Hæstiréttur íslands
Mál nr. 182/2002
Lykilorð
- Hótanir
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 10. október 2002. |
|
Nr. 182/2002. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn X (Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.) |
Hótanir. Sératkvæði.
X var kærður fyrir hótanir í garð fyrrum sambúðarkonu sinnar með því að senda henni 11 skilaboð í GSM síma, tilraun til að nauðga henni og fyrir líkamsárás og kynferðisbrot gegn henni. Þegar umrædd skilaboð voru skoðuð þóttu tvenn þeirra ekki vera til þess fallin að vekja ótta um líf, heilbrigði eða velferð konunnar, sbr. 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að öðru leyti var fallist á með héraðsdómi að með sendingu boðanna hefði X gerst sekur um refsiverðar hótanir í hennar garð. Þegar virt var að ekki væri einsýnt að konan hefði litið á háttsemi hans, sem varð tilefni kæru hennar um tilraun til nauðgunar, sem slíkt athæfi fyrr en síðar, og litið var til lýsingar konunnar á því sem gerðist og samband þeirra yfirleitt haft í huga, var talið varhugavert gegn eindreginni neitun ákærða að telja nægilega sannað að honum hefði ekki getað dulist að hann hefði neytt yfirburða sinna gagnvart konunni í því skyni að þröngva henni til samræðis þannig að varðaði við 195. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Var X því sýknaður af þessum lið ákærunnar. Þá var fallist á með héraðsdómi að þótt ætla mætti miðað við framburð X og konunnar að komið hefði til átaka á milli þeirra eftir að X hefði brotist inn á heimili hennar yrði að telja varhugavert gegn eindreginni neitun X að líkamsárás og kynferðisbrot gegn konunni væri sannað. Niðurstaða héraðsdóms um að sýkna bæri X af þessum lið ákærunnar var því staðfest. Var refsing X ákveðin fangelsi í fjóra mánuði þar af þrír mánuðir skilorðsbundnir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæruliðum I. og II.1 og að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákærulið II.2 og refsing hans þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum ákæruvalds en til þrautavara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög framast leyfa.
I.
Svo sem nánar greinir í héraðsdómi eru málsatvik þau helst að ákærði og kona sú sem er kærandi í máli þessu tóku upp sambúð árið 1991 og eignuðust son í mars 1994. Sambúð þeirra var æði stormasöm og fluttu þau oft í sundur en slitu sambúðinni formlega í mars 1996. Þá sömdu þau um sameiginlega forsjá með syninum og að lögheimili hans skyldi vera hjá móður. Umgengnisréttur var ekki fastákveðinn en fram er komið að þau hafi bæði unnið vaktavinnu og því talið að sonur þeirra gæti verið hjá þeim til skiptis. Það gekk ekki eftir og varð ágreiningur milli þeirra um umgengnina. Við sambúðarslitin fluttist ákærði frá heimili þeirra. Þau héldu þó sambandinu áfram og bjó ákærði hjá konunni, þar til hún fór fram á að þau slitu sambandi sínu í maí 2001. Hefur hún borið að eftir það hafi ákærði farið að valda henni ónæði og vera með hótanir sem hún kærði hjá lögreglunni á [...] 24. júlí sama ár, sbr. I. kafla ákæru, og mögnuðust og leiddu til atburðanna 8. júlí og 20. ágúst, sem greinir í II. kafla ákæru. Daginn eftir síðari atburðinn eða 21. ágúst kærði konan ákærða hjá lögreglu „fyrir kynferðisbrot, húsbrot, líkamsárás og hótanir ... á tímabilinu frá því í maí 2001 fram til mánudagsins 20. ágúst 2001.“ Ákærði var yfirheyrður af lögreglunni í [...] strax eftir framlagningu kærunnar 21. ágúst. Hinn 23. ágúst sama ár komu þau saman til lögmanns á [...] og gengu frá samningi um umgengni við son sinn og munu hafa haldið frið síðan, en hún tók upp samband við annan mann. Konan dró kæru sína til baka hjá sýslumanninum á [...] 14. september 2001.
II.
Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms styður ákærði þeim rökum að mótsögn sé í niðurstöðu dómsins að því leyti að framburður konunnar sé lagður til grundvallar sakfellingu ákærða samkvæmt ákærulið II.1 en hafnað varðandi ákærulið II.2, án rökstuðnings. Rök skorti einnig fyrir því að virða framburð ákærða að vettugi en taka þess í stað mark á framburði konunnar. Ekki sé heldur tekin afstaða til trúverðugleika framburðar þeirra lögreglumanna sem komu á vettvang 20. ágúst 2001, en hann hafi verið í samræmi við frásögn ákærða. Hann bendir og á að framburður konunnar af atburðum 8. júlí og 20. ágúst sé nánast samhljóða og það sé tortryggilegt. Þar sé því haldið fram í báðum tilvikum, að ákærði hafi notað band af náttsloppi konunnar til að fremja þann verknað sem honum sé gefinn að sök, en bandið hafi ekki verið rannsakað. Héraðsdómur hefði einnig átt að taka afstöðu til þess að engin líkamsrannsókn var gerð á konunni.
Ákærði bendir ennfremur á það að engin afstaða sé til þess tekin í héraðsdómi hverju það skuli varða að konan lagði ekki fram kæru á hendur honum vegna þess atburðar 8. júlí 2001 sem lýst er í ákærulið II.1, heldur hafi frásögn hennar af atburði þessum komið fram sem nokkurs konar aukaatriði þegar hún kærði hann fyrir hótanir 24. sama mánaðar, sbr. ákærulið I.
Ákærði telur það gagnrýnisvert í héraðsdómi að ekki hafi verið tekin afstaða til þess að konan hafi afturkallað kæruna á hendur honum 14. september 2001. Hann telur og að það brjóti gegn 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að færa ætlað brot hans eftir ákærulið II.1. undir 195. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem hann hafi ekki verið ákærður fyrir þá háttsemi sem þar sé lýst. Einnig skorti á rökstuðning héraðsdóms fyrir því í hverju hin ólögmæta nauðung hafi verið fólgin.
Framangreind atriði, sem ákærði hefur teflt fram til stuðnings kröfu sinni um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins, þykja ekki eiga að leiða til þess að orðið sé við þeirri kröfu. Þau verða áfram til skoðunar við sakarmat í málinu.
III.
I. kafli ákæru. Í héraðsdómi eru rakin og tölusett 11 skilaboð sem ákærði sendi fyrrverandi sambúðarkonu sinni í GSM síma á tímabilinu 15. júlí til 16. ágúst 2001. Þegar skilaboðin eru skoðuð þykja þau sem skráð eru númer 1 og 3 ekki vera til þess fallin að vekja ótta um líf, heilbrigði eða velferð konunnar, sbr. 233. gr. almennra hegningarlaga. Að öðru leyti verður fallist á með héraðsdómi, með þeim rökum er þar greinir, að með sendingu boðanna hafi ákærði gerst sekur um refsiverðar hótanir í hennar garð. Eru brot hans þar réttilega heimfærð til refsiákvæðis.
II. kafli ákæru. Fram er komið í málinu að ákærði hafi ekki verið viss um að ástarsambandi hans og konunnar væri í raun slitið á þeim tíma er ákæruliðir þessir taka til, sem er í júlí og ágúst 2001, enda hafði oft komið til tímabundinna sambandsslita þeirra í milli. Leitaði hann á þessum tíma eftir mökum við hana og kom fyrir að hún lét þau eftir, en hún hefur haldið því fram að það hafi verið vegna samninga um umgengni við son þeirra. Fram er og komið að hún hafi fellt hug til annars manns á þessum tíma, en ákærða hafi ekki verið það ljóst fyrr en í ágúst. Þegar þetta er virt og haft er í huga hið stormasama samband þeirra og það sem greinir í héraðsdómi um atburðinn að morgni 8. júlí, sem er ákæruliður II.1, verður á því að byggja að þau hafa bæði borið að ákærði hafi þarna viljað hafa við hana samfarir á heimili hennar og hún látið undan en honum síðan ekki tekist það þar sem honum reis ekki hold. Konan kærði þennan atburð ekki sem tilraun til nauðgunar eftir að þetta gerðist og ekki fyrr en eftir atburðinn 20. ágúst, en lýsti því í kæru sinni um hótanirnar 24. júlí að ákærði „... hafi þá hótað því að nauðga henni og hún hafi þá látið undan og sagt honum að gera þetta bara.“ Er því ekki einsýnt að hún hafi litið á þessa háttsemi sem tilraun til nauðgunar fyrr en síðar. Þegar þetta er virt, og litið er til lýsingar konunnar á því sem þarna gerðist og enn haft í huga samband þeirra yfirleitt, er varhugavert gegn eindreginni neitun ákærða að telja nægilega sannað að honum hafi ekki getað dulist að hann hafi neytt þarna yfirburða sinna gagnvart konunni í því skyni að þröngva henni til samræðis, þannig að varði við 195. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Verður því að sýkna ákærða af þessum lið ákærunnar.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að sýkna beri ákærða af 2. tl. II. kafla ákærunnar.
Samkvæmt framansögðu hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt 233. gr. almennra hegningarlaga fyrir hótanir í 9 af þeim 11 skilboðum sem í I. kafla ákæru greinir. Hann hefur ekki fyrr gerst sekur um refsiverðan verknað. Ákveða ber refsingu hans samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga, en 4. tl. 1. mgr. 74. gr. og 75. gr. þykja ekki eiga við. Er refsingin hæfilega ákveðin fangelsi fjóra mánuði. Skal fresta fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Rétt er eftir úrslitum málsins að ákærði greiði þriðjung sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði. Annar kostnaður greiðist úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði þriðjung sakarkostnaðar í héraði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Sigfússonar héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Þallar Þórgnýsdóttur héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur. Ákærði greiði þriðjung sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóhannesar R. Jóhannssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur. Annar kostnaður greiðist úr ríkissjóði.
Sératkvæði
Haralds Henryssonar og
Ingibjargar Benediktsdóttur
Við erum sammála niðurstöðu meirihluta dómenda um ómerkingarkröfu ákærða og um kafla I og II.2 í ákæru. Við erum hins vegar ósammála niðurstöðu þeirra um ákærukafla II.1.
Eins og fram kemur í héraðsdómi kom fram í kæru konunnar 24. júlí 2001, er fjallaði fyrst og fremst um þær hótanir ákærða, sem getið er í I. kafla ákæru, að hann hafi að morgni 8. júlí það ár brotist inn í íbúð hennar með því að slíta upp stormjárn á glugga í íbúð þeirri, sem hún bjó í. Hafi hann viljað athuga hvort hún hefði verið með öðrum karlmanni, en fyrir liggur í málinu að þá um nóttina hafði hann séð hana í bifreið með þremur karlmönnum og kom þá til orðaskipta milli þeirra, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Sagði í skýrslunni að hann hafi beitt hana ofbeldi og síðan viljað hafa kynmök við hana, en hún hafi neitað. Hafi hann þá hótað því að nauðga henni og hún hafi þá látið undan og „sagt honum að gera þetta bara“. Fyrir dómi skýrði hún svo frá þessu atviki að hún hafi vaknað um níuleytið við skarkala og læti. Ákærði hafi komið æðandi út úr einu herbergi íbúðarinnar og verið búinn að spenna þar upp glugga til að komast inn. Hún hafi sagt honum að koma sér út en hann þá ráðist á hana og spurt hvar hún hafi verið og hvers vegna hún hafi ekki svarað í símann. Þau hafi tekist á í rúmi hennar og hann hafi tekið hendur hennar og haldið þeim fyrir ofan höfuð og síðan sagt að hann ætlaði að fá sínu framgengt. Hafi hún þá sagt að hún hefði ekki kraft í að slást við hann og skyldi hann gera það sem honum þóknaðist. Hafi hann síðan reynt að koma sínu fram en ekki tekist þar sem honum reis ekki hold.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi farið inn í íbúð konunnar með því að spenna upp stormjárn eftir að hafa reynt árangurslaust að banka og ná sambandi við hana í síma. Hafi hann hitt konuna frammi í forstofu, en síðan hafi þau farið inn í herbergi, lagst þar upp í rúm og spjallað í rólegheitum. Hafi hann þá spurt hana hvort hún væri tilbúin að hafa við hann samfarir og hún þá sagt að það væri allt í lagi þótt hún myndi ekki njóta þess sjálf eða taka mikinn þátt í því. Hann hafi síðan reynt að hafa við hana samfarir en ekki tekist. Hjá lögreglu lýsti hann þessu svo að hann hafi verið að spyrja hana hvort hún hefði sofið hjá einhverjum af mönnum þeim, sem hún hafi verið með um nóttina. Hann hafi beðið hana í nokkur skipti að hafa samfarir við sig en hún neitað í fyrstu. Síðan hafi hún samþykkt það en sagt að hún ætlaði ekki að taka þátt í þeim.
Eins og máli þessu er háttað þykir það ekki draga úr sönnunargildi framburðar konunnar að hún skýrði fyrst frá umræddu atviki við skýrslugjöf hjá lögreglu 24. júlí 2001 og ber að hafa í huga í því sambandi að hún hefur sagt að henni hafi staðið ógn af ákærða meðal annars í ljósi hótana hans og óttast hefndaraðgerðir ef hún kærði hann.
Héraðsdómur hefur í ljósi atvika umrætt sinn metið framburð ákærða afar ótrúverðugan og talið það sem fram hefur komið styðja staðfastan og trúverðugan framburð konunnar um að hún hafi einfaldlega látið undan þvingunum hans og hafi ákærða ekki getað dulist að hann neytti yfirburða sinna gagnvart henni í því skyni að þröngva henni til samræðis. Þegar litið er til atvika í heild og einkum ofangreinds aðdraganda þeirra þykja engin efni til að telja að þetta mat héraðsdómaranna sé rangt, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, og ber því að staðfesta niðurstöðu þeirra um þennan ákærulið. Verður talið að dóminum hafi verið heimilt að heimfæra atferli ákærða undir 195. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr 117. gr. laga nr. 19/1991.
Samkvæmt framansögðu teljum við að staðfesta beri niðurstöðu héraðsdóms um refsingu ákærða og dæma hann til að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 13. mars 2002
Mál þetta, sem dómtekið var 8. f.m. hefur ríkissaksóknari höfðað með ákæruskjali útgefnu 7. nóvember 2001 á hendur X;
„fyrir eftirtalin brot framin á [...] árið 2001.
I.
Hótanir með því að hafa á tímabilinu 15. júlí til 16. ágúst, í ellefu skipti hótað Y, ofbeldi og lífláti í eftirgreindum SMS-skeytum, sem ákærði sendi í farsíma Y og voru til þess fallin að vekja hjá henni ótta um líf hennar og velferð:
1. „Nei tad gerir tú ekki. Haltu áfram að láta rída og sjádu okkur í fridi og eg lofa tér því ad ef tú ekki gerir tad hlítirdu verra af. Hann er og verdur hjá mér.“
2. „Tetta ver tá enn ein lýgin hjá tér. Komdu bara og ég geng frá tér. Skiladu hringunum tví annars sæki ég tá tó að eg turfi að slíta tá af tér. Mundu tad sem sagt er.“
3. „Tad að fara í Fjölskyldudeildina synir enn og aftur innræti titt og mun ekki hjálpa tér. Nú skalt tú gæta tín.“
4. „Gerdu tad, nú mun ég gert tér allt til miska, ganga frá tér ef með tarf.“
5. „Er tad nyr madur sem tú tráir, er tad gott fyrir [Z] og börnin. Tad skal aldrei verda að [Z] verdi hjá tér ög ödrum manni, ALDREI, frekar drep ég tig.“
6. „A godu. Mundu að tú gast leist tetta á 30 mínútum, með einum drætti. Ef tú lætur okkur ekki í fridi tá geng ég frá tér hóran tín, tú mátt treysta tví.“
7. „Takkaði fyrir að draga andann, tad gæti breyst!“
8. „Er hann skilinn? Tú ert söm vid tig. [Z] færdu aldrei tó ég turfi að ganga frá tér.“
9. „Og tad skaltu vita að eg geng frá tér næst er við hittumst.“
10. „Ef tú ekki gerir mér tennan greida eydileggur tú líf okkar, eg hugleiddi sjálfsvig eda tað sem verra er að kala tér. Er tilbúinn í sátt ef tú synir mér ástud.“
11. „Ég drep tig tussan tin ef tú ætlar að neita mer um samtal vid hann, hann let tig vita manstu!“
Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
Eftirtalin brot framin á heimili Y, eftir að ákærði hafði í bæði skiptin slitið stormjárn af glugga íbúðarinnar og ruðst heimildarlaust þar inn:
1. Tilraun til nauðgunar, að morgni sunnudagsins 8. júlí, með því að hafa þar reynt að þröngva Y til samræðis með ofbeldi og hótun um ofbeldi.
Telst þetta varða við 194. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
2. Líkamsárás og kynferðisbrot, að morgni mánudagsins 20. ágúst, með því að hafa ráðist þar að Y, vafið bandi af náttsloppi tvívegis um háls hennar og hert að og sett fingur inn í leggöng hennar.
Telst þetta varða við 209. gr. og 217. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur refsingar.“
Af hálfu ríkissaksóknara flutti málið Ragnheiður Harðardóttir, saksóknari og af hálfu ákærða skipaður verjandi hans, Arnar Sigfússon hdl. Skipaður réttargæslumaður ætlaðs brotaþola var Inga Þöll Þórgnýsdóttir hdl.
Ákærandi krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar samkvæmt ákæruskjali og til greiðslu sakarkostnaðar og málskostnaðar til handa réttargæslumanni brotaþola, Ingu Þallar Þórgnýsdóttur hdl., að mati dómsins.
Verjandi krefst þess að ákærði verði sýknaður og til vara að hann verði dæmdur til lægstu lögleyfðrar refsingar og að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.
Inga Þöll Þórgnýsdóttir hdl. hefur ekki uppi neinar bótakröfur fyrir hönd brotaþola.
II.
Málavextir.
Ákærði og kærandi, Y, hófu sambúð á árinu [...] og stóð sambúð þeirra með hléum fram á síðasta ár en þá lauk sambúðinni endanlega en raunar var ákærði fluttur burt af heimilinu fyrir allnokkru síðan og bjó í [...]. Hann átti þó einhverja muni á heimili Y. Í máli þeirra beggja kom fram að sambúðin hafi alla tíð verið stormasöm og alloft hafi komið til átaka á milli þeirra. Þau eiga saman einn son [...] ára gamlan. Y átti fyrir sambúð hennar og ákærða [...] börn, [...].
Ákærði og Y deildu um forræði yfir syni þeirra. Þeirri deilu lauk með samkomulagi síðasta sumar.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar á [...] kom Þ lögreglumaður þriðjudaginn 17. júlí 2001 til [...] rannsóknarlögreglumanns og hafði meðferðis GSM-farsíma sem hún kvað í eigu Y. Óskaði Þ eftir því að lögreglumenn staðfestu textaskilaboð sem Y höfðu borist. Meðal þeirra skilaboða sem lögreglan skoðaði í þetta sinn eru boð sem merkt eru nr. 1 til 5 í ákæru. Í skýrslunni kemur einnig fram að Y hafði sagt hótanirnar koma úr farsíma ákærða. Þá er í skýrslunni haft eftir Þ að Y hafi verið að íhuga viðbrögð sín, en hún óttaðist mjög að ákærði kynni að skaða hana ef hún aðhefðist eitthvað. Þyrði hún ekki að koma á [...], þar sem ákærði væri [...] og búinn að segja henni að þaðan væri engrar aðstoðar að vænta.
Skilaboð þessi voru rituð niður af rannsóknarlögreglumanninum í viðurvist Þ og þar sem honum virtist sem hluti skilaboðanna gæti talist brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga hafði hann samband við yfirlögregluþjóninn á [...] og í framhaldi af því hafði hann símasamband við Y og spurði hana hvort hún ætlaði að leggja fram kæru vegna málsins. Hafi hún sagst óttast mjög að ákærði gripi til hefndaraðgerða ef hún kærði þessar hótanir og búast við hinu versta þar sem hann hefði oftar en einu sinni brotist inn á heimili hennar til að veitast að henni og hóta henni. Svo og fylgdist hann mjög grannt með ferðum hennar og hún þyrði alls ekki að koma á lögreglustöðina til þess að leggja fram kæru.
Þann 19. júlí 2001 skýrði rannsóknarlögreglumaðurinn sýslumanninum [...] frá málavöxtum og 23. s.m. hafði Y samband við rannsóknarlögreglumanninn og kvaðst vilja leggja fram formlega kæru og í framhaldi af því var hún boðuð til skýrslutöku hjá sýslumanninum á [...] næsta dag.
Skilaboð þau sem ákærði sendi Y, hér eftir nefnd konan eða kærandi, og skráð voru af rannsóknarlögreglunni 17. júlí voru alls 8 en ákært er vegna 5 þeirra. Nr. 1 er sent 15. júlí, en nr. 2-5 þann 17 júlí. Skilaboð sem rakin eru í ákæruskjali nr. 6-11 eru send á tímabilinu 21. júlí til 16. ágúst.
[...]
Í skýrslu [...] lögreglumanns á [...] laugardaginn 18. ágúst 2001 kemur fram að kærandi hafi haft samband við lögregluna á [...] vegna þess að ákærði hafði ruðst inn á heimili hennar og ógnað henni. Hefði hann beitt vel völdum brögðum og því engir áverkar sjáanlegir á henni er lögreglan kom á staðinn. Lögreglumennirnir [...] og Þ fóru á vettvang. Kærandi kvað ákærða hafa hótað henni og hún óttaðist frekari ofbeldisverk af hans hálfu og var fullviss um að hann myndi gera aðra atlögu að henni síðar, því þetta væri ekki í fyrsta skipti sem hann hefði komið óboðinn inn á heimili hennar og hótað henni. Var hún beðin að hringja samstundis á lögreglu ef hún sæi ákærða við heimili sitt.
Samkvæmt skýrslu [...] lögreglumanns var hringt til lögreglunnar mánudaginn 20. ágúst kl. 10:14. [...] fangavörður svaraði í símann. Tjáði hún [...] aðstoðarvarðstjóra að enginn hefði verið í símanum en hún hefði heyrt mikil slagsmál og háreysti. Á númerabirti á lögreglustöð kom fram að hringt hafði verið úr síma kæranda, til heimilis að [...]. Fór lögreglan strax á vettvang þar sem farið hafði verið í útkall þangað 18. s.m. Notuð voru neyðarljós lögreglubifreiðar á leið á vettvang. Komið var á vettvang kl. 10:18. Þegar að húsinu kom sáu lögreglumennirnir bifreið ákærða fyrir framan húsið. Þegar að útidyrum kom sáu lögreglumenn skóför á hurðinni við hurðarhúninn. Var dyrabjöllu hringt og eftir nokkra stund kom kærandi til dyra í miklu uppnámi og óskaði eftir að ákærði yrði fjarlægður úr íbúðinni. Sat ákærði á rúmi hennar í svefnherbergi þegar lögreglan kom inn í íbúðina. Var hann æstur og ósáttur og kvaðst vilja ræða við kæranda í rólegheitum, en hún hefði ekki viljað það. Yfirgaf hann íbúðina af fúsum og frjálsum vilja. Er hann var farinn ræddi [...] aðstoðarvarðstjóri við kæranda. Var hún í miklu uppnámi en róaðist fljótt þegar ákærði hafði yfirgefið íbúðina. Sagði hún að ákærði hefði komið og viljað komst inn en hún hafi ekki viljað hleypa honum inn til sín. Þá hafi hann reiðst og sparkað í útihurðina. Eftir það hafi hann farið bak við hús og rifið upp opnanlegan glugga í stofunni og komist þannig inn í íbúðina. Hún kvaðst hafa hringt í lögregluna þegar hann hafi verið á leið inn í íbúðina. Hún vildi ekki lýsa frekari málavöxtum þarna á vettvangi og var henni bent á hvað hún ætti að gera ef hún vildi aðhafast eitthvað frekar í málinu. Sjáanlegar skemmdir voru á krækju á glugganum og í gluggakarmi eftir að ákærði hafði rifið stormjárnið frá gluggakarminum. Eftir að varðstjórinn hafði rætt við kæranda á vettvangi ræddi hún einnig við ákærða sem beið í bifreið sinni fyrir utan húsið. Kvaðst hann hafa komið til kæranda og viljað ræða við hana yfir einum kaffibolla í rólegheitum þar sem hann var frekar ósáttur við eitthvað í sambúðarslitum þeirra. Kvaðst hann hafa reiðst þegar hún hafi ekki viljað hleypa honum inn og því hafi hann brotið sér leið inn til hennar. Kvaðst hann sjá það núna þegar hann hafi verið búinn að róa sig niður að þetta hafi ekki verið rétt af honum að gera á þennan hátt. Honum var bent á að velja sér annan vettvang til að tala við hana en á heimili hennar. Kærandi féllst á að hitta ákærða á opinberum vettvangi skömmu seinna til að ræða málin.
Þann 21. ágúst 2001 tóku [...] rannsóknarlögreglumaður hjá [...] skýrslu af kæranda á heimili foreldra hennar á [...]. Kærði hún ákærða fyrir kynferðisbrot, húsbrot, líkamsárásir og hótanir á tímabilinu frá maí til 20. ágúst 2001. Hún kvaðst hafa farið til [...] til systur sinnar fimmtudaginn 16. ágúst 2001 ásamt [..] syni sínum. Hafi hún farið þangað til að vera í felum fyrir ákærða þar sem hún óttaðist ofbeldi af hans hálfu, auk þess sem hún vildi fá að vera í friði með syni sínum. Hafi hún leyft syninum að hringja í föður sinn laust fyrir hádegi þann 17. júlí. Hafi þeir rætt saman í stutta stund og drengurinn sagt föður sínum hvar þau væru og hún gert sér grein fyrir því að ákærði myndi halda rakleiðis þangað. Í beinu framhaldi af samtali þeirra feðga hafi hún ákveðið að fara rakleiðis heim og komast þannig hjá að hitta ákærða. Hafi hún ekið sem leið lá frá [...] til [...] en á leiðinni mætt ákærða. Um leið og þau mættust hafi ákærði stansað og snúið bifreið sinni við og haldið á eftir henni. Hafi hún reynt að stinga hann af, en hann hafi komist fram úr henni og lagt bifreið sinni þversum þannig að umferð komst ekki framhjá. Hafi hún neyðst til að stöðva bifreið sína og byrjað að bakka henni er ákærði kom albrjálaður út úr bifreið sinni. Hafi hann séð að hann myndi ekki ná henni og hafi hann sest inn í bifreið sína aftur. Hafi hún þá komist framhjá ákærða og ekið áfram en hann hafi elt hana. Þetta hafi orðið til þess að hún varð að aka á ofsahraða til [...]. Hafi hún ekið eitthvað um bæinn, hringt svo í foreldra sína og farið heim til þeirra. Hafi hún og ákærði farið að rífast fyrir utan húsið en hann bað um að fá að ræða við hana. Hafi hann brotnað saman og hafi viljað fá að ræða við hana á heimili foreldra sinna. Hafi hann viljað fara þangað og eiga þar við hana kynmök. Hún hafi hugsað með sér að ef hún léti undan ósk hans myndi hún hugsanlega fá frið fyrir honum í framtíðinni. [...] Hafi hún síðan farið heim rétt á eftir en bauð honum að aka honum á [..] þar sem hún vissi að hann ætlaði til [...] um kvöldið. Hún tók fram að kynferðisleg samskipti þeirra þarna hafi í raun verið gegn vilja hennar. Hún hafi talið að hún fengi frið fyrir honum ef hún yrði við þessu. Hafi hún vitað að ef hún léti ekki undan honum myndi hann halda ofsóknum sínum áfram gagnvart henni.
Í skýrslunni kemur ennfremur fram að hún hafi orðið vör við ákærða um kl. 16:30 sunnudaginn 19. ágúst 2001 er hann stóð fyrir utan svaladyr á baklóð heimilis hennar. Hafi hann svo komið að framdyrunum og beðið um að fá að tala við hana. Hún hafi opnað og hleypt honum inn í húsið. Hafi hann hrakið hana undan sér inn í svefnherbergi og skipað henni að fara úr buxunum. Hún neitaði því og sagði að það kæmi ekki til greina. Hafi hann ýtt henni þá upp í rúm og sest klofvega ofan á hana, hafi hún öskrað en hann hann tekið fyrir vit hennar með vinstri hendi og ógnað henni um leið með hnefa hægri handar. Hafi hún haldið áfram að öskra og komið honum af sér á einhvern hátt. Hann hafi svo rankað eitthvað við sér og hafi farið burtu við svo búið. Hún hafi svo farið að sækja son þeirra í [...]. Hafi ákærði þá verið kominn og sagði drengnum að koma með sér út í bíl. Hafi hann þráast við og hafi viljað fara með henni. Þrátt fyrir það hafi hann tekið drenginn nauðugan með sér og farið með hann heim til sín. Hún kvaðst hafa farið heim til sín en þar hafi hún brotnað algjörlega saman. Hafi hún haft samband við Þ lögreglumann og sagt henni frá atburðum og fengið að vita að þetta yrði bókað í dagbók.
Í skýrslunni er ennfremur lýsing á atburðum mánudagsins 20. ágúst en þeim atburði lýsti kærandi einnig fyrir dómi og verður hann rakinn síðar.
Þann 21. ágúst 2001 tók [...] rannsóknarlögreglumaður skýrslu af ákærða. Í skýrslunni kemur m.a. fram að aðfaranótt sunnudagsins 8. júlí 2001 í kringum þrjúleytið hafi hann séð kæranda þar sem hún var að rúnta með þremur karlmönnum í bifreið sinni. Hann kvaðst hafa orðið afbrýðisamur og stoppað akstur hennar með því að ganga í veg fyrir bílinn. Hann tekur fram að hann hafi verið talsvert ölvaður þegar þetta átti sér stað, en rökhugsun hafi þó verið í lagi. Hafi hann beðið hana um að losa sig við mennina og aka honum heim og spjalla við sig. Hún hafi neitað því. Hann tók fram að hann muni óljóst eftir þessu. Þessum samskiptum þeirra lauk með því að hún ók í burtu. Hafi hann síðan farið heim til sín um nóttina en minntist þess að hafa hringt heim til hennar en mundi ekki hvað þeim fór á milli. Á milli klukkan 06 og 08 ákvað hann að fara heim til hennar og spjalla við hana. Hafi hann tekið leigubíl. Minnti hann að hann hafi reynt að banka. Ekki mundi hann hvort hann talaði við hana í síma þá. Hún hafi ekki opnað og því hafi hann ákveðið að fara inn um glugga. Hann hafi slitið stormjárnið af glugga og farið inn um hann. Hann kvað þau hafa rætt saman í rólegheitum og hafi hann spurt hana út í hvort hún hafi sofið hjá einhverjum af þessum karlmönnum sem voru í bílnum og hvar hún hefði verið um nóttina. Hún hafi neitað að hafa sofið hjá einhverjum af þessum mönnum og hafi verið hjá vinkonu sinni. Hann hafi beðið hana í nokkur skipti um að hafa samfarir við sig, en hún hafi neitað í fyrstu en samþykkti svo að hann mætti eiga við hana kynmök, en hún ætlaði ekki að taka þátt í þeim. Hún hafi verið klædd í nærbrók og bol, en hann klæddur í gallabuxur og stuttermabol. Er þau ræddu saman hafi þau legið uppi í rúmi. Hann minnti að hann hafi hálflagst ofan á hana, tekið út á sér liminn og dregið klofbótina á nærbuxum hennar til hliðar. Honum hafi ekki gengið að koma lim sínum inn í leggöng hennar, þar sem að honum stóð ekki. Eftir það hafi hann farið á fætur, boðist til að greiða skemmdirnar og farið svo burt í leigubíl. Hann neitaði því alfarið að hafa reynt að binda hana á nokkurn hátt. Aðspurður hvort hann hafi snert kynfæri hennar í umrætt sinn, sagði hann að hann hefði verið með hendina á lim sínum þegar hann ætlaði upp á hana og reynt þannig að fá standpínu, en allt hafi komið fyrir ekki og engin kynmök áttu sér stað. Hann kvaðst ekki hafa snert kynfæri hennar að öðru leyti. Honum er tjáð að fram komi í skýrslu kæranda að hann hafi reynt að troða fingrum sínum inn í leggöng hennar í umrætt sinn, segir hann þetta alrangt, hann hafi aldrei gert það.
Aðspurður neitaði ákærði því að hafa hótað kæranda einhverju í umrætt sinn. Honum var tjáð að kærandi hafi greint frá í skýrslu sinni að hún hafi neitað að eiga við hann kynmök, en hann þá hótað að nauðga henni, hún hafi því farið að vilja ákærða og sagt honum að gera þetta bara. Hann sagði að þetta væri alrangt og tilbúningur hennar, hún væri bara að reyna að klekkja á honum.
Ákærði sagði að miðvikudaginn 15. ágúst 2001 hafi hann og kærandi talað saman heima hjá honum en um það hafi verið samið að hún tæki son þeirra til sín að lokinni fótboltaæfingu í hádeginu daginn eftir. Hann tók fram til skýringar að drengurinn hafi meira og minna verið í hans umsjón síðast liðin 2-3 ár. Þegar hann kom að æfingasvæðinu um hádegi daginn eftir hafi komið í ljós að drengurinn var ekki þar. Hann hafi þá hringt í kæranda til að spyrja hvar þau væru, en hún hafi alltaf skellt á hann. Hann hafi þá fljótlega gert sér grein fyrir að hún væri hlaupin í felur með drenginn. Hafi hann loksins fengið að ræða við drenginn um hádegisbil föstudaginn 17. ágúst og hann sagt að þau væru stödd á [...] Hafi hann ákveðið að fara til [...] og hitta drenginn. Hann minntist þess að kærandi hafi öskrað á drenginn og skammað hann fyrir að segja hvar þau væru. Hafi hann ekið frá [...] í átt til [...] og mætt kæranda skammt frá [...]. Hafi hann snúið við og elt hana og ekið framúr henni, hægt ferðina og lagt bílnum á miðjum veginum. Tilgangur hans hefði verið að stöðva akstur hennar og ná tali af henni. Hún hafi bakkað frá honum, komist framhjá og ekið sem leið lá inn [...]. Þar hafi hún sótt elsta son sinn og síðan ekið til [...]. Á leið sinni hafi kærandi ekið mjög greitt og tekið ýmsa áhættu. Ákærði tók fram að hann hafi fylgt henni fast eftir í fyrstu og ætlað að komast fram fyrir hana, en hann hafi dregið úr eftirförinni til að skapa ekki óþarfa hættu. Hann kvaðst hafa rætt einslega við kæranda á bílaplaninu, hafi hann spurt hana hvort þau gætu ekki hist, átt samfarir, orðið vinir og leyst þetta í góðu, eins og svo oft áður. Kærandi hafi verið mótfallin þessu í fyrstu, en svo samþykkt að eiga við hann kynmök einu sinni og skilja svo í sátt. Hafi þau síðan hist heima hjá honum, afklæðst og lagst upp í rúm. Hún hafi þá sagt honum strax að hún vildi ekki eiga við hann kynmök. Uppi í rúminu hafi þau strokið hvort annað m.a. hafi þau [...], hafi hún verið samþykk því og hafi hann[...]. Þau hafi kúrt saman í smástund, hun klætt sig og farið svo í burtu.
Þegar hann kom heim laugardaginn 18. ágúst hafi hann hann fengið upplýsingar um að bifreið Æ hafi verið fyrir utan heimili hennar þá um nóttina. Hafi honum gramist þetta og fundist vera kominn brestur í það traust sem hann og kærandi voru ásátt um að hafa sín á milli. Hafi hann hringt í hana og sent henni einhver SMS skilaboð en hún skellt á hann, en svarað einhverjum SMS skilaboðum. Svaraði hún einhverju sem hann sá ekki ástæðu til að tilgreina nánar. Hafi hann ákveðið að fara heim til hennar og hafi hann verið kominn þangað milli kl. 16 og 16:30. Hafi hann hringt dyrabjöllunni en hún ekki svarað. Hafi hún komið í eldhúsglugga eða forstofuna og sagt honum að koma sér í burtu þar sem þau hefðu ekkert um að ræða. Hafi hann farið inn á baklóðina og séð að hún var í stofuglugganum. Hafi hún hleypt honum inn og þau rætt um þessi mál. Hafi hann krafið hana um svör hvers eðlis samband hennar væri við Æ. Hún hafi svarað að þau væru trúnaðarvinir, hún væri hrifin af honum en tók fram að þau ættu ekki nein kynferðisleg samskipti. Hann hafi svo farið í burtu og hún skellt á eftir honum hurðinni. Hann neitaði að hafa beitt kæranda nokkru ofbeldi í umrætt sinn. Hafi þau verið í stofunni til að byrja með meðan þau ræddu saman og svo hafi þau farið inn í svefnherbergi. Hafi þau rifist, hún hafi verið á ferðinni og hafi hann elt hana. Þau hafi ekki lagst upp í rúmið í þetta skipti. Aðspurður neitaði hann því að hafa beðið hana um kynferðislegan greiða í þetta sinn. Hann neitaði því alfarið að í þetta skipti hafi hann skipað henni að fara úr buxum og hafi hrakið hana inn í svefnherbergið, ýtt henni upp í rúm og sest klofvega ofan á hana, tekið um vit hennar með vinstri hendi og ógnað henni með krepptum hnefa. Hér sé um tilbúning kæranda að ræða. Eftir að hann yfirgaf húsið hafi hann sótt son þeirra [...]. Þegar hann sótti drenginn hafi kærandi komið og ausið yfir hann svívirðingum og barið ítrekað. Hafi hann tekið drenginn og farið með hann í burtu.
Hann kvaðst hafa farið heim til kæranda sunnudagskvöldið 19. ágúst ásamt syni þeirra þar sem drengurinn hafi þurft að skipta um föt. Er þeir komu þangað hafi Æ verið á staðnum. Honum hafi mislíkað þetta, það hafi hvarflað að honum að samband kæranda og Æ hefði orðið þess valdandi að 10 ára sambúð þeirra væri að ljúka. Allt hafi farið fram með góðu og ekkert orðaskak. Daginn eftir hafi hann ekið drengnum á fótboltaæfingu um kl. 10:00. Hafi hann ákveðið að fara heim til kæranda og ræða við hana umgengnismál varðandi drenginn. Hafi hann byrjað að hringja bjöllunni og bankað á dyrnar. Hafi hann hringt heim til hennar og hún svarað símanum og sagst ekki vilja tala við hann. Hún hafi komið út í eldhúsgluggann og sagt honum að fara í burtu, hann ætti von á stefnu frá lögmanni hennar. Hafi hann spurt hana hvort þau gætu ekki rætt málin yfir kaffibolla en hún neitað því. Hann kvaðst hafa hugsað með sér að fyrst hún ætlaði að láta svona skyldi hann bara fara inn um glugga og ræða við hana. Hafi hann gengið bak við húsið, þar hafi hann séð opinn glugga í stofunni og kippt glugganum upp og gerði ráð fyrir því að stormjárnið hefði slitnað. Hafi hann farið inn um gluggann og fundið kæranda inni í svefnherberginu. Hafi hann séð að hún var með GSM-síma í höndum og hafi beðið hana að láta sig fá símann. Hún hafi sýnt honum að það hafi verið slökkt á símanum og sett hann á náttborðið. Hann hafi grunað að hún hefði hringt í lögreglu en ekki krafið hana um svör við því. Hafi þau farið að þrátta um samskipti þeirra. Hann minnti að hún hafi ýtt honum út að hurðaropinu og að hann hafi ýtt henni til baka þannig að hún féll á rassinn í rúmið. Svo hafi lögreglan komið á vettvang og hann gengið út. Hann minnti að hún hafi verið klædd í fjólubláa flíspeysu en viti ekki í hvernig buxum hún var. Hann var spurður hvort hann hafi beitt kæranda ofbeldi í þetta skipti. Hann kvaðst ekki hafa lagt hendur á kæranda, en hann hafi þó ýtt við henni. Hann sagði að það væri alrangt að hann hefði tekið band af náttsloppi hennar og vafið utan um háls hennar, hrint henni í rúmið og sest klofvega ofan á hana og hert að. Hann kveðst ekki hafa minnst á samskipti hennar og Æ, heldur hafi hann farið til að ræða málefni sonar þeirra fyrst og fremst, en kvöldið áður hafi hann rætt um samskipti hennar og Æ. Hann segir að í þetta skipti hafi þau ekki haft nein kynferðisleg samskipti og neitar því að hann hafi átt nokkur kynferðisleg afskipti af henni. Hann segir að það sé hrein lygi og uppspuni að hann hafi heimtað að hún setti fætur í sundur þannig að hann gæti athugað, með því að setja fingur inn í leggöng hennar, hvort sæði væri að finna þar.
Þann 14. september 2001 mætti kærandi hjá fulltrúa sýslumanns á [...] í því skyni að draga til baka kærur þær sem hún hafði sett fram á hendur ákærða. Lýsti hún því yfir að hún gerði hvorki refsi- né bótakröfur á hendur honum. Var henni leiðbeint um að mál þetta sætti meðferð hjá [...] og var erindi hennar vísað þangað.
III.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Fyrir dómi bar ákærði að sambúð hans og kæranda hafi staðið í nær 10 ár og hafi lokið í [...] 2001. Hafi hún átt við áfengisvandamál að stríða og verið ofsafengin með áfengi, en hann hafi aldrei lagt hendur á hana að fyrra bragði. Hann hafi einu sinni rætt þeirra mál við lögregluvarðstjóra og yfirlögregluþjónn síðan rætt málið við sig.
Varðandi I. kafla ákærunnar kvaðst ákærði trúlega hafa sent þessi SMS skilaboð en hann mundi ekki eftir þeim sérstaklega. Aðspurður um skilaboð nr. 1, 5 og 8, hvort hann hefði grunað að kærandi ætti í sambandi við annan mann þá kvað hann það trúlegt en hann hafi ekki vitað það en hann hafi hins vegar vitað hún átti vin. Honum hafi ekki mislíkað það en mislíkaði að hún gat ekki gert upp þeirra samband. Aðspurður um skilaboð nr. 6 hvað dráttur merkti þar þá væri það sama og samræði. Í hvaða tilefni það hafi verið sent þá hafi það tengst einhverju rifrildi, en það hafi ekki tengst umgengni við son þeirra. Öll samskipti þeirra á þessum tíma hafi farið fram í gegnum SMS skilaboð og efni þeirra væri meiningarlaust. Hann hafi hins vegar ekki vistað SMS boð frá kæranda, en skilaboðin hafi verið send í hita leiksins. Hún hafi hótað að ganga frá honum, drepa hann, ganga eins langt og hún þyrfti til að hann fengi ekki drenginn og þess vegna kæra hann. Hann hafi ekki haft neinn beyg af þessum hótunum hennar og taldi að hún hefði ekki haft ástæðu til að óttast skilaboð hans.
Varðandi 1 tl. í II. kafla ákæru þá neitaði hann því að hafa gert tilraun til að nauðga kæranda á heimili hennar 8. júlí 2001. Hann viðurkenndi að hafa brotist inn á heimili hennar. Hann hafi reyndar verið fluttur, þ.e.a.s. hættur að sofa þarna reglulega. Hann hafi hitt kæranda niðri í bæ nóttina áður og hafi séð þrjá farþega í bifreið hennar. Hann hafi stöðvað bílinn og beðið hana að losa hann en hún hafi neitað því. Hann hafi síðan farið upp í lögreglubifreið og farið heim til sín. Hafi hann reynt að ná sambandi við hana um morguninn og sagðist myndi koma til hennar í leigubíl. Hafi hann barið á útidyrnar en ekki verið svarað. Hafi hann slitið upp stormjárn á glugga og farið inn um gluggann og inn í íbúðina. Hafi hann hitt hana í holi og þau farið inn í svefnherbergi og lagst upp í rúm og rætt saman um sín mál. Sagðist hann hafa spurt hana hvort hún vildi hafa við hann samfarir, hún sagði það í lagi af sinni hálfu, en ekki taka þátt í þeim. Hann hafi girt niður um sig en ekki fengið stinningu. Hafi hann fært klofbótina á nærbuxum hennar frá, annað hafi ekki gerst og hann hafi yfirgefið húsið og farið heim í leigubíl. Hann hafi ekki haft neinar hótanir í frammi og ekki reynt að binda hendur hennar.
Aðspurður hvort hann hafi verið afbrýðissamur á þessu tímabili, svaraði hann því neitandi, taldi að hann hafi frekar verið reiður og gramur, en hélt að hann hefði ekki verið beint afbrýðissamur. Hann hafi ekki haft ama af því þó að hún væri með öðrum karlmönnum.
Varðandi 2. tl. í II. kafla ákærunnar neitaði ákærði því að hafa vafið bandi um háls kæranda og sett fingur í leggöng hennar mánudaginn 20. ágúst. Hafi hann komið á heimili hennar laugardaginn 18. ágúst um kl. 16:00. Hafi hann farið bak við húsið og hún hleypt honum inn og þau farið að rífast. Hafi hann yfirgefið húsið og náð í son þeirra í [...]. Hafi hún komið og heimtað drenginn og lamið sig í höfuð og bak, en hann hafi ekið í burtu með drenginn.
Þann 20. ágúst hafi hann ekið syni þeirra á [...] um kl. 10:00. Í framhaldi af því hafi hann farið að heimili kæranda og inn um stofuglugga með því að slíta upp stormjárn. Þegar inn var komið hafi hann farið inn í svefnherbergi þar sem kærandi lá í rúminu og var í símanum. Hafi hann tekið af henni símann og eftir smátíma hafi lögreglan komið á vettvang. Hann hafi ætlað að ræða við kæranda um mál sonar þeirra, búslóð sína og ýmislegt í sambandi við þeirra málefni.
Aðspurður af hverju hún bæri hann sökum þá sagði hann skýringuna á því að í tvígang hefði hann reynt að skilja við hana, fyrir 5 og 3 árum. Hafi hann tekið saman við stúlkur og hún orðið mjög afbrýðisöm. Þau hafi í bæði skiptin tekið saman aftur en hún hafi alltaf verið afbrýðisöm, full vantrausts og heiftar.
Þegar sækjandi benti ákærða á að kærandi hafi slitið sambandinu síðast, sagði hann að þau hefðu í raun aldrei verið endanlega skilin og hafi verið að hittast s.l. sumar og stundað kynlíf. Hann neitaði því í sambandi við forsjá drengsins að hann hafi orðað það við kæranda að þau hittust reglulega og hefðu kynlíf, það hafi verið máli drengsins algjörlega óviðkomandi, en þau hafi verið á leið í forsjárdeilu. Kærandi hafi hótað honum lífláti, mundi ekki hvenær, en margt hafi verið sagt á báða bóga og margt ljótt án nokkurra meininga. Öll þeirra samskipti hafi farið í gegnum SMS skilaboð og skætingur gengið þeirra á milli. Annars hefði allt verið í hávaða og rifrildi. Hafi hún sent honum SMS skilaboð þar sem hún var tilbúin að draga kæru sína til baka ef hann félli frá forsjárdeilu og hafi hann sýnt föður sínum þetta skeyti. Þann 3. október s.l. hafi hann fengið SMS skilaboð frá henni um að skila drengnum á nákvæmlega ákveðnum tíma og gera sér grein fyrir hver hefði valdið. Eitt símtal og svo væri hann búinn að vera. Hafi hún ætlað að nota kæruna sem svipu í forsjárdeilunni. Ekki hafi hann beitt hana þrýstingi að draga kæruna til baka. Hann hafi talað við systur hennar en ekki beitt þær neinum þrýstingi heldur. Ekki var honum kunnugt um afskipti fjölskyldu sinnar, vissi þó að faðir hans og föðursystir höfðu talað við hana. Þetta hafi hann frétt seinna.
Ákærði bar að hann og kærandi hafi haft samfarir þrisvar sinnum um sumarið 2001, þau hafi hist, lítið talað, eingöngu hafi verið um kynlíf að ræða og hann hafi ekki þurft að þröngva henni til þess.
Kærandi bar að fyrir þremur og hálfu ári hafi hún og ákærði skilið og hafi þau þá skipt eignum sínum en sambúðin hafi staðið í 10 ár með hléum. Ákærði hafi þó ennþá átt húsgögn á heimilinu. Er þau hófu sambúð í upphafi þá hafi kona verið ófrísk eftir hann, ári síðar hafi hann verið með barnsmóður sinni á gamlárskvöld og uppúr þessu hafi samband þeirra orðið stormasamt. Er þau slitu sambandi fyrir þremur árum hafi það verið vegna framhjáhalds ákærða, en síðan hafi þau tekið saman aftur, þar til hún hafi ákveðið að slíta sambandinu. Oft hafi komið til átaka milli þeirra og þau slegist í svefnherberginu. Það hafi verið gagnkvæm afbrýðissemi, hún kvaðst ekki hafa ráðist á ákærða að fyrra bragði og hann mun sterkari en hún og haft í hótunum að slá nef hennar upp í heila og drepa hana. Þau hafi haft sameiginlega forsjá yfir syni þeirra og gengið frá samningi í ágúst s.l. um umgengni við barnið. Hafi hún lítið fengið að sjá barnið, þar sem ákærði hafi tekið ákvörðun um að hafa það, hafi hann sett skilyrði, ef hún sinnti honum kynferðislega þá fengi hún barnið. Hafi hún einu sinni orðið við þessu 17. ágúst s.l. í eftirleik af [...], svo sem áður hefur verið lýst. Hafi hún ákveðið að selja sig til þess að fá að hitta barnið.
Varðandi SMS skilaboðin þá hafi hún fengið bæði í maí og júní skilaboð, sem hún hafi talið að væru bull. Um miðjan júlí s.l. hafi hún hins vegar farið að taka skilaboðin alvarlega og óttast að hann stæði við hótanir sínar og því hafi hún vistað boðin. Í upphafi hafi hún svarað honum fullum hálsi og örugglega sýnt svívirðingar á móti og hótanir um að fara í forsjármál vegna barnsins.
Varðandi 1. tl. í II. kafla ákærunnar lýsti hún atvikum á sömu lund og hjá lögreglu. Er hún neitaði að vísa mönnunum út úr bifreið sinni þá hafi ákærði sagt við hana að hún skyldi muna hvað hann hafi verið búinn að segjast munu gera, þ.e.a.s. að drepa hana. Hún hafi komið heim til sín um kl. 07:00 og sofnað, en hún hafi átt að mæta í vinnu kl. 10:00. Hún hafi ekki heyrt símhringingu og vaknað upp við það er ákærði var búinn að brjótast inn, hann hafi ráðist á hana, haldið henni fastri og troðið fingrum í leggöng hennar til að leita að sæði. Ákærði hafi ráðist að henni og reynt að halda henni fastri, en mundi ekki hvort hann reyndi að binda hana. Hafi hann sagst ætla að fá sínu framgengt kynferðislega. Kærandi kvaðst þá hafa sagt við ákærða að hún hefði ekki krafta til að slást við hann og hann skyldi þá gera það sem honum þóknaðist. Hún kvaðst síðan hafa litið undan. Ákærða hafi aftur á móti ekki staðið nægjanlega, kvaðst hún ekki muna hverju hann hótaði, en hann hafi sagt að hún væri helvítis tussa vegna þess að honum tókst ekki að koma fram vilja sínum.
Varðandi ákærulið lið 2 í II. kafla ákæru þá hafi ákærði birst um kl. 10:00 og hringt dyrabjöllunni, hún hafi sagt honum að fara það kæmi ekki til greina að hleypa honum inn. Hafi hún farið inn í rúm, verið með GSM síma og stimplað inn númer lögreglu. Hafi hún heyrt að gluggi var rifinn upp og þá ýtt á símann. Þegar ákærði var kominn inn hafi hann ætlað að taka af henni símann, ýtt henni á rúmið, haldið henni fastri og sett fingur inn í leggöng til að athuga sæði. Hann hafi tekið band af náttslopp vafið því um um háls hennar og þrengt að. Við þetta hafi hún misst andann, en komið fingri á milli og í sömu andrá hafi lögregla hringt dyrabjöllunni.
Kærandi kvað föðursystur ákærða hafa haft samband við elstu systur sína og einnig talað við sig. Ákærði hafi einnig haft samband við systur kæranda og og beðið þær um að hlutast til um að kæran yrði dregin til baka. Þá hafi faðir ákærða talað við sig í þeim tilgangi að fá hana til að falla frá kærunni gegn því að hann tæki ábyrgð á ákærða. Á endanum kvaðst hún hafa gefist upp á þessu og ákveðið að kaupa sér frið og afturkalla kæruna.
Loks bar kærandi að þegar allt lék í lyndi hafi kynlíf þeirra verið venjulegt og ekki ofbeldistengt.
Vitnin Æ, A og B voru í för með kæranda aðfaranótt 8. júlí 2001. Báru þeir allir að ákærði hafi komið að bifreiðinni og óskað eftir því við kæranda að hún losaði sig við þá til að hann gæti rætt nánar við hana. Báru þeir allir að þau hafi rifist en að endingu hafi ákærði farið á brott.
Vitnið [...], lögreglumaður, bar að vegna útkalls lögreglu þann 18. ágúst, hafi kærandi óskað eftir aðstoð lögreglu vegna þess að ákærði hafi veist að henni, hafi hún verið rauð á hægri kinn, verið ör og svolítið miður sín og sagt að ákærði hefði veist að sér og beitt sig tökum. Hafi hún orðið hrædd þegar henni var sagt að þetta yrði fært til bókar. Hafi hún sagt að ákærði hefði notað vel valin brögð, án frekari skýringa. Hafi henni verið sagt að ef hún hringdi aftur myndi lögregla bregðast skjótt við.
[...], lögregluvarðstjóri, kvaðst hafa farið á vettvang 20. ágúst. Nýlegt stórt skófar hafi verið á útidyrahurð heimilis kæranda, knúið hafi verið dyra en ekki verið opnað og tveir lögreglumenn farið á bak við húsið. Hafi kærandi opnað og beðið um að ákærði yrði fjarlægður, hafi hún verið mjög æst og hafi viljað losna strax við hann. Hafi ákærði verið mjög ósáttur að fá ekki að ræða við kæranda og hann farið út. Martha kvaðst hafa rætt við kæranda en hún hafi ekki viljað á þessum tíma ræða um hvað hefði gerst. Engir áverkar hafi verið sjáanlegir á kæranda en hún hafi þó verið rauð á hálsi.
Vitnið [...], lögreglumaður, kom á vettvang þann 20. ágúst. Hann kvaðst hafa séð skófar á útidyrahurðinni, útlínur hafi ekki sést, taldi hann skófarið nýlegt. Þegar hann kom inn í íbúðina hafi ákærði verið að klæða sig í skó en þau bæði verið æst og trekkt. Kærandi hafi viljað losna við ákærða sem hún sagði hafa brotist inn og ráðist á sig og sett band um háls hennar. Vitnið kvaðst ekki hafa séð áverka á henni, en hún hafi verið æst og rjóð í andliti.
Vitnin [...] og [...] lögreglumenn fóru á vettvang þann 20. ágúst.
[...] faðir ákærða, sagði að ákærði hefði sýnt honum ein SMS skilaboð frá kæranda í þá veru að ef ákærði gæfi skriflega yfirlýsingu um að hann færi aldrei í forsjárdeilu þá félli hún frá kæru. Önnur skilaboð hafi hann séð frá henni til ákærða, efnislega á þann veg að ákærði skildi gera sér grein fyrir hver færi með valdið, eitt símtal og hann væri búinn að vera. Hann kvaðst hafa talað við kæranda um kæruna, en alls ekki beitt hana neinum þrýstingi að draga hana til baka.
[...] föðursystir ákærða, kvaðst hafa heimsótt kæranda þann 4. september s.l. Kærandi hafi talað mest um hræðslu sína en eftir því sem þær töluðu lengur saman fannst henni sem hún greindi ekki hræðslu hjá kæranda og taldi að hún gerði meira úr hræðslu sinni en efni stæðu til enda væri hún sterkur einstaklingur.
[...] systir kæranda, sagði að ákærði hefði hringt í sig tvisvar og komið einu sinni til sín í vinnuna og beðið sig um að biðja kæranda að draga kæruna til baka. Samskipti þeirra hafi verið á vinsamlegum nótum og hann ekki beitt sig þrýstingi. Samband ákærða og kæranda hafi verið mjög stormasamt frá byrjun. Þau hafi enga samleið átt, þau hafi bæði komið með bakgrunn inn í sambandið og ekki getað unnið úr sínum málum. Hún sagði ákærða einu sinni hafa haft orð á því að ef hún drægi ekki kæruna til baka þá væri hann vís til alls.
Vitnið [...] systir kæranda, sagði að föðursystir ákærða hefði talað við sig einu sinni og beðið sig að hafa áhrif á að systir hennar drægi kæruna til baka. Ákærði hafi líka talað nokkrum sinnum við sig, honum hafi liðið illa yfir þessu og verið mjög sár og svekktur, orðaði eitthvað á þá leið að ef þetta færi í gegn myndi hann ekki hlífa kæranda. Hún kvaðst ekki hafa upplifað þrýsting frá ákærða.
IV.
Álit dómsins:
Í I. kafla ákæru er ákærða gefnar að sök refsinæmar hótanir í garð Y fyrrum sambýliskonu sinnar, með því að senda henni SMS-skilaboð á tímabilinu 15. júlí til 16. ágúst 2001, eins og nánar er rakið í 1.-11. tl. þessa ákærukafla.
Ákærði hefur fyrir dómi og hjá lögreglu kannast við að hafa sent þessi skilaboð. Þegar skilaboðin eru virt verður ekki einvörðungu litið til efnis þeirra heldur verða þau einnig metin í ljósi mikils ágreinings milli ákærða og Y og framgöngu ákærða sem lýsti sér meðal annars í því að hann hafði áður en skilaboðin voru send brotist inn á heimili hennar 8. júlí sama ár. Með hliðsjón af þessu hlaut ákærða að vera öldungis ljóst að hótanir hans um líflát og ofbeldi í garð konunnar voru til þess fallnar að vekja hjá henni ótta um líf hennar og velferð. Í þessu sambandi breytir engu þótt ákærði hafi að meira eða minna leyti verið að bregðast við skilaboðum frá konunni, sem hann taldi fela í sér svívirðingar í sinn garð, enda gat hann fráleitt af þeim sökum talið að hótanirnar væru meinlausar.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið hefur ákærði með því að senda þau SMS-skilaboð sem rakin eru í 1.-11. tl. I. kafla ákæru gerst sekur um refsinæmar hótanir í garð konunnar og varða brot hans við 233. gr. almennra hegningarlaga.
Hjá lögreglu og fyrir dómi hefur ákærði neitað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í II. kafla ákæru, en þau eru annars vegar að hafa gerst sekur um tilraun til að nauðga konunni 8. júlí 2001 og hins vegar að hafa beitt hana líkamlegu ofbeldi og kynferðisbroti 20. ágúst sama ár, eins og nánar er lýst í ákæru.
Ákærða og konunni ber í megin atriðum saman um að sambúð þeirra sem stóð með hléum í áratug hafi verið stormasöm þar til þau slitu samvistir vorið 2001, en fram hefur komið í málinu að konan hafi átt frumkvæði að sambúðarslitum. Við yfirheyrslu hjá lögreglu greindi ákærði frá því að hann hafi orðið afbrýðisamur þegar hann sá til konunnar í bifreið með þremur karlmönnum aðfararnótt 8. júlí en í kjölfar þess atburðar er ákærða gefið að sök í 1. tl. II. kafla ákæru að hafa gert tilraun til að nauðga konunni. Ákærði greindi einnig frá því hjá lögreglu að honum hafi gramist þegar hann fékk upplýsingar um að Æ, vinar konunnar, hafi verið fyrir utan heimili hennar nóttina 18. ágúst. Þá hafi honum mislíkað að hitta Æ á heimili konunnar daginn eftir.
Þvert á framburð hjá lögreglu hefur ákærði fyrir dómi greint svo frá að honum hafi ekki mislíkað að konan væri í sambandi við annan mann. Hjá því verður hins vegar ekki litið að í SMS-skilaboðum þeim sem ákærði sendi konunni og rakin eru í 1., 5. og 8. tl. I. kafla ákæru víkur ákærði beinlínis að öðrum manni í lífi konunnar og má af þessum skilaboðum ráða að honum hafi síður en svo verið sama um þau samskipti konunnar. Einnig kemur fram í skeytum sem getur í 6. og 10. tl. að ákærði sæktist eftir kynferðislegum samskiptum, auk þess sem ákærði hefur fyrir dómi kannast við að hafa sóst eftir kynlífi með konunni á því tímabili sem ákæran tekur til. Að þessu virtu þykir framburður ákærða fyrir dómi um að honum hafi staðið á sama um samband konunnar við annan mann bera ótvíræðan vott um að hann reyni að draga úr og fegra hlut sinn.
Ákærði hefur borið á þann veg að hann hafi farið þess á leit við konuna að þau hefðu samfarir á heimili hennar að morgni 8. júlí 2001. Hafi hún fallist á það en þó tekið fram að hún ætlaði ekki að taka þátt í samförunum. Þessi framburður ákærða þykir afar ótrúverðugur þegar litið er til aðdraganda þessara samskipta, sem lýstu sér meðal annars í því að ákærði hafði brotist inn á heimili hennar, þar sem hann átti alls kostar við konuna. Á hinn bóginn styður þetta staðfastan og trúverðugan framburð konunnar um að hún hafi einfaldlega sagt honum að fara sínu fram og litið undan þegar ákærði lagðist á hana. Að þessu virtu er ljóst að ákærða gat ekki dulist að hann neytti yfirburða sinna gagnvart konunni í því skyni að þröngva henni til samræðis. Þykja þessar þvinganir ákærða þess eðlis að brot hans samkvæmt 1. tl. II. kafla ákæru varði við 195. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, en vörn málsins hefur ekki verið áfátt með tilliti til þeirrar heimfærslu brotsins, sbr. 117. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
Í 2. tl. II. kafla ákæru er ákærða gefin að sök líkamsárás gegn konunni á heimili hennar 20. ágúst 2001 og kynferðisbrot með því að hafa sett fingur í leggöng hennar. Lögreglumenn sem komu á vettvang í umrætt sinn hafa borið að konan hafi verið í miklu uppnámi. Þeir urðu þó ekki varir við að hún hefði hlotið áverka ef frá er talið að hún hafi verið rauð á hálsi. Þótt ætla megi miðað við framburð ákærða og konunnar að komið hafi til átaka milli þeirra eftir að ákærði hafði brotist inn á heimili hennar þykir varhugavert gegn eindreginni neitun ákærða að telja fram komna lögfulla sönnun um brot hans. Verður ákærði því sýknaður af þessum ákærulið.
Samkvæmt framansögðu hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt 233. gr. og 195. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar ákærða þykir verða að líta til þess að hann hefur á ófyrirleitinn hátt gerst sekur um meingerð gagnvart konunni, einkalífi hennar og friðhelgi. Tiltaka ber refsingu ákærða samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Með hliðsjón af því að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot svo kunnugt sé þykir mega fresta fullnustu 9 mánaða af refsingunni og falli hún niður að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Sigfússonar, hdl., sem eru hæfilega ákveðin 200.000 krónur, auk virðisaukaskatts, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Þallar Þórgnýsdóttur, hdl., sem er hæfilega ákveðin 100.000 krónur, auk virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Ásgeir Pétur Ásgeirsson, dómsformaður, og Benedikt Bogason og Halldór Halldórsson, dómstjóri.
Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómsformanns.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Sigfússonar, hdl., 200.000 krónur, auk virðisaukaskatts, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingu Þallar Þórgnýsdóttur, hdl., 100.000 krónur, auk virðisaukaskatts.