Hæstiréttur íslands

Mál nr. 712/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


                                     

Miðvikudaginn 12. nóvember 2014.

Nr. 712/2014.

A

(Guðmundína Ragnarsdóttir hdl.)

gegn

B

(enginn)

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2014 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 26. október sama ár um að sóknaraðili skyldi vistast á sjúkrahúsi í allt að 21 dag. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Guðmundínu Ragnarsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2014.

                Með kröfu, dagsettri 27. þ.m. hefur A, kt. [...], til heimilis í [...], farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins, 26. þ. m., um það að hún skuli vistast á sjúkrahúsi vegna geðveiki, sbr. 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.  Kröfunni er mótmælt.

Sóknaraðili var færð á sjúkrahús hinn 8. þ. m.  Meðal gagna málsins er staðfest vottorð C geðlæknis, 26. þ.m., þar sem fram kemur að sóknaraðili hafi verið í geðrofsástandi í nokkrar vikur.  Hún sé fíkniefnaneytandi en grunur sé um undirliggjandi geðrofssjúkdóm hjá henni.  Sé hún ófær um að sjá um sig sjálf í þessu ástandi, ráði ekki við samskipti við annað fólk og sé óútreiknanleg.  Megi jafna ástandi hennar til alvarlegs geðsjúkdóms og fái hún ekki læknismeðferð sé heilsu hennar stefnt í voða og spillt fyrir bata af sjúkdóminum.  Sé nauðungarvistun því nauðsynleg. Læknirinn hefur komið fyrir dóm og segir hún sóknaraðila munu með tímanum verða færa um að ráða högum sínum en hún sé ófær um það nú.  Henni hafi batnað örlítið frá því að hún kom á spítalann en hún þurfi að dveljast þar lengur.  Sé því þörf á því að vista hana nauðuga.

Sóknaraðili hefur komið fyrir dóm og talað máli sínu.  Kveðst hún ekki vera haldin geðsjúkdómi heldur áfallastreituröskun.  Þá hafi hún ekki þjáðst af vímufíkn.

Dómarinn telur ljóst af því sem rakið hefur verið að verulegar líkur séu á því að sóknaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi.  Læknir metur ástand hennar þannig að nauðsyn sé til þess að vista hana á sjúkrahúsi.  Ber því að ákveða að fyrrgreind ákvörðun ráðuneytisins skuli haldast. 

Þóknun talsmanna aðilanna, Guðmundínu Ragnarsdóttur hdl. og Huldu Guðnýjar Kjartansdóttur hdl. 75.000 krónur til hvors þeirra um sig, ber að greiða úr ríkissjóði.  Þóknunin er ákveðin með virðisaukaskatti.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins 26. október sl., um það að sóknaraðili, A, kt. [...], skuli vistast á sjúkrahúsi.

Þóknun talsmanna aðilanna, Guðmundínu Ragnarsdóttur hdl. og Huldu Guðnýjar Kjartansdóttur hdl., 75.000 krónur til hvors þeirra um sig, greiðist úr ríkissjóði.