Print

Mál nr. 135/2013

Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari)
gegn
Z (Ragnar Halldór Hall hrl.)
Lykilorð
  • Umboðssvik
  • Hlutdeild
  • Peningaþvætti
  • Fjármálafyrirtæki
Reifun

Z, fyrrverandi framkvæmdastjóri M fjárfestingarbanka hf., var sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum X og Y með því að hafa, ásamt hinum síðarnefndu, lagt á ráðin um að B sparisjóður veitti lán til T ehf. til að fjármagna kaup félagsins á stofnfjárbréfum sem m.a. voru í eigu X og nokkurra starfsmanna sparisjóðsins og félags sem að hluta var í eigu Y, en þessir seljendur skulduðu bankanum fé. Var lánið veitt án fullnægjandi trygginga og í andstöðu við reglur sparisjóðsins. Með vísan til 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála miðaði Hæstiréttur við það að Z hefði ekki verið kunnugt um hvernig B sparisjóður hefði staðið að veitingu lánsins til T ehf. Vísaði Hæstiréttur til þess að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væri nægilegt að maður hafi átt þátt í því með saknæmum hætti að brot hefði verið framið til þess að hann yrði sakfelldur fyrir hlutdeild, en ekki væri þar gert að skilyrði að hann hefði vitað hvernig brotið yrði útfært í einstökum atriðum. Hefði vitneskja Z um tiltekin atriði, menntun hans og þekking á starfsemi banka og annarra lánastofnana leitt til þess að honum hefði ekki getað dulist að lánveiting sparisjóðsins til T ehf. hefði verið ólögmæt og til þess fallin að valda sparisjóðnum verulegri fjártjónshættu. Var háttsemi Z talin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. Tæmdi fyrrnefnda ákvæðið sök gagnvart þágildandi 264. gr. laganna um peningaþvætti. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot það sem Z átti hlutdeild í varðaði verulega fjárhæð. Hins vegar hefði hann ekki hagnast persónulega á brotinu og hefði hann ekki með sama hætti og X og Y brotið gegn trúnaðarskyldum sínum, heldur hefði hann borið að hann hefði verið að starfa í þágu fjármálafyrirtækis sem hann veitti forstöðu. Þá hefði hann ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Með vísan til þessa var refsing Z ákveðin fangelsi í 1 ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. febrúar 2013. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að refsing verði ákveðin svo væg sem lög frekast leyfa.

I

Hinn 2. október 2008 sendi MP fjárfestingarbanki hf., sem síðar hét MP banki hf., tölvubréf til ýmissa eigenda stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði, þar á meðal X, sem var formaður stjórnar sparisjóðsins, og Y, sem var þar sparisjóðsstjóri. Bréf þessi voru send í tengslum við lánssamninga, sem viðtakendur bréfanna höfðu gert við bankann vegna kaupa á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum og sagði þar eftirfarandi: „Vegna markaðsaðstæðna sér MP Fjárfestingarbanki hf. sig knúinn til að gjaldfella lánssamninga þína ... hjá bankanum á grundvelli force majeure-ákvæðis 13. gr. samninganna. Í stað þess að beita ofangreindri gjaldfellingarheimild samningsins, er bankinn tilbúinn til þess að myntbreyta samningnum yfir í íslenskar krónur. Óskirðu eftir því að sú leið verði farin biðjum við þig vinsamlegast um að hafa samband við undirritaða fyrir kl. 14 á mánudaginn, 6. október. Að öðrum kosti verður samningurinn gjaldfelldur m.v. stöðu hans í lok dags á morgun.“ Umræddir lánssamningar voru staðlaðir og bar 13. gr. þeirra yfirskriftina: „Breyttar forsendur eða force majeure.“ Þar sagði: „Verði veruleg breyting á viðskiptakjörum lánveitanda vegna atvika sem honum verður ekki kennt um, svo sem vegna breytinga á lánamörkuðum, ákvarðana stjórnvalda, styrjalda, kjarnorkuslysa eða atriða sem talin verða falla undir force majeure tilvik, þannig að lánveitanda verði ómögulegt að afla lánsfjár til fjármögnunar á lánssamningi þessum á sambærilegum kjörum og gengið var út frá við gerð hans, getur hann að undangenginni tilkynningu til lántaka gjaldfellt eftirstöðvar lánsins með 30 daga fyrirvara. Sama gildir verði verulegar breytingar til hins verra á viðskiptakjörum ríkissjóðs á erlendum lánamörkuðum.“

Í kjölfar þess að bréfin voru send áttu áðurnefndir X og Y fund með ákærða sem þá gegndi stöðu framkvæmdastjóra MP fjárfestingarbanka hf. Mun sá fundur hafa verið haldinn á bilinu 6. til 8. október 2013. Á fundinum var ákveðið að stofnfjárbréf í Byr sparisjóði, sem voru meðal annars í eigu X og A ehf., yrðu seld með fjármögnun sparisjóðsins til Fleðu ehf., sem var félag í eigu MP fjárfestingarbanka hf. Ekki varð þó af því að það félag keypti bréfin, heldur Tæknisetrið Arkea ehf. 13. október 2008, en það félag hlaut síðar nafnið Exeter Holdings ehf. Stofnfjárhlutirnir voru samtals að nafnvirði 242.260.151 króna, en þar af voru hlutir að nafnvirði 20.871.253 krónur í eigu A ehf., 54.109.865 krónur í eigu X, 16.767.866 krónur í eigu B útibússtjóra hjá Byr sparisjóði, 4.219.342 krónur í eigu C, 27.047.068 krónur í eigu D ehf. og 119.244.757 krónur í eigu MP fjárfestingarbanka hf.   

A ehf. var í eigu áðurnefnds Y að 30%, en auk þess áttu hluti í félaginu I framkvæmdastjóri bankaþjónustu Byrs sparisjóðs, J framkvæmdastjóri fjármálasviðs sjóðsins, K útibússtjóri hjá sjóðnum, áðurnefnd B og D ehf., en það félag, er síðar nefndist L ehf., var í eigu M yfirmanns áhættustýringar og útlánaeftirlits sjóðsins. Tæknisetrið Arkea ehf. var að 62% í eigu F sem var jafnframt framkvæmdastjóri þess en hann hafði einnig verið stjórnarmaður í MP fjárfestingarbanka hf. allt fram til júlí 2008.

Gögn málsins eru ekki með öllu skýr um hvort MP fjárfestingarbanki hf. hafi leyst til sín hluta stofnfjárbréfa þeirra sem um ræðir áður en Tæknisetrið Arkea ehf. keypti þau. Á hinn bóginn er fram komið að 13. október 2008 veitti Byr sparisjóður því félagi 800.000.000 krónur í yfirdráttarlán fyrir kaupunum með veði í bréfunum sjálfum. Einnig lánaði MP fjárfestingarbanki hf. félaginu 43.916.385 krónur til þessara kaupa.

Með bréfi 7. september 2009 greindi Fjármálaeftirlitið sérstökum saksóknara frá rannsókn sem það hafði hafið á framangreindum viðskiptum. Í bréfinu kom meðal annars fram að Tæknisetrið Arkea ehf. hafi virst vera með neikvæða eiginfjárstöðu er viðskiptin áttu sér stað. Einnig var tiltekið að svokölluðum stofnfjármarkaði með stofnfjárbréf Byrs sparisjóðs hafi verið lokað í ágúst 2008 vegna fyrirhugaðrar breytingar sparisjóðsins í hlutafélag og samruna hans við Glitni banka hf. Áðurgreind viðskipti hafi átt sér stað „yfir borðið“ þar sem bæði kaupandi og seljendur hafi vitað hverjir viðsemjendur þeirra væru. Stofnfjármarkaðurinn, sem MP fjárfestingarbanki hf. hafi haft umsjón með, hafi ekki verið skipulegur verðbréfamarkaður eða markaðstorg fjármálagerninga í skilningi laga heldur í raun venjuleg verðbréfamiðlun með óskráð verðbréf, þótt birt hafi verið á vefsíðu MP fjárfestingarbanka hf. hagstæðasta kaup- og sölutilboð sem í gildi hafi verið hverju sinni. Um kaup Tæknisetursins Arkea ehf. í október 2008 sagði meðal annars: „Endurmatsstuðullinn fyrir nafnverð stofnfjárhluta sem notaður var í viðskiptunum var 2,1978. Framreiknað nafnverð í viðskiptunum var því 532.439.360. Kaupverð í viðskiptunum var kr. 1,585 per hlut, þ.e. samtals kr. 843.916.385. Rétt er að geta þess að endurmatsstuðullinn var í október orðinn 2,2386, en MP banki notar ágúst stuðulinn í viðskiptunum.“ Var veðhlutfall í stofnfjárbréfunum því sem næst 95% vegna viðskiptanna. Fram er komið að síðasti dagur viðskipta með stofnbréf í Byr sparisjóði fyrir milligöngu MP fjárfestingarbanka hf. var 22. ágúst 2008. Gengi bréfa í þeim viðskiptum þann dag var á bilinu 1,4 til 1,5 fyrir utan síðustu viðskiptin sem voru óveruleg þar sem gengið var 1,6. 

Fjármálaeftirlitið ákvað 22. apríl 2010 að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar í Byr sparisjóði og víkja stjórn hans frá. Bú Exeter Holdings ehf., áður Tæknisetursins Arkea ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta 3. maí 2011. Engar eignir munu hafa fundist í búinu fyrir utan að það var skráður eigandi að stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði.

II

Með ákæru 25. júní 2010 voru áðurnefndir X og Y ákærðir fyrir umboðssvik, meðal annars með því að hafa í störfum sínum í október 2008 veitt Tæknisetrinu Arkea ehf. 800.000.000 króna yfirdráttarlán frá Byr sparisjóði til að fjármagna kaup á framangreindum stofnfjárbréfum, án fullnægjandi trygginga og í andstöðu við reglur sparisjóðsins. Ákærði var í sama máli ákærður fyrir hlutdeild í þessu broti X og Y með því að hafa lagt á ráðin um umrædd viðskipti en einnig fyrir peningaþvætti. Er efni ákærunnar rakið í hinum áfrýjaða dómi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2011 voru X og Y sýknaðir með þeim rökum að lánveitingin hefði verið innan heimildar þess síðarnefnda sem um gat í lánareglum Byrs sparisjóðs og hefði lánveiting sem þessi áður tíðkast hjá sjóðnum. Þá komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að við mat á veðhæfni stofnfjárbréfa yrði að miða við skráð hlutabréf á markaði og vísaði til þess að eiginfjárstaða sparisjóðsins hafi samkvæmt efnahagsreikningi í september 2008 verið jákvæð um rúmlega 48.000.000.000 krónur eftir að hafa rýrnað um 16,1% frá áramótum en aukist á ný um rúmar 3.000.000.000 krónur frá 30. júní 2008. Að fenginni þessari niðurstöðu taldi héraðsdómur að af sjálfu leiddi að sýkna bæri ákærða Z af sakargiftum.

Með dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011 voru X og Y á hinn bóginn fundnir sekir um umboðssvik. Í niðurstöðu dómsins sagði að miða yrði við að umrædd lánveiting til Tæknisetursins Arkea ehf. hafi verið samþykkt af stjórn Byrs sparisjóðs eftir á og samhliða því er stjórnin samþykkti frekari lánveitingu til félagsins fyrir sambærilegum kaupum á stofnfjárbréfum. Var þetta samþykki þó ekki talið hafa áhrif á sakfellingu X og Y vegna lánveitinga sem þeir voru taldir hafa staðið saman að. Kom fram að hvorugur þeirra hafi gætt að því að lánin voru veitt án þess að áður hefði verið könnuð greiðslugeta og eignastaða Tæknisetursins Arkea ehf. Hvorki var talið að gögn málsins stæðu til þess að heimilt hafi verið að leggja verðmæti stofnfjárhlutanna og veðhæfni að jöfnu við skráð hlutabréf á markaði, né að ætluð eiginfjárstaða sparisjóðsins hafi átt að hafa þá þýðingu sem að framan greinir við mat á því hvort háttsemi X og Y félli undir ákvæði 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki var heldur fallist á að við mat á refsinæmi háttsemi þeirra ætti að líta til formlegs umboðs Y til að skuldbinda sparisjóðinn eða að samþykki stjórnar sparisjóðsins fyrir lánveitingu gegn lánareglum hans leiddi til þess að X og Y gætu ekki hafa farið út fyrir umboð sitt gagnvart sjóðnum í skilningi refsiákvæðisins. Þá töldust gögn málsins ekki einhlít um fyrri lánveitingar vegna viðskipta með stofnfjárbréf í sjóðnum, en þótt dæmi hefðu verið um veigalítil fyrri viðskipti með sambærilegum hætti yrði ekki af þeim dregin ályktun til stuðnings sýknu. MP fjárfestingarbanki hf. hafi í framangreindu bréfi sínu 2. október 2008 vísað til verulegra breytinga á markaðsaðstæðum, óvissu á mörkuðum og óviðráðanlegra ytri atvika. Hafi þær ástæður verið tilgreindar sem grundvöllur fyrir boðaðri gjaldfellingu lána bankans til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði. Af gögnum málsins yrði ekki séð að bankinn hafi beitt veðkalli gagnvart þeim lánþegum sem tilgreindir voru í ákæru eða að lánþegarnir hafi andmælt innheimtu á þeim grundvelli sem vísað var til í bréfinu. Á þessum tíma hafi verið veruleg lausafjárþurrð hjá fjármálafyrirtækjum, hlutafjármarkaður í mikilli óvissu og þrír stærstu viðskiptabankar landsins fallið um líkt leyti. Hafi X og Y með aðgerðum sínum komið málum þannig fyrir að áhættu á tjóni vegna stofnfjárbréfanna var velt yfir á Byr sparisjóð. Þetta hafi þeir gert án þess að kanna sérstaklega stöðu Tæknisetursins Arkea ehf. og án nægilegs stuðnings við gögn um raunverulegt verðgildi stofnfjárbréfanna. Þá hafi ekki verið veittar frekari tryggingar fyrir láninu en veð í stofnfjárbréfunum sjálfum. Mat á tryggingargildi bréfanna hafi verið óviðunandi og í miklu ósamræmi við reglur sjóðsins um veðsetningarhlutfall trygginga. Taka hefði átt mið af reglum sparisjóðsins um lán til kaupa á óskráðum bréfum á markaði. Auk alls þessa hafi X og Y verið vanhæfir samkvæmt reglum sjóðsins til að taka ákvörðun um lánveitingu þá sem um ræðir. Með umræddum lánveitingum hafi tilgreindir eigendur stofnfjárbréfa losnað undan skuldbindingum gagnvart MP fjárfestingarbanka hf. sem jafnframt fékk kröfur sínar á hendur eigendum bréfanna greiddar. Þótti 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ekki standa í vegi sakfellingar, enda hafi niðurstaða héraðsdóms um sýknu X og Y ekki verið reist á röngu mati um sönnun um atvik í skilningi ákvæðisins.

Ákærði hafði í héraðsdómi verið sýknaður með þeim rökum einum að X og Y hefðu ekki framið það brot sem háttsemi hans var talin taka til í ákæru. Tók héraðsdómur því ekki afstöðu til þess hvort og þá eftir atvikum með hvaða hætti meta þyrfti framburð fyrir dómi um ætluð brot ákærða. Að gættum ákvæðum 208. gr. laga nr. 88/2008 og með hliðsjón af 2. mgr. 169. gr., sbr. 210. gr., laganna var héraðsdómur því ómerktur hvað ákærða varðaði og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. 

III

Hinn áfrýjaði dómur gekk 31. janúar 2013. Með honum var ákærði sýknaður. Í niðurstöðu héraðsdóms kom meðal annars fram að þótt alkunna hafi verið haustið 2008 að mikill lausafjárskortur hafi hrjáð stóru íslensku bankana, sem meðal annars leiddi til þess að þeir féllu, þá hafi ákærða og vitnum borið saman um að lausafjárstaða Byrs sparisjóðs hefði verið góð og fengi sú fullyrðing stuðning í gögnum málsins. Óhjákvæmilegt væri að hafa þetta í huga þegar metin væri sú ákvörðun ákærða að leita eftir fjármögnun hjá Byr sparisjóði. Þá tilgreindi héraðsdómur að augljóst væri að lánveitandi bæri ákveðna áhættu af því að lána fé og með því að sparisjóðurinn veitti lánið hefði sú áhætta færst frá MP fjárfestingarbanka hf. til sjóðsins. Vísaði dómurinn til þess að ákærði hefði staðfastlega neitað vitneskju um hvernig staðið hefði verið að málum við lánveitinguna hjá Byr sparisjóði. Hefði framburður ákærða um þetta verið trúverðugur og fengi stoð í framburði vitna. Þá sagði héraðsdómur að ákærði hafi kannast við að hafa lagt til að sölugengi stofnfjárbréfa yrði með þeim hætti að MP fjárfestingarbanki hf. fengi kröfur sínar greiddar, en það hefði verið eðlilegt í ljósi stöðu ákærða hjá vinnuveitanda sínum. Ákærði hefði á hinn bóginn ekki verið í stöðu til að ákveða hvernig Byr sparisjóður myndi standa að lánveitingunni og því væri ósannað að honum hefði ekki getað dulist hvernig sparisjóðurinn stóð að henni. 

IV

Í hinum áfrýjaða dómi var rakinn hluti framburðar ákærða og flestra vitna við hina síðari meðferð málsins. Um framangreindan fund ákærða með X og Y í október 2008 bar ákærði að þegar ljóst hefði verið að frekari tryggingar yrðu ekki lagðar fram vegna lána MP fjárfestingarbanka hf. fyrir stofnfjárbréfum hafi hann lagt til að Fleða ehf. myndi kaupa bréf skuldara auk stofnbréfa í eigu bankans. Kvaðst hann hafa óskað eftir láni frá Byr sparisjóði til þessara kaupa og þá með veði í stofnfjárbréfunum. Hafi hann einnig komið með tillögu um að gengi bréfanna yrði samkvæmt útreikningi hjá lánasviði bankans. Neitaði hann að hafa haft hönd í bagga er MP fjárfestingarbanki hf. keypti stofnfjárbréf á genginu 1,6 í ágúst 2008, en sagði ákvörðun um gengi á umræddum fundi hafa miðast við þessi kaup og jafnframt að bankinn fengi fullar endurheimtur á lánum sínum til eigenda stofnfjárbréfa. Ákærði kvaðst þó hafa gert fyrirvara um samþykki E, stjórnarformanns bankans. Kvaðst ákærði hafa talið þetta eðlilega lausn þar sem hann hefði talið stöðu Byrs sparisjóðs ágæta, einkum miðað við aðrar bankastofnanir, þar á meðal hans stofnun, sem skort hefði lausafé. E hafi reynst þessu andvígur en síðar tilkynnt sér um áhuga F fyrir kaupunum. Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa í kjölfarið tilkynnt stjórnendum Byrs sparisjóðs um hinn nýja kaupanda og kannað hvort þeir hefðu „áhuga á því að fjármagna þennan einstakling.“ X og Y hefðu sagt að þeir myndu bera þetta upp fyrir stjórn sparisjóðsins. Ákærði sagðist ekki muna hvort hann hafi vitað um innheimtuaðgerðir MP fjárfestingarbanka hf. á hendur félögum í eigu F.

Fyrir liggur í málinu að ákærði er viðskiptafræðingur að mennt og hefur lokið meistaraprófi í fjármálahagfræði frá erlendum háskóla. Hann er löggiltur verðbréfamiðlari og sat í stjórn Byrs sparisjóðs fram til loka ársins 2007. Mun hann hafa kynnst Y og X í störfum sínum þar.

X kvaðst fyrir héraðsdómi ekki muna nákvæmlega efni framangreinds fundar þeirra Y og ákærða. Á honum hafi verið rætt um að Fleða ehf. myndi kaupa stofnfjárbréfin í einu lagi og jafnframt ákveðið að Byr sparisjóður myndi fjármagna kaupin. Ekki kvaðst X muna eftir því að ákærði hefði haft samband við sig er ákveðið var að Tæknisetrið Arkea ehf. kæmi að málum og hafi hann ekkert komið að ákvörðun um það.

Y lýsti því fyrir dómi að fundur þeirra X og ákærða hafi gengið út á að tilgreindir stofnfjárfestar, þar á meðal MP fjárfestingarbanki hf., skyldu losna við stofnfjárbréf þannig að Byr sparisjóður fjármagnaði kaupin að fullu og þá einungis gegn veði í bréfunum. Bar hann líkt og ákærði og X að upphaflega hefði staðið til að Fleða ehf. keypti bréfin, en sú áætlun breyst. Ekki kvaðst Y vita hver átti frumkvæði að þeirri breytingu, en eftir fundinn hefði X hringt í sig og tilkynnt að ákærði hefði látið sig vita að „MP banki vilji ekki nota þetta félag og vilji nota annað félag. Og þá kemur þetta félag inn.“ Y kvaðst ekkert hafa átt samskipti við F vegna kaupanna.

Vitnið E bar fyrir dómi að MP fjárfestingarbanki hf. hefði verið „að gjaldfella á alla viðskiptavini bankans á þessum tíma og sumir lagfærðu sín mál og aðrir ekki eins og gengur.“ Hann kvaðst minnast þess að ákærði og X hefðu haft samband við sig og spurt hvort hann vissi um einhvern aðila sem hefði áhuga á að kaupa umrædd stofnfjárbréf og hefði hann þá að eigin frumkvæði haft samband við áðurnefndan F. Vitnið hafi vitað að Byr sparisjóður myndi fjármagna kaup Tæknisetursins Arkea ehf. á bréfunum og nefndi að Fleða ehf. hafi ekki komið til greina sem kaupandi þar sem slíkt myndi hafa slæm áhrif á útreiknað eigið fé MP fjárfestingarbanka hf. samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Vitnið F staðfesti áðurgreind samskipti sín við E. Daginn eftir hefði hann ákveðið að kaupa bréfin og haft samband við ákærða um það. Sér hafi verið tilkynnt að „fjármögnun væri innifalin í þessu“ og hún að mestu átt að koma frá Byr sparisjóði en um 50.000.000 krónur til viðbótar frá MP fjárfestingarbanka hf. Hann hefði ekki gert athugasemdir við kaupverð bréfanna. Það væri ekki venja í viðskiptum á hlutabréfamarkaði, en vitnið kvaðst hafa fengið upplýsingar um að höfð hefði verið hliðsjón af innra virði sparisjóðsins. Vitnið kvaðst ekki hafa átt samskipti við annan en ákærða vegna þessa máls, eftir framangreind samskipti sín við E og þá ekki starfsmenn sparisjóðsins fyrr en hann mætti þangað og ritaði undir lánsskjöl. Vitnið kannaðist við að vegna gjaldfellingar lána félags hans, ÁSK ehf., hafi hann 9. október 2008 sent tölvubréf til H þáverandi forstjóra áhættustýringar MP fjárfestingarbanka hf., ákærða, N innri endurskoðanda bankans og O þáverandi forstöðumanns lögfræðisviðs og regluvarðar bankans. Í bréfinu sagði meðal annars að „bankinn hefði frekar átt að bíða með að nýta sér heimild til gjaldfellingar þar til fyrir liggur hvert verður gengi krónunnar þegar óvissuástandi lýkur. Það er t.a.m. ómögulegt að koma með tryggingar inn í þá stöðu sem nú er uppi.“ Í bréfinu kom einnig fram að F taldi rétt að víkja úr öllum stjórnum sem tengdust MP fjárfestingarbanka hf. Hið sama gilti „um prókúru eða framkvæmdastjórn ef við á.“

Vitnið H kvaðst hafa sent framangreind tölvubréf 2. október 2008 með viðvörun um gjaldfellingu lána. Hafi hann í framhaldi af því sent F slíka viðvörun vegna félags í hans eigu og F sent sér áðurgreint tölvubréf 9. október 2008. Ekki kvaðst vitnið vita hvernig á því hefði staðið að F hafi í kjölfarið keypt umrædd stofnfjárbréf í Byr sparisjóði, þar á meðal bréf sem voru í eigu MP fjárfestingarbanka hf. Ekki gat vitnið útskýrt hvað hann hefði átt við með eftirfarandi orðum í tölvubréfi 14. nóvember 2008 til áðurnefnds O: „ÁSK var ekki gjaldfelld vegna BYR-deal´inn“. Hann kvaðst á hinn bóginn hafa verið að skírskota til kaupa Tæknisetursins Arkea ehf. á umræddum stofnfjárbréfum, ekki hefði verið um annan „BYR-deal“ að ræða. 

Vitnið O kvaðst ekki minnast þess að hafa komið að kaupum og sölu á umræddum stofnfjárbréfum. Staðfesti hann að hafa fengið framangreint tölvubréf F 9. október 2008 og framsent þegar í stað til E. Ekki kvaðst hann hafa verið að velta fyrir sér hvað nákvæmlega væri átt við með orðunum um „BYR-deal“ í tölvubréfinu 14. nóvember 2008, en MP fjárfestingarbanki hf. hefði þó frestað gjaldfellingu á hendur F.

Vitnið G starfsmaður við hlutabréfamiðlun hjá MP fjárfestingarbanka hf. kvaðst hafa annast móttöku á kaup- og sölutilboðum hlutabréfa fyrir viðskiptavini bankans og skráð þau viðskipti en einnig hefði hann haft umsjón með stofnfjármarkaði varðandi Byr sparisjóð. Ákærði hafi haft töluverð afskipti af þessum markaði og stundum stýrt því hvaða sölutilboði í stofnfjárbréf bankinn ætti að taka. Á grundvelli fyrirmæla ákærða hafi bankinn 22. ágúst 2008 keypt óverulegan hluta stofnfjárbréfa á genginu 1,6. Ákærði hafi svo gefið fyrirmæli um að ekki yrðu fleiri stofnfjárbréf keypt. Kvaðst vitnið telja sig hafa 10. október 2008 fengið tölvubréf frá ákærða með tilkynningu um að Tæknisetrið Arkea ehf. yrði kaupandi stofnfjárbréfa í stað Fleðu ehf. og hafi hann líklega tilkynnt Byr sparisjóði um það.

V

Meðal gagna málsins eru tölvupóstsamskipti B við ákærða og tvo aðra starfsmenn MP fjárfestingarbanka hf. í lok júní 2008 er varða kjör á lánssamningi hennar vegna stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði. Í bréfi H til B 25. júní 2008, sem ákærði fékk sent afrit af, kom fram að almennt væru ekki heimiluð lán í erlendri mynt á móti óskráðri eign í íslenskum krónum nema tryggingarhlutfall væri að minnsta kosti 150% og í slíkum tilvikum yrði veðkall við 125%. Þar kom einnig fram að bankinn myndi útbúa „lánagögn“ í samræmi við tiltekna skilmála sem komu fram í bréfinu, en þar var meðal annars til viðbótar við handveð í stofnfjárbréfum kveðið á um sjálfskuldarábyrgð B. Hún svaraði tölvubréfinu daginn eftir og taldi kjör þau sem henni voru boðin ekki í samræmi við það sem rætt hefði verið um. Þannig hafi vaxtaálag verið hækkað auk þess sem lántökugjaldi hafi verið bætt við og kveðið á um sjálfskuldarábyrgð hennar. Voru nokkur samskipti milli B og H um framangreint, en í tölvubréfi 27. júní féllst hann á að ekki yrði tekið lántökugjald. Þá samþykkti hann fyrir hönd bankans 30. sama mánaðar að vaxtaálag yrði 5% og að ekki yrði krafist sjálfskuldarábyrgðar, þó þannig að hennar yrði krafist yrði veðkalli ekki mætt. Veðkall yrði við „125% með reset til 150%“ og væri það ekki umsemjanlegt.

Eins og áður hefur komið fram sendi MP fjárfestingarbanki hf. tölvubréf 2. október 2008 til ýmissa eigenda stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði um fyrirhugaða gjaldfellingu lánssamninga þeirra á grundvelli 13. gr. samninganna. Meðal þeirra sem fengu bréf bankans um gjaldfellingu var áðurgreind B. Í bréfi hennar 4. október 2008 til H sagði að hún hafi beðist „miskunnar“ hjá ákærða og óskaði hún eftir því að málið yrði borið undir hann. Í bréfi B til ákærða 7. október 2008, með afriti til P sérfræðings á sviði áhættustýringar og útlánaeftirlits hjá bankanum sagði: „Ég vil bara ítreka beiðni mína um ... nafnabreytingu á lánasamninginn sem enn er á mínu nafni yfir á Q ehf eins og við ræddum.“ P sendi B bréf daginn eftir þar sem sagði: „Z er að fara á fund með Y og X þar sem verður líka tekið fyrir þín mál.“

Tilkynning um gjaldfellingu lána ÁSK ehf. þar sem veðköllum hafði ekki verið mætt var send F 8. október 2008. Síðar sama dag sendi G bréf til Y þar sem sagði: „Sæll, þessi viðskipti fara fram að því gefnu að Fleða geti dregið 700.000.000 af lánalínu sína hjá BYR sparisjóði. Sala BYR bréf á genginu 1,585 (uppreiknistuðull 2,1978) - Fleða kaupir: X selur að nv. 54.109.865 B selur að nv. 16.767.866 C selur að nv. 4.219.342 D ehf. selur nv. 27.047.068 MP Fjárfestingarbanki hf selur nv. 119.244.757“.

Að morgni 9. október 2008 sendi G aftur bréf til Y þar sem sagði: „Sæll Y, sendi þér póst í gærkvöldi - sá fellur úr gildi og þessi kemur í staðinn. Þessi viðskipti fara fram að því gefnu að Fleða geti dregið 800.000.000 af lánalínu sína hjá BYR sparisjóði samhliða þessum viðskiptum.“ Í bréfi þessu voru tilgreindir sömu seljendur stofnfjárbréfa og í fyrrnefndu bréfi G til Y að viðbættu því að „A selur að nv. 20.871.253“. Laust eftir hádegi sama dag sendi F framangreint bréf þar sem hann greindi meðal annars frá því að hann teldi rétt að víkja úr öllum stjórnum sem tengdust MP fjárfestingarbanka hf. Eins og áður greinir var ákærði meðal viðtakenda þessa bréfs. Síðar sama dag sendi G bréf til Y þar sem sagði: „Sæll Y Nú þegar hefur helmingur viðskiptanna verið keyrður í gegnum viðskiptakerfi okkar enn er beðið eftir að lánalína Fleðu upp á 800 mkr verði klár. Nú þegar hefur verið dregið á línuna upp á 400 mkr.“ Svar Y til G var svofellt: „Ok, við reddum hinum, en þá verður þú að redda því að þínir menn kvitti upp á tryggingaskjöl vegna lánsins.“ Þessu svaraði G: „Það má senda pappírana hingað í Skipholtið til undirritunar“.

Laust eftir hádegi 10. október 2008 sendi E til F og ákærða tölvubréf þar sem sagði: „Z, þú verður að ákveða hvenær þú boðar F í frágang á þessu. Er það ekki best sem fyrst, strax í dag??“ Hálftíma síðar sendi G Y svofellt bréf: „Sæll Y, Tæknisetur Arkea ehf. ... verður kaupandi af bréfunum í stað þess fyrrnefnda“, Fleðu ehf. Skömmu síðar framsendi Y áðurgreint tölvubréf til R regluvarðar Byrs sparisjóðs með bréfi þar sem sagði: „Sæll Þetta er víst félagið sem er að kaupa þessa hluti. Getur þú hent asap upp nýju framsalsblaði svo stjórnarmenn geti kvittað upp á.“ Mínútu síðar svaraði R: „Geri það.“ Y sendi R á ný bréf þar sem sagði: „Ég þarf nýtt framsal frá þér þar sem dagsetningin þarf að vera 7. Október þannig að hún sé í takt við stjórnarfundinn. X hefur rætt við stjórnarmenn, farið yfir málið með þeim og þeir koma og kvitta.“

Hinn 14. október 2008 sendi B tölvubréf til Y þar sem hún greindi honum frá því að gengið hafi verið frá „pappírum fyrir Tæknisetur Arkea og stjórnarmenn árituðu umsóknir um tékkareikning, handveð í stofnbréfum o.fl. Búið að millifæra 800m á MP og bakfæra 400m af MP á Fleðu. Z ætlar að sjá um að koma bréfunum til okkar og R er með handveðsyfirlýsinguna fyrir Tæknisetur Arkea.“ Svaraði Y bréfinu sama dag og sagði: „Ok mikilvægt að ganga frá öllum endum sem fyrst, fá allar undirskriftir og koma öllu í hús.“ Þessu svaraði B: „Það á allt að vera undirritað af Tæknisetri Arkea þ.e umsóknin um tékkareikning, peningaþvætti, umboð vegna VS reiknings, skilmálar vegna VS, handveð í stofnbréfum. Það sem útaf stendur er að Z og R möndli stofnbréfin frá MP til Byrs á þennan VS reikning sem stofnaður var og handveð er í. Ég skal ýta á R að fá bréfin frá Z.“

VI

Í hinum áfrýjaða dómi segir að ákærði hafi staðfastlega neitað því að honum hafi verið kunnugt um hvernig staðið var að málum hjá Byr sparisjóði varðandi lánveitinguna sem Hæstiréttur sló föstu í dómi sínum í máli nr. 442/2011 að væri ólögmæt. Eins og áður greinir er tekið fram að það sé mat héraðsdóms að framburður ákærða um þetta við aðalmeðferð málsins hafi verið trúverðugur, en hann styðjist auk þess við framburð vitna. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Slík skýrslugjöf hefur ekki farið fram. Verður því við það miðað að ákærða hafi ekki verið kunnugt um hvernig þessi lánveitandi stóð að veitingu lánsins að fjárhæð 800.000.000 krónur til Tæknisetursins Arkea ehf. 13. október 2008. Á hinn bóginn er í niðurstöðu héraðsdóms ekki vikið að atriðum sem lúta að öðrum þáttum í brotum, sem X og Y hafa hlotið dóm fyrir og ákærða er gefin að sök hlutdeild í, en fjallað er um þau atriði í málskjölum og skýrslum ákærða og vitna fyrir dómi. Af þeim sökum er ekkert því til fyrirstöðu að Hæstiréttur líti til þessara sönnunargagna við úrlausn málsins, að því leyti sem þau varða annað en það hvernig staðið var að lánveitingunni af hálfu sparisjóðsins. 

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga skal hver sá maður, sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í að brot samkvæmt lögunum er framið, sæta þeirri refsingu sem við brotinu er lögð. Eftir þessu er nægilegt að maður hafi átt þátt í því með saknæmum hætti að brot hafi verið framið til þess að hann verði sakfelldur fyrir hlutdeild. Á hinn bóginn er það ekki skilyrði fyrir því að maður hafi gerst sekur um hlutdeild í broti þar sem ásetnings er krafist að hann hafi vitað hvernig brotið yrði útfært í einstökum atriðum. Af þessu leiðir að vitneskja ákærða um önnur atriði en hvernig staðið var að veitingu lánsins til Tæknisetursins Arkea ehf. af hálfu Byrs sparisjóðs kann að hafa orðið til þess að honum hafi ekki getað dulist, í ljósi aðdraganda lánveitingarinnar og allra aðstæðna, að hún hafi verið ólögmæt. Vegna þess að ákærða er gefin að sök refsiverð hlutdeild í umboðssvikum X og Y verður við úrlausn um hvort háttsemi hans falli undir 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga að hafa hliðsjón af forsendum fyrir sakfellingu þeirra tveggja í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar sem áður hafa verið raktar, þar á meðal þeirri túlkun á fyrrnefndu lagagreininni sem þar er stuðst við.

Í bréfi MP fjárfestingarbanka hf. 2. október 2008, sem gerð hefur verið grein fyrir, vísaði bankinn til verulegra breytinga á markaðsaðstæðum, óvissu á mörkuðum og óviðráðanlegra ytri atvika. Voru þær ástæður tilgreindar sem grundvöllur fyrir boðaðri gjaldfellingu lána sem bankinn hafði veitt til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði. Á þessum tíma var veruleg lausafjárþurrð hjá fjármálafyrirtækjum, hlutafjármarkaður í mikilli óvissu og þrír stærstu viðskiptabankar landsins riðuðu til falls. Eins og áður segir verður ekki séð af gögnum málsins að lánþegar sem tilgreindir eru í ákæru hafi andmælt innheimtu á þeim grundvelli sem vísað var til í bréfinu, eða að til hafi staðið þeir settu frekari tryggingar fyrir lánunum frá MP fjárfestingarbanka hf. Þekkti ákærði þessa stöðu mála og eins og áður hefur komið fram eru í gögnum málsins ýmis tölvubréf sem bera um samskipti hans og sumra lánþeganna um innheimtu lánanna, en þau samskipti náðu allt aftur til júní 2008. Kom þar meðal annars fram að bankinn lánaði almennt ekki gegn veðum í óskráðum bréfum nema tryggingarhlutfall væri að minnsta kosti 150%, auk þess sem eftir atvikum væri krafist sjálfskuldarábyrgðar. 

Eins og áður greinir hittust ákærði, X og Y á fundi 6., 7. eða 8. október 2008 en um það leyti varð ljóst að viðskiptabönkunum þremur yrði ekki forðað frá falli. Samkvæmt framburði þeirra þriggja féllust X og Y á þá ráðagerð ákærða að Byr sparisjóður myndi lána Fleðu ehf. fé til kaupa á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum. Þar var annars vegar um að ræða þau bréf sem MP fjárfestingarbanki hf. hafði veitt lán til kaupa á gegn handveði í þeim og hins vegar bréf sem voru í eigu bankans sjálfs. Þau stofnfjárbréf, sem samkvæmt þessu var gert ráð fyrir að keypt yrðu að stærstum hluta með láni frá sparisjóðnum, voru samtals að nafnvirði 242.260.151 króna, þar af nam nafnvirði bréfa í eigu bankans 119.244.757 krónum.

Þeir þrír komu sér að auki saman um hvert skyldi vera kaupverð stofnfjárbréfanna í fyrirhuguðum viðskiptum. Eins og áður greinir sagðist ákærði hafa komið með tillögu að því gengi sem miða ætti við eftir að hafa fengið það útreiknað hjá lánasviði MP fjárfestingarbanka hf. Hafi gengið og þar með kaupverðið miðast við að bankinn fengi fullar endurheimtur á þeim lánum sem hann hafði áður veitt til kaupa á bréfunum, enda hafi ákærði með þessu verið að gæta hagsmuna bankans. Með vísan til þessa og annars sem fram er komið í málinu, þar á meðal upplýsinga um gengi stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði í viðskiptum með þau fyrir milligöngu MP fjárfestingarbanka hf. í ágúst 2008, liggur fyrir að kaupverðið, sem ákærði gerði tillögu um og var lagt til grundvallar í umræddum viðskiptum, hafi ekki tekið mið af raunverulegu verðgildi bréfanna á þessum tíma.

Þær ráðagerðir sem að framan greinir komu allar til framkvæmda að því frátöldu að Tæknisetrið Arkea ehf., sem var eins og áður segir að meirihluta í eigu F, kom í stað Fleðu ehf. sem kaupandi stofnfjárbréfanna. Ástæðan mun hafa verið sú að E stjórnarformaður MP fjárfestingarbanka hf. féllst ekki á að dótturfélag bankans keypti bréfin. Fyrir dómi kvað ákærði E hafa sagt sér að hann hefði rætt við F og í framhaldinu hafi stjórnendum Byrs sparisjóðs verið tilkynnt að kominn væri nýr kaupandi að bréfunum. Ennfremur sagðist ákærði hafa óskað eftir því fyrir hönd F að sparisjóðurinn myndi „fjármagna þennan pakka“. Eins og áður er fram komið hafði MP fjárfestingarbanki hf. handveð í þeim stofnfjárbréfum sem keypt höfðu verið fyrir lán frá honum og að sögn ákærða voru eigendur þeirra bréfa ekki reiðubúnir að setja frekari tryggingar fyrir lánunum. Í samræmi við það var ákærða, X og Y öllum ljóst að þannig yrði staðið að málum eins og fram kom í framburði þess síðastnefnda fyrir dómi. Sú fyrirætlan var reyndar í ósamræmi við fyrri afstöðu bankans þegar hann sendi sem lánveitandi fyrrgreind bréf sín 2. október 2008. Sé aðeins horft til framburðar ákærða um aðkomu sína að þeim viðskiptum sem hér um ræðir hafði hann ekki ástæðu til að ætla að sparisjóðurinn myndi, þvert gegn því sem áður hafði verið gengið út frá, krefjast frekari trygginga fyrir láninu til Tæknisetursins Arkea ehf. en handveðs í þeim bréfum sem félagið festi kaup á.

Þá verður ráðið af gögnum málsins, meðal annars af tölvupóstsamskiptum MP fjárfestingarbanka hf. við F, að ákærða hafi verið kunnugt um bága eignastöðu félags í eigu F. Samkvæmt framburði F, X og Y átti sá fyrstnefndi ekki samskipti við aðra en ákærða og E um fjármögnun kaupanna. F kvað ákærða og E hafa gefið fyrirheit um að Byr sparisjóður myndi fjármagna kaupin, sem varð og raunin með því að G tilkynnti Y einhliða fyrir hönd ákærða að Tæknisetrið Arkea ehf. kæmi í stað Fleðu ehf. sem kaupandi bréfanna.

Samkvæmt framansögðu er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði tók ekki síður þátt í því en X og Y að leggja á ráðin um hvernig standa skyldi að lánveitingunni frá Byr sparisjóði til Tæknisetursins Arkea ehf. til kaupa á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum. Með þeim viðskiptum, sem voru að langstærstum hluta fjármögnuð af sparisjóðnum, var málum komið þannig fyrir að áhættu á tjóni vegna bréfanna, sem áður hafði hvílt á MP fjárfestingarbanka hf. þar sem ákærði var framkvæmdastjóri, var velt yfir á sparisjóðinn. Þannig fékk bankinn kröfur sínar á hendur eigendum stofnfjárbréfanna greiddar að fullu um leið og eigendurnir, þar á meðal X og félag sem Y átti verulegan hlut í, losnuðu undan þeim skuldbindingum. Að auki seldi bankinn sín eigin bréf á verði sem eins og áður greinir tók ekki mið af raunverulegu verðmæti þeirra á þessum tíma. Að virtri þeirri vitneskju, sem ákærði bjó yfir og áður hefur verið lýst, menntun hans og þekkingu á starfsemi banka og annarra lánastofnana verður því fallist á með ákæruvaldinu að ákærða hafi ekki getað dulist að lánveiting Byrs sparisjóðs til Tæknisetursins Arkea ehf. 13. október 2008 hafi verið ólögmæt og til þess fallin að valda sparisjóðnum verulegri fjártjónshættu, enda kom á daginn að féð sem félaginu var lánað er sjóðnum glatað. Samkvæmt því hefur ákærði með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæru gerst sekur um refsiverða hlutdeild í umboðssvikum þeirra X og Y. Vegna þess að ganga verður út frá því sem fyrr segir að ákærða hafi ekki verið kunnugt um hvernig staðið var að lánveitingunni af hálfu sparisjóðsins telst einungis sannað að huglæg afstaða hans sem hlutdeildarmanns hafi náð til háttsemi sem varðar fangelsi allt að 2 árum samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga. Það ákvæði tæmir sök gagnvart 264. gr. laganna eins og sú grein hljóðaði er ákærði framdi brot sitt.

Ákærði hefur unnið sér til refsingar. Við ákvörðun hennar verður einkum litið til þess að brot það sem hann átti hlutdeild í varðaði verulega fjárhæð. Á hinn bóginn hagnaðist ákærði ekki persónulega á brotinu og braut ekki á sama hátt og X og Y gegn trúnaðarskyldum sínum, heldur var hann að starfa, að því er hann hefur borið, í þágu fjármálafyrirtækis þess er hann veitti forstöðu. Þá hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í eitt ár.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Z, sæti fangelsi í eitt ár.

Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.909.094 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Ragnars H. Hall hæstaréttarlögmanns, samtals 1.255.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2013.

I

Málið, sem dómtekið var 14. janúar síðastliðinn, var höfðað með ákæru sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135/2008, útgefinni 25. júní 2010 á hendur X, Z og Z, kt. [...], [...], [...], „fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum:

I

Á hendur ákærðu X, þáverandi stjórnarformanni Byrs sparisjóðs, kt. [...] og Y, þáverandi sparisjóðsstjóra hjá sama sparisjóði, fyrir umboðssvik, með því að hafa í október 2008, misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í stórfellda hættu, með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga, er þeir í sameiningu veittu einkahlutafélaginu Tæknisetrinu Arkea (síðar Exeter Holdings), kt. [...], 800 milljón króna yfirdráttarlán, sem greitt var út af reikningi félagsins nr. [...], til að fjármagna að fullu kaup á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins þar sem ekki voru fyrir hendi aðrar tryggingar en veð í stofnfjárbréfunum sjálfum, sem braut í bága við starfsreglur sparisjóðsins um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga og án þess að meta á nokkurn hátt greiðslugetu og eignastöðu lánþegans í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins, en eiginfjárstaða einkahlutafélagsins var þá neikvæð. Var yfirdráttarlánið veitt vegna kaupa einkahlutafélagsins Tæknisetursins Arkea á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, sem voru meðal annars í eigu ákærða X og einkahlutafélagsins A, kt. [...], sem var að hluta í eigu ákærða Y, og stofnfjárbréfum annarra tiltekinna lykilstarfsmanna sparisjóðsins og aðilum þeim tengdum og voru þeir því vanhæfir til að taka ákvörðun um lánveitinguna.

MP Banki hf., kt.[...], sem lánað hafði ákærðu og umræddum starfsmönnum Byrs sparisjóðs vegna kaupa þeirra á bréfunum, hafði hótað að gjaldfella lánin og ganga að umræddum stofnfjárbréfum, þar sem tryggingar væru ekki nægjanlegar. Gengi á stofnfjárbréfunum sem þannig voru seld Tæknisetrinu Arkea, með umræddri fjármögnun Byrs sparisjóðs, var ákveðið með samráði ákærðu X og Y og meðákærða Z, sem þá var framkvæmdastjóri MP Banka og var nægjanlega hátt til að umrædd lán MP Banka til ákærða X og einkahlutafélagsins A, sem ákærði Y átti að hluta, yrðu greidd að fullu.

Yfirdráttarheimildin var veitt og umræddir fjármunir, sem telja verður að séu sparisjóðnum með öllu glataðir, færðir af reikningi Tæknisetursins Arkea nr. [...] á reikning MP Banka hf. nr. [...], þann 13. október 2008.

Stofnfjárbréfin sem einkahlutafélagið Tæknisetrið Arkea keypti með umræddri fjármögnun Byrs sparisjóðs voru í eigu eftirtalinna aðila:

1) A ehf., kt. [...],                  20.871.253 stofnfjárhlutir að nafnvirði.

2) X, kt. [...],  54.109.865 stofnfjárhlutir að nafnvirði.

3) B, kt. [...],  16.767.866 stofnfjárhlutir að nafnvirði.

4) C, kt. [...],    4.219.342 stofnfjárhlutir að nafnvirði.

5) D ehf., kt. [...],  27.047.068 stofnfjárhlutir að nafnvirði.

6) MP Banka hf., kt. [...],  119.244.757 stofnfjárhlutir að nafnvirði.

II

Á hendur Z, þáverandi framkvæmdastjóra MP Banka:

a)                  fyrir hlutdeild í umboðssvikum ákærðu X og Y sem lýst er í ákærulið I, með því að hafa ásamt meðákærðu lagt á ráðin um að umrætt fé yrði greitt úr sjóðum Byrs sparisjóðs til að fjármagna áðurnefnd kaup á stofnfjárbréfum ofangreindra aðila í október 2008, hafa ákveðið gengi bréfanna í þeim viðskiptum ásamt meðákærðu og hafa haft milligöngu um að einkahlutafélagið Tæknisetrið Arkea keypti stofnfjárbréfin á því verði sem hann hafði ákveðið ásamt meðákærðu, með 800 milljón króna yfirdráttarláni Byrs annars vegar og 43.916.385 króna fjármögnun MP Banka hins vegar. Þá seldi MP Banki Tæknisetrinu Arkea einnig 119.244.757 stofnfjárhluti í Byr sparisjóði í þessum viðskiptum og voru kaupin fjármögnuð á sama hátt með yfirdráttarláni Byrs sparisjóðs. Með þessu var tjónshættu MP Banka vegna lánanna komið yfir á Byr sparisjóð. Gat ákærða ekki dulist, í ljósi aðdraganda viðskiptanna og allra aðstæðna, að féð var greitt úr sjóðum Byrs sparisjóðs með ólögmætum hætti.

b)                  fyrir peningaþvætti með því að hafa í stöðu sinni sem framkvæmdastjóri MP Banka  tekið við framangreindum fjármunum sem aflað var með umboðssvikum meðákærðu, þrátt fyrir að honum hefði mátt vera ljóst, í ljósi allra aðstæðna, að lán það sem meðákærðu útveguðu frá Byr sparisjóði til viðskiptanna var veitt með ólögmætum hætti.

III

----------------------------

IV

Brot ákærðu X og Y samkvæmt I. og III. kafla ákæru varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot ákærða Z samkvæmt II. kafla a) varðar við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga en brot samkvæmt II. kafla b) varðar við 1. mgr. 264. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

V

Af hálfu Byrs hf., kt. [...],  er gerð sú krafa að X og Y verði dæmdir til að greiða Byr hf. óskipt kr. kr. 1.004.452.265,-  með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 800.000.000,- frá 13. október 2008 til 29. desember 2008 en af kr. 1.004.452.265,-  frá þeim degi til þingfestingardags sakar gegn þeim, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi  til greiðsludags. Þess er krafist að Z verði dæmdur til að greiða kr. 800.000.000,- með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. október 2008 til þingfestingardags sakar en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks er þess krafist að öllum þremur verði með dómi gert að greiða Byr hf.  málskostnað að skaðlausu.“

Málið var upphaflega dæmt í héraði 29. júní 2011 og voru allir ákærðu sýknaðir og bótakröfunni vísað frá dómi. Með dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 voru þeir X og Y sakfelldir samkvæmt ákærunni og dæmdir til fangelsisrefsingar en dómur héraðsdóms ómerktur hvað varðaði ákærða Z og málinu vísað aftur heim í hérað.

Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi. 

II

Upphaf málsins var að Fjármálaeftirlitið ákvað 22. apríl 2010 að taka yfir vald stofnfjáreigenda Byrs sparisjóðs og víkja stjórn sjóðsins frá. Skipuð var bráðabirgðastjórn auk þess sem Fjármálaeftirlitið tók ýmsar ákvarðanir sem það taldi nauðsynlegar, þar á meðal að ráðstafa öllum eignum sparisjóðsins til Byrs hf. Þessi ákvörðun var byggð á VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009.

Með bréfi 7. september 2009 vísaði Fjármálaeftirlitið til sérstaks saksóknara rannsókn sem það hafði hafið á kaupum Exeter Holdings ehf. á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði „vegna gruns um refsiverða háttsemi stjórnenda Byrs og MP banka hf. í tengslum við það ástand sem skapaðist á fjármálamarkaði við setningu laga nr. 125/2008“ eins og segir í bréfinu. Þar segir og að viðskiptin hafi átt sér stað í byrjun október 2008 og í desember sama ár. „Þau vekja grunsemdir þar sem Exeter fékk yfirdráttarlán frá Byr að fjárhæð rúmlega einum milljarði króna til að kaupa stofnfjárbréf í Byr af MP banka, á sama tíma og stærstu viðskiptabankar landsins eru að falla. Engar tryggingar voru lagðar fram fyrir láninu, umfram stofnfjárbréfin sjálf og Exeter virðist hafa verið með neikvæða eiginfjárstöðu þegar lánið var veitt. MP banki hafði eignast stóran hluta þessara bréf vegna veðkalla hjá tilteknum stjórnendum Byrs og tengdum aðilum.“ Í bréfinu segir enn fremur „að svokölluðum „stofnfjármarkaði“ með stofnfjárbréf Byrs, sem MP banki hafði umsjón með, hafði verið lokað í ágúst vegna fyrirhugaðrar hlutafjárvæðingar sparisjóðsins. Viðskiptin eiga sér því stað „yfir borðið“, þ.e.a.s. Exeter mátti vita hver mótaðili sinn var í viðskiptunum. Þá vekur athygli að kaupverð í fyrri viðskiptunum var kr. 1,585 per hlut, en síðasta viðskiptaverð á stofnafjármarkaðnum var kr. 1,6.“ 

Í ákærunni er gerð grein fyrir þeim sem seldu bréfin í þessum viðskiptum og hversu mikill hlutur hvers og eins var. Þá segir enn fremur í bréfinu að hugsanlegt sé að MP banki hafi samþykkt að taka stofnfjárbréfin „upp í skuldir viðkomandi aðila á svo háu gengi, gegn því skilyrði að Byr myndi fjármagna þann aðila sem myndi kaupa bréfin af MP banka á sama gengi. Með þessu móti komust viðkomandi skuldarar MP banka hjá því að tapa meiru en stofnfjárbréfum sínum, en sumir báru persónulega ábyrgð á skuldum sínum, án þess þó að MP banki yrði fyrir tjóni.“ 

Sérstakur saksóknari rannsakaði málið með yfirheyrslum og öflun annarra gagna og er ákæran byggð á þeirri rannsókn. 

Á þessum tíma var ákærði framkvæmdastjóri MP banka og kom sem slíkur að framangreindum viðskiptum, en nánari grein verður gerð fyrir hlutverki hans í næsta kafla þar sem framburður hans fyrir dómi verður rakinn.

III

Við aðalmeðferð bar ákærði, sem á þessum tíma var framkvæmdastjóri MP banka, að haustið 2008 hefði íslenska krónan lækkað mjög mikið og því hafi verið nauðsynlegt að kalla eftir frekari veðum, meðal annars til tryggingar lánum sem bankinn hafði veitt til að kaupa stofnfjárbréf í Byr sparisjóði. Eftir að MP banki hafði kallað eftir frekari veðum hefðu viðkomandi lántakendur óskað eftir að hitta ákærða til að reyna að leysa málin.  Um hafi verið að ræða þá X og Y, forsvarsmann A ehf. Fundur hafi svo verið haldinn í bankanum og kvaðst hann hafa lagt til að Fleða ehf., sem var í eigu bankans, myndi kaupa bréfin eftir að í ljós kom að frekari tryggingar yrðu ekki lagðar fram. Ákærði kvaðst á þessum tíma hafa metið stöðu Byrs allt aðra en stóru bankanna sem voru að hrynja um þessar mundir. Rakti ákærði hvernig staða sparisjóðsins hefði batnað á árinu og eins hefði starfsemi hans verið með þeim hætti að þess var að vænta að örlög hans yrðu önnur en bankanna. Tillaga ákærða var að Fleða myndi leggja fram eigið fé sitt, sem hafði verið um 200 milljónir um áramótin, en til viðbótar kvaðst hann hafa hreyft þeirri hugmynd að Byr myndi lána félaginu það sem á vantaði. Þá hafi það og verið hugmynd hans að félagið myndi kaupa stofnfjárbréf í eigu bankans. Á þessum tíma hafi verið mikill lausfjárskortur og kvaðst ákærði hafa borið hagsmuni fyrirtækis síns fyrir brjósti í þessum viðskiptum. Hjá Byr hefði hins vegar ekki verið lausafjárskortur, enda hefðu innlán hans aukist mikið á árinu. MP banki hafi hins vegar verið fjárfestingabanki sem ekki hefði tekið við innlánum, heldur fjármagnað sig með allt öðrum hætti. Þessi tillaga hafi þó verið með þeim fyrirvara að stjórnarformaður bankans, E, myndi samþykkja þetta. Hann hafi hins vegar ekki fallist á þetta þar eð bréf, sem bankar eiga í fjármálafyrirtækjum, dragast frá eigin fé þeirra og hefði því mat á eigin fé MP banka lækkað sem numið hefði eign Fleðu í Byr. Daginn eftir hefði stjórnarformaðurinn tjáð sér að hann hefði rætt við F og komið hefði í ljós að hann vildi kaupa bréfin og hefði stjórnendum Byrs verið tjáð að kominn væri nýr kaupandi að bréfunum. Jafnframt var kannað hvort þeir vildu fjármagna kaup hans. Kvaðst ákærði hafa spurst fyrir um það hjá forsvarsmönnum Byrs, fyrir hönd F, hvort þeir vildu fjármagna kaup hans ef hann gengi inn í kaup Fleðu. Ákærði kvaðst þó ekki hafa rætt við F heldur hefði stjórnarformaðurinn gert það. Þá ítrekaði hann að hann hefði ekkert haft með það að gera hvort Byr lánaði til kaupanna eða ekki, enda hefði hann ekki stjórnað sparisjóðnum. Stjórnendur hans hafi og sagt að þeir yrðu að fara með málið fyrir stjórnina, þannig hefði málið verið kynnt fyrir sér.

Ákærði kvaðst hafa lagt til sölugengið á bréfunum eftir að hafa fengið það útreiknað hjá lánasviði MP banka. Spurður um hvort gengið hafi miðast við að bankinn fengi lán sín að fullu greidd, svaraði ákærði að hann hefði verið að gæta hagsmuna bankans í þessu máli og hefði gengið miðast við það. Ákærði neitaði algerlega að hann hefði haft hönd í bagga þegar síðasta sala á stofnfjárbréfum fór fram í ágúst 2008 en þá var gengi bréfanna 1,6 í litlum viðskiptum og kaupandi þeirra var bankinn.

Framangreindur X, stjórnarformaður Byrs á þessum tíma, bar að hafa átt þátt í því að taka stærri ákvarðanir, bæði á stjórnarfundum og eins hefðu hann og sparisjóðsstjórinn ræðst mikið við. Varðandi þetta mál kvað hann þá þrjá, sem ákærðir voru í málinu, hafa hist á fundi í MP banka og þá hafi verið ákveðið að setja bréf þau, sem í I. kafla ákæru greinir, saman í pakka og hefði verið ákveðið að Byr myndi lána Fleðu, sem hafi átt 200 milljónir í eigin fé, fyrir bréfunum. Síðar hafi stjórnarformaður MP banka og ákærði fundið annan fjárfesti sem hafi keypt bréfin, en hann kvaðst ekki hafa verið viðriðinn það ferli. X bar að á þessum tíma hafi Byr staðið mjög vel og þessi fjárfesting í stofnfjárbréfum hans hafi átt að vera trygg. Hann kvað sig minna að ákærði hefði lagt til gengi bréfanna og miðað þá við síðasta sölugengi. X kvað ákærða hafa áður verið í stjórn Byrs og hefði hann kynnst honum þá, en ákærði hefði ekki verið í stjórn á þessum tíma.

Y, sem var sparisjóðsstjóri Byrs, bar að MP banki hefði kallað eftir frekari veðum vegna lána, eins og rakið er í ákæru, og í framhaldinu kvaðst hann hafa haft samband við ákærða til að ræða lausnir á málinu. Síðar kvað hann þá þrjá, sem ákærðir voru í málinu, hafa hist á fundi í MP banka og þar hafi komið fram að bankinn hefði áhuga á að taka bréf sín í Byr, auk bréfa þeirra sem í ákæru greinir, og setja þau inn í dótturfélag bankans. Kvaðst Y hafa skilið þetta svo að verið væri að taka bréfin þar eð ekki hefðu verið sett nægjanleg veð. Hann kvað Byr hafa verið í miklu samstarfi við MP banka og kvaðst hann hafa skilið það svo að bankinn væri í lausafjárvandræðum. Á þessum tíma hefði ekki verið tiltökumál fyrir sparisjóðinn að lána bankanum og taka veð í eigin bréfum, enda hefði lausafjárstaða sparisjóðsins verið mjög góð. Ákærði hafi komið með tillögu um gengi bréfanna og taldi Y að það hafi miðast við lokagengi á hinum óformlega stofnfjármarkaði. Hann kannaðist ekki við að gengið hefði miðast við að bankinn fengi sín lán greidd. Upphaflega hefði Fleða átt að kaupa bréfin, en X hefði hringt í sig og sagt að bankinn vildi ekki nota það félag heldur annað félag og þá hefði Tæknisetrið Arkea komið í staðinn. Y kvaðst ekkert hafa rætt við ákærða um þessi mál heldur hefði hann rætt þau við X. Fjármögnunin átti að vera sú sama nema Tæknisetrið Arkea ætlaði að fjármagna 10% kaupanna með eigin fé, sem bankinn ætlaði að lána því, en 90% ætlaði Byr að lána. Þá kvaðst hann ekki hafa rætt við F um þessi mál og ekkert vita um aðkomu hans að málinu.

E, sem var stjórnarformaður MP banka á þessum tíma, kvað ákærða og X hafa haft samband við sig og lýst því þannig að Byr vildi yfirtaka fjármögnun framangreindra stofnfjárbréfa og spurt sig hvort hann vissi um einhvern sem vildi kaupa bréfin. E kvaðst hafa haft samband við F sem hafði áhuga á kaupunum, en alltaf hafi legið fyrir hjá sér að Byr myndi fjármagna kaupin. Upphaflega hafi staðið til að Fleða, dótturfélag bankans á þessum tíma, myndi kaupa bréfin en eignarhlutar í fjármálafyrirtækjum dragast frá eigin fé fjármálafyrirtækja sem eiga þau að hluta eða öllu leyti. Ef Fleða hefði keypt bréfin hefðu þau dregist frá eigin fé bankans eins og það er reiknað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

G starfaði á þessum tíma sem verðbréfamiðlari hjá MP banka. Hann kvaðst hafa annast svonefndan stofnfjárbréfamarkað Byrs en í því hafi falist að skrá sölu- og kauptilboð og láta vita ef viðskipti yrðu með bréfin. G kvaðst ekkert hafa komið að þeim viðskiptum, sem hér eru til umfjöllunar, en fengið tölvupóst um þau þegar búið var að ákveða þau. Hann taldi sig muna að ákærði hefði sent sér tölvupóst um að í stað Fleðu kæmi Tæknisetrið Arkea og hefði hann líklega tilkynnt það til Y sparisjóðsstjóra. G kvað ákærða hafa komið að þessum viðskiptum og hafi það ekki verið óvanalegt með stór viðskipti, það hefði gerst tvisvar eða þrisvar áður. Síðustu viðskipti með stofnfjárbréf í Byr voru 22. ágúst 2008 og þá var gengið 1,6 en hafði verið lægra í viðskiptum fyrr þann dag. G kvaðst þá hafa fengið fyrirmæli frá ákærða um að kaupa á þessu gengi.

H var forstöðumaður áhættustýringar MP banka á þessum tíma. Ákærði var yfirmaður hans. Hann kvaðst hafa sent ýmsum aðilum tilkynningar 2. október 2008 um að bankinn sæi sig knúinn til að gjaldfella lánasamninga vegna markaðsaðstæðna. Svörin voru þau að óskað væri eftir fundi með ákærða en ekki vissi hann nánar um þann fund á þeim tíma. Málin hefðu hins vegar verið leyst með þeim hætti að Fleða myndi kaupa bréfin og andvirði þeirra gengi til að greiða lánin. Hann kvaðst ekki muna hvenær hann frétti af því hvernig átti að fjármagna kaupin. Þá kvaðst hann ekki vita hvernig gengi bréfanna var fundið út, en taldi að miðað hefði verið við síðasta sölugengi.

F bar að hafa verið í sambandi við E sem hafi skýrt honum frá að í boði væri að kaup stofnfjárbréf í Byr. F kvaðst hafa rætt við ákærða og, eftir umhugsunarfrest, metið það svo að um væri að ræða áhugaverðan fjárfestingarkost. Hann kvaðst aðeins hafa rætt við ákærða um þessi mál og þar með fjármögnunina, en málið hefði verið kynnt fyrir sér á þann hátt að hún væri „innifalin.“ F kvaðst ekki hafa verið í sambandi við Byr nema hvað hann hafi farið þangað til að undirrita skjöl um lántökuna. Hann kvaðst ekki hafa rætt um verðið á bréfunum enda væri það ekki venjan þegar um hlutabréf væri að ræða, annaðhvort keyptu menn á uppsettu verði eða ekki. F kvaðst hafa litið svo á að á þessum tíma hafi verið mörg tækifæri í Byr, enda hafi hann verið með mikið eigið fé og nýbúið að auka hlutaféð. Hann kvaðst því ekki geta áttað sig á hvar menn hefðu átt að sjá á þessum tíma að fjárfesting í stofnfjárbréfum í honum væri ekki góður kostur.

IV

Ákærða og vitnum ber saman um að upphaf málsins hafi verið að MP banki kallaði eftir auknum veðum 2. október 2008 til tryggingar lánum sem veitt höfðu verið til að kaupa stofnfjárbréf í BYR sparisjóði, meðal annars þeim bréfum sem um getur í I. kafla ákæru. Samkvæmt því sem fram kom við aðalmeðferð er ljóst að lántakendur þeir, sem í ákæru greinir, ætluðu sér ekki að setja frekari tryggingar. Ákærði sem framkvæmdastjóri MP banka hefur borið að hann hafi verið að gæta hagsmuna bankans í þessum viðskiptum sem öðrum. Hér að framan var gerð grein fyrir þeirri hugmynd hans að einkahlutafélag í eigu bankans myndi kaupa bréfin og sparisjóðurinn fjármagna þau kaup. Þá var og gerð grein fyrir því að stjórnarformaður bankans hefði lagst gegn því og hver rök hans hefðu verið. Í framhaldinu varð það úr að Tæknisetrið Arkea, sem var í eigu F, keypti stofnfjárbréfin og fékk til þess lán hjá Byr. X og Y voru með dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 sakfelldir fyrir umboðssvik vegna þessarar lánveitingar. Í þessum þætti málsins er fyrst til úrlausnar hvort ákærði hafi átt refsiverða hlutdeild í umboðssvikunum eins og honum er gefið að sök í a-lið II. kafla ákærunnar.

Í ákærunni er því haldið fram að með framangreindum viðskiptum hafi tjónsáhættu MP banka vegna lánanna verið komið yfir á Byr. Enn fremur að ákærða hafi ekki getað dulist, í ljósi aðdraganda viðskiptanna og allra aðstæðna, að féð hafi verið greitt úr sjóðum Byrs með ólögmætum hætti. Það er alkunna að haustið 2008 var mikill lausafjárskortur hjá stóru íslensku bönkunum og varð það meðal annars til þess að þeir féllu. Ákærða og vitnum ber hins vegar saman um að á sama tíma hafi lausafjárstaða Byrs verið góð og fær það stuðning í öðrum gögnum málsins. Óhjákvæmilegt er að hafa þetta í huga þegar metin er sú ákvörðun ákærða að leita eftir því við forsvarsmenn Byrs að sparisjóðurinn lánaði til kaupa á stofnafjárbréfunum. Það er hins vegar augljóst mál að lánveitandi ber ákveðna áhættu af því að lána fé og með því að sparisjóðurinn lánaði í stað bankans færðist sú áhætta til sparisjóðsins. Með framangreindum dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að lánveitingin, sem um getur í I. kafla ákæru, hafi verið ólögmæt. Ákærði hefur hins vegar staðfastlega neitað því að honum hafi verið kunnugt um það hvernig staðið var að málum hjá Byr varðandi lánveitinguna. Það er mat dómsins að framburður ákærða um þetta við aðalmeðferð málsins hafi verið trúverðugur en hann styðst auk þess við framburð vitna sem rakinn var. Ákærði hefur kannast við að hafa lagt til sölugengi bréfanna og hefði það miðast við að bankinn fengi lán sín greidd. Í ljósi stöðu ákærða sem framkvæmdastjóra bankans er sú afstaða ekki óeðlileg að gæta hagsmuna hans við þá samningsgerð sem um ræðir. Hann var hins vegar ekki í stöðu til að ákveða hvernig staðið yrði að lánveitingunni af hálfu Byrs sparisjóðs og átti engan þátt í afgreiðslu málsins þar. Hefur ekki verið sýnt fram á að ákærða hafi ekki getað dulist að meðákærðu stóðu með ólögmætum hætti að lánveitingunni. Með vísun til 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 telst því ósannað að ákærði hafi gerst sekur um hlutdeild í umboðssvikum þeim sem greinir í I. kafla ákæru.

Í b-lið II. kafla ákærunnar er ákærða gefið að sök peningaþvætti eins og þar er rakið. Með vísun til þess, sem að framan var rakið í umfjöllun um a-lið II. kafla ákærunnar, telst jafnframt ósannað að ákærða hafi mátt vera ljóst að fjármuna þeirra sem hann tók við fyrir hönd MP banka hefði verið aflað með umboðssvikum, svo að hann teljist hafa gerst sekur um peningaþvætti af ásetningi eða gáleysi.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður ákærði sýknaður af ákærunni. Með vísun til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 er bótakröfunni vísað frá dómi.

Málsvarnarlaun verjanda ákærða að meðtöldum virðisaukaskatti skulu greidd úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði, sbr. 2. mgr. 218. gr. nefndra laga, en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.

Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Guðjón St. Marteinsson og Ragnheiður Harðardóttir.

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Z, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Skaðabótakröfu Íslandsbanka hf. er vísað frá dómi.

Málsvarnarlaun verjanda ákærða, Ragnars H. Hall hrl., 551.250 krónur, skulu greidd úr ríkissjóði.