Hæstiréttur íslands

Mál nr. 543/2006


Lykilorð

  • Endurkrafa
  • Nauðasamningur
  • Dráttarvextir
  • Ómerking héraðsdóms


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3.maí 2007.

Nr. 543/2006.

Sparisjóður Mýrasýslu

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Kaupfélagi Árnesinga svf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

og gagnsök

 

Endurkrafa. Nauðasamningur. Dráttarvextir. Ómerking héraðsdóms.

K gaf út fjóra víxla sem S keypti. Auk víxlanna gaf K út yfirlýsingar sem kváðu á um að allar greiðslur til K frá F skyldu lagðar inn á tilgreindan bankareikning hjá S og að S væri heimilt að taka tilgreindar fjárhæðir af reikningnum í samræmi við víxlana. K taldi sig síðar vera óbundinn af þessum ráðstöfunum og voru greiðslur frá F því lagðar inn á vörslureikning hjá lögmannsþjónustu. Með dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2004 var greiðsluskylda K vegna víxlanna staðfest, en hafnað kröfu S um staðfestingu veðréttar í fyrrnefndum greiðslum frá F. Sú fjárhæð sem lögð hafði verið inn á fyrrgreindan vörslureikning var allt að einu greidd inn á reikning K hjá S 30. desember 2004. Tók S samdægurs af reikningnum fjárhæð til fullrar greiðslu samkvæmt dóminum. Áður hafði verið staðfestur nauðasamningur fyrir K og lá fyrir að fjárkrafan samkvæmt fyrrgreindum dómi teldist samningskrafa á hendur honum. Var því ekki talið að S hefði notið réttar til að krefjast frekari greiðslu til fullnustu á dómskuldinni en kveðið var á um í nauðasamningnum. Að teknu tilliti til stöðu kröfunnar á þeim degi sem heimild til að leita nauðasamnings var veitt og ákvæða samningsins var talið að S hefði 30. desember 2004 ranglega tekið til sín af innlánsreikningi K tiltekna fjárhæð. Var honum gert að endurgreiða þá fjárhæð, að frádregnum tveimur afborgunum af skuld K sem fallið höfðu í gjalddaga eftir ákvæðum nauðasamningsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 8. ágúst 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 20. september 2006 og var áfrýjað öðru sinni 16. október sama ár. Aðaláfrýjandi krefst aðallega sýknu af aðalkröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann þess aðallega að varakröfu gagnáfrýjanda verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af henni. Aðaláfrýjandi krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 8. desember 2006. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 45.205.934 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 20.253.977 krónum frá 24. júlí 2003 til 22. ágúst sama ár, af 46.972.033 krónum frá þeim degi til 2. október sama ár, af 70.264.090 krónum frá þeim degi til 7. sama mánaðar og af 45.205.934 krónum frá þeim degi til greiðsludags, en að því frágengnu 48.090.708 krónur með sömu dráttarvöxtum frá 30. desember 2004 til greiðsludags. Í báðum tilvikum komi til frádráttar samtals 20.579.106 krónur, sem teljist til innborgana með nánar tilgreindum fjárhæðum á tilteknum dögum. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að rift verði yfirlýsingu sinni, aðaláfrýjanda og réttargæslustefnda 11. apríl 2003 og ávísun á tilteknar greiðslur frá sama degi, svo og greiðslum, sem inntar hafi verið af hendi á grundvelli þessara skjala, og verði aðaláfrýjanda þá gert að greiða gagnáfrýjanda fjárhæðir eins og lýst er í framangreindum fyrri hluta aðalkröfu. Í öllum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi hefur stefnt FL Group hf. til réttargæslu. Félagið hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Mál þetta á rætur að rekja til þess að gagnáfrýjandi gaf út 11. apríl 2003 fjóra víxla, hvern að fjárhæð 7.500.000 krónur, sem dótturfélag hans, Eignarhaldsfélagið Brú ehf., samþykkti til greiðslu á tímabilinu frá 20. júní til 20. september sama ár. Aðaláfrýjandi keypti þessa víxla. Í tengslum við þetta lýstu aðilarnir skriflega yfir 11. apríl 2003 að greiðslur til gagnáfrýjanda frá greiðslumiðlun réttargæslustefnda, sem þá hét Flugleiðir hf., skyldu frá 15. sama mánaðar ganga inn á tiltekinn innlánsreikning hjá aðaláfrýjanda. Við sama tækifæri undirritaði gagnáfrýjandi aðra yfirlýsingu með fyrirsögninni „ávísun á greiðslur“, þar sem aðaláfrýjanda var heimilað að taka tilgreindar fjárhæðir af sama reikningi á tilteknum dögum, sem svöruðu til fjárhæðar og gjalddaga víxlanna fjögurra. Gagnáfrýjandi fékk 14. júlí 2003 heimild til greiðslustöðvunar, sem stóð allt til 8. janúar 2004, þegar honum var heimilað að leita nauðasamnings. Sá samningur komst á og var staðfestur 29. apríl 2004. Samkvæmt honum skyldi gagnáfrýjandi standa skil á 20% af fjárhæð samningskrafna með fimm jöfnum greiðslum, sem inntar yrðu af hendi í fyrsta lagi við staðfestingu samningsins, í öðru lagi á ótilteknum tíma þegar gagnáfrýjanda bærist greiðsla frá greiðslumiðlun Flugleiða hf., en síðan í desember 2004, í sama mánuði 2005 og loks í júlí 2006.

Eftir að gagnáfrýjandi hafði fengið heimild til greiðslustöðvunar tilkynnti hann aðaláfrýjanda 17. júlí 2003 að hann teldi framkvæmdastjóra sinn, sem þá hafði látið af störfum, af nánar greindum ástæðum hafa brostið heimild til að skuldbinda hann með útgáfu áðurnefndra víxla, svo og að hann teldi sig óbundinn af yfirlýsingunum frá 11. apríl sama ár. Sama dag tilkynnti gagnáfrýjandi réttargæslustefnda um þessa afstöðu sína til yfirlýsinganna tveggja. Varð þetta til þess að réttargæslustefndi ákvað að láta fé, sem gagnáfrýjandi átti að fá úr greiðslumiðlun Flugleiða hf., renna inn á vörslureikning í umsjá LOGOS lögmannsþjónustu þar til leyst yrði úr ágreiningi um hver ætti rétt til fjárins. Aðaláfrýjandi höfðaði mál gegn gagnáfrýjanda 25. nóvember 2003 til greiðslu skuldar samkvæmt víxlunum, sem hér um ræðir, og til staðfestingar á veðrétti sínum í fé, sem greiðslumiðlun Flugleiða hf. hafi greitt á vörslureikning, en aðaláfrýjandi kvað þá fjárhæð nema 70.264.090 krónum. Með dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2004 í máli nr. 211/2004, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 4309, var gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda skuld samkvæmt víxlunum, samtals 30.000.000 krónur, með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum en að frádregnum 4.482.800 krónum, sem greiddar voru inn á skuldina 23. júní 2003. Á hinn bóginn var hafnað kröfu aðaláfrýjanda um staðfestingu veðréttar.

Áður en framangreindur dómur gekk í Hæstarétti höfðaði gagnáfrýjandi mál á hendur aðaláfrýjanda 7. júlí 2004, þar sem hann krafðist þess aðallega að viðurkennt yrði að aðaláfrýjandi ætti ekki rétt til 70.264.090 króna, sem greiðslumiðlun Flugleiða hf. hafi ráðstafað á vörslureikning í umsjá LOGOS lögmannsþjónustu, en til vara að áðurnefndum tveimur yfirlýsingum frá 11. apríl 2003 yrði rift og aðaláfrýjanda gert að greiða 4.482.800 krónur með dráttarvöxtum frá 23. júní 2003. Máli þessu var vísað frá héraðsdómi með úrskurði 17. mars 2005, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 14. apríl sama ár í máli nr. 138/2005, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 1457. Undir rekstri þess máls hafði féð, sem greiðslumiðlun Flugleiða hf. lagði á vörslureikning, verið greitt 30. desember 2004 samkvæmt ákvörðun réttargæslustefnda inn á reikning hjá aðaláfrýjanda í samræmi við yfirlýsingu aðilanna frá 11. apríl 2003, samtals 48.090.708 krónur, þar af 2.554.908 krónur í vexti. Af þeirri fjárhæð tók aðaláfrýjandi 30. desember 2004 fulla greiðslu skuldar gagnáfrýjanda samkvæmt dóminum frá 18. nóvember sama ár, samtals 31.877.447 krónur, en að öðru leyti fékk gagnáfrýjandi ráðstöfunarrétt yfir fénu, sem greitt var inn á reikninginn.

Gagnáfrýjandi höfðaði aftur mál á hendur aðaláfrýjanda 13. júlí 2005 og krafðist þess aðallega að honum yrði gert að greiða sér 49.688.734 krónur með dráttarvöxtum af nánar greindum fjárhæðum en að frádreginni 20.025.621 krónu. Til vara krafðist gagnáfrýjandi þess að yfirlýsingunum frá 11. apríl 2003 yrði rift ásamt greiðslum, sem aðaláfrýjandi hefði fengið á grundvelli þeirra, og honum gert að greiða sömu fjárhæð og greindi í aðalkröfu. Því máli var vísað frá héraðsdómi með úrskurði 9. janúar 2006 og var hann ekki kærður til Hæstaréttar.

Gagnáfrýjandi höfðaði loks þetta mál með stefnu 2. febrúar 2006. Í henni gerði hann dómkröfur, sem svara til framangreindrar kröfugerðar hans fyrir Hæstarétti. Héraðsdómari kvað upp dóm í málinu 14. júní 2006, þar sem aðalkröfu gagnáfrýjanda var vísað frá, en varakrafa hans tekin til greina á þann hátt að rift var greiðslu til aðaláfrýjanda 30. desember 2004 á 31.877.448 krónum og honum gert að greiða gagnáfrýjanda 27.515.781 krónu með dráttarvöxtum frá 1. febrúar 2005 til greiðsludags. Gagnáfrýjandi kærði ákvæði þessa dóms um frávísun aðalkröfu sinnar og var það fellt úr gildi með dómi Hæstaréttar 28. ágúst 2006 í máli nr. 354/2006. Við svo búið tók héraðsdómari aðalkröfu gagnáfrýjanda til efnismeðferðar og kvað upp dóm um hana 12. október 2006. Þar var aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 26.420.357 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. febrúar 2005 til greiðsludags. Aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandi hafa áfrýjað báðum þessum dómum og tekur kröfugerð þeirra hér fyrir dómi mið af því að málið er nú aftur rekið í einu lagi um aðalkröfu og varakröfu gagnáfrýjanda, þótt héraðsdómari hafi leyst úr þeim efnislega með tveimur ósamrýmanlegum dómum.

II.

Með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2004 var gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda víxilskuld að fjárhæð samtals 30.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 7.500.000 krónum frá 20. júní 2003 til 20. júlí sama ár, af 15.000.000 krónum frá þeim degi til 20. ágúst sama ár, af 22.500.000 krónum frá þeim degi til 20. september sama ár og af 30.000.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 23. júní 2003 að fjárhæð 4.482.800 krónur. Í dóminum var á hinn bóginn hafnað kröfu aðaláfrýjanda um staðfestingu á veðrétti fyrir þessari skuld í fé, sem þá var varðveitt á vörslureikningi í umsjá LOGOS lögmannsþjónustu og upprunnið frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. Að gengnum dóminum lagði réttargæslustefndi þetta fé allt að einu 30. desember 2004 inn á þann reikning gagnáfrýjanda hjá aðaláfrýjanda, sem mælt hafði verið fyrir um í yfirlýsingu þeirra þriggja frá 11. apríl 2003. Aðaláfrýjandi tók samdægurs af reikningnum 31.877.447 krónur til fullrar greiðslu á kröfu samkvæmt dóminum.

Áður en framangreind atvik gerðust hafði verið staðfestur nauðasamningur fyrir gagnáfrýjanda 29. apríl 2004, þar sem kveðið var á um greiðslu samningskrafna á hendur honum að 20 hundraðshlutum. Með því að hafnað var í dóminum 18. nóvember 2004 að aðaláfrýjandi nyti veðréttar til tryggingar víxilskuld gagnáfrýjanda og ekki hefur verið borið við að atvikum hafi annars verið svo háttað, sem getið er í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., lá þegar fyrir að gengnum dóminum að fjárkrafan samkvæmt honum teldist samningskrafa á hendur gagnáfrýjanda, sbr. 1. mgr. 29. gr. sömu laga. Aðaláfrýjandi naut því ekki réttar til að krefjast frekari greiðslu til fullnustu á dómskuldinni en kveðið var á um í nauðasamningnum, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991. Gagnáfrýjanda var sem áður greinir veitt heimild til að leita nauðasamnings 8. janúar 2004 og bar samkvæmt 3. mgr. 30. gr. sömu laga að ákveða fjárhæð samningskröfu aðaláfrýjanda eftir stöðu hennar á þeim degi. Eftir gögnum málsins nam fjárhæð kröfunnar á því tímamarki 27.285.618 krónum að meðtöldum áföllnum dráttarvöxtum og að frádreginni innborgun 23. júní 2003. Með nauðasamningnum færðist fjárhæð kröfunnar því niður í 5.457.123 krónur, sem aðaláfrýjandi átti rétt á að fá greiddar með fimm jöfnum afborgunum eftir nánari ákvæðum samningsins, en óumdeilt er í málinu að hver afborgun hafi samkvæmt þessu átt að nema 1.091.424 krónum. Þrjár af þessum afborgunum, samtals 3.274.272 krónur, voru fallnar í gjalddaga 30. desember 2004 þegar aðaláfrýjandi neytti réttar samkvæmt svokallaðri ávísun gagnáfrýjanda frá 11. apríl 2003 til að taka sér greiðslu af innlánsreikningi hans, en engin haldbær rök standa til að líta svo á að gagnáfrýjandi hafi þá ekki lengur verið bundinn að lögum af þeirri yfirlýsingu sinni, þótt hún hafi ekki veitt aðaláfrýjanda rétt til að taka sér frekari greiðslu en sem þessu svaraði. Verður samkvæmt þessu að líta svo á að aðaláfrýjandi hafi 30. desember 2004 ranglega tekið til sín af innlánsreikningi gagnáfrýjanda 28.603.175 krónur. Á þeim tíma, sem síðan er liðinn, hafa síðustu tvær afborganirnar af skuld gagnáfrýjanda við aðaláfrýjanda fallið í gjalddaga eftir ákvæðum nauðasamningsins, á ótilgreindum degi annars vegar í desember 2005 og hins vegar í júlí 2006, 1.091.424 krónur í hvort sinn. Aðaláfrýjanda er rétt að telja þessar tvær afborganir til frádráttar því, sem hann tók í heimildarleysi af reikningi gagnáfrýjanda 30. desember 2004. Samkvæmt því verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda 26.420.327 krónur.

Aðaláfrýjandi hélt ekki fé ranglega fyrir gagnáfrýjanda fyrr en frá 30. desember 2004 að telja. Honum verður því ekki gert að greiða dráttarvexti af framangreindri skuld frá fyrra tímamarki, en um þá fer annars samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og fram kemur í dómsorði. Við ákvörðun hans er óhjákvæmilegt að taka tillit til þess hvernig gagnáfrýjandi hefur með málatilbúnaði sínum í þessu og fyrri málum við aðaláfrýjanda átt hlut að því hversu torsótt hefur reynst að ljúka efnisdómi á ágreining þeirra.

Með þessum úrslitum málsins er að hluta tekin til greina aðalkrafa gagnáfrýjanda, sem efnisdómur var felldur á í héraði 12. október 2006. Því til samræmis verður að ómerkja fyrri dóminn, sem héraðsdómari kvað upp í málinu 14. júní sama ár.

Dómsorð:

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 14. júní 2006 í máli gagnáfrýjanda, Kaupfélags Árnesinga svf., á hendur aðaláfrýjanda, Sparisjóði Mýrasýslu, er ómerktur.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 26.420.327 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 28.603.175 krónum frá 30. desember 2004 til 1. desember 2005, af 27.511.751 krónu frá þeim degi til 1. júlí 2006, en af 26.420.327 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 14. júní 2006.

Mál þetta er þingfest 7. febrúar 2006, en tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi 8. júní 2006.

             Stefnandi er Kaupfélag Árnesinga svf., Eyrarvegi 37, Selfossi.

             Stefndi er Sparisjóður Mýrasýslu, Borgarbraut 14, Borgarnesi.

Réttargæslustefndi er FL Group hf., Suðurlandsbraut 12, Reykjavík.

             Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda 45.205.934 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 20.253.977 krónum frá 24.7.2003 til 22.8.2003, af 46.972.033 krónum frá þeim degi til 2.10.2003, af 70.264.090 krónum frá þeim degi til 7.10.2003 og af 45.205.934 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 48.090.708 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30.12.2004 til greiðsludags. Allt að frádregnum eftirtöldum innborgunum: Þann 7.5.2004, 1.091.424 krónum, þann 31.12.2004, 1.091.424 krónum, þann 10.1.2005, 16.213.410 krónum og þann 31.12.2005, 1.091.424 krónum.

             Verði ekki fallist á endurgreiðslukröfu stefnanda hér að framan er þess krafist að yfirlýsingu Óla Rúnars Ástþórssonar fh. stefnanda, Flugleiða hf. og stefnda frá 11. apríl 2003 og ávísun sama dag verði rift ásamt öllum greiðslum sem inntar hafi verið af hendi á grundvelli þessara skjala, 48.090.708 krónum 30.12.2004 og 31.877.298 krónum ,,sem stefndi ráðstafaði í framhaldi til sín af umræddum bankareikningi uppí víxilskuld skv. dómi Hæstaréttar milli aðilanna frá 18.11.2004 og stefnda verði gert að greiða stefnanda skv. því sem greinir í kröfulið I.” Loks er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Á hendur réttargæslustefnda eru í stefnu engar kröfur gerðar.

             Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er gerð krafa um að fjárkrafa stefnanda verði verulega lækkuð. Loks krefst stefndi greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.

             Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.

             Stefnandi gaf 11. apríl 2003 út fjóra víxla, sem hver var að fjárhæð 7.500.000 krónur, og voru þeir samþykktir af Eignarhaldsfélaginu Brú ehf. til greiðslu á tímabilinu frá 20. júní til 20. september sama ár. Að þessari ráðstöfun stóð þáverandi framkvæmdastjóri stefnanda, sem jafnframt var stjórnarformaður Eignarhaldfélagsins Brúar ehf., en það var talið til dótturfélaga stefnanda. Víxlar þessir voru keyptir af stefnda til framlengingar á eldri víxli. Sama dag og fyrrnefndu víxlarnir voru gefnir út var undirrituð yfirlýsing stefnanda og Flugleiða hf. um að allar greiðslur til hans frá svokallaðri greiðslumiðlun Flugleiða hf. frá og með 15. apríl 2003 skyldu lagðar inn á nánar tilgreindan bankareikning hjá stefnda. Í yfirlýsingu þessari, sem jafnframt var árituð af stefnda, var tekið fram að ekki mætti breyta þeirri skipan, sem þar var kveðið á um, nema með samþykki hans og stefnanda. Að auki undirrituðu aðilar málsins aðra yfirlýsingu sama dag, þar sem stefnandi veitti stefnda heimild til að taka út af áðurnefndum bankareikningi greiðslur tiltekinnar fjárhæðar á tilgreindum dögum, sem svöruðu til fjárhæðar og gjalddaga víxlanna fjögurra.

Stefnandi fékk 14. júlí 2003 heimild til greiðslustöðvunar, sem síðan var framlengd allt til 13. janúar 2004. Fyrir lok hennar var stefnanda veitt heimild 8. janúar 2004 til að leita nauðasamnings, sem staðfestur var 29. apríl sama ár með því meginefni að samningskröfur á hendur honum yrðu greiddar að 20 hundraðshlutum. Skömmu eftir að stefnandi fékk upphaflega heimild til greiðslustöðvunar tilkynnti hann stefnda 17. júlí 2003 að hann teldi sig af nánar tilgreindum ástæðum óbundinn af þeirri ráðstöfun framkvæmdastjóra síns að hafa gefið út fyrrnefnda fjóra víxla, svo og af yfirlýsingunum tveimur frá 11. apríl sama ár. Hann tilkynnti jafnframt Flugleiðum hf. 17. júlí 2003 um þessa afstöðu sína til yfirlýsinganna og krafðist þess að fé frá greiðslumiðlun félagsins yrði ekki greitt stefnda, heldur beint til sín. Flugleiðir hf. tilkynntu málsaðilum sama dag að fé til stefnanda úr greiðslumiðlun félagsins yrði lagt á vörslureikning hjá LOGOS lögmannsþjónustu þar til leyst yrði úr ágreiningi aðila.

Stefndi fékk ekki áðurnefnda fjóra víxla greidda og höfðaði því mál á hendur stefnanda til heimtu þeirra 25. nóvember 2003. Krafðist stefndi þess jafnframt að staðfestur yrði veðréttur sinn í fé frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu, samtals 70.264.090 krónur. Dómur gekk í málinu fyrir Héraðsdómi Vesturlands 11. mars 2004 og voru kröfur stefnda teknar þar til greina, en þá lá fyrir samkvæmt málatilbúnaði hans að fjárhæðin, sem lögmannsþjónustan hafði í vörslum sínum, væri 45.205.934 krónur. Stefnandi áfrýjaði dóminum 24. maí 2004 og lauk málinu, sem var nr. 211/2004, með dómi Hæstaréttar 18. nóvember sama ár. Í honum var niðurstaða héraðsdóms staðfest um greiðsluskyldu stefnanda við stefnda, en um kröfu þess síðarnefnda um staðfestingu veðréttar sagði eftirfarandi í dóminum: „Þegar virt er framangreind yfirlýsing áfrýjanda og Flugleiða hf. 11. apríl 2003, sem einnig var undirrituð af stefnda, er ljóst að í henni er ekki tekið fram að um veðsamning sé að ræða og engin fjárkrafa er þar samkvæmt orðalagi hennar sett að veði, heldur lýsir áfrýjandi því yfir að allar greiðslur frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. fari inn á tiltekinn reikning hjá stefnda og að ekki sé heimilt að gera breytingu þar á nema með samþykki stefnda. Þótt hér sé um skýra viljayfirlýsingu að ræða af hálfu áfrýjanda, sem geymir skuldbindingu hans sem ekki verður breytt nema með samþykki stefnda, felur hún samkvæmt efni sínu ekki í sér að stefnda hafi verið veitt veð eða önnur tryggingarréttindi í hinum umræddu greiðslum frá Flugleiðum hf. Er því fallist á með áfrýjanda að hér sé ekki um veðsamning að ræða og verður krafa stefnda um staðfestingu veðréttar ekki tekin til greina.“

Á meðan framangreint mál var til meðferðar fyrir Hæstarétti höfðaði stefnandi nýtt mál á hendur stefnda 7. júlí 2004. Í héraðsdómsstefnu krafðist hann þess aðallega að viðurkennt yrði að stefndi ætti engan rétt til greiðslna að fjárhæð samtals 70.264.090 krónur í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu, en til vara að yfirlýsingunum tveimur frá 11. apríl 2003 yrði rift og stefnda gert að greiða stefnanda 4.482.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2003 til greiðsludags. Varakrafan var reist á 1. mgr. 139. gr., 141. gr. og 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en í héraðsdómsstefnu var án nánari skýringa tiltekið að hún væri um „endurgreiðslu á kr. 4.482.800 sem fram fór þ. 23.6.2003“. Í greinargerð, sem stefndi lagði fram í héraði 18. janúar 2005, var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að hann yrði sýknaður af kröfum stefnanda. Kom meðal annars fram í greinargerðinni að stefnandi hafi áður en hann „varð gjaldþrota“ greitt umræddar 4.482.800 krónur inn á skuld samkvæmt einum víxlanna fjögurra, sem var á gjalddaga 20. júní 2003. Héraðsdómur féllst á kröfur stefnda og vísaði málinu í heild sinni frá dómi. Stefnandi skaut úrskurðinum til Hæstaréttar 31. mars 2005 og lauk málinu, sem var nr. 138/2005, með dómi Hæstaréttar 14. apríl sama ár. Í honum var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins staðfest. Í dómi Hæstaréttar sagði að í bréfi LOGOS lögmannsþjónustu 29. desember 2004, sem meðal annars hafi verið beint til lögmanna málsaðila, hafi þeirri skoðun verið lýst að það leiddi af áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 18. nóvember sama ár að yfirlýsing stefnanda og Flugleiða hf. 11. apríl 2003 væri gild. Yrði því fé, sem lögmannsþjónustan hafi tekið í vörslur sínar vegna ágreinings aðilanna, lagt á þann bankareikning stefnanda hjá stefnda, sem getið væri í yfirlýsingunni. Væri um að ræða höfuðstól að fjárhæð 45.535.800 krónur og 2.554.908 krónur í vexti eða samtals 48.090.708 krónur. Samkvæmt greinargerð stefnda fyrir héraðsdómi hafi hann tekið við þessari greiðslu og varið hluta hennar til að greiða skuld stefnanda samkvæmt áðurnefndum fjórum víxlum. Eftir þessa ráðstöfun væri aðalkrafa stefnanda, sem lyti að því einu að viðurkennt yrði að stefndi ætti engan rétt til nánar tiltekinnar fjárhæðar í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu, andstæð ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Bæri því þegar af þeirri ástæðu að vísa henni frá héraðsdómi. Eftir að stefnandi hafi höfðaði málið hafi því verið slegið föstu með dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2004 að stefnanda hafi verið skylt að greiða stefnda skuld samkvæmt margnefndum fjórum víxlum. Þótt fallist yrði á við efnismeðferð varakröfu stefnanda að skilyrði væru til að rifta ráðstöfunum, sem falist hafi í yfirlýsingunum tveimur frá 11. apríl 2003 og greiðslum í skjóli þeirra, myndi skylda eftir sem áður hvíla á stefnanda til að efna þessa skyldu sína, eftir atvikum að teknu tilliti til nauðasamnings hans, en til þess hafi ekki verið tekin afstaða svo viðhlítandi væri í málatilbúnaði hans. Þá lægi nú fyrir að stefndi hafi tekið sér fulla greiðslu skuldarinnar samkvæmt víxlunum fjórum, en ekki aðeins fengið greiddar inn á hana 4.482.800 krónur, eins og kröfugerð stefnanda tæki mið af. Þótt stefnanda hafi ekki borið að beina varakröfu sinni, sem reist væri á ákvæðum XX. kafla, sbr. 32. gr. laga nr. 21/1991, að Flugleiðum hf. samhliða stefnda, og ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991 stæði því ekki í vegi að stefnandi hefði þessa kröfu nú uppi, hafi atvik tekið slíkum breytingum eftir höfðun málsins að óhjákvæmilegt væri að líta svo á að grundvöllur væri brostinn undan því að þessu leyti. Yrði því jafnframt að vísa varakröfu stefnanda frá héraðsdómi.

Stefnandi höfðaði nýtt mál á hendur stefnda og réttargæslustefnda 13. júlí 2005. Hafði stefnandi aðallega uppi kröfu um að stefndi yrði dæmdur til að greiða honum 49.688.734 krónur auk vaxta, að frádregnum fjórum innborgunum. Til vara var þess krafist að yfirlýsingu Óla Rúnars Ástþórssonar fh. stefnanda, Flugleiða hf. og stefnda frá 11. apríl 2003 og ávísun sama dag yrði rift, þ.m.t. öllum greiðslum sem inntar hafi verið af hendi á grundvelli þeirra skjala. Stefndi krafðist frávísunar málsins. Aðalkröfu stefnanda var vísað frá dómi á grundvelli 116. gr. laga nr. 91/1991. Talið var að þegar hefði verið dæmt um gildi yfirlýsinga frá 11. apríl 2003 um hvert greiðslur skyldu berast. Varakröfu um riftun yfirlýsinga frá 11. apríl og greiðslna á grundvelli þeirra var vísað frá dómi á grundvelli þess að töluleg kröfugerð stefnanda væri vanreifuð. Stefnandi undi frávísunarúrskurði héraðsdóms og hefur nú höfðað nýtt mál á hendur stefnda vegna sama sakarefnis en með lítillega breyttri kröfugerð.

Stefnandi reisir aðalkröfu sína fyrst og fremst á því að samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli aðila frá 18. nóvember 2004 felist í nefndum yfirlýsingum frá 11. apríl 2003 hvorki veð né tryggingarréttindi. Að því leiði að stefndi njóti ekki stöðu gagnvart öðrum kröfuhöfum skv. 111. gr. gjaldþrotalaga, nr. 21/1991, en kröfur samkvæmt 109., 110. og 112. gr. laganna geti ekki efni sínu samkvæmt heldur komið til álita. Að því leiði að krafa stefnda gagnvart öðrum kröfuhöfum njóti stöðu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Stefnanda hafi verið veitt heimild til greiðslustöðvunar 14. júlí 2003. Hafi krafa stefnda þá fallið undir 1. mgr. 21. gr. laganna þar sem hún hafi ekki notið sérstakrar stöðu í skuldaröð gagnvart öðrum lánadrottnum. Stefndi hafi því ekki átt nein óbein eignarréttindi í greiðslunum heldur hafi hann leitt rétt sinn frá skuldaranum sjálfum og því ekki getað öðlast víðtækari ráðstöfunarheimildir en þeim er hann hafi leitt rétt sinn frá. Hafi stefndi því orðið að sæta réttaráhrifum greiðslustöðvunarinnar með sama hætti og skuldarinn sjálfur. Af því leiði að greiðslurnar hafi ekki mátt renna til stefnda í andstöðu við ákvæði gjaldþrotalaga og því síður í andstöðu við ákvarðanir aðstoðarmanns á greiðslustöðvunartíma.

Eftir að nauðasamningur hafi komist á milli stefnanda og kröfuhafa hans hafi einungis getað farið um uppgjör samkvæmt þeim samningi enda hafi stefndi verið bundinn af honum. Um það megi vísa til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991, en þar sé tæmandi talið hvaða kröfur nauðasamningurinn hafi ekki áhrif á og í 1. mgr. 28. gr. um að allar aðrar kröfur teljist vera samningskröfur. Hafi samningurinn réttaráhrif á kröfur stefnda með sama hætti og greini í 29. og 30. gr. laga nr. 21/1991. Skuli m.a. bent á ákvæði 3. og 4. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991, en af þeim ákvæðum leiði að stefndi verði að sæta sama hlutfalli og sömu gjalddögum og aðrir. Engu máli skipti hver réttindi manna séu samkvæmt samningum eða dómi, fullnusta fari samkvæmt nauðasamningi. Um það megi vísa til dóms Hæstaréttar frá árinu 2003, bls. 2038.

Af þessu leiði í fyrsta lagi að þar sem heimild til greiðslustöðvunar hafi verið veitt, hafi skuldari misst allar heimildir til að greiða skuldir sínar með þeim réttaráhrifum að öll fyrirfram gefin loforð hafi einnig fallið undir niðurfellingu á ráðstöfunarheimild. Hafi borið að ráðstafa greiðslunni til samræmis við fyrirmæli aðstoðarmanns. Það hafi ekki verið gert. Í öðru lagi, hvað sem hinu fyrrnefnda líði, hafi borðið, eftir að nauðasamningur hafi komist á, að gera skuldina upp samkvæmt honum, enda hafi stefndi verið bundinn af honum. Ráðstöfun fjármuna til hans hafi því verið í andstöðu við gerðan samning og brot gagnvart öðrum almennum kröfuhöfum.

Verði ekki fallist á það sem hér hafi verið rakið sé á því byggt að í efni hinna umdeildu skuldbindinga hafi eingöngu falist að tilteknar greiðslur skyldu renna inn á tiltekinn tékkareikning og að ekki verði lögð dýpri merking í ávísanir út af reikningnum en ráðið verði samkvæmt orðanna hljóðan. Sæti þær því afturköllun eins og hverjar aðrar ávísanir, en þær hafi verið afturkallaðar af stefnanda 17. júlí 2003, sbr. dskj. nr. 3, bls. 140, enda hafi framkvæmdastjóri ekki haft umboð til víðtækari ráðstöfun fjármuna stefnanda.

Að því varði tölulega kröfugerð sé byggt á eftirfarandi útlistun. Úr greiðslumiðlun Flugleiða hf. hafi stefnandi átt að fá eftirtaldar greiðslur:

-                             24. júlí 2003, samtals 20.253.977 krónur, sem ekki hafi verið greiddar stefnanda.

-                             22. ágúst 2003, samtals 26.718.056 krónur, sem ekki hafi verið greiddar stefnanda.

-                             2. október 2003, samtals 23.292.057 krónur, sem ekki hafi verið greiddar stefnanda.

Stefnandi hafi 7. október 2003 af þessum fjármunum frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. fengið greiddar 25.058.156 krónur. Samtals geri þetta 45.205.934 krónur. Skuld stefnanda samkvæmt umræddum víxli hafi 9. janúar 2004 staðið í 27.285.618 krónum, sbr. dskj. nr. 17. Samkvæmt nauðasamningi hafi borið að greiða 4% þeirrar fjárhæðar 7. maí 2004, eða 1.091.424 krónur og aftur þann 31. desember 2004 og loks 31. desember 2005, sbr. dskj. nr. 6. Stefndi hafi greitt stefnanda 10. janúar 2005, 16.213.410 krónur.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991 falli allar kröfur í gjalddaga þegar nauðasamningur komist á og miðist fjárhæð hennar við úrskurðardag, sbr. 3. mgr. Eins og að framan sé rakið sé stefndi bundinn af nauðasamningnum og meðal þeirra er samningurinn taki til. Kröfur um annað en höfuðstól og dráttarvexti séu eftirstæðar og verði ekki fullnustaðar samkvæmt nauðasamningi, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 114. gr. laganna og til hliðsjónar 1. mgr. 22. gr. laganna.

Að því er varði dráttarvexti, sé á því byggt að stefnandi eigi rétt til dráttarvaxta úr hendi stefnda frá þeim tíma er honum hafi borið að fá greiðsluna í sínar hendur. Stefndi hafi áformað að tileinka sér fjármuni stefnanda með ólögmætum hætti upp í víxilskuld þrátt fyrir ákvæði laga um greiðslustöðvun. Hann hafi því með athöfnum sínum valdið því að stefnandi hafi ekki fengið greiðsluna innta af hendi á réttum gjalddaga. Megi jafna aðgerðum stefnda við það að hann hafi fengið peningana í hendur en neitað að skila þeim. Hafi stefnandi með bréfaskriftum sínum til réttargæslustefnda eða lögmanna hans hindrað að ákvæði gjaldþrotalaga um greiðslustöðvun yrðu brotin. Á meðan stefnandi hafi orðið af þessum fjárhæðum hafi dráttarvextir lagst á aðrar skuldir hans.

Verði ekki fallist á dráttarvexti á þeim grunni sé byggt á því að hegðun stefnda hafi verið saknæm og ólögmæt, enda hafi hann lagt sig fram um að ákvæði gjaldþrotalaga, annars vegar um greiðslustöðvun og hins vegar um nauðasamning, yrðu brotin og kröfuhöfum mismunað með þeim hætti sem lýst hafi verið. Af almennu skaðabótareglunni leiði að menn baki sér bótaskyldu með slíku háttalagi. Dráttarvextir séu staðlaðar skaðabætur, óháðar því hvort tjón sé meira eða minna. Beri stefnanda því dráttarvexti á meðan hann hafi orðið af fjármunum sínum af völdum stefnda, sbr. m.a. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Verði ekki fallist á þessi sjónarmið stefnanda eigi hann rétt á að fá a.m.k. greiddar umræddar 45.205.934 krónur auk áfallinna almennra vaxta, samtals 48.090.708 krónur, auk dráttarvaxta til greiðsludags.

Stefnandi lýti svo á að þar sem hann hafi ekki fengið umrædda peninga sem honum hafi borið eigi hann rétt til dráttarvaxta. Að því leyti sem stefndi verði sýknaður af slíkri kröfu hljóti hún að beinast að réttargæslustefnda. Þyki því rétt að gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum að í málinu. Réttargæslustefndi sé aðili að framlögðum samningi um aðild stefnda að greiðslumiðlun Flugleiða hf. á dskj. nr. 3, bls. 72. Hann beri nú samkvæmt þjóðskrá nafnið FL-Group hf. 

Að því er varði kröfu um riftun sé í fyrsta lagi byggt á 139. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi skuldin verið greidd eftir frestdag og ljóst að greiðslan hefði ekki farið fram ef gjaldþrot hefði borið að höndum 14. júlí 2003. Ljóst sé að undantekningarákvæði umrædds ákvæðis geti ekki komið til álita.

Verði ekki fallist á þetta sé byggt á því að greiðsla til stefnda sé ótilhlýðileg, honum til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa, enda væri almennur kröfuhafi að fá greiðslu sér til hagsbóta á kostnað annarra.

Verði ekki fallist á riftun á þessum grundvelli sé um fjárkröfuna vísað til 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.

Verði talið að umrædd skjöl frá 11. apríl 2003 veiti stefnda slíkan rétt að ekki verði fallist á neinar af framangreindum málsástæðum sé á því byggt að 137. gr. laga nr. 21/1991 taki til slíkra réttinda, beint eða fyrir lögjöfnun, en ljóst sé að skjölin hafi verið gerð u.þ.b. þremur mánuðum fyrir frestdag vegna gjaldfallinnar skuldar. Um hagnað stefnda af þeirri ráðstöfun sé vísað til 1. og 2. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, en honum beri að greiða stefnanda.

Um heimild til höfðunar riftunarmáls sé vísað til 32. gr. laga nr. 21/1991. Málið hafi upphaflega verið höfðað innan allra fresta en um endurnýjun málshöfðunarfresta, ef til frávísunarmáls komi, sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 257/2003. Nýtt mál hafi verið höfðað 13. júlí 2005 sem hafi verið vísað frá 9. janúar 2006. Sé málið höfðað á ný með stefnu í þessu máli.

Um dráttarvexti sé loks vísað til þess sem segi í aðalkröfu.

          Stefndi byggir kröfu sína um sýknu af fjárkröfu stefnanda aðallega á því að stefnandi eigi enga fjárkröfu á hendur stefnda og hafi aldrei átt. Krafa stefnanda sé endurgreiðslukrafa að höfuðstól 45.205.934 krónur, en á ákveðnu tímabili verði hún samkvæmt kröfugerð stefnanda mun hærri eða 70.264.090 krónur. Fjárkrafa stefnanda virðist byggð á því að honum hafi borið ákveðnar greiðslur frá réttargæslustefnda árið 2003 en þar sem stefnandi hafi ekki fengið þær hafi það með einhverjum óskilgreindum hætti leitt til þess að stefndi eigi að standa stefnanda skil á þessum greiðslum. Stefnda sé útilokað að sjá hvernig það geti gerst með þeim hætti að stefnandi eignist fjárkröfu á hendur stefnda. Eins og fram sé komið hafi stefndi samtals fengið greitt frá réttargæslustefnda 36.360.508 krónur vegna hinna umdeildu víxla. Jafnvel þó svo gengið verði út frá því að stefnandi eigi endurgreiðslukröfu á hendur stefna sé útilokað að átta sig á hvernig hún geti orðið mun hærri en sú fjárhæð sem stefnandi hafi sannanlega fengið frá réttargæslustefnda. Þá séu hvorki í stefnu né í gögnum málsins leidd rök að því hvernig fjárkrafa stefnanda sé fundin út. Fjárkrafan sé því algerlega órökstudd, en ástæða þess sé líklega sú að krafan sé ekki til og hafi aldrei verið.

             Stefnandi geri kröfu um dráttarvexti á höfuðstól sem fari í 70.264.090 krónur, þrátt fyrir að stefndi hafi sannanlega ekki fengið nema 36.360.508 krónur frá réttargæslustefnda. Alls ekki sé ljóst á hverju sú kröfugerð byggist né hvers vegna krafan sé sett fram með þeim hætti.

             Eins og fram sé komið hafi verið dæmt um greiðsluskyldu stefnanda á umræddum víxlum og sé krafan því í raun endurgreiðslukrafa á skuld sem þegar hafi verið dæmt um að honum hafi borið að greiða. Þar sem stefnanda hafi borið að greiða stefnda þá skuld geti stefnandi ekki átt endurgreiðslukröfu í slíku tilfelli nema þegar eitthvað hafi gerst í millitíðinni sem geti verið grundvöllur slíkrar endurgreiðslukröfu. Þær aðstæður séu hins vegar ekki uppi í málinu.

             Þá geti stefnandi ekki átt endurgreiðslukröfu á hendur stefnda fyrr en einhverjum greiðslum frá stefnanda til stefnda hafi verið rift og þá um leið þeim yfirlýsingum sem þær greiðslur byggist á. Endurgreiðslukrafan standist því ekki heldur að því leyti en stefnandi geri aðeins riftunarkröfu verði ekki fallist á endurgreiðslukröfuna þannig að í raun sé riftunarkrafa aðeins varakrafa. Verði stefndi sýknaður af aðalkröfunni, þ.e. fjárkröfunni, en fallist á varakröfu um riftun, hafi stefnandi ekki þar með eignast fjárkröfu á hendur stefnda.

             Eins og fram sé komið hafi Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að í umræddum yfirlýsingum frá 11. apríl 2003 hafi ekki falist veðsetning en þar hafi hins vegar verið um skuldbindandi yfirlýsingu að hálfu stefnanda að ræða. Verði því að líta svo á að þar hafi verið um bindandi og endanlegt kröfuframsal að ræða af hálfu stefnanda. Í því hafi falist að greiðslur frá greiðslumiðlun réttargæslustefnda skyldu renna inn á tilgreindan reikning stefnanda hjá stefnda. Því fyrirkomulagi hafi ekki verið hægt að breyta nema með samþykki stefnda og stefnanda. Annars vegar hafi verið um að ræða yfirlýsingu þar sem allir aðilar málsins hafi ritað undir en hins vegar ,,ávísun” sem stefnandi og stefndi hafi undirritað þar sem stefnda hafi verið heimilað að ráðstafa ákveðnum greiðslum af tilgreindum reikningi stefnanda hjá stefnda. Með því og fyrrgreindri yfirlýsingu hafi stefndi fengið fullan ráðstöfunarrétt á innistæðu stefnanda á reikningnum til að greiða hina umdeildu víxla. Stefndi telji að því fyrirkomulagi hafi stefnanda ekki verið heimilt að breyta nema með samþykki stefnda.

             Heimild stefnanda til greiðslustöðvunar geti ekki breytt því að stefnandi hafi verið bundinn af fyrrgreindum yfirlýsingum og ráðstöfunum á grundvelli þeirra. Hafi skuldari gert skuldbindandi samning um framsal á kröfum, áður en hann hafi fengið heimild til greiðslustöðvunar, haldi þeir gildi sínu að öllu leyti þrátt fyrir greiðslustöðvunina. Greiðslustöðvunin hafi aðallega þá þýðingu að skuldari megi ekki greiða skuldir sínar á greiðslustöðvunartímabili. Þar sem stefnandi hafi ekki getað afturkallað umrædda ,,ávísun” geti aðstoðarmaður á greiðslustöðvunartímabili ekki gert það heldur.

             Stefndi mótmæli því að mjög takmörkuð umfjöllun stefnanda í stefnu um umboð fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnanda hafi einhverja þýðingu í málinu. Eins og fram sé komið hafi Hæstiréttur Íslands kveðið upp dóm um greiðsluskyldu stefnanda á umræddum víxlum og einnig staðfest að fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda hafi haft umboð til að rita undir þá löggerninga sem um sé deilt í málinu og að þeir hafi haft að geyma skuldbindandi yfirlýsingu af hálfu stefnanda. Að reyna enn og aftur að koma að hinum ætlaða umboðsskorti hafi enga þýðingu í málinu. Hafi það allt að einu þýðingu byggi stefndi á því að fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda hafi verið innan prókúruumboðs síns þegar hann hafi ritað undir umræddar yfirlýsingar og þá hafi hann einnig ritað undir þær í skjóli stöðuumboðs síns. Framkvæmdastjórinn fyrrverandi hafi því haft fullt og ótakmarkað umboð til að rita undir yfirlýsingarnar eins og víxlana.

              Varakröfu um lækkun fjárkröfu stefnanda byggi stefndi á því að stefnandi hafi a.m.k. engin rök leitt að endurgreiðslukröfu sinni hvað varði 4.482.800 krónur sem stefndi hafi fengið greiddar 23. júní 2003. Sú greiðsla hafi verið innt af hendi fyrir frestdag og stefnandi hafi engin rök fært fram til stuðnings fjárkröfu sinni né riftunarkröfu að því leyti.

             Að því er varði kröfu um sýknu af riftunarkröfu taki stefndi fram að stefnandi hafi ekki fært fram nein rök til stuðnings þeirri kröfu. Stefnandi byggi þar aðallega á 139. gr. laga nr. 21/1991, en hún geti ekki átt við í þessu tilfelli þar sem í henni sé kveðið á um greiðslur eftir frestdag. Eins og fram sé komið hafi ráðstafanir þær sem deilt sé um í málinu, þ.e. yfirlýsingarnar, verið undirritaðar fyrir frestdag. Hafi þar í raun verið um kröfuframsal að ræða, eins og fram hafi komið. Það sem komið hafi í kjölfarið hafi eingöngu verið efndir á gerðu skuldbindandi samkomulagi. Um skuldbindingargildi þeirra gerninga hafi þegar verið dæmt.

             Þá taki stefndi fram að LOGOS lögmannsþjónusta hafi 30. desember 2004 greitt inn á reikning stefnanda hjá stefnda 48.090.708 krónur. Sú ráðstöfun eða greiðsla hafi því farið fram eftir að úrskurður hafi fallið um staðfestingu nauðasamnings stefnanda og nauðasamningur þar með komist á. Því geti ekki verið um ráðstöfun þrotamanns að ræða í skilningi 137. gr. laga nr. 21/1991, sem stefnandi byggi riftunarkröfu á. Það ákvæði, sem og önnur ákvæði XX. kafla laganna, eigi aðeins við um greiðslur og ráðstafanir þrotamanns sjálfs sem leitað sé riftunar á. Í því tilviki sem hér sé deilt um, þ.e. greiðslu frá LOGOS lögmannsþjónustu, sé hins vegar um að ræða greiðslu sem hafi átt sér stað eftir staðfestingu nauðasamnings. Þá skuli bent á að Hæstiréttur Íslands hafi dæmt að stefndi hafi ekki átt veðréttindi eða önnur ,,tryggingarréttindi” í umræddum greiðslum frá réttargæslustefnda. Krafa um riftun varðandi þá greiðslu inn á reikning stefnanda hjá stefnda verði því m.a. af þeirri ástæðu ekki byggð á 137. gr. laga nr. 21/1991.

             Þar sem stefnandi byggi riftunarkröfu sína einvörðungu á XX kafla laga nr. 21/1991, hafi hann hvorki fært fram lagarök ná málsástæður sem geti leitt til þess að fallist verði á riftunarkröfu hans. Þá veki stefndi athygli á því að stefnandi geri m.a. kröfu um riftun á greiðslu frá réttargæslustefnda sem hafi borist stefnda frá LOGOS lögmannsþjónustu að fjárhæð 48.090.708 krónur. Sá hluti riftunarkröfunnar beinist því í raun að réttargæslustefnda án þess að stefnandi hafi haft uppi kröfur á hendur honum í stefnu. Það geti ekki staðist að krefjast riftunar á greiðslu frá ákveðnum aðila án þess að hafa uppi kröfu á hendur honum og einnig án þess að hann fái að koma að málinu með hefðbundnum hætti.

             Þá krefjist stefnandi riftunar á greiðslu frá 30. desember 2004 að fjárhæð 48.090.708 krónur sem að verulegu leyti hafi gengið til stefnanda sjálfs. Af þeirri greiðslu hafi aðeins 31.877.708 krónur gengið til stefnda. Hvernig og í hvaða tilgangi stefnandi ætli að rifta greiðslu sem hafi komið í hlut hans sjálfs sé algerlega óljóst og ekki heldur ljóst við hvaða lagarök það styðjist.

             Eins og fram sé komið byggi stefnandi riftunarkröfu sína á XX. kafla laga nr. 21/1991, sem fjalli aðallega um riftun ráðstöfunar þrotamanns. Riftunarkrafa stefnanda lúti m.a. að tveimur greiðslum sem hafi átt sér stað í desember 2004, eftir að nauðasamningur hafi komist á. Þau lagaákvæði sem stefnandi byggi riftunarkröfu sína á eigi ekki við greiðslur sem þessar.

             Varðandi riftunarkröfuna byggi stefndi einnig á því að málið sé of seint höfðað. Kröfu um riftun byggi stefnandi á XX. kafla laga nr. 21/1991. Samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laganna skuli höfða mál til riftunar á grundvelli XX. kafla laganna í síðasta lagi innan sex mánaða frá því kröfulýsingarfresti lauk. Það muni hafa verið í mars 2004. Mál þetta hafi verið höfðað með birtingu stefnu í febrúar 2006. Fyrri málshöfðanir stefnanda breyti engu í því sambandi enda hafi grunnurinn undir þeim verið allt annar heldur en í þessu máli, eins og sjá megi þegar tvær eldri stefnurnar séu skoðaðar. Í fyrstu stefnunni frá því í júlí 2004 hafi ekki verið krafist riftunar á neinum greiðslum, heldur einvörðungu á yfirlýsingu og ,,ávísun”. Stefndi telji að stefnanda sé ekki heimilt, eftir að máli hans hafi ítrekað verið vísað frá dómi vegna galla á málatilbúnaði, að höfða ávallt nýtt mál og þá jafnvel á öðrum grunni. Verði fallist á slíkt megi segja að málshöfðunarfrestir hafi litla þýðingu. Væri það heimilt gæti aðili, sem vildi höfða riftunarmál en væri í vafa um hvernig standa ætti að kröfugerð, prófað sig áfram þar til hann myndi hugsanlega hitta á réttu leiðina eftir að hafa fengið um það leiðbeiningar frá dómstólum í úrskurðum um frávísun. Slíkt fyrirkomulag gangi ekki upp og myndi leiða af sér óþolandi óvissu jafnvel í mjög langan tíma. Þegar af þeirri ástæðu verði að sýkna stefnda af riftunarkröfu stefnanda.

             Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt. Stefnandi geri kröfu til þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti á allt að 70.264.090 krónur, þrátt fyrir að það sé ljóst að stefndi hafi aldrei fengið nema samtals 36.360.508 krónur frá réttargæslustefnda til greiðslu á hinum umdeildu víxlum. Hvernig stefnandi ætli að fá dráttarvexti á mun hærri fjárhæð úr hendi stefnda sé útilokað að átta sig á. Þá sé vakin athygli á því að hluti þeirrar fjárhæðar sem stefnandi hafi tekið út af reikningi sínum hjá stefnda 10. janúar 2005, hafi verið vextir sem réttargæslustefndi hafi greitt vegna þess að fjármunir hafi verið í hans vörslu um skeið. Stefnandi hafi því nú þegar fengið vexti á hluta þeirrar fjárhæðar sem hann sé að krefja stefnda um í máli þessu.

             Svo virðist sem dráttarvaxtakrafa stefnanda byggi a.m.k. að hluta til á skaðabótasjónarmiði gagnvart réttargæslustefnda, en það geti ekki átt við gagnvart stefnda. Stefndi geti aldrei borið ábyrgð á framkomu og gerningum réttargæslustefnda.

             Stefndi vísar til þeirrar almennu reglu að sá sem haldi fram kröfu verði að sanna tilvist hennar og að hún hafi í raun verið til. Þá vísar stefndi til almennra reglna um endurkröfu, en stefndi verði að sýna fram á að hann eigi slíka kröfu. Vísað er til XX. kafla laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.  

             Réttargæslustefndi byggir á því að því sé hafnað að stefnandi geti á nokkrum tíma átt kröfu til dráttarvaxta, úr hendi réttargæslustefnda, frá einhverjum ótilgreindum tíma, en málatilbúnaður stefnanda sé mjög óskýr um það. Raunverulegur ágreiningur hafi verið á milli stefnanda og stefnda um rétt til tiltekinna fjármuna og hafi niðurstaða um það ekki legið fyrir fyrr en með dómi Hæstaréttar Íslands 18. nóvember 2004. Sá dráttur sem orðið hafi á að niðurstaða fengist hafi ekki á nokkurn hátt verið réttargæslustefnda að kenna, enda hafi hann ávallt hvatt til þess að aðgerðir hæfust til lausnar á þrætunni. Sá dráttur hafi eingöngu verið stefnanda að kenna og í raun óskiljanlegt hvers vegna hann hafi ekki hafist handa þegar í stað um aðgerðir til að fá skorið úr ágreiningi við stefnda um rétt til peninganna. Sé með öllu óeðlilegt að stefnandi geti nú gert kröfu um dráttarvexti allan þann tíma sem hann hafi haldið að sér höndum um aðgerðir. Sé jafnframt í hæsta máta óeðlilegt að fjármunirnir hafi getað ávaxtast á dráttarvöxtum á meðan ágreiningurinn hafi verið til lykta leiddur. Væri um slíkt að ræða, sé um óeðlilega og ósanngjarna ávöxtun fjármuna að ræða sem auðvelt sé að ná fram með því að draga að ástæðulausu að hefjast handa um aðgerðir til úrlausnar. Með því væri sá aðili sem peningana ætti að hagnast með óeðlilegum hætti. Loks sé rétt að benda á að stefndi, sem Hæstiréttur hafi staðfest að ætti rétt til fjármunanna, hafi ekki sett fram neina kröfu um dráttarvexti fyrir þann tíma, þar til ágreiningur hafi verið til lykta leiddur.

             Niðurstaða:

Svo sem fyrr var rakið gaf stefnandi 11. apríl 2003 út fjóra víxla, sem keyptir voru af stefnda til framlengingar á eldri víxli. Að þessari ráðstöfun stóð þáverandi framkvæmdastjóri stefnanda. Sama dag og fyrrnefndu víxlarnir voru gefnir út var undirrituð yfirlýsing stefnanda og Flugleiða hf. um að allar greiðslur til hans frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. frá og með 15. apríl 2003 skyldu lagðar inn á bankareikning hjá stefnda. Að auki undirrituðu aðilar málsins aðra yfirlýsingu sama dag, þar sem stefnandi veitti stefnda heimild til að taka út af áðurnefndum bankareikningi greiðslur tiltekinnar fjárhæðar á tilgreindum dögum, sem svöruðu til fjárhæðar og gjalddaga víxlanna fjögurra. Flugleiðir hf. tilkynntu málsaðilum 17. júlí 2003 að fé til stefnanda úr greiðslumiðlun félagsins yrði lagt á vörslureikning hjá LOGOS lögmannsþjónustu þar til leyst yrði úr ágreiningi aðila, er þá var uppi, um hvert greiðslur úr greiðslumiðluninni skyldu renna. Með dómi Hæstaréttar Íslands 18. nóvember 2004 í málinu nr. 211/2004 var dæmt um skyldu stefnanda til að greiða stefnda umrædda víxla. Kröfu um staðfestingu veðréttar var hins vegar hafnað þar sem ekki var litið á yfirlýsingu frá 11. apríl 2003 sem veðsamning, þó svo hún hefði skuldbindingargildi fyrir stefnanda. Á meðan framangreint mál var til meðferðar fyrir Hæstarétti höfðaði stefnandi nýtt mál á hendur stefnda. Í stefnu krafðist hann þess aðallega að viðurkennt yrði að stefndi ætti engan rétt til greiðslna að fjárhæð samtals 70.264.090 krónur í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu, en til vara að yfirlýsingunum tveimur frá 11. apríl 2003 yrði rift og stefnda gert að greiða stefnanda 4.482.800 krónur með vöxtum. Aðalkrafa stefnanda var talin andstæð ákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Var henni af þeim ástæðum vísað frá héraðsdómi. Varakröfu um riftun yfirlýsinganna og greiðslna á grundvelli þeirra var jafnframt vísað frá dómi þar sem talið var að atvik málsins hefðu tekið slíkum breytingum eftir höfðun málsins að grundvöllur væri brostinn undan þeirri kröfu.

Stefnandi höfðaði nýtt mál á hendur stefnda og réttargæslustefnda 13. júlí 2005 og hafði aðallega uppi kröfu um að stefndi yrði dæmdur til að greiða honum 49.688.734 krónur auk vaxta, að frádregnum fjórum innborgunum. Í úrskurði dómsins 9. janúar 2006 sagði að yfirlýsingar undirritaðar af málsaðilum 11. apríl 2003 hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að greiðslur úr greiðslumiðlun Flugleiða hf. hafi runnið inn á bankareikning stefnanda hjá stefnda. Með aðalkröfu sinni málinu hafi stefnandi haft uppi endurkröfu á hendur stefnda af þeim sökum. Af málsástæðum hans fyrir kröfunni yrði slegið föstu að endurkrafan byggi að mestu á því að fyrrum framkvæmdastjóra stefnanda hafi skort umboð til gerðar yfirlýsinganna og þær væru því ekki bindandi fyrir stefnanda. Að auki vörðuðu málsástæður stefnanda fyrir aðalkröfunni atriði er snéri að stofnun og gildi yfirlýsinganna sem veðréttinda. Með dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2004 hafi verið slegið föstu að fyrrum framkvæmdastjóri stefnanda hafi haft heimild til að gefa út hina umdeildu víxla fyrir hönd stefnanda, enda hafi þar ekki verið um óvenjulegar eða meiri háttar ráðstafanir að ræða. Í dómi Hæstaréttar hafi verið talið að yfirlýsing 11. apríl 2003, um að greiðslur frá greiðslumiðlun réttargæslustefnda fari inn á tiltekinn reikning hjá stefnda, hafi verið skýr viljayfirlýsing af hálfu stefnanda sem hefði að geyma skuldbindingu af hans hálfu. Með henni hafi ekki stofnast til veðsamnings. Í úrskurði héraðsdóms sagði síðan að með vísan til þeirrar niðurstöðu og þess að fyrrum framkvæmdastjóri stefnanda hafi haft heimild til að gefa út víxilskuldbindingarnar væri það niðurstaða dómsins að þegar hafi verið dæmt um gildi yfirlýsingarinnar frá 11. apríl um hvert greiðslurnar skyldu berast. Með vísan til 116. gr. laga nr. 91/1991 yrði aðalkröfu stefnanda því vísað frá dómi. Aðalkrafa stefnanda í þessu máli er enn sem fyrr endurgreiðslukrafa. Þó svo stefnandi hafi að sumu leyti nú fært fram önnur rök fyrir kröfunni hefur að mati dómsins áður verið komist að þeirri niðurstöðu að til þess bær fyrirsvarsmaður stefnanda hafi skuldbundið stefnanda um hvert greiðslurnar skyldu renna og verði ekki við því hróflað með endurgreiðslukröfu. Í ljósi þessa og með vísan til úrskurðar héraðsdóms frá 9. janúar 2006 er það niðurstaða dómsins að áður hafi verið komist að bindandi niðurstöðu um þessa kröfu. Verður henni því með vísan til 116. gr. laga nr. 91/1991 vísað frá dómi.

Stefnandi hefur uppi varakröfu um að rift verði yfirlýsingum frá 11. apríl 2003, sem og öllum greiðslum á grundvelli þeirra. Jafnframt er þess krafist ,,...að stefnda verði gert að greiða stefnanda skv. því sem greinir í kröfulið I.” Felst í hinum tilvitnuðu orðum endurgreiðslukrafa þeirrar fjárhæðar sem fram kemur í aðalkröfunni. Byggir varakrafan á ákvæðum laga nr. 21/1991 um að rift verði yfirlýsingunum frá 11. apríl 2003 og tilteknum greiðslum og að stefnda beri að endurgreiða stefnanda þá fjármuni er bárust úr greiðslumiðlun Flugleiða hf., að teknu tilliti til nauðasamnings stefnanda. 

Verulegt ósamræmi er í málatilbúnaði aðila að því er varðar greiðslur þær er bárust inn á reikning stefnanda hjá stefnda úr greiðslumiðlun Flugleiða hf. Tilteknar greiðslur úr greiðslumiðluninni, sem annars hefðu runnið beint til stefnanda, runnu inn á bankareikning hans hjá stefnda á grundvelli yfirlýsinganna frá 11. apríl 2003. Stefndi miðar við að á grundvelli lögmætrar ákvörðunar fyrrum framkvæmdastjóra stefnanda hafi þessum fjármunum verið varið til að greiða skuld samkvæmt hinum umdeildu víxlum. Stefnandi hafi hins vegar sjálfur haft ráðstöfunarvald yfir þeim fjármunum er ekki hafi verið varið til greiðslu skuldar stefnanda, enda hafi stefnandi sjálfur m.a. tekið fé út af eigin reikningi í sparisjóðnum. Stefndi hafi því aldrei ,,skuldað” stefnanda neitt. Stefnandi lítur hins vegar svo á að með því að féð rann þá leið er hér var rakið, án þess að hann fengi nokkru um það ráðið, hafi stefndi hindrað ráðstöfun stefnanda yfir þeim eða jafnvel ,,tileinkað sér” alla þá fjármuni er runnu inn á reikning stefnanda hjá stefnda. Endurspeglar kröfugerðin og vaxtakrafa þessa afstöðu stefnanda. Ljóst er að með dómkröfum sínum endurkrefur stefnandi stefnda um þrjár greiðslur á tímabilinu 24. júlí 2003 til 2. september sama ár, sem LOGOS lögmannsþjónusta tók ákvörðun um að greiða ekki öðrum hvorum málsaðila á meðan ágreiningur var um hvert greiðslurnar skyldu renna. Frá þessari fjárhæð dregur stefnandi greiðslu sem LOGOS lögmannsþjónusta greiddi stefnanda 7. september 2003. Dráttarvextir reiknast af þessum fjárhæðum miðað við þá daga sem greiðslurnar bárust inn á reikning hjá LOGOS lögmannsþjónustu. Verði ekki fallist á þetta endurkrefur stefnandi stefnda um 48.090.708 krónur, sem er fjárhæð sem LOGOS lögmannsþjónusta greiddi inn á reikning stefnanda hjá stefnda 30. desember 2004. Í því tilviki er gerð krafa um að dráttarvextir leggist á fjárhæðina miðað við þann dag.  Frá þessum fjárhæðum dregur stefnandi í öllum tilvikum síðan þær greiðslur sem nauðasamningur hans hefði miðað við að stefndi fengi greitt eftir og er þá miðað við stefnda hafi borið að fá hvert sinn greitt 4% af kröfufjárhæð sinni og við útreikning þeirrar fjárhæðar miðað við stöðu skuldar stefnanda við stefnda 9. janúar 2004. Er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi gert nægjanlega grein fyrir þeim fjárhæðum er hann krefst endurgreiðslu á.

Stefndi gerði tilkall til fjármuna stefnanda úr greiðslumiðlun Flugleiða hf. vegna víxilskuldbindinganna. Stefndi hafði hins vegar engan ráðstöfunarrétt yfir greiðslunum og verður því ekki gerður ábyrgur fyrir því hvernig réttargæslustefndi hagaði greiðslunum. Standa því ekki lagaheimildir til að fallast á með stefnanda hvernig fjárhæð kröfugerðar hans i aðalkröfu er sett fram. Varakrafa hans fær heldur ekki staðist, þar sem hann í því tilviki endurkrefur stefnda m.a. um fjárhæð er stefnandi tók sjálfur út af reikningnum 10. janúar 2005. Loks fær ekki staðist staðhæfing stefnda um að stefnandi hafi framselt kröfu sína með yfirlýsingunni 11. apríl 2003, sem eigi að leiða til þess að reglum laga nr. 21/1991 um riftun verði ekki beitt gagnvart greiðslunum. Raunveruleg yfirfærsla fjármuna tengd sakarefninu hefur átt sér stað með þeim hætti að stefndi fékk greiddar 4.482.800 krónur 23. júní 2006 vegna víxilskuldbindinga stefnanda. Stefnandi endurkrefur stefnda ekki lengur um þá fjárhæð, en gerði það í fyrri málaferlum sínum. Næstu fjármunir er fara á milli aðila er þegar LOGOS lögmannsþjónusta greiddi 48.090.708 krónur inn á reikning stefnda hjá stefnanda 30. desember 2004. Var þar um að ræða greiðslur sem stefnandi átti að fá úr greiðslumiðlun Flugleiða hf. á tilteknum gjalddögum í júlí, ágúst og október 2003, en hélt eftir á meðan ágreiningur var uppi um hvert greiðslurnar skyldu renna. Samanstóð fjárhæðin af 45.535.800 krónum sem var höfuðstóll og 2.554.908 krónum sem voru vextir. Stefndi tók út af þessum reikningi sama dag 31.877.447 krónur og varði til greiðslu á skuld stefnanda við stefnda. Eftir stóðu þá á reikningi 16.213.410 krónur. Stefnandi sjálfur tók út af þessum reikningi 16.213.000 krónur þann 10. janúar 2005. Þar sem stefndi hefur einungis tekið til sín 31.877.447 krónur af þeim fjármunum sem færðir voru inn á reikning stefnanda hjá stefnda 30. desember 2004, er einungis unnt að rifta þeirri greiðslu, verði á riftun fallist. Þó svo stefnandi hafi ekki lagt mál sitt upp með þeim hætti, þykir dóminum engu að síður unnt að leysa úr sakarefninu á þeim grundvelli, en hafa ber að í huga að máli þessu hefur áður í tvígang verið vísað frá dómi á grundvelli vanreifaðrar eða óljósrar kröfugerðar. 

Samkvæmt gögnum málsins var stefnanda veitt greiðslustöðvun 13. júlí 2003, á grundvelli 2. þáttar laga nr. 21/1991. Stefnda var 8. janúar 2004 veitt heimild til að leita nauðasamninga við lánadrottna á grundvelli ákvæða 3. þáttar laga nr. 21/1991. Loks var nauðasamningur stefnanda við skuldara sína staðfestur með úrskurði héraðsdóms 29. apríl 2004. Stefnandi hefur í þessu máli krafist riftunar á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991. Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laganna skal reglum XX. kafla um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti beitt ef nauðasamningur kemst á, að öðru leyti en því að skuldari verður að höfða dómsmál til riftunar innan þriggja mánaða frá því samningurinn komst á. Fyrirmæli 1. mgr. 32. gr. víkja frá almennum reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 að því leyti að frestur til að höfða riftunarmál byrjar alltaf að líða þegar nauðasamningur er kominn á og stendur síðan aðeins í þrjá mánuði, en með því er bæði vikið frá reglum 148. gr. laganna um upphafsmörk málshöfðunarfrestsins og lengd hans. Þá er beinlínis kveðið á um að miða eigi frestinn við uppkvaðningu úrskurðar um heimild til að leita nauðasamninga, í stað uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar eftir reglum XX. kafla. Loks höfðar skuldarinn sjálfur málið eftir reglum 32. gr., í stað þess að skiptastjóri þrotabús höfði slíkt mál.  

Stefnandi höfðaði fyrsta mál sitt á hendur stefnda með stefnu 7. júlí 2004. Í því máli hafði stefnandi upp varakröfu um að yfirlýsingu Óla Rúnars Ástþórssonar fh. stefnanda, Flugleiða hf. og stefnda frá 11. apríl 2003 og ávísun sama dag yrði rift og stefnda gert að greiða stefnanda tiltekna fjárhæð. Riftunarkrafan var byggð á XX. kafla laga nr. 21/1991. Var mál það samkvæmt því höfðað innan þriggja mánaða frá því nauðasamningurinn komst á. Máli því var vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms 17. mars 2005, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands 14. apríl 2005. Stefnandi hefur lagt til grundvallar að sé nýtt mál höfðað innan frests endurnýist málshöfðunarfrestir. Hefur hann m.a. vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 257/2003 í því sambandi. Í framangreindum dómi Hæstaréttar kemur fram að með því að ekki sé beinlínis mælt fyrir á annan veg í lögum verði að líta svo á að við frávísun eða niðurfellingu máls, sem þrotabú höfðar til riftunar á ráðstöfun þrotamanns, hefjist aftur sex mánaða frestur því til handa til að höfða nýtt mál í sama skyni. Í ljósi þess að reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um riftun ráðstafana þrotamanns verður beitt ef nauðasamningur kemst á og að ekki er að finna sérstök fyrirmæli í 32. gr. laga nr. 21/1991 um frest til að höfða riftunarmál öðru sinni ef upphaflegu máli, sem höfðað er í tæka tíð, hefur verið vísað frá dómi, eru ekki efni til að skýra málshöfðunarfresti 32. gr. laganna á annan veg en kveðið er á um í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 257/2003. Verður því við það miðað að nýr þriggja mánaða frestur til handa stefnanda hefjist til að höfða nýtt mál eftir frávísun fyrra máls. Stefnandi höfðaði nýtt mál með varakröfu um riftun 13. júlí 2005. Riftunarkrafan var sem fyrr byggð á ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms 9. janúar 2006. Mál það sem hér er til meðferðar er höfðað 7. febrúar 2006. Samkvæmt því hafa aldrei liðið meira en þrír mánuðir milli þess er máli stefnanda hefur verið vísað frá dómi þar til hann hefur höfðað slíkt mál á nýjan leik. Sú breytta staða var uppi varðandi kröfur stefnanda að í fyrsta málinu krafðist hann riftunar á 4.482.800 krónum sem greiddar voru stefnda 23. júní 2003. Á þeim tíma höfðu 48.090.708 krónur ekki verið greiddar inn á reikning stefnanda hjá stefnda og því ekki unnt að krefjast riftunar þeirrar greiðslu eða hluta hennar. Eftir fyrstu málshöfðunina voru þessir fjármunir færðir inn á reikninginn og tók kröfugerð í næsta máli mið af því. Verður talið að stefnandi hafi höfðað mál það sem hér er til meðferðar innan þess frests sem 1. mgr. 32. gr. laga nr. 21/1991 mælir fyrir um, enda hann jafnan lagt allt kapp á að höfða mál svo fljótt sem auðið er til að varna því að málshöfðunarfrestir girði fyrir málsókn hans. Verður varakröfunni því ekki vísað frá dómi af þeim sökum.

Héraðsdómi barst 14. júlí 2003 beiðni um heimild stefnanda til greiðslustöðvunar. Var sú heimild veitt 14. júlí 2003 og gilti til 1. ágúst 2003. Greiðslustöðvun var framlengd fjórum sinnum eða allt til 13. janúar 2004. Með úrskurði dómsins 8. janúar 2004 var stefnanda veitt heimild til að leita nauðasamninga. Loks var með úrskurði héraðsdóms 29. apríl 2004 nauðasamningur staðfestur. Með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 telst frestdagur því vera 14. júlí 2003. Samkvæmt 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á greiðslu skuldar ef greitt var eftir frestdag, nema tiltekin atriði standi því í vegi sem greinin tilgreinir. 

Reglum laga nr. 21/1991 er ætlað að stuðla að jafnræði kröfuhafa við gjaldþrot skuldara eða þegar nauðasamningur kemst á. Er kröfum skipað í flokka eftir rétthæð í því sambandi. Er krafa stefnda á grundvelli víxilskuldbindinga stefnanda samningskrafa á grundvelli 1. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt nauðasamningi frá 29. apríl 2004 ber stefnanda að greiða 20% af samningskröfum sínum. Skal hann greiða 4% krafna við staðfestingu nauðasamnings, 4% þegar greiðslur berast frá greiðslumiðlun Flugleiða hf., 4% í desember 2004, önnur 4% í desember 2005 og loks síðustu 4% í júlí 2006. Greiðslur frá stefnanda sem bárust stefnda úr greiðslumiðlun Flugleiða hf. 30. desember 2004 bárust stefnda eftir frestdag. Í ljósi þess og þar sem nauðasamningur stefnanda var staðfestur 29. apríl 2004, sem batt stefnda eftir ákvæðum 60. gr. laga nr. 21/1991, verður fallist á kröfur stefnanda um riftun. Riftun verður miðuð við þá greiðslu er stefndi tók til sín 30. desember 2004 til fullnustu á víxilskuldbindingum samtals að fjárhæð 31.877.447 krónur, sbr. dskj. nr. 20. Var sú greiðsla hluti af þeirri fjárhæð er réttargæslustefndi greiddi inn á reikning stefnanda hjá stefnda 30. desember 2004 að heildarfjárhæð 48.090.708 krónur, en stefnandi tók sjálfur út af þeim reikningi eftirstöðvarnar 10. janúar 2005, samtals að fjárhæð 16.213.000 krónur. Frá 31.877.447 krónum verður dregin fjárhæð sem stefnda hefði borið á grundvelli nauðasamningsins frá 29. apríl 2004. Í því efni þykir unnt að leggja til grundvallar útreikning stefnanda. Verður miðað við að stefnda hafi borið að fá 1.091.424 krónur á fjórum gjalddögum, en fimmti og síðasti gjalddaginn í júlí 2006 er enn ekki kominn. Frá 31.877.477 verða því dregnar nauðasamningsgreiðslur að fjárhæð 4.361.696 krónur. Samkvæmt því verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 27.515.781 krónu.

Stefnandi sendi stefnda fjölmörg bréf varðandi ágreining um greiðslur þær sem hér er dæmt um. Mátti stefnanda því vera ljóst, eftir að nauðasamningur hafði öðlast réttaráhrif, að hann átti einungis tilkall til 20% hlutar af þeirri kröfufjárhæð er hann átti á hendur stefnanda. Eftir að fjármunir höfðu borist inn á reikning stefnanda hjá stefnda 30. desember 2004 hefði honum borið að halda eftir greiðslum í samræmi við nauðasamning en standa stefnanda skil á mismuninum. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 er því rétt að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti af fjárhæðinni frá og með 1. febrúar 2005.

Rétt þykir að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefnda Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður og réttargæslustefnda Arnar Þór Jónsson héraðsdómslögmaður.

                Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

             Dómkröfum stefnanda, Kaupfélags Árnesinga svf., samkvæmt lið I. í stefnu, er vísað frá dómi.            Rift er greiðslu réttargæslustefnda, FL Group hf., vegna stefnanda, 30. desember 2004 að fjárhæð 31.877.448 krónur, sem barst inn á reikning stefnanda hjá stefnda, Sparisjóði Mýrasýslu og stefndi varði til greiðslu á víxilskuldbindingum stefnanda samkvæmt fjórum viðskiptavíxlum samtals að fjárhæð 30.000.000 krónur.

Stefndi greiði stefnanda 27.515.781 krónu, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2005 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 12. október 2006.

Mál þetta er þingfest 7. febrúar 2006, en tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi 8. júní 2006. Málið var dæmt 14. júní 2006. Var það endurflutt í héraði að hluta til 21. september sl. í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands 28. ágúst 2006 og dómtekið þá að nýju.

             Stefnandi er Kaupfélag Árnesinga svf., Eyrarvegi 37, Selfossi.

             Stefndi er Sparisjóður Mýrasýslu, Borgarbraut 14, Borgarnesi.

Réttargæslustefndi er FL Group hf., Suðurlandsbraut 12, Reykjavík.

             Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda 45.205.934 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 20.253.977 krónum frá 24.7.2003 til 22.8.2003, af 46.972.033 krónum frá þeim degi til 2.10.2003, af 70.264.090 krónum frá þeim degi til 7.10.2003 og af 45.205.934 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 48.090.708 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30.12.2004 til greiðsludags. Allt að frádregnum eftirtöldum innborgunum: Þann 7.5.2004, 1.091.424 krónum, þann 31.12.2004, 1.091.424 krónum, þann 10.1.2005, 16.213.410 krónum og þann 31.12.2005, 1.091.424 krónum.

             Verði ekki fallist á endurgreiðslukröfu stefnanda hér að framan er þess krafist að yfirlýsingu Óla Rúnars Ástþórssonar fh. stefnanda, Flugleiða hf. og stefnda frá 11. apríl 2003 og ávísun sama dag verði rift ásamt öllum greiðslum sem inntar hafi verið af hendi á grundvelli þessara skjala, 48.090.708 krónum 30.12.2004 og 31.877.298 krónum ,,sem stefndi ráðstafaði í framhaldi til sín af umræddum bankareikningi uppí víxilskuld skv. dómi Hæstaréttar milli aðilanna frá 18.11.2004 og stefnda verði gert að greiða stefnanda skv. því sem greinir í kröfulið I.” Loks er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Á hendur réttargæslustefnda eru í stefnu engar kröfur gerðar.

             Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er gerð krafa um að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð verulega. Loks krefst stefndi greiðslu málskostnaðar að mati dómsins. 

             Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Stefnandi gaf 11. apríl 2003 út fjóra víxla, sem hver var að fjárhæð 7.500.000 krónur, og voru þeir samþykktir af Eignarhaldsfélaginu Brú ehf. til greiðslu á tímabilinu frá 20. júní til 20. september sama ár. Að þessari ráðstöfun stóð þáverandi framkvæmdastjóri stefnanda, sem jafnframt var stjórnarformaður Eignarhaldfélagsins Brúar ehf., en það var talið til dótturfélaga stefnanda. Víxlar þessir voru keyptir af stefnda til framlengingar á eldri víxli. Sama dag og fyrrnefndu víxlarnir voru gefnir út var undirrituð yfirlýsing stefnanda og Flugleiða hf. um að allar greiðslur til hans frá svokallaðri greiðslumiðlun Flugleiða hf. frá og með 15. apríl 2003 skyldu lagðar inn á nánar tilgreindan bankareikning hjá stefnda. Í yfirlýsingu þessari, sem jafnframt var árituð af stefnda, var tekið fram að ekki mætti breyta þeirri skipan, sem þar var kveðið á um, nema með samþykki hans og stefnanda. Að auki undirrituðu aðilar málsins aðra yfirlýsingu sama dag, þar sem stefnandi veitti stefnda heimild til að taka út af áðurnefndum bankareikningi greiðslur tiltekinnar fjárhæðar á tilgreindum dögum, sem svöruðu til fjárhæðar og gjalddaga víxlanna fjögurra.

Stefnandi fékk 14. júlí 2003 heimild til greiðslustöðvunar, sem síðan var framlengd allt til 13. janúar 2004. Fyrir lok hennar var stefnanda veitt heimild 8. janúar 2004 til að leita nauðasamnings, sem staðfestur var 29. apríl sama ár með því meginefni að samningskröfur á hendur honum yrðu greiddar að 20 hundraðshlutum. Skömmu eftir að stefnandi fékk upphaflega heimild til greiðslustöðvunar tilkynnti hann stefnda 17. júlí 2003 að hann teldi sig af nánar tilgreindum ástæðum óbundinn af þeirri ráðstöfun framkvæmdastjóra síns að hafa gefið út fyrrnefnda fjóra víxla, svo og af yfirlýsingunum tveimur frá 11. apríl sama ár. Hann tilkynnti jafnframt Flugleiðum hf. 17. júlí 2003 um þessa afstöðu sína til yfirlýsinganna og krafðist þess að fé frá greiðslumiðlun félagsins yrði ekki greitt stefnda, heldur beint til sín. Flugleiðir hf. tilkynntu málsaðilum sama dag að fé til stefnanda úr greiðslumiðlun félagsins yrði lagt á vörslureikning hjá LOGOS lögmannsþjónustu þar til leyst yrði úr ágreiningi aðila.

Stefndi fékk ekki áðurnefnda fjóra víxla greidda og höfðaði því mál á hendur stefnanda til heimtu þeirra 25. nóvember 2003. Krafðist stefndi þess jafnframt að staðfestur yrði veðréttur sinn í fé frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu, samtals 70.264.090 krónur. Dómur gekk í málinu fyrir Héraðsdómi Vesturlands 11. mars 2004 og voru kröfur stefnda teknar þar til greina, en þá lá fyrir samkvæmt málatilbúnaði hans að fjárhæðin, sem lögmannsþjónustan hafði í vörslum sínum, væri 45.205.934 krónur. Stefnandi áfrýjaði dóminum 24. maí 2004 og lauk málinu, sem var nr. 211/2004, með dómi Hæstaréttar 18. nóvember sama ár. Í honum var niðurstaða héraðsdóms staðfest um greiðsluskyldu stefnanda við stefnda, en um kröfu þess síðarnefnda um staðfestingu veðréttar sagði eftirfarandi í dóminum: „Þegar virt er framangreind yfirlýsing áfrýjanda og Flugleiða hf. 11. apríl 2003, sem einnig var undirrituð af stefnda, er ljóst að í henni er ekki tekið fram að um veðsamning sé að ræða og engin fjárkrafa er þar samkvæmt orðalagi hennar sett að veði, heldur lýsir áfrýjandi því yfir að allar greiðslur frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. fari inn á tiltekinn reikning hjá stefnda og að ekki sé heimilt að gera breytingu þar á nema með samþykki stefnda. Þótt hér sé um skýra viljayfirlýsingu að ræða af hálfu áfrýjanda, sem geymir skuldbindingu hans sem ekki verður breytt nema með samþykki stefnda, felur hún samkvæmt efni sínu ekki í sér að stefnda hafi verið veitt veð eða önnur tryggingarréttindi í hinum umræddu greiðslum frá Flugleiðum hf. Er því fallist á með áfrýjanda að hér sé ekki um veðsamning að ræða og verður krafa stefnda um staðfestingu veðréttar ekki tekin til greina.“

Á meðan framangreint mál var til meðferðar fyrir Hæstarétti höfðaði stefnandi nýtt mál á hendur stefnda 7. júlí 2004. Í héraðsdómsstefnu krafðist hann þess aðallega að viðurkennt yrði að stefndi ætti engan rétt til greiðslna að fjárhæð samtals 70.264.090 krónur í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu, en til vara að yfirlýsingunum tveimur frá 11. apríl 2003 yrði rift og stefnda gert að greiða stefnanda 4.482.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. júní 2003 til greiðsludags. Varakrafan var reist á 1. mgr. 139. gr., 141. gr. og 1. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en í héraðsdómsstefnu var án nánari skýringa tiltekið að hún væri um „endurgreiðslu á kr. 4.482.800 sem fram fór þ. 23.6.2003“. Í greinargerð, sem stefndi lagði fram í héraði 18. janúar 2005, var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að hann yrði sýknaður af kröfum stefnanda. Kom meðal annars fram í greinargerðinni að stefnandi hafi áður en hann „varð gjaldþrota“ greitt umræddar 4.482.800 krónur inn á skuld samkvæmt einum víxlanna fjögurra, sem var á gjalddaga 20. júní 2003. Héraðsdómur féllst á kröfur stefnda og vísaði málinu í heild sinni frá dómi. Stefnandi skaut úrskurðinum til Hæstaréttar 31. mars 2005 og lauk málinu, sem var nr. 138/2005, með dómi Hæstaréttar 14. apríl sama ár. Í honum var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins staðfest.

Stefnandi höfðaði nýtt mál á hendur stefnda og réttargæslustefnda 13. júlí 2005. Hafði stefnandi aðallega uppi kröfu um að stefndi yrði dæmdur til að greiða honum 49.688.734 krónur auk vaxta, að frádregnum fjórum innborgunum. Til vara var þess krafist að yfirlýsingu Óla Rúnars Ástþórssonar fh. stefnanda, Flugleiða hf. og stefnda frá 11. apríl 2003 og ávísun sama dag yrði rift, þ.m.t. öllum greiðslum sem inntar hafi verið af hendi á grundvelli þeirra skjala. Stefndi krafðist frávísunar málsins. Málinu var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 9. janúar 2006 og var hann ekki kærður til Hæstaréttar. 

Stefnandi hefur nú höfðað nýtt mál á hendur stefnda og réttargæslustefnda, með þeim dómkröfum sem hér að framan er takið. Með dómi héraðsdóms 14. júní sl. var kröfum stefnanda samkvæmt lið I. í stefnu vísað frá dómi. Rift var greiðslu réttargæslustefnda vegna stefnanda 30. desember 2004 að fjárhæð 31.877.448 krónur, sem bárust inn á reikning stefnanda hjá stefnda og stefndi varði til greiðslu á víxilskuldbindingum stefnanda samkvæmt fjórum viðskiptavíxlum samtals að fjárhæð 30.000.000 krónur. Þá var stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 27.515.781 krónu, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2005 til greiðsludags.

             Stefnandi skaut málinu til Hæstaréttar Íslands með kæru 20. júní 2006. Kært var ákvæði í dómi héraðsdóms um frávísun hinna tilteknu liða í kröfum stefnanda. Gerði stefnandi þær kröfur fyrir Hæstarétti að ákvæði dómsins yrði fellt úr gildi, dómurinn ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka umræddan kröfulið til efnismeðferðar. Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 28. ágúst 2006 í málinu nr. 354/2006 sagði að aðeins í einu af þeim þremur málum sem áður hafi verið rekin á milli aðilanna vegna víxlanna fjögurra, sem gefnir hafi verið út 11. apríl 2003, og yfirlýsinganna tveggja frá sama degi, hafi verið leyst úr dómkröfum aðilanna að efni til. Hafi það verið í málinu, sem lokið hafi með dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2004, en með honum hafi stefnanda verið gert að greiða stefnda skuld samkvæmt víxlunum, jafnframt því sem hafnað hafi verið kröfu stefnda um staðfestingu á veðrétti á grundvelli annarrar yfirlýsingarinnar í greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða hf., sem þá voru í vörslum LOGOS lögmannsþjónustu. Aðalkrafan og varakrafan sem stefnandi gerði í þessu máli í I. lið kröfugerðar, snéru sem áður sagði að greiðslu fjár, sem hann teldi sig hafa með réttu átt að fá frá greiðslumiðlun Flugleiða hf., en stefndi hefði fengið í hendur. Á þær kröfur hefði samkvæmt framansögðu ekki verið felldur efnisdómur í fyrri málum aðilanna. Hefði heldur ekki í áðurnefndum dómi Hæstaréttar verið tekin afstaða til málsástæðna, sem þar hefðu verið hafðar uppi, á þann hátt að jafnað yrði til þess að þegar hefði verið leyst úr þeim kröfum, sem stefnandi hefði uppi. Væru því ekki haldbær rök fyrir þeirri niðurstöðu héraðsdóms að vísa I. lið kröfugerðar stefnanda í þessu máli frá dómi vegna ákvæðis 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því yrði að fella úr gildi ákvæði dóms Héraðsdóms Vesturlands 14. júní 2006 um frávísun að þessu leyti og leggja fyrir héraðsdómara að taka I. lið kröfugerðar stefnanda til efnismeðferðar. Í dómi Hæstaréttar sagði jafnframt að í kærumálinu gæti aðeins komið til endurskoðunar sá þáttur umrædds dóms, sem vörðuðu frávísun á hluta dómkrafna stefnanda. Að því gættu stæði engin heimild til að ómerkja dóminn í heild sinni, svo sem stefnandi hefði krafist fyrir Hæstarétti. 

Stefnandi reisir aðalkröfu sína fyrst og fremst á því að samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli aðila frá 18. nóvember 2004 felist í nefndum yfirlýsingum frá 11. apríl 2003 hvorki veð né tryggingarréttindi. Að því leiði að stefndi njóti ekki stöðu gagnvart öðrum kröfuhöfum skv. 111. gr. gjaldþrotalaga, nr. 21/1991, en kröfur samkvæmt 109., 110. og 112. gr. laganna geti ekki efni sínu samkvæmt heldur komið til álita. Að því leiði að krafa stefnda gagnvart öðrum kröfuhöfum njóti stöðu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Stefnanda hafi verið veitt heimild til greiðslustöðvunar 14. júlí 2003. Hafi krafa stefnda þá fallið undir 1. mgr. 21. gr. laganna þar sem hún hafi ekki notið sérstakrar stöðu í skuldaröð gagnvart öðrum lánadrottnum. Stefndi hafi því ekki átt nein óbein eignarréttindi í greiðslunum heldur hafi hann leitt rétt sinn frá skuldaranum sjálfum og því ekki getað öðlast víðtækari ráðstöfunarheimildir en þeim er hann hafi leitt rétt sinn frá. Hafi stefndi því orðið að sæta réttaráhrifum greiðslustöðvunarinnar með sama hætti og skuldarinn sjálfur. Af því leiði að greiðslurnar hafi ekki mátt renna til stefnda í andstöðu við ákvæði gjaldþrotalaga og því síður í andstöðu við ákvarðanir aðstoðarmanns á greiðslustöðvunartíma.

Eftir að nauðasamningur hafi komist á milli stefnanda og kröfuhafa hans hafi einungis getað farið um uppgjör samkvæmt þeim samningi enda hafi stefndi verið bundinn af honum. Um það megi vísa til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991, en þar sé tæmandi talið hvaða kröfur nauðasamningurinn hafi ekki áhrif á og í 1. mgr. 28. gr. um að allar aðrar kröfur teljist vera samningskröfur. Hafi samningurinn réttaráhrif á kröfur stefnda með sama hætti og greini í 29. og 30. gr. laga nr. 21/1991. Skuli m.a. bent á ákvæði 3. og 4. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991, en af þeim ákvæðum leiði að stefndi verði að sæta sama hlutfalli og sömu gjalddögum og aðrir. Engu máli skipti hver réttindi manna séu samkvæmt samningum eða dómi, fullnusta fari samkvæmt nauðasamningi. Um það megi vísa til dóms Hæstaréttar frá árinu 2003, bls. 2038.

Af þessu leiði í fyrsta lagi að þar sem heimild til greiðslustöðvunar hafi verið veitt, hafi skuldari misst allar heimildir til að greiða skuldir sínar með þeim réttaráhrifum að öll fyrirfram gefin loforð hafi einnig fallið undir niðurfellingu á ráðstöfunarheimild. Hafi borið að ráðstafa greiðslunni til samræmis við fyrirmæli aðstoðarmanns. Það hafi ekki verið gert. Í öðru lagi, hvað sem hinu fyrrnefnda líði, hafi borið, eftir að nauðasamningur hafi komist á, að gera skuldina upp samkvæmt honum, enda hafi stefndi verið bundinn af honum. Ráðstöfun fjármuna til hans hafi því verið í andstöðu við gerðan samning og brot gagnvart öðrum almennum kröfuhöfum.

Verði ekki fallist á það sem hér hafi verið rakið sé á því byggt að í efni hinna umdeildu skuldbindinga hafi eingöngu falist að tilteknar greiðslur skyldu renna inn á tiltekinn tékkareikning og að ekki verði lögð dýpri merking í ávísanir út af reikningnum en ráðið verði samkvæmt orðanna hljóðan. Sæti þær því afturköllun eins og hverjar aðrar ávísanir, en þær hafi verið afturkallaðar af stefnanda 17. júlí 2003, sbr. dskj. nr. 3, bls. 140, enda hafi framkvæmdastjóri ekki haft umboð til víðtækari ráðstöfun fjármuna stefnanda.

Um II. lið kröfugerðar er í stefnu vísað til 139. gr., 141. gr. og 137. gr. laga nr. 21/1991.

Að því varði tölulega kröfugerð sé byggt á eftirfarandi útlistun. Úr greiðslumiðlun Flugleiða hf. hafi stefnandi átt að fá eftirtaldar greiðslur:

-                             24. júlí 2003, samtals 20.253.977 krónur, sem ekki hafi verið greiddar stefnanda.

-                             22. ágúst 2003, samtals 26.718.056 krónur, sem ekki hafi verið greiddar stefnanda.

-                             2. október 2003, samtals 23.292.057 krónur, sem ekki hafi verið greiddar stefnanda.

Stefnandi hafi 7. október 2003 af þessum fjármunum frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. fengið greiddar 25.058.156 krónur. Samtals geri þetta 45.205.934 krónur. Skuld stefnanda samkvæmt umræddum víxli hafi 9. janúar 2004 staðið í 27.285.618 krónum, sbr. dskj. nr. 17. Samkvæmt nauðasamningi hafi borið að greiða 4% þeirrar fjárhæðar 7. maí 2004, eða 1.091.424 krónur og aftur þann 31. desember 2004 og loks 31. desember 2005, sbr. dskj. nr. 6. Stefndi hafi greitt stefnanda 10. janúar 2005, 16.213.410 krónur.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991 falli allar kröfur í gjalddaga þegar nauðasamningur komist á og miðist fjárhæð hennar við úrskurðardag, sbr. 3. mgr. Eins og að framan sé rakið sé stefndi bundinn af nauðasamningnum og meðal þeirra er samningurinn taki til. Kröfur um annað en höfuðstól og dráttarvexti séu eftirstæðar og verði ekki fullnustaðar samkvæmt nauðasamningi, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 114. gr. laganna og til hliðsjónar 1. mgr. 22. gr. laganna.

Að því er varði dráttarvexti, sé á því byggt að stefnandi eigi rétt til dráttarvaxta úr hendi stefnda frá þeim tíma er honum hafi borið að fá greiðsluna í sínar hendur. Stefndi hafi áformað að tileinka sér fjármuni stefnanda með ólögmætum hætti upp í víxilskuld þrátt fyrir ákvæði laga um greiðslustöðvun. Hann hafi því með athöfnum sínum valdið því að stefnandi hafi ekki fengið greiðsluna innta af hendi á réttum gjalddaga. Megi jafna aðgerðum stefnda við það að hann hafi fengið peningana í hendur en neitað að skila þeim. Hafi stefnandi með bréfaskriftum sínum til réttargæslustefnda eða lögmanna hans hindrað að ákvæði gjaldþrotalaga um greiðslustöðvun yrðu brotin. Á meðan stefnandi hafi orðið af þessum fjárhæðum hafi dráttarvextir lagst á aðrar skuldir hans.

Verði ekki fallist á dráttarvexti á þeim grunni sé byggt á því að hegðun stefnda hafi verið saknæm og ólögmæt, enda hafi hann lagt sig fram um að ákvæði gjaldþrotalaga, annars vegar um greiðslustöðvun og hins vegar um nauðasamning, yrðu brotin og kröfuhöfum mismunað með þeim hætti sem lýst hafi verið. Af almennu skaðabótareglunni leiði að menn baki sér bótaskyldu með slíku háttalagi. Dráttarvextir séu staðlaðar skaðabætur, óháðar því hvort tjón sé meira eða minna. Beri stefnanda því dráttarvexti á meðan hann hafi orðið af fjármunum sínum af völdum stefnda, sbr. m.a. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Verði ekki fallist á þessi sjónarmið stefnanda eigi hann rétt á að fá a.m.k. greiddar umræddar 45.205.934 krónur auk áfallinna almennra vaxta, samtals 48.090.708 krónur, auk dráttarvaxta til greiðsludags.

Stefnandi lýti svo á að þar sem hann hafi ekki fengið umrædda peninga sem honum hafi borið eigi hann rétt til dráttarvaxta. Að því leyti sem stefndi verði sýknaður af slíkri kröfu hljóti hún að beinast að réttargæslustefnda. Þyki því rétt að gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum að í málinu. Réttargæslustefndi sé aðili að framlögðum samningi um aðild stefnda að greiðslumiðlun Flugleiða hf. á dskj. nr. 3, bls. 72. Hann beri nú samkvæmt þjóðskrá nafnið FL-Group hf. 

             Stefndi byggir kröfu sína um sýknu af fjárkröfu stefnanda aðallega á því að stefnandi eigi enga fjárkröfu á hendur stefnda og hafi aldrei átt. Krafa stefnanda sé endurgreiðslukrafa að höfuðstól 45.205.934 krónur, en á ákveðnu tímabili verði hún samkvæmt kröfugerð stefnanda mun hærri eða 70.264.090 krónur. Fjárkrafa stefnanda virðist byggð á því að honum hafi borið ákveðnar greiðslur frá réttargæslustefnda árið 2003 en þar sem stefnandi hafi ekki fengið þær hafi það með einhverjum óskilgreindum hætti leitt til þess að stefndi eigi að standa stefnanda skil á þessum greiðslum. Stefnda sé útilokað að sjá hvernig það geti gerst með þeim hætti að stefnandi eignist fjárkröfu á hendur stefnda. Eins og fram sé komið hafi stefndi samtals fengið greitt frá réttargæslustefnda 36.360.508 krónur vegna hinna umdeildu víxla. Jafnvel þó svo gengið verði út frá því að stefnandi eigi endurgreiðslukröfu á hendur stefna sé útilokað að átta sig á hvernig hún geti orðið mun hærri en sú fjárhæð sem stefnandi hafi sannanlega fengið frá réttargæslustefnda. Þá séu hvorki í stefnu né í gögnum málsins leidd rök að því hvernig fjárkrafa stefnanda sé fundin út. Fjárkrafan sé því algerlega órökstudd, en ástæða þess sé líklega sú að krafan sé ekki til og hafi aldrei verið.

             Stefnandi geri kröfu um dráttarvexti á höfuðstól sem fari í 70.264.090 krónur, þrátt fyrir að stefndi hafi sannanlega ekki fengið nema 36.360.508 krónur frá réttargæslustefnda. Alls ekki sé ljóst á hverju sú kröfugerð byggist né hvers vegna krafan sé sett fram með þeim hætti.

             Eins og fram sé komið hafi verið dæmt um greiðsluskyldu stefnanda á umræddum víxlum og sé krafan því í raun endurgreiðslukrafa á skuld sem þegar hafi verið dæmt um að honum hafi borið að greiða. Þar sem stefnanda hafi borið að greiða stefnda þá skuld geti stefnandi ekki átt endurgreiðslukröfu í slíku tilfelli nema þegar eitthvað hafi gerst í millitíðinni sem geti verið grundvöllur slíkrar endurgreiðslukröfu. Þær aðstæður séu hins vegar ekki uppi í málinu.

             Þá geti stefnandi ekki átt endurgreiðslukröfu á hendur stefnda fyrr en einhverjum greiðslum frá stefnanda til stefnda hafi verið rift og þá um leið þeim yfirlýsingum sem þær greiðslur byggist á. Endurgreiðslukrafan standist því ekki heldur að því leyti en stefnandi geri aðeins riftunarkröfu verði ekki fallist á endurgreiðslukröfuna þannig að í raun sé riftunarkrafa aðeins varakrafa. Verði stefndi sýknaður af aðalkröfunni, þ.e. fjárkröfunni, en fallist á varakröfu um riftun, hafi stefnandi ekki þar með eignast fjárkröfu á hendur stefnda.

             Eins og fram sé komið hafi Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að í umræddum yfirlýsingum frá 11. apríl 2003 hafi ekki falist veðsetning en þar hafi hins vegar verið um skuldbindandi yfirlýsingu að hálfu stefnanda að ræða. Verði því að líta svo á að þar hafi verið um bindandi og endanlegt kröfuframsal að ræða af hálfu stefnanda. Í því hafi falist að greiðslur frá greiðslumiðlun réttargæslustefnda skyldu renna inn á tilgreindan reikning stefnanda hjá stefnda. Því fyrirkomulagi hafi ekki verið hægt að breyta nema með samþykki stefnda og stefnanda. Annars vegar hafi verið um að ræða yfirlýsingu þar sem allir aðilar málsins hafi ritað undir en hins vegar ,,ávísun” sem stefnandi og stefndi hafi undirritað þar sem stefnda hafi verið heimilað að ráðstafa ákveðnum greiðslum af tilgreindum reikningi stefnanda hjá stefnda. Með því og fyrrgreindri yfirlýsingu hafi stefndi fengið fullan ráðstöfunarrétt á innistæðu stefnanda á reikningnum til að greiða hina umdeildu víxla. Stefndi telji að því fyrirkomulagi hafi stefnanda ekki verið heimilt að breyta nema með samþykki stefnda.

             Heimild stefnanda til greiðslustöðvunar geti ekki breytt því að stefnandi hafi verið bundinn af fyrrgreindum yfirlýsingum og ráðstöfunum á grundvelli þeirra. Hafi skuldari gert skuldbindandi samning um framsal á kröfum, áður en hann hafi fengið heimild til greiðslustöðvunar, haldi þeir gildi sínu að öllu leyti þrátt fyrir greiðslustöðvunina. Greiðslustöðvunin hafi aðallega þá þýðingu að skuldari megi ekki greiða skuldir sínar á greiðslustöðvunartímabili. Þar sem stefnandi hafi ekki getað afturkallað umrædda ,,ávísun” geti aðstoðarmaður á greiðslustöðvunartímabili ekki gert það heldur.

             Stefndi mótmæli því að mjög takmörkuð umfjöllun stefnanda í stefnu um umboð fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnanda hafi einhverja þýðingu í málinu. Eins og fram sé komið hafi Hæstiréttur Íslands kveðið upp dóm um greiðsluskyldu stefnanda á umræddum víxlum og einnig staðfest að fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda hafi haft umboð til að rita undir þá löggerninga sem um sé deilt í málinu og að þeir hafi haft að geyma skuldbindandi yfirlýsingu af hálfu stefnanda. Að reyna enn og aftur að koma að hinum ætlaða umboðsskorti hafi enga þýðingu í málinu. Hafi það allt að einu þýðingu byggi stefndi á því að fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda hafi verið innan prókúruumboðs síns þegar hann hafi ritað undir umræddar yfirlýsingar og þá hafi hann einnig ritað undir þær í skjóli stöðuumboðs síns. Framkvæmdastjórinn fyrrverandi hafi því haft fullt og ótakmarkað umboð til að rita undir yfirlýsingarnar eins og víxlana.

              Varakröfu um lækkun fjárkröfu stefnanda byggi stefndi á því að stefnandi hafi a.m.k. engin rök leitt að endurgreiðslukröfu sinni hvað varði 4.482.800 krónur sem stefndi hafi fengið greiddar 23. júní 2003. Sú greiðsla hafi verið innt af hendi fyrir frestdag og stefnandi hafi engin rök fært fram til stuðnings fjárkröfu sinni né riftunarkröfu að því leyti.

Að því er varði kröfu um sýknu af riftunarkröfu taki stefndi fram að stefnandi hafi ekki fært fram nein rök til stuðnings þeirri kröfu.

             Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt. Stefnandi geri kröfu til þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti á allt að 70.264.090 krónur, þrátt fyrir að það sé ljóst að stefndi hafi aldrei fengið nema samtals 36.360.508 krónur frá réttargæslustefnda til greiðslu á hinum umdeildu víxlum. Hvernig stefnandi ætli að fá dráttarvexti á mun hærri fjárhæð úr hendi stefnda sé útilokað að átta sig á. Þá sé vakin athygli á því að hluti þeirrar fjárhæðar sem stefnandi hafi tekið út af reikningi sínum hjá stefnda 10. janúar 2005, hafi verið vextir sem réttargæslustefndi hafi greitt vegna þess að fjármunir hafi verið í hans vörslu um skeið. Stefnandi hafi því nú þegar fengið vexti á hluta þeirrar fjárhæðar sem hann sé að krefja stefnda um í máli þessu.

             Svo virðist sem dráttarvaxtakrafa stefnanda byggi a.m.k. að hluta til á skaðabótasjónarmiði gagnvart réttargæslustefnda, en það geti ekki átt við gagnvart stefnda. Stefndi geti aldrei borið ábyrgð á framkomu og gerningum réttargæslustefnda.

             Stefndi vísar til þeirrar almennu reglu að sá sem haldi fram kröfu verði að sanna tilvist hennar og að hún hafi í raun verið til. Þá vísar stefndi til almennra reglna um endurkröfu, en stefndi verði að sýna fram á að hann eigi slíka kröfu. Vísað er til XX. kafla laga nr. 21/1991 og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.  

             Réttargæslustefndi byggir á því að því sé hafnað að stefnandi geti á nokkrum tíma átt kröfu til dráttarvaxta, úr hendi réttargæslustefnda, frá einhverjum ótilgreindum tíma, en málatilbúnaður stefnanda sé mjög óskýr um það. Raunverulegur ágreiningur hafi verið á milli stefnanda og stefnda um rétt til tiltekinna fjármuna og hafi niðurstaða um það ekki legið fyrir fyrr en með dómi Hæstaréttar Íslands 18. nóvember 2004. Sá dráttur sem orðið hafi á að niðurstaða fengist hafi ekki á nokkurn hátt verið réttargæslustefnda að kenna, enda hafi hann ávallt hvatt til þess að aðgerðir hæfust til lausnar á þrætunni. Sá dráttur hafi eingöngu verið stefnanda að kenna og í raun óskiljanlegt hvers vegna hann hafi ekki hafist handa þegar í stað um aðgerðir til að fá skorið úr ágreiningi við stefnda um rétt til peninganna. Sé með öllu óeðlilegt að stefnandi geti nú gert kröfu um dráttarvexti allan þann tíma sem hann hafi haldið að sér höndum um aðgerðir. Sé jafnframt í hæsta máta óeðlilegt að fjármunirnir hafi getað ávaxtast á dráttarvöxtum á meðan ágreiningurinn hafi verið til lykta leiddur. Væri um slíkt að ræða, sé um óeðlilega og ósanngjarna ávöxtun fjármuna að ræða sem auðvelt sé að ná fram með því að draga að ástæðulausu að hefjast handa um aðgerðir til úrlausnar. Með því væri sá aðili sem peningana ætti að hagnast með óeðlilegum hætti. Loks sé rétt að benda á að stefndi, sem Hæstiréttur hafi staðfest að ætti rétt til fjármunanna, hafi ekki sett fram neina kröfu um dráttarvexti fyrir þann tíma, þar til ágreiningur hafi verið til lykta leiddur.

             Niðurstaða:

Svo sem fyrr var rakið gaf stefnandi 11. apríl 2003 út fjóra víxla, sem keyptir voru af stefnda til framlengingar á eldri víxli. Að þessari ráðstöfun stóð þáverandi framkvæmdastjóri stefnanda. Sama dag og fyrrnefndu víxlarnir voru gefnir út var undirrituð yfirlýsing stefnanda og Flugleiða hf. um að allar greiðslur til hans frá greiðslumiðlun Flugleiða hf. frá og með 15. apríl 2003 skyldu lagðar inn á bankareikning hjá stefnda. Að auki undirrituðu aðilar málsins aðra yfirlýsingu sama dag, þar sem stefnandi veitti stefnda heimild til að taka út af áðurnefndum bankareikningi greiðslur tiltekinnar fjárhæðar á tilgreindum dögum, sem svöruðu til fjárhæðar og gjalddaga víxlanna fjögurra.

Héraðsdómi barst 14. júlí 2003 beiðni um heimild stefnanda til greiðslustöðvunar. Var sú heimild veitt sama dag og gilti til 1. ágúst 2003. Greiðslustöðvun var framlengd fjórum sinnum eða allt til 13. janúar 2004. Með úrskurði dómsins 8. janúar 2004 var stefnanda veitt heimild til að leita nauðasamninga við lánadrottna á grundvelli ákvæða 3. þáttar laga nr. 21/1991. Loks var með úrskurði héraðsdóms 29. apríl 2004 nauðasamningur stefnanda staðfestur með því meginefni að samningskröfur á hendur honum yrðu greiddar að 20 hundraðshlutum. Með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 21/1991 telst frestdagur vera 14. júlí 2003.

Eftir að stefnandi fékk upphaflega heimild til greiðslustöðvunar, eða 17. júlí 2003, tilkynnti hann stefnda að hann teldi sig af nánar tilgreindum ástæðum óbundinn af þeirri ráðstöfun framkvæmdastjóra síns að hafa gefið út fyrrnefnda fjóra víxla, svo og af yfirlýsingunum tveimur frá 11. apríl sama ár. Hann tilkynnti jafnframt Flugleiðum hf. 17. júlí 2003 um þessa afstöðu sína til yfirlýsinganna og krafðist þess að fé frá greiðslumiðlun félagsins yrði ekki greitt stefnda, heldur beint til sín.

Flugleiðir hf. tilkynntu málsaðilum 17. júlí 2003 að fé til stefnanda úr greiðslumiðlun félagsins yrði lagt á vörslureikning hjá LOGOS lögmannsþjónustu þar til leyst yrði úr ágreiningi aðila, er þá var uppi, um hvert greiðslur úr greiðslumiðluninni skyldu renna. Með dómi Hæstaréttar Íslands 18. nóvember 2004 í málinu nr. 211/2004 var dæmt um skyldu stefnanda til að greiða stefnda umrædda víxla. Kröfu um staðfestingu veðréttar var hins vegar hafnað.

LOGOS lögmannsþjónustu beindi bréfi 29. desember 2004 til lögmanna málsaðila. Í bréfinu var þeirri skoðun lýst að það leiddi af dómi Hæstaréttar frá 18. nóvember 2004 að yfirlýsing stefnanda og Flugleiða hf. frá 11. apríl 2003 væri gild. Yrði því fé, sem lögmannsþjónustan hafi tekið í sínar vörslur vegna ágreinings aðila, lagt á þann reikning stefnanda hjá stefnda, sem getið væri í yfirlýsingunni. Um væri að ræða höfuðstól að fjárhæð 45.535.800 krónur og 2.554.908 krónur í vexti, eða samtals 48.090.708 krónur. Greiðsla þessi barst inn á reikning stefnanda hjá stefnda 30. desember 2004.

Ekki fær staðist staðhæfing stefnda um að stefnandi hafi framselt kröfu sína með yfirlýsingunni 11. apríl 2003, sem eigi að leiða til þess að reglum laga nr. 21/1991 um riftun verði ekki beitt gagnvart greiðslunum. Hefur stefndi engu öðru teflt fram í þessum efnum en títtnefndri yfirlýsingu. Í henni er ekki fólgið kröfuframsal, og er hún einungis yfirlýsing um inn á hvaða reikning stefnanda hjá stefnda tilgreindar greiðslur skuli renna.

Reglum laga nr. 21/1991 er ætlað að stuðla að jafnræði kröfuhafa við gjaldþrot skuldara eða þegar nauðasamningur kemst á. Er kröfum skipað í flokka eftir rétthæð í því sambandi. Krafa stefnda á grundvelli víxilskuldbindinga stefnanda hefði verið skipað í réttindaröð eftir 113. gr. laga nr. 21/1991 ef til gjaldþrotaskipta á búi stefnanda hefði komið. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laganna bar stefnda á greiðslustöðvunartímabili að sæta áhrifum þessa í uppgjöri við stefnanda. Samkvæmt nauðasamningi frá 29. apríl 2004 ber stefnanda að greiða 20% af samningskröfum sínum. Skal hann greiða 4% krafna við staðfestingu nauðasamnings, 4% þegar greiðslur berast frá greiðslumiðlun Flugleiða hf., 4% í desember 2004, önnur 4% í desember 2005 og loks síðustu 4% í júlí 2006. Greiðslur frá stefnanda sem bárust stefnda úr greiðslumiðlun Flugleiða hf. 30. desember 2004 bárust stefnda eftir frestdag. Í ljósi þess og þar sem nauðasamningur stefnanda var staðfestur 29. apríl 2004, sem batt stefnda eftir ákvæðum 60. gr. laga nr. 21/1991, verður miðað við að stefnda hafi borið að miða við hundraðshluta samkvæmt nauðasamningi í uppgjöri við stefnanda. Verður hann því dæmdur til að endurgreiða stefnanda mismun þar á.

 Verulegt ósamræmi er í málsgrundvelli aðila að því er varðar greiðslur þær er bárust inn á reikning stefnanda hjá stefnda úr greiðslumiðlun Flugleiða hf. Tilteknar greiðslur úr greiðslumiðluninni, sem annars hefðu runnið beint til stefnanda, runnu inn á bankareikning hans hjá stefnda á grundvelli yfirlýsinganna frá 11. apríl 2003. Stefndi miðar við að á grundvelli lögmætrar ákvörðunar fyrrum framkvæmdastjóra stefnanda hafi þessum fjármunum verið varið til að greiða skuld samkvæmt hinum umdeildu víxlum. Stefnandi hafi hins vegar sjálfur haft ráðstöfunarvald yfir þeim fjármunum er ekki hafi verið varið til greiðslu skuldar stefnanda, enda hafi stefnandi sjálfur m.a. tekið fé út af eigin reikningi í sparisjóðnum. Stefndi hafi því aldrei ,,skuldað” stefnanda neitt. Stefnandi lítur hins vegar svo á að með því að féð rann þá leið er hér var rakið, án þess að hann fengi nokkru um það ráðið, hafi stefndi hindrað ráðstöfun stefnanda yfir þeim eða jafnvel ,,tileinkað sér” alla þá fjármuni er runnu inn á reikning stefnanda hjá stefnda. Endurspeglar kröfugerðin og vaxtakrafa þessa afstöðu stefnanda.

Ljóst er að með dómkröfum sínum endurkrefur stefnandi stefnda um þrjár greiðslur á tímabilinu 24. júlí 2003 til 2. september sama ár, sem LOGOS lögmannsþjónusta tók ákvörðun um að greiða ekki öðrum hvorum málsaðila á meðan ágreiningur var um hvert greiðslurnar skyldu renna. Frá þessari fjárhæð dregur stefnandi greiðslu sem LOGOS lögmannsþjónusta greiddi stefnanda 7. september 2003. Dráttarvextir reiknast af þessum fjárhæðum miðað við þá daga sem greiðslurnar bárust inn á reikning hjá LOGOS lögmannsþjónustu. Verði ekki fallist á þetta endurkrefur stefnandi stefnda um 48.090.708 krónur, sem er fjárhæð sem LOGOS lögmannsþjónusta greiddi inn á reikning stefnanda hjá stefnda 30. desember 2004. Í því tilviki er gerð krafa um að dráttarvextir leggist á fjárhæðina miðað við þann dag.  Frá þessum fjárhæðum dregur stefnandi í öllum tilvikum síðan þær greiðslur sem nauðasamningur hans hefði miðað við að stefndi fengi greitt eftir og er þá miðað við stefnda hafi borið að fá hvert sinn greitt 4% af kröfufjárhæð sinni og við útreikning þeirrar fjárhæðar miðað við stöðu skuldar stefnanda við stefnda 9. janúar 2004. Er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi gert nægjanlega grein fyrir þeim fjárhæðum er hann krefst endurgreiðslu á.

Stefndi gerði tilkall til fjármuna stefnanda úr greiðslumiðlun Flugleiða hf. vegna víxilskuldbindinganna. Stefndi hafði engan ráðstöfunarrétt yfir greiðslunum og verður því ekki gerður ábyrgur fyrir því hvernig réttargæslustefndi hagaði greiðslunum. Standa því ekki lagaheimildir til að fallast á með stefnanda hvernig fjárhæð kröfugerðar hans í aðalkröfu er sett fram. Varakrafa hans fær heldur ekki staðist, þar sem hann í því tilviki endurkrefur stefnda m.a. um fjárhæð er stefnandi tók sjálfur út af reikningnum 10. janúar 2005.

Raunveruleg yfirfærsla fjármuna tengd sakarefninu hefur átt sér stað með þeim hætti að stefndi fékk greiddar 4.482.800 krónur 23. júní 2006 vegna víxilskuldbindinga stefnanda. Stefnandi endurkrefur stefnda ekki lengur um þá fjárhæð, en gerði það í fyrri málaferlum sínum. Næstu fjármunir er fara á milli aðila er þegar LOGOS lögmannsþjónusta greiddi 48.090.708 krónur inn á reikning stefnda hjá stefnanda 30. desember 2004. Var þar um að ræða greiðslur sem stefnandi átti að fá úr greiðslumiðlun Flugleiða hf. á tilteknum gjalddögum í júlí, ágúst og október 2003, en hélt eftir á meðan ágreiningur var uppi um hvert greiðslurnar skyldu renna. Samanstóð fjárhæðin af 45.535.800 krónum sem var höfuðstóll og 2.554.908 krónum sem voru vextir. Stefndi tók út af þessum reikningi sama dag 31.877.447 krónur og varði til greiðslu á skuld stefnanda við stefnda. Eftir stóðu þá á reikningi 16.213.410 krónur. Stefnandi sjálfur tók út af þessum reikningi 16.213.000 krónur þann 10. janúar 2005. Þar sem stefndi hefur einungis tekið til sín 31.877.447 krónur af þeim fjármunum sem færðir voru inn á reikning stefnanda hjá stefnda 30. desember 2004, er einungis unnt að fallast á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Þó svo stefnandi hafi ekki lagt mál sitt upp með þessum hætti, þykir dóminum engu að síður unnt að leysa úr sakarefninu á þessum grundvelli, en þá er haft í huga að máli þessu hefur áður í tvígang verið vísað frá dómi á grundvelli vanreifaðrar eða óljósrar kröfugerðar.  

Endurgreiðsla í málinu verður miðuð við þá greiðslu er stefndi tók til sín 30. desember 2004 til fullnustu á víxilskuldbindingum samtals að fjárhæð 31.877.447 krónur, sbr. dskj. nr. 20. Frá 31.877.447 krónum verður dregin fjárhæð sem stefnda hefði borið á grundvelli nauðasamningsins frá 29. apríl 2004. Í því efni þykir unnt að leggja til grundvallar útreikning stefnanda, en hann hefur ekki sætt sérstökum tölulegum aðfinnslum stefnda, þó svo hann mótmæli málatilbúnaði stefnanda í heild sinni svo sem rakið hefur verið. Verður miðað við að stefnda hafi borið að fá 1.091.424 krónur á fimm gjalddögum, en fimmti og síðasti gjalddaginn í júlí 2006 er nú kominn. Frá 31.877.477 verða því dregnar nauðasamningsgreiðslur að fjárhæð 5.457.120 krónur. Samkvæmt því verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 26.420.357 krónur. 

Stefnandi sendi stefnda fjölmörg bréf varðandi ágreining um greiðslur þær sem hér er dæmt um. Mátti stefnanda því vera ljóst, eftir að nauðasamningur hafði öðlast réttaráhrif, að hann átti einungis tilkall til 20% hlutar af þeirri kröfufjárhæð er hann átti á hendur stefnanda, skipt niður miðað við tiltekna gjalddaga. Eftir að fjármunir höfðu borist inn á reikning stefnanda hjá stefnda 30. desember 2004 bar honum að halda eftir greiðslum í samræmi við nauðasamning en standa stefnanda skil á mismuninum, þ. á m. tveim síðustu greiðslunum sem stefnanda bar að inna af hendi á gjalddögum í desember 2005 og júlí 2006. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 er því rétt að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti af fjárhæðinni frá og með 1. febrúar 2005, með þeim hætti er í dómsorði er nánar kveðið á um. 

Rétt þykir að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefnda Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður og réttargæslustefnda Arnar Þór Jónsson héraðsdómslögmaður.

             Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Sparisjóður Mýrasýslu, greiði stefnanda, Kaupfélagi Árnesinga svf., 26.420.357 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 28.603.205 krónum frá 1. febrúar 2005 til 1. febrúar 2006, af 27.511.781 krónu frá þeim degi til 1. september 2006, en af 26.420.357 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.