Hæstiréttur íslands
Mál nr. 792/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Aðfarargerð
|
Þriðjudaginn 16. desember 2014. |
|
|
Nr. 792/2014. |
Þórir
Brynjúlfsson (sjálfur) gegn Íslandsbanka
hf. (enginn) |
Kærumál. Aðfarargerð.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar
sem Í hf. var heimilað að fá nánar tilgreinda bifreið tekna með beinni
aðfarargerð úr vörslum Þ.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá bifreiðina PI 801 af gerðinni Land Rover Range Rover Sport tekna úr vörslum sóknaraðila og fengna sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um heimild til aðfarargerðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili
hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13.
nóvember 2014.
Mál
þetta barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi mótteknu 24. mars sl. og var
þingfest 30. júní sl. Sóknaraðili er Íslandsbanki hf., f.h. Ergo, Kirkjusandi
2, Reykjavík. Varnaraðili er Þórir Brynjúlfsson, Rekagranda 8, Reykjavík.
Sóknaraðili
krefst í málinu dómsúrskurðar um að bifreiðin Land Rover Range Rover Sport,
fastanúmer PI-801, samkvæmt kaupleigusamningi frá 19. apríl 2006 milli Ergo,
áður Íslandsbanki fjármögnun, kt. [...], sem leigusala, og varnaraðila sem
leigutaka, verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum varnaraðila og fengin
sóknaraðila. Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili
krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr
hendi sóknaraðila. Verði fallist á kröfu sóknaraðila krefst varnaraðili þess að
í úrskurði verði kveðið á um að málskot til æðra dóms fresti frekari
fullnustugerðum.
Kröfu
varnaraðila um að leiða vitni fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins var hafnað með
úrskurði dómsins 3. október sl. Mál þetta var flutt samhliða um efnis- og
formhlið þess 28. október sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum
málflutningi.
I
Málavextir
Samkvæmt
gögnum málsins gerðu varnaraðili, sem leigutaki, og Ergo, áður Íslandsbanki
fjármögnun, sem leigusali, kaupleigusamning 19. apríl 2006 um bifreið.
Samningurinn er í 9 greinum auk þess sem vísað er til almennra samningsskilmála
sóknaraðila á bakhlið samningsins, sem alls telur 15 greinar, þar sem m.a. er
kveðið á um eignarrétt, greiðslur, vanskil, riftun og afhendingu hins leigða.
Samningurinn ber með sér að um staðlað samningsform er að ræða.
Í
1. gr. hans er varnaraðili tilgreindur sem leigutaki og í 1. gr. almennra
samningsskilmála segir að eignarréttur haldist hjá sóknaraðila á meðan
samningurinn sé í gildi. Í 3. gr. samningsins er hinu leigða lýst en um er að
ræða bifreið af gerðinni Land Rover Range Rover Sport með fastanúmer PI-801.
Kaupverð bifreiðarinnar er tilgreint 10.230.000 krónur, þar af
virðisaukaskattur 2.013.133 krónur og innborgun 6.730.000. Samningsfjárhæðin er
3.500.000 krónur. Samkvæmt 4. gr. samningsins skyldi fjöldi gjalddaga vera 84
og sá fyrsti 3. júní 2006 og samningstími til 2. júní 2013. Í 5. gr.
samningsins kemur fram að mánaðarlegt leigugjald skuli vera 48.004 krónur frá
og með 3. júlí 2006 en fyrsta greiðsla, 3. júní 2006, væri 0 krónur. Um
samningsviðmiðun í 6. gr. sagði að hún skyldi miðast í upphafi við „USD 20%,
JPY 40% og CHF 40%“ og að endanleg fjárhæð í erlendum myntum réðist af gengi
miðað við 21. apríl 2006.
Varnaraðili
mun samkvæmt gögnum málsins hafa verið skráður eigandi bifreiðarinnar í upphafi
samkvæmt beiðni um nýskráningu ökutækis sem varnaraðili ritaði undir sem
eigandi/kaupandi. Skráningunni mun síðar hafa verið breytt í framhaldi af
beiðni seljanda bifreiðarinnar, Bifreiða & Landbúnaðarvéla 24. apríl 2006,
sem einnig er undirrituð af varnaraðila, þar sem hún hafi verið skráð fyrir
mistök á varnaraðila en hafi átt vera skráð á Glitni hf., forvera sóknaraðila,
og á varnaraðila sem umráðamann bifreiðarinnar. Samkvæmt útprentun úr
ökutækjaskrá er sóknaraðili skráður eigandi bifreiðarinnar, en varnaraðili er
skráður umráðamaður og mun svo hafa verið frá 21. apríl 2006.
Með
skriflegu samkomulagi aðila 25. mars 2009 var upphaflegri greiðsluáætlun
samningsins breytt á þann veg að frá 3. apríl 2009 til og með 3. nóvember 2009
skyldu leigugreiðslur lækkaðar í fastar greiðslur sem næmu 43.650 krónum.
Jafnframt var samningstíminn lengdur um fjóra mánuði og skyldi lokadagsetning
hans nú vera 2. október 2013 í stað 2. júní 2013. Andvirði
framtíðarleigugreiðslna var sagt vera 4.050.965 krónur. Höfuðstóll samningsins
tæki breytingum í samræmi við breytingar sem kynnu að verða á grunnforsendum
samningsins, s.s. mynthlutfalli, vísitölu, gengi og þess háttar til hækkunar
eða lækkunar. Eftir að þessu tímabili lyki myndi leigutaka berast
greiðsluáætlun miðað við stöðu samningsins á þeim tíma. Að öðru leyti væri
samningurinn óbreyttur.
Með
skriflegu samkomulagi aðila 18. janúar 2010 um greiðslujöfnun á eignaleigusamningi
var grundvelli að útreikningi leigugreiðslna breytt samkvæmt greiðsluáætlun
samningsins á þann veg að frá 3. desember 2009 og til loka samningsins tækju
leigugreiðslur mið af breytingum á greiðslujöfnunarvísitölu til hækkunar eða
lækkunar í stað breytinga á neysluverðsvísitölu eða gengi grunnmynta
samningsins. Sú upphæð sem þannig fékkst nefndist greiðslumark samningsins og
aðgerðin greiðslujöfnun. Það greiðslumark sem tók gildi við undirritun þessa
samkomulags miðaðist við vísitölu neysluverðs á íslenskum krónum 2. maí 2008 og
gengi grunnmynta samningsins 2. maí 2008. Greiðslumark sem miðað var við nam
53.752 krónum og grunnvísitala var 96,1 stig. Andvirði framtíðarleigugreiðslna
var sagt vera 4.285.084 krónur. Andvirði samningsskuldbindingarinnar
(framtíðarvirði leigugreiðslna) var sagt taka breytingum í samræmi við
breytingar á núverandi grunnforsendum samningsins, s.s. mynthlutfalli,
vísitölu, gengi og þess háttar til hækkunar eða lækkunar og myndi því ekki
breytast samkvæmt samkomulaginu. Þá sagði að væri samningurinn ekki að fullu
efndur með greiðslu útgefinna reikninga hefði leigutaki um þá kosti að velja að
greiða andvirði þáverandi samningsskuldbindingar auk kostnaðar gegn því að fá
leigumun afsalaðan sér eða greiða áfallinn kostnað og gjaldfallna reikninga og
skila leigumun til sóknaraðila ef hið leigða væri í eðlilegu ástandi. Skyldi
leigutaki tilkynna leigusala mánuði fyrir lok leigutímans hvora leiðina hann
kysi að fara. Annars væri litið svo á að fyrri leiðin væri valin. Að öðru leyti
væru skilmálar samningsins óbreyttir.
Sóknaraðili
endurreiknaði samninginn 16. mars 2011 í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr.
471/2010, þar sem rétturinn mælti svo fyrir að í stað gengistryggingar skyldi
greiða vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og lög
nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001. Fékk samningurinn við það
númerið 420307-002. Í 2. gr. sagði að samningurinn kæmi í stað fyrri samnings
vegna endurútreiknings. Samkvæmt þessum samningi leigði leigusali leigutaka
áðurnefnda bifreið. Skyldi samningurinn nú greiðast með 34 mánaðarlegum
leigugreiðslum að fjárhæð 106.143 krónur, í fyrsta sinn 3. apríl 2011 og svo
áfram en lok samningstíma voru sögð 3. janúar 2014. Þá voru á bakhlið
samningsins almennir samningsskilmálar í 15 greinum eins og áður og
sambærilegir að efni. Þá sagði að skuldbinding sú sem áður hefði verið háð
gengi erlendra gjaldmiðla myndi framvegis verða í óverðtryggðum íslenskum
krónum. Skuldbindingin myndi því ekki breytast til samræmis við breytingar sem
kynnu að verða á gengi erlendra grunnmynta samkvæmt upprunalegum
samningsskilmálum. Samningsskilmálar þessir væru ekki nýr samningur á milli
aðila. Skilmálar samnings númer 420307-001 héldu gildi sínu með þeim breytingum
sem fælust í skjalinu.
Sóknaraðili
endurreiknaði samninginn á ný 26. september 2013 í samræmi við dóma Hæstaréttar
í málum nr. 600/2011 og 464/2012 um gildi fullnaðarkvittana, auk ákvæða laga
nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001. Við endurútreikning komu samtals
1.864.291 króna til lækkunar á samningnum og var ný staða hans 1.889.393
krónur. Samningstími var óbreyttur og skyldi fyrsti gjalddagi eftir
endurútreikning vera 3. nóvember 2013 samkvæmt yfirliti um framtíðargreiðslur.
Í kjölfar endurútreiknings var leigutaka tilkynnt um niðurstöðu hans.
Varnaraðila
var sent innheimtubréf vegna vanskila á leigugreiðslum 8. janúar 2014. Skuldin
nam þá að höfuðstól 1.941.039 krónum en að heildarfjárhæð 2.141.568 krónum.
Fram kom í bréfinu að samningstíma hefði lokið 3. janúar 2014. Var skorað á
varnaraðila að greiða kröfuna innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins svo
komist yrði hjá frekari innheimtuaðgerðum. Varnaraðila var sent símskeyti 6.
mars 2014 þar sem skorað var á hann að skila hinu leigða þar sem ekki hefði
verið sinnt ítrekuðum áskorunum um vangoldnar leigugreiðslur. Varnaraðili hefur
ekki greitt gjaldfallnar afborganir frá 3. nóvember 2013 en 7.547 krónur munu
hafa verið greiddar inn á skuldina 2. nóvember 2012.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili
krefst þess að kröfu varnaraðila um frávísun málsins á grundvelli 94. gr. laga
nr. 91/1991 verði hafnað. Mál það sem hann vísi til, A-525/2011, hafi verið
fellt niður 30. mars 2012 þar sem ekki hafði verið hafist handa við
endurútreikning í kjölfar dóma Hæstaréttar um fullnaðarkvittanir. Það geti á
hinn bóginn ekki haft þau áhrif að máli þessu verði vísað frá dómi og 94. gr.
laganna eigi ekki við um slík tilvik.
Sóknaraðili
byggir kröfu sína á því að varnaraðili hafi ekki fallist á að afhenda hið
leigða þrátt fyrir áskoranir þar um og þrátt fyrir vangoldnar leigugreiðslur.
Sóknaraðili sé réttmætur eigandi bifreiðarinnar samkvæmt ákvæðum samningsins,
skráningu í ökutækjaskrá og samkvæmt almennum skilgreiningum
eignarréttahugtaksins enda hafi hann einn heimild til þess að ráðstafa
bifreiðinni með löggerningi auk þess sem umráðaréttur varnaraðila sé
takmörkunum háður samkvæmt ákvæðum samningsins. Enginn vafi sé um tilkall
sóknaraðila til bifreiðarinnar og krefst hann þess að fá umráð hennar með vísan
til 78. gr. laga nr. 90/1989. Sóknaraðili kveður gerðina fara fram á sína
ábyrgð en á kostnað gerðarþola.
Sóknaraðili
kveður varnaraðila byggja á því að hann hafi í upphafi verið skráður eigandi
bílsins samkvæmt skráningaskírteini. Ljóst sé að í upphafi hafi bifreiðin verið
skráð fyrir mistök á varnaraðila sem eiganda í stað umráðamanns en það hafi
verið leiðrétt um leið og þau mistök urðu ljós. Samkvæmt útprentun úr ökutækja
skrá sé sóknaraðili skráður eigandi og varnaraðili umráðamaður bifreiðarinnar
og miðist skráningin við 21. apríl 2006. Sjónarmið varnaraðila um að hann sé
eigandi bifreiðarinnar eigi ekki við rök að styðjast og í raun sé engin leið að
sjá á hverju hann byggi eignarrétt sinn. Varnaraðila hafi ekki tekist að sanna
á nokkurn hátt að hann sé eigandi bifreiðarinnar hvorki samkvæmt ákvæðum
samningsins né á grundvelli nokkurs annars.
Sóknaraðili
kveður varnaraðila ekki hafa greitt leigugreiðslur vegna hins leigða tækis frá
3. nóvember 2013 eftir að endurútreikningar hafi átt sér stað. Auk vanskila á
leigugreiðslum hafi varnaraðili ekki greitt reikning vegna bifreiðagjalda með
gjalddaga 14. september 2012 að fjárhæð 40.372 krónur, auk áfallins kostnaðar.
Sóknaraðili
hafnar þeirri málsástæðu varnaraðila að hann hafi boðist til að borga upp lánið
í samræmi við ákvæði samningsins með bréfum 11. og 16. ágúst 2010. Fyrra bréfið
beri yfirskriftina „Greiðsluáskorun“ en það síðara „Áskorun vegna kröfu um
uppgreiðslu eftirstöðva“. Í þessum bréfum sé skuld varnaraðila dregin í efa og
fram komi þar að í raun skuldi sóknaraðili varnaraðila þann mun sem sé á skuld
varnaraðila miðað við að hún sé gengistryggð eða ekki. Skuld sóknaraðila nemi
3.911.004 krónum og er skorað á bankann að greiða skuldina innan 15 daga. Á
engan hátt sé hægt að líta á þetta þannig að varnaraðili sé að bjóðast til að
greiða skuld sína.
Þá
verði að hafa í huga að á þessum tíma hafi enn verið að vænta fleiri dóma
varðandi gengistryggingu til að eyða óvissu um endurútreikning eins og fram
komi í svarbréfum sóknaraðila til varnaraðila 26. ágúst og 2. september 2010 og
sóknaraðili hafi því ekki getað fallist á þær forsendur sem varnaraðili hafi
miðað við í áðurnefndum bréfum sínum til bankans um uppgreiðslu eftirstöðva
samningsins.
Þá
hafnar sóknaraðili þeirri málsástæðu varnaraðila að hann hafi geymslugreitt
fjárhæð sem nemi skuld sinni við sóknaraðila inn á reikning hjá Arion banka á
árinu 2010. Meint geymslugreiðsla sé ekki í nokkru samræmi við ákvæði 1. og 3.
mgr. 2. gr. laga um geymslufé nr. 9/1978. Tilgreina þurfi með skýrum hætti
ástæður fyrir því að þessi greiðsluháttur sé nauðsynlegur, gefa upplýsingar um
kröfuna, sem greiða á, og nafn, nafnnúmer og heimilisfang eiganda ef unnt er.
Þá hvíli sú skylda á þeim er geymslugreiðir að tilkynna kröfueiganda um
greiðslu á geymslureikning, ef það er unnt. Ekkert af þessu hafi verið gert. Þá
sé með engu móti hægt að líta á skjal sem stafar frá Arion banka sem
geymslugreiðslu eða tilkynningu um slíkt. Um sé að ræða yfirlýsingu bankans um
að varnaraðili eigi þar tvo gjaldeyrisreikninga og að innstæða á þeim að
viðbættu aðgengi varnaraðila að öðru handbæru fé hans í bankanum hafi verið að
lágmarki 1.500.000 frá júní 2010 til dagsins í dag.
Þá
kveðst sóknaraðili aldrei hafa gefið út að samningurinn í heild væri ógildur
eins og varnaraðili haldi fram. Hann hafi einungis farið eftir niðurstöðu
þeirra dóma Hæstaréttar sem hafa fallið um gengistryggða samninga. Með dómi
Hæstaréttar nr. 92/2010 og 153/2010 hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu
að samningur væri í eðli sínu lánssamningur þrátt fyrir að bera heitið
kaupleigusamningur. Ákvæði samningsins um gengistryggingu voru talin í andstöðu
við fyrirmæli vaxtalaga og skuldbundu ekki lántaka af þeim sökum. Hvergi sagði
í dómunum að óheimilt væri að hafa form samninga sem kaupleigusamninga. Er
öllum sjónarmiðum varnaraðila því hafnað.
Í
málinu sé sóknaraðili að krefjast þess að fá bifreið sem hann eigi réttmætt
tilkall til afhenta sér með beinni aðfarargerð þar sem varnaraðili hafi ekki
orðið við áskorunum um að afhenda bifreiðina. Eignarréttindi sóknaraðila séu
ljós. Varnaraðili hafi vanefnt samningsbundin afnotaréttindi sín á bílnum og
því krefst sóknaraðili þess að fallist verið á kröfu hans um innsetningu í
umrædda bifreið.
Um
aðild sína vísar sóknaraðili til þess að Nýi Glitnir banki hf. hafi yfirtekið
réttindi og skyldur Glitnis banka hf. frá og með 15. október 2008. Nafni Nýja
Glitnis banka hf. hafi verið breytt í Íslandsbanka hf. 20. febrúar 2009
jafnframt því sem nafni Glitnis fjármögnunar var breytt í Íslandsbanki
fjármögnun. Nafni Íslandsbanka fjármögnunar hafi verið breytt í Ergo 11. júlí
2011.
Sóknaraðili
kveðst mótmæla málskostnaðarkröfu varnaraðila sem allt of hárri og fái svo há
krafa engan veginn staðist. Um lagarök vísar sóknaraðili til laga um aðför nr.
90/1989, einkum 78. gr. þeirra. Krafa hans um málskostnað styðst við 130. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili
krefst þess að máli þessu verði vísað frá dómi á grundvelli 94. gr. laga nr.
91/1991 þar sem segi að þegar mál hafi verið þingfest verði ekki krafist dóms
um þær kröfur í öðru máli og ef dóms sé krafist beri að vísa henni frá dómi.
Réttur varnaraðila sé fallinn niður þar sem í fyrra máli milli aðila, nr.
A-525/2011, hafi sóknaraðili ekki sinnt beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur um að
leggja fram útreikning í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011.
Beiðninni beri því að vísa frá dómi þar sem sóknaraðili hafi „ekki lögvarða
kröfu, þ.e. kaupleigusamning til að byggja kröfu sína á og í raun átti
Héraðsdómur ekki að þingfesta þetta mál“ þar sem sama krafa hafi verið sett
fram í fyrra málinu.
Þá
byggir hann frávísunarkröfu sína á því að málið hafi verið þingfest á
grundvelli samnings sem ekki sé til. Samningurinn hafi verið ógiltur af
Hæstarétti með dómi í máli nr. 153/2010 þar sem sagði að gengistrygging væri
ólögleg og að um lánssamning væri að ræða í dulargervi kaupleigusamnings. Af
dómum Hæstaréttar megi ráða að enginn kaupleigusamningur sé í gildi milli aðila
með þeim réttaráhrifum sem samningar af því tagi hafa og því geti sóknaraðili
ekki byggt neinn rétt á slíkum samningur. Réttaráhrif viðskipta sem byggja á
kaupleigu og viðskipta þar sem kaupandi bifreiðar leggur fram fé og fær hluta
lánaðan séu ólík. Sóknaraðili hafi haft rangt við við samningsgerðina og í
viðskiptum við varnaraðila frá öndverðu. Glitnir hafi ranglega verið skráður
eigandi og varnaraðili hafi ekki getað selt bifreiðina sem hefur haft tjón í
för með sér fyrir varnaraðila.
Þá
heldur varnaraðili því fram, bæði til stuðning kröfu sinni um frávísun málsins
og um að kröfu sóknaraðila beri að hafna, á því að hann sé í raun eigandi
umræddrar bifreiðar og eignarréttur hans sé varinn af 72. gr.
stjórnarskrárinnar. Hann hafi í upphafi verið skráður sem slíkur í
skráningarskírteini. Bifreiðin sé eign varnaraðila og skuld sem sóknaraðili haldi
fram að sé fyrir hendi sé varnaraðila óviðkomandi. Varnaraðili kveður
sóknaraðila aldrei hafa komið nálægt kaupunum, þ.e. að panta bílinn eða semja
um kaupverð að neinu öðru leyti en því að lána hluta af kaupverði. Varnaraðili
hafi staðið í þeirri meiningu að hann væri að taka lán fyrir eftirstöðvum
kaupverðsins. Lagt hafi verið hart að honum að gera kaupleigusamning í stað
lánssamnings og var honum tjáð að það form breytti engu fyrir varnaraðila,
þetta væri formið sem almennt væri notað í samningum af þessu tagi. Á reikningi
um kaupin sé skýrlega greint á milli útborgunar varnaraðila og láns frá
sóknaraðila. Varnaraðili hafi verið kaupandi á grundvelli laga nr. 50/2000 um
lausafjárkaup og laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Hann sé eigandi
bifreiðarinnar og eignarréttur hans sé varinn af stjórnarskrá. Þá samræmist
viðskipti aðila ekki skilgreiningu um eignarleigu sem sé samheiti yfir
fjármögnunarleigu, kaupleigu og rekstrarleigu. Í eignarleigu felist það að
fjármögnunarfyrirtækið, leigusalinn, kaupir það tæki eða þá vél sem
viðskiptavinurinn, leigutakinn, óskar og leigir honum það í ákveðinn tíma. Að
loknum þeim tíma kaupir viðskiptavinurinn gjarnan tækið á lágu verði og verður
þar með eigandi þess.
Samningur
aðila frá 19. apríl 2006 hafi í upphafi verið lánssamningur í gervi
kaupleigusamnings. Varnaraðili hafi keypt bifreið og borgað 66% af kaupverðinu
en fengið 34% að láni hjá sóknaraðila eins og fram komi á reikningi um kaupin
21. apríl 2006. Hann hafi borgað mánaðarlega fjárhæð með vöxtum. Sóknaraðili hafi
ekki keypt bifreiðina og leigði ekki varnaraðila gegn fastri mánaðarlegri
fjárhæð.
Varnaraðili
hafi 11. ágúst 2010 boðist til að greiða upp lán sitt með þeim vöxtum sem hafi
verið í upphaflegum samningi og með vísan til útreiknings sérfræðings
Sparnaðar. Sóknaraðili hafi ekki orðið við þessu.
Þá
kveðst varnaraðila hafa „deponerað“ og átt reiknaðar eftirstöðvar lánsins inni
á reikningi Arion banka síðan 2010. Í kjölfarið hefði sóknaraðili átt að
leiðrétta skráningu bifreiðarinnar í í bifreiðaskrá.
Samningur
aðila hafi verið lánssamningur dulbúinn sem kaupleigusamningur eins og
Hæstiréttur hafi komist að í málum nr. 92/2010 og 153/2010 og ákvæði um
gengistryggingu var ólöglegt. Samningurinn sé ekki gildur lengur þar sem ekki
sé um leigusamning að ræða heldur lán á samningsvöxtum. Varnaraðili hafi
samþykkt breytingar á samningnum en það samþykki hafi verið með fyrirvara um að
upphaflegi eignaleigusamningurinn gæti verið ólöglegur, sbr. bréf hans til
sóknaraðila 20. janúar 2010. Sóknaraðili hafi sent varnaraðila samning,
dagsettan 16. mars 2011, með yfirskriftinni „Samningur um kaupleigu. Breyting
vegna dóma Hæstaréttar nr. 92/2010, 153/2010 & 471/2010 á samningi
420307-001“ en varnaraðili hafi aldrei ljáð þeim samningi samþykki sitt enda
átti sóknaraðili að senda honum lánssamning. Í raun hafi sóknaraðili viðurkennt
að um lán sé að ræða með bréfi sínu 26. september 2013 sem beri yfirskriftina
„Tilkynning um endurútreikning á samningi/láni nr. 420307-001 (sem fékk nr.
420307-002 við fyrri endurútreikning)“. Með þessari tilkynningu hefði átt að
fylgja einhvers konar samningur til samþykktar eða synjunar og reikniformúla
endurútreiknings eins og með fyrrnefndum samningi frá 16. mars 2011.
Þá
geti sóknaraðili ekki krafist vaxta og kostnaðar þar sem varnaraðili hafi boðið
fram rétta greiðslu strax eftir dóma Hæstaréttar. Ekkert hafi staðið í vegi
fyrir því að sóknaraðili tæki við greiðslu miðað við samningsvexti á þeim tíma.
Um viðtökudrátt af hálfu sóknaraðila sé því að ræða. Samningurinn hafi verið
fullgildur en Hæstiréttur hafi í raun vikið til hliðar einu ákvæði samnings og
vísast þar um til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda
löggerninga.
Með
vísan til 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 krefst varnaraðili þess að verði
fallist á kröfu sóknaraðila verði réttaráhrifum frestað meðan málið er til
meðferðar hjá Hæstarétti. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Um
lagarök vísar varnaraðili til laga um aðför nr. 90/1989, einkum 78. og 84. gr.
þeirra. Þá vísar hann til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda
löggerninga, laga nr. 121/1994 um neytendalán, laga nr. 50/2000 um
lausafjárkaup og laga nr. 148/2003 um neytendakaup. Þá vísar hann til
tilskipana Evrópusambandsins á sviði neytendamála. Krafa hans um málskostnað
styðst við 130. gr. nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Niðurstaða
Í
máli þessu krefst sóknaraðili þess að bifreiðin PI-801, verði með beinni
aðfarargerð tekin úr vörslum varnaraðila á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989
um aðför og fengin sóknaraðila. Samkvæmt útprentun úr ökutækjaskrá er Ergo, fjármögnunarþjónusta
Íslandsbanka hf., skráður eigandi bifreiðarinnar, en varnaraðili er skráður
umráðamaður. Er þessi skráning í samræmi við 1. gr. samnings aðila um
fjármögnun bifreiðarinnar og tilgreiningu á stöðu aðila í upphafi hans.
Sóknaraðili gerir kröfu í máli þessu f.h. Ergo fjármögnunarþjónustu bankans. Þá
liggur fyrir að sóknaraðili yfirtók réttindi og skyldur Glitnis banka hf. frá
og með 15. október 2008. Nafni Íslandsbanka fjármögnunar mun hafa verið breytt
í Ergo 11. júlí 2011.
Varnaraðili hefur í greinargerð sinni
teflt fram nokkrum málsástæðum því til varnar að hin umbeðna gerð nái fram að
ganga. Hefur hann í málinu einnig gert kröfu um frávísun þess og byggir að
hluta til á sömu röksemdum og fyrir höfnun kröfunnar.
Málatilbúnaður varnaraðila verður
skilinn svo að hann krefjist frávísunar málsins þar sem sóknaraðili hafi í máli
nr. A-525/2011, haft uppi sömu kröfur á hendur honum og í þessu máli sem hafi
því aldrei átt að þingfesta. Vísar hann um þetta til 94. gr. laga nr. 91/1991
um meðferð einkamála. Dómurinn telur umrætt ákvæði engan veginn geta átt við í
máli þessu. Áðurnefnt mál sóknaraðila nr. A-525/2011 var fellt niður að hans
ósk þar sem sóknaraðili hafði ekki lokið endurútreikningi lánsins. Kemur það
ekki í veg fyrir að sóknaraðili hefjist handa að nýju og geri þær kröfur sem
hann hefur gert í þessu máli. Er kröfu varnaraðila um frávísun málsins af
þessum sökum því hafnað.
Varnaraðili hefur einnig krafist þess
að málinu verði vísað frá þar sem sóknaraðili eigi ekki lögvarða kröfu á hendur
honum, umræddur kaupleigusamningur sé ekki til og varnaraðili sé með réttu
eigandi bifreiðarinnar. Þær röksemdir sem varnaraðili teflir fram þessu til
stuðnings eru þær sömu og hann styður kröfu sína með um höfnun á kröfu sóknaraðila.
Koma þær því til skoðunar í tengslum við umfjöllun um þá kröfu hans.
Varnaraðili virðist aðallega byggja á
því að samningur aðila um bifreiðina sé í raun lánssamningur sem færður hafi
verið í búning kaupleigusamnings. Þá hefur hann einnig haldið því fram að
samningurinn sé í raun ekki til þar sem hann hafi verið ólöglegur. Samningnum
hafi verið haldið að honum með ólögmætum hætti og hann beittur svikum og
blekkingum í viðskiptum sínum við bankann og bílasölu þá er að málinu kom. Hann
sé eigandi bifreiðarinnar en ekki sóknaraðili. Þá sé hann ekki í skuld við
sóknaraðila heldur eigi hann inni fjármuni hjá sóknaraðila vegna samningsins.
Hann hafi geymslugreitt fjárhæð inn á reikning Arion banka og vísar til
yfirlýsingar bankans því til stuðnings. Þá hafa hann boðist til að greiða skuld
sína með bréfum 11. og 16. ágúst 2010 og með sáttatilboði 2. febrúar 2012. Á
það hafi ekki verið fallist af hálfu sóknaraðila. Því sé um viðtökudrátt að
ræða af hálfu sóknaraðila.
Varnaraðili
hefur á engan hátt sýnt fram á að kaupleigusamningur aðila sé ólögmætur í heild
sinni. Verður að taka undir þau sjónarmið sóknaraðila að ekki verði ráðið af
þeim dómum Hæstaréttar sem varnaraðili vísar til að það form samninga sem hér
um ræðir valdi því að þeir séu ólögmætir. Þá má ljóst vera að sóknaraðili hefur
í kjölfar dóma Hæstaréttar tvívegis endurreiknað kaupleigusamning aðila, fyrst
í kjölfar dóma réttarins í málum nr. 92/210, 153/2010 og 471/2010 og síðar í
kjölfar dóma réttarins í málum nr. 600/2011 og 464/2012 um gildi fullnaðarkvittana
og hefur þeim útreikningum ekki verið hnekkt af hálfu varnaraðila.
Þá hefur
varnaraðili einnig haldið því fram að hann sé réttur eigandi bifreiðarinnar en
ekki sóknaraðili. Er málatilbúnaður hans hvað þetta varðar óljós en virðist
byggjast á því að í upphafi hafi hann verið skráður eigandi bifreiðarinnar,
samningurinn sé ólögmætur og hafi verið haldið að honum með ólögmætum hætti,
þar sem hann hafi ætlað að fá lán til bifreiðakaupa en ekki gera
kaupleigusamning um bifreiðina. Ekki er unnt að fallast á sjónarmið varnaraðila
hvað þetta varðar. Í fyrsta lagi liggur fyrir að skráning bifreiðarinnar var
röng í upphafi og var leiðrétt um leið og menn urðu þess áskynja. Er
sóknaraðili skráður eigandi bifreiðarinnar og miðast sú skráning við 21. apríl
2006 en samkvæmt gögnum málsins munu kaupin hafa átt sér stað þann dag. Þá
verður ekki fram hjá því litið að varnaraðili skrifar sjálfur undir beiðni um
leiðréttingu 24. apríl 2006 ásamt starfsmanni bílasölunnar. Í öðru lagi verður
það skýrlega ráðið af 1. gr. samningsins sjálfs 19. apríl 2006 að varnaraðili
er leigutaki og í 1. gr. á bakhlið samningsins kemur einnig skýrt fram að
eignarréttur að hinu leigða sé hjá sóknaraðila á samningstímanum. Þetta er
áréttað í samkomulagi aðila frá 25. mars 2009 og 18. janúar 2010 um breytingar
á samningnum þar sem varnaraðili skrifar undir sem leigutaki. Breytir ekki í
þessu samhengi þótt varnaraðili hafi síðar eða 20. janúar 2010 lýst því yfir í
bréfi til sóknaraðila að hann geri fyrirvara við samþykki sitt varðandi samkomulag
um greiðslujöfnun þar sem upphaflegur samningur kunni að vera ólöglegur að hans
mati. Þá er einnig til þess að líta að framangreint er áréttað í skjali um
samkomulag frá 16. mars 2011 í kjölfar endurútreiknings. Varnaraðili hefur
haldið því fram að þetta samkomulag hafi aldrei verið sent honum til
undirskriftar, samþykktar eða synjunar. Samkvæmt ákvæði í samkomulaginu sjálfu
segir: „Samningsskilmálar þessir eru ekki nýr samningur á milli aðila.
Skilmálar samnings nr. 420307-001 halda gildi sínu með þeim breytingum sem
felast í skjali þessu.“ Verður ekki talið að sóknaraðila hafi borið að senda
varnaraðila nýjan samning og er sjónarmiðum varnaraðila hvað þetta varðar
hafnað.
Í
bréfi varnaraðila 16. ágúst 2010 segir að hann óski þess og krefjist þess að
greiða upp eftirstöðvar kaupleigusamnings aðila í samræmi við samningsákvæði
hans og dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Þá segir að
kaupleigusamningurinn hafi verið gerður með veði í bifreiðinni. Krefst hann
þess að veðinu verði aflétt um leið og eftirstöðvar og lokagreiðsla séu greidd
að fullu og afsal verði gefið út þar sem varnaraðili sé skráður réttmætur
eigandi bifreiðarinnar. Í bréfi 2. febrúar 2012 sem ber yfirskriftina
„Sáttatilboð“ býður hann sóknaraðila greiðslu sem nemur 1.000.000 króna eða
jafngildi þess í myntum og hlutföllum þeirra samkvæmt samningnum. Jafnframt
verði hann skráður eigandi bifreiðarinnar og þar með sé viðskiptum vegna
samningsins lokið. Í samkomulagi aðila um greiðslujöfnun á samningnum 18.
janúar 2010 segir að andvirði framtíðarleigugreiðslna sé 4.285.084 krónur. Í
samningsskilmálum frá 16. mars 2011 um breytingu á samningnum á grundvelli dóma
Hæstaréttar nr. 92/2010, 153/2010 og 470/2010 nemur samningsfjárhæðin 3.352.829
krónum. Í innheimtubréfi sóknaraðila 8. janúar 2014 nemur skuld varnaraðila
samtals 2.141.568 krónum og hafði samningurinn þá verið endurútreiknaður 26.
september 2013.
Í
samkomulagi aðila frá 18. janúar 2010 sagði að væri samningurinn ekki að fullu
efndur með greiðslu útgefinna reikninga hefði leigutaki um þá kosti að velja að
greiða andvirði þáverandi samningsskuldbindingar auk kostnaðar gegn því að fá
leigumun afsalaðan sér eða greiða áfallinn kostnað og gjaldfallna reikninga og
skila leigumun til sóknaraðila ef hið leigða væri í eðlilegu ástandi. Skyldi
leigutaki tilkynna leigusala mánuði fyrir lok leigutímans hvora leiðina hann
kysi að fara að öðrum kosti væri litið svo á að fyrri leiðin væri valin. Að
öðru leyti væru skilmálar samningsins óbreyttir. Ljóst má vera að það
endurgjald sem varnaraðili bauð sóknaraðila var miklu lægra en skuld hans
samkvæmt samningnum á þessum tíma og var því ekki í samræmi við þessi fyrirmæli
samkomulagsins. Gat þetta ekki falið í sér efndir eða lok samkomulags aðila,
sérstaklega þegar litið er til þess að varnaraðili gerði einnig tilkall til
þess að verða eigandi bifreiðarinnar. Er þessum sjónarmiðum varnaraðila því
hafnað. Þá verður engan veginn talið að um viðtökudrátt af hálfu sóknaraðila
hafi verið að ræða. Sóknaraðila var því rétt að krefja varnaraðila um
eftirstöðvar samningsins og afhendingu hins leigða.
Þá
verður að fallast á með sóknaraðila að fjármunir varnaraðila á tveimur
gjaldeyrisreikningum í Arion banka og aðgengi hans að fjármunum þar hafi á
engan hátt uppfyllt skilyrði laga nr. 9/1978 um geymslufé. Er sjónarmiðum hans
um að hann hafi geymslugreitt skuld sína við sóknaraðila alfarið hafnað.
Í málinu
liggur fyrir að varnaraðili var samkvæmt innheimtubréfi 8. janúar 2014 í skuld
við sóknaraðila sem nam að heildarfjárhæð 2.141.568 krónum. Greiðslur samkvæmt
kaupleigusamningnum eru í vanskilum frá 3. nóvember 2013 en samningnum lauk 3.
janúar 2014 samkvæmt efni sínu. Þá er hann einnig í skuld vegna bifreiðagjalda
fyrir árið 2012. Varnaraðili hefur ekki sinnt áskorunum sóknaraðila um greiðslu
skuldar sinnar sem byggir á samningi aðila. Þá hefur hann heldur ekki orðið við
ósk sóknaraðila um að afhenda bifreiðina sem samkvæmt skýrum ákvæðum
samningsins er eign sóknaraðila.
Samkvæmt öllu
framangreindu verður talið að skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um
aðför séu uppfyllt, enda verður ekki talið varhugavert að gerðin nái fram að
ganga. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina.
Varnaraðili
hefur krafist þess að verði fallist á kröfu sóknaraðila verði í úrskurði kveðið
á um að málskot til æðra dóms fresti frekari fullnustugerðum á grundvelli 3.
mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989. Litið hefur verið svo á að ákvæði þetta eigi
einkum við ef hagsmunir sem um er deilt eru ófjárhagslegs eðlis og tjón
gerðarþola yrði ekki bætt með fégreiðslu. Þar sem ekki verður annað séð en að
þeir hagsmunir, sem hér eru í húfi, séu eingöngu fjárhagslegir þykja ekki vera
efni til að fallast á þessa kröfu varnaraðila og er henni því hafnað.
Með vísan til
þessara málsúrslita verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað,
samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr.
90/1989, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Hólmfríður
Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð
málsins 27. ágúst sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Sóknaraðila,
Íslandsbanka hf., er heimilt að fá bifreið af gerðinni Land Rover Range Rover
Sport, fastanúmer PI-801, tekna með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila,
Þóris Brynjúlfssonar.
Varnaraðili
greiði sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað.