Hæstiréttur íslands
Mál nr. 403/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Sameign
- Útburðargerð
- Fjöleignarhús
|
|
Miðvikudaginn 22. október 2003. |
|
Nr. 403/2003. |
Sigfús Ómar Höskuldsson og Ásdís Bjarnadóttir (Halldór Jónsson hrl.) gegn Þorsteini Þorsteinssyni (Hróbjartur Jónatansson hrl.) |
Kærumál. Sameign. Útburðargerð. Fjöleignarhús.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu Þ um að þvottavél, auk annars útbúnaðar og tengingar í eigu S og Á, yrði fjarlægð með beinni aðfarargerð úr nánar tilgreindu sameignarrými í kjallara húss þeirra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. október sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2003, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að þvottavél, auk annars útbúnaðar og tengingar í eigu sóknaraðila, yrði fjarlægð með beinni aðfarargerð úr nánar tilgreindu sameignarrými í kjallara húss þeirra að Guðrúnargötu 4 í Reykjavík. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að hafnað verði kröfu varnaraðila um heimild til aðfarargerðar. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Ágreiningur máls þessa lýtur að nýtingu sameignar í kjallara hússins að Guðrúnargötu 4 í Reykjavík í svonefndum miðstöðvarklefa. Í málinu liggur fyrir skiptasamningur frá 20. nóvember 1968, sem þinglýst var 3. febrúar 1969, þar sem fram kemur að sameiginleg eign og afnot séu af tröppum og forstofu, ásamt gangi í kjallara, miðstöðvarklefa, salerni og geymslu undir tröppum. Aðilar eru sammála um að umrætt herbergi hafi undanfarin ár verið nýtt sem geymsla undir reiðhjól og fleira. Í gögnum málsins kemur fram að varnaraðili hefur búið í húsinu frá því það var reist árið 1942, en sóknaraðilar hafi fest kaup á helmingi eignarinnar árið 2002. Fyrri hluta árs 2003 hafi sóknaraðilar komið sér upp þvottaaðstöðu í umræddu miðstöðvarherbergi með því að koma þar fyrir þvottavél ásamt tengingu auk annars búnaðar. Greinir aðila á um hvort sóknaraðilar hafi haft samþykki varnaraðila fyrir þessari breytingu á hagnýtingu sameignarinnar eins og áskilið er í 35. gr. og 36. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 26/1994 segir að eiganda sé á eigin spýtur óheimilt að framkvæma nokkrar breytingar á sameign eða helga sér til einkanota tiltekna hluta hennar. Þá segir í 4. mgr. 35. gr. laganna að einstökum eigendum verði ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur nema allir eigendur ljái því samþykki. Ekkert er fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu sóknaraðila að varnaraðili hafi samþykkt áðurnefnda nýtingu sóknaraðila á miðstöðvarklefanum. Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, verður talið að fullnægt sé skilyrðum 78. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 3. mgr. 83. gr. sömu laga, til að aðfarargerðin nái fram að ganga. Verður úrskurður héraðsdóms því staðfestur um annað en málskostnað.
Rétt er að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2003.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 5. september 2003 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. september 2003.
Gerðarbeiðandi er Þorsteinn Þorsteinsson, [...], Guðrúnargötu 4, Reykjavík, en gerðarþolar eru Sigfús Ómar Höskuldsson, [...], og Ásdís Bjarnadóttir, [...], Guðrúnargötu 4, Reykjavík.
Dómkröfur gerðarbeiðanda eru að þvottavél og annað, sem tilheyrir gerðarþolum og staðsett er í sameiginlegu miðstöðvarherbergi í norðurhluta kjallara hússins nr. 4. við Guðrúnargötu í Reykjavík, verði fjarlægt með beinni aðfarargerð. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins og að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Dómkröfur gerðarþola eru að þau verði sýknuð af kröfum gerðarbeiðanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi gerðarþola samkvæmt framlögðum máls-kostnaðarreikningi.
Helstu málsatvik eru þau að gerðarbeiðandi er eigandi helmings fasteignarinnar að Guðrúnargötu 4 hér í borg. Helminginn á móti honum eiga gerðarþolar í óskiptri sameign. Eigninni er skipt þannig milli aðila samkvæmt veðbandayfirliti að gerðarbeiðandi á efri hæð hússins og 3 herbergi í kjallara en gerðarþolar neðri hæð hússins og 3 herbergi í kjallara. Og samkvæmt skiptasamningi frá 20. nóvember 1968 er sameiginleg eign og afnot af tröppum og forstofu, ásamt gangi í kjallara, miðstöðvarklefa, klósetti og geymslu undir tröppum. Þá er einnig sameiginlegur lóðarhluti við kjallarainngang að norðurhorni hússins.
Af hálfu gerðarþola er upplýst að þau hafi fest kaup á eigninni 2002 og fengið hana afhenta 1. nóvember sama ár. Við afhendingu hafi þeim verið ljóst að ekki var fyrir hendi þvotthús og hafi þau litið svo á að eina leiðin til að leysa þetta vandamál væri að nýta hlut sameignarrýmis í kjallara í þessu skyni, þ.e. hluta sem á sínum tíma var notaður sem miðstöðvarherbergi. Hafi þau hafist handa 16. apríl 2003 og lokið breytingum 21. sama mánaðar.
Gerðarbeiðandi byggir á því að gerðarþolar hafi tekið miðstöðvarherbergi hússins til einkanota sem þvottahús og geymslu, m.a. um tíma fyrir gaskút, en herbergið hafi undanfarin ár verið nýtt sem sameiginleg geymsla undir reiðhjól o.fl. ásamt því að hýsa hitaveitumæla. Ekkert samráð hafi verið haft við gerðarbeiðanda um þessar breytingar á nýtingu sameignar en gerðarþolum sé óheimilt á eigin spýtur að framkvæma nokkrar breytingar á sameigninni eða helga sér til einkanota hluta sameignarinnar án samþykkis hans, sbr. 19., 35., 36. og 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Byggt er á því að skorað hafi verið á gerðarþola með ábyrgðarbréfi 4. júlí sl. að láta af umræddri háttsemi og rýma herbergið án tafar án þess að þau hafi sinnt því.
Gerðarþolar byggja á því að samkomulag hafi verið við gerðarbeiðanda þegar þau réðust í það að breyta umræddu miðstöðvarherbergi þannig að það mætti nýtast sem sameiginlegt þvottahús fyrir þau og gerðarbeiðanda. Með því hafi þau ekki takmarkað rétt gerðarbeiðanda til að hagnýta herbergið með sanngjörnum og eðlilegum hætti, sbr. 35. gr. laga nr. 26/1994.
Niðurstaða: Gegn andmælum gerðarbeiðanda liggur ekki fyrir að orðið hafi að samkomulagi að gerðarþolar mættu nýta sameiginlegt miðstöðvarherbergi sem þvottahús með þeim útbúnaði, sem til þess þurfti, og gerðarþolar komu þar fyrir.
Ekki getur talist eðlileg og sanngjörn hagnýting á miðstöðvarherbergi í óskiptri sameign í fjöleignarhúsi að eigendur og aðrir afnotahafar noti það til annars en því er ætlað, auk þess sem einstökum eigendum verður ekki fenginn aukinn og sérstakur réttur til hagnýtingar sameignar umfram aðra eigendur nema allir eigendur ljái því samþykki með formlegum og sannanlegum hætti.
Samkvæmt framangreindu verður því fallist á kröfur gerðarbeiðanda svo sem segir í úrskurðarorði.
Páll Þorsteinsson hérðasdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Þvottavél gerðarþola, Sigfúsar Ómars Höskuldssonar og Ásdísar Bjarnadóttur, og annar útbúnaður og tengingar, er varða nýtingu miðstöðvarherbergis hússins að Guðrúnargötu 4 hér í borg sem þvottahúss, og gerðarþolar hafa sett þar, skal fjarlægt þaðan með beinni aðfarargerð.
Gerðarþolar greiði gerðarbeiðanda, Þorsteini Þorsteinssyni, óskipt 100.000 kr. í málskostnað.