Hæstiréttur íslands
Mál nr. 793/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Þriðjudaginn 9. desember 2014. |
|
Nr. 793/2014.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (sjálf) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun L um að X skyldi sæta áframhaldandi nálgunarbanni, var felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2014 þar sem felld var úr gildi ákvörðun sóknaraðila um að varnaraðili skyldi sæta áframhaldandi nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun hans frá 27. nóvember 2014 um að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt verði bann við því að hún komi á eða í námunda við heimili A, að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreindan stað, mælt frá miðju hússins. Jafnframt að lagt sé bann við því að varnaraðili veiti A eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðila hefur tvisvar verið gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola, í síðara skiptið með dómi Hæstaréttar 11. júní 2014 í máli nr. 401/2014, þar sem staðfest var ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 28. maí sama ár, um að banna henni í sex mánuði að veita brotaþola eftirför, nálgast hann á almannafæri eða setja sig í samband við hann með öðrum hætti.
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt framansögðu. Af þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn verður ekki ráðið með órækum hætti að fullnægt sé skilyrðum til að varnaraðili sæti áfram nálgunarbanni. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun sína, dags. 27. nóvember 2014, með vísan til 3 gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, að X skuli sæta áframhaldandi nálgunarbanni, samkvæmt a- og b-liðum 1. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hún komi á eða í námunda við heimili A að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreindan stað, mælt frá miðju hússins. Jafnframt að lagt verði bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að forsaga málsins sé sú að upphaflega hafi X verið gerð 30 daga skilorðsbundin fangelsisrefsing fyrir brot gegn valdstjórninni með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-[...]/2013, en brot X hafi beinst að A sem lögreglumanni eftir að hann hafi haft afskipti af henni í starfi sínu sem leitt hafi til þess að X var handtekin, sjá mál lögreglu nr. 007-2013-[...].
Þá er þess getið að X hafi sætt nálgunarbanni gagnvart A frá 11. júlí 2013 til 11. janúar 2014 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nr. R-[...]/2013 frá 14. júlí sl. vegna áreitis og hótana í garð A í kjölfar áðurgreindrar handtöku. Þá hafi hafi hún verið uppvís að því að klifra upp á svalir á heimili hans meðan hún hafi sætt nálgunarbanninu og safnað persónuupplýsingum um hann og fjölskyldu hans. Þann 28. maí sl. hafi X aftur verið gert að sæta nálgunarbanni, sem staðfest hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-[...]/2014, gagnvart A en til þá hafði hún valdið A ónæði og áreiti með símhringingum og sendingu smáskilaboða, mest megnis af kynferðislegum toga. Meðan X hafi sætt síðara nálgunarbanninu hafi hún verið uppvís að því í tvígang að nálgast A á almannafæri og vísist þar til mála lögreglu nr. 007-2014-[...] og 007-2014-[...]. Sé það grundvellur ákvörðunar lögreglu nú um að framlengja nálgunarbannið.
Í ljósi framangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt að því leyti að hætta sé á að X muni halda áfram að raska friði A í skilningi ákvæðisins njóti hún fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi hans verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Með vísan til þessa sé sú ákvörðun lögreglustjóra tekin að X skuli sæta nálgunarbanni, samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hún komi á eða í námunda við heimili A að [...] í [...], á svæði sem afmarkist við 50 metra radíus umhverfis framangreindan stað, mælt frá miðju húsins. Jafnframt sé lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.
Ákvörðun þessi taki gildi við birtingu hennar samkvæmt 9. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
Niðurstaða:
Til grundvallar ákvörðun lögreglu um að varnaraðili sæti áfram nálgunarbanni gagnavart A liggja skýrslur af tveimur tilvikum þar sem hún er talin hafa brotið gildandi nálgunarbann með því að nálgast brotaþola á almannafæri.
Fyrra tilvikið átti sér stað 2. júlí sl. við bensínstöð [...] í [...] þar sem varnaraðili er sögð hafa veitt lögreglubifreið sem brotaþoli ók eftirför í skamma stund. Í skýrslutöku hjá lögreglunni neitar varnaraðili því að hafa veitt brotaþola eftirför í umrætt sinn. Að mati dómsins hafa ekki verið lögð fyrir dóminn gögn sem sýna fram á að varnaraðili hafi brotið nálgunarbann gagnvart brotaþola í umrætt sinn.
Síðara tilvikið átti sér stað 17. október sl. á [...] í [...]. Brotaþoli ásamt fleiri lögreglumönnum voru á veitingastaðnum þegar varnaraðili kom þangað ásamt vinkonu sinni. Samkvæmt gögnum málsins og yfirlýsingu hennar sjálfrar fyrir dómi liggur fyrir að hún yfirgaf ekki staðinn þegar hún varð brotaþola vör heldur settist niður og keypti sér veitingar. Á hinn bóginn ávarpaði hún ekki brotaþola eða ónáðaði hann með öðrum hætti, en færði sig á borð nær honum í miðju borðhaldi.
Í nálgunarbanni varnaraðila felst að henni er óheimilt að nálgast brotaþola á almannafæri. Þótt framangreint atvik sé þannig að líta megi á það sem ögrun gagnvart brotaþola verður ekki talið að í því felist vafalaust brot á nálgunarbanni því sem varnaraðili sætti á umræddum tíma.
Með vísan til framangreinds verður ekki talið að varnaraðili hafi skýrlega brotið gegn nálgunarbanninu. Með hliðsjón af því hve lengi varnaraðili hefur sætt nálgunarbanni, eðli þeirra ávirðinga sem urðu tilefni síðasta nálgunarbanns og því að atvikin nú sem eru tilefni ákvörðunar lögreglu um áframhaldandi nálgunarbann eru ekki alvarlegs eðlis, verður einnig að telja að það stríði gegn grundvallarreglu um meðalhóf að framlengja bannið áfram, sbr. m.a. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Felld er úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 27. nóvember sl. um að varnaraðili, X, sæti áframhaldandi nálgunarbanni, samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
Þóknun réttargæslumanns brotaþola, Kristjáns B. Thorlacius hrl., 75.300 krónur skal greidd úr ríkissjóði.