Hæstiréttur íslands

Mál nr. 342/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 3

 

Miðvikudaginn 3. ágúst 2005.

Nr. 342/2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Böðvar Bragason lögreglustjóri)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með þeirri breytingu að gæsluvarðhaldinu var markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júlí 2005. Kærumálsgögn bárust réttinum 2. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júlí 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. september 2005 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Varnaraðili hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli d. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 allt frá 23. apríl 2005. Svo sem fram kemur í dómi Hæstaréttar 25. maí 2005 í máli nr. 215/2005 er þessi lagaheimild háð því að hvorki verði óhæfilegur dráttur á rannsókn né ákvörðun um ákæru og mál síðan rekið með viðhlítandi hraða. Þann 4. júlí 2005 staðfesti Hæstiréttur í máli nr. 297/2005 úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að varnaraðili skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengi í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 29. júlí 2005 kl. 16.00, en ákæra hafði á þessum tíma verið gefin út á hendur varnaraðila vegna þeirra sakargifta sem frelsissvipting hans byggist á. Nú er enn krafist framlengingar á gæsluvarðhaldsvistinni að því er virðist eingöngu á þeirri forsendu að beðið sé niðurstöðu dómkvaddra matsmanna til að leggja mat á geðhagi varnaraðila, en þeir voru dómkvaddir til verksins 6. júlí 2005.

Við mat á því hvort fyrrgreindu skilyrði d. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt verður að líta til þess heildartíma sem meðferð máls varnaraðila hefur tekið. Hann hefur nú sætt gæsluvarðhaldi í rúma þrjá mánuði og krafa sóknaraðila í þessu máli ráðgerir að gæsluvarðhaldstíminn verði framlengdur upp í rúma fimm mánuði. Ekki er unnt að fallast á að meðferð á máli varnaraðila þurfi að taka svo langan tíma. Verður gæsluvarðhaldstíma varnaraðila markaður sá tími sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til mánudagsins 5. september 2005 kl. 16.00.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júlí 2005.

Ár 2005, föstudaginn 29. júlí, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Eggerti Óskarssyni héraðsdómara.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði með vísan til d-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 23. september 2005 kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að þann 28. júní sl. hafi ríkissaksóknari gefið út ákæru á hendur X fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga vegna árásar á A, prófessor, og fyrir hótanir í hans garð. Þá hefur lögreglustjórinn í Reykjavík gefið út ákæru á hendur honum vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni og fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa haft í hótunum við B og fjölskyldu hans. Í ákærum þessum sé þess aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar en til vara að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.

Málsatvikum er lýst svo að í rúm tvö ár hafi ákærði áreitt B og fjölskyldu hans sem búsett er í Danmörku. Hafi ákærði haft í hótunum við þau og tjáð þeim að hann hafi í hyggju að vinna A mein. Jafnframt hafði ákærði í hótunum við A sjálfan og eiginkonu hans. Lögreglan hafði nokkrum sinnum samband við A til að vara hann við ákærða og gerði lögreglan ráðstafanir til að fylgjast með heimili A. Í apríl sl. virtist ákærði færast í aukana og þann 22. apríl sl. réðst ákærði á A fyrir utan heimili hans og sló hann nokkur hnefahögg í andlit og líkama auk þess sem hann hótaði honum frekari ófarnaði.

[...]

Með úrskurði héraðsdóms þann 23. apríl sl. var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til 20. maí sl. og jafnframt var honum gert að sæta geðrannsókn. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með dómi þann 26. apríl sl. Þann 20. maí sl. var ákærða með úrskurði héraðsdóms gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 1. júlí sl. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn með dómi þann 25. maí sl. Þann 1. júlí sl. var ákærði úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag. Með dómi Hæstaréttar þann 4. júlí sl. var úrskurðurinn staðfestur. Ákæra ríkissaksóknara á hendur ákærða var þingfest þann 6. júlí sl. og játaði ákærði árásina á A og að hafa haft í hótunum við hann en taldi heimfærslu brota til 106. gr. almennra hegningarlaga ekki standast. Ákærði hafnaði niðurstöðu geðrannsóknar sem hann gekkst undir og krafðist þess að dómkvaddir yrðu matsmenn til að leggja mat á geðhæfi hans. Dómari varð við þeirri ósk ákærða og kvaddi til tvo geðlækna til að framkvæma matið og óskaði þess að matsgjörðinni yrði lokið svo fljótt sem auðið væri. Málið verður tekið fyrir þann 2. september nk. og sé þess vænst að matsgerðin liggi þá fyrir og unnt verði að taka ákvörðun um aðalmeðferð málsins.

Rannsóknargögn bera með sér að A og öðrum stafar mikil hætta af ákærða og beri með sér að ákærði færðist mjög í aukana síðustu dagana fyrir handtöku hans. Í niðurstöðu geðrannsóknar sem Tómas Zoëga, geðlæknir, framkvæmdi á ákærða kemur fram að ákærði sé veikur á geði og sé enn hættulegur öðrum. Telur geðlæknirinn að brýna nauðsyn beri til að hann fái viðeigandi meðferð og að mikilvægt sé að hann sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Verður því að telja nauðsynlegt til verndar öðrum að ákærði sæti gæsluvarðhaldi áfram meðan mál hans sé til meðferðar fyrir héraðsdómi.

Krafa um gæsluvarðhald byggist d-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.  Með vísan til framanritaðs og framlagðra gagna sé þess krafist að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.

Varnaraðili hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 frá 23. apríl 2005. Með dómi Hæstaréttar 26. apríl sl. í máli nr. 169/2005 var komist að þeirri niðurstöðu að úrræði samkvæmt 110. gr. a laga nr 19/1991 veitti við komandi einstaklingum ekki nægilega vernd fyrir ákærða.  Verður að telja að atvik máls séu óbreytt að þessu leyti og nálgunarbann því ekki fullnægjandi úrræði.  Með vísan til dóms Hæstaréttar 25. maí sl. í máli nr. 215/2005, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 4. júlí sl. í máli nr. 297/2005, og gagna málsins, verður talið að skilyrðum greinds ákvæðis sé fullnægt fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Er þá einnig litið til þess að gefnar hafa verið út ákærur í málinu, þær þingfestar og málið á hendur ákærða er rekið með viðhlítandi hætti. Engin efni þykja vera til að gæsluvarðhaldinu sé markaður skemmri tími en krafist er.  Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu rannsóknara um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.            

Úrskurðarorð:

Ákærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 23. september 2005 kl. 16.00.