Hæstiréttur íslands

Mál nr. 62/2003


Lykilorð

  • Hefð
  • Umferðarréttur


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. september 2003.

Nr. 62/2003.

Leifur S. Halldórsson

(Gunnar Sturluson hrl.)

gegn

Ólöfu Þorvarðsdóttur

(Helgi Birgisson hrl.)

 

Hefð. Umferðarréttur.

Ó, eigandi tiltekinnar landspildu krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að L, nágranna hennar, væri óheimilt að nota veg er lá um land Ó. Ósannað var að fyrri eigendur spildu þeirra er L átti hefðu notað hinn umþrætta veg. Auk þess var fram komið að síðustu ár hafði L notað veginn í óþökk Ó. Hafði L af þessum ástæðum ekki unnið hefðarrétt til umferðar um veginn þar sem hann lá um land Ó.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. febrúar 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi reisir kröfu sína um að hann hafi unnið hefðarrétt til umferðar um svokallaðan Vatnsveituveg, þar sem hann liggur í gegnum land stefndu, Selásblett 17 ab, á því að hann og fyrri eigendur Selásbletts 18 ab, hafi notað veginn óslitið frá lagningu hans. Ákvæði 7. gr. laga nr. 46/1905 um hefð eigi við í þessu máli, þar sem um sé að ræða sýnilegt ítak er nýtt hafi verið lengur en um 20 ára skeið. Þá séu uppfyllt hugræn skilyrði hefðar, sbr. 2. gr. laganna.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi keyptu foreldrar stefndu landspildu úr Seláslandi við Elliðavatn 29. september 1966, Selásblett 17 ab, nú eign stefndu. Munu þau hafa lagt heimreið að bústað er þau reistu á landinu. Tæplega fjórum árum síðar keypti Halldór Einarsson landspildu úr Seláslandi, Selásblett 18 ab, nú eign áfrýjanda. Samkvæmt samningi Halldórs við Reykjavíkurborg frá 7. júlí 1977 fékk Vatnsveita Reykjavíkur, vegna starfsemi sinnar, að leggja malarveg um land Halldórs. Hins vegar var vegurinn lagður nokkru sunnar en í áðurnefndum samningi greinir og þá einnig um Selásblett 17 ab. Var vegarlagningin, sem þegar hafði átt sér stað, heimiluð með sérstökum samningi Reykjavíkurborgar við foreldra stefndu 25. júlí 1978. Voru eigendum Selásbletts 17 ab annars vegar og Selásbletts 18 ab hins vegar greiddar bætur vegna vegarlagningarinnar, en landeigendur fengu til eignar sitt hvorn vegarspottann sem lá um þeirra land. Hins vegar er hvergi kveðið á um í samningunum né öðrum skriflegum gögnum málsins að vegurinn, þar sem hann lá um Selásblett 17 ab, skyldi nýtast eiganda Selásbletts 18 ab.

Halldór Einarsson lést í lok árs 1981 og réttum tveimur árum síðar keypti Steinþór Gunnarsson landið af Margréti Jóhannsdóttur, ekkju Halldórs. Var tekið fram í afsali að heimreiðin frá Norðlingabraut að norðanverðu væri hluti hinnar seldu spildu. Ekki verður ráðið af skjölum málsins að Halldór eða Margrét hafi notað Vatnsveituveginn og þau reistu ekki mannvirki á landi sínu. Áðurnefndur Steinþór Gunnarsson bar hins vegar fyrir dómi að sér hefði verið kunnugt um að Halldór og Margrét hefðu farið um veginn til að komast að landinu, en þær upplýsingar hefði hann fengið frá Elíasi, syni Halldórs, um það leyti er hann keypti landið. Þó kvaðst Steinþór ekki vita um not fyrri eigenda af landinu. Stefnda hefur borið að hún hafi dvalið þarna langdvölum á sumrin ásamt foreldrum sínum, en Halldór hefði aldrei farið um Vatnsveituveginn þá sjaldan hann hafi komið í land sitt, heldur um heimreiðina að bústað stefndu. Ekki kvaðst hún vita til þess að Margrét Jóhannsdóttir hafi komið að Selásbletti 18 ab. Þá kom fram af hálfu áfrýjanda að hann hafi þegar á árinu 2000 vitað um andstöðu stefndu við umferð um veginn.

Samkvæmt framanrituðu og gegn mótmælum stefndu er ósannað að eigendur þeir er áttu Selásblett 18 ab til loka árs 1983, áður en landið var selt Steinþóri Gunnarssyni, hafi notað hinn umþrætta veg. Auk þess er fram komið að síðustu ár hefur áfrýjandi notað veginn í óþökk stefndu. Þegar af þessum ástæðum hefur áfrýjandi ekki unnið hefðarrétt til umferðar um Vatnsveituveg þar sem hann liggur um land stefndu. Kemur því ekki til skoðunar hvort vegurinn teljist til sýnilegra eða ósýnilegra ítaka. Þá er ekki fallist á málsástæðu áfrýjanda um að aðstæður séu með þeim sérstaka hætti að honum sé óhjákvæmileg nauðsyn á að nota þann veg sem um ræðir til að komast að landi sínu, óháð skilyrðum um hefð. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Leifur S. Halldórsson, greiði stefndu, Ólöfu Þorvarðsdóttur, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2002.

        

         Mál þetta var höfðað 19. mars sl. og var dómtekið 28. október sl.     

         Stefnandi er Ólöf Þorvarðsdóttir, Sólvallagötu 14, Reykjavík.

         Stefndi er Leifur S. Halldórsson, Skipholti 2, Ólafsvík.

 

Dómkröfur

         Stefnandi gerir þá kröfu á hendur stefnda að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að nota veg þann sem Vatnsveita Reykjavíkur fékk heimild til að leggja um Selásblett l7ab við Elliðavatn í Reykjavík, samkvæmt samningi borgar­verk­fræðingsins í Reykjavík, f.h. borgarsjóðs, og landeiganda, dags. 25. júlí 1978, að því leyti sem hann liggur um land stefnanda.

         Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu í samræmi við framlagðan málskostnaðar­reikning.

         Stefndi gerir þær dómkröfur að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

 

 

Málavextir

         Þann 29. september 1966 keyptu foreldrar stefnanda, Þorvarður R. Jónsson og Inga Sigríður Ingólfsdóttir, landspildu úr Seláslandi við Elliðavatn í Reykjavík af Gunnari Jenssyni.  Í afsali Gunnars til foreldra stefnanda er kveðið á um að landspildan sé 18.000 m2 að stærð og afmörkuð á sérstökum uppdrætti með afsalinu þar sem spildan er merkt nr. l7ab.  Við mælingu á landinu kom síðar í ljós að landið var minna en upphaflega var gert ráð fyrir, þ.e.a.s 13.370 m2, en merki voru hins vegar rétt eins og þau voru tilgreind á uppdrættinum.  Afsalið var því leiðrétt með sérstökum samningi, dags. 19. febrúar 1968, og hann færður í þinglýsingabækur.

         Hinn 25. júlí 1978 gerðu foreldrar stefnanda samning við Reykjavíkurborg í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir Vatnsveitu Reykjavíkur í landi Norðlinga­holts.  Samkvæmt samningnum heimiluðu landeigendur, foreldrar stefnanda, Vatns­veitu Reykjavíkur að leggja malarveg um land þeirra.  Þá segir í samningnum: „malarvegur þessi skal ekki fjarlægður að framkvæmdum loknum og skal hann verða eign landeigenda...”.

         Fyrir innan Selásblett l7ab er landspilda, Selásblettur l8ab, sem Halldór Einarsson keypti úr Seláslandi af Gunnari Jenssyni með afsali 2. apríl 1970.  Í afsalinu segir að spildan sé að stærð um 15.000 m2 og að henni liggi heimreið frá Norðlingabraut að norðan og hún sé hluti af hinu selda.  Ekki er vitað hvernig heimreiðin leit út á þessum tíma og enginn eiginlegur vegur lá á þessum tíma frá Norðlingabraut og að landsspildu Halldórs.

         Þann 7. júlí 1977 var undirritaður samningur milli Halldórs Einarssonar og borgar­verkfræðingsins í Reykjavík um framkvæmdir Vatnsveitu Reykjavíkur í landi Halldórs, Selásbletti l8ab.  Á meðal framkvæmdanna var malarvegur sem lagður skyldi um land Halldórs. Skyldi malarvegurinn lagður fyrir norðan vatnslögnina meðfram girðingu þeirri er skilur að land Halldórs og db. Hauks Herbertssonar. Skyldi malarvegur þessi ekki fjarlægður að framkvæmdum loknum og skyldi hann verða eign landeiganda. 

         Í stað þess þó að fylgja þessari lýsingu á lagningu malarvegarins og fylgja að fullu landamerkjum milli lands Halldórs og db. Hauks Herbertssonar frá Norðlingabraut og að Elliðavatninu var vegurinn lagður að hluta til í gegnum land Þorvarðs Jónssonar og skar vegurinn þannig land Þorvarðar, og lá að hluta meðfram landamerkjum lands Halldórs og db. Hauks Herbertssonar.

         Steinþór Gunnarsson keypti Selásblett l8ab af Margréti Jóhannsdóttur, ekkju Halldórs Einarssonar, með afsali 20. desember 1983.  Í afsali segir að heimreið frá Norðlingabraut að norðan sé hluti hinnar seldu spildu.  Fylgdi ofangreindur samningur við borgarverkfræðing með afsalinu.       Nokkru síðar byggði Steinþór sumarhús á spildunni, og seinna hesthús og hestagirðingu, og hóf að nota veginn, sem Vatnsveitan hafði lagt, til að komast að landspildu sinni.  Telur stefnandi afnot af veginum hafa verið látin óátalin af foreldrum sínum á þeirri forsendu að þau myndu leggjast af þegar þau eða síðari eigendur Selásblettar l7ab myndu girða lóðarmörkin eða breyta veginum. 

         Stefnandi kveður afnot af veginum hafa verið mjög lítil á þessum tíma.  Þá hafi jafnframt verið ljóst að Selásbletti l8ab fylgi landræma meðfram Selásbletti l7ab sem ætluð sé sem afleggjari eða heimreið fyrir landspilduna.  Komi það skýrt fram í áðurnefndu afsali Gunnars Jenssonar til Halldórs Einarssonar þar sem segi orðrétt: „Heimreið liggur frá Norðlingabraut að norðan og er hún hluti af hinu selda.”  Í afsali ekkju Halldórs til Steinþórs sé sams konar ákvæði, en þar segi:  „Heimreið frá Norðlingabraut að norðan er hluti hinnar seldu spildu”.  Þess vegna hafi verið litið svo á að afnot eiganda Selásblettar l8ab af Vatnsveituveginum, þar sem hann liggi um Selásblett l7ab, væru eingöngu tímabundin enda hefði landeigandi aðra leið til þess að komast að landspildu sinni.

         Þann 14. október 1998 afsalaði móðir stefnanda Selásbletti l7ab til stefnanda.                Með afsali, dags. 19. mars 1999, afsalaði Steinþór Gunnarsson og kona hans, landspildunni Selásbletti 18 ab til Tjarnargötu ehf.  Ekki er sérstaklega minnst á heimreið í afsalinu.  Með afsali, dags. 23. apríl 1999, afsalaði Tjarnargata ehf. land­spildunni síðan til núverandi eiganda hennar, stefnda.  Er ekki sérstaklega minnst á heimreið að landinu í afsalinu.

         Stefnandi heldur því fram að eftir kaup stefnda á landspildunni hafi afnot af Vatnsveituveginum aukist margfalt, enda hafi verið farið að búa á jörðinni allt árið um kring, auk þess sem stefndi hafi reist hesthús og hestagirðingu.  Af þeirri ástæðu kveðst stefnandi hafa sett sig í samband við stefnda til að ræða um notkun á veginum.  Hafi stefndi þá fullyrt að vegurinn tilheyrði jörð hans. 

         Stefndi mótmælir því sem kemur fram í stefnu að það hafi alla tíð verið ágreiningslaust gagnvart fyrri eigendum Selásblettar l8ab að vegurinn og landsvæðið undir honum væri hluti af Selásbletti l7ab og að sérstakt landsvæði væri ætlað fyrir heimreið að Selásbletti l8ab.  Allt frá því að stefndi keypti Selásblett l8ab, hafi hann haldið að Vatnsveituvegurinn lægi eingöngu í landi hans og að landamörkin við spildu stefnanda lægju meðfram veginum.  Vegna árekstra við stefnanda hafi hann girt  Vatnsveituveginn frá spildu stefnanda, en eftir að hann hafi áttað sig á því að Vatnsveituvegurinn skeri í raun land­spildu stefnanda, en markaði ekki landamerki, hafi hann fjarlægt girðinguna.  Hann hafi, eins og fyrri eigendur Selásblettar l8ab, haft afnot af Vatnsveituveginum til að komast inn á landspilduna.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

         Stefnandi byggir kröfur sínar á því að umræddur vegur, sem lagður var af Vatnsveitu Reykjavíkur á grundvelli samnings við þáverandi eigendur Selásbletts l7ab, tilheyri landinu og sé því eign hennar ásamt öðrum hlutum þess.  Þá byggir stefnandi á því að það hafi alla tíð verið ágreiningslaust gagnvart fyrri eigendum Selásbletts l8ab að vegurinn og landsvæðið undir honum væri hluti af Selásbletti l7ab.  Þá hafi alla tíð verið óumdeilt og legið ljóst fyrir að sérstakt landsvæði væri ætlað fyrir heimreið að Selásbletti 18ab sem jafnframt tilheyrði þeirri landspildu og því afnot af vegi stefnanda alls ekki nauðsynleg til að komast að því landi.

         Þá sé ljóst af þinglýstum samningum um landspildurnar, teikningum og upp­dráttum að vegurinn liggur um land stefnanda enda hafi hingað til verið ágreinings­laust hvar landamerki jarðanna liggja.  Enn fremur sé ljóst af áðurgreindum samningi við Reykjavíkurborg að svokallaður Vatnsveituvegur sem lagður hafi verið að hluta um land stefnanda sé eign hennar, eins og þar komi fram.  Þar sem stefnandi eigi ótvíræðan eignarrétt yfir veginum samkvæmt samningnum, þar sem hann liggi um land hennar, auk þess sem hún eigi landsvæðið sem hann liggur um, eigi hún jafnframt fullan rétt til að takmarka eða banna öðrum afnot vegarins, sérstaklega í ljósi þess að umferð annarra en Vatnsveitu Reykjavíkur, samkvæmt samningi við landeiganda, sé alls ekki nauðsynleg.

         Þar sem stefndi hafi ekki orðið við áskorun um að hætta notkun vegarins, sé stefnanda nauðsynlegt að fá dóm um að stefnda sé óheimilt að nota hann.

         Stefnandi byggir kröfu sína á meginreglum samninga- kröfu- og eignaréttar.  Um málsmeðferð vísast til ákvæða einkamálalaga nr. 91/1991.  Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991. Um varnarþing vísast til 34. gr. laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

         Sýknukrafa stefnda byggist á því að stefndi hafi hefðað umferðarrétt eftir vegi þeim sem Vatnsveita Reykjavíkur fékk heimild til að leggja um Selásblett l7ab við Elliðavatn í Reykjavík, samkvæmt samningi borgarverkfræðingsins í Reykjavík f.h. borgarsjóðs og landeiganda, dags. 25. júlí 1978, að því leyti sem að hann liggur um land stefnanda.

         Eins og að framan sé rakið hafi stefndi, svo og fyrri eigendur Selásbletts l8ab, notað Vatnsveituveginn óslitið allt frá lagningu hans árið 1977 og til dagsins í dag.  Þegar á árinu 1997 hafi því skilyrði hefðar um 20 ára óslitið eignarhald á fasteign verið fullnægt, en samkvæmt 7. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 geti notkun með samsvarandi skilyrðum og þeim, er gildi um eignarhefð, skapað afnotarétt.

         Sé hér um að ræða hefð á sýnilegu ítaki sem hefðist á 20 árum.  Sé munurinn á ósýnilegum ítökum og sýnilegum skilgreindur á þann hátt að ef sérstakar sýnilegar tilfæringar gefi ítaksnotin til kynna, þær nýttar vegna ítaksnotanna og þeim varanlega fyrir komið í þágu umræddra nota eingöngu, sé um að ræða sýnilegt ítak.  Sem dæmi um slíkt sýnilegt ítak hafi fræðimenn nefnt að vegur sé lagður í þágu umferðar.  Þannig hátti einmitt til í þessu máli.

         Vatnsveituvegurinn liggi ekki eingöngu um land Selásbletts l7ab heldur sé hann lagður einnig yfir Selásbletts l8ab.  Hafi veginum verið haldið við í yfir 20 ár af eigendum Selásblettar l8ab.  Gefi því vegurinn sjálfur ítaksnotin til kynna svo að ekki verði um villst.  Vegna þessarar legu vegarins og viðhalds á honum í gegnum árin, hafi stefnanda ekki getað verið annað en ljóst að vegurinn hefði verið notaður af stefnda og fyrri eigendum Selásbletts l8ab.  Hafi slík not meira að segja verið viðurkennd af stefnanda í stefnu.  Auk þessa megi nefna að vegurinn sem lagður var af Vatnsveitunni hafi verið lagður bæði í þágu Vatnsveitunnar en einnig í þágu eigenda Selásblettar l8ab, ella hefði slík lagning vegar aldrei verið samþykkt af land­eigendum.  Aftur á móti hafi vegi sem að liggi um Selásblett l8ab eingöngu verið komið fyrir í þágu eigenda Selásbletts l8ab en ekki Selásbletts l7ab, enda hafi eigendur þeirrar eignar enga þörf fyrir veginn að því marki sem að hann nær út fyrir Selásblett l7ab.  Tekið skuli fram að stefnandi hafi engin afnot haft af umræddum vegi þar sem hann liggi yfir Selásblett l8ab.

         Þá sé það ekki nauðsynlegt skilyrði sýnilegs ítaks að tilfæringar séu á þeirri eign, sem ítakið sé í, heldur nægi að tilfæringarnar séu annars staðar, t.d. á landi ítakshafa. Þegar um sé að ræða hefð á afnotaréttindum, eins og umferðarrétti, sé þess ekki krafist að um einkanot hafi verið að ræða.  Geti slík eignarréttindi stofnast, enda þótt bæði jarðeigandi og hefðandi hefðu haft afnot af viðkomandi fasteign.

         Þá sé enn fremur ljóst að skilyrðið um óslitna notkun verði að miða við eðli þeirra nota, sem um sé að ræða.  Í þessu tilviki sé um að ræða land sem notað hafi verið til trjáræktar og útilífs og síðan sem aðstaða fyrir hesta og sumarbústað.  Í hvert skipti sem stefndi og þeir sem leiði rétt sinn frá honum hafi komið að Selásbletti l8ab frá árinu 1977 hafi þeir farið um Vatnsveituveginn, enda enginn annar vegur sem að landinu liggi.

         Samkvæmt 3. gr. hefðarlaga megi leggja saman hefðarhald fleiri en eins aðila, ef eignarhaldið hafi löglega gengið frá manni til manns.  Hafi allir fyrri eigendur Selásblettar l8ab, svo og stefndi sjálfur, í óslitinni röð, haft afnot af Vatnsveitu­veginum til að komast inn á Selásblett l8ab frá Norðlingabraut og sé því uppfyllt þetta skilyrði 3. gr. hefðarlaga hvað stefnda varðar.  Allt frá því að Vatnsveituvegurinn var lagður og fram til dagsins í dag, hafi lagning Vatnsveituvegarins verið eina vega­gerðin sem hafi átt sér stað á þessu svæði og sé Vatnsveituvegurinn eini vegurinn sem fær hafi verið frá Norðlingabraut og að Selásbletti l8ab.  Hafi stefndi, svo og fyrri eigendur spildunnar, ekki haft neinn annan möguleika til að komast að spildunni en að fylgja Vatnsveituveginum.

         Þá séu hugræn skilyrði hefðar enn fremur uppfyllt, en stefndi og fyrri eigendur Selásbletts l8ab hafi nýtt Vatnsveituveginn á lögmætan hátt.  Sé greinilegt af orðalagi samnings borgarverkfræðings Reykjavíkur við Halldór Einarsson, fyrri eiganda Selásbletts l8ab, þar sem legu Vatnsveituvegarins sé lýst og eignarhaldi land­eiganda að honum, þar sem ekkert sé minnst á eignarhald þriðja aðila á sama vegi, afsölum fyrir Selásblett l8ab og þeim uppdráttum sem fram hafi verið lagðir í málinu, að allt frá lagningu Vatnsveituvegarins sé það óskýrt í hvaða landi Vatnsveituvegurinn liggi.  Þannig sé t.d. á uppdrætti Vatnsveitunnar frá 1977, landamerki Selásbletta l7ab og l8ab ekki merkt inn og þær girðingar sem þar séu merktar inn og hafi verið í landinu fylgi ekki réttum landamerkjum á milli Selásbletts l7ab og l8ab.  Þá sé heimreið sú sem sögð sé fylgja Selásbletti l8ab í afsali frá Gunnari Jenssyni til Halldórs Einarssonar ekki merkt inn á uppdráttinn, en þó virðist ljóst að henni hafi verið ætlað að liggja samsíða Selásbletti l7ab.

         Auk framangreinds sé ljóst að ef stefnda yrði meinaður umferðarréttur um Vatnsveituveginn þar sem hann liggi um land stefnanda, myndi það valda honum verulegum óþægindum þar sem enginn annar vegur liggi að Selásbletti l8ab og komist hann í dag ekki á annan hátt að landi sínu.  Ef stefndi hafi ekki umferðarrétt um veginn, yrði hann að leggja nýjan veg, sem myndi vera samsíða og nánast alveg upp við Vatnsveituveginn, þ.e.a.s. á milli Vatnsveituvegarins og einkavegar sem liggi í landi sem merkt sé db. Hauks Herbertssonar á teikningu Vatnsveitu Reykjavíkur á dómskjali nr. 6.  Myndi slík vegaframkvæmd leiða til þess að á þessu svæði lægju þrír vegir hlið við hlið og hefði slík vegaframkvæmd einnig í för með sér verulegt jarðrask og umhverfisspjöll, algerlega að nauðsynjalausu.  Á móti verði ekki séð að umferðarréttur stefnda um Vatnsveituveginn í landi stefnanda sé íþyngjandi fyrir stefnanda eða valdi honum einhverjum spjöllum, óþægindum eða kostnaði.  Megi nefna í þessu sambandi að stefndi hafi frá því að hann eignaðist landið haldið veginum við.

        

Niðurstaða

         Samkvæmt samningi borgarverkfræðingsins í Reykjavík annars vegar og Þorvarðar Jónssonar og Sigríðar Ingólfsdóttur hins vegar, dags. 25. júlí 1978, skyldi Vatnsveitu Reykjavíkur heimilt, vegna framkvæmda í landi Þorvarðar og Sigríðar, að leggja malarveg í landi þeirra í Norðlingaholti, Selásbletti 17ab.  Í samningnum er tekið fram að vegurinn skuli verða eign landeigenda að framkvæmdum loknum.

         Fram er komið að eigendur Selásblettar 17ab höfðu lítil sem engin afnot af veginum.  Hins vegar fóru eigendur Selásblettar 18ab um veginn til þess að komast að landi sínu.

         Samkvæmt framburði stefnanda fyrir dómi voru afnot Halldórs Einarssonar lítil af veginum.  Engin mannvirki voru þá á landinu og Halldór kom sjaldan þangað.

         Steinþór Gunnarsson eignaðist landið, Selásblett 18ab árið 1983.  Bar hann fyrir dómi að hann hefði farið um Vatnsveituveginn til þess að komast að landi sínu.  Bar hann að honum hefði verið kunnugt um að Þorvarður hefði verið eigandi vegarins og að honum hefði verið kunnugt um heimreiðina að landi sínu.  Hann kvaðst hafa rætt þetta við Þorvarð heitinn en honum hafi fundist fáránlegt að fara að leggja þriðja veginn þarna.  Steinþór bar að hann hefði annast viðhald á veginum og hafi sett upp hlið.  Það hafi verið gert í samráði við Þorvarð.

         Samkvæmt framburði stefnanda fyrir dómi jókst umferð mikið eftir að stefndi Leifur keypti landið en þar sé nú bústaður og stórt hesthús.

         Stefndi Leifur bar fyrir dómi að hann hefði talið að Vatnsveituvegurinn væri hluti af hans landi og hafi hann séð um viðhald á veginum.

         Óumdeilt er nú að Vatnsveituvegurinn er hluti af landi stefnanda.  Þá liggur fyrir að sérstök landsspilda í landi stefnda var ætluð sem heimreið að landi Selásblettar 18 ab.  Er umferð um svonefndan Vatnsveituveg því ekki nauðsynleg til þess að eigendur Selásblettar 18ab komist að landi sínu.

         Eins og áður er rakið snýst ágreiningur í máli þessu um hefð.  Hvort stefndi og fyrri eigendur Selásblettar 18ab hafi hefðað afnotarétt að svonefndum Vatnsveituvegi.  Byggir stefndi á því, eins og áður segir, að skilyrði hefðar um 20 ára óslitið hefðarhald sé fullnægt, en samkvæmt 7. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 getur notkun með samsvarandi skilyrðum og þeim, er gilda um eignarhefð, skapað afnotarétt.

         Lögin nr. 46/1905 gera greinarmun á því hvort um hefð í sýnilegum eða ósýnilegum ítökum er að ræða.  Samkvæmt 2. gr. laganna er skilyrði fyrir hefð 20 ára óslitið eignarhald á fasteign en 10 ára óslitið eignarhald á lausafé.  Hefð á ósýnilegum ítökum getur aðeins unnist með 40 ára notkun.

         Talið hefur verið að skýrgreina megi sýnilegt ítak á þá leið að slíkt ítak liggi fyrir ef sérstakar sýnilegar tilfæringar gefi ítaksnotin til kynna, enda séu tilfæringar þessar nýttar vegna ítaksnotanna og þeim varanlega fyrir komið í þágu umræddra nota eingöngu.  Ef ekki sé neinum tækjum eða tilfæringum til að dreifa geti ítak ekki talist sýnilegt ítak.

         Með hliðsjón af þessu verður ekki litið svo á að afnot stefnda, og fyrri eigenda Selásbletts 18 ab, af veginum geti fallið undir skilgreiningu um sýnilegt ítak.  Engar sérstakar tilfæringar hefur þurft til þess að eigendur Selásbletts 18ab gætu haft afnot af veginum.  Verður ekki séð að lágmarks viðhald vegarins geti fallið þar undir.  Þá var umrætt hlið reist með samkomulagi við eiganda landsins.

         Samkvæmt samningi Þorvarðar Jónssonar og Sigríðar Ingólfsdóttur við Vatnsveituna, dags. 25. júlí 1978, hefur vegurinn verið lagður fyrir þann tíma.  Umferð eigenda Selásbletts 18ab um veginn hefur því ekki átt sér stað í fullan hefðartíma, eða 40 ár.  Þegar af þeim sökum hefur stefndi ekki öðlast hefðarrétt til umferðar um veginn. 

         Stefndi hefur notað veginn án samráðs við stefnanda og hefur ekki sinnt áskorun hennar um að láta af þessum afnotum.

         Ber því samkvæmt framansögðu að taka til greina kröfu stefnanda í málinu.

         Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 300.000 krónur.

         Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

         Viðurkennt er að stefnda, Leifi Halldórssyni, er óheimilt að nota veg þann sem Vatnsveita Reykjavíkur fékk heimild til að leggja um Selásblett l7ab við Elliðavatn í Reykjavík, samkvæmt samningi borgar­verk­fræðingsins í Reykjavík, f.h. borgarsjóðs, og landeiganda, dags. 25. júlí 1978, að því leyti sem hann liggur um land stefnanda, Ólafar Þorvarðsdóttur.

         Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.