er krafa þessi dagsett og móttekin 16. janúar 2004 og var málið þingfest 28. janúar 2004.  Var Inga Þöll Þórgnýsdóttir hdl. bæjarlögmaður, skipaður talsmaður sóknaraðilja, Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar, og Ingvar Þóroddsson hdl. skipaður verjandi varnaraðilja X.

Við þingfestingu málsins var ekki sótt þing af hálfu varnaraðilja, sem er dveljandi á geðdeild FSA og fékk dómari þau skilaboð frá honum að hann ætlaði ekki að mæta í dóminn nema þá til að ganga frá dómaranum.  Félagsráðgjafi sá, sem tjáði dómara þetta sagði að varnaraðilji væri mjög andsnúinn kerfinu, sem hann vildi feigt.

Dómari hlutaðist til um að Tómas Zoëga, geðlæknir, yfirlæknir göngudeildar geðdeildar Landsspítala semdi álitsgerð um það hvort andlegum högum varnaraðilja væri svo komið að hann væri ófær vegna geðsjúkdóms að ráða sínum persónulegu högum, skv. a-lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.  Skilaði yfirlæknirinn álitsgerð sinni 20. febrúar 2004.

 

Við málflutning 2. þ.m. krafðist talsmaður sóknaraðilja þess að varnaraðilji yrði sviptur lögræði, þ.e.a.s. sjálfræði og fjárræði, ótímabundið frá uppkvaðningu úrskurðar þessa.

 

Verjandi mótmælti þessari kröfu sem of seint fram kominni og krafðist þess að kröfum sóknaraðilja yrði hrundið og til vara að upphafleg krafa sóknaraðilja yrði tekin til greina.  Taldi hann vandséð hvernig hag umbjóðanda síns væri betur komið með því að fallast á kröfu sóknaraðilja þar sem varnaraðilji teldi sig fullfæran um að annast eigin málefni án afskipta hins opinbera.  Þá krafðist hann málskostnaðar að mati dómsins og að málskostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði.

 

Málsatvik eru í stuttu máli þau, að varnaraðilji hefur verið heimilislaus frá ágúst 2001 er hann var borinn út úr félgslegri leiguíbúð [...] vegna vanskila.  Frá þeim tíma hefur hann ekki haft húsnæði, en dvalarstaður hans hefur verið í tveimur ógangfærum bifreiðum.  Ættingjar hans, félagsmálayfirvöld og lögregla hafa haft miklar áhyggjur hans vegna og reynt að aðstoða hann, en hann ekki viljað þiggja neina hjálp.  Heilbrigðiseftirlit Norðurlands höfðu borist kvartanir vegna búsetu hans í bifreiðunum, sem staðsettar voru [...].  Kom að því að sóknaraðilji hlutaðist til þess að varnaraðilji var nauðungarvistaður á geðdeild Landsspítala 29. desember 2003.

 

Í læknisvottorði Sigmundar Sigfússonar, forstöðulæknis geðdeildar FSA, þann sama dag segir að varnaraðilji hafi fyrst leitað læknishjálpar á geðdeild FSA í desember 1982 og hafi þá fengið lyfjameðferð við einkennum aðsóknar-geðrofssjúkdóms og þunglyndis.  Á útmánuðum 1986 hafi hann verið innlagður á geðdeild Borgarspítala í Reykjavík og fengið þá sjúkdómsgreininguna aðsóknargeðklofi (schizophrenina paranoides).  Í framhaldi hafi meðferð við alvarleglum geðsjúkdómi hans ekki verið samfelld, aðallega vegna tortryggni hans í garð lækna og annarra.  Síðustu sex árin sé ekki vitað til að hann hafi tekið lyf við geðsjúkdómi sínum.  Eftir útburðinn úr leiguhúsnæðinu hafi hann hafst við í óskráðum bifreiðum sínum allan ársins hring innan bæjarlandsins.  Kvartað hafi verið undan því að hann dragi að sér rusl og eldi mat á opnu eldstæði og gangi örna sinna í næsta nágrenni.  Kvartað hafi verið yfir ógnandi atferli hans gagnvart starfsmanni Akureyrarbæjar og heilbrigðisfulltrúa.  Bróðir hans, fyrrverandi eiginkona og börn hafi engin áhrif getað haft á háttalag hans og hafa áhyggjur af honum, sérstaklega í miklum frostum að vetri.  Þegar bróðir hans reyndi að nálgast hann í janúar 2003 hafi varnaraðilji hótað honum óbeint lífláti.  Óljóst sé hvernig hann nærist, hann hafi engar reglulegar tekjur og hafi ekki gengist undir örorkumat, en talið að hann afli sér fjár með því að selja tómar drykkjarumbúðir svo og með einstaka verkefnum sem málari.

 

Að beiðni sóknaraðilja gerði geðlæknirinn tilraun til að ræða við varnaraðilja á lögreglustöðinni á Akureyri.  Neitaði hann alfarið að tala við lækninn og ræddi læknirinn við hann óbeint í gegnum nærstaddan lögreglumann.  Er varnaraðilji horaður, fremur úfinn og illa til reika.  Segist hafa næga hjálp frá guði.  Fram kemur að hann hefur lagt mikla fæð á geðlækninn allar götur frá því hann útvegaði honum pláss á geðdeild Borgarspítala 1986.  Ræði hann um sig sem dópsala og segi sig hafa gefið sjúklingum LSD.  Aðspurður hvort hann samþykki að leggjast inn á sjúkrahús segist hann eins geta látið skjóta sig til bana.  Ekki verði komið við neinni rökræðu, en í þessum samræðum telur geðlæknirinn sig fá staðfestingu á að varnaraðilji sé haldinn ranghugmyndum og bresti dómgreind vegna alvarlegs geðsjúkdóms.  Hann virðist hvorki hafa sjúkdómssinnsæi né sjúkdómstilfinningu.

Í niðurstöðu telur geðlæknirinn ótvírætt að varnaraðilji sé haldinn aðsóknargeðklofa, (schizophenia paranoides F20.0) og hafi ómeðhöndlaður sjúkdómurinn árum saman náð að marka djúp spor í persónuleika hans.  Sjúkdómurinn einkennist af mjög brengluðu raunveruleikamati, bæði gagnvart sjálfum sér og öðrum, ranghugmyndum og skorti á trausti á öllum nema e.t.v. fyrrverandi eiginkonu.  Telur læknirinn óhjákvæmilegt að varnaraðilji vistist þegar í stað á sjúkrahúsi til mats og meðferðar.  Telur hann í ljósi þess hve sjúkdómurinn hafi lengi verið ómeðhöndlaður, að hann þurfi lengri meðferð en 3 vikur á sjúkrahúsi til þess að meðferð beri árangur.

 

Í greinargerð sinni vísar Tómas Zoëga yfirlæknir til þessarar samantektar Sigmundar Sigfússonar yfirlæknis varðandi sjúkdómsferil og félagslegar aðstæður varnaraðilja.  Í viðtali læknisins við varnaraðilja á geðdeild FSA 20. f.m. sagði varnaraðilji að þrenns konar grundvallarfrelsi væri ríkjandi, þ.e.a.s. hugsanafrelsi, tjáningarfrelsi og frelsi til athafna.

[...]

Um geðskoðun segir að varnaraðilji sé rólegur í viðtali og geti gefið upplýsingar um sig almennt en sé augljóslega fastur í ákveðnu ranghugmyndakerfi sem beinist að yfirvöldum.  Ranghugmyndakerfið sé litað trúarlegum hugmyndum, form hugsunar séu heilbrigt, en innihaldið mjög afbrigðilegt eins og að framan er rakið.  Hann tali um að hann sé í fullum rétti til að verja sig og að þeir sem séu hlutar af yfirvaldinu sé réttdræpir.  Hann hafi augljóslega ekkert sjúkdómsinnsæi, en greind hans metin í klínisku viðtali virðist vera í eðlilegu meðallagi.  Í samantekt segir að hér sé tæplega fimmtugur fráskilinn karlmaður, fjögurra barna faðir, sem augljóslega hefur verið mikið veikur með miklar aðsóknarhugmyndir í meira en 20 ár, versnandi undanfarin ár.  Ranghugmyndirnar sem aðallega beinast að yfirvöldum hafi orðið til þess að hann hefur ekki fengist til að þiggja neina samhjálp og hafi í raun verið óvinnufær í nokkur ár þó hann hafi hlaupið í íhlaupaverk.  Hann hafi hrakist úr félagslegu húsnæði og búi við mjög þröngan kost í bíl við bæjarmörkin.  Hafi stundum verið mjög vannærður og ekki leitað sér læknisaðstoðar.

Í niðurstöðu læknisins segir að lokinni skoðun hans á varnaraðilja og nákvæmri athugun á gögnum málsins að það sé eindregin skoðun hans að varnaraðilji sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna alvarlegs geðsjúkdóms, sem hann er haldinn og er hann sammála því að hann sé haldinn aðsóknargeðklofa, þ.e.a.s. paranoid schizophrenia F20.0.  Í lok vottorðsins vill læknirinn benda á að veikindi varnaraðilja séu mjög alvarlegs eðlis og líklegt að grundvallarbreyting verði ekki að sex mánuðum liðnum.  Skynsamlegra væri að sviptingin yrði ótímabundin og næði til lögræðis, þ.e.a.s. líka fjárræðis, því að með þeim hætti yrði hugsanlega hægt að láta hann njóta örorkulífeyris.

 

Álit dómsins:

Svo sem hér að framan er rakið telur dómurinn fullsannað að högum varnaraðilja sé svo komið, með vísan til a liðar 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga að hann sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna alvarlegs geðsjúkdóms og fellst því dómurinn á kröfu sóknaraðilja um sviptingu lögræðis varnaraðilja, bæði sjálfræðis og fjárræðis, allt að 24 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar þessa að telja.

Við ákvörðun tímamarka þessara hefur dómari í huga hversu lengi varnaraðilji hefur verið án læknishjálpar við hinum alvarlega geðsjúkdómi, sem hefur farið versnandi á undanförnum árum, þannig að segja má að hann hafi nánast hrakist út úr samfélaginum.  Þannig að ætla má að nokkurn tíma taki að snúa við þessari versnun á heilsufari varnaraðilja, ef það er á annað borð hægt.

Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og í úrskurðarorði greinir.

Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðilji, X, er sviptur lögræði, bæði fjárræði og sjálfræði í 24 mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar þessa.

Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun til skipaðs talsamanns sóknaraðilja, Ingu Þallar Þórgnýsdóttur bæjarlögmanns, kr. 40.000 og þóknun til skipaðs verjanda, Ingvars Þóroddssonar hdl., kr. 80.000.