Hæstiréttur íslands
Mál nr. 231/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 19. júní 2000. |
|
Nr. 231/2000. |
Ásdís Arngeirsdóttir(Lára V. Júlíusdóttir hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
Á stundaði nám í snyrtifræði í Bretlandi. Í ágúst 1996 sótti hún um iðnréttindi til menntamálaráðuneytisins, sem heimilaði henni að gangast undir sveinspróf í snyrtifræði, að lokinni 10 mánaða starfsþjálfun í greininni. Á gerði athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins, en beiðni hennar um endurupptöku ákvörðunarinnar var hafnað í júní 1997. Í september 1997 ákvað ráðuneytið að endurupptaka ákvörðunina með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Leiddi endurupptakan ekki til þess að fallist væri á að viðurkenna nám Á án þess að hún gengist undir próf. Krafðist Á þess þá að ráðuneytið léti fara fram óhlutdrægt einstaklingsbundið mat á menntun hennar og tæki afstöðu til þess hvort að viðurkenna ætti hana til sveinsprófs. Beiðninni var hafnað. Höfðaði Á mál á hendur íslenska ríkinu og krafðist þess að synjun menntamálaráðuneytisins yrði dæmd ólögmæt. Talið var að úrlausn kröfu Á haggaði hvorki gildi ákvarðana ráðuneytisins um starfsréttindi Á né bakaði íslenska ríkinu skyldu til að viðurkenna rétt hennar frekar en gert hefði verið. Var ekki talið að Á hefði fært rök fyrir því að málsóknin, með þessari kröfugerð, þjónaði því markmiði að leyst yrði úr ágreiningi aðilanna. Var staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. maí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. júní sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2000, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Hún krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.
I.
Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdóms lauk sóknaraðili stúdentsprófi árið 1992 og lagði stund á nám í snyrtifræði í Bretlandi, þar sem hún lauk meðal annars svokölluðu Cidesco-prófi árið 1996. Hún sótti um iðnréttindi til menntamálaráðuneytisins 26. ágúst 1996, sem heimilaði henni 26. september sama árs, að fenginni umsögn réttindaveitinganefndar í snyrtifræði, að gangast undir sveinspróf í snyrtifræði þegar hún hefði lokið tíu mánaða starfsþjálfun í greininni undir leiðsögn meistara. Með bréfi 6. júní 1997 gerði sóknaraðili athugasemdir við niðurstöðu menntamálaráðuneytisins og óskaði eftir því að ráðuneytið tæki mál hennar til nýrrar og rökstuddrar meðferðar. Þeirri beiðni var hafnað 13. júní 1997. Menntamálaráðuneytið ákvað hins vegar 2. september sama árs að endurupptaka ákvörðunina frá 26. september 1996 með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfi ráðuneytisins 10. desember 1997 segir að í svörum sóknaraðila komi skýrt fram að hún óski eftir að sér verði veitt starfsréttindi á grundvelli fyrirliggjandi náms án þess að gangast undir sveinspróf. Endurupptaka ráðuneytisins leiddi þó ekki til þess að fallist væri á að viðurkenna nám sóknaraðila með útgáfu sveinsbréfs án þess að hún gengist undir próf.
Lögmaður sóknaraðila ritaði menntamálaráðuneytinu bréf 26. maí 1998, þar sem því mati, sem fram hafði farið af hálfu ráðuneytisins á námi sóknaraðila, var mótmælt og talið nauðsynlegt að rökstuddur samanburður yrði gerður á því námi, sem sóknaraðili hefði að baki og námi, sem lægi til grundvallar iðnréttindum í snyrtifræði. Í bréfi 16. desember 1998 óskaði lögmaðurinn þess að ráðuneytið léti „framkvæma óhlutdrægt einstaklingsbundið mat“ á menntun sóknaraðila og tæki afstöðu til þess hvort viðurkenna ætti hana til sveinsprófs. Í bréfi ráðuneytisins 5. febrúar 1999 var beiðni lögmannsins hafnað. Með málsókn sinni krefst sóknaraðili að þessi synjun menntamálaráðuneytisins verði dæmd ólögmæt.
II.
Málatilbúnaður sóknaraðila verður ekki skilinn á aðra leið en þá að hún telji sig fullnægja skilyrðum til að öðlast sveinsréttindi í snyrtifræði með því að hafa lokið því námi, sem áður greinir, og leiti þessa réttar síns með því að höfða mál þetta. Í málinu krefst sóknaraðili hins vegar hvorki þess að viðurkenndur verði réttur hennar til að fá útgefið sveinsbréf á grundvelli náms hennar né að varnaraðila verði dæmt skylt að gefa það út. Úrlausn þess efnis að ólögmæt sé ákvörðun menntamálaráðuneytisins 5. febrúar 1999 um að synja beiðni sóknaraðila um að nýtt mat fari fram á námi hennar haggar ekki gildi framangreindra ákvarðana eða bakar varnaraðila skyldu til að viðurkenna réttindi hennar frekar en hann hefur þegar gert. Að þessu virtu þykir sóknaraðili ekki hafa fært viðhlítandi rök fyrir því að málsóknin geti þjónað því markmiði að leyst verði úr ágreiningi aðilanna, svo sem kröfugerð sóknaraðila er úr garði gerð. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 19. maí 2000
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi um frávísunarkröfu stefnda 11. maí sl., er höfðað með stefnu, sem árituð er um birtingu 6. janúar sl.
Stefnandi er Ásdís Arngeirsdóttir, kt. 200572-4329, Næfurási 11, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið og er menntamálaráðherra stefnt fyrir þess hönd.
Stefnandi krefst þess „að dæmt verði að synjun stefnda frá 5. febrúar 1999 á að framkvæma nýtt mat á námi stefnanda til viðurkenningar á sveinsréttindum í snyrtifræði sé ólögmæt.“ Þá krefst hann málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál en með bréfi dómsmálaráðuneytisins 10. desember sl. var stefnanda veitt gjafsókn.
Stefndi krefst aðallega frávísunar og málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og málið tekið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar.
II
Málavextir eru þeir, að stefnandi, sem lokið hefur námi í snyrtifræði við Cidesco skóla í Bretlandi, auk þess að hafa íslenskt stúdentspróf og hafa lokið starfsþjálfun hér á landi, óskaði eftir því við menntamálaráðuneytið að það veitti henni sveinsréttindi í snyrtifræði. Taldi stefnandi að próf hennar í snyrtifræði frá Cidesco skólanum jafngilti þeim prófum, sem hún yrði að taka hér á landi til þess að öðlast sveinsréttindi og því ætti hún ekki að þurfa að gangast undir sveinspróf.
Menntamálaráðneytið hefur hafnað því að menntun stefnanda jafngildi sveinsprófi en jafnframt lýst því yfir að á grundvelli menntunar stefnanda sé henni heimilt að gangast undir sveinspróf. Til grundvallar svari ráðuneytisins lá umsögn réttindaveitinganefndar í snyrtifræði.
Stefnandi hefur ekki viljað una þessari niðurstöðu ráðuneytisins. Hefur hún borið upp kvörtun við umboðsmann Alþingis, Samkeppnisstofnun og Eftirlitsstofnun EFTA. Á grundvelli svara frá Samkeppnisstofnun og Eftirlitsstofnuninni fór stefnandi þess á leit við ráðuneytið 16. desember 1998 að það léti framkvæma óhlutdrægt einstaklingsbundið mat á menntun hennar. Þessu hafnaði ráðuneytið 5. febrúar 1999 og freistar stefnandi þess með málsókninni að fá þá ákvörðun fellda úr gildi.
III
Stefnandi byggir á því að hún hafi að baki allt það nám, sem krafist sé til þess að gangast undir sveinspróf í snyrtifræði. Hún hafi stúdentspróf, sem sé mun meiri grunnmenntun en krafist sé til sveinsprófs hér á landi, og fullgilt próf úr Cidesco skóla sem hún telji fullkomlega sambærilegt sveinsprófi. Þá hafi hún jafnframt að baki nauðsynlega starfsþjálfun sem stefndi, menntamálaráðuneytið, hafi gert kröfu til í reglum um nám í snyrtifræði. Þrátt fyrir þetta hafi stefndi ekki viljað viðurkenna að nám stefnanda og starfsreynsla sé sambærileg við sveinspróf. Stefndi hafi þó ekki látið framkvæma hlutlausa úttekt á þessum prófum, þrátt fyrir að þess hafi ítrekað verið farið á leit við hann.
Í reglugerð nr. 560/1995 um löggiltar iðngreinar, námssamninga, sveinspróf og meistararéttindi, sé tekið fram í 5. gr. að stefndi geti viðurkennt iðnmenntun, sem aflað sé erlendis, gegn framvísun prófvottorðs og veitt starfsleyfi hér á landi án þess að viðkomandi gangi undir sveinspróf, enda séu kröfur til námsins sambærilegar við þær sem gerðar séu til viðkomandi starfsréttinda hér á landi. Einnig sé heimilt að leyfa einstaklingi með starfsmenntapróf erlendis að sanna kunnáttu sína með sveinsprófi ef erfitt hafi reynst að fá fram nægilega örugg gögn. Þótt reglugerð þessi hafi verið felld úr gildi með reglugerð um námssamninga og starfsþjálfun nr. 280/1997, verði að ætla að stefndi hafi heimild til að viðurkenna iðnmenntun, sem aflað sé erlendis, með sama hætti og greint hafi verið í reglugerðinni.
Þá bendir stefnandi á að námskröfur í Cidesco skólanum, sem hún gekk í, séu mun strangari en í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þar sem snyrtifræði sé kennd hér á landi. Þessu til viðbótar hafi þeir, sem lokið hafi Cidesco prófi, fengist við mun víðtækara svið og lært mun fleiri þætti í snyrtifræði heldur en kenndir eru hér á landi.
Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi gefið út reglur um veitingu réttinda í snyrtifræði nr. 364/1996. Reglurnar hafi verið byggðar á framangreindri reglugerð nr. 560/1995, sem felld hafi verið úr gildi með reglugerð nr. 280/1997. Svo virðist þó sem reglur um veitingu réttinda í snyrtifræði haldi gildi sínu, að minnsta kosti hafi þær ekki verið felldar út úr skrá stefnda yfir gildandi reglur á Internetinu. Í þessum reglum sé gerð sú krafa að þeir sem lokið hafi námi frá skóla, sem kenni eftir Cidesco kröfum, geti sótt um að ganga undir sveinspróf í iðninni þegar þeir hafi sannanlega lokið að minnsta kosti 10 mánaða starfsreynslu. Sé þá miðað við að þeir hafi lokið fagnámi sem svari til upptalningar samkvæmt töflu 1, sem fylgi reglugerðinni. Með því að krefjast sveinsprófs hér á landi til viðbótar þeim prófum sem stefnandi hefur þegar lokið og synja stefnanda um viðurkenningu á því að nám hennar í Cidesco skóla í öðru EES landi sé jafngildi sveinsprófs í snyrtifræði hér á landi, sé stefndi að beita stefnanda ólögmætri mismunun á grundvelli EES samningsins.
Stefnandi kveðst eiga kröfu til þess að nám hennar verði metið af óhlutdrægum aðilum svo að leiða megi í ljós hvort menntun hennar jafngildi þeim kröfum sem gerðar séu til útgáfu sveinsbréfs hér á landi. Það mat sem stefndi hafi hingað til beitt hafi ekki uppfyllt skilyrði um hlutdrægni, svo sem álit Samkeppnisstofnunar sýni. Það að synja stefnanda um framkvæmd mats sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og ákvæðum stjórnsýslulaga.
IV
Til stuðnings frávísunarkröfu sinni bendir stefndi fyrst á að ágreiningur aðila snúist um það hvort Cidesco próf stefnanda sé sambærilegt íslensku sveinsprófi. Þessu hafi stefndi hafnað á þeim grundvelli að námið sé ekki nema að hluta til sambærilegt þar sem ríkari kröfur felist í sveinsprófinu samkvæmt framhaldsskólalögum og námsskrá. Aldrei hafi hins vegar verið dregið í efa að stefnandi fullnægi þeim kröfum sem gerðar séu til þess að þreyta sveinspróf.
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að krafa sú, sem stefnandi hafi uppi í málinu, snerti því ekki í reynd né leysi úr þeim ágreiningi sem uppi sé á milli aðila. Því síður kalli hún fram nokkur viðbrögð, jafnvel þótt dómurinn féllist á hana, eins og hún sé úr garði gerð. Stefnukrafan, eins og hún liggi fyrir, feli í raun eingöngu í sér að leitað sé álits á því hvort synjunin frá 5. febrúar 1999 um það að framkvæma nýtt mat á námi stefnanda hafi verið lögmæt. Þá sé kröfugerðin auk þess óákveðin og óljós. Ekki sé þannig skilgreint í henni hvaða nám það er, sem ætluð ólögmæt synjun á nýju mati taki til og sé kröfugerðin því andstæð meginreglum réttarfars um skýran málatilbúnað og 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Þá byggir stefndi á því að málsástæður þær og lagarök, er stefnandi byggi á til stuðnings kröfu sinni, séu vanreifaðar og óljósar og andstæðar d - f liðum 80. gr. einkamálalaganna. Engin tilraun sé þannig gerð til þess í stefnu að gera grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli réttur til endurmats sé reistur né hvað valdi því að synjun á endurmati feli í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár og ákvæðum stjórnsýslulaga. Engin tilraun sé heldur gerð til þess að rökstyðja þá staðhæfingu í stefnu, að með því að krefjast sveinsprófs hér á landi og synja stefnanda um viðurkenningu á því að nám hennar í Cidesco skóla sé jafngildi sveinsprófs í snyrtifræði hér á landi, sé stefndi að beita stefnanda ólögmætri mismunun á grundvelli EES samningsins, né hvernig það geti tengst stefnukröfunni um viðurkenningu á ólögmæti synjunar um endurmat á námi.
V
Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir því að ágreiningur aðila snýst um það hvort menntun og starfsþjálfun stefnanda eigi að duga henni til að fá útgefið sveinsbréf í snyrtifræði eða hvort hún eigi einungis rétt á að gangast undir sveinspróf. Kröfugerð stefnanda miðar ekki að því að fá úrlausn um þennan ágreining heldur krefst stefnandi þess að tiltekin ákvörðun stefnda verði dæmd ólögmæt. Ef orðið yrði við þessari kröfu stefnanda, eins og hún er sett fram, myndi það engu breyta um úrlausn ágreinings aðila. Það verður því að fallast á það með stefnda að kröfugerð stefnanda sé ekki í samræmi við meginreglur réttarfarsins um skýran málatilbúnað, heldur sé hér í raun verið að leita eftir áliti dómsins á umræddri synjun stefnda frá 5. febrúar 1999.
Með vísan til framanritaðs og 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi en málskostnaður á milli aðila skal falla niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar, Láru V. Júlíusdóttur hrl., 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Málinu er vísað frá dómi. Málskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hennar, Láru V. Júlíusdóttur hrl., 200.000 krónuað meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.