Hæstiréttur íslands
Mál nr. 159/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
Föstudaginn 7. mars 2014. |
|
|
Nr. 159/2014. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Guðmundur Jónsson hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta nálgunarbanni var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta nálgunarbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Guðmundar Jónssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun ríkissaksóknara frá 11. febrúar þess efnis að X skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði gagnvart A og sé honum bannað á því tímabili að veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni eða að setja sig í samband við hana með öðru móti.
Með framangreindri ákvörðun ríkissaksóknara var felld úr gildi ákvörðun lögreglustjórans frá 29. janúar sl., um synjun á beiðni brotaþola um nálgunarbann vegna meintra brota sakbornings gagnvart henni. Var jafnframt lagt fyrir lögreglustjóra að leggja málið fyrir dómstóla, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2011 og birta ákvörðun um nálgunarbann, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. Hinn 19. febrúar sl. var sakborningi birt ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann, dagsett 14. febrúar sl.
Í gögnum málsins kemur fram að brotaþoli sé [...] ríkisborgari sem hafi flust til Íslands árið [...]. Hún hafi kynnst sakborningi á árinu 2009. Þau hafi búið saman í óskráðri sambúð á árunum 2010 til ágúst 2012 og eigi saman son, sem fæddur sé í [...]. Í röksemdum með ákvörðun ríkissaksóknara er vitnað til fyrirliggjandi gagna í málinu, en af þeim verði ráðið að brotaþoli hafi á tímabilinu 25. nóvember sl. til 16. janúar sl. ítrekað þurft að leita aðstoðar lögreglu vegna sakbornings. Hafi lögreglu borist kæra brotaþola vegna meintra líkamsárása og heimilisofbeldis, tilkynning um líflátshótun sakbornings í hennar garð á lögmannsstofu 2. desember sl., tilkynning vegna meintra eignaspjalla á bifreið sem brotaþoli hafði til umráða, kæra á hendur sakborningi fyrir meint húsbrot, eignaspjöll og þjófnað, tilkynning um meinta eftirför sakbornings 14. janúar sl. sem og hótanir og ofsóknir. Í samantekt úr skýrslu af brotaþola 23. janúar sl. vegna kröfu um nálgunarbann geti brotaþoli þess að sakborningur hafi fylgst stöðugt með henni og hafi hann m.a. ekið framhjá henni 22. janúar sl. Þá hafi hann einnig elt hana samfleytt í tvær klukkustundir í miðbæ Reykjavíkur í desembermánuði sl. Loks hafi brotaþoli fullyrt að sakborningur hafi útbúið skjöl þar sem hann hafi falsað undirskrift hennar á umboð til að selja eigur hennar. Ríkissaksóknari telji að vegna fjölda atvika sem brotaþoli hafi borið um, þar sem þau hafi átt sér stað á stuttu tímabili og beinist öll að henni, liggi fyrir rökstuddur grunur um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Hafi ríkissaksóknari af þeim ástæðum ekki fallist á mat lögreglustjóra um að skilyrði nálgunarbanns væru ekki uppfyllt. Jafnframt er vísað til þess að með dómi Hæstaréttar Íslands frá [...] í málinu nr. [...] hafi sakborningur verið dæmdur til þriggja mánaða fangelsisrefsingar fyrir líkamsárásir gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni árið 2010. Verði af því ráðið að sakborningur kunni að vera brotaþola hættulegur. Að mati ríkissaksóknara sé rökstudd ástæða til að ætla að sakborningur muni halda áfram að brjóta gegn brotaþola eða raska friði hennar að öðru leyti. Er í því sambandi jafnframt vísað til þess sem fram kemur í gögnum málsins að brotaþoli hafi þurft að dvelja hjá vinkonu sinni og nokkrum sinnum í Kvennaathvarfinu frá árinu 2010, síðast 25. janúar sl., vegna háttsemi sakbornings. Séu skilyrði laga nr. 85/2011 um nálgunarbann því uppfyllt að mati ríkissaksóknara og talið að verndarhagsmunir standi til þess að tryggja brotaþola þann rétt að geta verið óhult gagnvart yfirvofandi ofbeldi og ófriði af hálfu sakbornings.
Niðurstaða
Fallist er á það með ríkissaksóknara að rannsóknargögn málsins sýni að sakborningur sé undir rökstuddum grun um að hafa framið refsivert brot og raskað friði brotaþola á þann hátt að heimilt sé, til að vernda friðhelgi hennar, að banna honum að nálgast hana. Jafnframt er það niðurstaða dómsins að ekki sé sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð á annan hátt en þann að setja sakborningi nálgunarbann. Þykja því uppfyllt skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 til þess að staðfesta ákvörðun ríkissaksóknara frá 11. febrúar sl. um að sakborningur skuli sæta nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykja efni til að marka nálgunarbanni skemmri tíma en þar er ákveðið.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Guðmundar Jónssonar hdl., sem ákveðst 75.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Staðfest er ákvörðun ríkissaksóknara frá 11. febrúar 2014 um að X skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði gagnvart A, þannig að lagt sé bann við því að hann veiti henni eftirför og nálgist hana á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni. Jafnframt er staðfest að lagt sé bann við því að X setji sig í samband við A með öðru móti.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Guðmundar Jónssonar hdl., 75.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði.