Hæstiréttur íslands
Mál nr. 113/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Kröfulýsing
- Skuldskeyting
- Skuldabréf
- Stjórnarskrá
|
|
Mánudaginn 12. mars 2012. |
|
Nr. 113/2012.
|
Þrotabú Fjárfestinga- og umsýslufélags Norðurklappar ehf. (Haukur Örn Birgisson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing. Skuldskeyting. Skuldabréf. Stjórnarskrá.
E gaf 16. mars 2006 út veðskuldabréf til forvera L hf., tryggðu með veði í fasteign. F ehf., sem þá bar heitið N ehf., tók 15. maí 2009 yfir skyldur samkvæmt veðskuldabréfinu með yfirlýsingu um skuldskeytingu, vegna kaupa félagsins á veðandlaginu. Lýsti L hf. kröfu við slit þrotabús F ehf. á grundvelli skuldbindingarinnar, en málsaðilar voru ekki á einu máli um fjárhæð kröfunnar. Í málinu var ágreiningslaust meðal aðila að í áðurgreindu veðskuldabréfi hefði verið mælt fyrir um ólögmæta gengistryggingu veðskuldarinnar og hvernig skipa bæri kröfu L hf. í réttindaröð við slit þrotabús F ehf. Deila aðila laut einungis að því hvort heimilt væri við skiptin að beita ákvæði 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, og endurreikna kröfu L hf. miðað við það tímamark, er F ehf. tók yfir skyldur skuldara lánsins með skuldskeytingu, eða hvort miða ætti við útgáfudag skuldabréfsins. Hæstiréttur vísaði til þess að samkvæmt almennum reglum kröfuréttar hefði E við skuldskeytinguna verið leystur undan skyldum sínum gagnvart L hf. og F ehf. tekið þær skuldbindingar yfir, en samningur um yfirtöku skuldar hefði almennt ekki önnur réttaráhrif en þau sem aðilar samnings ætluðu honum. Yfirlýsing um skuldskeytingu hefði ekki fært F ehf. kröfur eða réttindi sem E átti eða kynni að eignast á hendur kröfuhafa vegna lögskipta þeirra, þ. á m. rétt E vegna ofgreiðslna er tengdust ólögmætri gengistryggingu lánsins sem áttu sér stað fyrir skuldskeytinguna. F ehf. hefði því ekki verið sviptur fjárhagslegum réttindum sínum á afturvirkan og íþyngjandi hátt með lagasetningunni. Var lýst krafa L hf. því tekin til greina við slit þrotabús F ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. febrúar 2012 sem barst héraðsdómi þann dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. febrúar 2012, þar sem kröfu varnaraðila samkvæmt veðskuldabréfi nr. 0130-74-4759 að fjárhæð 21.917.689 krónur „eða eins langt og hún nær miðað við verðmæti veðandlagsins“ var skipað í réttindaröð við slit sóknaraðila sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., „en það sem út af kann að standa“ sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laganna. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreind krafa aðeins viðurkennd að fjárhæð 14.279.735 krónur „eins langt og hún nær miðað við verðmæti veðandlagsins“ samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, „en það sem út af kunni að standa verði viðurkennt“ samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Í máli þessu er ágreiningslaust með málsaðilum að í veðskuldabréfi því sem Einar Kristjánsson gaf út til Landsbanka Íslands hf. 16. mars 2006, tryggðu með veði í fasteigninni að Hafnargötu 75 í Reykjanesbæ, voru ákvæði sem fólu í sér ólögmæta gengistryggingu veðskuldarinnar, sbr. dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Með yfirlýsingu um skuldskeytingu 20. júní 2009 tók Novos fasteignafélag ehf. yfir skyldur skuldara samkvæmt veðskuldabréfinu frá og með 15. maí það ár, en skuldskeytingin mun komin til vegna kaupa félagsins á veðandlaginu í júní 2009. Í yfirlýsingu um skuldskeytinguna, sem er að finna á þinglýstum viðauka við veðskuldabréfið, er lýst stöðu veðskuldarinnar í hinum erlendu myntum, vanskilum þann dag, vaxtakjörum sem lántaki skuldbindur sig til að greiða og að vextir reiknist frá 15. maí 2009. Þá segir: „SKULDSKEYTING Novos fasteignafélag ehf. ... yfirtekur hér með skyldur skuldara samkvæmt ofangreindu veðskuldabréfi með undirsskrift sinni.“ Undir yfirlýsinguna rita upphaflegur skuldari, Einar Kristjánsson, hinn nýi skuldari, Novos fasteignafélag ehf., og kröfuhafinn, NBI hf., sem síðar hlaut heiti varnaraðila.
Á einhverju tímamarki eftir skuldskeytinguna var nafni hins nýja skuldara breytt í Fjárfestinga- og umsýslufélag Norðurklappar ehf. Það félag var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 3. mars 2011 og veðandlagið selt nauðungarsölu 14. febrúar 2011. Skiptastjóri birti innköllun til kröfuhafa 7. mars 2011 og með kröfulýsingu 6. maí sama ár lýsti varnaraðili kröfu í þrotabúið á grundvelli fyrrgreinds veðskuldabréfs. Frá því í mars 2006 og fram til 15. maí 2009 hafði fyrri skuldari lánsins samkvæmt gögnum málsins greitt vexti, afborganir og vaxtaálag af því, allt miðað við útreikning á gengistryggðum höfuðstól.
II
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er ágreiningslaust með málsaðilum að krafa varnaraðila samkvæmt fyrrnefndu veðskuldabréfi sé tryggð með veði í fasteigninni Hafnargötu 75, krafan njóti við skipti á þrotabúi sóknaraðila stöðu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 og að sá veðréttur nái, svo langt sem verðmæti veðandlagsins hrekkur, til fullnustu kröfunnar. Þá eru aðilar sammála um að þegar verðmæti veðandlagsins hefur verið varið til fullnustu kröfu varnaraðila, njóti það sem eftir kann að standa stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Ágreiningur málsaðila snýst um það eitt hvort heimilt sé við skiptin að beita ákvæði 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, við endurreikning á kröfu varnaraðila. Sóknaraðili telur að reikna beri lánið gagnvart sér miðað við útgáfudag skuldabréfsins 16. mars 2006, en ef miðað er við þann dag sé staða lánsins 14.279.735 krónur. Varnaraðili telur á hinn bóginn að endurreikna beri lánið miðað við 15. maí 2009, en samkvæmt fyrrgreindri yfirlýsingu um skuldskeytingu tók nýr skuldari lánsins yfir skyldur skuldara frá og með þeim degi. Staða lánsins miðað við það tímamark sé 21.917.689 krónur og muni því 7.637.954 krónum eftir því hvort tímamarkið sé lagt til grundvallar. Ekki er tölulegur ágreiningur með málsaðilum.
III
Lög nr. 151/2010 voru sett í tilefni af þremur dómum Hæstaréttar. Með fyrrgreindum dómum réttarins 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var skorið úr ágreiningi lánveitenda og lántaka þar sem deiluefnið var um höfuðstól skulda svonefndra bílalána. Niðurstaða þeirra var á þann veg að tenging lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla væri ólögmæt. Úrlausn um það hvernig færi um vexti að fenginni þeirri niðurstöðu fékkst 16. september 2010 með dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 þar sem um var að ræða sams konar bílalán og í fyrrnefndum málum, en samkvæmt dóminum skulu þá greiddir vextir jafnháir þeim, sem Seðlabanki Íslands ákveður af nýjum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum.
Með 1. gr. laga nr. 151/2010 voru gerðar breytingar á 18. gr. laga nr. 38/2001. Þar er kveðið á um hvernig haga skuli uppgjöri lánssamninga í tilvikum þar sem samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógild. Ákvæði 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 7. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010, er svohljóðandi: „Nú hafa, einu sinni eða oftar, orðið aðila- eða skuldaraskipti að lánssamningi þar sem um er að ræða ólögmæta vexti og/eða verðtryggingu. Skal þá hver skuldari eiga sjálfstæðan rétt gagnvart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum þeim sem þeir inntu af hendi vegna lánsins, svo og rétt eða skyldu til leiðréttingar vegna breytinga á höfuðstól lánsins vegna áhrifa gengistryggingar. Réttindi og skyldur hvers og eins aðila skulu miðast við þann tíma sem viðkomandi var skuldari lánssamnings. Leiðrétting nær bæði til greiðslna og höfuðstóls á því tímabili samkvæmt eftirfarandi reglum: a. Greiðsluuppgjör. Reiknaður skal mismunur allra þeirra greiðslna sem skuldari innti af hendi og þess sem hefði átt að greiða miðað við vexti skv. 4. gr. og aðra skilmála lánssamnings. b. Höfuðstólsleiðrétting. Breytingar á höfuðstól vegna ólögmætrar verðtryggingar sem reiknaður hefur verið á höfuðstól láns meðan hver aðili var skuldari láns skal koma til sérstaks uppgjörs sem miðast við dagsetningu aðilaskipta að lánssamningi og miðast réttur eða skylda hvers aðila til leiðréttingar við þann dag. Sé aðili ekki lengur skuldari láns skal mismunur vegna greiðslna og leiðrétting höfuðstóls vegna ólögmætrar verðtryggingar koma til sérstaks uppgjörs. Sé aðili enn skuldari skal mismunur greiðslna færður á höfuðstól láns eða dreginn frá honum samkvæmt öðrum ákvæðum þessarar greinar.“
Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 151/2010 segir meðal annars að dómar Hæstaréttar um gengistryggð lán hafi leitt í ljós verulega annmarka á framkvæmd laga nr. 38/2001 bæði að því er varði skilning á efnisákvæðum þeirra um heimild til verðtryggingar fjárskuldbindinga og þeim uppgjörsreglum sem við taki ef ólögmætir skilmálar hafi verið til staðar. Þó að dómar Hæstaréttar hafi létt af mestu óvissunni sé engu að síður hætt við að ágreiningur verði gerður um lögmæti fjölda samninga á víðtæku sviði skammtíma- og langtímafjármögnunar. Þá hafi vaknað spurningar um jafnræði meðal skuldara, einkum á neytendamarkaði. Meginmarkmið frumvarpsins sé því að draga úr þessari óvissu og til grundvallar séu lögð þau sanngirnisrök að sambærileg mál fá sambærilega niðurstöðu auk þess að tryggja réttaröryggi við uppgjör lána með óskuldbindandi gengisviðmiðun. Í athugasemdum með ákvæði því sem varð að 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 segir meðal annars að þar sé kveðið á um skyldu lánveitanda til að láta skuldara í té fullnaðarkvittun, ef niðurstaða útreiknings á stöðu skuldar leiði til slíkrar niðurstöðu, og hlutast að eigin frumkvæði til um að veðböndum verði aflétt þar sem það eigi við. Þá sé í málsgreininni einnig kveðið á um gjalddaga þeirrar fjárhæðar sem inna þurfi af hendi til skuldara sem greitt hafi hærri fjárhæð en sem nemi eftirstöðvum skuldar. Er efnahags- og viðskiptaráðherra fylgdi frumvarpinu úr hlaði sagði hann meðal annars um ákvæði það sem varð að 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, að í þeim tilvikum þar sem eigendaskipti hefðu orðið og fleiri en einn lántakandi kæmi að málum væri miðað við að sá lántakandi sem varð fyrir tjóni fengi það bætt úr hendi viðkomandi lánveitanda.
IV
Málatilbúnaður sóknaraðila er á því reistur að verði 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, beitt um endurútreikning eftirstöðva umrædds skuldabréfs gagnvart sér, verði krafa varnaraðila á hendur honum hærri en verið hefði ef lagasetningin hefði ekki komið til. Að gengnum dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi sóknaraðili öðlast lögvarða kröfu á hendur varnaraðila þess efnis að lán hans yrði endurreiknað frá lántökudegi, þar sem í veðskuldabréfinu hafi verið ákvæði um ólögmæta gengistryggingu. Við skuldskeytinguna, sem verið hafi án alls fyrirvara, hafi Novos fasteignafélag ehf. yfirtekið annars vegar allar skuldbindingar fyrri skuldara samkvæmt veðskuldabréfinu og hins vegar öll réttindi hans. Þar undir falli mótbárur fyrri skuldara vegna ofgreiðslna hans fyrir skuldskeytinguna og réttur til endurgreiðslu vegna þeirra, og sé það í samræmi við meginreglur kröfuréttar um framsal viðskiptabréfakrafna. Krafa sóknaraðila til lækkunar lánsins hjá varnaraðila sé lögvarin krafa og því eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og verði krafan ekki af honum tekin nema með lögum, að almannahagsmunir krefji og fullt verði komi fyrir. Með setningu laga nr. 151/2010 hafi sóknaraðili hins vegar verið sviptur þessari eign sinni með afturvirkum og íþyngjandi hætti. Að auki reisir sóknaraðili kröfur sínar í málinu á því að lög nr. 151/2010 brjóti gegn réttmætum væntingum hans og að lánsskuldbindingin sé ósanngjörn í hans garð í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Varnaraðili telur ljóst að setning laga nr. 151/2010 hafi engu breytt um fjárhæð kröfu hans á hendur sóknaraðila. Upphaf réttinda og skyldna hins nýja skuldara, Novos fasteignafélag ehf., gagnvart varnaraðila til leiðréttingar á greiðslum sem inntar hafi verið af hendi og til breytinga á höfuðstól vegna áhrifa gengisbreytinga miðist samkvæmt almennum reglum kröfuréttar við tímamark skuldskeytingarinnar, enda ljóst að ekki var um að ræða ofgreiðslur hjá Novos fasteignafélagi ehf. fyrir það tímamark. Í viðauka við veðskuldabréfið séu fjárhæðir eftirstöðva lánsins, eins og þær voru 15. maí 2009, tilgreindar í hinum erlendu myntum. Með undirritun Novos fasteignafélags ehf. á skuldskeytingarskjalið hafi félagið orðið skuldbundið til að greiða skuld að þeirri fjárhæð sem tilgreind sé í skjalinu. Á því tímamarki sem skuldskeytingin varð hafi orðið til ný skuldbinding milli varnaraðila og síðari skuldara í samræmi við efni skuldskeytingarskjalsins. Síðari skuldari hafi ekki tekið yfir réttindi eða skyldur fyrri skuldara vegna ofgreiðslna eða vangreiðslna sem áttu sér stað fyrir skuldskeytinguna, enda komi ekkert fram í skuldskeytingarskjalinu eða veðskuldabréfinu þar um. Sá réttur sem fyrri skuldari hafði áunnið sér í formi endurgreiðslukröfu um ofgreitt fé hafi því ekki getað yfirfærst á nýjan skuldara nema með sérstöku samkomulagi þar um.
Samkvæmt þessu telur varnaraðili að með engu móti sé hægt að líta svo á að sóknaraðili eigi rétt til leiðréttingar gagnvart varnaraðila vegna fjárhæða sem fyrri skuldari ofgreiddi, heldur hafi sá réttur alltaf tilheyrt fyrri skuldara. Sóknaraðili hefði því aldrei fengið höfuðstól skuldar sinnar hjá varnaraðila endurreiknaðan að fullu og breyti setning laga nr. 151/2010 engu þar um. Í 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010 sé á hinn bóginn skýrlega mælt fyrir um hvernig standa skuli að endurútreikningi lána með ólögmætri gengistryggingu. Þar sé á því byggt að þegar skuldaraskipti hafi orðið að slíku láni skuli réttindi og skyldur hvers og eins aðila miðast við þann tíma sem viðkomandi var skuldari lánssamnings. Því hafi sá réttur sem nýr skuldari öðlaðist með yfirtöku á láninu ekki verið rýrður með ákvæði 7. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010 sem varð að 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001.
V
Í kafla I hér að framan er gerð grein fyrir yfirlýsingu þeirri um skuldskeytingu sem gerð var 20. júní 2009 með samkomulagi Einars Kristjánssonar, upphaflegs skuldara samkvæmt veðskuldabréfi því er um ræðir í málinu, og hins nýja skuldara, Novos fasteignafélags ehf., sem síðar hlaut heitið Fjárfestinga- og umsýslufélag Norðurklappar ehf. Kröfuhafinn, NBI hf., sem síðar hlaut heiti varnaraðila, reit samþykki sitt á yfirlýsinguna. Í samræmi við almennar reglur kröfuréttar um skuldaraskipti var upphaflegur skuldari lánsins með yfirlýsingunni leystur undan skyldum sínum gagnvart varnaraðila og tók Novos fasteignafélag ehf. þær skuldbindingar yfir með samþykki kröfuhafa.
Sú regla gildir í íslenskum rétti að samningur um yfirtöku skuldar hefur almennt ekki önnur réttaráhrif en þau sem aðilar samningsins gagngert ætla honum. Yfirlýsing sú um skuldskeytingu sem um ræðir í þessu máli var samkvæmt efni sínu og orðalagi án alls fyrirvara af hálfu hins nýja skuldara og kvað á um það eitt að Novos fasteignafélag ehf. tæki yfir skyldur skuldara samkvæmt veðskuldabréfinu, hver vaxtakjör lánsins væru og hvert skyldi framvegis vera fyrirkomulag við greiðslu afborgana og vaxta af láninu. Samkvæmt þessu færði yfirlýsingin hinum nýja skuldara ekki í hendur kröfur eða annars konar réttindi sem upphaflegur skuldari átti eða kynni að eignast á hendur kröfuhafa vegna fyrrgreindra lögskipta þeirra. Er því fallist á með varnaraðila að sá réttur sem upphaflegur skuldari veðskuldabréfsins hafði áunnið sér vegna ofgreiðslna er tengdust ólögmætri gengistryggingu lánsins og áttu sér stað fyrir skuldskeytinguna, hafi við hana ekki færst yfir á nýjan skuldara. Reglur viðskiptabréfaréttar um mótbárutap skuldara gagnvart grandlausum framsalshafa viðskiptabréfs eiga hér ekki við.
Ákvæði 1. gr. laga nr. 151/2010 sem varð að 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 felur í sér reglu varðandi uppgjör lánssamninga þar sem fleiri en einn hafa verið skuldari að láni með ólögmætum vaxta- og verðtryggingarákvæðum. Miðar reglan eins og áður er fram komið að því að sá skuldari sem orðið hefur fyrir tjóni fái það bætt beint úr hendi lánveitanda. Af því fyrirkomulagi leiðir að skuldari sem hefur yfirtekið lán með ólögmætri gengistryggingu getur því aðeins gert kröfu um endurgreiðslu eða lækkun höfuðstóls að hann hafi á eignarhaldstíma sínum ofgreitt afborganir eða höfuðstóll láns hans hafi hækkað vegna gengisbreytinga. Samkvæmt þessu og því sem áður greinir um réttarstöðuna fyrir og eftir umrædda skuldskeytingu var Novos fasteignafélag ehf. með setningu 1. gr. laga nr. 151/2010 ekki svipt með afturvirkum og íþyngjandi hætti fjárhagslegum réttindum sem það hafði öðlast fyrir gildistöku laganna. Sóknaraðila er ekki hald í öðrum þeim málsástæðum sem hann teflir fram kröfum sínum til stuðnings.
Samkvæmt öllu framansögðu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Þrotabú Fjárfestinga- og umsýslufélags Norðurklappar ehf., greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 500.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. febrúar 2012.
I.
Með bréfi dagsettu þann 1. desember sl., sem barst dóminum þann 6. desember sl., krafðist skiptastjóri þrotabús Fjárfestinga- og umsýslufélagsins Norðurklappar ehf. úrlausnar héraðsdóms vegna mótmæla Landsbankans hf. varðandi afstöðu skiptastjóra til lýstrar kröfu bankans í þrotabúið.
Er Landsbankinn hf. sóknaraðili í máli þessu og þrotabú Fjárfestinga- og umsýslufélagsins Norðurklappar ehf. varnaraðili.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans samkvæmt veðskuldabréfi nr. 0130-74-4759, sem lýst var í þrotabú varnaraðila sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., í 2. tl. leiðréttrar kröfulýsingar, dags. 10. nóvember 2011, verði viðurkennd að fullu sem slík krafa að fjárhæð 21.917.689 krónur, eins langt og hún nái miðað við verðmæti veðandlagsins, en það sem út af kunni að bera verði viðurkennt sem almenn krafa skv. 113. gr. sömu laga.
Til vara gerir sóknaraðili þá kröfu að krafa hans samkvæmt ofangreindu veðskuldabréfi verði viðurkennd sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 vegna lægri fjárhæðar en að framan greinir, eins langt og hún nái miðað við verðmæti veðandlagsins, en það sem út af kunni að bera verði viðurkennt sem almenn krafa skv. 113. gr. sömu laga.
Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað.
Varnaraðili krefst þess að krafa sóknaraðila samkvæmt veðskuldabréfi nr. 0230-74-4759, sem lýst var í þrotabú varnaraðila sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., í 2. tl. leiðréttar kröfulýsingar, dags. 10. nóvember 2011, verði lækkuð niður í 14.279.735 krónur eins langt og hún nær miðað við verðmæti veðandlagsins, en það sem út af kunni að bera verði viðurkennt sem almenn krafa skv. 113. gr. sömu laga. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.
II.
Undir rekstri málsins kom fram hjá aðilum að ekki væri tölulegur ágreiningur milli aðila né ágreiningur um að veðskuldabréfið nyti veðréttinda samkvæmt efni sínu svo langt sem veðandlagið dygði. Þá var ekki ágreiningur um að sú fjárhæð sem stæði út af yrði viðurkennd sem almenn krafa. Eini ágreiningur aðila væri um það frá hvaða degi réttindi varnaraðila hafi stofnast, þ.e. hvort hann hafi yfirtekið þau réttindi og þær skyldur sem fylgdu yfirteknu skuldabréfi samkvæmt almennum kröfuréttarreglum og reglum um eignarrétt, frá útgáfudegi skuldabréfsins eða frá þeirri stundu sem hann yfirtók skuldabréfið. Krefst sóknaraðili þess að 7. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010 verði beitt við útreikning á réttindum varnaraðila en varnaraðili kvað útreikning gagnvart honum eiga að vera frá útgáfudegi bréfsins. Er því eingöngu krafist úrlausnar á því ágreiningsefni fyrir dóminum, hvort lög nr. 151/2010, sem tóku gildi þann 18. desember 2010, hafi stjórnskipulegt gildi við útreikning og uppgjör aðila. Verður sá ágreiningur eingöngu tekinn til úrlausnar í máli þessu.
III.
Í bréfi skiptastjóra varnaraðila til dómsins kemur fram að bú varnaraðila hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 3. mars 2011 og Björgvin Halldór Björnsson hdl. verið skipaður skiptastjóri. Var skiptabeiðandi Íslandsbanki hf. Hafi skiptafundur um lýstar kröfur í búið farið fram í skrifstofu skiptastjóra þann 23. maí 2011. Á fundinum voru lögð fram gögn merkt nr. 4-6, þ. á m. skrá yfir lýstar kröfur. Skiptastjóri tók ekki afstöðu til allra krafna á þessum skiptafundi heldur boðaði til nýs skiptafundar sem haldinn var 23. september 2011. Var boðað til fundar með tölvupósti til kröfuhafa. Á skiptafundi 23. september 2011 var ekki tekin afstaða til krafna í þrotabúið heldur var boðað til annars skiptafundar þann 25. nóvember 2011. Var sú boðun tilkynnt með tölvupósti, dags. 26. september 2011. Með tölvupósti, dags. 3. nóvember 2011, óskaði skiptastjóri eftir því að Landsbankinn endurreiknaði kröfur merktar nr. 26 og 27 í kröfuskrá. Skiptastjóra barst svar frá bankanum þann 8. nóvember 2011 þar sem skiptastjóra var tilkynnt að kröfurnar væru í endurútreikningi og leiðrétt kröfulýsing bærist þegar hún væri tilbúin. Skiptastjóra barst svo leiðrétt kröfulýsing í tölvupósti þann 10. nóvember 2011. Skiptastjóri féllst á endurútreikning á kröfu nr. 27 en var ekki sammála leiðréttri kröfu nr. 26 og skoraði á bankann að bæta úr með tölvupósti, dags. 22. nóvember 2011. Landsbankinn móttók áskorunina með tölvupósti, dags. 24. nóvember 2011. Skiptastjóri og fulltrúi kröfuhafa áttu símtal seinna þann sama dag þar sem bankinn útskýrði afstöðu sína og hélt fast við kröfu sína. Bankinn sendi seinna þann sama dag tölvupóst þar sem vísað var í samtalið og óskað eftir afstöðu skiptastjóra. Með hliðsjón af því tók skiptastjóri ákvörðun um að hafna kröfunni og tilkynnti bankanum það með tölvupósti 24. nóvember 2011, sem bankinn staðfesti móttöku á sama dag. Skiptafundur var svo haldinn í þrotabúinu þann 25. nóvember 2011, þar sem skiptastjóri bókaði mótmæli bankans við afstöðu skiptastjóra. Var bókað við sama tækifæri að skiptastjóri myndi boða fulltrúa bankans á ágreiningsfund í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 eins fljótt og kostur væri. Skiptastjóri boðaði fulltrúa bankans á fund með tölvupósti, dags. 28. nóvember 2011, sem fulltrúi bankans móttók samdægurs.
Ágreiningsfundur með fulltrúa kröfuhafa var haldinn 30. nóvember 2011 á skrifstofu skiptastjóra. Á fundinum ítrekaði skiptastjóri höfnun sína og tiltók ýmis rök. Þá kvað skiptastjóri vanta gögn, þ. á m. endurútreikning lánsins og nýja stöðu lánsins eftir endurútreikning. Landsbanki Íslands hf. ítrekaði mótmæli við afstöðu skiptastjóra til lýstrar kröfu bankans númer 26 í kröfuskrá. Um röksemdir er vísað til kröfulýsingar. Skiptastjóri ítrekaði þá afstöðu sína að hann teldi að ekki væri um réttmæta kröfu að ræða sökum ólögmætrar gengistryggingar á skuldabréfi sem krafan væri byggð á. Þar sem ekki tókst að jafna ágreining aðila varðandi kröfu númer 26 í kröfuskrá urðu aðilar sammála um að beina málefninu til héraðsdóms til að fá úrlausn um ágreininginn með vísan til 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991. Skiptastjóri telur ljóst að þrotabúið þurfi að eiga aðild að málinu, sbr. 4. tl. 1. mgr. 171. gr. laganna.
IV.
Málavextir.
Samkvæmt gögnum málsins gaf Einar Kristjánsson, kt. 030669-4799, þann 16. mars 2006, út veðskuldabréf nr. 4759 til Landsbanka Íslands hf. Í skuldabréfinu kemur fram að skuldin sé jafnvirði IKR 11.900.000 í eftirtöldum myntum og hlutföllum: EUR 45%, USD 25%, CHF 20% og JPY 10%. Fjárhæðin skyldi endurgreiðast með mánaðarlegum afborgunum á 40 árum með nánar tilgreindum skilmálum. Vextir skyldu vera breytilegir LIBOR-vextir auk 1,8% vaxtaálags. Í ákvæðum skuldabréfsins kemur fram að lánið sé bundið kaupgengi Landsbanka Íslands hf. á ofangreindum myntum tveimur virkum dögum fyrir útborgunardag, sem sé tveimur virkum dögum eftir að veðskuldabréfið berist með athugasemdalausri þinglýsingu til bankans. Einnig kemur fram að höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það var tveimur dögum fyrir útborgunardag til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Afborganir séu reiknaðar þannig að á hverjum gjalddaga sé deilt í höfuðstól hverrar myntar með þeim fjölda gjalddaga sem þá séu eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem sé í það sinn.
Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu höfuðstóls, vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar sem af vanskilum og innheimtuaðgerðum til fullnustu skuldarinnar kynni að leiða, og útgefanda bæri að greiða, var Landsbanka Íslands hf. sett að veði fasteign að Hafnargötu 75, Reykjanesbæ, með fastanúmerið 208-8140 samkvæmt fasteignaskrá. Um 2. veðrétt var að ræða. Skuldabréfinu var þinglýst á fasteignina 27. mars 2006.
Þann 20. júní 2009 yfirtók Novos fasteignafélag ehf., kt. 430806-1060, skyldur skuldara samkvæmt framangreindu skuldabréfi, samanber viðauka við veðskuldabréfið. Eftirstöðvar lánsfjárhæðarinnar voru þar miðaðar við 15.05.2009 og fram kemur að þann dag hafi eftirstöðvar lánsins verið EUR 57.431,43, JPY 1.808.237, CHF 40.175,68 og USD 38.357,31. Að auki voru vanskil að fjárhæð 94.207 krónur ógreidd og skyldu greiðast við undirritun viðaukans. Næsti gjalddagi skyldi vera 15. júní 2009. Fram kemur að vextir skuli vera jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni auk 3,75% vaxtaálags. Vextir skyldu reiknast frá 15.05.2009. Viðaukanum við veðskuldabréfið var þinglýst á framangreinda fasteign 8. júlí 2009. Einhvern tímann eftir yfirtöku Novos fasteignafélags ehf. á umræddu veðláni var nafni félagsins breytt í Fjárfestinga- og umsýslufélagið Norðurklöpp ehf., sem er varnaraðili máls þessa. Strax frá fyrsta gjalddaga eftir skuldskeytinguna urðu vanskil af hálfu skuldara. Þann 17. júlí 2010 voru þó 93.307 krónur greiddar inn á lánið og þann 31. mars 2011 3.098.218 krónur. Síðarnefnda greiðslan er til komin vegna nauðungarsölu á hluta hinnar veðsettu eignar sem fram fór í janúar 2011.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness. 3. mars 2011 í máli nr. G-892/2010 var bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. Í kjölfarið birti skiptastjóri varnaraðila innköllun, dags. 7. mars 2011, þar sem veittur var tveggja mánaða frestur til að lýsa kröfum í búið. Með kröfulýsingu, dags. 6. maí 2011, lýsti sóknaraðili kröfum í búið, þ.m.t. 23.976.152 krónum vegna framangreinds skuldabréfs. Skiptafundur var haldinn þann 23. maí 2011. Á fundinum kom fram að skiptastjóri varnaraðila hefði ekki tekið afstöðu til þeirrar kröfu sem hér um ræðir en boðað var til nýs skiptafundar 23. september 2011. Á þeim fundi var heldur ekki tekin afstaða til kröfunnar en boðað að skiptastjóri myndi kynna afstöðu sína til þeirra krafna sem ekki hefði verið tekin afstaða til á næsta skiptafundi sem haldinn yrði 25. nóvember 2011.
Með tölvuskeyti, dags. 3. nóvember 2011, tilkynnti skiptastjóri varnaraðila sóknaraðila að í kröfulýsingunni frá 6. maí 2011 virtust vera tvær kröfur með ólögmætri gengistryggingu sem ekki hefðu verið endurútreiknaðar, þ.e. kröfur nr. 2 og 3 í kröfulýsingu sóknaraðila og nr. 26 og 27 í kröfuskrá. Skiptastjóri óskaði eftir því við sóknaraðila að hann kannaði hvort endurreikna skyldi umræddar kröfur og ef svo væri að hann sendi skiptastjóra leiðrétta kröfulýsingu. Með tölvuskeyti, dags. 8. nóvember 2011, tilkynnti sóknaraðili skiptastjóra að unnið væri að endurútreikningi umrædds láns og að við þann endurútreikning yrði tekið tillit til greiðslna sem greiddar voru inn á það eftir úrskurðardag um gjaldþrotaskipti, vegna eignarhluta í hinni veðsettu eign að Hafnargötu 75, sem seldir voru á uppboði í janúar 2011. Sóknaraðili sendi skiptastjóra í kjölfarið leiðrétta kröfulýsingu, dags. 10. nóvember 2011. Þar hafði umrædd krafa verið endurreiknuð miðað við fjárhæðir við skuldskeytingu og tillit tekið til innborgana sem fóru fram eftir úrskurðardag um gjaldþrotaskipti, þ.e. 31. mars 2011, vegna nauðungarsölu á tilteknum eignarhlutum á Hafnargötu 75. Forsendur endurútreiknings sóknaraðila sé að finna á dskj. nr. 19.
V.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu (vaxtalaga), sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, mæli fyrir um að standa skuli að endurútreikningi hins umþrætta láns með þeim hætti sem sóknaraðili gerir, og í öðru lagi á því að jafnvel þótt standa hefði átt að endurútreikningi kröfunnar með öðrum hætti hafi skiptastjóra ekki verið heimilt að hafna henni að fullu. Í tilvitnuðu ákvæði 7. mgr. 18. gr. vaxtalaga komi fram að hafi einu sinni eða oftar orðið aðila- eða skuldaraskipti að lánssamningi, þar sem um sé að ræða ólögmæta vexti og/eða verðtryggingu, skuli hver skuldari eiga sjálfstæðan rétt gagnvart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum þeim sem þeir inntu af hendi vegna lánsins, svo og rétt eða skyldu til breytinga á höfuðstól lánsins vegna áhrifa gengistryggingar. Réttindi og skyldur hvers og eins aðila skuli miðast við þann tíma sem viðkomandi hafi verið skuldari lánssamnings. Leiðrétting nái bæði til greiðslna og höfuðstóls á því tímabili samkvæmt eftirfarandi reglum:
„a. Greiðsluuppgjör. Reiknaður
skal mismunur allra þeirra greiðslna sem skuldari innti af hendi og þess sem
hefði átt að greiða miðað við vexti skv. 4. gr. og aðra skilmála lánssamnings.
b. Höfuðstólsleiðrétting. Breytingar
á höfuðstól vegna ólögmætrar verðtryggingar sem reiknaður hefur verið á
höfuðstól láns meðan hver aðili var skuldari láns skal koma til sérstaks
uppgjörs sem miðast við dagsetningu aðilaskipta að lánssamningi og miðast
réttur eða skylda hvers aðila til leiðréttingar við þann dag.“ Þá komi fram að sé aðili ekki
lengur skuldari skuli mismunur greiðslna og leiðrétting höfuðstóls vegna
ólögmætrar verðtryggingar koma til sérstaks uppgjörs. Sé aðili enn skuldari
skuli mismunur færður á höfuðstól láns eða dreginn frá honum samkvæmt öðrum
ákvæðum þessarar greinar.
Þá segir sóknaraðili að í máli þessu sé ágreiningslaust að skuldabréfið, sem hin umþrætta krafa grundvallast á, hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu, samkvæmt 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., vaxtalaga, samanber m.a. niðurstöður dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Ákvæði 18. gr. vaxtalaga eiga því við um endurútreikning lánsins.
Novos fasteignafélag ehf. hafi yfirtekið skyldur skuldara samkvæmt framangreindu skuldabréfi 20. júní 2009 og hafi eftirstöðvar skuldarinnar verið miðaðar við 15. maí 2009. Í viðauka við veðskuldabréfið séu fjárhæðir eftirstöðva lánsins, eins og þær hafi verið þann dag, tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum. Fram komi að eftirstöðvar lánsins beri að greiða að fullu með 442 afborgunum á eins mánaðar fresti. Líta verði svo á að með undirritun fyrirsvarsmanns Novos fasteignafélags ehf. á skuldskeytingarskjalið hafi félagið orðið skuldbundið til að greiða skuld að þeirri fjárhæð sem tilgreind sé í skjalinu. Upphaf réttinda og skyldna félagsins og síðar varnaraðila gagnvart sóknaraðila til leiðréttingar á greiðslum sem inntar hafi verið af hendi og til breytinga á höfuðstól vegna áhrifa gengistryggingar miðist við það tímamark, samanber tilvitnað ákvæði 7. mgr. 18. gr. vaxtalaga. Varnaraðili eigi hins vegar ekki rétt til leiðréttingar fyrir það tímamark, eins og virðist byggt á af hálfu skiptastjóra varnaraðila.
Þá segir sóknaraðili að við endurútreikning á hinu umþrætta láni hafi sóknaraðili reiknað mismun allra þeirra greiðslna sem Novos fasteignafélag og síðar Fjárfestinga- og umsýslufélagið Norðurklöpp ehf. hafi átt að inna af hendi samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins og þeirra greiðslna sem félagið hafi verið krafið um miðað við vexti skv. 4. gr. vaxtalaga og aðra skilmála skuldabréfsins, eins og a-liður 7. mgr. 18. gr. vaxtalaga kveður með skýrum hætti á um að gera skuli. Þá hafi vextir á höfuðstól verið reiknaðir skv. 1. málsl. 4. gr., sbr. 1. mgr. 18. gr., vaxtalaga og breytingar á höfuðstól verið miðaðar við skuldskeytingardag í samræmi við ákvæði b-liðar 7. mgr. 18. gr. laganna. Verði því ekki annað séð en að endurútreikningur lánsins af hálfu sóknaraðila sé í fullu samræmi við skýr fyrirmæli 18. gr. vaxtalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Endurútreikningur frá lántökudegi fram að skuldskeytingardegi skuli hins vegar koma til uppgjörs gagnvart upphaflegum skuldara lánsins, samanber einnig 7. mgr. 18. gr. vaxtalaga. Með vísan til þessa sé því harðlega mótmælt að sóknaraðili hafi ekki staðið rétt að endurútreikningi umrædds láns og að gögn skorti um nýja stöðu lánsins eftir endurútreikning, eins og skiptastjóri varnaraðila haldi fram, og þess krafist að viðurkennt verði að skiptastjóra beri að taka kröfuna til greina.
Sóknaraðili telur að jafnvel þótt það væri rétt hjá skiptastjóra varnaraðila að standa hefði átt að endurútreikningi kröfunnar með öðrum hætti en sóknaraðili gerir hafi skiptastjóra ekki verið heimilt að hafna kröfunni. Líta verði til þess að ekki sé ágreiningur um tilvist kröfunnar heldur einungis um fjárhæð hennar. Yrði sú afstaða skiptastjóra að hafna kröfunni að fullu staðfest væru aðrir kröfuhafar varnaraðila að hagnast á því, umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi þess að tilvist veðkröfunnar sé ágreiningslaus.
Í 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. (gjaldþrotalaga) komi fram að í skrá um framkomnar kröfur skuli skiptastjóri láta í ljós sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og þá hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu um sig. Þá sé í 2. mgr. sömu greinar laganna kveðið á um að ef skiptastjóri fellst ekki á að viðurkenna kröfu að öllu leyti, eins og henni hafi verið lýst, skuli hann tilkynna hlutaðeigandi kröfuhafa um afstöðu sína með minnst viku fyrirvara áður en skiptafundur verði haldinn til að fjalla um lýstar kröfur. Augljóst sé af þessum ákvæðum að gert sé ráð fyrir að skiptastjóri geti viðurkennt kröfu að hluta. Sóknaraðili telji í ljósi þessa að skiptastjóra varnaraðila hafi borið að lýsa afstöðu sinni til þess að hvaða marki unnt sé að fallast á kröfuna í stað þess að hafna henni alveg. Skorað sé á skiptastjóra varnaraðila að upplýsa með skýrum hætti f.h. varnaraðila hvernig hann telji að framkvæma hefði átt endurútreikning á hinu umþrætta láni.
Fallist dómurinn ekki á að standa eigi að endurútreikningi lánsins með þeim hætti sem sóknaraðili byggir á, þ.e. miðað við skuldskeytingardag, þá er byggt á að endurreikna eigi lánið frá upphafstíma lánsins, samanber ákvæði skuldabréfsins og ákvæði 18. gr. vaxtalaga.
Sóknaraðili byggir á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og efndaskyldu loforða. Þá er byggt á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum, sérstaklega með lögum nr. 151/2010. Enn fremur er byggt á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
VI.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili mótmælir öllum málsástæðum sóknaraðila. Varnaraðili fellst á það með sóknaraðila að sóknaraðili eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila. Aðilar málsins séu hins vegar ósammála um upphæð og útreikning kröfunnar. Varnaraðili telur að hann eigi rétt á að höfuðstóll kröfu sóknaraðila verði endurreiknaður frá upphaflegum lántökudegi vegna þess að umþrætt skuldabréf sé með ólögmætri verðtryggingu miðaðri við gengi erlendra gjaldmiðla, sem sé ólögmætt skv. 13. og 14. gr laga nr. 39/2001. Varnaraðili telji að endurútreikningur sóknaraðila standist ekki, enda sé hann miðaður við að lántökudagur sé 15. maí 2009 þó svo að óumdeilt sé í málinu að skuldabréfið hafi upphaflega verið tekið þann 16. mars 2006. Samkvæmt útreikningum frá sóknaraðila sé upphæð skuldarinnar samkvæmt skuldabréfinu 14.279.735 krónur, sé miðað við að lánið sé endurreiknað frá lántökudegi. Varnaraðili telji það í hæsta máta óeðlilegt að hann fái ekki höfuðstól skuldar sinnar hjá sóknaraðila endurreiknaðan að fullu frá lántökudegi líkt og um hefði verið að ræða ef lög nr. 151/2010 sem breyttu lögum nr. 38/2001 hefðu ekki verið sett af Alþingi.
Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að með setningu laga nr. 151/2010 hafi verið brotið gegn réttindum sem honum séu tryggð með 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt þeim greinum sé eignarrétturinn friðhelgur og megi engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji en þá þurfi lagafyrirmæli að koma til og fullar bætur fyrir. Varnaraðili telji að með því að setja lög nr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001, hafi verið brotið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti hans. Varnaraðili átti, í kjölfar dóma Hæstaréttar um hin svokölluðu gengismál, t.d. nr. 92/2010, 153/2010 og 471/2010, lögvarða kröfu á sóknaraðila vegna skuldabréfs sem hann var skuldari að. Varnaraðili telji þessa kröfu til endurútreiknings, og þar með lækkunar á kröfu sinni, lögvarða í þeim skilningi að hann hefði getað haldið henni fram fyrir dómi og knúið sóknaraðila til lækkunar á kröfu sinni. Það byggi varnaraðili m.a. á viðauka við veðskuldabréf-skuldskeytingu, sbr. fylgiskjal nr. 5, en þar komi fram að varnaraðili yfirtaki allar skyldur samkvæmt framangreindu veðskuldabréfi. Þá segi jafnframt í þessari sömu yfirlýsingu: „að öðru leyti en að ofan greinir haldast ákvæði veðskuldabréfsins óbreytt“. Með setningu laga nr. 151/2010 varð þessi krafa varnaraðila til endurútreiknings og í kjölfarið lækkunar á kröfu sinni hjá sóknaraðila að engu.
Í 72. gr. stjskr. séu áskilin þrjú skilyrði fyrir eignarnámi en þau séu: „að almenningsþörf krefji“, „að til þess sé lagaheimild“ og „að fullar bætur komi fyrir þá eign sem tekin er“. Varnaraðili fellst á það með sóknaraðila að lagaheimildin sé til staðar, en það sé eina skilyrðið af þessum þremur sem sé uppfyllt. Varnaraðili fái ekki séð hvernig almenningsþörf geti réttlætt það að hann sé sviptur lögvarinni kröfu sinni til endurútreiknings ólögmæts gengisláns. Þá fái varnaraðili ekki heldur séð að almenningsþörf sé til þess að fella úr gildi samningsákvæði milli tveggja einkaaðila, og fela þriðja aðila réttindi samkvæmt skuldabréfinu. Þriðja skilyrðið um að „fullar bætur komi fyrir“ telji varnaraðili að ekki þurfi að fara yfir, enda hafi hann engar bætur fengið fyrir eignarnámið.
Þá byggir varnaraðili á því að til eigna í skilningi stjórnarskrár og 1. gr. 1. viðauka við MSE hafi verið talin fjárhagsleg verðmæti, þ. á m. kröfur sem aðilar geti fært rök fyrir að hann eigi a.m.k. lögmæta væntingu til að geta notið með virkum hætti. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi talið lögmætar væntingar geta leitt til þess að um eign sé að ræða sem njóti verndar MSE.
Þá telji varnaraðili jafnframt að lagasetningin brjóti gegn ólögfestri meginreglu stjórnskipunarréttar um bann við afturvirkni íþyngjandi laga. Varnaraðili telji ekki viðunandi að hann sé sviptur stórnskipulega vörðum rétti sínum til endurútreiknings og þar með kröfu um lækkun skuldar hans hjá sóknaraðila, með afturvirkri lagasetningu, en lög nr. 151/2010 hafi skert afturvirkt fjárhagslegan rétt varnaraðila gagnvart sóknaraðila en varnaraðili telji sig eiga kröfu á sóknaraðila þess efnis að hann endurreikni eftirstöðvar skuldabréfsins frá upphaflegum lántökudegi. Þessa kröfu telur varnaraðili vera eign í skilningi eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar, en það er almennt viðurkennt í stjórnskipunarrétti að krafa sé andlag eignarréttarákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Varnaraðili telur að lög sem íþyngja þegnum þjóðfélagsins skuli skýra þannig að þeim verði ekki beitt afturvirkt. Varnaraðili telur að Alþingi verði að virða þau réttindi sem til hafi verið stofnað fyrir gildistöku laga nr. 151/2010. Þá telur varnaraðili jafnframt að það sé almennt viðhorf að rangt sé að hrófla við þeim gerningum sem hafi verið í samræmi við lög þegar þeir voru gerðir og engar vísbendingar hafi verið um að breyting yrði þar á. Þegar varnaraðili hafi tekið yfir umþrætt skuldabréf hafi reglurnar þess efnis verið að skuldari tæki almennt yfir allan rétt og allar skyldur skuldara samkvæmt skuldabréfinu. Varnaraðili bendi á að afturvirk lög veiki traust á réttarskipaninni, enda sjái aðilar þá lítt fyrir afleiðingar gerða sinna og réttarstaða manna verði óljós, enda sé ein helsta forsenda þess að ríki geti talist réttarríki að lög séu nokkurn veginn stöðug þannig að í þeim birtist fyrirsjáanlegt ferli að gefnum tilgreindum forsendum. Festa í löggjöf tryggi öryggi í viðskiptum og eðlilegar og réttmætar væntingar bundnar ráðstöfunum sem menn geri. Þá telur varnaraðili að lagasetning þessi og í kjölfarið endurútreikningur sóknaraðila brjóti gegn réttmætum væntingum varnaraðila. Varnaraðili hafi mátt vænta þess að við yfirtöku veðskuldabréfsins þann 20. júní 2009 tæki hann yfir allan rétt og allar skyldur veðskuldabréfsins, þ.m.t. rétt á fullum endurútreikningi sér til handa, kæmi til hans, líkt og fram komi í skuldskeytingarskjalinu. Það sé almennt viðurkennt í íslenskum kröfurétti að við aðilaskipti að kröfu, svokallaðri skuldskeytingu, þá yfirtaki hinn nýi skuldari að öllu leyti skyldur (aðalskyldur og aukaskyldur) fyrri skuldara gagnvart kröfuhafa. Að öðru leyti breytist eðli og efni kröfunnar ekki við skuldskeytinguna og nýi skuldarinn geti almennt borið fram við kröfuhafa þær mótbárur, sem fyrri skuldari átti áður, svo sem að um ólögmæta erlenda gengistryggingu hafi verið að ræða og að skuldabréfið skuli þar af leiðandi endurreiknað að fullu. Varnaraðili bendir á og byggir á því að skuldabréfið sem um sé deilt í fyrirliggjandi máli sé viðskiptabréf. Um viðskiptabréf gilda ákveðnar traustfangsreglur sem gilt hafa frá ómunatíð og byggi á dóm- og viðskiptavenjum sem svo aftur leiði rétt sinn til tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf. Skuldarar hafi með öðrum orðum getað byggt væntingar á því að það séu þeir sem taki áhættu með því að gerast skuldarar skv. skuldabréfinu og verði að þola tap komi til þess en njóti góðs af gróða ef sú staða sé uppi. Í fyrirliggjandi máli sé staðan sú að varnaraðili hafi tekið yfir umþrætt skuldabréf löngu áður en hinir svokölluðu gengisdómar voru kveðnir upp, og því hafi hann tekið yfir öll réttindi og allar skyldur skuldabréfsins í góðri trú og með réttmætar væntingar um að hann einn hefði hagsmuna að gæta varðandi skuldabréfið. Með setningu laga nr. 151/2010 hafi löggjafinn gripið inn í viðskipti einkaaðila og veitt fyrri skuldara skuldabréfsins rétt samkvæmt skuldabréfinu á kostnað varnaraðila. Við það geti varnaraðili ekki unað, enda telji hann sig eiga rétt á fullum endurútreikningi samkvæmt skuldabréfinu frá upphaflegum lántökudegi.
Þá byggir varnaraðili á því að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu sóknaraðila að bera skuldabréfið fyrir sig í því horfi sem það sé núna í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936. Þegar varnaraðili hafi tekið skuldabréfið yfir með skuldskeytingu, hafi hann talið sig væntanlega vera að taka yfir öll réttindi og skyldur sem fylgi bréfinu. Þar á meðal hugsanlegan rétt til endurútreiknings yrðu skilmálar skuldabréfsins dæmdir óskuldbindandi. Vegna atvika, sem síðar hafi komið til, hafi þessi skuldskeyting orðið verulega íþyngjandi og ósanngjörn fyrir varnaraðila. Sé litið til efnis skuldabréfsins, þá sé það með skilmálum sem hafi verið dæmdir óskuldbindandi vegna ólögmætis. Sóknaraðili sé sérfræðingur á lánamarkaði þar sem hans meginhlutverk sé að veita útlán á meðan varnaraðili sé leikmaður á þeim markaði. Af þeim sökum telji varnaraðili að taka beri kröfu hans til greina og endurreikna lánið frá upphaflegum lántökudegi líkt og krafa varnaraðila hljóði upp á.
Varnaraðili byggir á 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33 frá 1944 og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 varðandi vernd eignaréttinda. Varnaraðili byggir á stjórnskipulegum meginreglum um bann við afturvirkni íþyngjandi laga og réttmætum væntingum. Varnaraðili byggir á meginreglum kröfu- og samningaréttarins um skuldskeytingar sem og 36. gr. laga nr. 7/1936. Fyrirsvar skiptastjóra byggist á 122. gr. laga nr. 21/1991. Kröfu um málskostnað styður varnaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
VII.
Forsendur og niðurstaða.
Sá ágreiningur sem eftir situr í máli þessu er hvort heimilt sé að beita 7. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, við útreikning á kröfu sóknaraðila í þrotabú varnaraðila. Sjónarmið aðila og rökstuðningur hefur verið rakinn ítarlega að ofan. Þá er ekki tölulegur ágreiningur um útreikninga á skuldabréfinu, einungis frá hvaða tíma skuli endurútreikna lánið.
Með dómum Hæstaréttar Íslands nr. 153/2010 og 92/2010 var dæmt um ólögmæti þess að byggja verðtryggingu lána á gengi erlendra gjaldmiðla. Skuldabréf það sem deilt er um í máli þessu var upphaflega byggt á gengi erlendra gjaldmiðla þegar lánið var veitt árið 2006, þ.e. EUR 45%, USD 25%, CHF 20% og JPY 10%. Skuldabréfið skyldi greiða á 40 árum með fyrsta gjalddaga 15. apríl 2006 með 480 afborgunum, breytilegum LIBOR-vöxtum og 1,8% vaxtaálagi. Var skuldin að jafnvirði 11.900.000 krónum. Var lánið tryggt með 2. veðrétti í Hafnargötu 75, Reykjanesbæ. Þann 20. júní 2009 var undirrituð skuldskeyting að láninu þannig að Novos fasteignafélag ehf. yfirtók lánið. Í viðauka við skuldabréfið, sem undirritað var af aðilum og ekki er ágreiningur um, yfirtók nýr skuldari eftirstöðvar lánsins eins og það stóð miðað við 15. maí 2009. Voru eftirstöðvar miðað við þann dag tilgreindar EUR 57.431,43, JPY 1.808.237, CHF 40.175,68 og USD 38.357,31. Að auki voru vanskil að fjárhæð 94.207 krónur ógreidd sem greiða átti við undirritun skuldskeytingarinnar. Eftirstöðvar lánsins átti að greiða að fullu með 442 afborgunum á eins mánaðar fresti og var næsti gjalddagi afborgana og vaxta 15. júní 2009. Þá skyldi lántakandi greiða bankanum vexti, sem voru breytilegir vextir, jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni auk 3,75% vaxtaálags. Greiddust vextir eftir á, á sömu gjalddögum og afborganir. Reiknuðust vextir frá 15. maí 2009. Þá er tekið fram að Novos fasteignafélag ehf. yfirtaki skyldur skuldara samkvæmt ofangreindu veðskuldabréfi með undirskrift sinni. Auk annarra skilmála er tekið fram að að öðru leyti en að ofan greini haldist ákvæði veðskuldabréfsins óbreytt. Í gögnum málsins kemur fram að skuldabréfið hafi farið í vanskil 15. júní 2009.
Með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 153/2010 og 92/2010 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að tenging lána í íslenskum krónum við erlendar myntir væri verðtrygging í skilningi VI. kafla vaxtalaga, og væri viðmið afborgana við erlenda gjaldmiðla óheimil. Í kjölfar voru sambærileg lán endurútreiknuð og eftirstöðvum breytt í íslenskar krónur. Með lögum nr. 151/2010 var gerð breyting á 18. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 og lögákveðin fyrirmæli um hvernig skyldi reikna út gengistryggð lán og þá einnig ef fleiri en einn skuldari hafði verið á láninu. Um gildi þessarar lagasetningar deila aðilar.
Sóknaraðili krefst þess að lánið verði reiknað miðað við að varnaraðili hafi tekið það 15. maí 2009 en varnaraðili krefst þess að útreikningur gagnvart honum miðist við lántökudag þann 16. mars 2006. Sjónarmið aðila hafa verið ítarlega rakin að ofan.
Mismunur á útreikningum aðila er 7.637.954 krónur eftir því hvor reikningsaðferðin er notuð.
Í 5. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010 segir: „Kröfuhafa ber að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar. Við ákvörðun endurgreiðslu eða útreikning á stöðu skuldar skal upphaflegur höfuðstóll skuldar vaxtareiknaður samkvæmt ákvæðum 1. mgr. Frá höfuðstól og áföllnum vöxtum skal draga þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag. Þannig útreiknuð fjárhæð myndar eftirstöðvar skuldarinnar og skulu þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varðar lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af ákvæðum þessarar greinar. Hafi skuldari notið greiðslujöfnunar á grundvelli ákvæða laga nr. 63/1985, eða samkvæmt sérstöku samkomulagi, skal hún falla niður og fjárhæð á jöfnunarreikningi bætast við höfuðstól lánsins. Nýti skuldari sér rétt til verðtryggingar veðláns skv. 2. mgr. skal greiðslujöfnun aftur taka gildi, nema skuldari óski sérstaklega eftir að vera undanþeginn greiðslujöfnun, og skal greiðslumark skv. 3. gr. laga nr. 63/1985 taka gildi á því tímamarki sem umreikningur láns samkvæmt þessari málsgrein miðast við.“ Ekki er deilt um gildi þessa ákvæðis, enda hefur endurútreikningur farið fram á láninu miðað við þessar forsendur.
Í 7. mgr. sömu greinar segir: „Nú hafa, einu sinni eða oftar, orðið aðila- eða skuldaraskipti að lánssamningi þar sem um er að ræða ólögmæta vexti og/eða verðtryggingu. Skal þá hver skuldari eiga sjálfstæðan rétt gagnvart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum þeim sem þeir inntu af hendi vegna lánsins, svo og rétt eða skyldu til leiðréttingar vegna breytinga á höfuðstól lánsins vegna áhrifa gengistryggingar. Réttindi og skyldur hvers og eins aðila skulu miðast við þann tíma sem viðkomandi var skuldari lánssamnings. Leiðrétting nær bæði til greiðslna og höfuðstóls á því tímabili samkvæmt eftirfarandi reglum.“ Um gildi þessa ákvæðis er deilt.
Eins og málum er háttað hér, keypti varnaraðili fasteign í júní 2009 og var hluti kaupverðsins yfirtaka á láni sem var í erlendum gjaldmiðlum. Kaupsamningur hefur ekki verið lagður fram en fasteignin var seld nauðungarsölu þann 14. febrúar 2011 samkvæmt kröfulýsingu sóknaraðila.
Við skuldaraskipti á láninu yfirtók nýr skuldari eftirstöðvar skuldarinnar. Við yfirtöku lánsins yfirtók nýr skuldari einnig öll réttindi og allar skyldur sem fylgdu skuldabréfinu eða lánasamningnum. Yfirtók hann því allar þær mótbárur er fyrri skuldari hafði samkvæmt reglum kröfuréttar. Þá er tekið undir það með varnaraðila að kröfuréttindi séu eignarréttindi í skilningi 72. gr. stjórnarskrár Íslenska lýðveldisins nr. 33/1944 og verður ekki af tekinn nema með lögum, að almannahagsmunir krefjist og komi fullt verð fyrir. Þá er tekið undir þau sjónarmið varnaraðila að íþyngjandi lög verði ekki sett með afturvirkum hætti nema brýna nauðsyn beri til og þá gegn greiðslu bóta, skerðist réttindi við slíka lagasetningu. Óumdeilt er í máli þessu að ákvæði 7. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010 er afturvirkt og snertir lögvarinn eignarrétt aðila.
Þá ber að skoða væntingar sóknaraðila og hvort hann hafi við beitingu þessa ákvæðis orðið fyrir bótaskyldu tjóni.
Varnaraðili yfirtók ákveðna fjárhæð í erlendri mynt þann 15. maí 2009. Fram að þeim tíma, eða frá mars 2006, hafði fyrri skuldari, upphaflegur lántakandi, greitt afborganir, vexti og vaxtaálag af láninu, allt miðað við útreikning á gengistryggðum höfuðstól. Ágreiningslaust er að leiðréttingu lánsins, og útreikning, ber að miða við útgáfudag bréfsins. Þegar varnaraðili yfirtók eftirstöðvar lánsins, miðað við 15. maí 2009, gat hann ekki yfirtekið önnur réttindi né aðrar skyldur en fylgdu þeirri fjárhæð sem eftir stóð af láninu. Eigi varnaraðili rétt á endurútreikningi frá lántökudegi, þá hagnast hann verulega á kostnað upphaflegs viðsemjanda síns, fyrri skuldara lánsins. Við slíka niðurstöðu myndi seljandi eignarinnar eignast lögvarða kröfu á hendur varnaraðila, annaðhvort í formi vangreidds söluverðs þeirrar fasteignar sem varnaraðili keypti af fyrri skuldara, eða skaðabóta. Yrði þá fjárkrafa fyrri skuldara byggð á þeirri lækkun sem fengist með endurútreikningi á þeirri fjárhæð sem fyrri skuldari hafði greitt í afborganir og vexti frá lántökudegi þar til skuldaraskiptin urðu. Við skuldaraskiptin hafði varnaraðili ekki væntingar um þau málalok, allavega hefur hann ekki sýnt fram á að það hafi verið forsenda hans við yfirtöku lánsins eða að hann hafi haft sérstakar væntingar til þess að skuldin yrði lægri en við yfirtökuna. Því verður ekki tekið undir þau sjónarmið varnaraðila að hann hafi mátt vænta þess að öðlast þann rétt fyrri skuldara að fá ofgreiðslu greidda sér til handa við endurútreikning lánsins eins og krafa varnaraðila er byggð á í máli þessu. Varnaraðili gat aldrei öðlast annan og meiri rétt við yfirtöku lánsins en þann rétt sem þá var til staðar við yfirtökuna. Ekki lá fyrir við yfirtökuna að fyrri lántakandi hefði ofgreitt af láninu miðað við upphaflegar forsendur og því gat nýi skuldarinn ekki haft neinar væntingar um að hagnast á slíku uppgjöri síðar. Sá réttur sem fyrri skuldari hafði áunnið sér í formi endurgreiðslukröfu um ofgreitt fé, gat ekki yfirfærst á nýjan skuldara nema með sérstöku samkomulagi þar um. Því hefur sá réttur sem nýr skuldari öðlaðist við yfirtöku á láninu, ekki verið rýrður með ákvæði 7. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Réttur fyrri skuldara til endurgreiðslu ofgreiddra afborgana og vaxta úr hendi lánveitanda verður ekki af honum tekinn og er ákvæði 7. mgr. 1. gr. laganna ætlað að tryggja þann rétt. Þá hefur skuldabréfið verið endurútreiknað miðað við íslenskar krónur og hefur ekki verið hallað á varnaraðila varðandi það, enda ekki ágreiningur um þann útreikning. Hefur varnaraðili því ekki sýnt fram á að setning og afturvirkni 7. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010 skerði stjórnarskrárbundinn eignarrétt hans.
Verður að þessum niðurstöðum fengnum að taka kröfu sóknaraðila til greina eins og segir í úrskurðarorði.
Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 ber varnaraðila að greiða sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð.
Viðurkennd er krafa sóknaraðila, Landsbankans hf., samkvæmt veðskuldabréfi nr. 0130-74-4759, sem lýst var í þrotabú varnaraðila, þrotabú Fjárfestinga- og umsýslufélagsins Norðurklappar ehf. sem veðkröfur samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, í 2. tl. leiðréttar kröfulýsingar dagsettri 10. nóvember 2011, sem slík krafa að fjárhæð 21.917.689 krónur eða eins langt og hún nær miðað við verðmæti veðandlagsins, en það sem út af kann að standa sem almenn krafa skv. 113. gr. sömu laga.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.