Hæstiréttur íslands
Mál nr. 299/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
- Gæsluvarðhald
|
Fimmtudaginn 3. maí 2012. |
|
|
Nr. 299/2012. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Björgvin Halldór Björnsson hdl.) |
Kærumál. Farbann. Gæsluvarðhald.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en X þess í stað gert að sæta farbanni, á grundvelli 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. maí 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sér verði í stað gæsluvarðhalds gert að sæta farbanni. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og sér verði ekki gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með dómum Hæstaréttar 18. og 25. apríl 2012 í málum nr. 254/2012 og 281/2012 var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði. Dómarnir voru reistir á því að rökstuddur grunur væri um að varnaraðili tengdist innflutningi á fíkniefnum hingað til lands. Af gögnum málsins eins og þau liggja fyrir Hæstarétti verður ráðið að á þeim tíma sem liðinn er frá síðari dóminum hafi rannsókn sóknaraðila ekki beinst sérstaklega að þætti varnaraðila í ætlaðri refsiverðri háttsemi, utan einnar skýrslu sem tekin var 27. apríl 2012. Með vísan til þess verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi en hins vegar beitt heimild í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 og ákveðið að varnaraðila skuli bönnuð för frá Íslandi þann tíma sem gæsluvarðhaldi var ætlað að standa samkvæmt hinum kærða úrskurði.
Dómsorð:
Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til mánudagsins 14. maí 2012 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2012.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. maí nk. kl. 16. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð kemur fram að sunnudaginn 15. apríl sl. hafi þrír Pólverjar verið handteknir grunaðir um stórfelldan innflutning á fíkniefnum. Hafi þeir allir komið hingað til lands með sama flugi frá [...] í Póllandi. Í farangri þeirra allra hafi fundist samskonar ílát, þ.e. sjampóbrúsar, boddylotionbrúsi og raksápa, sem höfðu að geyma amfetamín, samtals um 8,5 kíló. Hafi einn hinna handteknu verið stöðvaður við tollskoðun á Keflavíkurflugvelli, en hinir tveir handteknir í leigubifreið á [...] í [...]. Sæti þeir allir þrír gæsluvarðhaldi til 14. maí nk.
Framburðir þeirra séu á þann veg að þeir hafi fengið afhendar töskur í [...] og þeir hafi átt að afhenda þær óþekktum manni við [...] í [...]. Þeir hafi haft vitneskju um að fíkniefni væru í töskunum, en ekki vitað magn eða tegund þeirra.
Í fórum annars mannsins sem handtekinn hafi verið í leigubifreiðinni hafi fundist farsími sem hafði að geyma SMS-skeyti með heimilisfangi kærða, X, “ [...]”. Segist hann hafa sýnt leigubifreiðastjóranum skeytið og óskað eftir að láta aka sér og samferðamanni sínum þangað skömmu áður en lögregla stöðvaði leigubifreiðina, en áður höfðu þeir óskað eftir að verða ekið að [...] í [...].
Þá hafi lögregla rætt við leigubílstjóra sem segist hafa tekið Pólverja upp í bifreið sína við Keflavíkurflugvöll að morgni sunnudagsins 15. apríl. Pólverjinn hafi óskað eftir því að honum yrði ekið að [...] í [...]. Eftir um fimm mínútu akstur hafi Pólverjinn fengið SMS-skeyti, hann hafi sýnt bílstjóranum skeytið, þar sem staðið hafi “ [...]”, og óskað eftir að þangað yrði ekið. Bílstjórinn kveðist hafa ekið manninum að [...] og þar séð hann fara inn í húsið. Aðspurður segi hann manninn hafa haft eina tösku meðferðis.
Þennan sama dag, 15. apríl, hafi kærði X verið handtekinn, grunaður um að eiga aðild að innflutningi efnanna. Eins og fram komi í meðfylgjandi upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 10. apríl sl., hafi lögreglan haft til rannsóknar hóp Pólverja sem taldir séu standa fyrir innflutningi sterkra fíkniefna hingað til lands og sé kærði X undir grun um að tengjast þessum hópi. Í þágu rannsóknar þess máls hafi sími nafngreinds manns verið hlustaður en hann sé talinn skipuleggjandi hins meinta innflutnings. Í símtali sem átt hafi sér stað 16. apríl kl. 16:09 lýsi maðurinn áhyggjum sínum yfir því að X og eiginkona hans A hafi verið handtekin vegna málsins.
Kærði hafi í skýrslutökum hjá lögreglu neitað sök í málinu.
Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag kl. 16 á grundvelli rannsóknarhagsmuna og hafi úrskurðurinn verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 281/2012.
Rannsókn lögreglu miði nú áfram en hér sé um að ræða umfangsmikið og vel skipulagt fíkniefnamál þar sem mikið magn af sterkum fíkniefnum hafi verið flutt hingað til lands. Rannsaka þurfi þætti er snúa að aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun þess. Gagnaöflun sé í fullum gangi og hafi lögreglan sent út beiðni þar sem óskað sé eftir aðstoð pólskra yfirvalda við ýmsa þætti er snúi að rannsókninni. sé nauðsynlegt að yfirheyra kærða frekar og fleiri einstaklinga, vitni og mögulega samseka, sem kunni að tengjast málinu. Mikilvægt sé talið í þágu rannsóknarinnar að unnt sé að bera upplýsingar undir kærða sjálfstætt á meðan hann sæti gæsluvarðhaldi og að hann sæti einangrun á þessu stigi rannsóknarinnar. Gangi kærði laus ferða sinna þá geti hann torveldað rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum sem hafi sönnunargildi í málinu eða haft áhrif á aðra samverkamenn.
Kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að afbroti sem allt að 12 ára fangelsisrefsing sé lögð við. Um sé að ræða mikið magn fíkniefna sem víst þyki að hafi átt að fara í sölu- og dreifingu hér á landi. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. og b.- liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Má í því efni einnig styðjast við dóm Hæstaréttar í máli nr. 281/2012 þar sem slegið var föstu að skilyrði væru til þess að kærði sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Rannsókn málsins gengur vel en eftir er að yfirheyra kærða frekar og fleiri einstaklinga, vitni og mögulega samseka, sem kunna að tengjast málinu. Þá hefur verið óskað eftir aðstoð pólskra yfirvalda við ýmsa þætti er snúa að rannsókninni. Með hliðsjón af öllu framangreindu er fallist á með lögreglustjóra að skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Er krafa um gæsluvarðahald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá er fallist á að kærði verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðahaldinu stendur sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. maí nk. kl. 16.00
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.