Hæstiréttur íslands
Mál nr. 307/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn 8. maí 2014. |
|
Nr. 307/2014.
|
Ákæruvaldið (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Snorri Sturluson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
X var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, meðan á áfrýjunarfresti í máli hans stæði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2014 er til meðferðar fyrir æðra dómi eða meðan á áfrýjunarfresti stendur, þó eigi lengur en til föstudagsins 30. maí 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 30. maí 2014 klukkan 16, en í lok þess dags rennur út áfrýjunarfestur vegna fyrrgreinds dóms 2. sama mánaðar. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi á áfrýjunarfresti, þó eigi lengur en til föstudagsins 30. maí 2014 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á meðan dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-294/2014 er til meðferðar fyrir æðra dómi eða á meðan áfrýjunarfrestur skv. 199. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 stendur yfir, þó eigi lengur en til föstudagsins 30. maí kl. 00:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að með Með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 58/2014 frá 4. mars sl. og R-95/2014 frá 1. apríl sl. og R-118/2014 frá 29. apríl sl. var dómfellda/kærða X gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála til dagsins í dag. Úrskurður nr. 95/2014 var kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann með dómi nr. 229/2014 þann 7. apríl sl.
Ríkissaksóknari hafi gefið út tvær ákærur á hendur dómfellda, fyrri ákæra dagsett 13. mars sl. vegna valdstjórnarbrots og síðari ákæra dagsett 31. mars vegna þriggja innbrota, vopnað ráns og umferðarlagabrots. Ákærur þessar sem og ákæra LRH dagsett 11. mars sl. fyrir þjófnaði, nokkur umferðarlagabrot og vörslur fíkniefna hafi verið sameinaðar í máli nr. S-294/2014 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómfelldi hafi játað sök að mestu utan vopnað ráns og valdstjórnarbrot, aðalmeðferð hafi farið fram í málinu og hafi það verið dómtekið miðvikudaginn 23. apríl sl. Með dómi uppkveðnum fyrr í dag hafi dómfelldi verið dæmdur til fangelsisrefsingar en dómurinn sé ekki fullnustuhæfur.
Auk framangreinds hefur dómfelldi það sem af er árinu nokkrum sinnum komið við sögu lögreglu. Eftirfarandi mál séu til rannsóknar og meðferðar hjá embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og muni líklega öll sæta ákærumeðferð á næstunni:
Mál nr. 007-2014-10395
Föstudaginn 28. febrúar sl. hafi dómfelldi verið handtekinn í kjölfar þess að hafa verið stöðvaður við að aka stolinni bifreið. Jafnframt sé dómfelldi grunaður um að hafa verið undir áhrifum ávana og fíkniefna við aksturinn og einnig hafi hann verið sviptur ökurétti. Dómfelldi neiti sök en gefi að mati sækjanda ótrúverðugar skýringar á hvernig hann hafi komist yfir bifreiðina.
Mál nr. 007-2014-9965
Þriðjudaginn 25.febrúar sl. hafi dómfelldi verið handtekinn í kjölfar þjófnaðar og líkamsárásar í versluninni [...] við [...] í Kópavogi. Aðdragandi málsins hafi verið sá að dómfelldi hafði verið staðinn að því að stela úr versluninni og þegar öryggisvörður hafi haft upp á dómfellda, sem hafi reynt að flýja, hafi dómfelldi ráðist á hann og veitt honum áverka. Vitni beri að dómfelldi hafi slegið starfsmanninn og að hann hefði slegið tilbaka. Dómfelldi játi þjófnaðinn en neiti líkamsárásinni.
Dómfelldi sé að auki undir sterkum grun um nýleg umferðar- og fíkniefnalagabrot, en þegar lögregla hafi haft afskipti af kærða þann 1. mars sl. hafi hann verið hann með 1,30 g af Ecstasy (MDMA) á sér (mál nr. 007-2014-10728). Hann hafi einnig játað akstur sviptur ökurétti og undir áhrifum fíkniefna þann 23. febrúar sl. (mál nr. 007-2014-9618). Dómfelldi hafi einnig þann 18. mars sl. samþykkt sektargerð lögreglustjóra vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna þann 25. janúar sl. (mál nr. 007-2014-4325).
Brot þau sem dómfelldi hafi verið dæmdur fyrir nú í dag séu vopnað rán, þrjú innbrot framin rétt rúmlega sólarhring eftir ránið, þjófnað, umferðarlagabrot og valdstjórnarbrot. Hluta brota sinna hafi dómfelldi játað fyrir dómi. Með hliðsjón af hegðun dómfellda telji lögregla sýnt fram á að hann hafi einbeittan brotavilja og að ekkert lát virðist ætla að vera á brotastarfsemi hans. Með vísan til framangreinds, gagna málanna, fjölda tilfella á stuttum tíma og alvarleika brotanna telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að dómfelldi muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur standi yfir eða meðan mál hans sé til meðferðar fyrir æðri dómi.
Sakarefni málanna séu talin varða við 106. gr, 217. gr., 244. gr., 252. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og umferðarlög nr. 50/1987, en brot gegn ákvæðunum geta varðað fangelsi allt að 10 árum. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. og 3. mgr. 97. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Með vísan til framangreinds, áður framlagðra krafna og úrskurða á hendur kærða um gæsluvarðhald áður en dómur hafi verið kveðinn upp í dag í máli S-294/2014, þess dóms, c-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála, sé þess farið á leit að krafan nái fram að ganga.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum í dag var dómfelldi dæmdur í fangelsi í 9 mánuði. Gæsluvarðhald dómfellda frá 4. mars sl. til dagsins í dag kemur til frádráttar refsingu. Dómfelldi tók sér lögmæltan frest til ákvörðunar um áfrýjun.
Samkvæmt 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í málinu. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti samkvæmt 199. gr. laganna stendur, svo og meðan mál er til meðferðar fyrir æðra dómi. Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 4. mars sl. Með vísan til þessa, og þess sem rakið er í greinargerð lögreglustjóra um önnur kærumál sem til meðferðar séu hjá embættinu, er fallist á það með lögreglustjóra að hætta sé á að dómfelldi haldi áfram brotum verði hann látinn laus. Lagaskilyrði eru því til að verða við kröfunni, sbr. c-lið 95. gr. laga nr. 88/2008 og verður því orðið við kröfunni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á meðan dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-294/2014 er til meðferðar fyrir æðra dómi eða á meðan áfrýjunarfrestur skv. 199. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 stendur yfir, þó eigi lengur en til föstudagsins 30. maí kl. 16.00.