Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-87
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Byggingarstjóri
- Skaðabætur
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 4. júlí 2023 leitar Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. júní 2023 í máli nr. 149/2022: Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. gegn Lundi 2-6, húsfélagi. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu skaðabóta úr hendi leyfisbeiðanda vegna þess að frágangi á þakplötu yfir bílageymslu sem myndar jafnframt bílastæði fyrir framan Lund 2-6 hafi ekki verið hagað í samræmi við hönnunargögn á byggingartíma fasteignarinnar. Gagnaðilar telja að frávik við frágang þakplötunnar hafi leitt til þess að hún sé ekki fyllilega vatnsheld og þeir því orðið fyrir tjóni vegna ófullnægjandi frágangs á yfirborði hennar.
4. Héraðsdómur dæmdi leyfisbeiðanda til greiðslu 35.851.613 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Með dómi Landsréttar var sú niðurstaða staðfest. Var talið sannað að frágangur á yfirborði þakplötunnar samrýmdist ekki byggingarlýsingu á aðaluppdráttum frá júlí 2012. Taldi rétturinn þar engu breyta þó að í febrúar 2019 hafi byggingarfulltrúi samþykkt breytta byggingarlýsingu. Á þeim tíma voru liðin um þrjú og hálft ár frá lokaúttekt framkvæmda. Landsréttur taldi að virða yrði leyfisbeiðanda til sakar að hafa ekki hagað frágangi þakplötunnar í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá taldi dómurinn sannað að hún væri ekki fyllilega vatnsheld vegna ágalla á frágangi. Var leyfisbeiðandi því dæmdur til greiðslu skaðabóta sem námu ætluðum kostnaði við frágang þakplötunnar í samræmi við upphaflega byggingarlýsingu.
5. Leyfisbeiðandi telur að málið hafi fordæmisgildi um hvenær byggja skuli á bótareglum innan eða utan samninga. Dómurinn byggi ranglega á réttarreglum skaðabótaréttar utan samninga og þar sé ranglega vísað til dóms Hæstaréttar 20. september 2018 í máli nr. 798/2017 til stuðnings því að beita megi bótareglum utan samninga. Í því máli hafi ekki verið samningssamband milli aðila og dómurinn hafi því ekki fordæmisgildi. Leyfisbeiðandi vísar til þess að Landsréttur beiti ranglega 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Greinin eigi ekki við um kröfur sem byggi á samningum svo sem við eigi í þessu máli þar sem ætlaðar kröfur gagnaðila eigi rót að rekja til samninga einstakra íbúðareigenda við leyfisbeiðanda. Því hefði átt beita fyrningarreglu 2. gr. laga nr. 150/2007. Leyfisbeiðandi telur niðurstöðu Landsréttar því bersýnilega ranga og telur ætlaða kröfu gagnaðila fyrnda. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að dómurinn sé rangur með tilliti til reglna um sönnun og sönnunarbyrði í málum vegna skaðabóta utan samninga. Í yfirmatsgerð sé því slegið föstu að engu sé í raun áfátt við gerð plötunnar sem málið snýst um og tjón sé því ekki til staðar í skilningi skaðabótaréttar.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.