Hæstiréttur íslands
Mál nr. 215/2006
Lykilorð
- Kaupsamningur
|
|
Fimmtudaginn 9. nóvember 2006. |
|
Nr. 215/2006. |
Skauti ehf. (Hanna Lára Helgadóttir hrl.) gegn Jóni Páli Grétarssyni, Eiríki Inga Grétarssyni og Þorgerði Arnórsdóttur (Björn L. Bergsson hrl.) |
Kaupsamningur.
Ágreiningur málsins laut að túlkun á samningi er aðilar gerðu 1. september 2004 um kaup S á öllu hlutafé í L ehf. og TB ehf. J, E og Þ kröfðu S um eftirstöðvar umsamins kaupverðs en S krafðist þess að þeim yrði gert að þola lækkun á því á grundvelli 2. tl. 4. gr., sbr. 2. gr. samnings aðila. Í 4. gr. samningsins voru gerðar ýmsar forsendur og fyrirvarar við hann, m.a. að fram færi kostgæfnisathugun og birgðamat. Samkvæmt 2. og 3. gr. samningsins var talið ljóst að ekki hafi átt að greiða kaupverð né afhenda hið selda fyrr en að uppfylltum umræddum fyrirvörum og forsendum. Því hafi borið að túlka samninginn þannig að S hafi átt að gera kröfu um lækkun kaupverðsins á grundvelli 4. gr. hans áður en meginþorri kaupverðsins var inntur af hendi og hið selda afhent honum. Hann var talinn bera hallann af því að svo var ekki gert og krafa J, E og Þ því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. febrúar 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 5. apríl sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 19. apríl 2006. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði dæmd til að greiða sér 30.110.555 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. nóvember 2004 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndu verði dæmd til að greiða sér 23.036.601 krónu með sömu dráttarvöxtum. Þess er krafist að dæmd fjárhæð komi til skuldajafnaðar við kröfu stefndu um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs samkvæmt samningi aðila, en að öðru leyti til sjálfstæðs dóms um greiðslu til áfrýjanda. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ekki er fram komið að áfrýjandi hafi freistað þess að fá viðbótarfrest til greiðslu kaupverðs í því skyni að kanna betur fyrirvara og forsendur umrædds samningsins. Reynir því ekki á það í máli þessu hvort honum hefði verið það unnt. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Skauti ehf., greiði stefndu, Jóni Páli Grétarssyni, Eiríki Inga Grétarssyni og Þorgerði Arnórsdóttur, samtals 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 2005.
Mál þetta, sem var dómtekið 14. desember, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 10. desember 2004 af Jóni Páli Grétarssyni, Suðurvangi 12, 220 Hafnarfirði, Eiríki Inga Grétarssyni, Laugalind 8, 201 Kópavogi, og Þorgerði Arnórsdóttur, Miðleiti 2, 103 Reykjavík, gegn Skauta ehf., Faxafeni 11, Reykjavík, til efnda kaupsamnings.
Með gagnstefnu birtri 13. janúar 2005 höfðaði Skauti ehf. gagnsök í málinu á hendur stefnendum.
Í ljósi þess að aðalsök og gagnsök fjalla um sömu efnisþættina verða málsástæður í aðal- og gagnsök hjá hvorum málsaðila raktar í einu lagi.
I.
Dómkröfur.
Aðalsök
Aðalstefnendur krefjast þess að gagnstefnandi verði dæmdur til greiðslu kaupverðs að fjárhæð 15.000.000 króna með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 15. nóvember 2004 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati réttarins.
Gagnstefnandi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum aðalstefnenda og að aðalstefnendum verði gert að greiða honum málskostnað samkvæmt reikningi.
Gagnsök
Gagnstefnandi krefst þess aðallega að aðalstefnendum verði gert að þola lækkun á kaupverði samkvæmt 2. tl. 4. gr., sbr. 2. gr. samnings um kaup á hlutafé Leikbæjar ehf., kt. 440196-3499, og TB heildverslunar, kt. 540100-2680, frá 1. september 2004, að fjárhæð samtals 30.110.555 krónur, þ.e. 17.870.555 krónur, vegna ofreiknaðra eigna, að teknu tilliti til vikmarka, og 12.240.000 krónur, vegna ofreiknaðs hagræðis í launakostnaði, en til vara að fjárhæð 23.036.601 króna þ.e. 10.796.601 króna vegna lækkunar eigin fjár félaganna frá kaupdegi, að teknu tilliti til vikmarka ((42.012.612-30.716.011)-500.000) og 12.240.000 króna vegna ofreiknaðs hagræðis í launakostnaði. Hvort tveggja kröfurnar beri dráttarvexti skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. nóvember 2004 til greiðsludags. Komi dæmd krafa gagnstefnanda til skuldajöfnunar við kröfu gagnstefndu um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs samningsins, en að öðru leyti til sjálfstæðs dóms um greiðslu til gagnstefnanda.
Að gagnstefndum verði gert að greiða gagnstefnanda málskostnað samkvæmt reikningi.
Gagnstefndu krefjast sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda og málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti.
II.
Málavextir.
Málsatvik eru þau, að aðalstefnendur áttu saman hlutafélagið Leikbæ ehf. sem rekur fjórar leikfangaverslanir undir því nafni. Þá áttu aðalstefnendur Jón Páll og Eiríkur annað einkahlutafélag, TB heildverslun ehf., sem flutti inn leikföng og seldi í heildsölu til smásala. Aðalstefnendur upplýsa, að í ágústmánuði 2004 hafi aðilar ótengdir máli þessu leitað eftir kaupum á fyrirtækjum fyrir allt að 130.000.000 króna. Áður en þeim viðræðum var ráðið til lykta, hafði Sigurður Smári Gylfason, viðskiptafræðingur hjá Behrens Capital ehf., samband við þá og kynnti að hann kynni að hafa kaupendur á takteinum, þ.e. gagnstefnanda. Kom hann fram sem milligöngumaður milli málsaðila og útbjó kynningargögn úr bókhaldi og ársreikningum einkahlutafélaganna auk upplýsinga frá aðalstefnendum.
Þann 31. ágúst 2004 hittust þeir Jón Páll f.h. aðalstefnenda og Þorvarður Elíasson og Elías Þorvarðarson fyrir hönd gagnstefnanda. Sigurður Smári sat einnig fundinn. Forsvarsmenn gagnstefnanda tilkynntu að þeir væru í nafni óstofnaðs einkahlutafélags reiðubúnir að kaupa fyrirtækin á 120.000.000 króna. Því tilboði var umsvifalaust hafnað af hálfu aðalstefnenda.
Daginn eftir eða 1. september 2004 tókust samingar milli málsaðila. Þeir Þorvarður Elíasson og Elías Þorvarðarson rituðu undir samninginn í nafni óstofnaðs einkahlutafélags sem þeir hugðust stofna ásamt Bjarna Þorvarðarsyni. Af hálfu aðalstefnenda ritaði Jón Páll undir samninginn.
Í 1. gr. samningsins varðandi hið selda segir: „Allt hlutafé seljenda í Leikbæ ehf., kt. 440196-3499, Fjarðargötu 13-15, 220 Hafnarfirði (LB) að nafnvirði kr. 500.000,- og TB heildverslun ehf., kt. 540100-2680, Faxafeni 11, 108 Reykjavík (TB) að nafnvirði kr. 500.000,- Við samningsgerðina er miðað við og vísað til ársreikninga beggja félaganna fyrir árið 2003 auk óendurskoðaðs uppgjörs (rekstrar- og efnahagsreikningur) fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2004 og eru þessi uppgjör fylgiskjöl með samningi þessum.
Seljendur hafa heimild til að selja hlutabréf sín í TB til LB enda hafi það engin fjárshagsleg áhrif á hið selda að öðru leyti né hafi áhrif á kaupverð hins selda.“
Í 2. gr. samningins um kaupverð hins selda segir: „Sem endurgjald fyrir hið selda greiðir kaupandi seljendum kr. 135.000.000 sem greiðist þannig, sbr. þó leiðréttingarákvæði í grein 4.2 samnings þessa:
a) Kr. 120.000.000 greiðist þegar fyrirvörum samkvæmt 4 gr. í samningi þessum hefur verið fullnægt að mati kaupanda eða í síðasta lagi við afhendingu hins selda samkvæmt 3 gr. samnings þessa.
b) Kr. 15.000.000, - tveimur mánuðum eftir afhendingu.“
Í 3. gr. samningsins um afhendingu hins selda segir: „Seljendur skulu afhenda hið selda veðabanda- og kvaðalaust eigi síðar en 15. september 2004, enda hafi fyrirvarar þeir og forsendur þær sem getið er um í samningi þessum verið uppfylltir fyrir þann tíma.“
Í 4. gr. eru gerðar ýmsar forsendur og fyrirvarar við kaupsamninginn. Í grein 4.1 er gert ráð fyrir kostgæfnisathugun en þar segir: „Að kaupandi geri kostgæfnisathugun á þeim gögnum og upplýsingum sem lögð hafa verið fram og sem eru grundvöllur samnings þessa þar sem fram komi m.a. að innistæður, einstakir eigna- og skuldaliðir séu í samræmi við bókhald félagsins. Felst kostgæfnisathugun jafnframt í því að staðreyna dulið eigið fé í birgðum félagsins sem sagt er nema allt að kr. 15.000.000,- og að staðreyna fullyrðingar seljenda um kostnaðarþætti í rekstri félagsins sem tengjast núverandi rekstrarfyrirkomulagi og eignarhaldi á félaginu er m.a. felast í verulegri hagræðingu í launakostnaði á ársgrundvelli m.t.t. þess að tveir af þremur eigendum hafa verið lítið sem ekkert virkir í vinnu sl. tvö ár sem og áætlaðri veltu- og hagnaðaraukningu vegna Mattel umboðs þannig að áætluð velta TB heíldverslunar muni aukast verulega.“
Í gr. 4.2 í samningnum segir: „Að við endanlega ákvörðun á kaupverði samanber grein 2 samnings þessa skal gert uppgjör fyrir LB og TB m.v. 31.8.2004. Áætlað er að eigið fé félaganna beggja sé í samræmi við eigið fé í uppgjörum þann 30.6.2004 enda er við þau miðuð í samningi þessum. Að auki skal gera ráð fyrir duldu eigin fé í birgðum félagsins. Skal miðað við eftirfarandi reiknireglu varðandi mat á endurmetnu eigin fé félaganna beggja:
Eigið fé Leikbæjar ehf. 30.6.2004 kr. 18.595.959
Eigið fé TB heildverslunar ehf. 30.6.2004 kr. 8.416.653
Dulið eigið fé í birgðum kr. 15.000.000
Endurmetið eigið fé kr. 42.012.612
Við mat á verðmætum birgða TB og LB skal nota útsöluverð seljanlegra (kúrant) birgða (LB/ÞE) með virðisaukaskatti og deila í það með stuðlinum 2,1 en þessi útreikningur felur í sér 68% álagningu á útsöluverð.
Við ákvörðun á endanlegu kaupverði skal allt frávik á endurmetnu eigin fé frá kr. 42.012.612,- koma til hækkunar eða lækkunar kaupverðs sbr. 2. grein samnings þessa. Aðilar eru þó sammála um að vikmörk við mat á ofangreindu eigin fé sé +/- kr. 500.000 og að niðurstaða í mati á endurmetnu eigin fé umfram þessi vikmörk sbr. ofangreindan útreikning hækki eða lækki kaupverðið sem þeim mismun nemur og dregst frá eða bætist við greiðslur samkvæmt b lið 2. gr. samnings þessa“
Hinn 2. september 2004 var gerður viðauki við ofangreindan kaupsamning og í 4. tl. hans er tekið fram að uppgjör þann 31.08.2004, sem vísað er til í 4. gr. Kaupsamningsins, skuli gert í samræmi við og með sömu aðferðum og milliuppgjör dags. 30.06.2004.
Dagana 2., 11. og 12. september 2004 fór fram talning vörubirgða félaganna og voru starfsmenn frá KPMG endurskoðun viðstaddir talninguna f.h. kaupanda og fylgdust með töldu magni, en ekki sjálfum útreikningi vörubirgðanna. Í kynningu er sett var fram vegna sölu á Leikbæ var kynnt að álagning væri almennt um 68% = útsöluverð/2,1, sbr. og 3. mgr. gr. 4.2 kaupsamningi.
Þann 15. september 2004 voru fyrirtækin afhent en þá jafnframt ritað undir sérstakan viðauka við samning aðila. Í þeim viðauka var kaupverði hlutafjár fyrirtækjanna breytt þannig að það var lækkað um söluþóknun milliliðsins, Behrens Capital ehf., sem gagnstefnanda bar að annast greiðslu á. Varð samningsverðið þannig 131.400.000 krónur. Fyrri samningsgreiðsla gagnstefnanda var síðan lækkuð sem nam þeirri breytingu eða í 116.400.000 krónur en síðari greiðslan átti að vera óbreytt. Þá lýstu aðilar því yfir að þeir myndu hafa eðlilegt samráð og samvinnu um uppgjörsvinnu vegna reksturs félaganna frá 1. september til 11. september vegna óframkominna gjaldareikninga, uppgjörs og mats birgða þann 31. ágúst 2004 vegna sölu og innkaupa á þessu tímabili. Skyldu endurskoðendur aðila bera hitann og þungann af þessu verki.
Hinn 14. nóvember 2004 gerði Þorvarður Elíasson kostgæfnisathugun, samanber gr. 4.1 í kaupsamningi, og gerði hann athugasemdir við útreikning vörubirgðanna og fleira. Var það niðurstaða Þorvarðar, að vörubirgðir væru ofmetnar og væri útsöluverð birgða, sem deila skyldi 2,1 í, með mun hærri álagningu í talningabókum en greinir í 3. mgr. gr. 4.2 í kaupsamningi. Jafnframt gerði hann grein fyrir athugun á fullyrðingum aðalstefnenda um að veruleg hagræðing ætti að nást í launakostnaði á ársgrundvelli m.t.t. þess að tveir af þremur eigendum hafi verið lítið sem ekkert virkir í vinnu sl. tvö ár sem og þeirri fullyrðingu að áætluð velta TB heildverslunar mundi aukast verulega vegna Mattel-umboðsins. Þá kvartaði hann undan því að bókhaldsgögn væru ekki aðgengileg, ef þau væru þá fyrir hendi, þar sem þau lægju óskipulega í plastpokum í einum haug í kjallara hússins. Þá hefði gögnum úr tölvu félaganna verið eytt áður en hún var afhent nýjum eiganda. Niðurstaða kostgæfnisathugunar Þorvarðar var sú að vörubirgðir félaganna væru verulega ofmetnar og fullyrðingar seljenda um fyrirsjáanlegan launasparnað og veltuaukningu TB heildverslunar stæðust ekki.
Aðalstefnendur höfnuðu alfarið niðurstöðu kostgæfnisathugunarinnar og kröfuðst efnda samkvæmt samningnum. Með bréfi 16. nóvember 2004 gerði lögmaður aðalstefnenda kröfur á hendur gagnstefnanda, en því bréfi svaraði lögmaður gagnstefnanda með bréfi 18. nóvember 2004 og athugasemdum dags. sama dag. Lögmenn aðila leituðust við á fundi 30. nóvember, þar sem mættir voru auk lögmanna fulltrúar aðalstefnenda og endurskoðendur aðila, að ná samkomulagi í málinu, en það tókst ekki. Höfðuðu aðalstefnendur mál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu dags. 10. desember 2004. Gagnstefnandi höfðaði gagnsök í málinu 13. janúar 2005.
Hinn 9. mars 2005 voru endurskoðendurnir Guðmundur Snorrason og Ólafur G. Sigurðsson dómkvaddir til að meta eftirfarandi atriði:
„1. Hver teljist hafa verið meðalálagning útsöluverðs þeirra vörubirgða, sem taldar voru að útsöluverðmæti samtals kr. 134.836.723 við útreikning á vörubirgðum Leikbæjar ehf. og TB heildverslunar ehf. vegna uppgjörs félaganna hinn 31. ágúst 2004?
2 Telji matsmenn sér ekki kleift að reikna út eða meta meðalálagningu skv. 1. tl. eru matsmenn beðnir að gefa álit sitt á niðurstöðu kostgæfnisathugunar gagnstefnanda á dskj. nr. 8 og 9 og síðari athugana hans á bls. 4 í gagnstefnu, dskj. nr. 29.
3. Hvert telst hafa verið verðmæti vörubirgða þessara miðað við lög og góða reikningsskilavenju?
4. Geta matsmenn sannreynt að vörubirgðir félaganna samkvæmt uppgjöri þeirra hinn 30.6.2004 hafi verið vanreiknaðar um 15 millj. kr.?
5 Voru vörubirgðir félaganna hinn 31. desember 2003 reiknaðar með sama hætti og vörubirgðir hinn 31.8. 2004?
6. Hversu háan árlegan launakostnað telja matsmenn hafa sparast við það að tveir af eigendum hlutafélaganna hættu störfum hjá félögunum og hvern telja matsmenn vera árlegan kostnað vegna vinnuframlags starfsmanna, sem nauðsynlegt er að fá til þeirra starfa er þeir unnu?“
Hinir dómkvöddu matsmenn skiluðu matsgerð sinni 22. september 2005. Sem svar við 1. og 2. spurningu telja þeir eðlilegan deilistuðul til að nálgast kostnaðarverð birgðanna geta legið á bilinu 2,35-2,42 og þeir telja að reiknuð meðalálagning vörubirgðanna sé á bilinu 89-94%. Sem svar við 3. spurningu telja þeir ekki unnt að fullyrða með nákvæmni um kostnaðarverð vörubirgða þann 31. ágúst 2004 en telja það vera á bilinu 42-57 milljónir, en þó nær neðri mörkunum og hæpið að það hafi verið hærra en 50 milljónir. Varðandi 4. spurningu telja þeir ógerning á grundvelli fyrirliggjandi gagna að sannreyna að birgðir hafi 30. júní 2004 verið vanreiknaðar um 15 millj. Sem svar við 5. spuringu telja þeir að birgðir félaganna hafi ekki verið reiknaðar með sama hætti í árslok 2003 og hinn 31. ágúst 2004. Að lokum telja matsmenn sér ekki fært að leggja mat á 6. spurningu.
III.
Málsástæður og lagarök aðalstefnenda og gagnstefndu.
1. Fullar og réttar efndir aðalstefnenda, efndaskylda gagnstefnanda.
Málssókn sína styðja aðalstefnendur fyrst og fremst við þá grundvallarreglu samninga- og kröfuréttar að samninga skuli efna. Efndaskylda gagnstefnanda sé ótvíræð enda efndatími kominn og engar málefnalegar ástæður til annars en að gagnstefnandi efni samningsskyldu sína í samræmi við 2. gr. samnings aðila frá 1. september 2004, að teknu tilliti til leiðréttingar kaupverðs til hækkunar í samræmi við 4. mgr. greinar 4.2 í þeim samningi.
Aðalstefnendur hafi efnt samninginn að fullu og öllu leyti af sinni hálfu, meðal annars með þátttöku og liðsinni í rekstri hinna seldu félaga allt til loka október-mánaðar. Hefur að mati aðalstefnenda þar hvergi borið skugga á og samningurinn og hið selda reynst nákvæmlega í samræmi við þær samningsforsendur sem aðilar gáfu sér og kveðið er á um í samningi aðila frá 1. sepember 2004. Þar sé sérstaklega samið um að við samningsgerðina sé miðað við og vísað til ársreikninga beggja félaganna fyrir árið 2003 og árshlutauppgjörs fyrstu sex mánaða ársins 2004 vegna beggja félaganna. Á því er byggt af hálfu aðalstefnenda að þessar forsendur hafi gengið eftir að öllu leyti og ekkert komið fram sem gefi gagnstefnanda tilefni til athugasemda. Enn síður einhvers tugmilljóna afsláttar, sbr. kostgæfnisathugunina. Aðalstefnendur halda því fram, að allar rekstrarforsendur hafi legið fyrir áður en hið selda var afhent 15. september og gagnstefnanda þá tækt að hafa lokið öllum athugunum sínum á forsendum kaupanna eins og honum bar líka að gera fyrir þann dag, sbr. 3. gr. samnings aðila. Engar athugasemdir komu fram enda ekkert til að gera athugasemdir við.
Aðalstefnendur halda því fram, að gagnstefnandi hafi vanefnt ótvíræða greiðsluskyldu sína samkvæmt samningi aðila og því beri að dæma hann til réttra efnda ásamt dráttarvaxta af samningsfjárhæðinni allt frá réttum gjalddaga þann 15. nóvember 2004.
Aðalstefnendur mótmæla því sérstaklega að á einhver ákvæði samningalaga nr. 7/1936, 30., 33. gr. eða 36. gr. reyni í máli þessu hvað varðar framgöngu þeirra. Engum af hugtaksskilyrðum sakarreglunnar sé fullnægt, aðalstefnendur hafi enga saknæma háttsemi haft í frammi hvorki fyrr né síðar í samskiptum við gagnstefnanda. Öllum aðdróttunum um svik er mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Þá telja aðalstefnendur sig ekki hafa brotið gegn lögum nr. 50/2000.
2. Almenn mótmæli við kostgæfnisathuguninni.
Aðalstefnendur mótmæla í heild kostgæfnisathugun Þorvarðar Elíassonar frá 14. nóvember 2004. Þeir telja að athugasemdir Þorvarðar eigi sér sáralitla skírskotun til samnings aðila og séu þar að auki byggðar á einkaforsendum sem gagnstefnandi gefi sér en eigi sér hvergi stoð í samningi aðila og hafi aldrei verið minnst á fyrr. Aðalstefnendur telja að nánast virðist sem gagnstefnandi hafi talið sér renna blóðið til skyldunnar að finna eitthvað að samningi aðila eða efndum hans eftir að hafa mótttekið tölvupóst Sigurðar Smára sem til er vitnað í bréfi lögmanns gagnstefnanda frá 18. nóvember 2004. Slíkt sé algerlega úr lausu lofti gripið og raunar eigi orðsending Sigurðar um kostgæfnisathugun gagnstefnanda sér ekki stoð í samningi aðila, það er að segja að hana hafi átt að framkvæma á þessu stigi. Megi fremur álykta að Sigurður hafi orðið þess var að gagnstefnandi hafi ekki rækt samningsskyldur sínar sem skyldi við að ljúka athugunum í tengslum við kaupin fyrir 15. september og að með þessu skeyti hafi hann ætlað að brýna gagnstefnanda til dáða þannig að hann lyki því sem hann hefði átt að vera löngu búinn að gera. Hvert tilefni skeytisins var geti aðalstefnendur ekki fullyrt en þeir verði að sjálfsögðu ekki undir það seldir að gagnstefnandi geti byggt rétt á hendur þeim á grundvelli þess að vanrækja samningsskyldur sínar. Réttur gagnstefnanda í þessum efnum verði ekki betri en hann hefði orðið að rétt efndum samningsskyldum. Fullyrt er af hálfu aðalstefnenda að ef einhverjar athugasemdir í líkingu við þær sem gagnstefnandi hefur nú hreyft hefðu verið nefndar 15. september, þegar fyrirvörum og forsendum kaupanna átti að vera fullnægt, sbr. 3. gr. samnings aðila, hefði kaupunum einfaldlega verið rift. Á þeim tíma hefði slíkt verið einfalt í sjálfu sér. Einungis óverulegur kostnaður hefði verið til fallinn af hálfu málsaðila vegna vinnu sérfræðinga að kaupunum og engin tugmilljónadeila væri til staðar.
Aðalstefnendur telja efni kostgæfnisathugunarinnar svo fjarri öllu því sem um var samið milli aðila að engin efni séu til að fjalla í löngu máli um það. Lögð skuli þó áhersla á eftirfarandi:
2.1. Enginn forsendubrestur, engar rangar forsendur er lúta að ákvörðun söluverðs vegna birgða.
Í stefnu málsins taka aðalstefnendur það fram varðandi þennan lið að í samningi aðila hafi verið samið um nákvæmlega útfærða reikniaðferð sem leggja ætti til grundvallar við útreikning verðmætis birgða fyrirtækjanna, sbr. grein 4.2. Þessi samningsforsenda hafi verið vegin og metin af samningsaðilum og samþykkt eins og aðrar með undirritun kaupsamnings en hún hafi átt sér skírskotun til ársreiknings fyrirtækjanna sem lágu kaupunum til grundvallar, sbr. 1. gr. samningsins. Þessari grundvallarforsendu vilji gagnstefnandi nú breyta einhliða. Aðalstefnendur telja að í kostgæfnisathuguninni virðist gagnstefnandi reikna út allt annan og miklu hærri deilistuðul en hinn umsamda stuðul 2,1, einkum á grundvelli ályktana sem hann dragi af verði einstakra vara eins og Pictionary-spilsins. Þær ályktanir séu bæði rangar og alltof víðtækar. Deilitala birgða á þeim grundvelli sem aðilar sömdu um í kaupsamningi sínum finnist ekki út frá bókfærðu verði einnar vöru heldur raunverulegu söluverði allra vara byggt á sölureynslu liðinna ára að teknu tilliti til afsláttar, útsöluverðs, rýrnunar og svo framvegis, samanber útreikning Ingólfs Flygenring lögg. end.
Að mati aðalstefnenda komi þessi nýja forsenda ekki til greina því hún sé í andstöðu við samning aðila. Samningur aðila frá 1. september 2004 fjalli ekki um nákvæma útreikninga á verðmæti einstakra eigna fyrirtækjanna, ekkert frekar á birgðum en innanstokksmunum, hillurekkum, sjóðsvélum, tölvubúnaði, fasteignum eða öðrum slíkum áþreifanlegum verðmætum. Hið selda hafi verið hlutafé fyrirtækjanna sjálfra verðlagt fyrst og fremst á grundvelli þeirrar arðsemi sem reynsla liðinna ára hafi borið með sér.
Sérstaklega skuli áréttað, að málsaðilar hafi ekki samið um að innkaupsverð birgða yrði lagt til grundvallar heldur sérstök útreikningsaðferð sem hafi falið í sér deilitölu út frá söluverði eins og áður er rakið. Aðalstefnendur byggja á því að hefði hugmynd málsaðila verið sú að leggja innkaupsverðið til grundvallar hefði einfaldlega verið kveðið á um það í samningnum, en svo sé ekki.
Útreikningar og framsettar tölur á sérstöku skjali merktu ÞE 15. nóv. 2005, eiga einnig litla skírskotun til raunveruleikans að mati aðalstefnenda. Í dæmaskyni megi nefna að það eigi ekki við nokkur rök að styðjast að helmingur birgða eigi sér innlendan uppruna og helmingur erlendan.
Aðalstefnendur leyfa sér að vekja sérstaka athygli á því hve málatilbúnaður gagnstefnanda sé mótsagnakenndur í þessum efnum. Ef rétt sé að raunálagning sé svo miklu hærri en talið var, sem gagnstefnandi vilji vera láta, hefðu fyrirtækin skilað miklu meiri arðsemi á liðnum árum en raunin sé. Leiða megi rök að því að við þær aðstæður hefði verðmæti fyrirtækjanna verið talið miklu meira en samkvæmt kaupsamningnum frá 1. september 2004. Sú staða hefði þannig getað leitt til enn hærra söluverðs fyrirtækjanna en ekki lægra verðs, að mati aðalstefnenda. Með hliðsjón af þessu hljómi það mótsagnakennt að krafist sé stórfelldrar lækkunar kaupverðs vegna gallaðs söluhlutar í skilningi kaupalaga, vegna þess álits gagnstefnanda að álagning á þær vörur sem fyrirtækin selji sé meiri en kaupsamningur aðila hafi gert ráð fyrir.
Í greinargerð aðalstefnenda í gagnsök kemur fram að grundvallarskilyrði þess að gerðum samningi sé breytt vegna brostinna forsendna sé að um verulega þýðingarmikla forsendu hafi verið að ræða fyrir aðila og að gagnaðila hafi verið það ljóst eða mátt vera það ljóst. Á þetta grundvallarskilyrði skortir algerlega. Bæði hafi engin slík forsenda brostið og jafnvel þó svo kynni að hafa verið hafi aðalstefnendur verið algerlega grandlausir um þá huglægu afstöðu gagnstefnanda þar sem hann hafi engar slíkar forsendur reifað við samningsgerðina.
Í gagnstefnu er fullyrt: „Ljóst má vera að forsendur gagnstefnanda fyrir kaupunum hafa verið þær að vörubirgðir væru reiknaðar á sem næst kostnaðarverði “. Vísað er við svo búið til bókhaldslaga, laga um ársreikninga, laga um tekju- og eignaskatt og reglugerðar um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri. Því er eindregið mótmælt af hálfu aðalstefnenda að þetta megi ljóst vera.
Í fyrsta lagi hafi gagnstefndu ekki verið að selja tiltekinn fjölda Barbie- dúkkna, Lego-kubba og þess háttar heldur fyrirtæki, nánar tiltekið tvö fyrirtæki með samofinn rekstur. Hluti af því sem selt var hafi verið vörubirgðir félaganna en samningur málsaðila frá 1. september 2004 fjallar ekki um sölu þessara birgða á kostnaðarverði enda hefði það þá staðið í samningnum. Það sem samningur málsaðila fjalli um sé að hluti þess sem selt var hafi verið birgðir fyrirtækjanna en þær hafi verið staðreyndar með talningu á magni og svo á grundvelli þeirrar reiknireglu sem nýtt hefði verið í rekstri félaganna á liðnum árum. Hafi þessa sérstaklega verið getið í samningi aðila; reiknireglan hafi verið rituð inn í samninginn.
Framganga KPMG endurskoðunar er að mati aðalstefnenda þessu til staðfestingar. Ef það hefði staðið til að finna út kostnaðarverð brigða út frá innkaupsverði þeirra og mati á seljanleika þeirra hefði það verið eðlilegur þáttur í vinnu nefnds endurskoðunarfyrirtækis að gera þá könnun enda hafi öll bókhaldsgögn beggja félaganna staðið gagnstefnanda og trúnaðarmönnum hans til reiðu og KPMG endurskoðun hafi einmitt verið að sinna störfum fyrir gagnstefnanda er lutu að staðreynslu birgða. Unnt hefði verið að ljúka slíkri vinnu fyrir 15. september 2004, ef það hefði staðið til að framkvæma hana. Þá hefði aldrei komið til neinna vandamála. Gagnstefnanda hefði verið unnt að rifta samningi aðila óefndum vegna forsendubrests hefði raunin verið slík. Svo hafi ekki verið enda enginn forsendubrestur, KPMG endurskoðun hafi einvörðungu staðreynt magn svo reikna mætti út verðmæti birgða í samræmi við reiknireglu samnings málsaðila og staðfesta þannig afmarkaða fjárhæð eigin fjár hinna seldu félaga.
Með því að selja gagnstefnanda einkahlutafélög sín hafi aðalstefnendur ekki verið að gera upp bókhald félaganna gagnvart skattayfirvöldum. Afstemming bókhalds miðað við 31. ágúst 2004, færsla bókhalds vegna rekstrar til 15. september og talning birgða hafi einvörðungu miðað að því að staðreyna verðmæti eigin fjár félaganna í samræmi við umsamdar samningsforsendur, meðal annars á grundvelli áðurnefndrar reiknireglu. Allar tilvísanir gagnstefnanda til bókhaldslaga, laga um ársreikninga, skattalaga o.fl. séu málinu algerlega óviðkomandi. Það er að mati aðalstefnenda rangt að það hafi verið forsenda kaupanna að uppgjör færi fram á grundvelli og í samræmi við nefnd lagafyrirmæli. Slíkar staðhæfingar af hálfu gagnstefnanda telja aðalstefnendur augljóslega rangar enda gagnstefnanda fullkunnugt um að færsla birgðabókhalds hefði ekki verið í fullu samræmi við þessi lagafyrirmæli þar sem tilgangur talningarinnar sem KPMG endurskoðun stóð fyrir hafi verið að staðreyna „dulið eigið fé í birgðum“.
Í þriðja lagi er því eindregið hafnað af hálfu aðalstefnenda að það sé á einhvern hátt meginregla í viðskiptum með fyrirtæki að birgðir séu seldar á „raunverulegu innkaupsverði“. Oft séu birgðir seldar undir kostnaðarverði ef til dæmis örvænt er um að þær séu allar seljanlegar og eins eru birgðir stundum seldar yfir kostnaðarverði ef til dæmis seljandinn vill hafa eitthvað fyrir sinn snúð vegna öflunar þeirra. Um atriði sem þetta gildi óskorað samningsfrelsi í viðskiptum með fyrirtæki. Lög hamli á engan hátt hvaða viðmið samningsaðilar velja sér í þessum efnum.
Aðalstefnendur benda á að gagnstefnandi hafi ítrekað vitnað til Pictionary-spils máli sínu til stuðnings um rangindi forsendna aðalstefnenda og/eða svika þeirra. Að mati aðalstefnenda felur tilvitnun gagnstefnanda í þessa einu vöru annaðhvort í sér tilraun til að afflytja mál þetta sér í hag eða grundvallarmisskilning gagnstefnanda á þeirri útreikningsaðferð sem hann samdi við aðalstefnendur um í samningi aðila. Misskilning sem gagnstefnandi verði einn að bera ábyrgð á ef um hann er að ræða. Í talningabók sé getið talningar á nefndu spili. Einingarverðið sé skráð 4.980 kr. sem gefi miklu hærri deilitölu sé miðað við innkaupsverð heldur en um var samið að mati gagnstefnanda. Einnig geti þar að líta Flavas-hjól. Einingarverð þeirrar vöru sé skráð 1.995 kr. sem sé undir innkaupsverði þeirrar vöru en upphaflegt útsöluverð vörunnar, sem lækkuð hafi verið um 50%, hafi verið 3.990 kr. Deilitalan sem verð þeirrar vöru leiði til ætti þannig að vera miklu lægri en um hafi verið samið. Aðalstefnendur hafi þó ekki uppi kröfu um lægri deilitölu þar sem þau vilji halda samning málsaðila í heiðri. Staðreyndin, eins og mál þetta horfir við aðalstefnendum, sé sú að deilitalan sé umsamin meðaltalstala sem eigi sér ekki samsvörun í einni tiltekinni vöru eins og gagnstefnanda sé og hafi alla tíð verið fullkunnugt um.
Þá er á því byggt af hálfu aðalstefnenda að gagnstefnanda hafi verið það fulljóst að hann hafi verið að kaupa tvö fyrirtæki sem saman hafi verið verðlögð af hálfu seljenda á 135.000.000 króna. Einn verðmiði á tvö fyrirtæki. Á bak við þessa verðhugmynd seljenda hafi ekki verið vísindalegur útreikningur á arðsemi né vísindalegur útreikningur á einstökum eignum fyrirtækjanna, hvorki birgðum né öðrum eignum. Ekkert mat lá þannig fyrir eða hefur legið fyrir á viðskiptavild fyrirtækjanna, að mati aðalstefnenda. Þessar staðreyndir hafi verið gagnstefnanda fullljósar. Upphafleg verðhugmynd gagnstefnanda hafi verið 120.000.000 króna. Því boði hafi eindregið og afdráttarlaust verið hafnað af hálfu aðalstefnenda enda hafi þau haft aðra kaupendur sem voru tilbúnir að bjóða hærra verð. Skyndilega þegar gagnstefnandi eigi að reiða af hendi fé umfram 120.000.000 kr. finni hann samningi málsaðila allt til foráttu og vilji nú reikna út raunvirði einnar af eignum félaganna, birgðanna, með þá hugmynd að baki að slíkur útreikningur skili lægra verði fyrir fyrirtækin. Slíkt sé í fyrsta lagi rangt að mati aðalstefnenda en í annan stað er á því byggt að með slíkri nálgun sé farið á svig við grundvallarforsendu samnings aðila, semsé þá að reikna ekki út raunvirði einstakra eigna. Ef breyta eigi slíkri grundvallarforsendu að vild gagnstefnanda þvert gegn samningi aðila sé að mati aðalstefnenda einboðið með sama hætti að reikna raunsöluvirði annarra eigna, svo sem þriggja fasteigna Leikbæjar ehf., en bókfært verð þeirra var á söludegi fyrirtækjanna langt undir markaðsvirði. Sama háttinn mætti hafa á varðandi fastar og lausar innréttingar í fjórum búðum Leikbæjar ehf. Að mati aðalstefnenda fær það ekki staðist nokkur rök að gagnstefnandi geti valið sér eina af eignum félaganna og breytt grundvallarforsendu samnings aðila sér í hag hvað þá eign snertir til að ná fram hagstæðari niðurstöðu án þess að við mati á verðmæti annarra eigna sé hróflað, sem kannski yrði gagnstefnanda ekki jafn hagstætt að hans mati. Slík breyting sé gagnstefnanda að sjálfsögðu ekki tæk auk þess sem því er mótmælt sem algerlega ósönnuðu að umsamin deilitala 2,1 sé röng með vísan til þeirra forsendna sem hún byggist á.
Varakröfu gagnstefnanda er lýtur að eigin fé er svo eindregið mótmælt enda eigi hún alls enga samsvörun í samningi aðila. Því hafi heldur aldrei verið hreyft af hálfu gagnstefnanda að leggja ætti forsendur sem þessar eða slíkan skilning eins og þar sé getið til grundvallar útreikningi á eigin fé hlutafélaganna.
2.2 Enginn forsendubrestur vegna Mattel-umboðs og um TB umboðið.
Aðalstefnendur halda því fram í stefnu að gagnstefnanda hafi alltaf mátt vera fullkunnugt um að aðalstefnendur hafi ekki selt honum einkaumboð á Mattel-vörum. Aðrir séu og hafi verið þar um hituna. Enda megi þrautreyndum og menntuðum mönnum á sviði verslunar og viðskipta vera ljóst að einkaumboðum á vörum af þessu tagi sé ekki til að dreifa. Aðalstefnendur geti ekki borið ábyrgð á því hvernig aðrir aðilar á smásölumarkaði hagi sér eftir að hið selda var afhent. Ekki frekar í þessu tilviki frekar en endranær beri aðalstefnendur sem seljendur áhættuna sem fylgi rekstrinum eftir afhendingu.
Þá er því mótmælt sem fráleitu sem gagnstefnandi slái fram í skjali sínu að TB heildverslun ehf. sé eitthvert gervifyrirtæki. Þetta hljóti að vera sett fram gegn betri vitund enda fyrirtækið í rekstri á hans vegum síðustu tvo mánuðina. Gagn-stefnanda hafi mátt vera fullkunnugt um að allar birgðir TB heildverslunar ehf. hafi verið seldar Leikbæ ehf. og þær birgðir taldar sem birgðir Leikbæjar samkvæmt sérstöku ákvæði í samningi aðila, eða eins og segi í 3. mgr. gr. 4.2 í samningi: „Við mat á verðmætum birgða TB og LB skal nota útsöluverð seljanlegra (kúrant) birgða LB með virðisaukaskatti og deila í það með stuðlinum 2,1 ...“
Hugleiðingar gagnstefnanda í skjalinu um væntingar er lúti að hagnaði TB heildverslunar ehf. eigi sér enga skírskotun til samnings aðila. Aðalstefnendur hafi engu lofað um hagnað fyrirtækisins enda ekki í þeirra valdi að ráða því hvernig til takist á árinu 2005 svo dæmi sé tekið úr þessu skjali gagnstefnanda. Tölur um rekstrarafgang beggja einkahlutafélaganna upp á 38 milljónir séu hugarsmíð gagnstefnanda sem aldrei hafi fyrr fyrir augu aðalstefnenda komið auk þess sem hann eigi sér enga samsvörun í ársreikningum félaganna sem hafi verið gagnstefnanda aðgengilegir við kaupin. Fullyrt er af hálfu aðalstefnenda að þau hafi aldrei gefið í skyn hvað þá fullyrt að unnt væri að ná slíkum hagnaði af rekstri félaganna auk þess sem gagnstefnanda hefði verið í lófa lagið að fletta ofan af slíku skrumi hefði því verið slengt fram. Margföldunarstuðull upp á 4,65 eigi síðan ekki við nein rök að styðjast né kannist aðalstefnendur við að hafa séð honum bregða fyrir áður vegna kaupa gagnstefnanda á hlutafé fyrirtækjanna tveggja. Félögin hafi verið seld af aðalstefnendum á grundvelli mats þeirra á verðmæti þeirra sem hafi byggst á skoðun þeirra á rekstarhæfni fyrirtækjanna, arðsemi þeirra og eignum sem þau hafi þekkt mjög vel eftir að hafa rekið Leikbæ ehf. um langt árabil og TB heildverslun ehf. frá stofnun. Aðalstefnendur hafi ekki verðlagt fyrirtækin á grundvelli neins margfeldis af hagnaði eða veltu eða öðru slíku og enn síður af verðmæti einhverra birgða.
Í greinargerð aðalstefnenda í gagnsök er því mótmælt af hálfu þeirra að einhver forsendubrestur hafi átt sér stað er lýtur að Mattel-umboði. Í samningi aðila sé einvörðungu rætt um væntingar um veltuaukningu en grundvöllur þeirra væntinga hafi verið þær að aðalstefnendur hafi ráðið sérstakan starfsmann til að annast um sölu á vegum TB heildverslunar ehf. en starf hans hafi átt að leiða til slíkrar veltuaukningar ef rétt væri að málum staðið. Það að gagnstefnandi hafi misst nefndan starfsmann frá sér og ekki sinnt sölumálum heildverslunarinnar í samræmi við áætlanir þær sem aðalstefnandi Jón Páll hafi gert sé ekki á ábyrgð aðalstefnenda. Um það geti gagnstefnandi kennt sér einum enda atvik sem áttu sér stað, ef rétt reynast, eftir áhættuskipti í kaupum á TB heildverslun ehf.
Hvað Mattel-umboðið varðar sérstaklega er áréttað af hálfu aðalstefnenda að gagnstefnanda hafi verið það fulljóst að umboðssamningur þessi hafi verið tímabundinn eins og tíðkanlegt sé. Gagnstefnandi þurfi því að sinna viðskiptum og samskiptum við Mattel til að tryggja sér framlengingu þess viðskiptasambands. Aðalstefnendur geti á engan hátt borið ábyrgð á því hvernig gagnstefnanda takist til í þeim efnum og eða hvaða ákvarðanir Mattel taki að samningstíma liðnum. Síst geti aðalstefnendur borið ábyrgð á ákvörðunum og samskiptum milli þessara tveggja aðila um síðustu áramót, þremur og hálfum mánuði eftir áhættuskipti í kaupum aðila.
2.3 Enginn forsendubrestur varðandi hagræðingu launakostnaðar.
Aðalstefnendum sé ekki ljóst hvað gagnstefnandi á við með því að vefengja það hvert vinnuframlag eigenda í hópi seljenda hafi verið. Í annan stað sé því mótmælt sem röngu að það hafi verið umsamið að launakostnaður hefði átt að lækka um 10 milljónir. Það að margfalda svo meint ofmat á launakostnaðarsparnaði með einhverjum margföldunarstuðli er gersamlega fjarri öllum raunveruleika að mati aðalstefnenda.
Um önnur atriði sem rakin eru í kostgæfnisathugun Þorvarðar tekur að mati aðalstefnenda vart að fjölyrða en þeim er mótmælt sem röngum og raunar telja aðalstefnendur að sum þeirra sæti mikilli furðu. Þannig sé gagnstefnanda fullkunnugt um að eldra bókhald félaganna sé til staðar í kjallara Faxafens 11 þar sem það sé í kössum merktum hverju ári fyrir sig og að aðalstefnendur haldi engum bókhaldsgögnum leyndum fyrir gagnstefnanda. Bókhald ársins 2004 sé hjá bókhaldara félagsins þar sem það sé aðgengilegt í tölvukerfi hans og um það sé gagnstefnanda fullkunnugt að aðalstefnendur hafi lýst því yfir að þau munu annast persónulega um uppgjör til bókhaldara fyrirtækjanna m.v. 31. ágúst 2004. Vegna mótmæla er lúta að meintri gagnaeyðingu af minnisdiski tölvu skuli áréttað að engin slík eyðing hafi átt sér stað. Í nefndri vél hafi verið vistuð gögn er lúti að launagreiðslum og söluyfirliti. Hvort tveggja hafi verið til staðar við afhendingu vélarinnar. Aðdróttunum um gagnaeyðingu og óreiðu og lögbrot er vísað á bug sem ósæmilegum.
Með vísan til alls þess sem þegar hefur verið rakið er því eindregið mótmælt sem röngu að nokkrum galla í skilningi kaupalaga sé til að dreifa eða nokkurt annað tilefni sé fyrir gagnstefnanda að beita vanefndaúrræðum kaupalaga. Með vísan til þess og efnis samnings aðila frá 1. september 2004 og viðauka við hann frá 2. og 15. september 2004 er þess krafist að fallist verði á dómkröfur aðalstefnenda og gagnstefnandi þannig dæmdur til réttra efnda á samningi aðila.
Í greinargerð aðalstefnenda í gagnsök er því mótmælt sem röngu að aðalstefnendur hafi lofað gagnstefnanda sparnaði í launakostnaði að fjárhæð 10.000.000 króna. Ekkert er varði launamál aðalstefnenda og tilfært sé í samningi aðila sé í andstöðu við rétta málavöxtu. Aðalstefnandi Eiríkur Ingi hafi ekkert starfað í þágu hlutafélaganna í það minnsta síðustu tvö árin vegna veikinda. Aðalstefnandi Þorgerður hafi jafnframt sáralítið sinnt störfum. Helst hafi hún hlaupið undir bagga við afleysingar í hádegisverðarhléi starfsfólks í verslun Leikbæjar ehf. í Mjódd og eins á sérstökum álagstímum, svo sem fyrir öskudag. Það að aðalstefnandi Jón Páll hafi leyst einhverjar af starfsskyldum annarra af hendi feli á engan hátt í sér brot á samningi aðila enda aðalstefnendum ekki kunnugt um að forsvarsmönnum gagnstefnanda hamli neitt sem komi í veg fyrir að þeir geri slíkt hið sama.
Öllum hugleiðingum og hugarsmíð gagnstefnanda í þessum efnum um eitthvert margfeldi af „EBITU“ eða líkum nafnorðum er eindregið mótmælt sem fjarstæðu.
Í fyrsta lagi eigi slík margfeldisnafnorð sér enga skírskotun til samnings aðila.
Í annan stað séu slík nafnorð ekki til í íslensku máli og merking þeirra aðalstefnendum algerlega framandi.
Í kynningarefni milligöngumannsins Sigurðar Smára Gylfasonar sé þekkt skammstöfun úr viðskiptafræðum notuð; EBITDA. Skammstöfun þessi standi fyrir: Earnings Before Interest, Taxes, Depriciation and Amortization sem þýða megi orðrétt sem: „Hagnaður fyrir fjármagnstekjur, skatta, afskriftir og eignfærslu“. Þetta viðskiptafræðilega hugtak sé ekki notað í samningi aðila. Engar forsendur samningsins séu grundvallaðar á því og allra síst feli það í sér neinn margföldunarstuðul eins og gagnstefnandi byggi á. Að mati aðalstefnenda eigi það ekki við nokkur rök að styðjast að unnt sé að eðlisbreyta enskri skammstöfun í nafnorð sem fellt sé að íslenskri málfræði og eðlisbreyta fastmótaðri viðskiptafræði-legri stærð í einhvers konar margfeldisstuðul.
Aðalstefnendur telja málatilbúnað gagnstefnanda sæta furðu í þessum efnum, sérstaklega í ljósi þeirrar víðtæku sérfræðiþekkingar á sviði viðskipta sem forsvars-menn gagnstefnanda búi yfir.
3. Túlkunarsjónarmið, mat á aðstöðu málsaðila með tilliti til sakarefnis málsins.
Við túlkun á efni samnings aðila ber að mati aðalstefnenda að hafa í huga þann gríðarlega aðstöðumun sem sé milli aðila í þessum viðskiptum. Aðalstefnendur séu verslunarmenn sem sinnt hafi rekstri leikfangabúða um starfsævina án þess að leita sér sérstakrar langskólamenntunar eða víðtækari rekstrarreynslu. Forsvarsmenn gagnstefnanda séu á hinn bóginn næsta sérfróðir á sviði viðskipta, hver á sínu sviði, þannig að saman myndi þeir mjög sterka einingu. Þannig mun Elías Þorvarðarson hafa verið verslunarstjóri stórrar smásöluverslunar, Nettó í Mjódd, og því gerkunnugur verslunarrekstri. Þorvarður Elíasson hafi verið skólastjóri Verzlunarskóla Íslands í aldarfjórðung og því eðli máls samkvæmt gerkunnugur öllu er við komi rekstri fyrirtækja, einkum á sviði viðskipta. Bjarni Þorvarðarson hafi síðan starfað um langt árabil við kaup og sölu fyrirtækja, meðal annars á vegum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og síðar dótturfélaga Íslandsbanka hf. Þar á meðal hafi hann veitt fyrirtækinu Talenta hf. forstöðu en starfsemi þess hafi fyrst og fremst falist í kaupum á eignarhlutum í fyrirtækjum. Síðasta árið hafi Bjarni síðan starfað sem sérstakur fjárfestingarráðgjafi Kenneth Peterson sem hafi átt og rekið Norðurál hf. auk ýmissa annarra fjárfestinga. Sé til efs að margir séu þrautkunnugri Bjarna í kaupum á fyrirtækjum.
Að mati aðalstefnenda leiddi þessi munur til þess að samningur málsaðila sé um flest einkar hagfelldur gagnstefnanda þannig að ef á annan halli sé það á aðalstefnendur. Í samningnum séu til að mynda gerðar mun stífari kröfur til þeirra heldur en vænta mætti ef fullt jafnræði hefði ríkt milli aðila. Í dæmaskyni megi nefna að einum aðalstefnenda, Jóni Páli Grétarssyni, hafi verið ætlað samkvæmt samningnum að vinna launalaust út október 2004, sem hann og gerði, og síðan að vera gagnstefnanda til ráðgjafar út árið 2005 gegn mjög hóflegri þóknun, sbr. grein 4.3 í samningi aðila. Eins hafi börn og makar aðalstefnenda mátt láta af störfum fyrirvaralaust án nokkurs uppsagnarfrests eða annarra réttinda sem kjarasamningur áskilur verslunarmönnum. Aðalstefnendum hafi verið gert að ráðstafa hagsmunum þessara skyldmenna sinna þannig að þeim hafi borið að falla frá kröfum um laun eða önnur fríðindi frá afhendingardegi, sbr. grein 4.5. Loks hafi aðalstefnendum verið gert að undirrita mjög íþyngjandi samkeppnishömlur samkvæmt 5. gr. samningsins.
Með hliðsjón af þessu sé að mati aðalstefnenda fjarri sanni að þessir feðgar með sína gríðarlegu reynslu af fyrirtækjakaupum og rekstri ásamt fræðilegri þekkingu geti borið fyrir sig að hafa ekki kunnað skil á inntaki samnings sem þeir tóku fullan þátt í að semja og stóðu að. Því ber að taka kröfur aðalstefnenda til greina og dæma gagnstefnanda til réttra efnda á samningi aðila.
4. Heildstætt mat samnings, verður ekki slitinn úr samhengi.
Í greinargerð aðalstefnenda í gagnsök er tekið fram að, að mati gagnstefndu sé á því byggt að gagnstefnanda sé ekki tækt að slíta ákvæði samningsins frá 1. september 2004 úr samhengi. Kveðið sé á um það í samningnum sjálfum hverjar samningsforsendurnar séu og hvaða skjöl liggja honum til grundvallar, sbr. t.d. 1. tölulið samningsins. Þessum forsendum geti gagnstefnandi ekki litið framhjá núna þegar hann vilji knýja fram aðra og hagstæðari niðurstöðu sér til handa en samningur aðila leiði til.
5. Um fjárkröfur aðalstefnenda
Endanleg fjárkrafa er um réttar efndir kaupverðs í samræmi við 2. gr. í kaupsamning þ.e. 15.000.000 króna. Krafist er dráttarvaxta frá vanskiladegi þann 15. nóvember 2004.
6. Athugasemdir aðalstefnenda.
Aðalstefnendur mótmæla í sjálfu sér ekki því að útreikningar gagnstefnanda séu réttir að gefnum þeim útreikningsforsendum sem gagnstefnandi gefur sér. Á því sé einfaldlega byggt, að útreikningsforsendur gagnstefnanda eigi sér sáralitla stoð í samningi aðila eða gefi rétta mynd af sakarefni þessa máls. Að gefnum eigin forsendum, eins og til dæmis þeim sem gagnstefnandi gefur sér, sé hægt að komast stærðfræðilega að allskyns niðurstöðum sem hafi ekkert með viðkomandi úrlausnarefni að gera.
Varðandi málatilbúnaðinn hafa aðalstefnendur ekki uppi frávísunarkröfu í máli þessu en telja óhjákvæmilegt að vekja athygli á því að lítt sé skiljanlegt hvað átt sé við af hálfu gagnstefnanda þegar hann heldur því fram að reikniregla samkvæmt gr. 4.2 í kaupsamningi aðila sé tilgreind í töflu sem sett sé fram á bls. 3 í gagnstefnu. Að mati gagnstefndu er óskýrleiki þessi ekki til þess fallinn að koma í veg fyrir að dómur verði lagður á málið og þau sýknuð af gagnkröfum gagnstefndanda enda gagnstefnanda að sanna sitt mál. Nefnd tafla sé vart til að styrkja mál gagnstefnanda sökum nefnds óskýrleika.
7. Lagarök
Varðandi lagarök er vísað til reglna samninga- og kröfuréttar um réttar efndir samninga og fjárskuldbindinga. Jafnframt vísa aðalstefnendur til kaupalaga nr. 50/2000 um skyldur gagnstefnanda til efnda og þess að engin rök standi til beitingar vanefndaúrræða af hálfu gagnstefnanda. Þá styðst málsvörnin í gagnsök einkum við sakarreglu skaðabótaréttar og lög nr. 7/1936 sem og meginreglu samningaréttar um réttar efndir gerðra samninga. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 þar sem aðalstefnendur seru ekki virðisaukaskattsskyld og beri þeim því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
IV.
Málsástæður og lagarök gagnstefnanda og aðalstefnda.
1. Vörubirgðir.
Samkvæmt gr. 4.2 í kaupsamning aðila hafi verið við það miðað að eigið fé félaganna beggja væri hinn 31. ágúst 2004 um það bil það sem greini í hálfsársuppgjörum félaganna 2004, en að auki skyldi gera ráð fyrir duldu eigin fé í birgðum. Reikniregla sú sem miða skyldi við sbr. gr. 4.2 í kaupsamningi sé hér að neðan í fremsta dálki en hafi breyst í uppgjöri beggja aðila 31. ágúst 2004 sem hér greini:
|
|
Eigið fé skv. kaupsamningi 30.06.04 |
|
Eigið fé skv. kröfu aðalstefnenda 31.08.04 |
|
Eigið fé skv. kröfu gagnstefnanda 31.08.04 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
krónur |
|
krónur |
|
krónur |
|
|
|
|
|
|
|
|
Eigið fé Leikbæjar ehf. |
18.595.959 |
|
8.991.121 |
|
8.991.121 |
|
Eigið fé TB heildverslun |
8.416.653 |
|
8.536.520 |
|
8.536.520 |
|
Dulið eigið fé í birgðum |
15.000.000 |
|
26.956.678 |
|
7.774.391 |
|
Aðrar leiðréttingar |
0 |
|
(1.677.073) |
|
(1.659.975) |
|
|
42.012.612 |
|
42.807.246 |
|
23.642.057 |
Miðað við framangreinda reiknireglu og að teknu tilliti til þeirra fullyrðinga aðalstefnenda er fram koma í gr. 4.1 í kaupsamningi og í kynningu Sigurðar Smára Gylfasonar á fyrirtækinu um fyrirsjáanlegan launasparnað og veltuaukningu vegna Mattel-umboðsins hafi gagnstefnandi samþykkt að greiða 135 milljónir króna fyrir hlutafé félaganna sbr. 2. gr. kaupsamnings.
Samkvæmt 3. mgr. gr. 4.2 í kaupsamningi hafi verið gert ráð fyrir að vörubirgðir yrðu taldar á útsöluverði með virðisaukaskatti og í þá útkomu deilt með stuðlinum 2,1 til að fá fram kostnaðarverð vörubirgðanna, en sá stuðull hafi samsvarað 68% álagningu á kostnaðarverð (sem ranglega hafi verið ritað útsöluverð í greininni), en það hafi verið sú meðalálagning, sem aðalstefnendur hafi upplýst að hefði verið á seldum vörum, sbr. kynningu Sigurðar Smára á Leikbæ.
Það hafi strax legið ljóst fyrir þegar aðalstefnendur hafi skilað útreikningi á útsöluverði taldra birgða 134.836.723 kr. eða að kostnaðarverði miðað við framan-greindan stuðul 64.207.963 kr. að það verð gæti vart staðist þegar litið væri til kostnaðarverðs vörubirgða skv. fyrri uppgjörum, en vörubirgðir ársreikninga 2003 hafi numið 34.314 þús. kr. og 39.340 þús. kr. hinn 30. júní 2004, og samkvæmt reiknireglu gr. 4.2 í kaupsamningi getað numið 54.340 þús. kr. miðað við þær fullyrðingar aðalstefnenda að þær væru vantaldar um allt að15.000 þús. kr. Séu birgðir hinn 31. ágúst 2004 því reiknaðar 9.867.963 kr. hærri en aðalstefnendur hafi talið að þær gætu numið.
Af hálfu gagnstefnanda er því haldið fram að kostgæfnisathugun sú er honum bar að vinna ætti ekki aðeins að beinast að því að dulið eigið fé í birgðum félagsins næmi allt að 15 millj. kr. heldur ætti hún einnig að staðreyna að vörubirgðir væru reiknaðar á sem næst kostnaðarverði eins og venja er til í uppgjörum slíkra fyrirtækja, enda sé í uppgjörum hinna seldu félaganna sérstaklega gerð grein fyrir kostnaðarverði seldra vara, sbr. rekstrarreikninga og sundurliðanir kostnaðarverðs seldra vara í framlögðum uppgjörum félaganna.
Kostgæfnisathugunin hafi hins vegar leitt í ljós, að álagning sú sem miða skyldi við, þ.e. 68% auk vsk., sem samsvaraði deilistuðlinum 2,1, hafi verið mun lægri en sú álagning sem notuð hafi verið til að finna útsöluverð vörubirgðanna. Stafar þetta af því að birgðaverð einstakra vara hafi verið reiknað miðað við allt aðrar álagningarreglur en raunveruleg sala þeirra hafi skilað félögunum.
Í kostgæfnisathugun sinni og athugasemdum sínum frá 15. nóvember 2005 hafi formaður gagnstefnanda gert grein fyrir kostgæfnisathugun þeirri er hann hafi gert á einstökum vöruflokkum, en samkvæmt þeirri athugun hafi reiknistuðullinn verið á bilinu 2,91-3,00 og vörubirgðir því oftaldar um 17.935.113 kr. -19.214.054 kr. Hafi aðalstefnendur ekki mótmælt útreikningum þessum sem röngum, en hafnað því að koma að athugun á málinu. Hafi gagnstefnandi leitast við að komast að nákvæmari útreikningum, en bókhaldi félaganna hafi verið hagað með þeim hætti að erfitt sé að fá fram innkaupsverð einstakra vara og upplýsingar um raunverulegt söluverð úr sölukerfi félaganna, sbr. liði 5 og 6 í kostgæfnisathuguninni. Það hafi þó komið í ljós, að meginálagningarreglan virðist hafa verið sú, sem fram komi á bréfi, sem ritað sé af aðalstefnanda Jóni Páli, en þar segi að útsöluverð innfluttra vara sé fengið með þeim hætti að innkaupsverð þeirra sé margfaldað með 1,1 til að fá út kostnað við fragt og 1,1 til að fá út kostnað vegna tolla, en síðan sé kostnaðarverðið þannig reiknað margfaldað með 1,7 til að fá út heildsöluverð vörunnar og það síðan margfaldað með 2 til að fá út smásöluverðið. Þetta þýði að deilistuðull verði að vera 3,4 í stað 2,1 til að fá út kostnaðarverð varanna. Þá staðfesti talningabók þessa háu álagningu við ákvörðun útsöluverðs Pictionary-vara, sbr. neðst á vörutalningarblaði. Sú vara hafi verið að innkaupsverði 89,38 dk, auk fraktar og tolla, en reiknuð á 4.980 kr. í birgðatalningu. Miðað við gengi dk. þann 30. nóvemer 2004, 11.644 kr., sé innkaupsverð þessarar vörutegundar miðað við framangreinda reiknireglu kr. 1041x1,1x1,1= 1.260 kr. Deilistuðull til að ná fram kostnaðarverði vörunnar 1.260 kr. sé því 3,95. Fyrir liggur að TB heildverslun hafi selt þessa vörutegund á 2.800 kr., sbr. sölureikning 10. ágúst 2004. Þá verði ekki betur séð en að aðalstefnendur hafi reiknað vörubirgðir TB heildverslunar, bæði þær sem hafi verið seldar Leikbæ ehf. og eigin birgðir sem taldar hafi verið 2,3 millj. kr. í uppgjöri 31.8.2004 á samsvarandi útsöluverði Leikbæjar ehf. með virðisaukaskatti.
Ljóst megi vera að forsendur gagnstefnanda fyrir kaupunum hafi verið þær að vörubirgðir væru reiknaðar á sem næst raunverulegu kostnaðarverði eins og uppgjör félaganna bendi til að hafi verið gert, enda færi annað í bága við 16. og 28. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994 og 26. og 27. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga, 4. tl. 73. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt og 2. gr. reglugerðar nr. 483/1994 um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri. Þá komi fram í útreikningi vörutalningar, að aðalstefnendur telji talninguna sýna kostnaðarverð birgðanna. Hafi því gagnstefnandi verið í góðri trú um að deilistuðull sá sem aðalstefnendur hafi talið samsvara meðalálagningu seldra vara myndi reikna raunverulegt kostnaðarverð vara eins og uppgjör félaganna hafi sýnt. Skuli í þessu sambandi einnig benda á að ársreikningur Leikbæjar ehf. árið 2003 sé áritaður sem endurskoðaður af endurskoðanda félagsins.
Aðalstefnendum sé ljóst að álagning útsöluverðs vörubirgða samkvæmt talningu sé hærri en sú álagning sem fram komi í 3. mgr. gr. 4.2 í kaupsamningi, en telji að stuðullinn 2,1 sé ófrávíkjanlegur, þar sem um hann hafi verið samið. Sé skýring þeirra á hinni lágu meðalálagningu sú, að lækkunin stafi af útsölum, tilboðum, rýrnun, verðsveiflum innan árs o.s.frv. Aðalstefnendur réttlæti stuðul þennan með því að 68% álagning hafi verið sú álagning, sem ársreikningar Leikbæjar hafi sýnt, sbr. yfirlit um meðalálagningu. Gagnstefnandi mótmælir þessu sjónarmiði og telur að þessi aðferð á útreikningi birgða sé ekki í samræmi við lög og reglur og þýði í raun að gagnstefnanda sé gert að taka á sig með þessum hætti alla framtíðarbreytingar á verði vörubirgðanna, svo sem óorðna rýrnun, lækkun vegna útsöluverðs og annað sem aðalstefnendur segja að valdi lækkun á álagningu seldra vara. Þá er nefndu yfirliti um meðalálagningu mótmælt sem þýðingarlausu auk þess sem bent er á að það nái til fleiri ára en miða hafi átt við skv. Kaupsamningi, auk þess sem óskýrður sé mismunur á vörukaupum 2003 og 2004 miðað við uppgjör
Í málinu sé lagt fram lokauppgjör á eiginfjárstöðu félaganna hinn 31. 8. 2004, sem byggi á meðaltali deilistuðla samkvæmt niðurstöðu kostgæfnisathugunar og athugasemda Þorvarðar 15. nóv. 2004 að því er verðmæti birgða varði. Samkvæmt því og með tilliti til umsaminna vikmarka eigi gagnstefnandi kröfu um lækkun kaupverðs sem nemur 17.870.555 kr.
Með vísan til framangreinds sé aðalkrafa gagnstefnanda í máli þessu sú að aðalstefnendum verði gert að þola endurmat kaupverðs skv. 2. gr. kaupsamnings aðila til lækkunar vegna oftalinna vörubirgða um 18.370.555 kr. að frádregnum umsömdum vikmörkum skv. 4. mgr. 2. tl. 4. gr., 500.000 kr. Nemi því krafa gagnstefnanda samkvæmt þessum kröfulið 17.870.555 kr. með dráttarvöxtum frá 15. nóvember 2004 og komi til skuldajöfnunar við eftirstöðvakröfu aðalstefnenda og sjálfstæðst dóms fyrir mismuninum.
Verði á það fallist að gagnstefnandi sé bundinn af tilgreindum deilistuðli skv. 3. mgr. gr. 4.2 og að útsöluverð birgða sé rétt tilgreint í vörutalningu, þýði það að öll hækkun vörubirgða umfram kostnaðarverð eða dagverð, sbr. tilvitnuð lög, verði að teljast hækkun yfirverðs kaupanda umfram það sem reikniregla í gr. 4.2 í kaupsamningi geri ráð fyrir. Því sé gerð sú varakrafa að ákvæði 4.1 og 4.2 verði skilin svo að vörubirgðir verði aldrei reiknaðar á hærra verði en sem nemi eignfærðum birgðum samkvæmt bókhaldi félaganna hinn 30. júní 2004 eða 39.340.000 kr. að viðbættri hækkun birgða að hámarki 15 milljónum kr. eða alls 54.340.000 kr. Samkvæmt því verði endurmetið eigið fé sem hér segir:
Eigið fé Leikbæjar ehf. 8.991.121
Eigið fé TB heildverslunar 8.536.520
Leiðréttingar við uppgjör (1.811.630)
Dulið eigið fé í birgðum 15.000.000
30.716.011
Vegna lækkunar á eigin fé félaganna og leiðréttinga við uppgjör eigi því kaupverðið að endurmetast til lækkunar um 11.296.60 kr., vikmörk 500.000 kr. Krafan sé því 10.796.601 kr.
Á það sé og bent að sé miðað við birgðamat aðalstefnenda við útreikning á kostnaðarverði seldra vara á tímabilinu 1. janúar 2003- 31. ágúst 2004 verði meðalálagning tímabilsins mun hærri en 68%, og birgðir því oftaldar sem því nemi.
2. Hagræðing launakostnaðar.
Eins og fram komi í gr. 4.1 í kaupsamningi hafi aðalstefnendur fullyrt að kaupin myndu leiða til hagræðingar í launakostnaði á ársgrundvelli m.t.t. þess að tveir af þremur eigendum hefðu verið lítið sem ekkert virkir í vinnu sl. tvö ár.
Samkvæmt 4. tl. kostgæfnisathugunarinnar hafi verið gert ráð fyrir að launa-kostnaður myndi lækka um 10 millj. kr. á ári, sbr. kynningu Sigurðar Smára á Leikbæ. Niðurstaða kostgæfnisathugunarinnar hafi verið að nær lagi væri að áætla að sú tala gæti orðið 6 millj., þar sem í reynd væru tveir af þremur eigendum í vinnu og að framkvæmdastjóri félgsins hefði þurft að sinna störfum hins þriðja að verulegu leyti án þess að fá greiðslu fyrir þau störf. Samkvæmt kynningunni hafi aðalstefnendur gert ráð fyrir að EBITDA félaganna væri 15.238 kr. fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2004, sem miðað við heilt ár næmi því 30.476 þús. kr. Fyrir félögin hafi kaupandi greitt 135.000.000 kr. eða sem svari 4,43 falda EBITUNA. Miðað við að sparnaður nemi aðeins 6.000.000 kr. í stað 10.000.000 kr. lækki EBITAN í 26.476 kr. Kaupverðið miðað við sama margföldunarstuðul ætti því að lækka í 117.300.000 kr. eða um 12.700.000 kr. Sé krafa samkvæmt þessum lið því lækkun kaupverðs um 12.700.000 kr.
3. Aukning veltu TB heildverslunar.
Í gr. 4.1 í kaupsamningi og kynningunni sé fullyrt af aðalstefnendum að gagnstefnandi geti vænst verulegrar aukningar veltu- og hagnaðar vegna Mattel-umboðsins. Samningur við Mattel-umboðið hafi runnið út um síðastliðin áramót og séu fulltrúar umboðsins væntanlegir til viðræðna um framhaldið. Á þessu stigi sé því ekki unnt að taka afstöðu til þess hvort fullyrðingar aðalstefnenda komi til með að standast.
4. Samantekt kröfuliðar 1.
Aðalkrafa er mynduð af kröfu gagnstefnanda um leiðréttingu eigin fjár vegna oftalinna vörubirgða, sbr. lið 1. 17.870.555 krónur og kröfu um leiðréttingu eða afslátt á kaupverði vegna fullyrðingar aðalstefnenda um hagræðingu vegna launakostnaðar, sbr. lið 2 12.240.000 krónur eða samtals 30.110.555 krónur.
Varakrafa er með sama hætti mynduð í samræmi við málsástæður í lið 1 10.796.601 króna og lið 2 12.240.000 krónur eða samtals 23.036.601 króna.
5. Sérstakar athugasemdir gagnstefnanda varðandi stefnu málsins.
Mótmælt er þeirri málsástæðu aðalstefnenda, er fram kemur í stefnu, að skilja beri kaupsamning aðila svo að gagnstefnanda hafi borið að ljúka kostgæfnisathugun skv. gr. 4.1 fyrir 15. september 2004. Gagnstefnandi telur að ákvæði þetta beri að túlka svo að hér sé verið að ákvarða greiðsludag, sem ekki sé bindandi tímamörk til kostæfnisathugunar. Hefði verið óframkvæmanlegt að ljúka kostgæfnisathugun fyrir þann tíma. Þá vísar gagnstefnandi til 1. mgr. 31. gr. og 32. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Af hálfu gagnstefnanda er því haldið fram að honum hafi verið heimilt að halda eftir ógreiddu kaupverði, sbr. 42. gr. sömu laga.
Að því er varðar mat á vörubirgðum félaganna sé meginágreiningur aðila fólginn í því að aðalstefnendur telji að svo hafi verið um samið að útsöluverð birgða ætti að miðast við aðra álagningu en þá raunálagningu sem hefði verið í félaginu sem aðalstefnendur telja að hafi verið 68%. Þannig sé útsöluverð innfluttra vörubirgða, reiknað miðað við 70% álagningu á innkaupsverð til að fá út heildsöluverð og síðan 70% (vsk. innifalinn) ofan á það verð til fá út smásöluverð. Með því að reikna útsöluverðið með þessum hætti og lækka það aðeins með stuðlinum 2,1, þ.e. miðað við 68% álagningu auk virðisaukaskatts, reiknast vörubirgðir mun hærri að verðmæti en kostnaðarverð, sem um leið hafi það í för með sér að seljendur fái stærri hluta af álagningunni til sín en þeim beri, þar sem það lendi síðan á kaupanda að gefa afslátt, taka á sig rýrnun o.fl.
6. Lagarök.
Varðandi lagarök er byggt á meginreglum samninga- og kröfuréttar um réttar efndir samninga og fjárskuldbindinga. Þá er vísað til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 30., 33. gr. og 36. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, vanefndaúrræði kaupanda, einkum 30., 38. og 40 gr. Varðandi vaxtakröfu er vísað til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.
V.
Forsendur og niðurstaða.
Ágreiningur málsins lýtur að túlkun á samningi er málsaðilar gerðu 1. september 2004. Aðalstefnendur telja að túlka eigi samninginn eftir orðum sínum þannig að gagnstefnandi eigi að greiða eftirstöðvar kaupverðs sem tilgreint er í 2. gr. samningsins, en gagnstefnandi telur að lækka eigi kaupverðið vegna fyrirvara sem gerðir voru í kaupsamningnum og snertu mat á birgðum og hagræðingu í launakostnaði.
Eins og að framan greinir var samningur sá er um er deilt gerður 1. september 2004. Andlag hins selda var allt hlutafé aðalstefnenda í Leikbæ ehf., að nafnvirði 500.000 krónur og TB heildverslun ehf., einnig að nafnverði 500.000 krónur. Í samningnum var miðað við og vísað til ársreikninga beggja félaganna fyrir árið 2003 og óendurskoðaðra rekstrar- og efnahagsreikninga fyrir fyrstu 6 mánuði árins 2004 og eru þessi gögn fylgiskjöl með samningnum. Þannig lá fyrir að verið var að kaupa fasteignir, bæði í Reykjavík og í Hafnarfirði, bifreiðar, vörubirgðir, viðskiptakröfur og fleira án þess að eignir þessar væru nokkuð skilgreindar með öðrum hætti en með tilvísun til nefndra ársreikninga félaganna. Um var samið að endurgjald fyrir hið selda skyldi vera 135.000.000 króna og meginþorra þeirrar fjárhæðar eða 120.000.000 króna bar gagnstefnanda, samkvæmt a. lið 2. gr. samningsins, að greiða „þegar fyrirvörum samkvæmt 4. gr. í samningi þessum hefur verið fullnægt að mati kaupanda eða í síðasta lagi við afhendingu hins selda samkvæmt 3. gr. samnings þessa“. Þau atriði sem gagnstefnandi byggir á til lækkunar kaupverðsins eiga sér stoð í forsendum og fyrirvörum sem tilgreindir eru í 4. gr. samningsins og er þá einkum byggt á gr. 4.2 varðandi birgðamatið og kostgæfnisathugun sem gagnstefnandi gat gert skv. gr. 4.1. Samkvæmt 3. gr. samningsins skyldi afhending hins selda vera eigi síðar en 15. september 2004, „enda hafi fyrirvarar þeir og forsendur þær sem getið er um í samningi þessum verið uppfylltir fyrir þann tíma.“ Tilgreind samningsákvæði kveða á um skyldur beggja samningsaðila og gera ráð fyrir að engar skyldur verði inntar af hendi, án þess að fullnægt sé þeim fyrirvörum og uppfylltar þær forsendur sem getið er um í 4. gr. samningsins. Fyrir liggur í málinu, að hið selda var afhent 15. september 2004 og þann dag greiddi gagnstefnandi umsamda fjárhæð skv. viðaukasamningi frá 15. september 2004 eða 116.400.000 krónur. Þá liggur einnig fyrir, að þann dag var engum athugasemdum hreyft af hálfu gagnstefnanda er vörðuðu fyrirvara þá sem um getur í 4. gr. samningsins. Dómurinn lítur svo á, að túlka beri samning málsaðila þannig að gagnstefnanda hafi borið að gera þær kröfur sem hann hefur uppi í gagnsök áður en meginþorri kaupverðsins eða 116.400.000 króna var inntur af hendi. Með því að gagnstefnandi lét það hjá líða ber hann hallann af því. Þá máttu aðalstefnendur einnig treysta því, að allir fyrirvarar skv. 4. gr. samningsins yrðu útkljáðir, áður en til afhendingar hins selda kæmi, en það hvíldi á gagnstefnanda að gera gangskör að þeim atriðum sem nefnd eru í gr. 4.1 og 4.2 í samningnum.
Dómurinn hafnar þeirri málsástæðu gagnstefnanda, að ekki hafi reynst nægur tími né gögn legið fyrir á fyrstu 15 dögum septembermánaðar til að vinna þá vinnu sem þurfti og liggur til grundvallar kröfu hans um lækkun kaupverðsins. Eins og að framan greinir gerir samningurinn einmitt ráð fyrir að fyrirvararnir samkvæmt 4. gr. yrðu útkljáðir áður en aðilar inntu skyldur sínar af hendi og því var ekkert samkvæmt samningnum sem batt málsaðila við að ganga frá viðskiptunum 15. september 2004, ef fyrirvörunum væri ekki fullnægt. Á þetta sér einnig stoð í b. lið 2. gr. samningsins, en þar segir að greiða beri lokagreiðsluna 15.000.000 króna „tveimur mánuðum eftir afhendingu“ án þess að ákveðin dagsetning sé tilgreind. Þá liggur fyrir að birgðatalning sú sem endurskoðendur hjá KPMG endurskoðun hf. voru viðstaddir fyrir hönd gagnstefnanda fór fram þann 2., 11., og 12. september 2004. Dómurinn telur því að gagnstefnanda hefði verið unnt að fresta greiðslu kaupverðsins og þar með afhendingu hins selda um einhverja daga, hefði hann viljað kanna fyrirvarana betur. Þegar á allt þetta er litið telur dómurinn að taka eigi kröfu aðalstefnenda um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðsins 15.000.000 króna sem greiða átti 15. nóvember 2004 til greina. Þá eru ekki efni til annars en að taka einnig til greina vaxtakröfu aðalstefnenda sem byggð er á III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, enda hefur krafa þessi ekki sætt mótmælum af hálfu gagnstefnanda.
Í gagnstefnu gerir gagnstefnandi kröfu um lækkun á kaupverði, annars vegar kröfu um leiðréttingu eigin fjár vegna ofreiknaðra birgða og er sú krafa aðallega að fjárhæð 17.870.555 krónur en til vara 10.796.601 krónur og hins vegar er krafa vegna fullyrðinga aðalstefnenda um hagræðingu vegna launakostanaðar að fjárhæð 12.240.000 króna. Aðakrafan er því samtals að fjárhæð 30.110.555 krónur og varakrafan að fjárhæð 23.036.601 krónur. Þá er þess jafnframt krafist að dæmd krafa gagnstefnanda komi til skuldajafnaðar við kröfu aðalstefnenda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs en að öðru leyti til sjálfstæðs dóms.
Kröfur gagnstefnanda eiga sér stoð í gr. 4.1 og 4.2 í kaupsamningi aðila frá 1. september 2004. Samkvæmt gr. 4.2 er með skýrum hætti samið um hvernig staðið skuli að útreikningum á verðmæti birgðanna og má ljóst vera af forsendum þeim er þar voru gefnar að það verð gat aldrei leitt fram kostnaðarverð birgðanna. Eins og að framan greinir þá er niðurstaða dómsins í aðalsök sú að útkljá hefði átt allan hugsanlegan ágreining byggðan á forsendum og fyrirvörum í 4. gr. kaupsamningsins áður en greiðsla meginþorra kaupverðsins og afhending félaganna fór fram. Gagnstefnandi hélt ekki þessum rétti sínum til haga í tæka tíð. Kröfur gagnstefnanda í gagnsök eru því of seint fram komnar miðað við samning málsaðila og ber því að sýkna aðalstefnendur af öllum kröfum gagnstefnanda.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur dómurinn að gagnstefnanda beri að greiða aðalstefnendum 15.000.000 króna. Aðalstefnendur eru sýknaðir af öllum kröfum gagnstefnanda. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 verður gagnstefnanda gert að greiða aðalstefnendum málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 850.000 krónur.
Af hálfu aðalstefnenda flutti málið Björn L. Bergsson hrl.
Af hálfu gagnstefnanda flutti málið Helgi V. Jónsson hrl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari, Helgi Sigurðsson hrl. og Sigurður Pálmi Sigurðsson, löggiltur endurskoðandi, kváðu upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Gagnstefndandi, Skauti ehf., greiði aðalstefnendum Jóni Páli Grétarssyni, Eiríki Inga Grétarssyni og Þorgerði Arnórsdóttur 15.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 15. nóvember 2004 til greiðsludags.
Gagnstefnandi greiði aðalstefnendum 850.000 krónur í málskostnað.