Hæstiréttur íslands

Mál nr. 801/2017

Sigurður Frans Þráinsson (Jónas Haraldsson lögmaður)
gegn
Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf. (Jón Magnússon lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Réttaráhrif dóms
  • Sakarefni
  • Málsástæða
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli S á hendur Ú ehf. var vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að fallist yrði á með héraðsdómi að meginregla 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 girti fyrir að S gæti reist málið á málsástæðum sem honum hefði verið kleift að afla efnisúrlausnar um í fyrra máli sínu á hendur Ú ehf. sem dæmt var í Hæstarétti. Samkvæmt þessu var úrskurður héraðsdóms staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. desember 2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild var í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um frávísun málsins frá dómi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Kemur því ekki til álita krafa hans um breytingu á ákvæði úrskurðarins um málskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómi að meginregla 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 girði fyrir að sóknaraðili geti reist mál þetta á málsástæðum, sem honum hefði verið kleift að afla efnisúrlausnar um í fyrra máli sínu á hendur varnaraðila sem dæmt var í Hæstarétti 15. september 2016 í máli nr. 774/2015. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 2. apríl 2004 í máli nr. 100/2004 og 20. janúar 2014 í máli nr. 817/2013.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sigurður Frans Þráinsson, greiði varnaraðila, Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands föstudaginn 8. desember 2017

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 23. október 2017 um kröfu stefnda um að málinu verði vísað frá dómi, er höfðað af Sigurði Frans Þráinssyni, kt. [...], Skógarási 9, Reykjavík á hendur Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf., kt. [...], Illugagötu 36, Vestmannaeyjum.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur, aðallega til að greiða stefnanda kr. 2.885.383, en til vara kr. 1.076.830, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af dæmdri fjárhæð frá 15. júní 2014 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þá krefst stefnandi viðurkenningar á sjóðveðrétti í Glófaxa VE-300, skipaskrárnúmer 968, til tryggingar öllum dæmdum kröfum.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður. Þá krefst stefndi í öllum tilvikum þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, en áskilinn er réttur til að leggja fram slíkan reikning við aðalmeðferð málsins, ef til hennar kemur. Þá er gerð krafa um að álag verði lagt á málskostnað.

Í þessum þætti málsins er aðeins fjallað um frávísunarkröfu stefnda.

Fyrir uppkvaðningu úrskurðar var gætt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Málavextir

Ekki eru aðilar sammála um málavexti að öllu leyti, en fram kemur hjá þeim báðum að stefnandi hafi um árabil starfað hjá stefnda.

Þann 16. desember 2013 var stefnanda sagt upp störfum sem 1. stýrimanni á m/b Glófaxa hjá stefnda og tekið fram í uppsagnarbréfi að það væri vegna samstarfsörðugleika. Sagði í bréfinu að ef til kæmi þá gæti verið að óskað yrði eftir því að stefnandi ynni uppsagnarfrestinn. Jafnframt var tekið fram í bréfinu að samningur sá sem gerður hafi verið við stefnanda þann 19. október 2013 sem skipstjóri m/b Glófaxa og gilt hafi til 31. desember 2013 yrði ekki endurnýjaður.

Kveður stefndi að þann 6. janúar 2014 hafi verið haft samband við stefnanda og hann boðaður í vinnu daginn eftir í Vestmannaeyjahöfn þar sem hann skyldi taka þátt í vinnu við að mála m/b Glófaxa. Hafi stefnandi mætt skv. þessu þann 7. janúar 2014 og unnið við þetta fram eftir degi, en síðan látið sig hverfa af verkstað án þess að gera viðvart um það. Ekki hafi stefnandi mætt til vinnu daginn eftir og ekkert frá honum heyrst.

Stefnandi kveður að þann 8. janúar 2014 hafi hann orðið óvinnufær eftir að hafa runnið til við vinnu sína og fengið slæman hnykk á bakið. Þetta hafi leitt til þess að hann hafi verið úrskurðaður óvinnufær frá 8. janúar 2014 til 15. júní s.á. og þurft að gangast undir brjósklosaðgerð. Styðst þetta við framlögð vottorð, en stefndi kveður að 8. janúar 2014 hafi stefnandi ekki verið við vinnu heldur hafi hann látið sig hverfa úr vinnu þann 7. janúar eins og áður segir.

Stefndi kveður að þann 13. janúar 2014 hafi framkvæmdastjóri stefnda haft samband við stefnanda og spurt hann um fjarveru sína og stefnandi svarað því til að hann væri óvinnufær vegna veikinda í baki en síðar breytt því og sagst hafa verið óvinnufær vegna vinnuslyss sem hafi átt sér stað um borð í m/b Glófaxa.

Er óumdeilt í málinu að stefnandi vann síðast í þágu stefnda þann 7. eða 8. janúar 2014 og var óvinnufær eftir það.

Kveður stefndi að í framhaldi þessa hafi stefnandi afhent stefnda vottorð frá læknum og beiðnir um sjúkraþjálfun, en stefndi talið að stefnandi ætti ekki rétt til frekari greiðslna enda hefði ekkert slys átt sér stað, stefnandi ekki unnið í uppsagnarfresti eins og honum hefði borið að gera og hann hefði aukinheldur leynt bakmeiðslum við ráðningu sína. Allt að einu hafi stefndi, umfram lagaskyldu, greitt stefnanda laun fyrir tímabilið desember 2013 til maí 2014 og talið sig hafa gert afar vel við stefnanda.

Stefnandi taldi sig eiga rétt til frekari greiðslna frá stefnda og höfðaði mál á hendur honum vegna þess í nóvember 2014. Krafðist hann þar veikindalauna vegna óvinnufærni sinnar, en stefnandi kveður að þar sem stefndi hafi ekki fengist til að gefa upp staðgengilslaun þá hafi dómkrafan verið ríflega áætluð upphaflega, kr. 2.500.000.

Í téðu dómsmáli mun stefndi hafa lagt fram greinargerð sína 11. desember 2014 og kveður stefnandi að sér hafi þá fyrst orðið ljóst að stefndi hafi aldrei verið að greiða honum veikindalaun heldur laun í uppsagnarfresti. Hafi stefndi byggt á því í málinu að stefnandi hafi aldrei átt rétt á veikindalaunum heldur launum í uppsagnarfresti, sem væri búið að greiða honum að fullu. Við svo búið hafi stefnanda orðið ljóst að verulega vantaði upp á rétt full laun í uppsagnarfresti. Hafi því stefnandi fengið framkvæmdastjóra Sjómannasambandsins til að reikna út hvorutveggja vangreidd veikindalaun, sem hafi reynst vera kr. 584.904, og vangreidd staðgengilslaun í 3 mánuði af 5 mánaða uppsagnarfrestinum, sem hafi reynst vera kr. 2.885.383. Þessi sami starfsmaður Sjómannasambandsins hafi líka áður reiknað út laun í uppsagnarfresti miðað við full laun þrjá fyrstu mánuði uppsagnarfrestsins að fjárhæð kr. 1.076.830. Kveður stefnandi ljóst að hann hefði aldrei farið fram á greiðslu vangreiddra veikindalauna í málinu, heldur vangreidd laun í uppsagnarfresti, ef honum hefði þá verið ljóst að hann ætti rétt á tæplega fimm sinnum hærri upphæð í formi vangreiddra launa í uppsagnarfresti, sem stefndi hafi haft af honum með röngum uppgjörum til hans. 

Undir rekstri umrædds dómsmáls breytti stefnandi kröfugerð sinni þannig að í stað þess að gera kröfur um kr. 2.500.000 auk vaxta vildi stefnandi gera kröfu um kr. 2.885.383, en til vara kr. 1.076.830, en til þrautavara kr. 584.904 auk vaxta. Vildi stefnandi jafnframt bæta við málsástæður sínar til samræmis við hina nýju kröfugerð. Af hálfu stefnda var því hafnað að hinar nýju málsástæður fengju komist að í málinu. Þann 19. nóvember 2015 var málið dæmt í Héraðsdómi Suðurlands og stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Var vísað til þess í dóminum að ósannað væri að stefnandi hefði orðið fyrir slysi um borð í m/b Glófaxa, en jafnframt var óvinnufærni stefnanda talin stafa af veikindum hans og talið leitt í ljós að hann hefði vísvitandi leynt þeim veikindum við undirritun ráðningarsamnings. Stefnandi hefði því ekki átt rétt til frekari launagreiðslna en stefndi hefði þegar innt af hendi. Við munnlegan málflutning í Hæstarétti lækkaði stefnandi kröfu sína og gerði aðeins kröfu um greiðslu þeirrar fjárhæðar sem hafði verið þrautavarakrafa hans, þ.e. kr. 584.904. Var dómur héraðsdóms staðfestur í Hæstarétti 15. september 2016 með vísun til forsendna og stefnanda þessa máls gert að greiða stefnda þessa máls málskostnað á báðum dómstigum.

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveður mál þetta snúast um það, hvort stefndi, sem hafi greitt stefnanda laun í uppsagnarfresti og hafi þar með viðurkennt rétt stefnanda á launum í uppsagnarfresti, hafi þá greitt stefnanda rétt laun í 5 mánaða uppsagnarfresti hans í samræmi við ákvæði kjarasamnings aðila og ákvæði sjómannalaga. Samkvæmt útreikningum Sjómannasambands Íslands vanti verulega á að svo sé.

Stefnandi kveður aðalkröfu sína vera um vangreidd full laun í 3 mánuði af 5 mánaða uppsagnarfresti hans. Kveðst hann byggja kröfu sína á 2. mgr. 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og 2. ml. 6. mgr. gr. 1.11 í kjarasamningi L.Í.Ú og  F.F.S.Í, sem hljóði svo:

„Ef skipverja er tilkynnt síðar en við uppsögn að vinnuframlags sé ekki krafist út uppsagnarfrestinn og skip er áfram í rekstri sömu útgerðar skal skipverji eiga rétt á staðgengilslaunum í allt að 3 mánuði frá því að tilkynning berst honum og styttist þá réttur hans til kauptryggingar samsvarandi. Sömu ákvæði gilda um undirmenn að teknu tilliti til lengdar uppsagnarfrest. (Sjá dæmi í viðauka nr. 1).

Viðauki I.

Dæmi um útreikninga á launum í uppsagnarfresti þegar vinnuframlags er krafist á hluta hans en skip er áfram í rekstri.

Undirmaður með 3ja mánaða uppsagnarfrest.

Vinnuframlag á uppsagnarfresti:

Einn mánuður: Fær greidda tvo mánuði, einn á staðgengilslaunum og einn á kauptryggingu.

Tveir mánuðir: Fær greiddan einn mánuð á staðgengilslaunum.

Yfirmaður með 6 mánaða uppsagnarfrest.

Vinnuframlag á uppsagnarfresti:

Tveir mánuðir: Fær greidda fjóra mánuði, þrjá á staðgengilslaunum og einn á mánaðarlaunum.

Fjórir mánuðir: Fær greidda tvo mánuði á staðgengilslaunum“.        

Stefnandi bendir á, að þegar samið hafi verið í núgildandi kjarasamningum aðila um lengingu uppsagnarfrests vegna langs starfsaldurs, þá hafi útgerðarmenn ekki verið tilbúnir að fallast á að lenging uppsagnarfrestsins, ef líka ætti að greiða viðbótina með fullum launum, heldur eingöngu að viðbótin yrði greidd með kauptryggingu. Á móti hafi verið samþykkt að skipverjar héldu alltaf fullum launum í þrjá mánuði, þótt þeir hafi unnið einhvern tíma í upphafi uppsagnarfrestsins við skipið eða búnað þess. Kveður stefnandi þetta skýra sig best með þeim dæmum, sem að ofan greinir og komi fram í þessum Viðauka I í kjarasamningi aðila.

Stefnandi kveður að uppsögn stefnanda hafi verið þann 16. desember 2013. Vegna langs starfsaldurs sé uppsagnarfrestur hans 5 mánuðir. Uppsagnartíminn sé því frá 15. desember 2013 til 15. apríl 2014.

Kveðst stefnandi hafa fengið þau laun sem til hafi fallið fram að því að hann hafi orðið óvinnufær og orðið að hætta störfum þann 8. janúar 2014. Þar sem skipið hafi verið gert út áfram, þá skyldi stefnandi þiggja full laun í næstu þrjá mánuði á eftir. Ekki sé um það deilt, að kauptrygging hafi verið greidd með réttu tímabilið frá 9. janúar og fram að því, að vertíðin hafi byrjað þann 11. febrúar 2014, enda hafi verið að vinna við skipið við vertíðarundirbúning og engan aflahlut að hafa. Frá þeim degi og til 8. apríl 2014 hafi verið innan þriggja mánaða tímabilsins á fullum launum. Það sem eftir hafi staðið af 5 mánaða uppsagnarfrestinum eða tímabilið 9. apríl til 16. maí 2014 hafi stefnandi fengið greidda kauptryggingu og sé ekki um það deilt, enda utan tímabils fullra launa í uppsagnarfresti og þess tíma, sem hér sé verið að krefja stefnda um.

Stefnandi kveðst eiga rétt á fullum launum í þrjá mánuði tímabilið 8. janúar til 8. apríl 2014 og vísar stefnandi í sundurliðun aðalkröfu stefnanda hér að neðan því til nánari skýringa. Vanti þá upp á fullt kaup þetta tímabil kr. 2.885.383.-  að stefndi hafi greitt stefnanda full laun á þessu þriggja mánaða tímabili uppsagnarfrestsins, eins og Sjómannasamband Íslands hafi reiknað út. Sé það aðalkrafa stefnanda um vangreidd laun í uppsagnarfresti.

Sundurliðun á aðalkröfu stefnanda.

Stefnandi kveður að samkvæmt útreikningum Sjómannasambands Íslands, sem hann hefur lagt fram í málinu, skyldu heildarlaun stefnanda fyrir febrúar, mars og 1. – 8. apríl 2014 vera eftirfarandi, en stefnandi kveður að ekki sé í málinu ágreiningur um réttar launagreiðslur tímabilið frá 15. desember 2013 – 31. janúar 2014:

Febrúar 2014.

Heildarlaun hafi verið kr. 976.834.-, en frá því dragist heildargreiðslur stefnda vegna febrúarmánaðar kr. 549.155.-. Vangreidd laun stefnanda vegna febrúar séu því kr. 427.679.-.

Mars 2014.

Heildarlaun vegna mars 2014 hafi verið kr. 2.347.273.-, en frá þeim dragist heildargreiðslur stefnda vegna þessa tímabils kr. 443.948.-. Vangreidd laun stefnanda vegna mars 2014 séu því kr. 1.903.325.-.

1. – 8. apríl 2014.

Heildarlaun vegna þessa tímabils hafi verið kr. 613.572.-, en frá þeim dragist heildargreiðslur stefnda vegna þessa sama tímabils kr. 59.193.- (221.974.- : 30 x 8 = kr. 59.193.-). Vangreidd laun stefnanda vegna 1. – 8. apríl 2014 séu því kr. 554.379.-.

Aðalkrafa stefnanda sé því samtals kr. 2.885.383.- (kr. 427.679.- + kr. 1.903.325.- + kr. 554.379.-).

Varakrafa stefnanda.

Stefnandi kveður varakröfu sína vera uppbyggða á sama hátt og aðalkröfuna, á 2. ml. 6. mgr. gr. 1.11 í kjarasamningi L.Í.Ú og F.F.S.Í, og 9. og 25. gr. sjómannalaganna nr. 35/1985 og miðast við það að greiða skuli full laun fyrstu þrjá mánuði uppsagnarfrestsins, en kauptryggingu eftir þann tíma út fimm mánaða uppsagnarfrestinn.

Sundurliðun á varakröfu stefnanda.

Full laun fyrstu þrjá mánuði uppsagnarfrestsins, sem hafi verið tímabilið 15. desember 2013 – 15. mars 2014. Ekki sé ágreiningur um réttar launagreiðslur tímabilið frá 15. desember 2013 – 31. janúar 2014.

Samkvæmt framlögðum útreikningi Sjómannasambands Íslands skyldu heildarlaun stefnanda fyrir febrúar og 1. – 15. mars 2014 vera þessi:

Febrúar 2014.

Heildarlaun hafi verið kr. 976.834.-, en frá því dragist heildargreiðslur stefnda vegna febrúarmánaðar kr. 549.155.-. Vangreidd laun stefnanda vegna febrúar séu því kr. 427.679.-.

1. – 15. mars 2014.

Heildarlaun vegna þessa tímabils hafi verið kr. 871.389.-, en frá þeim dragist heildargreiðslur stefnda vegna 1. – 15. mars 2014 kr. 221.974.-. Vangreidd laun stefnanda vegna 1. – 15. mars 2014 séu því kr. 649.415.-.

Varakrafa stefnanda sé samtals kr. 1.076.830.- (kr. 427.679.- + kr. 649.415.-).

Réttaráhrif dóma. Res judicata.

Stefnandi kveðst, að gefnu tilefni, árétta með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, að ekki hafi verið lagður efnisdómur á kröfu stefnanda um vangreidd laun í uppsagnarfresti í fyrra máli aðila, sem hafi lokið með sýknudómi Hæstaréttar varðandi veikindalaunakröfu stefnanda. Þá hafi ekki heldur verið tekin afstaða til þeirra málsástæðna, sem þar hafi verið reynt að hafa uppi án árangurs, svo að jafna megi til þess að þegar hafi verið leyst úr kröfum stefnanda um vangreidd laun í uppsagnarfresti. Dómur Hæstaréttar hafi því ekki falið í sér efnislega úrlausn á þeim réttarágreiningi, sem uppi sé í þessu máli hér nú. Af þeim ástæðum sé nú gerð krafa um vangreidd laun í uppsagnarfresti.

Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi í eftirfarandi dóma Hæstaréttar Íslands í aldursröð: H.1948 – 556; Mál nr. 65/2002; Mál nr. 517/2002; Mál nr. 354/2006; Mál nr. 157/2009; Mál nr. 573/2014; Mál nr. 137/2015 og Mál nr. 227/2016.

Um lagarök kveðst stefnandi vísa til kjarasamnings F.F.S.Í og L.Í.Ú gr. 1.11, sbr. 2. mgr. 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Vísað er í 116. gr. laga nr. 91/1991. Um dráttarvexti vísast til 1. mgr. 6. gr. III. kafla  vaxtalaga nr. 38/2001. Um sjóveðsrétt vísast til 1. mgr. 1. tl. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Um málskostnað vísast til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málsástæður stefnda

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að í 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé mælt fyrir um svokölluð res judicata áhrif dóma, en þar sé í 1. mgr. kveðið á um það að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila um þær kröfur sem séu dæmdar þar að efni til. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. sama ákvæðis að krafa sem hafi verið dæmd að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól og að nýju máli um slíka kröfu skuli vísað frá dómi. Þá segi enn fremur í 4. mgr. ákvæðisins að dómur hafi fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greini þar til það gagnstæða er sannað.

Þá kveður stefndi það leiða af 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 að aðili eigi ekki að þola það að ný málsókn, um sömu kröfu eða sakarefni, verði höfðuð á hendur honum á grundvelli málsástæðu eða röksemda, sem ekki komu fram í fyrra máli. Vísar stefndi um þetta til rits Markúsar Sigurbjörnssonar um einkamálaréttarfar.

Stefndi kveður ljóst að krafa stefnanda hafi þegar verið dæmd. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 774/2015 hafi verið tekin afstaða til kröfu stefnanda um vangoldin laun að tiltekinni fjárhæð vegna ákveðins tímabils. Í þessu máli sé um að ræða sömu kröfu, um sömu meintu vangoldnu launin, með vísan til sömu málsatvika og vegna sama tímabils.

Stefndi kveður að séu bornar saman stefnur annars vegar í fyrsta máli aðila og hins vegar í þessu máli megi sjá annars vegar misræmi milli kröfugerðar og hins vegar vegna tilgreindra málsástæðna. Nauðsynlegt sé því að vekja sérstaka athygli á því að stefnandi hafi reynt undir meðferð fyrsta máls að breyta kröfugerð og málsástæðum á þá leið að þær væru samhljóða málatilbúnaði þessa máls. Að því er varðar kröfugerðina hafi stefnandi, í síðustu fyrirtöku fyrir aðalmeðferð fyrsta málsins, reynt að breyta kröfugerðinni á þá leið að aðalkrafa stefnanda yrði að fjárhæð kr. 2.885.383,- og varakrafan að fjárhæð kr.  1.076.830. Þessi kröfugerð sé, upp á krónu, sú sama og lögð sé til grundvallar í stefnu þessa máls. Þessi breytta kröfugerð hafi þó ekki komist að í málinu þar sem hún hafi verið of seint fram komin og útilokunarregla 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 hafi komið í veg fyrir að þessi breyting næði fram að ganga.

Þá kveður stefndi að stefnandi hafi einnig reynt að koma að nýjum málsástæðum undir rekstri fyrsta máls aðila. Við munnlegan flutning málsins hafi lögmaður stefnanda haldið því fram að veikindi stefnanda vegna hins meinta slyss skiptu ekki máli og að líta mætti á kröfuna sem kröfu um rétt til vangoldinna launa í uppsagnarfresti. Þessari nýju málsástæðu hafi einnig verið mótmælt sem of seint fram kominni og augljóst sé af dóminum að hún hafi verið talin of seint fram komin enda sé ekki vísað til hennar sérstaklega í niðurstöðu dómsins.

Kveður stefndi að ef tilraunir stefnanda til að breyta kröfugerðinni og málsástæðunum hefðu borið árangur hefði málatilbúnaður þessa fyrsta máls verið fullkomlega samhljóða málatilbúnaði þessa máls.

Stefndi kveður að skv. 116. gr. laga nr. 91/1991 beri að vísa kröfum stefnanda frá þar sem dómur hafi þegar fallið um þær. Fari svo að málinu verði ekki vísað frá þegar af þessari ástæðu telur stefndi, með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 að þá eigi a.m.k. að vísa því frá á þeirri forsendu að þær minniháttar breytingar sem kynntar séu í þessari nýjustu stefnu séu þess eðlis að stefnandi hefði getað byggt á þeim í fyrra máli en honum láðst að halda uppi kröfum og málsástæðum á réttum tíma í því máli. Stefndi verði að bera hallan af því að hafa ekki gert það. Liggi fyrir að vægi útilokunarreglunnar sé lítið sem ekkert ef aðilum sé gert kleift að stefna sama málinu inn ítrekað með litlum blæbrigðamun og vísa til atriða sem hefði mátt byggja á strax frá upphafi.

Stefndi kveður jafnframt að þessu til viðbótar þá sé málatilbúnaður stefnanda vanreifaður og óskýr og uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt fyrirmælum laganna þurfi lýsing málavaxta og málsástæðna að vera svo ljós að það fari ekki milli mála hvert sakarefnið er. Í máli þessu sé á því byggt að stefnandi hafi verið óvinnufær vegna veikinda en í stað þess að krefjast veikindalauna sé gerð krafa um greiðslu vangoldinna launa í uppsagnarfresti. Þannig sé hróplegt ósamræmi milli lýsingar málsatvika og tilgreindra málsástæðna og enginn reki gerður að því að skýra frekar grundvöll málsins. Telur stefnandi ljóst að málatilbúnaður sé svo vanreifaður að vísa beri málinu frá með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu gerir stefnandi kröfur á hendur stefnda vegna starfsloka sinna hjá stefnda á árinu 2014. Það hefur hann áður gert, en í því máli var stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Fjárhæðir dómkrafna stefnanda í þessu máli eru hinar sömu og endanlegar dómkröfur hans fyrir héraðsdómi í hinu fyrra máli, en eins og áður segir lækkaði stefnandi kröfur sínar við munnlegan málflutning í Hæstarétti. Eins og áður segir komust ekki að í fyrra máli aðila þær málsástæður sem hann byggir nú málatilbúnað sinn á.

Í 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 segir að dómur sé „bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem koma að lögum í þeirra stað, um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til.

 2. Krafa sem hefur verið dæmd að efni til verður ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en segir í lögum þessum. Nýju máli um slíka kröfu skal vísað frá dómi.“

Þá segir í 5. mgr. 101. gr. sömu laga að  „[M]álsástæður og mótmæli skulu koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki eða aðili hefur þarfnast leiðbeininga dómara en ekki fengið þær.“

Með málarekstri sínum nú gerir stefnandi aðra atlögu að því að fá dóm fyrir því að hann eigi rétt til frekari greiðslna úr hendi stefnda en hann hefur þegar fengið frá honum í kjölfar starfsloka sinna sem áður er lýst.

Í fyrra máli milli aðila út af sömu atvikum var stefndi sýknaður af öllum kröfum vegna þessa, en endanlegar kröfur stefnanda þar voru lægri en kröfur hans nú. Að mati dómsins hefur stefnandi ekki gert grein fyrir því hvers vegna honum hafi við höfðun fyrra málsins ekki verið fært að byggja á þeim málsástæðum sem hann byggir nú á. Verður því að telja að stefnandi geti ekki nú, gegn fyrirmælum 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, höfðað nýtt mál á hendur stefnda vegna sömu atvika og áður, en byggt við það á nýjum málsástæðum sem hefðu mátt koma fram við höfðun fyrra málsins. Þá liggur fyrir að í fyrra máli aðila hafði stefnandi uppi sömu kröfur og hér, en féll frá þeim við munnlegan flutning málsins í Hæstarétti.

Að þessu virtu verður að telja að málshöfðun stefnanda nú sé í andstöðu við 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 og verður málinu því vísað frá dómi.

Rétt er að stefnandi greiði stefnda málskostnað og er hann ákveðinn kr. 400.000, en ekki þykja vera efni til að dæma stefnanda til að greiða álag á málskostnað. 

Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Sigurður Frans Þráinsson, greiði stefnda, Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf., kr. 400.000 í málskostnað.