Hæstiréttur íslands
Mál nr. 184/2005
Lykilorð
- Kaupgjaldsmál
- Uppsögn
- Varnarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 3. nóvember 2005. |
|
Nr. 184/2005. |
Íslenska ríkið(Óskar Thorarensen hrl.) gegn Rafiðnaðarsambandi Íslands (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Kaupgjaldsmál. Uppsögn. Varnarsamningur.
Deilt var um hvort varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hefði verið heimilt að segja upp greiðslu dagslegs rútufargjalds og skerða greiðslu yfirvinnukaups á ferðatíma til félagsmanna RÍ, sem störfuðu fyrir varnarliðið. Upplýst var að greiðslum fyrir ferðakostnað til íslenskra starfsmanna varnarliðsins hafði verið komið á með ákvörðun kaupskrárnefndar árið 1955. Þá lá fyrir að kaupskrárnefnd hafði haft afskipti af ferðatímagreiðslum íslenskra starfsmanna varnarliðsins og úrskurðað árið 2000 að slíkar greiðslur til félagsmanna RÍ skyldu haldast óbreyttar frá því sem verið hafði. Með vísan til 6. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, sem mælir fyrir um að kaupskrárnefnd úrskurði um starfskjör íslenskra starfsmanna varnarliðsins, var talið að varnarliðinu hefði ekki verið unnt að fella þessar greiðslur niður einhliða. Viðurkenningarkrafa RÍ, um að uppsagnir á þeim væru ólögmætar, var því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. maí 2005 og krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Rafiðnaðarsambandi Íslands, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Rafiðnaðarsambandi Íslands, Stórhöfða 31, Reykjavík, á hendur utanríkisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins [...], vegna varnarliðsins í Keflavík, með stefnu birtri 2. febrúar 2004.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að uppsagnir varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli á hluta starfstengdra kjara félagsmanna hjá RSÍ sem eru í starfi hjá varnarliðinu, annars vegar uppsögn á greiðslu daglegs rútufargjalds og hins vegar uppsögn á hluta af greiðslu fyrir ferðatíma sem tilkynntar voru fyrir 1. nóvember 2003, séu ólögmætar.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Málavextir
Með bréfum starfsmannastjóra varnarliðsins dags. 28. október 2003, sbr. og leiðréttingu í bréfi, dags. 12. nóvember 2003, var stórum hópi félagsmanna stefnanda, sem er í starfi hjá varnaliðinu tilkynnt um uppsagnir á starfstengdum kjörum með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá og með 1. nóvember 2003. Var þar annars vegar um að ræða greiðslu á daglegu rútufargjaldi sem yrði hætt eftir 31. janúar 2004 og hins vegar greiðslu fyrir ferðatíma, sem yrði lækkuð úr 80 mínútum í 40 mínútur á yfirvinnutaxta fyrir hvern vinnudag eftir 31. janúar 2004.
Uppsögnum þessum var mótmælt af stefnanda með bréfum dags. 8. desember 2003 og 16. janúar 2004 og eins af hálfu Alþýðusambands Íslands með bréfi dags. 26. janúar 2004 og þess farið á leit að þær yrðu dregnar til baka.
Í málinu er um það deilt hvort starfsmannahaldi varnarliðsins hafi verið heimilt að segja upp starfskjörum þessum einhliða.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir á því að hin starfstengdu kjör séu ákveðin með úrskurði kaupskrárnefndar og því utan umráðasvæðis starfsmannahalds varnarliðsins.
Stefnandi byggir málshöfðun sína á 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi sé stéttarfélag þeirra manna sem sagt hafi verið upp og krefst viðurkenningar á því að réttindi félagsmanna sinna hafi verið brotin í þessu sambandi. Hér sé um lögvarða hagsmuni að ræða, uppsagnir á tilteknum starfskjörum manna, en ekki lögspurning, sem beint sé til dómsins.
Stefnandi beinir kröfum sínum að utanríkisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins vegna varnarliðsins í Keflavík, á grundvelli laga nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess en í 4. tl. 6. gr. viðbætis við varnarsamninginn segir m.a. að starfsráðningar hjá liði Bandaríkjanna skuli framkvæmdar með aðstoð og um hendur þess eða þeirra fyrirsvarsmanna sem af Íslands hálfu séu til þess kvaddir. Þá segir að ráðningarkjör og vinnuskilyrði, einkum vinnulaun, launauppbætur og öryggisráðstafanir við vinnu skuli fara að íslenskum lögum og venjum.
Þá byggir stefnandi kröfur sínar á 5. og 6. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Samkvæmt 5. gr. auglýsi utanríkisráðuneytið laus störf hjá varnarliðinu og taki á móti umsóknum um þau en í 6. gr. sé kveðið á um að íslenskir starfsmenn varnarliðsins á Íslandi skuli búa við sambærileg starfskjör og aðrir íslenskir launamenn. Í 6. gr. komi einnig fram að utanríkisráðherra skipi kaupskrárnefnd sem úrskurði um ráðningarkjör, launakjör og vinnuskilyrði íslenskra starfsmanna varnarliðsins þar sem varnarliðið sé ekki aðili að kjarasamningum.
Krafa stefnanda byggist á því að kaupskrárnefnd hafi kveðið á um það í úrskurðum sínum að starfsmenn skuli annars vegar fá greiðslu vegna ferða og hins vegar fá greiðslu vegna þess tíma sem fari í ferðir. Ákvörðun kaupskrárnefndar frá 9. nóvember 2000 sé síðasta ákvörðun kaupskrárnefndar sem fjalli um þessi kjör rafiðnaðarmanna. Í úrskurðarorðum segir meðal annars. Viðmiðun fyrir breytingar á launum og kjaraatriðum rafiðnaðarmanna í þjónustu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli skal vera sem hér segir:
1. Uppbygging launa og kjaraatriða skal haldast óbreytt frá því sem nú er og kemur fram á launaseðlum, þ.m.t. launaflokkar og launastigi, reglur um röðun í launaflokka, kaupaukar og álag á laun, útreikningar launa og kjaraatriða svo og greiðslur fyrir ferðatíma.
2. Sérákvæði eða sérstök tilhögun um vinnutíma, vaktavinnu, þrif o.fl. sem þróast hefur og er í gildi fyrir rafiðnaðarmenn hjá varnarliðinu, skal vera óbreytt. Réttur til orlofs og réttur til launa í veikindum skal haldast óbreyttur frá því sem nú er.
3. Að öðru leyti en greinir í 1. og 2. tölulið þessa úrskurðarorða skulu kjör rafiðnaðarmanna hjá varnarliðinu miðast við kjarasamning Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins eftir því sem við getur átt.
Þar sem í úrskurði kaupskrárnefndar sé kveðið á um að uppbygging kjaraatriða skuli haldast óbreytt frá því sem var svo og greiðslur fyrir ferðatíma þá hafi starfsmannahald varnarliðsins ekki heimild til að segja þessum ákvæðum upp með uppsagnarfresti viðkomandi einstaklinga. Úrskurðir kaupskrárnefndar séu fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi, nema í þeim tilvikum þar sem utanríkisráðherra heimili í reglugerð kæru til kærunefndar kaupskrárnefndar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 82/2000.
Í handbók starfsmannahalds varnarliðsins sé greint frá tildrögum ferðakostnaðar, bæði greiðslu ferðakostnaðar og greiðslu ferðatíma. Þar segi að í bréfi frá 24. maí 1955 hafi kaupskrárnefnd ákveðið að starfsmenn sem byggju á höfuðborgarsvæðinu fengju greiðslu sem næmi kostnaði á fargjaldi til og frá heimili. Enn fremur segir þar að ákvörðun um greiðslu 80 mínúta á dag í ferðatíma sé að rekja til ákvörðunar kaupskrárnefndar frá 1970. Þessar greiðslur séu því báðar upphaflega ákvarðaðar af kaupskrárnefnd.
Kaupskrárnefnd hafi ekki breytt þessum ákvörðunum í úrskurðum sínum og með vísan til áður tilvitnaðra lagaákvæða sem gildi um ákvörðun kjara launafólks í starfi hjá varnarliðinu í Keflavík verði þessum hlunnindum ekki sagt upp einhliða af starfsmannahaldi varnarliðsins.
Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggir á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Varðandi varnarþing er vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991.
Um aðild og fyrirsvar er vísað til 17. gr. laga nr. 91/1991 svo og til laga nr. 110/1951.
Málsástæður stefnda
Fargjöld.
Af hálfu stefnda er byggt á því að í bréfi kaupskrárnefndar til yfirmanns starfsmannamála varnarliðsins, dagsettu 24. maí 1955, komi fram, að nefndin hafi heimilað varnarliðinu að greiða starfsmönnum, búsettum í Reykjavík eða á leiðinni frá Njarðvíkum til Reykjavíkur, 30 krónur á vinnudag í ferðapeninga (í fyrirsögn komi fram, að hér sé um greiðslu fargjalda að tefla). Þessar greiðslur hafi síðan verið hækkaðar með ákvörðun kaupskrárnefndar 16. maí 1960.
Af bréfinu frá 24. maí 1955 sé ljóst að ákvörðun um greiðslu fargjalda hafi verið tekin af varnarliðinu, ekki kaupskrár- eða varnarmálanefnd. Af gögnum frá 1953, sem liggi fyrir í þessu máli sé jafnframt ljóst að fargjöld hafi komið í stað ferða sem varnarliðið lagði starfsmönnum til, búsettum á Keflavíkur-/Njarðvíkursvæðinu.
Þar sem hvorki kaupskrár- né varnarmálanefnd hafi tekið ákvörðun um skyldu varnarliðsins til greiðslu þessara fargjalda, hafi varnarliðið haft heimild til þess að fella slíkar greiðslur niður, eða skerða þær, að gættum ákvæðum um uppsagnarfrest.
Ferðatími.
Úrskurðarorð úrskurðar í máli nr. 4/2000 séu réttilega tilgreind í stefnu málsins. Sá alvarlegi annmarki sé á úrskurðinum að hann vísi til greiðslna fyrir ferðatíma eins og þær hafi áður verið ákveðnar af kaupskrárnefnd á þann hátt sem þær hafi verið greiddar. Þetta sé ekki rétt. Með fundargerð varnarmálanefndar frá 5. nóvember 1957 sé m.a. birt bráðabirgðasamkomulag (tentative agreement) á milli Verkalýðsfélags Keflavíkur og yfirmanna varnarliðsins frá 8. janúar 1953, svo og sé orðsending yfirmanns varnarliðsins til utanríkisráðuneytis, dags. 5. nóvember 1957. Í bráðabirgðasamkomulaginu komi fram á bls. 2 að fyrir ferðatíma verði greitt samkvæmt dagvinnutaxta, en eingöngu frá tilteknum stöðum á Keflavíkur-/Njarðvíkursvæðinu. Í tölulið 4 í orðsendingunni frá 5. nóvember 1957 komi einnig fram staðfesting þess að samkomulag hafi verið um greiðslu 2x20 mínútna ferðatíma.
Í fundargerð varnarmálanefndar frá fundi nr. 482, sem haldinn var 8. október 1968, komi fram að frá og með 1. október hafi verið ákveðið að hætta greiðslu 80 mínútna ferðatíma til þeirra sem búa á Reykjavíkursvæðinu og ráðnir voru eftir 1. október 1968, en þess í stað verði þeim greiddar 40 mínútur eins og þeim sem búsettir séu á Keflavíkur-/Njarðvíkursvæðinu. Í fundargerð fundar varnarmálanefndar nr. 517, sem haldinn var 10. mars 1970, komi fram sú krafa formanns kaupskrárnefndar að öllum sem búa á sama svæði verði greidd sama ferðatímagreiðsla, óháð því hvenær þeir voru ráðnir. Í fundargerð fundar varnarmálanefndar nr. 647, haldinn 11. nóvember 1975, komi m.a. fram að kaupskrárnefnd vilji ekki skipta sér af ferðatímagreiðslum (portal-to-portal pay), þar sem ákvörðun um slíkar greiðslur hafi ekki verið borin undir kaupskrárnefnd, þegar þær voru teknar upp. Þetta hafi síðan verið ítrekað í fundargerð fundar varnamálanefndar nr. 671, 17. ágúst 1976.
Samkvæmt þessu sé ljóst og á því byggt af hálfu stefnda að upphaflegar ákvarðanir um greiðslu ferðatíma hafi verið teknar einhliða af varnarliðinu, en ekki ákveðnar af kaupskrárnefnd eða varnarmálanefnd. Einu afskipti þeirra nefnda af þessum greiðslum hafi varðað það að sama væri greitt til þeirra sem búa á sama svæði, óháð ráðningartíma. Þar sem greiðslur þessar hafi verið ákveðnar einhliða af varnarliðinu og tilkynntar hverjum einstökum starfsmanni hafi varnarliðið getað ákveðið að fella þær niður að gættum uppsagnarfresti. Greiðslurnar hafi að sjálfsögðu komið fram á launaseðlum, eins og skylt sé. Leggja verði á það áherslu að ákvörðun kaupskrárnefndar í máli nr. 4/2000 hafi verið um staðfestingu þeirrar tilhögunar, sem verið hafði, en ekki sérstök ákvörðun um greiðslu ferðatíma, enda komi ekki fram í úrskurðinum hver ferðatíminn ætti að vera, sem nauðsynlegt hefði verið ef málið hefði varðað lengd hans. Allt þetta megi glöggt sjá þegar lesnar séu forsendur úrskurðarins, sem fjallaði um kröfu Rafiðnaðarsambands Íslands um breytingu á viðmiðunarkjarasamningi fyrir rafiðnaðarmenn í störfum hjá varnarliðinu.
Samkvæmt þessu sé ekkert hald í þeirri fullyrðingu að með þessum úrskurði hafi kaupskrárnefnd tekið sérstaka ákvörðun um lengd ferðatíma hjá einstökum starfsmönnum og er henni mótmælt sem rangri. Varnarliðið hafi tekið einhliða ákvörðun um greiðslu ferðatíma og lengd hans eftir búsetu, þessi ákvörðun hafi verið hluti af ráðningarkjörum hvers einstaks starfsmanns og varð því sagt upp samkvæmt ákvæðum um uppsagnarfrest. Kynning ferðatíma og lýsing tildraga hans í handbók varnarliðsins geti ekki komið í stað þeirra ákvarðana, sem teknar hafi verið af varnarliðinu, eða eins og hér um ræðir, hafi ekki verið teknar af kaupskrárnefnd/varnarmálanefnd þannig að þær yrðu ígildi kjarasamnings.
Þá er á því byggt af hálfu stefnda að uppsagnir varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli á hluta starfstengdra kjara félagsmanna hjá stefnanda, RSÍ, sem eru eða voru í starfi hjá varnarliðinu, annars vegar uppsögn á greiðslu daglegs rútufargjalds og hins vegar uppsögn á hluta af greiðslu fyrir ferðatíma, sem um er deilt í þessu máli, hafi verið lögmætar. Starfsmannahaldi varnarliðsins hafi verið heimilt að segja þessum ákvæðum upp með uppsagnarfresti viðkomandi einstaklinga og sé öðru mótmælt sem röngu.
Ákvarðanir um greiðslu framangreindra gjalda hafi í upphafi verið teknar einhliða af varnarliðinu, þær hafi því ekki verið ígildi kjarasamningsákvæða, eins og sé um ákvarðanir eða úrskurði kaupskrárnefndar. Jafnframt sé ljóst, að ákvarðanir um hvort tveggja hafi verið börn síns tíma og miðist við allt aðra atvinnu- og ferðahætti en nú tíðkist. Framangreindar ákvarðanir hafi verið teknar með löglegum hætti í alla staði.
Á því er byggt að þeim kröfum sem einstakir félagsmenn stefnanda hafi átt til greiðslnanna hafi lokið við gildistöku uppsagna með bréfum 28. október 2003 og að þeir eigi ekki frekari kröfur vegna þessa.
Stefndi mótmælir öllum rökum og málsástæðum stefnanda. Sérstaklega er því mótmælt að hin umdeildu starfstengdu kjör hafi verið ákveðin af kaupskrárnefnd og hafi því verið utan umráðasviðs starfsmannahalds varnarliðsins.
Auk framangreinds vísar stefndi til meginreglna vinnuréttar. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.
NIÐURSTAÐA
Í 4. tl. 6. gr. viðbætis við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna um réttarstöðu liðs Bandaríkjamanna og eignir þeirra, sem hlaut lagagildi með lögum nr. 110/1951, kemur fram að varnarliðið óskaði eftir því að ráða Íslendinga til starfa í sambandi við framkvæmd varnarsamningsins. Samkvæmt því lagaákvæði voru þær starfsráðningar háðar samþykki íslenskra stjórnvalda og einnig skyldu þær framkvæmdar með aðstoð og um hendur íslenskra stjórnvalda. Um ráðningarkjör og vinnuskilyrði skyldi fara að íslenskum lögum og venjum. Hefur utanríkisráðuneytið frá upphafi farið með framkvæmd varnarsamningsins af hálfu íslenskra stjórnvalda.
Í 6. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna segir að íslenskir starfsmenn varnarliðsins á Íslandi skuli búa við sambærileg starfskjör og aðrir íslenskir launamenn. Samkvæmt ákvæðinu skal utanríkisráðherra skipa kaupskrárnefnd sem úrskurði um ráðningarkjör, launakjör og vinnuskilyrði íslenskra starfsmanna varnarliðsins þar sem varnarliðið sé ekki aðili að kjarasamningum. Um kaupskrárnefnd varnarsvæða gilda nú reglur nr. 284/1999. Í 3. gr. þeirra reglna segir að hlutverk kaupskrárnefndar varnarsvæða sé að sjá til þess að þeir starfsmenn varnarliðsins eða erlendra verktaka þess á varnarsvæðum sem lúta íslenskum lögum, fái kaup og kjör og njóti þess öryggis og aðbúnaðar á vinnustað sem íslensk lög, kjarasamningar og venjur segja til um á hverjum tíma.
Í bréfi kaupskrárnefndar til yfirmanns starfsmannamála varnarliðsins, dagsettu 24. maí 1955, segir að nefndin hafi samþykkt að heimila varnarliðinu að greiða starfsmönnum búsettum í Reykjavík eða á leiðinni frá Njarðvíkum til Reykjavíkur 30 krónur á vinnudag í ferðapeninga (fargjöld) frá og með 1. febrúar 1955. Af orðalagi bréfs þessa er ljóst að um ákvörðun kaupskrárnefndar var að ræða, sem um það hafði úrskurðarvald. Skiptir þá ekki máli með hvaða hætti þessar greiðslur komust á í upphafi. Þessar greiðslur voru hækkaðar með ákvörðun kaupskrárnefndar 16. maí 1960 og hafa síðan um áratuga skeið verið starfstengd kjör félagsmanna stefnanda þar til þeim var sagt upp af starfsmannahaldi varnarliðsins með bréfum dags. 28. október 2003. Eins og fram kemur í 6. gr. laga nr. 82/2000 er það hlutverk kaupskrárnefndar að úrskurða um starfskjör íslenskra starfsmanna varnarliðsins þar sem varnarliðið er ekki aðili að kjarasamningum. Ákvörðun kaupskrárnefndar um greiðslu daglegs rútufargjalds samkvæmt framansögðu hafði því ígildi kjarasamningsákvæðis sem óheimilt var að segja upp einhliða af varnarliðinu.
Að því er varðar greiðslur fyrir ferðatíma þá liggur fyrir samkvæmt úrskurði kaupskrárnefndar frá 9. nóvember 2000 að þær skulu haldast óbreyttar frá því sem verið hefur. Áður hafði kaupskrárnefnd haft afskipti og samráð við fulltrúa varnarliðsins varðandi tilhögun á ferðatímagreiðslum, eins og framlagðar fundargerðir varnarmálanefndar bera með sér. Í handbók um launakjör íslenskra stafsmanna hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli er rakin þróun á ferðatímagreiðslum. Þar segir svo í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda: “Í skilmálum sem birtir voru 1954 kom fram að íslenskum starfsmönnum voru veittar 40 mínútur daglega til ferða til og frá vinnu. Sá tími var miðaður við venjulegan ferðatíma í leigðri rútu eða herrútu frá Keflavík til Keflavíkurflugvallar. Starfsmenn af Reykjavíkursvæðinu fengu sömu ferðagreiðslur fram á fyrri hluta árs 1963 þegar starfsmönnum þaðan voru veittar 80 mínútur á dag sem bætur fyrir þann tíma sem það tók að komast til og frá vinnu. Tilraun var gerð af varnarliðinu til að lækka ferðagreiðslurnar frá Reykjavík í sömu fjárhæð og þær voru frá Keflavík með því að neita að greiða meira en sem nam 40 mínútum á dag til nýrra starfsmanna á Reykjavíkursvæðinu. En frá og með 1. júlí 1970 var þessi tilhögun endurskoðuð að beiðni launanefndarinnar og öllum starfsmönnum frá Reykjavíkursvæðinu veittar ferðagreiðslur sem samsvaraði 80 mínútum á dag.”
Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til ganga málsins liggur fyrir að kaupskrárnefnd hefur haft veigamikil afskipti af ferðatímagreiðslum íslenskra starfsmanna varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli gegnum tíðina, síðast með afgerandi hætti samkvæmt úrskurði nefndarinnar frá 9. nóvember 2000. Með sömu rökum og að framan greinir varðandi greiðslu rútufargjalds var varnarliðinu ekki heldur heimilt að skerða greiðslur fyrir ferðatíma með uppsögn með þeim hætti sem gert var.
Ber því að fallast á viðurkenningarkröfur stefnanda eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 425.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar að fjárhæð 29.312 krónur samkvæmt reikningi.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Viðurkennt er að uppsagnir varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli á hluta starfstengdra kjara félagsmanna hjá Rafiðnaðarsambandi Íslands, sem eru í starfi hjá varnarliðinu, annars vegar uppsögn á greiðslu daglegs rútufargjalds og hins vegar uppsögn á hluta af greiðslu fyrir ferðatíma sem tilkynntar voru fyrir 1. nóvember 2003 séu ólögmætar.
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, 425.000 krónur í málskostnað.