Hæstiréttur íslands

Mál nr. 61/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


 

Fimmtudaginn 26. janúar 2012.

Nr. 61/2012.

 

Ákæruvaldið

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 23. febrúar sama ár klukkan 24. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess, að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði, að X kt. [...], [...], [...], verði á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála  nr. 88, 2008 gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 23. febrúar 2012. kl. 00:00. Í greinargerð lögreglu komi fram að dómfelldi hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna hættu á að hann héldi áfram afbrotum gengi hann laus. Nú síðast hafi hann verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 19. janúar sl. uns dómur gengi í máli hans, þó eigi lengur en til 2. febrúar nk., kl. 16:00, sbr. úrskurð héraðsdóms í málinu nr. R-22/2012 og dómi Hæstaréttar í máli nr. 54/2012. Hafi verið úrskurðað á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, þ.e. með vísan til þess að hætta væri á að hann héldi áfram afbrotum á meðan málum hans væri ekki lokið.

Dómfelldi hafi í dag, með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-1703/2011 verið dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir fjöldamörg afbrot.Sé nú farið fram á að kærða verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi með vísan til þess að hætta sé á að hann haldi áfram brotum á meðan á áfrýjunarfresti skv. 199. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, stendur, nema að afplánun geti hafist fyrir þann tíma.

Með vísan til framangreinds, áður framlagðra krafna og úrskurða á hendur dómfellda um gæsluvarðhald áður en dómur hafi verið kveðinn upp í dag í máli S-1703/2011, þess dóms, c-liðar 1. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála sé þess farið á leit að krafan nái fram að ganga.

Dómfelldi hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 frá því hann var handtekinn 27. október 2011. Samkvæmt gögnum málsins á hann að baki sér nokkuð langan sakarferil og hefur margsinnis hlotið fangelsisdóma, þ.á m. fyrir þjófnað, gripdeild, rán og líkamsárás. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum fyrr í dag í sakamálinu nr. S-1703/2011 hefur dómfelldi m.a. verið sakfelldur fyrir rán, þjófnað, nytjastuld, fjársvik, skjalafals og hylmingu og dæmdur til að sæta 18 mánaða fangelsi en til frádráttar refsingunni skal koma 90 daga gæsluvarðhald. Hefur dómfelldi lýst því yfir að hann taki sér lögmæltan frest til að taka ákvörðun um áfrýjun dómsins. Að framangreindu virtu og með vísan til ákvæða 3. mgr. 97. gr. sömu laga er það mat dómsins að skilyrði séu til þess að taka kröfu lögreglustjóra til greina. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt dómfelldi hafi bent á að hann hafi á gæsluvarðhaldstímanum verið í meðferð og þannig sýnt vilja til að snúa frá fyrra líferni sínu. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Dómfelldi, X kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 23. febrúar 2012 kl. 00:00.