Hæstiréttur íslands
Mál nr. 785/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Lögheimili til bráðabirgða
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 14. desember 2015 |
|
Nr. 785/2015.
|
M (Stefán Karl Kristjánsson hrl.) gegn K (Guðbjarni Eggertsson hrl.) |
Kærumál. Börn. Lögheimili til bráðabirgða. Frávísun frá Hæstarétti.
M kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu K meðal annars um að lögheimili sonar þeirra yrði til bráðabirgða hjá henni. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í kæru til réttarins hefði M aðeins krafist ógildingar hins kærða úrskurðar. Hann hefði aftur á móti ekki byggt á því að annmarkar væru á úrskurðinum, heldur leitaðist hann eftir efnislegri niðurstöðu meðal annars um að lögheimili sonar hans yrði til bráðabirgða hjá honum. Var kæra M að þessu leyti talin í ósamræmi við b. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá hefði skort á innbyrðis samræmi og samhengi kröfugerðar M eins og hún hefði verið sett fram fyrir héraðsdómi og síðan í kæru til Hæstaréttar. Úr þessum annmörkum yrði ekki bætt hvað sem liði kröfum M eins og þeim var gerð skil í greinargerð til réttarins. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 3. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. nóvember 2015, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að lögheimili drengsins A verði hjá henni til bráðabirgða og kveðið á um nánar tiltekinn umgengnisrétt sóknaraðila og drengsins og að sóknaraðili greiði einfalt meðlag með drengnum þar til endanleg ákvörðun um forsjá liggi fyrir í máli aðila. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að staðfest verði að lögheimili drengsins verði hjá honum og að „drengurinn skuli vera hjá sóknaraðila á meðan mál aðila er til lykta leitt“, en til vara að mælt verði fyrir um umgengni sóknaraðila við drenginn. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.
Í kæru sóknaraðila sagði meðal annars svo: „Fyrir hönd [M] er þess krafist að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. E-[...]/2015, K gegn M, sem uppkveðinn var 6. nóvember verði ógiltur með dómi.“ Þá var krafist kærumálskostnaðar. Að öðru leyti hafði kæran aðeins að geyma umfjöllun undir fyrirsögninni „Rök og heimildir“. Í greinargerð til Hæstaréttar hafa dómkröfur sóknaraðila hins vegar tekið á sig þá mynd sem grein er gerð fyrir hér að framan.
Í 5. mgr. 35. gr. barnalaga er að finna ákvæði um málskot úrskurða, sem kveðnir eru upp samkvæmt lagagreininni og taka meðal annars til úrskurða til bráðabirgða um lögheimili. Er á nefndum stað tekið fram að um málskot slíkra úrskurða fari samkvæmt almennum reglum. Í 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eru ákvæði um hvað greina skuli í kæru til Hæstaréttar. Þar segir að tilgreina skuli þá dómsathöfn, sem kærð sé, kröfu um breytingu á henni og þær ástæður, sem kæra sé reist á. Svo sem fram er komið gerði sóknaraðili í kæru til Hæstaréttar aðeins kröfu um ógildingu hins kærða úrskurðar. Sóknaraðili byggir aftur á móti ekki á því að annmarkar hafi verið á úrskurðinum, heldur leitast hann eftir efnislegri niðurstöðu meðal annars um að lögheimili sonar hans verði til bráðabirgða hjá honum. Krafa í kæru sóknaraðila gat því ekki leitt til þeirra efnislegu lykta í þessum þætti málsins sem hann stefndi að. Er kæra sóknaraðila að þessu leyti í ósamræmi við b. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991. Skortir þess utan á innbyrðis samræmi og samhengi kröfugerðar sóknaraðila eins og hún var sett fram undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi og síðan í kæru til Hæstaréttar. Úr þessum annmörkum verður ekki bætt hvað sem líður kröfum sóknaraðila eins og þeim eru gerð skil í greinargerð til Hæstaréttar. Með vísan til þessa verður málinu vísað frá Hæstarétti, sbr. til hliðsjónar meðal annars dóma réttarins 7. desember 2010 í máli nr. 656/2010 og 2. september 2011 í málum nr. 377/2011 og 388/2011.
Það athugast að sóknaraðili afhenti réttinum málsgögn sem eru í verulegu ósamræmi við reglur nr. 677/2015 um kærumálsgögn í einkamálum, sem settar eru samkvæmt 6. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 13. gr. laga nr. 78/2015. Er það aðfinnsluvert.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. nóvember 2015.
Mál þetta, sem var höfðað 1. júní 2015 var tekið til úrskurðar 20. október 2015. Stefnandi er K, [...], [...]. Stefndi er M, [...], [...].
Málið höfðaði stefnandi í því skyni að henni yrði einni dæmd forsjá barnsins A, kt. [...], og að dómari úrskurði að umgengni barnsins við stefnda verði með eftirfarandi hætti:
1) Jól og áramót: Að barnið verði hjá stefnanda og stefnda til skiptis yfir jól og hjá föður í fyrsta sinn jólin 2015 og um áramót 2015 2016. Umgengni föður hefjist 15. desember og ljúki 5. janúar.
2) Páskar: Að barnið dvelji hjá föður í tvær vikum yfir páska á ári hverju.
3) Sumarleyfi: Að barnið dvelji hjá föður í 6 vikur samfleytt yfir sumartímann. Sumarið 2015 dvelji barnið hjá föður í sex vikur frá 15. júlí en næsta ár í sex vikur fram til 15. júlí og eftir það til skiptis fyrri og síðari hluta sumars.
4) Haust- og vorfrí barns: Að barnið dvelji hjá föður sínum í haust og vorfríum.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda einfalt meðlag mánaðarlega.
Til vara krafðist stefnandi þess að stefnanda og stefnda verði dæmd áframhaldandi sameiginleg forsjá barnsins A en að lögheimili þess verði hjá stefnanda í [...]. Einnig að regluleg umgengni barnsins við föður verði á þann hátt sem lýst er í aðalkröfu og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda einfalt meðlag mánaðarlega.
Stefnandi gerði jafnframt kröfu um bráðabirgðaúrskurð um forsjá, lögheimili, meðlag og umgengni. Nánar tiltekið að dómari úrskurði að stefnandi fari ein með forsjá barnsins og að lögheimili þess skuli til bráðabirgða vera hjá stefnanda í [...] meðan ágreiningur aðila er óleystur fyrir dómstólum og að stefnda verði gert að greiða stefnanda einfalt meðlag með barninu. Einnig var þess krafist að dómari úrskurði um inntak umgengni stefnda við barnið meðan ágreiningurinn er óleystur og að umgengni skuli verða í [...] og undir eftirliti.
Stefnandi gerði einnig kröfu um málskostnað.
Stefndi krafðist sýknu af öllum kröfur stefnanda í greinargerð sinni og að stefnda verði einum falin forsjá barnsins og að ákveðið verði með dómi hvernig umgengni stefnanda við drenginn skuli háttað. Þá var þess krafist að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda einfalt meðlag með barninu mánaðarlega til fulls 18 ára aldurs hans. Til vara gerði stefndi þá kröfu að forsjá verði áfram sameiginleg en að lögheimili barnsins skuli áfram skráð hjá stefnda. Þess var einnig krafist að dómur ákveði hvernig umgengni stefnanda við barnið verði háttað og að stefnandi greiði einfalt meðlag með barninu mánaðarlega til fulls 18 ára aldurs þess. Til þrautavara var þess krafist, verði stefnanda falin forsjá A, að kveðið verði á um umgengni stefnda við drenginn. Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Hvað varðar kröfu stefnanda um bráðabirgðaforsjá, lögheimili og meðlag er þess krafist að þeim verði hafnað. Þá er þess krafist að dómari úrskurði um að meðan mál þetta er rekið fyrir dómi skuli forsjá vera sameiginleg en barnið dvelja á lögheimili sínu og að dómari úrskurði um inntak umgengni stefnanda við barnið meðan mál er til lykta leitt. Til vara er þess krafist að dómur úrskurði um sameiginlega forsjá meðan mál þetta er til lykta leit, að lögheimili verði áfram hjá föður og að kveðið verði á um inntak umgengni stefnda við barnið.
Í þinghaldi 10. ágúst 2015 var ákveðið að munnlegur málflutningur um bráðabirgðaforsjárkröfu færi fram 19. ágúst. Í þinghaldi þann dag féll stefnandi frá aðalkröfu í stefnu. Jafnframt var fallið frá þeim hluta varakröfu sem laut að því að umgengni varnaraðila við barnið yrði undir eftirliti. Í framhaldi af þessu var ákveðið að fresta málinu til sáttaumleitana, en tækjust sættir ekki færi fram málflutning 24. ágúst vegna ágreinings aðila um lögheimili og umgengni til bráðabirgða. Málinu var svo frestað utan réttar að beiðni aðila til 5. október en þá voru lögð fram frekari gögn, m.a. frá leikskóla barnsins í [...]. Þar sem ekki tókst að leysa úr ágreiningi aðila fór fram málflutningur 20. október um kröfu stefnanda um lögheimili barnsins til bráðabirgða, meðlag og umgengni. Er sá þáttur málsins til úrlausnar hér.
I.
Málsatvik eru þau að hinn [...] fæddist sonur aðila, A. Í desember 2012 gengu aðilar í hjúskap. Stefnandi segir að hjúskapurinn hafi gengið erfiðlega vegna vímuefnaneyslu stefnda og í september 2013 hafi stefnandi ekki séð annan kost en að fara af heimilinu og flutti til [...]. Barnið hafi orðið eftir í umsjá stefnda og að kröfu hans hafi barnið verið áfram með skráð lögheimili hjá honum.
Stefndi kveðst ekki neita fortíð sinni um neyslu en segir að hann og stefnandi hafi verið saman í neyslu. Jafnframt segir stefndi að hjónaband aðila hafi einkennst af miklum rifrildum. Stefnandi hafi átt við reiðivanda að stríða og fengið ofsaköst. Sumarið 2013 hafi stefnandi farið til [...] til að leita að skóla og íbúð en staðið hafi til að þau myndu öll flytjast þangað. Stefnandi hafi svo ekki viljað fá stefnda og barnið út fyrr en um áramótin 2013/2014 og stefnda grunað að ekki væri allt með felldu og að hún væri að halda fram hjá honum. Stefndi hafi svo farið í október 2013 til sýslumanns og óskað eftir skilnaði. Yfir jólin 2013 hafi aðilar reynt að ná sáttum. Það hafi orðið úr að stefnandi hafi farið með drenginn til [...] en orðið fljótt afhuga því að vera með barnið. Um svipað leyti hafi stefndi fengið fullvissu fyrir því að stefnandi væri að halda framhjá honum og samskipti aðila orðið ofsafengin á báða bóga, með ásökunum og hótunum sem hvorugum aðila væri sómi að.
Stefnandi kveður samskipti aðila hafa verið allharkaleg í fyrstu eftir skilnaðinn og stefndi m.a. haft í hótunum við stefnanda um að barninu yrði komið í fóstur. Þá hafi stefndi í samskiptum við stefnanda greint frá því að hann hafi neytt fíkniefna og að maður sem bjó á heimili stefnda og barnsins hefði verið þar í mikilli kannabisneyslu. Síðar hefði stefndi hótað því að setja nektarmyndir af stefnanda á internetið. Í samskiptunum hafi einnig komið fram að stefndi hefði beitt annan mann ofbeldi og að maður sem bjó á heimili stefnda hefði komið inn á heimilið með mann sem hann hefði svipt frelsi á ólögmætan hátt og haldið honum þar föngnum.
Í desember 2013 hafi stefndi neitað að veita stefnanda leyfi til að hitta barnið en sagt að hann myndi hugsa málið ef hún kæmi til hans um jólin. Samskiptin hefðu batnað nokkrum dögum fyrir jól og aðilar m.a. rætt um að taka upp samvistir að nýju og að öll fjölskyldan myndi flytja til [...]. Þann 29. desember 2013 hafi stefnandi farið til [...] með barnið en eftir það hafi komið upp ósætti milli aðila að nýju og ekki orðið úr flutningi stefnda til [...].
Eftir að ljóst varð að aðilar myndu ekki taka upp samvistir að nýju hafi barnið verið búsett hjá stefnanda en með skráð lögheimili á Íslandi, enda hafi stefndi alfarið hafnað því að breyting yrði gerð á lögheimilisskráningu þess. Barnið hafi þó fengið kennitölu og leikskólapláss í [...] og aðra þjónustu sem jafnan er tengd lögheimilisskráningu.
Samkvæmt gögnum málsins sóttu aðilar um skilnað hjá sýslumanninum í Kópavogi hinn [...] 2014. Hinn [...] 2014 var aðilum veitt leyfi til lögskilnaðar með þeim skilmálum sem þau hefðu orðið ásátt um, þ.e. að þau færu áfram sameiginlega með forsjá barnsins og að barnið ætti lögheimili hjá stefnda og að stefnandi greiddi einfalt meðlag með barninu. Aðilar höfðu gert samning um umgengni, dags. 3. mars 2014, sem fól í sér að frá 1. maí 2014 fengi stefndi barnið í fjóra mánuði en þar á eftir yrði tímanum skipt upp í tvo mánuði í senn.
Stefnandi kveðst hafa samþykkt samninginn um umgengni þar sem stefndi hefði neitað að heimila henni að fara með barnið úr landi nema hún undirritaði samninginn. Hún hefði samþykkt samninginn af ótta um að stefndi myndi koma í veg fyrir að hún fengi að hitta barnið og vegna fyrri hótana um að birta nektarmyndir og kynlífsupptökur af henni á netinu.
Stefnandi segir að í byrjun maí hafi komið í ljós að stefndi hefði ekki gert neinar ráðstafanir varðandi ferðalag barnsins til umgengni á Íslandi. Í lok maí hafi stefndi loks komið til [...] í þeim tilgangi að sækja barnið og ferðast með það til Íslands. Hann hafi þá verið svo ölvaður að stefnandi hafi metið það svo að ekki væri forsvaranlegt að afhenda honum barnið og neitað að afhenda það. Stefndi hafi farið aftur til Íslands í stað þess að láta áfengisvímuna renna af sér og veita barninu viðtöku líkt og samið hefði verið um. Við þetta hafi samskipti aðila farið úr skorðum að nýju.
Fyrir liggur endurrit úr sifjamálabók sýslumannsins í Kópavogi frá [...] 2014 þar sem fram kemur að stefndi hefði tilkynnt að stefnandi hefði „stolið“ barninu hinn 24. maí 2014. Við fyrirtöku hjá sýslumanni 4. september 2014 mættu foreldrar stefnanda og lýstu því yfir fyrir hennar hönd að hún gæti fallist á að forsjá yrði áfram sameiginleg ef barnið hefði lögheimili hjá stefnanda en að öðrum kosti krefðist hún þess að hún færi ein með forsjána.
Hinn [...] 2014 staðfestu aðilar fyrir sýslumanni samkomulag um lögheimili og meðlag. Samkvæmt því skyldi lögheimili barnsins flytjast til stefnanda í [...] tímabundið til 5. maí 2015 en þá væri lögheimili barnsins flutt á ný til stefnda. Samhliða þessu var samið um að barnið skyldi koma til Íslands í fylgd stefnanda í mars 2015 svo hann gæti dvalið hjá stefnda yfir mánaðartímabil. Þá skyldi barnið dvelja hjá stefnda frá 27. desember 2014 í einn mánuði. Fram kemur í samningnum um umgengni að hann væri tímabundinn og skyldi gilda í sex mánuði til reynslu, en eftir þann tíma gæti hvor aðila óskað endurskoðunar hans að hluta eða öllu leyti. Þar til nýr samningur eða úrskurður tæki gildi skyldi samningurinn þó standa óbreyttur.
Stefndi segir að þegar hann hafi farið ásamt sambýliskonu sinni til [...] fyrir áramótin 2014 til að sækja barnið hafi barnið verið illa til reika og líkamlega vanheilt. Stefndi hafi farið með son sinn í ungbarnavernd og þá komið í ljós að hann væri langt á eftir jafnöldrum í þroska. Stefndi og sambýliskona hans hefðu sótt námskeið hjá þroskamiðstöðinni í Mjódd og mikil breyting orðið á drengnum til batnað meðan hann dvaldi hjá stefnda. Í samræmi við samkomulag aðila hefði stefndi farið með barnið út í lok janúar 2015.
Þegar stefnandi hafi komið með barnið í byrjun mars hafi ástand hennar að mati stefnda ekki verið gott. Stefnandi hafi verið illa til höfð og „varpað“ barninu frá sér til stefnda. Barnið hafi verið í allt of litlum fötum og verið pissublautt. Barnið hafi verið fljótt að aðlagast lífinu á heimili stefnda og fjölskyldu stefnda. Stefndi hafi farið með barnið að nýju í ungbarnavernd og fengið það staðfest að líkast til væri barnið vanrækt í [...]. Stefndi hafi haft verulegar áhyggjur af stöðu barnsins.
Í apríl 2015 mun stefndi hafa neitað að afhenda barnið þegar stefnandi ætlaði að sækja barnið til hans og fara með það til [...]. Stefnandi kveður að stefndi hafi hins vegar lýst sig fúsan til þess ef hún undirritaði yfirlýsingu um að hún kæmi með barnið til Íslands í byrjun maí 2015. Eftir að hafa ráðfært sig við lögmann hafi stefnandi samþykkt þetta. Stefndi hafi færst undan því að afhenda barnið þrátt fyrir að hann fengi umkrafða yfirlýsingu og vísað á lögmann sinn. Lögmanni stefnda hafi verið send krafa um að barninu yrði skilað tafarlaust en því hafi verið hafnað og stefndi aðeins viljað samþykkja að stefnandi hefði umgengni við barnið undir eftirliti. Jafnframt hafi þess verið krafist að stefnandi setti tryggingu fyrir að hún myndi skila barninu til Ísland aftur í byrjun maí 2015. Auk þess hafi verið gerð krafa um að stefnandi gengist undir fíkniefnapróf og skilaði niðurstöðu þess við upphaf umgengni. Stefnandi hafi talið þetta fráleitt og fundist krafa um fíkniefnapróf vera niðurlægjandi og til þess fallin að vega að æru hennar. Stefnandi hafi jafnframt ekki getað fallist á þann skilning lögmannsins að hún hefði stöðu umgengnisforeldris, þar sem í samkomulagi hennar við stefnda, frá [...] 2014, hafi skýrt verið kveðið á um að lögheimili barnsins væri hjá henni og að stefndi væri umgengnisforeldrið. Hún hafi því ákveðið að hafna kröfunum í heild sinni en láta í þess stað á það reyna að ná samkomulagi með aðstoð sáttamiðlara, án aðkomu lögmanna.
Stefnandi fór að heimili stefnda hinn 14. apríl 2015 til að reyna að fá barnið afhent en án árangurs. Hinn 22. s.m. fór faðir stefnanda að beiðni stefnanda í leikskóla sem stefndi hafði komið barninu í og sótti það þangað. Stefnandi fór svo með barnið til [...] tveimur dögum síðar.
Hinn 4. maí 2015 fór fram sáttafundur með sáttamiðlara í [...] í Reykjavík en án árangurs og var sáttavottorð gefið út sama dag.
I.
Kröfu sína um úrskurð um lögheimili barnsins til bráðabirgða, meðlag og umgengni byggir stefnandi á því að barnið hafi búið samfellt hjá henni frá 29. desember 2013 og fram á þennan dag. Búseta barnsins hjá henni hafi verið ágreiningslaus af hálfu stefnda þótt hann hafi allt þar til [...] nóvember 2014 gert ágreining um að lögheimili þess yrði skráð í [...] og staðið þannig í vegi fyrir því að barnið væri skráð þar sem það hefði fasta búsetu líkt og skylt er samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1990.
Stefnandi byggir kröfu sína á 35. gr. laga nr. 76/2006 með vísan til þeirra sjónarmiða sem koma fram í 2. mgr. 34. gr. sömu laga og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 19/2013 um samningu Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 18. frá 2. nóvember 1992.
Fyrir liggi að barnið hafi haft búsetu hjá stefnanda á Íslandi frá fæðingu og til september 2013 og svo aftur samfellt frá 29. desember 2013 og fram á þennan dag. Yfirgnæfandi meirihluti einkalífs og fjölskyldulífs barnsins tengist heimili þess í [...] og fjölskyldu stefnanda. Sú fjölskylda samanstandi af barninu sjálfu, stefnanda, sammæðra hálfsystkinum barnsins og sambýlismanni stefnanda. Barnið sæki leikskóla í [...] og eigi þar leikfélaga og alla sína persónulegu muni. Að mati stefnanda myndi það augljóslega leiða til þungbærrar röskunar á einkalífi og högum barnsins ef því yrði gert að flytjast til Íslands meðan ágreiningur hennar við stefnda væri til úrlausnar fyrir dómstólum. Slíkt væri augljóslega andstætt hagsmunum barnsins. Þegar af þeirri ástæðu sé dómara rétt að úrskurða að barnið hafi lögheimili hjá henni til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar fyrir dómi.
Stefnandi bendir á að síðastliðið haust hafi stefndi flutt inn á heimili núverandi sambýliskonu sinnar í [...]. Það heimili sé barninu framandi og að barnið hafi ekki myndað nema takmörkuð tengsl við heimilið, sambýliskonuna og barn hennar.
Stefnandi byggir kröfu sína einnig á því að allt frá því að hún og stefndi slitu samvistum hafi hún gert það sem í hennar valdi stóð til að tryggja umgengni barnsins við stefnda. Í því skyni hafi hún meðal annars ferðast með barnið til Íslands á eigin kostnað oftar en einu sinni til að koma barninu til umgengni við stefnda og einnig til að sækja það aftur að umgengi lokinni. Aðeins einu sinni hafi hún þurft að synja stefnda um umgengni en þá hafi hann verið svo ölvaður að ekki hafi verið forsvaranlegt að afhenda honum barnið. Stefndi hafi hins vegar ítrekað hótað henni að hún fengi ekki að hitta það. Nú síðast hafi hann brotið gegn umgengnissamningi með því að fara með barnið í felur og neitað að afhenda henni það að lokinni umsaminni umgengni. Slíkt sé augljóslega til þess fallið að vekja efasemdir um að umgengni barnsins við báða foreldra sína verði hnökralaus meðan málið er til lykta leitt fyrir dómstólum. Barninu sé því augljóslega fyrir bestu að lögheimili þess verði hjá henni.
Stefnandi byggir kröfu sína um einfalt meðlag úr hendi stefnda á 35. gr. og 1. mgr. 56. gr. laga nr. 76/2003. Barnið búi hjá stefnanda og hún standi straum af útgjöldum vegna þess. Komi til þess að dómari úrskurði að lögheimili barnsins verði hjá henni til bráðabirgða sé eðlilegt að stefndi greiði henni meðlag með barninu. Meðlagskröfunni sé stillt í hóf og aðeins krafist einfalds meðlags.
Kröfu um að dómari úrskurði að umgengni barnsins við stefnda verði til bráðabirgða aðeins í [...] byggir stefnandi á því að stefndi hafi með hátterni sínu sýnt einbeittan vilja til að hunsa ákvæði umgengnissamnings og neita að afhenda henni barnið að lokinni umgegni. Hún hafi því ástæðu til að óttast að ef umgengni stefnda við barnið fari fram á Íslandi muni hann á sama hátt hunsa úrskurð dómara og neita að skila barninu aftur í umsjá hennar.
Stefnandi telur augljóst að ekki komi til greina í þessu tilviki að úrskurðað verði til bráðabirgða að barnið búi á víxl hjá henni og stefnda. Um þetta vísast til þess að stefndi hafi, með því að neita að afhenda barnið til stefnanda eftir umsaminn umgengnistíma þann 5. apríl 2015, sýnt að veruleg hætta sé á að hann muni raska slíku fyrirkomulagi með einhliða ákvörðunum um að hunsa rétt stefnanda og barnsins til samvista.
Um lagarök vísar stefnandi til 35. gr. laga nr. 76/2003, 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þj
óðanna um réttindi barnsins, frá 2. nóvember 1992, sbr. lög nr. 19/2013, 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Krafa um málskostnað byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
III.
Stefndi hafnar því að barnið hafi búið samfellt hjá stefnanda frá 29. desember 2013 og fram til þessa dags. Þetta sé augljóslega rangt en allan þann tíma hafi barnið einnig átt heimili hjá stefnda. Ekki liggi fyrir hvernig stefnandi hafi fengið barnið skráð inn í [...] félagskerfi án samþykkis stefnda. Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki upplýst um persónulega hagi sína í [...] frá septembermánuði 2013 til loka þess árs. Stefnandi haldi því fram að barnið sæki leikskóla í [...] en hafi ekki lagt fram gögn s.s. um mætingar barnsins. Stefnandi segi einnig á að barnið eigi leikfélaga og persónulega muni í [...] og að það leiði til þungbærrar röskunar á einkalífi og högum barnsins ef því yrði gert að flytjast til Íslands meðan ágreiningur er til úrlausnar, en stefnandi kveðst mótmæla þessu enda hafi ekkert verið lagt fram um að barnið eigi vini í [...] né heldur að það hafi myndað þar nokkur tengsl.
Stefndi vísar til 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins en þar segi að aðildarríki skuli gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Foreldrar, eða lögráðamenn, ef við á, beri aðalábyrgð á uppeldi barns og því að barni sé komið til þroska. Það sem barninu er fyrir bestu skuli vera þeim efst í huga.
Stefndi telur að mestu skipti að barninu sé komið til þroska og það alist upp í umhverfi sem sé örvandi og stuðli að eðlilegum þroska barnsins og framförum. Sjónarmið um röskun á einkalífi þriggja ára gamals barns geti ekki vegið þyngra eða hvar það eigi hluta af dóti sínu. Telur stefndi þetta öðru fremur sýna skilningsleysi stefnanda á raunverulegum þörfum barns þeirra. Álit fagaðila sé að barnið sé á eftir í þroska og að miklu skipti að brugðist sé hratt við. Stefnandi hafi í engu sinnt því að leita fagaðstoðar fyrir barnið.
Stefnandi hafi engin gögn lagt fram um persónulega hagi sína eða stöðu. Stefndi hafi skorað á stefnanda að undirgangast vímuefnapróf sem hún hafi hafnað. Þá hafi stefnandi engin gögn lagt fram um geðhagi sína.
Stefndi hafnar því að lítil tengsl séu milli barnsins og sambýliskonu stefnda. Stefnandi geri kostnað sinn að ferðum til landsins að málsástæðu en því sé hafnað. Þá segir stefndi að stefnandi hafi fengið föður sinn til þess að brjóta gegn ákvæðum hegningarlaga þegar barnið var „tekið úr föðurvaldi“.
Stefndi hafnar kröfu stefnanda um meðlag. Stefndi tekur undir að ekki sé forsvaranlegt að skipta umgengni meðan málið er til lykta leitt. Þá telur stefndi mikilvægt að barnið fái fagaðstoð á mikilvægum mótunarárum þannig að það dragist ekki enn aftur úr jafnöldrum sínum, hvort heldur sem er í [...] eða hér á landi.
IV.
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari heimild til að úrskurða til bráðabirgða hvernig fara skuli um lögheimili barns, eftir því sem barninu er fyrir bestu. Jafnframt getur dómari kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða.
Við úrlausn á ágreiningi aðila í þessum þætti málsins ber fyrst og fremst að líta til þess sem telst vera drengnum fyrir bestu meðan mál þetta er rekið. Ber dómara að leita þeirrar lausnar sem miðar við þau gögn sem nú liggja fyrir og það sem raskar minnst högum drengsins meðan á meðferð málsins stendur.
Við ákvörðun þess hvar drengurinn eigi að hafa lögheimili til bráðabirgða verður að horfa til þess að drengurinn, sem er þriggja og hálfs árs, hefur búið hjá stefnanda í [...] frá lok desember 2013 og frá þeim tíma aðeins dvalið hjá stefnda tvívegis í um mánuð. Þannig hefur stefnandi verið aðal umönnunaraðili drengsins í um tvö síðastliðin ár. Fyrir liggja gögn frá leikskóla drengsins í [...] þar sem fram kemur m.a. að hann sé glaðlynt barn og að þroskastig hans samsvari aldri hans á svo til öllum sviðum. Samkvæmt þessu er ekki ástæða til að ætla að drengurinn sé á einhvern hátt vanræktur af stefnanda.
Með vísan til alls framangreinds, og þar sem það hefði minnsta röskun í för með sér fyrir drenginn, þykir hagsmunum drengsins best borgið með því að lögheimili hans verði hjá stefnanda, meðan leyst verður úr ágreiningi aðila með dómi. Jafnframt er fallist á kröfu stefnanda um að stefnda verði gert að greiða henni einfalt meðlag með drengnum þar til dómur gengur í málinu.
Stefnandi gerir kröfu um að umgengni stefnda við drenginn fari fram í [...] en ekki á Íslandi. Ljóst er að það yrði afar íþyngjandi fyrir stefnda ef umgengni ætti að fara fram í [...]. Að mati dómsins er ekki ástæða til að ætla að stefndi muni hunsa úrskurð dómara um umgengni og skila ekki drengnum að umgengni lokinni. Er því hafnað að umgengni skuli fara fram í [...].
Við ákvörðun þess hvernig umgengni skuli háttað til bráðabirgða verður annars vegar að taka mið af búsetu aðila og hins vegar af mikilvægi þess að drengurinn haldi góðum tengslum við stefnda. Stefndi skal hafa umgengnisrétt við drenginn frá fimmtudegi til mánudags annan hvern mánuð. Þá skal drengurinn vera til skiptis hjá aðilum um jól frá 22. til 28. desember og um áramót frá 28. desember til 3. janúar, þannig að þau jól sem drengurinn er ekki hjá stefnda er það hjá honum um áramót og svo koll af kolli á víxl. Um jólin 2015 skal drengurinn vera hjá stefnda. Drengurinn skal dvelja hjá stefnda í tvær vikur yfir páska. Þá skal drengurinn dvelja hjá stefnda í fjórar vikur í sumarleyfi. Í öllum tilvikum ber stefnda að sækja drenginn til stefnanda og skila honum til hennar aftur að umgengni lokinni nema aðilar ákveði annað.
Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Lögheimili drengsins, A, skal vera hjá stefnanda, K, þar til lögheimili drengsins hefur endanlega verið til lykta leitt fyrir dómstólum.
Stefndi greiði einfalt meðlag með drengnum frá uppkvaðningu úrskurðar þessa.
Umgengni stefnda við drenginn skal vera frá fimmtudegi til mánudags annan hvern mánuð. Þá skal drengurinn vera til skiptis hjá aðilum um jól frá 22. til 28. desember og um áramót frá 28. desember til 3. janúar, þannig að þau jól sem barnið er ekki hjá stefnda er það hjá honum um áramót og svo koll af kolli á víxl. Jólin 2015 skal drengurinn vera hjá stefnda. Drengurinn skal dvelja hjá stefnda í tvær vikur yfir páska. Þá skal barnið dvelja hjá stefnda í fjórar vikur í sumarleyfi. Í öllum tilvikum ber stefnda að sækja drenginn til stefnanda og skila honum til hennar aftur að umgengni lokinni nema aðilar ákveði annað.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.