Hæstiréttur íslands

Mál nr. 398/2000


Lykilorð

  • Lögbann
  • Aðild


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. mars 2001.

Nr. 398/2000.

Reederei „Nord” Klaus E. Oldendorff Ltd.

(Pétur Guðmundarson hrl.)

gegn

Sjómannafélagi Reykjavíkur

(Jóhann Halldórsson hrl.)

 

Lögbann. Aðild.

R krafðist þess að staðfest yrði lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík hafði lagt við því að félagsmenn í S hindruðu lestun og losun skipsins N í Sundahöfn í Reykjavík. S bar því við að það hefði alls ekki staðið fyrir aðgerðunum heldur alþjóðasambandið A. R benti hins vegar á að einn þeirra einstaklinga sem tóku þátt í aðgerðunum hefði á vettvangi sagt aðgerðirnar á vegum S. Ekki var talið að sá einstaklingur hefði haft stöðu hjá S til að gefa skuldbindandi yfirlýsingu fyrir félagið. R þótti að öðru leyti ekki hafa sýnt fram á að S hefði staðið fyrir aðgerðunum. Var S því sýknað vegna aðildarskorts.

                                                        

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. október 2000. Endanleg krafa hans er sú að staðfest verði lögbann, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði við því 24. nóvember 1999 að félagsmenn í stefnda hindruðu lestun og losun skipsins MV Nordheim í Sundahöfn í Reykjavík. Hann krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla fyrir báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Meðal málsástæðna stefnda fyrir kröfu um sýknu er að lögbanni hafi ranglega verið beint að honum, enda hafi Alþjóðasamband flutningaverkamanna en ekki stefndi staðið fyrir aðgerðum til að hindra losun kornfarms úr skipi áfrýjanda í Sundahöfn í nóvember 1999. Er rakið í héraðsdómi hvað fram er komið í lögregluskýrslu, sem tekin var á vettvangi, svo og í skýrslum fyrir dómi varðandi það, hver staðið hafi fyrir aðgerðunum. Er í lögregluskýrslu haft eftir Jónasi Garðarssyni formanni stefnda, að nefnt alþjóðasamband hafi óskað eftir því að vinna við skipið yrði stöðvuð og fyrir dómi staðfesti hann að þessi samtök hefðu tekið ákvörðun um aðgerðirnar en ekki stefndi. Borgþór Kjærnested, starfsmaður samtakanna hér á landi, bar á sama veg um þetta og Jónas, en í lögregluskýrslu er hins vegar skráð að hann hafi sagt „þá félaga vera í nafni Sjómannafélags Reykjavíkur að stöðva uppskipun úr skipi þessu“.

Fram er komið að Borgþór Kjærnested er hvorki félagsmaður í stefnda né starfsmaður hans og hafði ekki stöðu til að gefa skuldbindandi yfirlýsingu fyrir félagið. Þeirri varnarástæðu stefnda að lögbannskröfunni væri beint að röngum aðila var teflt fram þegar við fyrirtöku hennar hjá sýslumanninum í Reykjavík 24. nóvember 1999, án þess að tekin væri þar nein afstaða til hennar. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að sýkna stefnda vegna aðildarskorts.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Reederei „Nord” Klaus E. Oldendorff Ltd., greiði stefnda, Sjómannafélagi Reykjavíkur, 125.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

                                                                          

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2000.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 3. október sl., er höfðað með réttarstefnu, útgefinni 29. nóvember 1999.

Stefnandi er Reederei „Nord” Klaus E. Oldendorf Ltd., Libra Tower 23, Olympion Street, Limasol, Kýpur. 

Stefndi er Sjómannafélag Reykjavíkur, kt. 570269-1359, Skipholti 50d, Reykjavík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að lögbann það, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði við því, 24. nóvember 1999, að félagsmenn í stefnda hindruðu losun og lestun skips­ins MV Nordheim í Sundahöfn í Reykjavík, verði staðfest.  Þá er þess krafist að við­­ur­kennt verði með dómi að þær aðgerðir stefnda að hindra losun og lestun skipsins dag­­ana 19. – 24. nóvember 1999 séu ólögmætar.  Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

II

Málavextir eru þeir að 17. nóvember 1999 kom framangreint skip stefnanda til hafnar í Sundahöfn í Reykjavík.  Það var með kornfarm og var þegar hafist handa við að losa skipið.  Stefnandi heldur því fram að 19. nóvember hafi félagsmenn stefnda, undir stjórn þeirra Jónasar Garðarssonar og Borgþórs S. Kjærnested, komið á vettvang og stöðvað losun skipsins.  Daginn eftir hafi verið reynt að vinna við losunina og hafi hún hafist um hádegisbil en áðurgreindir menn þá komið á staðinn og stöðvað los­un­ar­bún­aðinn og þar með frekari uppskipun úr skipinu. 

23. nóvember fór stefnandi fram á það við sýslumanninn í Reykjavík að lagt yrði lög­bann við ólögmætri hindrun á losun og lestun skipsins og féllst sýslu­maður á þessa beiðni 24. sama mánaðar.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að hann hafi átt nokkra aðild að þeim aðgerðum sem fram fóru í Sundahöfn í nóvember 1999 og beindust gegn flutningaskipi stefn­anda.  Bendir stefndi á, eins og fram komi í lögregluskýrslu frá þessum tíma, að Al­þjóða­­samband flutningaverkamanna hafi staðið fyrir þessum aðgerðum.  Það eina sem liggi fyrir í málinu um ætlaða aðild stefnda að þessum aðgerðum séu fullyrðing, sem fram komi í lögregluskýrslu þar sem haft er eftir framangreindum Borgþóri Kjærnested að hann hafi reynt að stöðva uppskipun úr skipi stefnanda í nafni stefnda. Þessi fullyrðing sé röng og vill stefndi vekja sérstaka athygli á því að þessi maður sé ekki starfsmaður sinn.

Mál þetta höfðaði stefnandi til staðfestingar lögbannsgerðinni með fram­an­greindri réttarstefnu.

III

Stefnandi byggir kröfu sína um staðfestingu lögbannsins á því, að öll skilyrði til að það næði fram að ganga hafi verið til staðar.  Stefndi hafi truflað lögmæta starfsemi stefn­­anda með ólögmætum aðgerðum og engan veginn sé hægt að leggja fjár­hags­legan mælikvarða á það tjón, sem leitt hefði getað af ólögmætum aðgerðum stefnda hefði lögbann ekki náð fram að ganga.  Réttarreglur um skaðabætur og refsingu hefðu því ekki tryggt hagsmuni stefnanda nægilega.

Þá byggir stefnandi á því að hann eigi lögvarinn rétt til að stunda starfsemi sína ótrufl­­aður.  Aðgerðir stefnda hafi verið ólögmætar og eigi sér ekki stoð í neinum rétt­ar­­­heimildum.  Ekki liggi fyrir í málinu að stefndi hafi haft nokkurt umboð frá sjó­mönn­um um borð í skipi stefnanda til að semja um kjör þeirra eða að samningar þeirra séu yfirleitt lausir. 

Stefnandi kveðst ekki eiga í neins konar kjaradeilu við íslensk verkalýðsfélög, hvorki stefnda né önnur, innlend eða erlend, eða aðra sem gæta hagsmuna áhafnar skips­­ins.  Íslensk lög taki ekki til skipsins eða réttarsambands áhafnar þess og út­gerð­ar­innar, þar sem það sigli undir erlendum þjóðfána, ekki hentifána.  Lög um stétt­ar­félög og vinnudeilur, nr. 80/1938 eigi því ekki við í máli þessu.

IV

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því, að hafna hafi átt lögbannsbeiðni stefnanda þar eð hún hafi ekki fullnægt þeim skilyrðum sem fram komi í lögum nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann og fleira.  Engin gögn hafi fylgt lögbannsbeiðninni, ef frá sé talin lögregluskýrsla, sem einnig hafi verið lögð fram í þessu máli.  Stefnandi hafi þannig engin gögn lagt fram varðandi skipið og liggi því ekkert fyrir um eign­ar­hald eða útgerð þess.  Það sé því algjörlega ósannað að stefnandi eigi þá hagsmuni sem hann taldi sig vera að tryggja með lögbanninu.  Stefndi telur því ljóst að beiðni stefn­­anda og fylgigögn, sem lögð hafi verið fyrir sýslumann, hafi ekki fullnægt þeim kröf­um sem gerðar séu í IV. kafla áðurgreindra laga.  Af þeirri ástæðu hafi borið að hafna lögbannsbeiðninni og beri þess vegna að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um stað­­festingu lögbannsins.

Í öðru lagi er sýknukrafa stefnda byggð á aðildarskorti, bæði sóknar- og varn­ar­megin í málinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Varðandi að­­ildarskort stefnanda vísar stefndi til framangreinds og bendir á að stefnandi hafi á engan hátt sannað að hann eigi nokkur þau réttindi, sem hann hyggist sækja í máli þessu. 

Varðandi aðildarskort varnarmegin þá kveður stefndi umræddu lögbanni hafa rang­­lega verið beint að sér.   Eins og fram hafi komið á vettvangi aðgerða hafi það verið Alþjóðasamband flutningaverkamanna sem hafi staðið fyrir aðgerðunum.  Hér á landi eigi Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Vél­­stjórafélag Íslands aðild að þessu alþjóðasambandi.  Stefndi eigi hins vegar enga beina aðild að því.  Aðgerðirnar í Sundahöfn hafi þannig farið fram að boði og á ábyrgð Alþjóðasambands flutningaverkamanna. Varðandi þá einstaklinga sem að­stoð­uðu við aðgerðirnar, þá sé ljóst að þeir hafi verið eða séu félagsmenn í hinum ýmsu stétt­­arfélögum sem alþjóðasambandið hafi óskað eftir aðstoð hjá.  Þannig hafi það ósk­að eftir því að allir félagsmenn í aðildarfélögum sambandsins aðstoðuðu það við fram­­kvæmd umræddra aðgerða.  Að mati stefnda hafi því átt að beina lög­banns­beiðn­inni að Alþjóðasambandi flutningaverkamanna, og eftir atvikum aðildarsamböndum þess hér á landi en sambandið hafi opna skrifstofu hér.  Þar sem hið umdeilda lögbann hafi verið lagt á rangan aðila beri þegar af þeirri ástæðu að hafna beiðni stefnanda um stað­­festingu lögbannsins og sýkna stefnda.

Í þriðja lagi byggir stefndi á því að aðgerðir Alþjóðasambands flutn­inga­verka­manna hafi verið fyllilega lögmætar og því hafi frumskilyrði lögbanns um ólögmæti, sbr. 24. gr. laga nr. 31/1990, ekki verið fullnægt.  Krafa sambandsins í aðgerðunum gegn útgerð skipsins standi aðeins til þess að útgerðin skuldbindi sig til þess að greiða sjó­­mönnum um borð í skipinu samningsbundin lágmarkskjör.  Samkvæmt upp­lýs­ing­um, sem Alþjóðasamband flutningaverkamanna hafi aflað sér, greiði útgerðin hásetum um borð í skipinu laun, sem séu þrefalt lægri en lægstu umsamin kjör, sem um geti í öll­um farmflutningum hvar sem sé í veröldinni.  Útgerð skipsins hafi algjörlega hunds­að kröfur sambandsins og hafi því verið bæði rétt og skylt að grípa til aðgerða gegn því til þess að knýja á um gerð lágmarkssamninga við skipverja.  Samkvæmt upp­­lýsingum, sem fyrir liggi í málinu, sé stefnandi kýpverskur ríkisborgari.  Kýpur sé aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni og sé þar með skuldbundin til að virða grund­vall­arsamþykktir hennar, þar á meðal þær sem fjalla um rétt stéttarfélaga og samtaka þeirra til að gera kjarasamninga og knýja á um gerð ráðningarsamninga, sem sam­rým­ist slíkum samningsbundum lágmarkskjörum.  Þannig séu allir þegnar Kýpur, þar á meðal stefnandi, skuldbundnir til að virða rétt Alþjóðasambands flutningaverkamanna til að knýja á um gerð slíkra samninga um lágmarkskjör, sem samþykktir hafa verið innan vébanda alþjóðasambandsins.  Að mati stefnda sé þannig ljóst að vinnudeila sé á milli Alþjóðasambands flutningaverkamanna og stefnanda. 

Í fjórða lagi byggir stefndi á því að ólögmætt sé að setja lögbann á vinnudeilu eins og þá sem þetta mál fjallar um.  Vísar stefndi til þess að samkvæmt 24. gr. lög­reglul­aga nr. 90/1996 sé lögreglu óheimilt að hafa önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar, eins og annars staðar, uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vand­ræðum.  Þessi regla hafi verið efnislega óbreytt frá því að hún var fyrst leidd í lög með lög­um nr. 92/1933.  Hafi það verið viðurkennd regla, sem leidd sé af eðli máls, að ólög­mætt sé að setja lögbann á aðgerðir sem tengist vinnudeilum í skilningi um­ræddrar greinar.  Byggi sú niðurstaða á þeirri einföldu staðreynd að þar sem ólögmætt sé að beita lög­reglu­valdi til að framfylgja slíku lögbanni þá sé tilgangslaust að leggja það á.  Sú staða hafi reyndar ítrekað komið upp að atvinnurekendur hafi krafist þess að lög­bann yrði lagt á aðgerðir sem fram hafi farið í tilefni af vinnudeilum en niðurstaða allra þeirra mála, sem sætt hafi úrlausn hér í Reykjavík, hafi orðið sú að hafna þessum kröfum. 

Í fimmta lagi telur stefndi ljóst að allir lögvarðir hagsmunir stefnanda hafi verið að fullu tryggðir með vísan til þeirrar verndar sem réttarreglur um refsingu og skaða­bætur veiti honum og því hafi lögbann verið óþarft.  Telur stefndi augljóst, þar sem lög­­aðili eigi í hlut, að málið geti eingöngu varðað fjárhagslega hagsmuni hans, sbr. 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.  Stefndi bendir á að 5 dagar hafi liðið frá því að að­gerðir Alþjóðasambands flutningaverkamanna hafi hafist og þangað til stefnandi hafi lagt fram beiðnina um lögbann.  Hafi stefnandi enga skýringu gefið á því hvers vegna hann dró það svo lengi.  Sú háttsemi stefnanda verði aðeins talin staðfesting þess að ekki hafi búið aðrir hagsmunir að baki lögbannskröfunni en þeir, sem tryggðir hafi verið með hefðbundnum réttarúrræðum, öðrum en lögbanni. 

Loks vekur stefndi athygli á því að í greinargerð með núgildandi lögum um kyrr­setn­ingu, lögbann og fleira nr. 31/1990 hafi enn verið þrengd skilyrði þess að lög­banns­­krafa næði fram að ganga.  Í tíð eldri laga hafi lögbannskrafa aldrei náð fram að ganga í tilvikum sem þessum og því síður standi rök til þess nú.

V

Meðal gagna málsins er lögregluskýrsla frá 20. nóvember 1999.  Samkvæmt henni var lögreglan kvödd að Sundahöfn að beiðni lögmanns stefnanda.  Er haft eftir honum í skýrslunni að daginn áður hafi menn komið að skipinu og stöðvað uppskipun.  Hefðu þeir sagst vera á vegum ITF, sem er skammstöfun á ensku heiti Al­þjóða­sam­bands flutningaverkamanna.  Lögreglumennirnir voru viðstaddir þegar uppskipun hófst og segir síðar í skýrslunni:  "Þegar verkið hafði staðið í stutta stund kom Jónas Garðars­son, formaður í stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur, og stöðvaði uppskipunina.  Hann sagði að um kjaradeilu væri að ræða og að ITF hefði óskað eftir því að vinna þessi væri stöðvuð þar sem kjarasamningar við skipsáhöfn væru falsaðir.  Borgþór Kjærnested, starfsmaður ITF og Sjómannafélags Reykjavíkur, kom einnig á vettvang og staðfesti framburð Jónasar og sagði þá félaga vera í nafni Sjómannafélags Reykja­víkur að stöðva uppskipun úr skipi þessu."  Lögreglumaðurinn, sem gerði skýrsluna, hefur staðfest hana fyrir dómi.

Framangreindur Jónas bar að aðgerðirnar í Sundahöfn, sem lögbann var lagt á, hefðu farið fram að beiðni framangreinds alþjóðasambands.  Hann kvað sambandið hafa starfsmann hér á landi, sem hefði farið um borð í skipið og komist að því að áhöfnin hafi ekki haft gilda kjarasamninga.  Í framhaldi af því hafi skrifstofa sam­bands­ins í Lundúnum beðið starfsmann sinn hér á landi að grípa til þeirra ráða, sem til­tæk væru, til að knýja útgerðarmanninn til samninga.  Starfsmaðurinn hafi aðstöðu hjá stefnda og borgi sambandið leigu fyrir hana.  Hann sé ekki starfsmaður stefnda.  Jónas kvað stefnda ekki eiga beina aðild að sambandinu, heldur væri það aðili að Sjó­manna­sambandi Íslands, er aðild ætti að sambandinu.  Hann kvað þessar aðgerðir ekki hafa verið ræddar í stjórn stefnda og hann hefði ekki farið á vettvang sem formaður hans.  Þá kvað hann marga félaga stefnda hafa verið á vettvangi svo og framámenn úr öðr­um launþegafélögum.

Borgþór Kjærnested, starfsmaður Alþjóðasambands flutningaverkamanna á Íslandi, bar að aðgerðirnar hefðu farið fram á vegum sambandsins.  Hann neitaði því al­farið að stefndi hefði staðið fyrir þeim. 

Stefndi hélt þeirri málsástæðu fram hjá sýslumanni að hann ætti ekki aðild að mál­inu, heldur Alþjóðasamband flutningaverkamanna, en ekki verður séð að sýslu­maður hafi tekið afstöðu til hennar.

Eins og nú hefur verið rakið er það ósannað, gegn mótmælum stefnda, að hann hafi staðið fyrir aðgerðunum í Sundahöfn sem beindust að því að hindra losun skips stefnanda, heldur hafi það verið framangreint alþjóðasamband og starfsmaður þess hér á landi.  Lögbannið var því ekki réttilega lagt á félagsmenn stefnda og breytir engu þar um þótt einhverjir þeirra hafi verið á vettvangi í umrætt sinn.  Það verður því ekki orðið við þeirri kröfu stefnanda að staðfesta lögbannið og er stefndi sýknaður vegna að­ildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Af þessari nið­urstöðu leiðir að ekki er hægt í þessu máli að dæma um það hvort aðgerðirnar hafi verið lögmætar eða ekki og er þeirri kröfu vísað frá dómi.

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu þykir mega ákveða að málskostnaður falli niður.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Framangreindri kröfu er vísað frá dómi.

Stefndi, Sjómannafélag Reykjavíkur, er sýknaður af kröfum stefnanda, Reederei „Nord” Klaus E. Oldendorf Ltd., og er synjað um að staðfesta framangreint lögbann.

Málskostnaður fellur niður.