Hæstiréttur íslands
Mál nr. 150/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Útlendingur
- Lögvarðir hagsmunir
- Gjafsókn
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Miðvikudaginn 7. maí 2003. |
|
Nr. 150/2003. |
Kestutis Baginskas(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Kærumál. Útlendingar. Lögvarðir hagsmunir. Gjafsókn. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
Með ákvörðun útlendingaeftirlitsins í nóvember 2001, sem staðfest var með úrskurði dómsmálaráðuneytisins, var litháskum ríkisborgara, K, auk þess að vera vísað úr landi bönnuð endurkoma til Íslands fyrir fullt og allt. Einnig var mælt fyrir um skráningu ákvörðunarinnar í Schengen-upplýsingakerfið, sem olli því að K taldist óæskilegur á landsvæðum allra aðildarríkja Schengen-samstarfsins í þrjú ár frá brottvísun hans frá Íslandi. Með vísan til þessa varð ekki fallist á með héraðsdómara að K skorti eftir brotthvarf frá Íslandi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni um ógildingu á umræddum úrskurði. Var því lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að því leyti. Kröfu K um að viðurkennt yrði að hann hafi átt rétt á að fá notið réttarstöðu grunaðs manns við rannsókn lögreglu og útlendingaeftirlits í tengslum við fyrirhugaða afturköllun dvalarleyfis hans, og að ríkissjóður bæri ábyrgð á greiðslu kostnaðar lögmanns við gæslu hagsmuna K fyrir umræddum stjórnvöldum, var vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Sóknaraðili krefst þess einnig að ákvörðun héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verði breytt þannig að þóknun lögmanns hans verði hækkuð. Þá krefst hann kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt í kærumáli þessu.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði kom sóknaraðili, sem er litháskur ríkisborgari, til Íslands sem ferðamaður í lok október 1999. Hlaut hann dvalarleyfi hér á landi í mars 2000, sem síðar var framlengt til 1. febrúar 2002. Í október 2001 bárust útlendingaeftirlitinu gögn frá lögreglunni í Reykjavík, sem staðfestu að sóknaraðili hafi framið refsiverðan verknað í heimalandi sínu og verið vistaður á geðsjúkrahúsi sökum þess þar til í lok ágúst 1999, en hann hafi greinst með geðklofa. Með ákvörðun útlendingaeftirlitsins 26. nóvember 2001 var dvalarleyfi sóknaraðila afturkallað og mælt fyrir um að honum skyldi vísað úr landi með vísan til 4. töluliðar 1. mgr. 11. gr. þágildandi laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum með áorðnum breytingum. Með ákvörðuninni var sóknaraðila jafnframt bannað að koma aftur til Íslands fyrir fullt og allt og tekið fram að bannið næði til allra Norðurlandanna samkvæmt Norðurlandasamningi þar um frá 1957. Auk þess yrði ákvörðun um brottvísun og endurkomubann skráð í Schengen-upplýsingakerfið, sem valdi því að sóknaraðili teljist óæskilegur á landsvæðum allra Schengen-ríkjanna næstu þrjú ár frá skráningu. Ákvörðun útlendingaeftirlitsins var staðfest með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 8. febrúar 2002 og fór sóknaraðili úr landi 2. mars sama árs. Höfðaði hann mál þetta 9. október 2002 og krafðist þess í I. kröfulið stefnunnar að fyrrnefndur úrskurður ráðuneytisins yrði ógiltur, en til vara að ævilangt endurkomubann sóknaraðila til Íslands yrði fellt úr gildi, svo og skráning hans í Schengen-upplýsingakerfið. Í II. kröfulið stefnunnar krafðist sóknaraðili þess að viðurkennt yrði að hann hafi átt rétt á að fá notið réttarstöðu grunaðs manns við rannsókn lögreglu og útlendingaeftirlits í tengslum við fyrirhugaða afturköllun dvalarleyfis hans og brottvísun úr landi, og að ríkissjóður bæri ábyrgð á greiðslu kostnaðar lögmanns við gæslu hagsmuna sóknaraðila fyrir umræddum stjórnvöldum. Málsástæður aðilanna eru raktar í hinum kærða úrskurði, en með honum var málinu vísað í heild frá dómi.
II.
Með ákvörðun útlendingaeftirlitins 26. nóvember 2001 var sóknaraðila auk þess að vera vísað úr landi bönnuð endurkoma til Íslands fyrir fullt og allt. Einnig var sem fyrr segir mælt fyrir um skráningu ákvörðunarinnar í Schengen-upplýsingakerfið. Litháen er utan Schengen-samstarfsins og veldur fyrrnefnd skráning því að sóknaraðili telst óæskilegur á landsvæðum allra aðildarríkja Schengen-samstarfsins í þrjú ár frá brottvísun hans frá Íslandi. Með vísan til þess verður ekki fallist á með héraðsdómara að sóknaraðila skorti eftir brotthvarf frá Íslandi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni um ógildingu á umræddum úrskurði. Verður því lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar að því leyti.
Með vísan til forsendna hins kærðar úrskurðar verður niðurstaða héraðsdóms staðfest um frávísun á II. kröfulið sóknaraðila frá héraðsdómi.
Í kæru sóknaraðila er þess loks krafist að hrundið verði þeim þætti í hinum kærða úrskurði, sem lýtur að ákvörðun málflutningslauna lögmanns hans í skjóli gjafsóknar og þau hækkuð. Kröfunni til stuðnings hefur hann lagt fyrir Hæstarétt tímaskrá um vinnuframlag við héraðsdómsmálið. Með því að hinn kærði úrskurður verður felldur úr gildi að hluta ber héraðsdómara jafnframt að ákveða gjafsóknarlaun lögmanns sóknaraðila við úrlausn um sakarefnið. Kemur því ekki til þess að ný ákvörðun verði tekin um gjafsóknarlaun í héraði á þessu stigi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Staðfest er sú niðurstaða í hinum kærða úrskurði að vísa frá dómi II. kröfulið sóknaraðila, Kestutis Baginskas.
Hinn kærði úrskurður er að öðru leyti felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 150.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2003.
I
Málið var höfðað 9. október sl. og tekið til úrskurðar 1. apríl sl. Stefnandi er Kestutis Baginskas, til heimilis í Telsiai í Litháen. Stefndi er dóms- og kirkjumálaráðuneytið, Arnarhvoli, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru: "I. Að ógiltur verði úrskurður stefnda, dags. 8. febrúar 2002 um að staðfesta úrskurð Útlendingaeftirlitsins frá 26. nóvember 2001, um afturköllun dvalarleyfis stefnanda, brottvísun hans frá Íslandi er jafnframt gildir á Norðurlöndum, ævilangt endurkomubann til Íslands og skráningu í Schengen-upplýsingakerfið. Til vara er þess krafist að ævilangt endurkomubann stefnanda til Íslands verði fellt úr gildi svo og skráning stefnanda í Schengen-upplýsingakerfið.
II. Þá er krafist að viðurkennt verði að stefnandi hafi átt rétt á að fá notið réttarstöðu grunaðs manns við rannsókn lögreglu og Útlendingaeftirlits í tengslum við fyrirhugaða afturköllun dvalarleyfis hans og brottvísun úr landi, og að ríkissjóður beri ábyrgð á greiðslu kostnaðar lögmanns við gæslu hagsmuna stefnanda fyrir umræddum stjórnvöldum."
Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega frávísunar og málskostnaðar.
II
Stefnandi, sem er litháískur ríkisborgari, kom til landsins seint á árinu 1999. Hann fékk hér vinnu og var honum upphaflega veitt atvinnu-og dvalarleyfi 15. mars 2000, er gilti til 1. febrúar 2001. Það var síðar framlengt og gilti þá til 1. febrúar 2002. Þetta leyfi var afturkallað með ákvörðun Útlendingaeftirlitsins 26. nóvember 2001, sem staðfest var með úrskurði stefnda 8. febrúar 2002. Í framhaldi af þessu fór stefnandi af landi brott 2. mars 2002.
Ákvörðun Útlendingaeftirlitsins var byggð á 4. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum en þar segir að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi ef áframhaldandi dvöl hans hér á landi telst hættuleg hagsmunum ríkisins eða almennings, eða vist hans er óæskileg af öðrum ástæðum. Í ákvörðuninni fólst að dvalarleyfi stefnanda var afturkallað og honum vísað úr landi. Jafnframt var honum bannað að koma aftur til landsins fyrir fullt og allt og gilti það bann einnig fyrir öll Norðurlöndin, sbr. Norðurlandasamning þar um frá 1957. Bannið var skráð í Schengen-upplýsingakerfið, sem þýðir að stefnandi er óæskilegur í Schengen ríkjunum í 3 ár frá skráningunni.
Framangreind ákvörðun var tekin vegna þess að komið hafði í ljós að stefnandi hafði á árinu 1995 verið dæmdur í heimalandi sínu fyrir að nauðga og myrða unga konu. Þar eð stefnandi greindist með geðklofa var hann dæmdur til vistar á lokuðu geðsjúkrahúsi en var látinn laus þaðan 1999 og mun hafa komið til Íslands í framhaldi af því.
III
Stefnandi byggir á því að meðferð Útlendingaeftirlitsins á máli hans hafi hvorki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1965, er þá giltu um eftirlit með útlendingum, né í samræmi við ákvæði laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá hafi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið brotin á honum svo og ákvæði laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu auk mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar.
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að stefnandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr sakarefninu þar eð hann sé farinn af landinu og ákvörðun Útlendingaeftirlitsins, sem staðfest hafi verið af stefnda, hafi þar með verið fullnægt. Þá er byggt á því að fyrri málsliður í II. lið dómkrafna stefnanda sé lögspurning, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og virðist auk þess vera málsástæða fyrir kröfu í I lið. Þá sé krafa stefnanda í seinni málslið II. liðar dómkröfunnar of víðtæk og óljós. Hún sé ekki í samræmi við d og e liði 1. mgr. 80. gr. einkamálalaganna og þar afleiðandi vanreifuð og ódómtæk.
IV
Eins og rakið var fór stefnandi af landi brott í framhaldi af því að stefndi staðfesti með úrskurði ákvörðun Útlendingaeftirlitsins. Með því var ákvörðuninni fullnægt og á stefnandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Hugsanleg beiðni hans um að koma aftur til landsins verður að bera að með öðrum hætti, og þá samkvæmt ákvæðum gildandi laga þar um, en ekki með úrlausn um gildi ákvörðunar, sem þegar hefur verið fullnægt. Aðal- og varakröfu stefnanda samkvæmt I. lið í stefnu er því vísað frá dómi.
Í II. lið stefnunnar er þess í fyrsta lagi krafist að viðurkennt verði að stefnandi hafi átt að njóta réttarstöðu grunaðs manns eins og rakið var. Þessi krafa er í raun málsástæða fyrir kröfu stefnanda samkvæmt I. lið og getur dómur því ekki gengið um hana. Er henni vísað frá dómi.
Í öðru lagi er í II. lið krafist viðurkenningar á að ríkissjóður beri ábyrgð á greiðslu kostnaðar lögmanns við gæslu hagsmuna stefnanda við málarekstur hans fyrir framangreindum stjórnvöldum. Í stefnu er gerð svohljóðandi grein fyrir þessari kröfu: "Einnig leitar stefnandi viðurkenningar á ábyrgð íslenska ríkisins til greiðslu kostnaðar þess sem féll vegna aðstoðar lögmanns, en stjórnvöld neituðu að skipa stefnanda lögmann í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, þrátt fyrir beiðni þess efnis."
Samkvæmt e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í stefnu greina málsástæður, sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Þessi lýsing á að vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hvert sakarefnið sé. Málatilbúnaður stefnanda varðandi kröfugerð hans í II. lið stefnunnar er ekki í samræmi við þetta ákvæði einkamálalaganna. Engin grein er gerð fyrir lögmannsaðstoðinni, hvar og hvenær hún var veitt eða í hverju hún fólst. Það er því fallist á það með stefnda að krafan sé vanreifuð og verður henni vísað frá dómi.
Málskostnaður á milli aðila skal falla niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. laun lögmanns hans, Hilmars Magnússonar hdl., 120.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Málinu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. laun lögmanns hans, Hilmars Magnússonar hdl., 120.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.