Hæstiréttur íslands

Mál nr. 391/2005


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Sönnunarbyrði
  • Áskorun
  • Kröfugerð


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. febrúar 2006.

Nr. 391/2005.

Jakob Ingi Jakobsson

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

Einari Má Jóhannessyni

(Valgeir Kristinsson hrl.)

 

Kaupsamningur. Sönnunarbyrði. Áskorun. Kröfugerð.

J keypti hluti E í einkahlutafélaginu B og var kaupverðið 3.800.000 krónur. J og E deildu um hvort kaupverðið hefði í raun verið greitt með reiðufé við undirritun samningsins, eins og orðalag hans bar með sér. J bar fyrir dómi að hann hefði tekið fjárhæðina út úr banka. Var talið að honum hefði verið í lófa lagið að leggja fram gögn til stuðnings þessari fullyrðingu og að fullt tilefni hafi verið til þess í ljósi andmæla E og atvika málsins. Það lét J hjá líða þrátt fyrir áskorun E þar um. Þrátt fyrir orðalag samningsins þótti þessi aðstaða valda því að J bæri hallann af skorti á sönnun um að kaupverðið hefði verið greitt. Var krafa E því tekin til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. ágúst 2005. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til dómsálagningar á ný, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi kvað samningur málsaðila 24. mars 2004 svo á að stefndi seldi áfrýjanda hluti að nafnvirði 100.000 krónur í Breiðabólsstað ehf. fyrir 3.800.000 krónur, en það félag átti fasteignina Breiðabólsstaðarland 2 í Reykholtsdal í Borgarfirði. Ágreiningur aðila lýtur að því  hvort kaupverð hafi í raun verið greitt með reiðufé við undirritun samningsins, eins og segir í samningnum að gert hafi verið.

Niðurstaða héraðsdóms er á því reist að þar sem áfrýjandi hafi kosið að láta hjá líða að gefa aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins, þrátt fyrir áskorun stefnda þar um, verði að leggja til grundvallar framburð stefnda og föður hans um málsatvik. Samkvæmt því hafi áfrýjandi komið að kvöldi 24. mars 2004 akandi að heimili stefnda í Reykjanesbæ með nefndan kaupsamning, sem hann hafi sjálfur samið, og hafi samningurinn verið undirritaður í bifreið áfrýjanda fyrir utan heimili stefnda. Eini votturinn að undirritun samningsins hafi verið faðir stefnda, en ekki þeir sem tilgreindir eru á kaupsamningnum. Greiðsla hafi ekki farið fram, en áfrýjandi hafi lofað að inna hana af hendi strax daginn eftir. Þá þótti héraðsdómara ótrúverðugt, með hliðsjón af eðli viðskiptanna, að stefndi hafi afhent áfrýjanda 3.800.000 krónur í reiðufé. Var talið að stefndi hefði gert það nægilega sennilegt að áfrýjandi hafi ekki greitt umsamið kaupverð þannig að áfrýjandi bæri sönnunarbyrði um staðhæfingu sína um það efni. Þar sem áfrýjanda hefði ekki tekist sú sönnun bæri að taka kröfu stefnda til greina.

Að gengnum héraðsdómi ritaði lögmaður áfrýjanda héraðsdómara bréf 1. júlí 2005 þar sem því er mótmælt að stefndi hafi skorað á áfrýjanda að gefa aðilaskýrslu í málinu, þrátt fyrir að slík áskorun komi fram í bókun héraðsdómara 14. janúar 2005. Jafnframt fullyrti hann að það hafi þvert á móti verið áfrýjandi sem skorað hafi á stefnda að gefa slíka skýrslu. Fór lögmaðurinn fram á að bókunin yrði leiðrétt í samræmi við þetta. Héraðsdómari ritaði lögmanni stefnda bréf og óskaði eftir afstöðu hans til þessa erindis. Lögmaður stefnda svaraði með bréfi 15. júlí 2005. Sagði þar að samkvæmt endurriti úr þingbók hefði láðst að færa til bókar áskorun áfrýjanda um að stefndi gæfi skýrslu fyrir dómi en endurritið bæri hins vegar réttilega með sér áskorun stefnda. Að svo búnu ritaði héraðsdómari lögmanni áfrýjanda bréf þar sem hafnað var kröfu um leiðréttingu bókunar.

Samkvæmt ósk áfrýjanda gáfu skýrslur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 21. september 2005, auk hans sjálfs, Guðrún Helga Jakobsdóttir systir hans og Steinar Smári Guðbergsson sambýlismaður hennar. Þau báru að undirritun umrædds kaupsamnings hafi farið fram á fasteignasölunni Eignakaupum að Ármúla 38 í Reykjavík, þar sem þau hefðu verið starfsmenn, en áfrýjandi eigandi. Þau staðfestu nafnritanir sínar á samninginn sem vottar og kváðust hafa séð áfrýjanda afhenda stefnda peningabunka. Aðspurð um hvenær dagsins þetta hafi verið sögðu þau og áfrýjandi að það hefði verið „seinnipartinn“. Nánar aðspurður sagði Steinar að hann myndi ekki nákvæmlega tímasetninguna, en það hafi verið „einhvern tímann undir lok vinnu“, sem lyki um fjögurleytið. Áfrýjandi kvað atvik hafa gerst „eftir lokun banka“, en vitnið Guðrún var ekki frekar spurð um þetta atriði. Þó sagði hún, líkt og áfrýjandi, að vinnu lyki um klukkan sex á daginn. Áfrýjandi kvaðst aðspurður hafa tekið umrædda peninga af bankareikningi sínum og telja sig geta lagt fram gögn því til sönnunar. Í kjölfarið skoraði stefndi á hann að gera það.

Samkvæmt ósk stefnda voru teknar frekari skýrslur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 16. nóvember 2005 af Reyni Ólafssyni, verkstjóra og Ingvari Stefánssyni flokkstjóra hjá Íslenskum aðalverktökum hf. Báðir töldu þeir að stefndi hafi verið við vinnu í Njarðvík allt til klukkan fimm 24. mars 2005 og tóku fram að fylgst væri vel með vinnu starfsmanna. Er framburður þeirra í samræmi við framlagðar tímaskýrslur frá fyrirtækinu um vinnu stefnda þennan dag. Að lokum gaf eiginkona stefnda, Rúna Lís Emilsdóttir, skýrslu. Hún kvaðst vita til þess að stefndi hafi að kvöldlagi hitt áfrýjanda og föður stefnda í bifreið í því skyni að rita undir samning við áfrýjanda. Ekki kvaðst vitnið vita til þess að þau hafi fengið greidda peninga frá áfrýjanda.

II.

Krafa áfrýjanda um ómerkingu og heimvísun héraðsdóms er reist á því að meðferð málsins í héraði hafi verið verulega áfátt, sbr. það sem að framan greinir. Krafa þessi kom ekki fram í áfrýjunarstefnu og kemur hún ekki til álita fyrir Hæstarétti nema að því leyti, sem rétturinn gætir þess af sjálfsdáðum, hvort vísa skuli máli heim í hérað.

Í kaupsamningnum 24. mars 2004 segir meðal annars: „Kaupverð: Kaupverð hlutafjárins er kr. 3.800.000 krónur– skrifa: þrjármilljónirogáttahundruðþúsundkrónur 00/100, sem greiðist með eftirfarandi hætti.  1. gr. I. Útborgun: Við undirritun kaupsamnings og framsal hlutabréfa: kr. 3.800.000- Samtals greitt að fullu: kr. 3.800.000-“. Þá segir í 7. gr. samningsins: „Afhending eignar: Þar sem Jakob hefur við samning þennan greitt að fullu með reiðufé fyrir hið keypta í kaupsamningi þessum, tekur kaupandi við umráðum allra eigna í samræmi við hlutafé sitt.“ Svo sem fyrr greinir heldur stefndi því fram að þrátt fyrir þessi orð í samningnum hafi greiðsla ekki verið innt af hendi.

Meðal gagna málsins er fundargerð hjá Breiðabólsstað ehf., sem dagsett er sama dag og kaupsamningurinn, þar sem fram kemur að áfrýjandi verði áfram stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins, en að stefndi víki sem varamaður í stjórn. Í hans stað komi Jakob Björgvin Jakobsson, en að stefndi hafi framselt til áfrýjanda 100.000 krónur af nafnvirði hlutafjár síns. Undir fundargerðina rita Jakob Björgvin Jakobsson og málsaðilar. Sá sérstaki háttur er einnig hafður á að undir fundargerðina rita sem „vitundarvottar að dagsetningu, undirskrift og fjárræði aðila“ þau hin sömu og votta kaupsamninginn. Er hluthafafundurinn, þar sem sömu aðilar eru nefndir til sögu, sagður hafa verið haldinn að Fáfnisnesi 7, Reykjavík. Við skýrslutökur fyrir dómi voru engir framangreindra spurðir um hluthafafundinn.

Aðilum ber ekki saman um hvar undirritun kaupsamningsins fór fram eða hvort kaupverð hafi verið greitt og reisti héraðsdómari niðurstöðu sína á þeim ástæðum sem að framan greinir. Þegar hafður er í huga misvísandi framburður þeirra, sem komið hafa fyrir dóm eftir að héraðsdómur gekk, verður hins vegar ekki talið að málið hafi skýrst fyllilega. Áfrýjandi hefur borið að hann hafi tekið umræddar 3.800.000 krónur í reiðufé út úr banka. Var honum í lófa lagið að leggja fram gögn til stuðnings þessari fullyrðingu, en telja verður að hann hafi haft fullt tilefni til þess vegna andmæla stefnda og í ljósi framangreindra atvika málsins. Það hefur hann eigi að síður látið hjá líða þótt stefndi hafi beint til hans áskorun þar um. Þrátt fyrir fyrrgreind orð samningsins þykir þessi aðstaða eiga að valda því að áfrýjandi verði látinn bera hallann af skorti á sönnun um að kaupverðið samkvæmt samningnum hafi verið greitt. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest. Rétt þykir þó að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2005.

         Mál þetta var höfðað 1. júní 2004 og var dómtekið 3. júní sl.    

         Stefnandi er Einar Már Jóhannesson, Reykjanesvegi 6, Njarðvík.

         Stefndi er Jakob Jakobsson, Baugholti 13, Reykjanesbæ.

Dómkröfur

         Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða 3.800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. mars 2004 til greiðsludags. Þá er gerð krafa til greiðslu málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

         Stefndi krefst þess  að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu og honum tildæmdur málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati réttarins, auk

virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Málavextir

         Hinn 21. mars 2003 gerði faðir stefnanda, Jóhannes Helgi Einarsson, tilboð fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags í fasteignina Breiðabólstaðarland 2 í Reykholtsdal í Borgarfjarðarsveit í Borgarfjarðarsýslu.

         Hinn 20. júní 2003 stofnuðu aðilar máls þessa einkahlutafélagið Breiðabólstað ehf., kt. 640603-2830, í því skyni að kaupa ofangreinda fasteign.  Var hlutafé félagsins 500.000 krónur.  Stefndi skrifaði sig fyrir hlutafé að fjárhæð 260.000 krónur og átti því 52% hlutafjár en stefnandi fyrir 240.000 krónur eða sem svaraði 48% hlutafjár.  Var stefndi kjörinn stjórnarmaður og framkvæmdastjóri á stofnfundi félagsins og stefnandi varamaður í stjórn.

         Faðir stefnanda framseldi, hinn 26. júní 2003, Breiðabólstað ehf. kauptilboð sitt í landspildu úr landi Breiðabólstaðar, en það hafði verið samþykkt af eiganda hennar, Sigríði J. Valdimarsdóttur.  Hinn 4. júlí 2003 var gengið frá kaupsamningi milli Sigríðar og Breiðabólstaðar ehf.  Kaupverð var 11.500.000 krónur.  Eigninni var afsalað til félagsins 17. sama mánaðar. Félagið hefur nú selt umrædda fasteign.

         Áður en Breiðabólstaður ehf. seldi fasteign sína höfðu orðið þær breytingar á hlutaskrá félagsins að stefndi var orðinn eigandi að 360.000 króna hlutafé í stað 260.000 króna áður.  Hinn 24. mars 2004 seldi stefnandi stefnda hluti að nafnvirði 100.000 krónur í Breiðabólstað ehf. fyrir 3.800.000.  Samkvæmt kaupsamningnum skyldi útborgun fara fram við undirritun kaupsamningsins.  Greinir málsaðila á um þetta atriði.  Stefnandi heldur því fram að kaupverðið hafi átt að greiða inn á bankareikning daginn eftir undirritun kaupsamningsins en það hafi ekki gengið eftir.  Stefndi heldur því hins vegar fram að kaupverðið hafi verið greitt við undirritun samningsins, eins og greini í kaupsamningnum.       

         Deilur munu hafa orðið með aðilum málsins í kjölfarið, m.a. vegna fyrrgreindrar fasteignar einkahlutafélags þeirra og ójafns eignarhlutar þeirra.  Hinn 6. maí 2004 sendi lögmaður stefnanda stefnda bréf, þar sem tilkynnt var um riftun kaupsamnings, dagsetts 24. mars 2004, sem stefndi heldur fram að báðir aðilar hafi þá þegar efnt að fullu.  Stefndi hafnaði öllum kröfum stefnanda með rafpósti, dagsettum 12. maí 2004. Mál þetta var síðan þingfest 8. júní 2004.

Málsástæður stefnanda og lagarök

         Stefnandi byggir kröfur sínar á því að með kaupsamningi stefnanda og stefnda þann 24. mars 2004 hafi stefndi, Jakob, keypt hlutabréf að nafnverði 100.000 krónur af stefnanda í einkahlutafélaginu Breiðabólstaður ehf. fyrir 3.800.000 krónur, sem stefndi hafi skuldbundið sig að til greiða strax daginn eftir inn á bankareikning stefnanda nr. 1109-26-060093.

         Stefndi hafi vanrækt skuldbindingu sína um greiðslu kaupverðs og með bréfi þann 6. maí 2004 hafi stefnandi krafist riftunar á kaupsamningnum.

         Með tölvubréfi frá stefnda til lögmanns stefnanda 12. maí 2004 hafi stefndi  hafnað kröfunni um riftun og sé því málssókn þessi óhjákvæmileg til að innheimta skuldina.

         Með kröfugerð sinni krefji stefnandi stefnda um efndir á fjárskuldbindingum sínum in natura samkvæmt kaupsamningnum.  Stefnandi hafi efnt skuldbindingar sínar en vanefnd stefnda um greiðslu kaupverðs 3.800.000 krónur standi enn og sé krafist dráttarvaxta frá því vanskil hófust til greiðsludags.

         Stefnandi byggir stefnukröfur á reglum laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 samanber VII. kafla laganna um rétt seljanda til efnda og vanefndaúrræði seljanda við vanefndir kaupanda.  Einnig vísast til kröfuréttarreglna um gagnkvæmar skuld­bindingar og til ákvæða samningalaga um skyldu kaupanda til greiðslu kaupverðs.  Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, sbr. l.mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001.  Kröfur um  málskostnað styður stefnandi við l. mgr. 130. gr. sbr. 129. gr. einkum l. tl. e, laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda og lagarök

         Stefndi byggir kröfur sínar á því, að eins og komi fram í 1. gr. kaupsamnings aðila skyldi kaupverð hluta í Breiðabólstað ehf. greitt við undirritun samningsins og hafi það verið gert.  Í 7. gr. samningsins komi einnig skýrlega fram að stefndi hafi að fullu greitt fyrir hina keyptu hluti með reiðufé en ákvæðið sé svohljóðandi:

         ,,Þar sem Jakob hefur við samning þennan greitt að fullu með reiðufé fyrir hið keypta í kaupsamningi þessum, tekur kaupandi við umráðum allra eigna í samrœmi við hlutafé sitt."

         Samkvæmt þessu sé ljóst að stefndi hafi að fullu efnt greiðsluskyldu sína samkvæmt umræddum kaupsamningi.  Hafi stefnandi og ritað undir kaupsamninginn þessu til staðfestu, sbr. 2. mgr. 10. gr., og sé enginn fyrirvari gerður við samninginn eða efni hans af hálfu stefnanda.

         Þá bendi stefndi á að í 8. gr. nefnds kaupsamnings komi fram að stefndi hafi aukið hlutafé sitt í samræmi við samninginn og eigi því hluti að nafnvirði 360.000 krónur í félaginu.  Sé heldur enginn fyrirvari gerður um það efni af hálfu stefnanda.  Þá sé þess getið í 8. gr. samningsins að inn í stjórn félagsins komi nýr varamaður og skuli stjórn tilkynna um hið aukna hlutafé stefnda og nýjan varamann.

         Í framhaldi af ofangreindum viðskiptum og í samræmi við samning aðila hafi verið haldinn hluthafafundur í Breiðabólstað ehf. síðar, hinn 24. mars 2004.  Eins og fram komi í fundargerð af fundinum sem stefnandi hafi m.a. ritað undir, hafi verið þar mættir stefnandi, stefndi og Jakob Björgvin Jakobsson, kt. 060982-5549, sonur stefnda.  Sé þar sérstaklega tilgreint að stefnandi hafi framselt 100.000 krónur af nafnverði hlutafjár til stefnda sem nú eigi 360.000 krónur að nafnvirði í félaginu en stefnandi 140.000 krónur frá og með þeim degi að telja.  Á fundinum hafi stefnandi jafnframt sagt af sér sem varamaður í stjórn félagsins, sbr. 8. gr. kaupsamningsins, og hafi nefndur Jakob Björgvin verið kjörinn í hans stað.  Hafi hlutafélagaskrá verið tilkynnt um þessar breytingar.

         Loks sé þess að geta að í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dagsettu 24. ágúst 2004, komi fram að stefnandi sé eigandi 28% hlutafjár í Breiðabólstað ehf. og þar með viðurkenning á því að stefndi sé eigandi 72% hlutafjár.

         Samkvæmt framansögðu sé ágreiningslaust að stefndi er nú eigandi 72% hlutafjár í Breiðabólstað ehf. eftir að hafa fengið framselda hluti að nafnvirði 100.000 krónur, eða sem svarar 20% hlutafjár frá stefnanda 24. mars 2004.  Af hálfu stefnanda sé nú hins vegar byggt á því að stefndi hafi aldrei greitt það kaupverð sem hafi verið grundvöllur þess að stefnandi framseldi hluti sína til stefnda.  Beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir þessari staðhæfingu en hún sé bæði í augljósri andstöðu við skýr ákvæði kaupsamnings um að kaupverðið sé að fullu greitt sem stefnandi hefur staðfest með undirritun sinni, svo og eftirfarandi athafnir málsaðila, þ.m.t. hluthafafund í félaginu.  Þar að auki haldi stefnandi því nú fram að kaupverðið hafi átt að greiða síðar og með öðrum hætti en kaupsamningur kveði á um án þess að séð verði að nokkur gögn styðji þá fullyrðingu heldur.  Verði hér enn fremur að hafa í huga þá meginreglu kröfuréttar að kaupverð skuli greiða út í hönd sé ekki um annað samið.

         Með vísan til framanritaðs, og gegn andmælum stefnda, sé annað ósannað en að kaupverðið hafi að fullu verið greitt með reiðufé við undirritun kaupsamnings, eins og samningurinn kveði sjálfur á um og stefnandi hafi staðfest með undirritun sinni á hann.  Verði því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

         Stefndi vísar til V. kafla laga um meðferð  einkamála nr.  91/1991  varðandi varnar­þing, einkum 32. gr., svo og almennra reglna einkamálaréttarfars.

         Um skuldbindingagildi, efndir og lok samninga vísast til meginreglna samninga- og kröfuréttar.

         Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Niðurstaða

         Af hálfu stefnda var í upphafi málsins gerð krafa um frávísun málsins þar sem það væri rekið á röngu varnarþingi.  Með yfirlýsingu stefnda, dags. 13. janúar 2005, féll hann frá frávísunarkröfu sinni og féllst þar með á að málið yrði rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

         Hinn 24. mars 2004 gerðu aðilar máls þessa með sér kaupsamning þar sem stefnandi seldi stefnda hlutafé sitt, að nafnvirði 100.000 krónur, í einkahlutafélaginu Breiðabólstað ehf.  Kaupverðið var 3.800.000 krónur.  Greinir aðila málsins á um það hvort kaupverðið hafi verið greitt eður ei. 

         Með bréfi, dags. 6. maí 2004, krafðist stefnandi riftunar kaupsamningsins og greiðslu lögfræðikostnaðar.  Stefndi hafnaði kröfu stefnanda um riftun með tölvubréfi hinn 12. maí 2004.  Verður að líta svo á að stefnandi hafi fallið frá þessari riftunarkröfu sinni enda hefur hann höfðað mál þetta til efnda á umræddum kaupsamningi og byggir kröfur sínar á honum.

         Í 1. gr. kaupsamningsins segir varðandi útborgun að hún skuli vera við undirritun kaupsamnings og framsal hlutabréfa.  Í 8. gr. kaupsamningsins segir:  “Þar sem Jakob hefur við samning þennan greitt að fullu með reiðufé fyrir hið keypta í kaupsamningi þessum, tekur kaupandi við umráðum allra eigna í samræmi við hlutafé sitt.”

         Hinn 24. mars 2004, eða sama dag og kaupsamningur var gerður, var haldinn fundur í félaginu Breiðabólstað ehf.  Samkvæmt framlagðri fundargerð voru stefnandi og stefndi báðir á fundinum.  Til umræðu á þessum fundi voru breytingar á varamanni og breyttri eign á hlutafé félagsins.  Segir m.a. í fundargerðinni að stefnandi segi af sér sem varamaður í félaginu.  Jafnframt að stefnandi hefði framselt 100.000 krónur af nafnverði hlutafjár síns til Jakobs Inga Jakobssonar.

         Stefnandi bar fyrir dómi að tilboð hefði komið frá stefnda um að kaupa hlut hans í Breiðabólstað ehf.    Hafi kaupin farið fram þannig að stefndi hefði komið að kvöldi til heim til hans og hefði hann farið út í bíl stefnda ásamt föður sínum og þar hefði verið gengið frá kaupunum.  Kvaðst hann ekki hafa lesið samninginn sérlega vel yfir.

         Faðir stefnanda, Jóhannes Einarsson, bar að hann hefði verið viðstaddur er stefnandi undirritaði samninginn.  Kvað hann stefnda hafa komið með kaupsamn­inginn sem var undirritaður af stefnda og vottaður.  Kvað hann enga greiðslu hafa farið á milli stefnanda og stefnda en samkomulag hafi verið milli aðila að stefndi greiddi kaupverðið inn á bankareikning stefnanda daginn eftir.

         Af hálfu stefnanda var skorað á stefnda að gefa aðilaskýrslu fyrir dómi.  Stefndi varð ekki við þeirri áskorun og gaf ekki aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins.

         Stefnandi heldur því fram, þrátt fyrir ákvæði í kaupsamningi, að stefndi hafi aldrei greitt umsamið kaupverð fyrir þann hlut er stefnandi seldi honum í hlutafélaginu Breiðabólstað ehf. 

         Þar sem stefndi kaus að gefa ekki aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins, þrátt fyrir áskorun þar um, verður hann að bera hallann af því.  Verður framburður stefnanda og föður hans, Jóhannesar Einarssonar, því lagður til grundvallar varðandi málsatvik. 

         Samkvæmt því sem fram hefur komið kom stefndi með kaupsamninginn til stefnanda og verður að ganga út frá því að hann hafi sjálfur samið skjalið, enda ber skjalið ekki með sér hver samdi það.  Kaupsamningurinn var undirritaður að kvöldi til í bifreið stefnda og voru aðstæður því ekki sem bestar fyrir stefnanda að kynna sér efni kaupsamningsins.  Vottar voru ekki viðstaddir er stefnandi undirritaði kaupsamninginn en tveir aðilar höfðu þegar ritað nöfn sín á kaupsamninginn sem vottar.  Stefndi heldur því fram að hann hafi greitt kaupverðið, 3.800.000 krónur, í reiðufé.  Verður að telja ótrúverðugt, með hliðsjón af því hvernig slík viðskipti fara fram nú til dags, að stefndi hafi komið umrætt kvöld með 3.800.000 krónur í reiðufé og afhent stefnanda.

         Fyrir liggur, sbr. framlögð fundargerð, að stefnandi hefur þegar framselt stefnda hlut sinn í Breiðabólstað ehf., að nafnverði 100.000 krónur.  Þegar virt eru atvik þessa máls, eins og þau liggja fyrir dóminum, og litið er til þess að stefndi gaf ekki aðilaskýrslu fyrir dómi, þrátt fyrir áskorun þar um, þykir verða að líta svo á, þrátt fyrir ákvæði 7. gr. kaupsamningsins, að stefnandi hafi gert nægilega sennilegt að stefndi hafi ekki greitt honum umsamið kaupverð fyrir hlut stefnanda í Breiðabólstað ehf., þannig að stefndi beri sönnunarbyrði um annað um annað.  Þar sem slík sönnun hefur ekki tekist af hálfu stefnda ber að taka til greina kröfur stefnanda í málinu.

         Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 455.964 krónur, í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning stefnanda.       

         Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

         Stefndi, Jakob Jakobsson, greiði stefnanda, Einari Má Jóhannessyni, 3.800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. mars 2004 til greiðsludags og 455.964 krónur í málskostnað.