Hæstiréttur íslands

Mál nr. 27/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Erfðaskrá
  • Arfleiðsluhæfi


Fimmtudaginn 6. febrúar 2014.

Nr. 27/2014.

A

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

B

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

Kærumál. Erfðaskrá. Arfleiðsluhæfi.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ógilt var erfðaskrá C á grundvelli 1. mgr. 45. gr. erfðalaga nr. 8/1962 sökum þess að C hefði skort hæfi til að gera hana, sbr. 2. mgr. 34. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2013 þar sem ógilt var erfðaskrá C frá 26. janúar 2010. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreind erfðaskrá „verði metin gild.“ Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hún  málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gerðu hjónin C, sem var fæddur [...], og D, fædd [...], með sér gagnkvæma erfðaskrá á árinu 1957. Samkvæmt erfðaskránni skyldi það langlífara erfa allar eigur hins skammlífara og hafa fullan ráðstöfunarrétt yfir eignunum eftir lát þess skammlífara. Þeim hjónum varð ekki barna auðið. D lést [...] 1996 og hinn 19. apríl sama ár gerði C erfðaskrá í viðurvist lögbókanda í Reykjavík. Með henni arfleiddi C varnaraðila, fósturdóttur fóstursonar síns, að öllum eigum sínum „hvort sem þær stafa frá D heitinni eða mér.“ C gerði á ný erfðaskrá í viðurvist lögbókanda í Reykjavík 26. janúar 2010 og með þeirri erfðaskrá arfleiddi hann sóknaraðila, bróðurdóttur sína, að öllum eigum sínum. C lést [...] 2012, á 94. aldursári. Dánarbú hans var tekið til opinberra skipta 28. september sama ár að kröfu varnaraðila vegna ágreinings um gildi erfðaskrárinnar 26. janúar 2010. Skiptastjóri beindi ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms 10. maí 2013 og var málið þingfest af því tilefni 7. júní sama ár og hinn kærði úrskurður kveðinn upp sem fyrr segir 18. desember 2013.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort C hafi við gerð erfðaskrárinnar 26. janúar 2010 verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið fær um að ráðstafa eigum sínum á skynsamlegan hátt, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði vefengir varnaraðili að svo hafi verið. Meðal gagna málsins er vottorð heimilislæknis C um almennt heilsufar hans árin 2006 til 2012. Kemur þar fram að í upphafi þessa tímabils hafi minnisskerðing C ekki verið „sérlega áberandi“ en verið „áberandi vaxandi“ síðasta árið sem hann lifði. Læknirinn staðfesti vottorð sitt fyrir dómi og sagði aðspurður að engar sértækar rannsóknir hafi verið gerðar á minni C. Hann hafi ekki komið sér þannig fyrir sjónir að hann væri með alvarlega minnisskerðingu, en um áramótin 2011-2012 hafi „farið verulega að halla undan fæti“. Öðrum læknisfræðilegum gögnum sem máli skipta um andlega hagi C er ekki til að dreifa í málinu. Vottorð læknisins og vætti hans skera ekki úr um hvort C hafi sökum andlegrar vanheilsu verið ófær um að ráðstafa eigum sínum í janúar 2010. Á hinn bóginn liggur fyrir greinargóður og eindreginn vitnisburður tveggja vitna, E og F, sem ítarlega er rakinn í hinum kærða úrskurði. Kom fram í framburði þeirra beggja að þeir höfðu þekkt C mjög vel og umgengist hann sem vin um langt skeið allt fram að andláti hans. Báðir kváðu þeir C hafa rætt um að vilji hans stæði til að varnaraðili myndi erfa eignir þeirra hjóna að þeim látnum. Af framburði vitnanna verður ráðið að andlegri heilsu C hafi hrakað stöðugt frá því um eða upp úr 2005 og verið orðin afleit nokkrum árum áður en hann lést. Samkvæmt framansögðu er fallist á með héraðsdómi, sem skipaður var tveimur læknisfróðum meðdómsmönnum, að sannað sé að C hafi engan veginn verið andlega fær um að gera sér grein fyrir þýðingu erfðaskrárinnar, þegar hann undirritaði hana í janúar 2010, sbr. 1. mgr. 45. gr. erfðalaga. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

          Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2013.

                Mál þetta, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi mótteknu 14. maí 2013, var tekið til úrskurðar 26. nóvember sl.

                Sóknaraðili er B, [...], [...].

                Varnaraðili er A, [...], [...].

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að erfðaskrá C, kt. [...],[...],[...], frá 26. janúar 2010 verði dæmd ógild og komi ekki til framkvæmda, sbr. 1. mgr. 45. gr., 38. gr. og 2. mgr. 48. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

         Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að því verði slegið föstu að erfðaskrá sem C undirritaði í viðurvist lögbókanda í Reykjavík 26. janúar 2010 verði lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi hans. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I

                C, sem fæddur var [...], lést [...]2012. C átti enga skylduerfingja á lífi, en hafði tekið samkvæmt sameiginlegri og gagnkvæmri erfðaskrá, dags. 22. janúar 1957, allan arf eftir konu sína, D sem fædd var [...], og lést [...]1996. Efni erfðaskrárinnar var svohljóðandi:

1.       gr.

Það okkar, sem lengur lifir, skal erfa það er fyrr læst, að öllum eignum þess, föstum og lausum, hverju nafni sem nefnast og undantekningarlaust.

2.       gr.

Verði hjúskap okkar slitið að báðum lifandi eða ef við skiljum að borði og sæng, skal þó fara um erfðir eftir okkur samkvæmt lögum. Sama gildir og ef okkur skyldi verða lífserfingja auðið saman.

3.       gr.

Það okkar, sem lengur lifir, hefir fullan ráðstöfunarrétt yfir öllum eignunum úr búum beggja og getur ráðstafað þeim á hvern þann hátt, sem því sýnist. Hafi það sem lengur lifir ekki ráðstafað eignunum með arfleiðsluskrá eða dánargjafagerningi eða ef við setjum ekki síðar viðbótarákvæði um hvernig fara skuli með eignirnar við lát þess, er síðar deyr, þá skal við lát þess okkar, er lengur lifir, skipta eignunum að jöfnu á milli lögerfingja okkar beggja og skal þá miða við erfðaréttindi eins og þau eru við lát þess, er síðar deyr.

4.       gr.

Arfleiðsluskrá þessari getur hvorugt okkar breytt eða rift án vitundar og samþykkis hins.

                Þremur vikum eftir andlát konu sinnar, 19. apríl 1996, gerði C erfðaskrá þar sem hann arfleiddi sóknaraðila að öllum eigum sínum. Erfðaskráin var gerð í viðurvist lögbókanda í Reykjavík, og hljóðar þannig:

Við andlát mitt skal B, [...],[...], kennitala [...], taka í arf allar eigur mínar, hverju nafni sem nefnast, hvort sem þær stafa frá D heitinni eða mér. Lifi hún mig ekki skulu eignirnar renna til niðja hennar með sama hætti og verið hefði ef hún hefði verið barn okkar hjónanna.

                Þann 26. janúar 2010 gerði C enn nýja erfðaskrá í viðurvist lögbókanda í Reykjavík þar sem hann arfleiddi varnaraðila að öllum eigum sínum. Fyrsta grein þeirrar erfðaskrár hljóðar svo:

Bróðurdóttur mín, A, kt. [...],[...],[...] skal hljóta í arf allar eigur mínar fastar og lausar, þar á meðal fasteign mína með fastanúmeri [...], íbúð að [...],[...], peninga, innstæður í bönkum og innbú. Aðrar eignir sem kunna að vera ótaldar hér skulu einnig renna til A bróðurdóttur minnar.

                Sóknaraðili vefengdi síðast töldu erfðaskrána með bréfi G, í hennar umboði, til Sýslumannsins í Reykjavík 30. maí 2012.

                Tengsl sóknaraðila við C eru á þá leið að D, eiginkona C, var ömmusystir hennar. D var móðursystir lífföður sóknaraðila, H og fósturföður sóknaraðila I. C og D var ekki barna auðið, en þau tóku I í fóstur 10 ára gamlan svo hann gæti stundað nám í Reykjavík. Í fyrstu var I og konu hans ekki barna auðið og tóku þau þá sóknaraðila, yngsta barn H, bróður I, í fóstur og skírðu hana í höfuðið á þeim hjónum, C og D, en þau voru jafnframt skírnarvottar sóknaraðila.

                Varnaraðili er bróðurdóttir C.

                Dánarbú C var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2012 og var Valgerður Valdimarsdóttir héraðsdómslögmaður skipuð skiptastjóri. Með bréfi sem móttekið var 14. maí 2013 vísaði skiptastjóri ágreiningi málsaðila um gildi erfðaskrár C frá 26. janúar 2010 til héraðsdóms þar sem ekki hefði náðst samkomulag milli aðila á skiptafundi, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

II

                Sóknaraðili vísar til þess að það hafi ekki verið fyrr en eftir andlát C sem uppeldissyni hans, I, hafi verið gert kunnugt að C hafi komið á skrifstofu lögbókanda með nýja erfðaskrá sem hann hafi lagt fram og undirritað 26. janúar 2010, þá 91 árs að aldri. Í þeirri erfðaskrá hafi C arfleitt varnaraðila, bróðurdóttir sína, að öllum eigum sínum. Hvorki í nýju erfðaskránni frá 26. janúar 2010 né í bókun lögbókanda komi fram að erfðaskrá C frá 19. apríl 1996 sé afturkölluð með gerð hinnar nýju erfðaskrár.

                I og kona hans, foreldrar sóknaraðila, hafi verið búsett á [...], en alla tíð verið í nánu fjölskyldusambandi við C. Sóknaraðili, sem sé búsett með fjölskyldu sinni í [...], hafi hitt hann í heimsóknum sínum til Íslands í gegnum árin. Síðustu árin hafi verið erfiðara að fá C til að gista á [...], en hann hafi oft dvalið hjá fjölskyldunni á jólum og páskum fram til ársins 2008, eins og þau hjónin hafi yfirleitt gert á meðan D hafi verið á lífi. Erfiðara hafi verið að fá C til að gista eftir það, því hann hafi viljað, eins og gömlu fólki sé tamt, dvelja á sínu heimili. Hann hafi ekki heldur fengist til að sækja um vist á Dvalarheimilinu [...] sem hefði auðveldað aðhlynningu hans.

                C hafi verið mjög vanafastur, farið í reglubundnar gönguferðir, eina á morgnana og aðra eftir hádegi og keypt sér í matinn í [...], en hafi annars verið inni við og unað sér við lestur. Vinur hans E, sem hafi verið húsvörður í blokkinni í [...], hafi litið til með honum, komið inn á heimili hans einu sinni í viku til að aðstoða hann og hitt hann nokkrum sinnu í viku. Þá hafi vinur hans og nágranni F, sem hafi búið á hæðinni fyrir ofan hann í [...], einnig litið til með honum. Foreldrar sóknaraðila hafi heimsótt C einu sinni í mánuði frá [...] og hringt í hann vikulega. Þau hafi reglulega reynt að fá C til að fá aðstoð við hreingerningar og heimsendan mat, en hann hafi ávallt afþakkað slíka þjónustu.

                C hafi verið ættaður úr [...], en hann hafi ekki verið í miklu sambandi við ættingja sína þar. Á níræðis afmæli C [...] 2009, sem haldið hafi verið hjá foreldrum sóknaraðila á [...], hafi hann verið spurður hvort hann vildi ekki bjóða einhverju af skyldfólki sínu til veislu. Hann hafi afþakkað það og sagst ekki vera í neinu sambandi við það.

                Samkvæmt fjölskyldu C og framburði vina hans sem hafi umgengist hann mest hafi farið að bera á hrörnun C og minnisleysi á árinu 2006. Eftir nírætt, þ.e. á árinu 2009, hafi hrörnun C aukist til muna. Það ár hafi varnaraðili farið að venja komur sínar til C. Hún hafi búið á [...], en tjáð foreldrum sóknaraðila að hún væri að vinna við verðkannanir í [...]. Einu sinni til tvisvar í viku væri hún í nágrenni við C og það væri því upplagt að líta til hans í kaffisopa í leiðinni. Foreldrar sóknaraðila hafi verið varnaraðila þakklát fyrir heimsóknir hennar, þar sem þau hafi þá getað fengið tíðari fréttir af honum og hvernig hann réði við daglegt líf og aukið eftirlit væri með honum. Þau hafi beðið varnaraðila um að aðstoða sig við að sannfæra hann um að fá meiri aðstoð. Síðar hafi varnaraðili tjáð foreldrum sóknaraðila að hún hefði boðist til að þrífa hjá honum og hann hafi þegið það. Þau hafi verið henni mjög þakklát og viljað að hún fengi umönnunarbætur, en hún hafi ekki mátt heyra á það minnst. Hún hafi boðist til að sjá um ýmislegt sem áður hafi verið í höndum foreldra sóknaraðila og E húsvarðar. Samkvæmt upplýsingum frá E hafi varnaraðili komið til C einu sinni í viku síðustu tvö árin og sinnt þrifum og þvottum vel og farið með hann í innkaup.

                Samkvæmt læknaskýrslum hafi C verið við mjög góða heilsu þegar hann hafi fyrst fengið aðsvif 12. október 2006 á [...] í fylgd með nágranna sínum og kunningja sem hafi verið að keyra út vörur. Að öðru leyti hafi C sjálfur ekki haft samband við heilsugæsluna í [...], nema vegna augnsjúkdóms. Einu samskipti C við heimilislækni á árinu 2009 fram til 29. júlí 2010 séu í gegnum símtöl við varnaraðila og lýsing á heilsufari hans í læknaskýrslum sé einungis frá henni komin. Þann 27. maí 2009 hafi varnaraðili hringt í heilsugæsluna í [...] og viljað ræða við heimilislækni. Hún hafi sagt heilsu C hafa hrakað og hún væri eini ættinginn sem hefði samband við hann. Hún ætli að reyna að fá hann til að þiggja þjónustu heim. Tveimur vikum síðar hafi heimilislæknirinn rætt við varnaraðila í síma. Hún hafi þá sagt C í betra formi og ekki viljað þiggja neina hjálp. Henni hafi verið ráðlagt að vera aftur í sambandi um haustið. Þann 20. janúar 2010, daginn eftir 91 árs afmæli [...] og fjórum dögum áður en ný erfðaskrá hafi verið undirrituð hjá sýslumanni, hafi varnaraðili hringt í heimilislækninn og sagt að C væri búinn að samþykkja að hún sæi um að aðstoða hann með þrif, innkaup og fleira. Hún hafi sagt C ótrúlega hressan.

                Ekkert samband hafi verið haft við heimilislækni þar til í júní 2010, en þá hafi læknirinn ákveðið að fá blóðprufu. C hafi mætt 29. júlí 2010 og látið vel af sér. Blóðprufa hafi leitt í ljós járnskort. Í samtali varnaraðila við hjúkrunarfræðing hafi hún sagt hann betri til heilsunnar eftir að hann hafi fengið járn. Í janúar 2011, þegar C hafi komið að nýju í blóðprufu, hafi komið í ljós að hann hafi oft gleymt að taka skjaldkirtilslyfin sín. Í heimsókn hans til læknis 26. október 2011 hafi hann látið vel af sér. Varnaraðili hafi hins vegar sagt að það hallaði undan fæti, en hún vildi að hann væri heima.

                Á árunum 2006 og 2007 hafi foreldrar sóknaraðila farið að taka eftir elliglöpum hjá C. Hann hafi verið farinn að segja frá hlutum úr fortíðinni eins og þeir hafi gerst í nútímanum. Þannig hafi hann sagt frá því að hann hafi komið gangandi úr [...] eftir að hafa heimsótt föður sinn, en foreldrar hans hafi búið í [...] og faðir hans látist árið 1977. Einnig hafi hann beðið föður sóknaraðila að koma með sér að sækja hjól sem hann hafi notað til að hjóla á úr sveitinni í borgina fyrir 75 árum síðan, þar sem hann hafði séð það fyrir framan hús og hefði húsráðandi stolið hjólinu. Hann hafi sagt húsverðinum í [...] þessa sömu sögu. Þá hafi hann sagt frá því að hann hafi verið að koma af skautum á Þingvallavatni og fleira í þeim dúr.

                Á árunum 2010 og 2011 hafi C nokkrum sinnum hringt í föður sóknaraðila mjög áhyggjufullur yfir því að það þyrfti að ganga frá erfðaskrá. Faðir sóknaraðila hafi þá minnt hann á að hann hafi gengið frá erfðaskrá í apríl 1996. C hafi róast við þessar skýringar.

                Vinir og nágrannar C, þeir E og F, sem hafi hitt C daglega og hafi engra hagsmuna að gæta vegna erfðaskrár hans, hafi komið fyrir dóm sem vitni í sérstöku vitnamáli. Þeir hafi sagt C hafa verið eins og barn síðustu árin. Hann hafi ekki lengur gert greinarmun á því hvort það væri nótt eða dagur og ekki getað séð um að borga reikningana sína. Það hefði verið auðvelt að fá hann til að skrifa undir hvað sem væri. C hafi að upplagi ekki verið nýjungagjarn og mjög ósveigjanlegur. Vinir hans telji ógerning að C hafi breytt þeirri ákvörðun er hann hafi tekið með konu sinni um gerð erfðarskrár til handa sóknaraðila.

                Sóknaraðili byggi á því að ljóst sé að C hafi verið háaldraður og byrjaður að missa minni og rugla löngu áður en hann hafi gert nýja erfðaskrá 26. janúar 2010. Andlegri heilsu C sé vel lýst í vitnisburði vina hans og nágranna og húsvarðar, auk frásagna fjölskyldumeðlima sóknaraðila sem hafi umgengist hann mest þar til hin nýja erfðaskrá hafi verið gerð. Varnaraðili hafi að eigin frumkvæði tekið yfir hreingerningar og eftirlit með frænda sínum. Engin læknisfræðileg próf hafi verið framkvæmd á minni eða andlegri heilsu C, hvorki fyrir eða eftir gerð erfðaskrárinnar árið 2010. Allar upplýsingar um heilsu C í læknaskýrslum séu tilvitnanir í frásögn varnaraðila sem hún hafi komið á framfæri símleiðis. Eina tilvitnun læknisins sjálfs sé sú að C hafi borið sig vel. Varnaraðili hafi tekið það upp hjá sjálfri sér að hringja sérstaklega í lækninn 20. janúar 2010 til að tilkynna að C hafi samþykkt að hún myndi sjá um þrif, innkaup og fleira fyrir hann. Fjórum dögum síðar hafi hún farið með hann til sýslumanns til þess að undirrita nýja erfðaskrá þar sem hún hafi verið arfleidd að öllum eigum C. Vitnunum E og F beri saman um að C hafi á þessum tíma verið minnislaus og ruglaður. Sá vitnisburður styðji þá skoðun fjölskyldu sóknaraðila að C hafi ekki verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt. Erfðaskráin sé því ógild samkvæmt 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og skuli ekki koma til framkvæmda, sbr. 1. mgr. 45. gr. erfðalaga. Ótvíræðan vilja til afturköllunar fyrri erfðakrár hafi skort, en það sé skilyrði 2. mgr. 48. gr. erfðalaga fyrir afturköllun á erfðaskrá.

                Jafnframt byggi sóknaraðili á því að háttsemi varnaraðila bendi til þess að hún hafi fært sér í nyt að C hafi verið orðinn háaldraður og nýtt sér ástand hans til að láta hann skrifa undir nýja erfðaskrá þar sem hún sé erfingi að öllum eignum hans. Minni C hafi verið farið að bresta, hann hafi verið farinn að rugla og þurft á aðstoð að halda. Vinir hans segi hann hafa verið eins og þriggja ára barn á þeim tíma er nýja erfðaskráin hafi verið gerð árið 2010. Eignir C hafi verið umtalsverðar og langt umfram það sem talist gæti eðlileg þóknun fyrir þrif og eftirlit símleiðis með honum í rúm tvö ár. Hafi varnaraðila ekki verið kunnugt um aðra erfðaskrá sé ljóst að hún hafi ætlað sér arf sem annars hefði verið skipt upp á milli fleiri ættingja C. Þar sem fyrri erfðaskrá hafi ekki verið skýrlega afturkölluð sé ljóst að C hafi ekki munað eftir henni. Það segi allt um andlegt atgervi hans á þessum tíma. Eftir gerð hinnar nýju erfðaskrár hafi C hringt í föður sóknaraðila til að segja honum að þeir yrðu að ganga frá erfðaskrá, en hafi greinilega ekki áttað sig á því að hann hafi verið búinn að gera nýja erfðaskrá. Grunlaus um aðkomu varnaraðila að gerð nýrrar erfðaskrár hafi faðir sóknaraðila róað C niður og minnt hann á að hann væri búinn að ganga frá erfðaskránni.

                Varnaraðili hafi lítil sem engin afskipti haft af frænda sínum fyrr en á vormánuðum 2009. Í janúar 2010 hafi verið gengið frá erfðaskrá hjá lögbókanda. Varnaraðili hafi tekið fram í öllum samtölum sínum við heilsugæsluna í [...] að hún væri eini ættinginn sem skipti sér af C, þó henni hafi verið fullkunnugt að C hafi verið í mjög góðu fjölskyldusambandi við uppeldisson sinn á [...]. Henni hafi verið kunnugt að C hafi dvalið hjá þeim á hátíðum og fjölskyldusamkomum og verið í vikulegu sambandi við þau, ásamt reglulegum heimsóknum þeirra í bæinn. Varnaraðili hafi séð ástæðu til þess að afsaka umhyggjusemi sína fyrir C með því að ítreka það í hvert skipti sem hún hafi haft samband við heilsugæsluna að hún hafi lofað föður sínum á dánarbeði hans árið 2000 að líta til með C. Það veki sérstaka athygli að varnaraðili hafi gert sér far um að lýsa góðu heilbrigðisástandi C símleiðis við heilsugæsluna í [...] fjórum dögum áður en nýja erfðaskráin hafi verið undirrituð, 26. janúar 2013, en hún hafi þá ekki haft samband við heilsugæsluna í sex mánuði og ekki þurft að hafa samband við hana þar sem hún hafi sjálf ætlað að taka að sér þjónustu þá sem í boði var fyrir aldraða. Að sögn varnaraðila hafi C verið „ótrúlega hress‟. Sú lýsing sé þversögn við framburð vitna sem hafi umgengist C mest. Samkvæmt þeim vitnisburði hafi það ekki getað farið fram hjá neinum sem hafi umgengist C hve illa hann hafi verið farinn af minnisleysi. Háttsemi varnaraðila bendi því ótvírætt til þess að hún hafi misnotað sér stöðu hans og andlegt atgervi og haft ótilhlýðileg áhrif á hann til gerðar nýrrar erfðaskrár. Sóknaraðili telji því að um misneytingu hafi verið að ræða í skilningi 1. mgr. 37. gr. erfðalaga. Beri því að ógilda erfðaskrána frá 26. janúar 2010 samkvæmt 1. mgr. 45. gr. erfðalaga.

                Verði ekki fallist á að 37. gr. erfðalaga eigi við beri að líta til 38. gr. laganna um ógildingu erfðaskrár, því ljóst sé að gerð nýrrar erfðaskrár hafi byggst á misskilningi um að fyrri erfðaskrá væri ekki til. Ætlunin hafi ekki verið að fella fyrri erfðaskrá úr gildi eða þær ákvarðanir sem C og kona hans hafi tekið og talað um, eins og fram hafi komið í framburði vitna.

                Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. erfðalaga falli erfðaskrá úr gildi láti arfleifandi ótvírætt í ljós að hann taki aftur erfðaskrá sína. Þetta ákvæði hafi verið túlkað svo að eldri erfðaskrá falli úr gildi við gerð nýrrar erfðaskrár þó ekki sé um að ræða beina yfirlýsingu um afturköllun hinnar eldri erfðaskrár í nýju erfðaskránni. Þessi túlkun geti hins vegar ekki átt við ef arfleifandi hafi ekki verið hæfur til að láta í ljós skýran vilja sinn til að breyta fyrri erfðaskrá, eða hafi annar aðili misnotað aðstöðu sína og andlegt atgervi arfleifanda til að fá hann til að skrifa undir nýja erfðaskrá. Sú staðreynd að ekki sé tekið fram að eldri erfðaskrá sé afturkölluð við gerð hinnar nýju erfðaskrár styðji vitnisburð fjölskyldu sóknaraðila, auk vina og nágranna C, um að hann hafi verið orðinn minnislaus og ruglaður og andleg heilsa hans þannig að hann hafi ekki verið fær um að gera nýja erfðaskrá. Hafi varnaraðili vitað um fyrri erfðaskrá sé ljóst að hún hafi ekki treyst sér til að minna C á tilvist hennar. Það veki hins vegar furðu að lögbókandi bendi C ekki á við undirritun nýrrar erfðaskrár að eldri erfðaskrá sé í gildi. Beri það vott um að lögbókandinn hafi ekki kannað hvort eldri erfðaskrá væri skráð hjá lögbókanda. Þá bendi það einnig til þess að staðfesting lögbókanda þess efnis að arfleifandi hafi verið heill heilsu andlega og gert erfðaskrána af fúsum vilja sé ekki grundvölluð á neinni athugun lögbókanda á stöðu eða atgervi arfleifanda þó háaldraður væri.

                Sóknaraðili vísi til erfðalaga nr. 8/1962, einkum 2. mgr. 34. gr., 37. gr., 38. gr., 1. mgr. 45. gr. og 2. mgr. 48. gr. Þá sé vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

                Varnaraðili kveður föður sinn hafa tekið af sér loforð, skömmu áður en hann hafi látist, um að hún mundi líta til með bróður hans. Hún hafi tekið þetta loforð mjög alvarlega og upp frá því sinnt C eftir því sem hún hafi getað. Hún hafi litið til hans í hverri viku og á köflum mörgum sinnum í viku, allt frá því á árinu 2000. Hún hafi reynt að sjá til að þess að hann fengi hollan og góðan mat, en alveg fram undir það síðasta hafi hann sjálfur eldað matinn sinn. Aðstoð hennar við C hafi farið vaxandi með árunum. Hún hafi haft samband við lækna fyrir hann þegar þess hafi verið þörf og annast þvotta fyrir hann og hreingerningar í íbúð hans. C hafi verið líkamlega vel á sig kominn eftir aldri fram undir hið allra síðasta og séð sjálfur um innkaup o.fl. Hann hafi alla tíð verið mótfallinn því að fara á vistheimili og viljað fá að vera heima hjá sér.

                Varnaraðili telji margt í frásögn þeirra E og F ónákvæmt og ótrúverðugt. Sérstaklega skuli á það bent að þeir fullyrði báðir að C heitinn og D, eiginkona hans, hafi tjáð þeim að þau væru búin að ganga frá því tryggilega að sóknaraðili skyldi erfa þau þegar þar að kæmi. Þetta fái að mati varnaraðila alls ekki staðist, því að D hafi einungis gert hina sameiginlegu og gagnkvæmu erfðaskrá, en ekki aðra erfðagerninga. Í henni hafi langlífari makanum verið heimilað að ráðstafa öllu búinu þangað sem hann sjálfur vildi og væri þá óbundinn að öllu leyti. Þetta sé afar mikilvægt atriði þegar framburður þessara vitna sé metinn. Verði ekki annað ályktað en að þeir hafi borið sig saman um þetta og búið til „sögu“ sem ekki fái staðist. Þá megi nefna fleiri dæmi. Frásagnir vitnisins E um andlegt ástand C heitins séu í fullkomnu ósamræmi við heilsufarsupplýsingar sem fram komi í læknisvottorði Halldórs Jónssonar og fylgigögnum með þeim. Vitnið E líki ástandi C heitins við andlega færni þriggja ára barns. Í ljósi vottorðs Halldórs Jónssonar heilsugæslulæknis verði þessi framburður vitnisins ómarktækur. Vitnið E gefi í skyn að varnaraðili hafi einungis sinnt C heitnum örfá síðustu árin. Það sé alrangt. Hún hafi annast margvísleg málefni fyrir C allt frá árinu 2000, þó svo að vitnið E þykist sjálfur hafa verið hans aðalhjálparhella allt fram undir það síðasta. Vitnið F fullyrði í sinni skýrslu að E hafi verið hægri hönd C síðastliðin ár fyrir gerð erfðaskrárinnar 2010 og séð um allt fyrir hann. Þetta sé vægast sagt hæpin fullyrðing í ljósi gagna málsins og þá ekki síst framburðar E sjálfs, því að hann segist hafa dregið mjög úr aðstoð við C eftir að varnaraðili hafði tekið hann að sér með þeim hætti sem hún hafi gert.

                Varnaraðili mótmæli sem gersamlega tilhæfulausum aðdróttunum í greinar-gerð sóknaraðila þess efnis að hún hafi „fært sér í nyt“ að C hafi verið orðinn háaldraður og „nýtt sér ástand hans til að láta hann skrifa undir nýja erfðaskrá þar sem hún verði erfingi af (sic) öllum eignum hans“. Varnaraðili hafi engin áhrif haft á ákvörðun C um að gera nýja erfðaskrá og ekki vitað um tilvist hennar fyrr en eftir að hún hafi verið gerð. Af lestri greinargerðar sóknaraðila megi sjá að ýmsir aðrir hafi verið mjög áhugasamir um arf eftir C, en aðdróttunum um að varnaraðili hafi ásælst eigur hans sé harðlega mótmælt.

                Í málatilbúnaði sóknaraðila segi að varnaraðili hafi lítil sem engin afskipti haft af frænda sínum fyrr en á vormánuðum 2009, en í janúar 2010 hafi verið búið að ganga frá nýrri erfðaskrá hans. Þarna sé augljóslega farið rangt með um þann tíma sem varnaraðili hafi sinnt C heitnum. Af vottorði Halldórs Jónssonar læknis sjáist að þetta fái ekki staðist. Erfðaskrá C í janúar 2010 hafi ekki verið gerð í því samhengi sem haldið sé fram í greinargerð sóknaraðila.

                Varnaraðili byggi kröfur sínar í málinu á því að erfðaskrá C frá 26. janúar 2010 sé að formi og efni til í fullu samræmi við ákvæði erfðalaga nr. 8/1962. Undirritun C undir skrána sé staðfest af lögbókandanum í Reykjavík sem jafnframt votti að arfleifandinn hafi verið heill heilsu andlega og líkamlega og hafi lýst yfir að skráin hefði að geyma vilja sinn.

                Vottorði lögbókanda hafi ekki verið hnekkt með neinum haldbærum gögnum. Tiltæk læknisfræðileg gögn um heilsu C þegar hann hafi undirritað erfðaskrána bendi ekki til annars en að vottorð lögbókandans um heilsu C hafi verið rétt. Halldór Jónsson læknir hafi verið heilsugæslulæknir C síðustu sex ár ævi hans. Hann votti að ekkert í sjúkraskrá hans gefi til kynna að C hafi verið vanhæfur til að gera erfðaskrá í janúar 2010.

                C hafi tvívegis áður gert erfðaskrár. Í bæði skiptin hafi þær verið staðfestar af lögbókanda í Reykjavík. Það hafi því ekki verið nýtt fyrir hann að gera erfðaskrá árið 2010, þótt hann væri þá aldraður maður. Hann hafi haft fulla heimild til að ráðstafa eigum sínum með þeim hætti sem hann hafi gert með hinni nýju erfðaskrá, en um leið hafi eldri erfðaskrá hans fallið úr gildi.

                Varnaraðili mótmæli sem röngum og ósönnuðum öllum fullyrðingum um að C hafi vegna heilsubrests eða af öðrum ástæðum verið ófær um að gera erfðaskrá með skynsamlegum hætti. Hvorki efni erfðaskrárinnar né önnur gögn málsins bendi til þess að hann hafi verið óhæfur til að gera erfðaskrá. Beri samkvæmt því og 46. gr. erfðalaga nr. 8/1962 að hafna kröfum sóknaraðila og taka kröfur varnaraðila til greina.

                Varnaraðili mótmæli því að ákvæði 38. gr. erfðalaga geti átt hér við. Sóknaraðili byggi á því að aldrei hafi verið ætlun C að fella fyrri erfðaskrá úr gildi eða „þær ákvarðanir sem hann og kona hans höfðu tekið og talað um“. Sóknaraðili vísi til framburðar vitna um þetta. Varnaraðili taki fram í þessu sambandi að engin erfðafyrirmæli liggi fyrir frá eiginkonu C önnur en þau sem fram komi í áðurnefndri sameiginlegri erfðaskrá þeirra hjóna. Erfðaskrá C frá 26. janúar 2010 gangi alls ekki í berhögg við efni þeirrar erfðaskrár. Komi því ekki til álita að mati varnaraðila að byggja niðurstöðu í þessu máli á 38. gr. erfðalaga.

                Um málskostnaðarkröfu vísi varnaraðili til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Við aðalmeðferð málsins gaf varnaraðili skýrslu, svo og vitnin Halldór Jónsson læknir, I, J, E, F og K.

                Varnaraðili skýrði svo frá að hún hefði heimsótt C reglulega allt frá maí 2000. Hún hafi þó ekki byrjað að aðstoða hann fyrr en í desember 2009 þegar hún hafi skipt um eldhúsgardínur fyrir jólin. Hún hafi svo farið að sjá um þrif og þvott í kjölfarið á því. C hafi ekki þurft aðra aðstoð og séð sjálfur um að klæða sig, þrífa og raka allt þar til hann hafi lagst inn á sjúkrahús í maí 2012. Hann hafi séð um mat sinn sjálfur, mikið keypt sér tilbúna rétti og hitað í örbylgjuofni. C hafi farið í gönguferðir og alltaf gengið sama hringinn og keypt í matinn í leiðinni. Hann hafi fylgst vel með fréttum og rætt um pólitík. Hann hafi verið jafnlyndur, en hafi getað verið glettinn og jafnvel stríðinn. Hann hafi lesið margar bækur, oft ævisögur. Hann hafi sagt henni sögur úr æsku sinni og sögur af L og samskiptum þeirra. Varnaraðili taldi C ekki hafa átt við áberandi minnistruflanir að stríða. Um mitt ár 2010 hafi hann fengið skjaldkirtilslyf. Það hafi gengið vel um tíma, en svo hafi hann farið að ruglast. Hún hafi þá fengið vikubox fyrir hann og það hafi gengið vel þar til í nóvember eða desember 2011. Hún hafi farið í frí í desember 2011. Þá hafi hún óskað þess að heimahjúkrun liti til hans, en vegna manneklu hafi þau talið nóg að hringja til hans. Hún hafi verið ósammála því og þess vegna afþakkað þá þjónustu og beðið vinkonu sína og frænku, K hjúkrunarfræðing, um aðstoð. Varnaraðili kvaðst kannast við E og F, nágranna C. E hafi sagt henni að hann sæi um reikninga C í gegnum heimabanka og skattframtal. Árin 2011 og 2012 hafi E aðstoðað C við matarinnkaup. Hún hafi ekki vitað um aðra aðstoð frá þeim E. Þeir E og C hafi hist daglega. C og F hafi unnið saman að byggingu blokkarinnar í [...]. C hafi sótt allan sand í steypuna og þannig unnið sér inn fyrir íbúð sinni. Mikill samgangur hafi verið á milli þeirra. F hafi verið sölumaður og hafi oft boðið C í söluferðir með sér. Varnaraðili kvaðst ekki hafa átt nein samskipti við I eða fjölskyldu hans fyrr en C hafi farið á sjúkrahús, en hún vissi til þess að C hefði verið í samskiptum við þau, meðal annars dvalið hjá þeim um jól og haldið upp á stórafmæli hjá þeim. Hún hafi einungis hitt þetta fólk tvisvar sinnum á þessum árum. Hún þekkti ekki til þess að C hefði verið í samskiptum við neina aðra. Hann hefði átt einn bróður, en hefði ekki haft samskipti við hann í langan tíma. Varnaraðili kvað C aldrei hafa talað um erfðaskrá við sig. Hún hafi ekki vitað um tilvist erfðaskránna frá 1996 eða 2010 fyrr en eftir andlát C. Hún hefði ekki farið með C til sýslumanns til þess að ganga frá erfðaskránni í janúar 2010 og vissi ekki hver hefði útbúið hana. Aðspurð hvort hún hafi farið í íbúð C á meðan hann hafi legið á sjúkrahúsi kvað hún svo vera. Hún neitaði því hins vegar að hafa verið að leita að bréfi sem hafi dottið upp fyrir skúffu.

                Vitnið Halldór Jónsson læknir var heimilislæknir C. Hann kvaðst muna eftir honum og hafa haft nokkur afskipti af honum, mest síðustu þrjú árin fyrir andlát hans. C hafi komið á heilsugæslustöðina í fylgd frænku sinnar og virst hafa stuðning af henni. Vitnið hafi ekki þekkt til annarra aðstandenda. Honum hafi í upphafi ekki virst C hafa áberandi minnisskerðingu. Hann hafi ekki verið utan gátta og ekki hafið komið fram að hann vissi ekki hvar hann væri. Vísbendingar um slíkt hafi komið til seinna. Hann hafi ætlað að senda C á minnismóttöku um áramótin 2011-2012, þegar honum hafi fundist vera farið að halla verulega undan fæti, en C hafi neitað því. Engar sértækar rannsóknir hafi verið gerðar á minni hans. Hann hafi vitað af því að C færi í gönguferðir en að öðru leyti hafi ekki verið rætt mikið um hagi hans. C hafi búið einn, en virst geta séð um sig með aðstoð. Hann hafi verið snyrtilegur, rólegur og yfirvegaður. Rætt hafi verið um að vera í sambandi. Öldrunarhjúkrunarfræðingur hafi hringt í allt eldra fólk í hverfinu. Það hafi því ekki verið óeðlilegt að varnaraðili hefði samband og tilkynnti um líðan C.

                Vitnið I greindi frá því að D, eiginkona C, hafi verið móðursystir hans. Hann hafi dvalið hjá þeim hjónum í fimm vetur á meðan hann hafi verið í skóla og þau hafi kallað hann fósturson sinn. Þau hafi ekki getað eignast börn. D hafi ekki viljað að eins færi fyrir honum og konu hans. Þau hafi því tekið sóknaraðila í fóstur nokkurra vikna gamla og hún hafi verið nefnd í höfuðið á hjónunum D og C. Vitnið kvað C hafa boðað sig til sín vegna gerðar erfðaskrár árið 1996, eftir andlát D. C hafi fengið aðstoð löglærðs manns í blokkinni við gerð erfðaskrárinnar. Vitnið hafi svo farið með honum til sýslumanns með erfðaskrána. F, vinur C, hafi síðar sagt sér að þau hjónin hefðu sagt honum frá því að þau hefðu ákveðið að sóknaraðili skyldi erfa þau. Eftir andlát D kvaðst vitnið hafa rætt vikulega við C í síma. Hann taldi minni C hafa hrakað verulega árin 2004-2005. Eftir það hafi hann oft talað um að hann þyrfti að gera erfðaskrá, en vitnið jafnan minnt hann á að hann hafi þegar gengið frá henni. C hafi margoft talað um þetta eftir árið 2010. Stuttu áður en vitnið hafi hætt störfum í október 2003 hafi C hringt í sig og beðið sig um að koma og taka nýja bifreið sem hann hafi keypt. Hann hafi ekki getað lært á hana. Vitnið hafi á endanum keypt bifreiðina af honum í lok árs 2003. Árið 2005 hefði hann beðið C um peningalán vegna bifreiðakaupa. C hefði játað því, en daginn eftir hefði hann verið búinn að gleyma því samtali. Minnisleysi C hafi meðal annars birst í því að hann hafi sagt sögur sem hafi ekki getað staðist. Hann hafi sagt sömu sögurnar aftur og aftur. Til dæmis hafi hann sagt frá því þegar hann hafi verið á skautum á Þingvallavatni daginn áður, en hlýtt hafi verið í veðri. Hann hafi einnig sagt frá því að hann hafi farið að ná í strokuhest í Þingvallasveit daginn áður. Þá hafi hann sagt frá því að hann hafi heimsótt föður sinn í [...]. Hann hafi misst af rútunni og gengið í þrjár klukkustundir og ekki mætt einni einustu bifreið. Faðir C hafi hins vegar látist fyrir löngu. C hafi einnig sagt frá hjóli sem hann hafi séð daginn áður, bak við hús sem hann hafi leigt ásamt konu sinni á [...], og viljað gefa vitninu. Hann hafi komið á þessu hjóli ásamt félaga sínum þegar þeir hafi hjólað yfir Hellisheiði. Síðar hafi vitnið komist að því að þessi hjólreiðaferð hafi átt sér stað þegar C hafi verið 17 ára gamall. Þetta minnistap hafi byrjað 2004-2005 og orðið óþolandi árið 2009, þá hafi hann alltaf verið að segja sömu sögurnar. Vitnið hafi haft samband við E húsvörð eftir að hjólasagan hafi komið upp um 2004-2005. Vitnið kvaðst hafa hitt varnaraðila heima hjá C árið 2009 og hann hafi farið að verða hennar var upp úr því. Hún hafi komið í bæinn vikulega og því litið við hjá C. Vitnið hafi haft símasamband við hana og beðið hana um að láta sig vita ef hún gæti ekki hugsað um C, en hann hafi sjálfur átt erfitt um vik að komast frá [...]. Varnaraðili hafi sagt að hún hafi lofað föður sínum á dánardægri hans að annast um C. Vitnið kvaðst hafa verið varnaraðila þakklátur fyrir að aðstoða C. Þegar hann hafi haldið upp á níræðisafmæli C hafi hann spurt hann að því hvort hann ætti að bjóða varnaraðila, en C hafi neitað því. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað um erfðaskrána frá 2010 fyrr en eftir andlát C.

                Vitnið J kvaðst vera gamall vinur I. Hann hafi þekkt þau hjónin C og D vel. Hann og fjölskylda hans hafi búið nálægt þeim og verið í samskiptum við þau. Eftir að I og kona hans hafi tekið sóknaraðila að sér hafi D margoft sagt sér að nafna þeirra myndi njóta arfs eftir þau. C hafi hins vegar aldrei minnst á erfðaskrá við sig. Vitnið taldi að heilsu C hafi farið hrakandi eftir 2003-2004. Móðir vitnisins hafi haft Alzheimer og honum hafi fundist ástand C svipað. Í níræðisafmæli C hafi hann verið orðinn áberandi gleyminn. Hann hafi þekkt sig, en minnið verið mjög gloppótt. Það hafi ekki verið hægt að eiga eðlilegar samræður við hann. Hann hafi hins vegar verið líkamlega hraustur.

                Vitnið E skýrði frá því að hann væri húsvörður í [...] þar sem C hefði búið og hefði verið það í um 26 ár. Hann hefði fljótlega kynnst C. Hann hafi verið heimaríkur og stjórnsamur. Síðustu árin hafi hann hins vegar einungis verið skugginn af sjálfum sér. Hann hafi lítil samskipti átt við fólk og verið mun daufari en áður. C hafi leitað til sín um aðstoð ef hann hafi verið í vandræðum. Síðustu árin hafi hann til dæmis verið orðinn ófær um að versla. Um árið 2005 hafi vitnið verið farinn að aðstoða hann mun meira en áður. Hann hafi farið með hann í banka að greiða reikninga og í matvöruverslun og aðstoðað hann við ýmislegt heima. C hafi áður aðstoðað sig við ýmis störf en undanfarin ár hafi hann til dæmis ekki getað skipt um ljósaperu. Ástand C hafi farið stöðugt versnandi upp úr því. Vitnið kvaðst fyrst hafa orðið var við minnistap hjá C um aldamótin þegar hann hafi ekki munað nafn móður sinnar. Árið 2003 eða 2004 hafi hann keypt sér bifreið, en hafi ekki getað lært á hana þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hann hafi þó verið atvinnubifreiðastjóri áður fyrr og haft áhuga á bifreiðum. C hafi verið mjög vanafastur og farið reglulega í gönguferðir sama hringinn. Síðustu árin hafi hann stundum farið mörgum sinnum á dag þar sem hann hafi ekki munað hvort hann hafi verið búinn að fara. Einn daginn hafi hann séð hann koma sex sinnum úr gönguferð. Vitnið kvaðst hafa farið með C í matvöruverslun á bifreið. Honum hafi virst C einkum nærast á kexi, en hann hafi einnig keypt tilbúna rétti. Hann hafi hins vegar ekki lengur kunnað á örbylgjuofninn og borðað réttina kalda. Varnaraðili hafi stundum verslað með C síðustu árin. Vitnið hafi þá millifært á reikning hennar vegna þess sem hún hefði lagt út. Vitnið kvaðst hafa þvegið þvott af C stöku sinnum síðustu fjögur árin. C hafi haldið að þvottavélin væri biluð, en svo hafi ekki verið, heldur hafi hann ekki kunnað á hana lengur. Vitnið kvaðst hafa farið með C í banka í hverjum mánuði. C hafi fyrst skrifað ávísanir fyrir reikningunum, en svo hætt að geta gert það. Þá hafi reikningar farið að gleymast hjá honum. Um þremur árum fyrir andlát hans hafi vitnið stofnað netbanka fyrir C og greitt reikninga hans í gegnum hann. Nágranni þeirra, M, hafi séð um gerð skattskýrslna C, en vitnið hafi síðar tekið við því. Síðustu árin hafi hann skilað skýrslunni án þess að ræða það við C þar sem hann hafi ekki lengur skilið þetta. C hafi tvisvar sinnum hringt til hans um miðja nótt þar sem ljósapera hafi verið farin. C hafi ekki áttað sig á því að það væri nótt þótt hann hafi vitað hvað klukkan væri. Nágrannar hafi einnig kvartað undan því að það væri kveikt á útvarpi hans á næturnar. Vitnið kvaðst hafa farið nokkrum sinnum með C til læknis, til dæmis vegna augnsýkingar og exems. Hann hafi farið með honum inn til læknisins vegna augnsýkingarinnar þar sem honum hafi virst sem það þýddi ekki að senda hann inn sjálfan. Hann kvað C hafa verið hættan að heimsækja F vin sinn, en F hafi þó farið til hans. Hann kvaðst hafa orðið var við heimsóknir frá varnaraðila um tveimur árum fyrir andlát C. Vitnið kvaðst hafa vitað um tilvist erfðaskrárinnar frá árinu 1996. Hann hafi spurt C um aldamótin hvort hann hafi gert erfðaskrá. C hafi þá sagt honum að það væri löngu búið að ganga frá því að stúlkan sem héti í höfuðið á þeim hjónum myndi erfa þau. Hann hafi aldrei minnst á nýja erfðaskrá. Vitnið taldi að ástand C hefði verið þannig í janúar 2010 að hann hafi ekki haft nokkra burði til að gera erfðaskrá. Þegar hann hafi útbúið netbanka fyrir hann nokkru áður hafi C ekkert vitað hvað hann væri að gera. Vitnið hafi látið C skrifa undir, en hann hefði getað látið hann skrifa undir hvað sem væri. Þá taldi hann mjög ólíklegt að C hefði breytt ákvörðun þeirra hjóna um erfðaskrá, enda hefði hann verið mjög fastur fyrir og ósveigjanlegur. Eftir andlát C hafi vitnið þurft að fara um íbúð hans til að fjarlægja frystikistu á svölunum þar sem verið var að mála svalagólfið. Varnaraðili hafi orðið vör við að einhver hefði farið inn. Hún hafi þá spurt hann hver það hefði verið og hver hefði lykla. Hann hefði svo skipt um skrá og látið varnaraðila hafa alla lykla íbúðarinnar. Hún hefði svo hringt í sig og spurt um umslag sem hefði horfið úr skrifborði C. Hún hefði hringt aftur skömmu síðar og sagt honum að hún hefði fundið umslagið þar sem það hefði dottið upp fyrir skúffuna. Vitnið kvaðst hafa rætt við varnaraðila um minnistap C og sagt henni frá sögum hans. C hefði byrjað að segja furðusögur um 2005 til 2006 sem hann hafi margendurtekið. Fyrsta sagan hafi verið af reiðhjóli sem hann hafi hjólað á í bæinn og endilega viljað gefa sér. Hjólið hafi verið á bak við hús að [...]. Hann hafi ekki verið orðinn það ruglaður að hann hafi vitað að hann hefði hjólað á því í bæinn frá [...] þegar hann hafi verið 17 eða 19 ára. Svo hefði hann farið að segja frá atburðum sem hafi gerst þegar hann hafi verið unglingur eða ungur maður, þegar hann hefði farið með hest frá Kárastöðum að Þingvöllum. Hann hafi margsagt þessa sögu og hún hafi ávallt átt sér stað daginn áður. Þegar hann hafi bent C á að þetta hafi ekki getað verið daginn áður hafi C sagt að þetta hafi þá verið deginum fyrr. Einu sinni þegar hann hafi farið með C að greiða reikninga hafi C viljað stoppa í [...] þar sem bróðir hans hefði skilið eftir rjúpur fyrir sig. [...] hafi lokað mörgum árum fyrr, en það hafi ekki verið hægt að sannfæra C um það og hann hafi því farið með hann og sýnt honum það. C hafi þá talið að bróðir sinn hefði látið einhvern í næstu húsum geyma rjúpurnar. Stundum hafi C sagst hafa farið á skauta daginn áður, en þetta hafi verið eitthvað sem hafi gerst þegar hann hafi verið unglingur. Fyrst í stað hefði hann gert sér grein fyrir því að þetta hafi gerst þegar hann var ungur en svo hafi hann hætt að átta sig á því. Vitnið kannaðist við sögu C um að hafa gengið frá [...] frá F, en C hafi ekki sagt sér hana. Vitnið kvaðst hafa þekkt lítið til fjölskyldu C, en þó verið í sambandi við I, einkum í kringum jól. Vitnið staðfesti framburð sinn úr vitnamáli nr. V-21/2013.

                Vitnið F kvaðst hafa búið tvisvar sinnum í sömu blokk og C í [...]. Hann hafi nú búið þar samfellt síðustu átta árin. Hann hafi kynnst C þegar hann hafi flutt þarna fyrst. Honum hafi verið bent á að C væri afskiptasamur og fastheldinn, en hann hafi viljað komast að því af eigin raun. Þeir C hafi strax orðið miklir vinir. Vitnið kvað þau hjónin, C og D, hafa sagt sér og eiginkonu sinni frá því að þau hefðu gengið frá erfðamálum sínum. Stúlkan með nöfn þeirra beggja hefði átt að erfa þau. Hann hafi sjálfur ekkert þekkt til þeirrar stúlku. C hafi ekki minnst á nýja erfðaskrá við sig. Hann kvaðst telja að C hefði aldrei gert slíkt og hann hefði engan veginn verið fær um það í janúar 2010. Vitnið hefði sjálfur getað útbúið erfðaskrá sér til handa og látið C skrifa undir hana án þess að C hefði haft hugmynd um það. Heilsu C hafi farið mjög hrakandi í gegnum árin. Vitnið hafi farið hálfsmánaðarlega austur fyrir fjall í dagslangar vinnuferðir og hafi þá boðið C með sér. C hafi sagt frá ýmsu sem ekki hafi staðist. Hann hafi til að mynda sagst hafa farið til [...] daginn áður að heimsækja föður sinn og gengið til baka. Rútan hefði verið farin og engin bifreið verið á ferðinni. Þegar hann hafi spurt C hvort faðir hans hafi ekki verið látinn hafi C neitað því. Vitnið hafi dregið úr að fara með C í þessar ferðir árið 2006 og hætt því árið 2007, en þá hafi hann verið orðinn afleitur og ekki óhætt að skilja við hann einan í stórum verslunum. Einu sinni hafi liðið yfir C þegar þeir hafi verið í verslun. C hafi mikið verið farinn að segja sögur árin 2006 og 2007 sem hann hafi sagt aftur og aftur. Vitnið kvaðst fyrst hafa merkt minnistap á C þegar hann hefði keypt sér bifreið einhverju fyrr, en hefði svo ekki getað lært á hana. C hafi áður heimsótt hann mikið, en hafi svo gleymt því hvar hann hafi búið. Hann hafi því þurft að sækja hann á næstu hæð fyrir neðan fyrir heimsóknir. Vitnið kvaðst hafa hitt varnaraðila á [...] í ferðum sínum með C. C hafi hins vegar ekki viljað heimsækja hana. Hann hafi vitað til þess að varnaraðili kæmi til C og aðstoðaði hann. Vitnið staðfesti framburð sinn úr vitnamáli nr. V-21/2013.

                Vitnið K skýrði frá því að hún og varnaraðili væru systradætur og góðar vinkonur. Hún væri hjúkrunarfræðingur og starfaði á Alzheimerdeild á hjúkrunarheimilinu [...]. Hún sagði varnaraðila oft hafa talað um C, frænda sinn, við sig. Hún hafi heimsótt C með varnaraðila tvisvar til þrisvar sinnum á árinu 2009 og svipað oft fyrri hluta árs 2010. Í desember 2010 hafi varnaraðili farið til útlanda í frí. Hún hafi þá beðið sig um að fylgjast með lyfjagjöf C, en hann hafi stundum gleymt að taka lyfin sín. Vitnið hafi farið til hans þriðja hvern dag og sett þrjár töflur í box og gætt þess að hann tæki þær. Vitnið taldi C hafa verið sjálfbjarga. Hann hafi alltaf verið snyrtilegur og baðherbergið hreint. Hann hafi hellt sjálfur upp á kaffi og ávallt átt jólaköku eða kex. Hann hafi verið mjög vanafastur. Hann hafi verið áttaður á stað. Um haustið 2010 hafi hún tekið eftir því að hann hafi hætt að taka daga af dagatalinu. Í október 2010 hafi tíminn farið að týnast. Hann hafi farið í gönguferðir á hverjum degi, jafnvel þrisvar til fjórum sinnum þar sem hann hafi ekki munað að hann hafi þegar farið. Hann hafi jafnvel sótt tvö eða þrjú fréttablöð. C hafi ekki verið allra og ekki viljað tala um sumt. Hann hafi rætt um veðrið og gamla daga. Hann hafi getað sagt sömu sögurnar aftur og aftur. Hann hafi sagt frá byggingu hússins. Hann hafi hins vegar ekki haft áhuga á pólitík eða fréttum. Aldrei hafi verið kveikt á útvarpinu hjá honum. Hann hafi getað haldið uppi samræðum um það sem hann hafi haft áhuga á.

                Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort C hafi við gerð erfðaskrár 26. janúar 2010 verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt. Sá sem vill vefengja erfðaskrá verður samkvæmt 2. mgr. 34. gr., sbr. 1. mgr. 45. gr., erfðalaga nr. 8/1962 að sanna að arfleifandi hafi ekki, á þeim tíma er hann gerði erfðaskrána, verið svo heill heilsu andlega, að hann hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt.

                Engar upplýsingar hafa komið fram í málinu um aðdraganda að gerð hinnar umdeildu erfðaskrár sem C gerði 26. janúar 2010. Erfðaskráin var undirrituð hjá lögbókanda á skrifstofu Sýslumannsins í Reykjavík. Ekkert hefur komið fram í málinu um hver samdi erfðaskrána eða hver fylgdi C til sýslumannsins, en óumdeilt er að hann hafi ekki verið fær um að gera þetta sjálfur. Við aðalmeðferð málsins kom fram að lögbókandinn, N, er látin. Þá liggur ekkert fyrir í málinu um að vilji C hafi staðið til þess að breyta erfðaskrá sinni frá árinu 1996 eða að varnaraðili nyti arfs eftir hann.

                Í málinu liggur fyrir læknisvottorð heimilislæknis C, Halldórs Jónssonar, fyrir árin 2006 til 2012 ásamt fylgiskjölum. Í samantekt læknisvottorðsins segir að C hafi verið hraustur framan af, en greinst með væga skerðingu á skjaldkirtilsstarfsemi og blóðleysi. Minnisskerðing hafi ekki verið sérlega áberandi í upphafi en síðasta árið sem hann hafi lifað hafi hún farið áberandi vaxandi. Engar sértækar rannsóknir hafi verið gerðar á minni C og í mars 2012 hafi hann afþakkað rannsóknir á göngudeild aldraðra. Ekkert í sjúkraskrá gefi til kynna að ætla megi að hann hafi verið vanhæfur til að gera erfðaskrá í janúar 2010.

                Við mat á því hvort C hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið fær um að gera erfðaskrána í janúar 2010 verður litið til málsgagna og framburðar fyrir dómi. Fyrir liggur að engar sértækar rannsóknir voru gerðar á minni C. Þá virðist sem ekki hafi farið fram könnun á minni hans sem hægt hefði verið að styðja niðurstöðuna við. Í gögnum málsins kemur fram að öldrunarhjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöð C hafði samband við allt eldra fólk í hverfinu. Hjúkrunarfræðingurinn hefur fyllt út tvær beiðnir um heimahjúkrun, aðra dagsetta 22. nóvember 2011 og hina dagsetta 9. febrúar 2012. Í síðari beiðninni kemur fram að C sé ekki áttaður. Þá segir að hann sé skyndilega orðinn frekar gleyminn og hann þurfi eftirlit daglega og aðstoð við persónuleg þrif. Hjúkrunarfræðingurinn kom ekki fyrir dóminn og liggur ekki fyrir skýring á breyttu mati á ástandi C á mjög skömmum tíma. Aðrar vísbendingar um minnisskerðingu koma fram í gögnum málsins, svo sem í janúar 2011 þar sem fram kemur að C hafi gleymt að taka lyfin sín. Ekki þykir þó verða ráðið nægjanlega af þeim læknisfræðilegu gögnum sem liggja frammi í málinu hvert andlegt ástand C var á umræddum tíma.

                Varnaraðili bar fyrir dóminum að C hefði ekki haft áberandi minnisskerðingu. Hún gat þó ekki skýrt fyrir dóminum hvað fælist nánar í því eða hvort hún hefði orðið vör einhverra sérstakra tilvika minnisglapa, en nefndi þó að komið hefði fyrir að hann hefði gleymt að taka lyfin sín.

                Vitnin E og F voru nágrannar og vinir C. Þeir komu einnig fyrir dóminn í sérstöku vitnamáli, nr. V-21/2013, og var framburður þeirra á sömu leið og í þessu máli. Eins og rakið hefur verið hér að framan töldu þeir útilokað að C hafi haft nægan skilning á gildi arfleiðslunnar í janúar 2010. Við mat á framburði þeirra E og F verður litið til þess að hvorugur þeirra hefur sérstök tengsl við aðila þessa máls eða nokkurra hagsmuna að gæta. Þá verður litið til þess að lýsingar þeirra samræmast framburði annarra vitna í málinu.

                Með hliðsjón af framangreindum framburði í málinu og þeirra takmörkuðu læknisfræðilegu gagna sem við nýtur þykir dóminum sýnt að hæfni C til að ráðstafa málefnum sínum hafi verið orðin skert. Vitni í málinu hafa gefið skýrar samsvarandi lýsingar sem samræmast því að hann hafi verið haldinn stigvaxandi heilabilun. Ljóst þykir að einkenni heilabilunar hafi komið fram löngu fyrir gerð erfðaskrárinnar árið 2010, en það að C hafi glatað hæfni sinni til að geta ekið nýrri bifreið, eins og komið hafi í ljós árið 2003, þrátt fyrir að hafa haft bifreiðaakstur að atvinnu, er skýrt merki um andlega hrörnun. Augljós merki um minnistap komu fram á næstu árum eftir þetta, en ljóst er að einkenni sem þessi ganga ekki til baka, heldur fara einungis versnandi. Með hliðsjón af framangreindu þykir ljóst að andleg heilsa C hafi verið með þeim hætti í janúar 2010 að hann hafi ekki verið fær um að ráðstafa eigum sínum með erfðaskrá á skynsamlegan hátt. Þykir sóknaraðili því hafa fært sönnur á að C hafi skort hæfi til að gera erfðaskrána 26. janúar 2010, samkvæmt 2. mgr. 34. gr., sbr. 1. mgr. 45. gr., erfðalaga. Verður því fallist á kröfu hennar um að erfðaskráin verði dæmd ógild.

                Eftir atvikum þykir rétt að málsaðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn ásamt meðdómendunum Jóni Eyjólfi Jónssyni öldrunarlækni og Maríu Ólafsdóttur heimilislækni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Erfðaskrá C, dagsett 26. janúar 2010, er ógild.

                Málskostnaður fellur niður.