Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-72

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Þóri Heiðari Þorsteinssyni (Höskuldur Þór Þórhallsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skattalög
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Virðisaukaskattur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 25. maí 2023 leitar Þórir Heiðar Þorsteinsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 28. apríl 2023 í máli nr. 11/2022: Ákæruvaldið gegn Þóri Heiðari Þorsteinssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfestur dómur héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa á nánar tilgreindum tímabilum sem starfandi framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi PT-ferða ehf. látið hjá líða að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins og staðgreiðslu sem haldið var eftir af launum starfsmanna þess.

4. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að lög nr. 29/2021 um rannsókn og saksókn skattalagabrota, sem tóku gildi 1. maí 2021 og fyrirmæli ríkissaksóknara um meðferð skattamála nr. 6/2021 frá 25. ágúst 2021, sem sett voru á grundvelli 21. gr. laga nr. 88/2008, breyttu engu um refsinæmi brota leyfisbeiðanda eða lögbundin viðurlög við þeim. Þá vísaði Landsréttur til þess að í málinu hefði legið fyrir tölvupóstur frá Skattinum til ákæruvaldsins 3. janúar 2023 þar sem ráðstöfun greiðslna frá einkahlutafélaginu hefði verið skýrð. Þar kom fram að félagið hefði greitt upp nýlegar skuldir samhliða greiðsluáætlun og greiðslum hefði verið ráðstafað samkvæmt fyrirmælum þess. Í málinu væri ekkert fram komið um að ráðstöfun greiðslna sem bárust frá félaginu hefði ekki verið í samræmi við samkomulag um greiðsluáætlun og reglur nr. 797/2016.

5. Leyfisbeiðandi telur að málið varði mikilvæga hagsmuni sína og að úrlausn Hæstaréttar hafi verulega almenna þýðingu. Vísar hann til þess að mál á hendur sér hafi ekki verið höfðað fyrr en eftir gildistöku laga nr. 29/2021 en í fordæmum sem Landsréttur vísi til hafi ákæra verið gefin út áður en lögin hafi tekið gildi. Mikilvægt sé að Hæstiréttur fjalli um refsinæmi verknaðar sem ákært er fyrir eftir setningu laganna. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Niðurstaða dómsins sé að hluta til reist á tölvupósti sem sendur hafi verið til ákæruvaldsins frá Skattinum en hann hafi ekki legið fyrir þegar málið var flutt í héraðsdómi. Þá hafi sérfræðingur Skattsins sem sendi tölvupóstinn ekki verið leiddur fyrir dóm til að staðfesta innihald hans og nafn sérfræðingsins komi hvergi fram í gögnum málsins. Innihald tölvupóstsins sé í beinni andstöðu við skýrslu rannsakandans í málinu en þar komi fram að ekki hafi verið staðið við greiðsluáætlun.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.