Hæstiréttur íslands

Mál nr. 264/2012

A (Þorsteinn Einarsson hrl.)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald hrl.)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Vátrygging
  • Slysatrygging
  • Tilkynning


Líkamstjón. Vátrygging. Slysatrygging. Tilkynning.

A krafðist viðurkenningar á bótaskyldu SA hf. úr frítímaslysatryggingu vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir er hann féll í stiga á veitingahúsi. Deildu aðilar um það hvort A væri bundinn af tilkynningu SA hf. þar sem greiðsluskyldu var hafnað og hefði þar með glatað rétti til bóta þar sem hann hefði hvorki borið synjunina undir dómstóla né úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum innan árs frá því tilkynningin barst honum. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði meðal annars að tilkynning SA hf. hefði verið stíluð á A og beint til lögheimilis hans, sem hefði verið hið sama og tilgreint hefði verið sem heimilisfang A í tjónstilkynningu hans til SA hf. Taldi Hæstiréttur að forsvaranlegt hefði verið að senda tilkynninguna með almennum pósti og að það væri ekki á ábyrgð félagsins þótt A kynni að hafa farið mis við hana vegna nánar tilgreindra ástæðna. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um sýknu SA hf.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. apríl 2012. Hann krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda stefnda úr frítímaslysatryggingu maka áfrýjanda hjá félaginu vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir 4. mars 2006, er hann féll í stiga á veitingastaðnum […] og slasaðist. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en hann nýtur gjafsóknar á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að bótaskylda verði einungis dæmd að hluta og að málskostnaður falli niður.

Eins og að framan greinir höfðar áfrýjandi mál þetta sem viðurkenningarmál. Af gögnum málsins verður með vissu ráðið að hagsmunir þeir sem áfrýjandi leitar dómsviðurkenningar um svari til áfrýjunarfjárhæðar, sbr. 3. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi slasaðist áfrýjandi alvarlega er hann féll niður stiga á veitingahúsi í Reykjavík aðfaranótt 4. mars 2006. Hann sendi stefnda tilkynningu um slysið 23. sama mánaðar. Tilkynningin var rituð á eyðublað frá stefnda og í henni fólst krafa um greiðslu bóta úr frítímaslysatryggingu fjölskyldutryggingar, sem félagið hafði veitt. Jafnframt var félaginu veitt heimilt til gagnaöflunar vegna slyssins. Í tilkynningunni kom fram að heimili áfrýjanda sé að […]. Þá kemur fram að vátryggingartaki sé tilgreind kona, sem mun þá hafa verið maki áfrýjanda. Stefndi kveðst hafa sent áfrýjanda bréf 24. ágúst 2006 þar sem fram hafi komið að félagið hafni greiðsluskyldu úr frítímaslysatryggingunni vegna þess að ,,bein orsakatengsl“ hafi verið milli ölvunar hans og þess að slysið varð. Óumdeilt er í málinu að efni bréfs þessa fullnægir skilyrðum 2. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, sem tekur meðal annars til slysatrygginga. Áfrýjandi telur sig óbundinn af tilkynningunni þar sem hún hafi ekki borist honum fyrr en löngu seinna. Með því á áfrýjandi við, eftir því sem fram kom í skýrslu hans fyrir dómi, að hann hafi fyrst séð tilkynninguna ,,veturinn 2007-2008“ en þá hafi hann fengið afrit af henni frá stefnda. Áfrýjandi skaut synjun stefnda á greiðsluskyldu félagsins til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum 27. október 2008. Varð niðurstaða nefndarinnar á þann veg að áfrýjandi hefði, hvað sem öðru liði, glatað rétti til bóta úr tryggingunni þar sem hann hefði ekki krafist meðferðar málsins fyrir nefndinni innan árs frá því að hann fékk bréf félagsins um synjun á greiðsluskyldu þess, sbr. 2. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004.

Í síðastnefndu lagaákvæði segir meðal annars svo: ,,Hafni félagið kröfu um bætur í heild eða að hluta glatar sá sem rétt á til bóta þeim rétti ef hann hefur ekki höfðað mál eða krafist meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr. innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu um höfnunina.“  Í hinum tilvitnuðu orðum er ekki að finna fyrirmæli um sendingarhátt þeirra tilkynninga sem um ræðir. Verður því að gera þá kröfu að slíkar tilkynningar séu sendar á þann hátt sem forsvaranlegt er að nota miðað við aðstæður, sbr. til dæmis 82. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Fallist er á með héraðsdómi að sannað sé að stefndi hafi sent tilkynningu sína, sem dagsett er 24. ágúst 2006. Hún var stíluð á áfrýjanda og beint til lögheimilis hans, sem var hið sama og hann tilgreindi sem heimilisfang sitt í tjónstilkynningunni til stefnda. Í tilkynningunni var hvorki gefið upp tölvupóstfang né bréfasímanúmer. Upplýst er að tilkynningin var send í almennum pósti. Sá háttur á sendingu hennar verður, meðal annars með tilliti til tjónstilkynningarinnar, að teljast hafa verið forsvaranlegur. Var það því ekki á ábyrgð félagsins þótt áfrýjandi kunni að hafa farið á mis við tilkynninguna vegna skilnaðar við eiginkonu sína, búferlaflutninga, sem hann ekki lét stefnda vita af, eða af öðrum ástæðum sem hann hefur borið fyrir sig.

Með vísan til alls framangreinds verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt þykir að hvor aðili greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2012.

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 1. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, kt. [...], […], með stefnu, birtri 5. janúar 2011, á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. [...], Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennd verði bótaskylda úr frítímaslysatryggingu hans hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna slyss sem hann varð fyrir þann 4. marz 2006 er hann féll í stiga á veitingastaðnum […] og slasaðist. Þá er krafizt málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess, að bótaskylda verði einungis viðurkennd að hluta vegna slyss stefnanda og málskostnaður verði felldur niður.

II

Málavextir

Málavextir eru þeir, að stefnandi slasaðist, þegar hann féll niður stiga á veitingahúsinu […] að […], aðfaranótt laugardagsins 4. marz 2006. Starfsmaður veitingastaðarins, B, varð vitni að slysinu, en hann var að koma út úr hliðarsal, þegar hann sá stefnanda við stigann. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 10. marz 2006 lýsir hann slysinu  svo, að stefnandi hafi ekki hitt fyrsta þrepið, þegar hann hugðist ganga niður stigann. Hann hafi lent á öðru þrepi, misst jafnvægið og fallið niður stigann. Hringt var á sjúkrabíl, sem flutti stefnanda á bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi til aðhlynningar. Við komu þangað mældist etanól í blóði hans 2,35‰.

Við slysið hlaut stefnandi meðal annars dreifðar blæðingar á heila, brotið kinnbein, lömun við vinstra auga og augnlok og tvísýni. Stefnandi kveðst hafa verið í endurhæfingu síðan slysið varð og hafi hann haft afar takmarkaða vinnugetu eftir slysið.

Stefnandi var með frítímaslysatryggingu hjá stefnda og tilkynnti hann slysið til félagsins skriflega þann 23. marz 2006. Þann 24. ágúst 2006 sendi félagið svarbréf, þar sem félagið hafnaði greiðsluskyldu úr frítímaslysatryggingu fjölskyldutryggingar stefnanda með vísan til þess, að stefnandi hefði valdið slysinu af stórkostlegu gáleysi, þar sem orsök þess hefði verið ölvunarástand hans sjálfs. Í niðurlagi bréfsins er tekið fram, að krafa stefnanda falli niður samkvæmt 51. og 124. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, hafi hann ekki skotið ákvörðun stefnda að þessu leyti til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, eða eftir atvikum dómstóla, innan árs frá umræddri tilkynningu. Bréfið var sent með almennum pósti.

Stefndi kveður bréfið ekki hafa borizt sér fyrr en löngu seinna, en bréfið hafi þó verið sent fyrrverandi eiginkonu hans, en stefnandi hafi legið á sjúkrahúsi, þegar bréfið var sent. Stefnandi og kona hans hafi verið skilin, þegar atvik gerðust.

Stefnandi skaut höfnun félagsins til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem komst að þeirri niðurstöðu, að þar sem ekki hafi verið krafizt meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni innan árs frá því stefnandi fékk höfnunarbréf félagsins, hefði hann glatað rétti sínum til bóta.

Stefnandi kveðst hvorki geta fallizt á, að hann hafi glatað rétti sínum til bóta vegna ástæðna, sem rekja megi til stefnda, né að hann hafi valdið slysinu með stórkostlegu gáleysi.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveðst í fyrsta lagi ekki geta fellt sig við algera höfnun bótaskyldu á grundvelli stórkostlegs gáleysis. Þrátt fyrir að ákvæði 2. mgr. 27. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 mæli fyrir um, að vátryggingafélag geti losnað úr ábyrgð í heild eða að hluta vegna stórkostlegs gáleysis vátryggða, og að litið skuli til sakar vátryggðs og þess, hvort hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, sem hann hafi sjálfviljugur neytt, verði ekki fallizt á, að háttsemi hans hafi talizt stórkostlegt gáleysi í skilningi ákvæðisins. Ákvæðið mæli einungis fyrir um heimild vátryggingafélags til að líta til þess, hvernig vátryggingaratburð hafi borið að höndum, m.a. hvort vátryggður hafi verið undir áhrifum áfengis. Áfengisáhrif leiði því ekki sjálfkrafa til þess, að háttsemi teljist stórkostlegt gáleysi, heldur þurfi að fara fram heildarmat á aðstæðum. Í sérstökum athugasemdum frumvarps að lögum um vátryggingar¬samninga með 27. gr. komi fram, að þó að áfengisneyzla geti haft áhrif á rétt til bóta, leiði það ekki sjálfkrafa til þess, að félagið losni úr ábyrgð í heild eða að hluta. Jafnframt komi fram, að ákvæði skilmála, sem mæli fyrir um, að vátryggðir megi ekki smakka áfengi á vátryggingartímabilinu, og ef þeir geri það, losni félagið úr ábyrgð, verði ekki beitt.

Þrátt fyrir að þeir skilmálar, sem hér um ræði, hafi ekki innihaldið slíkt ákvæði, megi hafa hliðsjón af orðum frumvarpsins varðandi það, að ölvun við tjónsatburð leiði ekki sjálfkrafa til algerrar höfnunar bótaskyldu. Eðli málsins samkvæmt hljóti að þurfa að horfa til háttseminnar sjálfrar og hættueiginleika hennar, þegar mat sé lagt á, hvort hafna eigi bótaskyldu eða takmarka hana. Einnig sé bent á, að samkvæmt 3. mgr. 27. gr. geti félag ekki borið fyrir sig, að vátryggður hafi valdið vátryggingaratburði, teljist háttsemin ekki til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis. Það sé harla ólíklegt, að sú háttsemi, að ætla sér að ganga niður stiga á skemmtistað undir áhrifum áfengis, falli undir stórkostlegt gáleysi. Þó svo að háttsemi stefnanda teljist ef til vill einfalt gáleysi, dugi það ekki til þess, að félagið hafni alfarið bótaskyldu, sbr. 3. mgr. 27. gr. Ómögulegt sé að líta svo á, að menn afsali sér bótarétti með því að smakka áfengi. Í tilviki stefnanda beri sérstaklega að líta til þess, að um hafi verið að ræða veitingastað með vínveitingaleyfi, sem hafi þann tilgang að selja fólki áfengi í hagnaðarskyni. Þá sé einnig um að ræða fyrirtæki, sem laði til sín fólk með auglýsingum. Af þessum sökum sé viðbúið, að ölvað fólk gangi um staðinn og þar af leiðandi sé nauðsynlegt, að aðbúnaður sé sem öruggastur, en svo hafi ekki verið í umrætt sinn, er slysið varð.

Varðandi túlkun á hugtakinu stórkostlegt gáleysi vísi stefnandi til Hrd. frá 18. júní 2004 í málinu nr. 93/2004, þar sem talið hafi verið um stórkostlegt gáleysi að ræða. Maður hafi fallið niður á hellulagða gangstétt af brú, þar sem hann hafi gengið á kanti hennar. Hann hafi verið búinn að drekka nokkra bjóra og hafi borið fyrir sig minnisleysi um atburðinn. Ekki hafi þótt vera aðrar rökréttar skýringar á slysi mannsins miðað við aðstæður á vettvangi, en að hann hefði sjálfur klifrað yfir grindverkið á brúnni og fallið eða kastað sér niður, eða hann hefði verið að ganga á öðrum hvorum kanti hennar og fallið þannig niður. Verði ekki séð, að háttsemi stefnanda sé á neinn hátt sambærileg háttsemi mannsins í þessum dómi, enda um mjög óvenjulega og hættulega háttsemi að ræða af hálfu mannsins, andstætt háttsemi stefnanda.

Greinarmunur á almennu gáleysi og stórkostlegu gáleysi felist í því, að hlutlægt séð þurfi að vera um að ræða mun alvarlegra frávik frá fyrirmæltri eða viðurkenndri háttsemi til þess að gáleysi teljist stórkostlegt. Verður ekki fallizt á, að háttsemi stefnanda hafi verið slíkt meiriháttar frávik frá eðlilegri háttsemi, að um stórkostlegt gáleysi sé að ræða. Þá verði að fara fram atviksbundið mat á háttsemi, þegar ákvarðað sé, hvort hún feli í sér stórkostlegt gáleysi eða ekki. Hafi stefndi ekki viðhaft slíkt mat, heldur sé eingöngu gert ráð fyrir, að háttsemin hafi falið í sér stórkostlegt gáleysi.

Jafnframt beri að líta til þess, að sú háttsemi stefnanda að ætla sér að ganga niður stiga á veitingahúsi, geti ekki talizt óeðlilega áhættusöm eða þess eðlis, að ölvaðir einstaklingar ættu að forðast hana, enda sé ómögulegt að meina öllum ölvuðum einstaklingum aðgang að stigum. Hér beri einnig að líta til þess, að samkvæmt byggingarreglugerð nr. 441/1998 hafi stigi […] ekki staðizt þær kröfur, sem gerðar séu til stiga, þ.e. þrepahæðin hafi ekki verið í samræmi við það, sem mælt sé fyrir um í reglugerðinni, sbr. grein 202.4 a, þar sem mælt sé fyrir um uppstig í tröppum. Þar komi fram um hæð á uppstigi, að hæðin tvöföld, að viðbættri dýpt framstigs, skuli vera samtals frá 60 til 64 cm, þegar tröppur séu í 30° til 45° halla. Uppstig þrepa á slysstaðnum, skemmtistaðnum […], hafi verið 19 cm há og því ekki fallið innan þessa hlutfalls, þar sem tvöföld hæð, að viðbættri dýpt séu samtals 68 cm. Að auki hafi lýsingin inni á veitingastaðnum verið slæm og dimmt í stiganum. Af ljósmyndum í lögregluskýrslu sjáist þetta glögglega. Stefnandi leggi áherzlu á, að það hljóti að þurfa að horfa til þess, að margir skemmtistaðir borgarinnar, þ. á m. […], hafi fengið vínveitingaleyfi, þó svo að öryggi gesta sé ábótavant. Sé til að mynda algengt, að skemmtistaðir séu staðsettir í gömlum húsum, þar sem stigar uppfylli ekki ákvæði byggingarreglugerða. Mörg alvarleg slys hafi orðið vegna slæms aðbúnaðar stiga á þessum stöðum. Um þetta atriði hafi oft verið fjallað í dómaframkvæmd. Til hliðsjónar vísi stefnandi til dóms Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðins þann 25. apríl 2008 í máli nr. E-1990/2007, þar sem fallizt hafi verið á bótaskyldu vegna slyss, sem hafi orðið sökum vanbúnaðar stiga á skemmtistað.

Í öðru lagi mótmæli stefnandi þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, að þar sem ekki hafi verið krafizt meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni innan árs frá því að stefnandi fékk höfnunarbréf félagsins, hefði hann glatað rétti sínum til bóta. Þess beri að geta, að stefnanda hafi ekki borizt höfnunarbréf stefnda fyrr en í október 2008, en þá hafi hann fengið í hendur afrit af bréfinu, sem dagsett hafi verið 24. ágúst 2006. Það bréf hafi því í fyrsta lagi aldrei borist stefnanda þar sem það hafi ekki verið sent í ábyrgð, auk þess sem það hafi verið sent röngum viðtakanda, eða fyrrverandi eiginkonu stefnanda, og í öðru lagi hafi stefnandi legið á sjúkrahúsi, þegar bréfið var sent. Sökum þessa aðgæzluleysis félagsins, að senda slíkt bréf ekki í ábyrgð, sé ekki loku fyrir það skotið, að óviðkomandi hefðu getað veitt bréfinu viðtöku, án vitundar stefnanda. Telja verði, með hliðsjón af dómi Hæstaréttar nr. 266/2008 frá 5. febrúar 2009, að sönnunarbyrði um það, að viðhlítandi tilkynningar hafi verið sendar til einstaklinga og borizt þeim, hvíli á tryggingafélögum, og að þau verði að tryggja sér sönnun um slíkt. Telji stefnandi ljóst, að félagið hafi ekki fært fram sönnur fyrir því, að réttum viðtakanda hafi borizt tilkynning um höfnun bótaskyldu, fyrr en löngu eftir dagsetningu bréfsins, og hljóti félagið að þurfa að bera hallann af því.

Stefnandi kveðst vísa til ólögfestra meginreglna á sviði vátryggingarréttar. Einnig sé stuðzt við lög um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og beri því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður stefnda

Aðalkröfu um sýknu kveðst stefndi í fyrsta lagði byggja á því, að stefnandi hafi glatað hugsanlegum rétti til bóta, þar sem hann hafi hvorki höfðaði mál né krafizt meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum innan árs frá höfnun stefnda á kröfu hans, svo sem áskilið sé í 2. mgr. 51. gr. og 2. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

Fyrir liggi, að stefndi hafi sent stefnanda höfnunarbréf, dags. 24. ágúst 2006, sbr. dómskjal nr. 15, sem hafi að öllu leyti uppfyllt efnisskilyrði tilvitnaðra lagaákvæða. Bréfið hafi stefnandi sent á það heimilisfang, sem stefnandi hafi gefið upp í tjónstilkynningu sinni til stefnda, sem aukinheldur hafi verið lögheimili hans á umræddum tíma, sbr. dómskjal nr. 34. Engin skylda hvíli á stefnda að senda slík bréf í ábyrgð, auk þess sem það feli ekki í sér frekari tryggingu fyrir því, að bréf sé ekki afhent öðrum en þeim, sem staddur sé á því heimilisfangi, sem ritað sé á bréfið. Þá sé því hafnað sem röngu, að bréfið hafi verið sent fyrrverandi eiginkonu stefnanda, en það hafi verið sent stefnda, eins og áritun þess beri vott um. Enn fremur veki sú fullyrðing í stefnu, að stefnandi og eiginkona hans hafi verið skilin, þegar atvik gerðust, athygli, enda sé hún vátryggingartaki samkvæmt vátryggingunni, sbr. dómskjal nr. 11, auk þess sem hún hafi verið í samskiptum við lögreglu í kjölfar slyssins og sé í fyrirliggjandi skýrslum tilgreind sem eiginkona stefnanda, sbr. dómskjal nr. 8.

Fullyrðingu stefnanda um, að honum hafi ekki borizt höfnunarbréf félagsins fyrr en tveimur árum síðar sé hafnað sem marklausri, enda séu tilvitnuð lagaákvæði skýr að þessu leyti. Hafi stefnandi verið búsettur annars staðar en á því heimilisfangi, sem hann hafi gefið upp í tjónstilkynningu, sem jafnframt hafi verið lögheimili hans, hafi honum borið, eðli málsins samkvæmt, að upplýsa stefnda þar um, og verði hann að bera hallann af því að hafa ekki gert svo. Þá liggi ekkert fyrir í gögnum málsins um, að stefnandi hafi legið á sjúkrahúsi, þegar umrætt bréf var sent, svo sem hann haldi fram.

Samkvæmt framangreindu sé sú málsástæða stefnanda, að honum hafi ekki borizt höfnunarbréf stefnda fyrr en í október 2008, sem og málatilbúnaður hans að því leyti, bæði ótrúverðugur og haldlaus. Stefndi telji því sýnt, að stefnandi hafi glatað hugsanlegum rétti til bóta með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða.

Verði ekki fallizt á framangreint, sé sýknukrafa stefnda í öðru lagi byggð á því, að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti, að hann hafi fyrirgert hugsanlegum rétti til bóta á grundvelli almennra reglna þar að lútandi og þeirra sjónarmiða, sem búi að baki ákvæðum 2. mgr. 51. gr. og 2. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004.

Tilvitnuð lagaákvæði mæli fyrir um réttaráhrif tómlætis vátryggingartaka og leggi þá skyldu á hann að aðhafast innan tiltekins frests. Ljóst sé, að gera verði ákveðnar lágmarkskröfur til vátryggingartaka í þessu sambandi, og hafi stefnanda ekki borizt bréfið, þegar það var sent, svo sem hann haldi fram, hafi honum borið, eðli málsins samkvæmt, að grennslast fyrir um afdrif kröfu sinnar innan eðlilegs tíma. Að því hafi hann hins vegar engan reka gert fyrr en rúmum tveimur árum eftir að hann tilkynnti stefnanda um slys sitt, og verður það, með hliðsjón af tilvitnuðum lagaákvæðum og þeim rökum, sem að baki þeim búi, virt honum til slíks tómlætis, að hugsanlegur bótaréttur teljist, hvað sem öðru líði, niður fallinn.

Verði ekki fallizt á sýknu stefnda á öðrum hvorum framangreindum grundvelli, sé sýknukrafa hans í þriðja lagi byggð á því, að stefnandi hafi valdið slysi sínu af stórkostlegu gáleysi.

Í 10. gr. skilmála fjölskyldutryggingar stefnda, sbr. dómskjal nr. 33, segi: „Hafi vátryggður valdið því af stórkostlegu gáleysi, að vátryggingaratburður varð eða afleiðingar hans urðu meiri en ella hefði orðið má lækka eða fella niður ábyrgð félagsins, sbr. 2. mgr. 27. gr. eða 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004.“

Í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2004 segi svo: „Hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en ábyrgðartryggingum, með háttsemi sem telja verður stórkostlegt gáleysi, valdið vátryggingaratburði losnar félagið úr ábyrgð í heild eða að hluta. Við mat á ábyrgð félagsins skal líta til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.“ Sambærilega reglu sé að finna í 1. mgr. 90. gr. laganna.

Stefndi byggi á því, að ölvun stefnanda hafi verið slík, að um stórkostlegt gáleysi hafi verið að ræða. Fyrir liggi, að stefnandi hafi verið ofurölvi, þegar slysið átti sér stað, en við komu á bráðamóttöku hafi áfengismagn í blóði hans mælzt 2,35‰, sbr. dómskjal nr. 7. Í stefnu sé staðhæft, að harla ólíklegt sé „að sú háttsemi að ætla sér að ganga niður stiga á skemmtistað undir áhrifum áfengis, falli undir stórkostlegt gáleysi“. Þá komi fram, að slíkt kunni þó að teljast einfalt gáleysi. Í þessu sambandi skuli tekið fram, að munurinn á einföldu gáleysi og stórkostlegu gáleysi sé stigsmunur. Þannig feli stórkostlegt gáleysi í sér alvarlegra frávik frá þeirri háttsemi, sem tjónvaldi hafi borið að viðhafa, en þurfi ekki að þýða, að hann hafi verið meðvitaðri um möguleika á tjóni, en þegar um almennt gáleysi sé að ræða. Það sé því ljóst, að magn áfengis í blóði tjónvalds haldist í hendur við gáleysisstig háttsemi hans. Í greinargerð með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 30/2004, segi í athugasemdum með 2. mgr. 27. gr., að ölæði hafi verið skýrt svo, að áfengismagn í blóði þurfi að hafa verið meira en 1,20‰ og helzt í námunda við 1,60‰ til þess að vátryggingartaki teljist hafa verið í slíku ástandi. Með hliðsjón af þessum viðmiðum sé ljóst, að áfengismagn í blóði stefnanda hafi verið svo langt yfir eðlilegum mörkum að virða ber honum það til stórkostlegs gáleysis, enda hafi honum ekki getað dulizt, að svo ótæpileg neysla áfengis gæti valdið tjóni.

Stefndi byggi að auki á því, að beint orsakasamband sé á milli ölvunar stefnanda umrætt sinn og þess, að hann hafi fallið niður stigann. Engin önnur skýring sé á falli hans en sú staðreynd, eins og áðurnefnd lýsing vitnis á atburðinum beri glögglega vott um, sbr. dómskjal nr. 6.

Svo sem réttilega komi fram í stefnu, leiði neyzla áfengis ekki sjálfkrafa til þess, að vátryggingartaki glati bótarétti, enda geti hófleg neyzla áfengis ekki talizt stórkostlegt gáleysi, auk þess sem orsakasamband þurfi eðli málsins samkvæmt að vera milli ölvunarástands vátryggingartaka og vátryggingaratburðarins. Stefndi telji samkvæmt framangreindu sýnt, að hvoru tveggja sé fyrir að fara í þessu máli. Stefnandi hafi verið ofurölvi, og vegna þess hafi hann fallið niður stigann.

Stefnandi haldi því fram, að fall hans megi rekja til vanbúnaðar umrædds stiga og vísi í því sambandi til þess, að þrepahæð hans hafi ekki verið í samræmi við grein 202.4 a í byggingarreglugerð nr. 44/1998. Þessari málsástæðu stefanda sé hafnað sem marklausri, enda hafi hús það, sem um ræði, verið byggt í gildistíð byggingarsamþykktar fyrir Reykjavíkurkaupstað frá 7. september 1903, og sé stiginn í fullu samræmi við ákvæði 25. gr. hennar um breidd þrepa og hæð. Hvað sem því líður sé því auk þess mótmælt, að stiginn sé ekki í samræmi við tilvitnað ákvæði núgildandi byggingarreglugerðar, en ekki liggi fyrir mælingar á halla hans og öðru, sem þurfi til að staðreyna, hvort svo sé.

Þá sé því alfarið hafnað, að fall stefnanda megi á einhvern hátt rekja til ástands stigans eða annarra aðstæðna á staðnum, enda liggi ekkert fyrir um, að aðbúnaði þar hafi á einhvern hátt verið ábótavant eða öryggi gesta teflt í hættu. Því til stuðnings sé bent á, að umræddur veitingastaður hafi verið með gilt leyfi til áfengisveitinga, sbr. dómskjal nr. 35. Í samræmi við ákvæði þágildandi 14. gr. áfengislaga nr. 75/1998 hafi, fyrir útgáfu slíks leyfis, borið að afla umsagnar viðkomandi lögreglustjóra og heilbrigðisnefndar um innréttingu og annað svipmót veitingarekstrar. Einnig hafi borið að leita álits viðkomandi byggingar- og skipulagsnefndar. Það megi því ganga út frá því, að aðbúnaður á veitingastaðnum hafi verið samþýðanlegur þeim rekstri, sem þar hafi farið fram, ella hefði leyfi til áfengisveitinga ekki fengizt. Sönnunarbyrðin um hið gagnstæða hvíli á stefnanda, og sú sönnun hafi ekki tekizt.

Loks sé, hvað sem framangreindu líði, með öllu ósannað, að orsakasamhengi sé á milli meints vanbúnaðar stigans og falls stefnanda. Sönnunarbyrði þar að lútandi hvíli á stefnanda, og sú sönnun hafi ekki tekizt.

Í ljósi alls framangreinds telji stefndi sýnt, að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda.

Verði ekki á sýknukröfu stefnda fallizt, sé til vara gerð krafa um, að bótaskylda verði einungis viðurkennd að hluta vegna slyss stefnanda.

Svo sem fram komi í áður tilvitnaðri grein skilmála fjölskyldutryggingar stefnda og þeim lagaákvæðum, sem þar sé vitnað til, sé ýmist unnt að fella bótaábyrgð félagsins niður í heild eða að hluta, hafi vátryggingartaki valdið vátryggingaratburði af stórkostlegu gáleysi. Verði ekki fallizt á það með stefnda að fella beri bótaábyrgð félagsins niður í heild, telji stefndi, með vísan til rökstuðnings fyrir aðalkröfu sinni, í öllu falli sýnt, að fella beri hana niður að hluta. Við mat á því, hversu stóran hluta tjóns síns tjónþoli þurfi að bera sjálfur, megi hafa hliðsjón af reglum um meðábyrgð tjónþola, þegar ábyrgð grundvallist á sök, en við það hafi verið miðað í slíkum tilvikum, að tjónþoli skuli bera tjón sitt sjálfur í samræmi við þá ábyrgð, sem hann beri á því. Í því tilviki, sem hér um ræði, hafi stefnandi, svo sem áður sé rakið, sýnt af sér slíkt gáleysi, að ótækt sé annað en að hann beri meginhluta tjóns síns sjálfur.

Um lagarök vísi stefndi til almennra reglna vátryggingarréttar sem og til ákvæða laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Þá vísi stefndi til almennra reglna skaðabótaréttar, einkum reglunnar um meðábyrgð tjónþola. Loks vísi stefndi til reglna um sönnun og sönnunarbyrði. Málskostnaðarkrafa stefnda sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Forsendur og niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi sem og vitnin, B verkamaður, sem starfaði hjá stefnda, þegar slysið varð, og C lögmaður. Þá fór dómari á vettvang, ásamt stefnanda og lögmönnum aðila.

Ágreiningslaust er, að stefnandi varð fyrir slysi, sem leiddi til varanlegs líkamstjóns, við það að hann féll niður stiga á veitingahúsinu […] að […], aðfaranótt 4. marz 2006, og að hann hafði í gildi frítímaslysatryggingu hjá stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi, að stefnandi hafi glatað hugsanlegum bótarétti með því að gæta ekki ákvæða 2. mgr. 51. gr. og 2. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, en stefndi kveðst hafa sent stefnanda höfnunarbréf, dags. 24. ágúst 2006.

Stefnandi byggir á því, að hann hafi aldrei fengið höfnunarbréfið. Fyrir dómi skýrði hann svo frá, að hann teldi sig hafa fengið afrit af bréfinu hjá stefnda veturinn 2007/2008. Hann kvaðst hafa verið í sambúð, þegar slysið varð, en henni hefði lokið haustið 2006, fljótlega eftir að hann hafi komið úr fyrstu endurhæfingu af Grensásdeild, svona í lok ágúst/september 2006.

Í málavaxtalýsingu í stefnu segir stefnandi svo um bréfið: „Þann 24. ágúst 2006 sendi félagið svarbréf vegna bótaskyldu, sem átti að berast stefnanda, en bréfið var þó sent fyrrverandi eiginkonu hans, en þau voru skilin, er atvik gerðust. Bréf félagsins var ekki sent í ábyrgð og barst stefnanda ekki fyrr en löngu seinna, enda lá hann inni á spítala, þegar bréfið var sent.“

Samkvæmt framansögðu er ekki samræmi í lýsingu stefnanda á atvikum og aðstæðum hans, þegar bréfið var sent, annars vegar í stefnu og hins vegar fyrir dómi. Engin gögn liggja fyrir um það, að umrætt bréf hafi verið sent til eiginkonu stefnanda, en afrit bréfsins, sem fyrir liggur í málinu er stílað á stefnanda sjálfan, á skráð lögheimili hans. Af stefnu verður því ráðið, að bréfið hafi borizt á skráð lögheimili stefnanda. Ekki liggja fyrir gögn í málinu, sem styðja það, að stefnandi hafi legið á Grensásdeild, þegar bréfið var sent, eða á öðru sjúkrahúsi. Sjálfur bar hann fyrir dómi, að hann hafi komið af Grensásdeild í lok ágúst eða september og hafi sambúð hans lokið fljótlega eftir það. Stefnandi var þó með lögheimili á sama stað fram til 19. október 2007.

Með hliðsjón af framansögðu verður að telja sannað, enda þótt umrætt höfnunarbréf hafi ekki verið sent með ábyrgðarpósti, að það hafi borizt á lögheimili stefnanda í framhaldi af því að það var sent. Enda þótt stefnandi kunni að hafa legið á sjúkrahúsi á þeim tíma, sem bréfið barst, er að skilja á málavaxtalýsingu í stefnu, að það hafi borizt í hendur þáverandi eiginkonu hans, en samkvæmt framburði hans fyrir dómi, lauk sambúð þeirra ekki fyrr en eftir að hann útskrifaðist af Grensásdeild. Er því fallizt á með stefnda, að lögfull sönnun liggi fyrir því, að stefnda hafi verið sent höfnunarbréf, sem barst á heimili hans og var móttekið af heimilismanni í ágústlok eða septemberbyrjun 2006.

Í niðurlagi höfnunarbréfs stefnda til stefnanda kemur fram, að stefnda er bent á, að hann geti skotið afstöðu félagsins til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum eða til dómstóla innan árs frá tilkynningunni, en að öðrum kosti falli krafan niður skv. 51. og 124 gr. laga nr. 30/2004. Jafnframt er honum bent á að hann geti leitað álits Tjónanefndar vátryggingafélaganna á bótaskyldu.

51. gr. laga nr. 30/2004 hljóðar svo: „Vátryggður glatar rétti til bóta ef hann tilkynnir félaginu ekki um kröfu sína innan árs frá því að hann vissi um atvik sem hún er reist á. Ef félagið hafnar kröfu vátryggðs í heild eða að hluta glatar hann rétti til bótanna ef hann hefur ekki höfðað mál eða krafizt meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr. innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu um að kröfu hans væri hafnað. Í slíkri tilkynningu er skylt að geta framangreinds frests, með hvaða hætti unnt er að rjúfa hann og afleiðinga þess að ekki er aðhafst fyrir lok hans.“

124. gr. sömu laga hljóðar svo: „Sá sem rétt á til bóta samkvæmt slysatryggingu, sjúkratryggingu eða heilsutryggingu með eða án uppsagnarréttar glatar þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á. Hafni félagið kröfu um bætur í heild eða að hluta glatar sá sem rétt á til bóta þeim rétti ef hann hefur ekki höfðað mál eða krafist meðferðar málsins fyrir úrskurðarnefnd skv. 141. gr. innan árs frá því að hann fékk skriflega tilkynningu um höfnunina. Í tilkynningu félagsins verður að koma fram hver lengd frestsins sé og hvernig honum verði slitið og lögfylgjur þess að það verði ekki gert. Lög um fyrning skuld og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, gilda eftir því sem við getur átt um slit á frestum.“

Með því að stefnandi aðhafðist sannanlega ekkert til þess að slíta fyrningu samkvæmt framangreindu er fallizt á með stefnda, að krafa hans hafi fallið niður. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda samkvæmt gjafsóknarleyfi, dags. 15. október 2010, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, kr. 650.000. Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Sjóvá- Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, kr. 650.000.