Hæstiréttur íslands

Mál nr. 152/2006


Lykilorð

  • Hótanir
  • Ávana- og fíkniefni
  • Upptaka
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. september 2006.

Nr. 152/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Bjarka Þór Péturssyni

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

 

Hótanir. Ávana- og fíkniefni. Upptaka. Skilorðsrof.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og fjögurra mánaða fangelsisrefsingu B vegna hótana, sem hann hafði haft  uppi við nafngreindan mann og lögreglumann,  sem í kjölfarið handtók hann.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. febrúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu og upptöku fíkniefna, en þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins um sakfellingu fyrir ólögmætar hótanir í garð nafngreinds manns og eins þeirra lögreglumanna, sem í framhaldi stóðu að handtöku ákærða.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Bjarki Þór Pétursson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 245.000 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

         

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 11. janúar 2006.

Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn á Akranesi með ákæru 18. maí 2005 á hendur ákærða, Bjarka Þór Péturssyni, [kt. og heimilisfang]. Málið var dómtekið 15. desember 2005.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir eftirgreind hegningar- og fíkniefnalagabrot, framin aðfaranótt laugardagsins 12. mars 2005 á Akranesi, með því að hafa:

I.

Inni á gangi íbúðarhúsnæðis að A, hótað B, [kt.], íbúa hússins því að bana honum vegna kæru föður B á hendur ákærða og að kveikja í heimili hans þannig að fjölskylda hans brynni inni. Í framhaldi þess fyrir utan húsið hótað B bana og líkamsmeiðingum á nýjan leik en hótanir ákærða voru til þess fallnar að vekja B ótta um velferð sína og fjölskyldu sinnar.

II.

Í lögreglubifreið á leið frá A áleiðis á lögreglustöðina Þjóðbraut 13, hótað Þóri Björgvinssyni, lögregluvarðstjóra á Akranesi, lífláti að fjölskyldu hans ásjáandi og að lífláta konu hans og börn en hótanirnar voru settar fram í framhaldi af handtöku lögreglu á ákærða vegna brots skv. I. lið ákærunnar og til þess fallnar að vekja Þóri ótta um velferð sína og fjölskyldu sinnar.

III.

Haft í vörslum sínum 0,16 g af amfetamíni á bifreiðastæði við A, er lögreglumenn höfðu afskipti af honum en lögreglan fann efnið við leit á ákærða á lögreglustöðinni og lagði hald á það í framhaldi af handtöku ákærða vegna brota skv. I. og II. lið ákærunnar.

IV.

Brot ákærða skv. I. og II. lið ákærunnar teljast varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 125. gr. laga nr. 82/1998. Brot ákærða skv. III. lið ákærunnar telst varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. 166. laga nr. 82/1998, sbr. lög nr. 68/20001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

V.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þess er jafnframt krafist að ofangreind samtals 0,16 g af amfetamíni verði gerð upptæk með dómi samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

 

Með bréfi sýslumannsins á Akranesi 18. júlí 2005 var II. hluti ákærunnar afturkallaður. Vegna sakargifta í þeim ákæruhluta gaf ríkissaksóknari síðan út ákæru á hendur ákærða 27. sama mánaðar og var það mál sameinað þessu máli. Í þeirri ákæru segir að málið sé höfðað á hendur ákærða

„fyrir hótunarbrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 12. mars 2005, í lögreglubifreið á leið frá A, áleiðis á lögreglustöðina að Þjóðbraut 13, Akranesi, ráðist að Þóri Björgvinssyni, lögregluvarðstjóra á Akranesi, þar sem hann gegndi skyldustörfum sínum í tengslum við handtöku ákærða skömmu áður, með hótunum um að lífláta Þóri að fjölskyldu hans ásjáandi, og að lífláta konu hans og börn.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“                                          

 

Loks gaf sýslumaðurinn í Borgarnesi út ákæru á hendur ákærða 9. desember 2005 og var það mál einnig sameinað þessu máli. Í ákærunni segir að málið sé höfðað á hendur ákærða

„fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot með því að hafa mánudagskvöldið 1. ágúst 2005, ekið bifreiðinni C, án þess að hafa ökuskírteini meðferðis og undir áhrifum áfengis (vínandamagns í blóði 0.92 ‰), frá Akureyri áleiðis til Akraness, en lögreglan stöðvaði akstur hans við bæinn Hvassafell í Norðurárdal, og að hafa haft í vörslum sínum 0,40 g af amfetamíni, en lögreglan fann efnin við leit undir mottu á gólfi bifreiðarinnar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, með áorðnum breytingum, og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974, með áorðnum breytingum, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 og reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Við aðalmeðferð málsins var fallið frá því ákæruatriði að ákærði hafi gerst sekur um fíkniefnalagabrot, svo sem rakið er í síðastgreindu ákæruskjali.

Af hálfu ákærða er gerð sú krafa að honum verði gerð svo væg refsing sem lög frekast leyfa og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

I.

Ákærði hefur fyrir dómi afdráttarlaust játað að hafa framið það brot sem greinir í III. hluta ákæru frá 18. maí 2005 og að hafa ekið að kvöldi 1. ágúst 2005 án þess að hafa ökuskírteini meðferðis og undir áhrifum áfengis frá Akureyri áleiðis til Akraness, svo sem nánar greinir í ákæru frá 9. desember 2005. Hefur verið fallið frá öðrum sakargiftum í þeirri ákæru, svo sem áður greinir. Játning ákærða er studd sakargögnum og verður málið að þessu leyti dæmt samkvæmt skýlausri játningu ákærða. Um málavexti er skírskotað til ákæru.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ákærði sakfelldur fyrir framangreind brot og varða þau annars vegar við 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, með áorðnum breytingum, og 1. mgr. 2., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, nr. 233/2001, með áorðunum breytingum, og hins vegar við 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, með áorðnum breytingum.

II.

1.

Aðfaranótt laugardagsins 12. mars 2005 barst lögreglunni á Akranesi tilkynning þess efnis að maður væri að reyna að brjótast inn í fjölbýlishúsið að A þar í bæ. Lögreglumen fóru á vettvang og hittu fyrir ákærða.

Í frumskýrslu lögreglu segir að ákærði hafi verið í mjög annarlegu ástandi vegna áfengisneyslu að ræða við B, sem er búsettur að A. Einnig kemur fram að lögreglumenn hafi rætt stuttlega við ákærða og spurt um erindi hans í húsinu en hann hafi ekkert viljað við þá ræða og beðið lögreglu að fara. Vegna frekari rannsóknar málsins hafi ákærða verið kynnt að hann væri handtekinn grunaður um tilraun til innbrots. Þá segir að ákærði hafi orðið mjög æstur þegar færa átt hann í handjárn og reynt að komast undan og því hafi þurft að beita hann valdi vegna mótþróa. Við það hafi ákærði hlotið skrámur á enni og hægri olnboga sem sennilega hafi komið þegar hann lá í götunni. Loks kemur fram í skýrslu lögreglu að ákærði hafi í lögreglubifreiðinni á leið á lögreglustöðina hótað Þóri Björgvinssyni, lögregluvarðstjóra, og meðal annars sagt að hann vissi hvar barn varðstjórans væri á leikskóla og hann ætlaði að ná í það og drepa. Jafnframt hafi ákærði sagt að hann ætlaði að skera varðstjórann á háls fyrir framan fjölskyldu hans.

Við leit á ákærða á lögreglustöðinni fundust 0,3 g af ætluðu fíkniefni sem reyndist við nánari athugun vera amfetamín. Þá kvartaði ákærði undan verk í öxl og var læknir fenginn til að líta á hann. Loks mætti B á lögreglustöðina umrædda nótt og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir hótanir í garð fjölskyldu B.

2.

Um nóttina eftir að ákærði var handtekinn dvaldi hann í fangaklefa á lögreglustöðinni. Undir hádegi daginn eftir var hann síðan yfirheyrður og sagðist hann þá ekkert muna eftir atburðum næturinnar. Hann hefði verið á dansleik kvöldið áður á veitingastaðnum Breiðin og verið mjög drukkinn. Hann sagðist þó muna eftir að hafa verið handtekinn og beitur harðræði af lögreglu. Aðspurður hvort ákærði hefði átt erindi að A sagði hann að þar byggi maður sem sakað hefði hann um að brjóta rúðu. Ákærði sagðist hafa verið búinn að ræða við manninn og vissi ekki hvað hann var að gera í húsinu um nóttina. Loks var ákærði spurður út í hótanir í garð Þóris Björgvinssonar, lögregluvarðstjóra, og kvaðst hann ekki muna eftir þeim.

3.

Ákærði  gaf skýrslu fyrir dómi og kannaðist við að hafa komið við umrædda nótt að A. Þangað kvaðst hann hafa farið til að hitta vin sinn, D, sem búsettur er á efri hæð hússins. Aftur á móti neitaði ákærði að fyrir honum hefði vakað að hitta fólk á neðri hæð hússins, þar sem B er búsettur, og kvaðst ákærði ekki hafa barið þar að dyrum. Tók ákærði einnig fram að þessu máli væri óviðkomandi eldra mál vegna rúðu sem brotin var í bifreið þeirrar fjölskyldu sem búsett er á neðri hæðinni.

Aðspurður sagði ákærði að fyrir utan húsið hefðu verið einhverjir strákar og væntanlega þar á meðal fyrrgreindur B. Ákærði kvaðst ekkert hafa rætt við þessa drengi og neitaði að hafa haft í hótunum við þá.

Ákærði lýsti því að lögregla hefði komið á vettvang og viljað hafa tal af sér en hann brugðist við því með að ganga á brott. Fjórir lögreglumenn hefðu þá fyrirvaralaust ráðist á sig og fært í handjárn. Á leiðinni á lögreglustöðina hefðu lögreglumenn síðan snúið upp á handleggi ákærða sem lá á maganum inni í lögreglubifreiðinni. Ákærði kvaðst hafa átt orðaskipti við lögreglumenn í bifreiðinni án þess að geta greint frá því nánar. Ákærði tók þó fram að hann hefði ekki verið með hótanir af neinu tagi.

Ákærði sagði að hann hefði hlotið nokkur meiðsl vegna framgöngu lögreglu og væri búinn að vera með verk í baki og öxl, auk þess að bólgna mikið um úlnlið. Af þessum sökum kvaðst ákærði hafa misst pláss á skipi.

Um skýrslu sína hjá lögreglu sagði ákærði að hann hefði enn verið undir áhrifum áfengis þegar hún var tekin. Hann hefði því takmarkað getað greint frá atburðum. Þegar af honum rann hefði hann hins vegar munað atvik betur.

4.

Vitnið, E, kom fyrir dóm og lýsti atburðum þannig að hún hefði vaknað um miðja nótt við að einhver var að berja á hurð að íbúð vitnisins. Vitnið kvaðst hafa klætt sig og hringt í son sinn, B, til að athuga hvort hann væri þar á ferð. Í kjölfarið hefði B síðan komið ásamt félögum sínum til að kanna hver ætti í hlut. Vitnið kvaðst hafa heyrt háværar samræður á ganginum fyrir utan íbúðina en ekki greint orðaskil. Því næst hefði ákærði farið út ásamt strákunum, en eftir skamma stund hefði B beðið vitnið að kalla eftir aðstoð lögreglu. Þegar út var komið sagði vitnið að ákærði hefði róast en síðan orðið æstur á ný þegar lögreglu bar að og verið með mótþróa við handtöku. Aðspurð sagði E að nokkrum vikum fyrir umræddan atburð hefði ákærði í annarlegu ástandi brotið framrúðu í bifreið vitnisins.

Vitnið, B, bar fyrir dómi að umrædda nótt hefði hann verið að aka um bæinn ásamt félögum sínum þegar móðir hans, E, hringdi og spurði hvort hann væri að banka á hurð íbúðarinnar. Hún hefði síðan beðið hann að koma og gæta að því hver væri við hurðina. Vitnið kvaðst þá hafa farið heim ásamt félögum sínum og komið að ákærða við hurðina. Vitnið sagði að ákærði hefði spurt hvað vitnið vildi og hvort það ætlaði að berja sig. Vitnið sagðist hafa innt ákærða eftir erindinu en þá hefði hann farið að ræða um framrúðu í bifreið fjölskyldunnar sem ákærði braut. Ákærði hefði síðan gengið út og þegar þangað var komið hefði hann verið með hótanir um að drepa vitnið og brenna fjölskyldu þess. Einnig hefði ákærði sagt að hann þekkti fólk í undirheimum og gæti látið vitnið hverfa. B kvaðst hafa farið að glugga íbúðarinnar og beðið móður sína að hringja á lögreglu. Þegar lögreglu bar að hefði ákærði brugðist illa við og sparkað í húsið og bifreið í eigu félaga vitnisins. Jafnframt sagði vitnið að ákærði hefði verið með hótanir í garð lögreglu. Aðspurður sagði B að hann tæki ekki mark á fólki undir áhrifum áfengis en hins vegar hefði honum liðið illa þegar ákærði hótaði að brenna fjölskyldu vitnisins.

Vitnið, F, sagði fyrir dómi að hann ásamt félögum sínum hefði komið að ákærða inni í stigagangi fjölbýlishússins þar sem hann hafði verið með læti. B hefði fengið ákærða til að koma út úr húsinu og þegar út var komið hefði ákærði verið með hótanir í garð B um að brenna fjölskyldu hans. Aðspurt sagði vitnið að ákærði hefði verið drukkinn og frekar æstur. Lögregla hefði síðan komið og handtekið ákærði, sem sýnt hefði mótþróa við handtökuna.

Vitnið, G, lýsti atburðum þannig fyrir dómi að móðir B hefði hringt í hann og beðið þá félaga að koma þar sem einhver væri inni í stigagangi að berja á íbúðarhurðina. Þar hefðu þeir komið að ákærða og hann farið út úr húsinu. Fyrir utan húsið hefði B verið að ræða við ákærða og þá hefði hann haft í hótunum við B um að gera honum eitthvað slæmt eða lemja hann en jafnframt hefðu hótanir þessar beinst að fjölskyldu B án þess að vitnið gæti lýst þeim hótunum nánar. Tilefni þessara hótana taldi vitnið vera kæru á hendur ákærða fyrir að hafa skemmt bifreið fjölskyldunnar. Aðspurt sagði vitnið að ákærði hefði verði ölvaður og sýnt mótþróa við handtöku.

Vitnið, H, bar fyrir dómi að hann og félagar hans hefðu verið að keyra um Akranes þegar móðir B hringdi og sagði að einhver væri að banka á hurðina hjá henni. Þeir hefðu þá farið heim til B og komið að ákærða. Vitnið sagði að þeir hefði reynt að róa ákærða en hann hefði verið með hótanir um að drepa þá félaga og brenna fjölskyldur þeirra en þessar hótanir hefðu aðallega beinst að B. Um ástand ákærða sagði vitnið að hann hefði verið drukkinn, æstur og ógnandi. Hann hefði síðan róast en orðið æstur á ný þegar lögreglu bar að. Við handtöku hefði ákærði sýnt mikinn mótþróa og verið með hótanir í garð lögreglumanna um að drepa þá og brenna fjölskyldur þeirra.

Vitnið, Þórir Björgvinsson, lögregluvarðstjóri, greindi frá því fyrir dómi að hann ásamt tveimur öðrum lögregluþjónum hefði verið á eftirlitsferð í lögreglubifreið þegar beiðni barst um aðstoð vegna innbrots að A. Á vettvangi sagði vitnið að lögregla hefði haft tal af ákærða og öðrum, en ákærði hefði brugðist illa við afskiptum lögreglu. Vegna ölvunar og ætlaðs innbrots hefði ákærði verið handtekinn en við handtökuna hefði hann veitt mikla mótspyrnu. Nánar lýsti vitnið þessu þannig að ákærði hefði verið beðinn að koma inn í lögreglubifreiðina en ekki orðið við því. Af þeim sökum hefði lögregla gripið í ákærða en þá komið til átaka og í þeim hefði lögregla dottið með ákærða. Þessu næst hefði ákærði verið færður í járn og yfir í lögreglubifreiðina. Á leiðinni á lögreglustöðina hefði vitnið ásamt öðrum lögreglumanni haldið ákærða sem barist hefði um á hæl og hnakka. Vitnið sagði að ákærði hefði í bifreiðinni verið með hótanir í garð lögreglumanna, en þær hefðu meðal annars beinst að vitninu og falið í sér að ákærði ætlaði að skera vitnið á háls og drepa börn þess. Aðspurður sagði Þórir að sér hefði verið illa brugðið við þetta þar sem ákærði væri þekktur af ofbeldi.

Vitnið, Helgi Pétur Ottesen, lögreglumaður, bar fyrir dómi að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu vegna innbrots. Á vettvangi hefði lögregla hitt ákærða fyrir mjög ölvaðan og æstan að ræða við íbúa hússins. Vitnið sagði að ákærði hefði brugðist illa við og beðið lögreglu að fara. Í þágu rannsóknar á hugsanlegu innbroti hefði hann hins vegar verið handtekinn. Við handtökuna hefði ákærði veitt mótþróa eftir mætti og því hefði verið nauðsynlegt að beita afli til að yfirbuga ákærða. Í lögreglubifreiðinni á leiðinni á lögreglustöðina hefði ákærða verið haldið af vitninu og Þóri Björgvinssyni en þá sagði vitnið að ákærði hefði verið með hótanir, einkum í garð Þóris. Nánar sagði vitnið að ákærði hefði sagt að hann vissi hvar barn eða börn Þóris væru í leikskóla og þangað ætlaði hann að ná í þau og drepa. Einnig hefði ákærði sagt að hann ætlaði að skera Þóri á háls að fjölskyldu hans viðstaddri. Aðspurt sagði vitnið að Þóri hefði verið brugðið af þessu tilefni.

Vitnið, Jóhanna Gestsdóttir, sagði fyrir dómi að tilkynning hefði borist lögreglu um innbrot ölvaðs manns að A. Á vettvangi hefði lögregla hitt fyrir ákærða og hóp drengja en meðal þeirra hefði verið B, íbúi í húsinu. Vitnið kvaðst hafa rætt við B á vettvangi meðan starfsfélagar vitnisins ræddu við ákærða. Fram kom hjá vitninu að ákærði hefði reynt að komast undan en verið stöðvaður og þá hefðu hafist slagsmál. Ákærði hefði veitt mikla mótspyrnu og því hefði hann verið lagður í götuna og færður í járn. Vitnið sagði að ákærði hefði verið með hótanir í garð lögreglu á vettvangi. Vitnið hefði hins vegar ekki heyrt það sem fram fór aftur í lögreglubifreiðinni þar sem starfsfélagar vitnisins voru með ákærða meðan vitnið ók bifreiðinni. Þegar komið var á lögreglustöðina sagði vitnið að sér hefði verið greint frá hótunum ákærða, sem meðal annars hefðu beinst að barni Þóris Björgvinssonar.

5.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu laust fyrir hádegi daginn eftir að ákærði hafði verið handtekinn um nóttina að A kvaðst hann ekki muna eftir atburðum vegna ölvunar. Fyrir dómi hefur ákærði hins vegar neitað því að hafa haft í frammi hótanir við B og Þóri Björgvinsson, lögregluvarðstjóra, svo sem honum er gefið að sök í I. hluta ákæru 18. maí 2005 og ákæru 27. júlí sama ár. Hins vegar hefur ákærði lýst því að fjórir lögreglumenn hafi veist að sér fyrirvaralaust og beit sig miklu harðræði.

Ákærði hefur kannast við að hafa verið ölvaður þegar hann var handtekinn á vettvangi. Þau vitni sem um geta borið hafa öll einum rómi lýst því að ákærði hafi verið mikið drukkinn og veitt ríka mótspyrnu þegar lögregla hafði afskipti af honum. Frásögn ákærða hér fyrir dómi verður virt í ljósi þessara vitnisburða um ástand hans við handtöku og í aðdraganda hennar.

Fyrir dómi hefur B lýst því að ákærði hafi hótað að lífláta vitnið og brenna fjölskyldu þess eftir að B og félagar hans höfðu fylgt ákærða út úr húsinu.  Vitnið F hefur einnig borið fyrir dómi að ákærði hafi hótað að brenna fjölskyldu B. Þá hefur vitnið G sagt fyrir dómi að ákærði hafi hótað B líkamsmeiðingum, auk þess sem hótanir hans hafi beinst að fjölskyldu B. Loks hefur vitnið H greint frá því fyrir dómi að ákærði hafi hótað að drepa þá félaga og brenna fjölskyldur þeirra en þessar hótanir hafi aðallega beinst að B. Vætti þessara vitna um þau ummæli sem ákærði lét falla eru í ágætu samræmi og ekkert hefur komið fram sem dregur úr trúverðugleika vitnanna. Að þessu virtu þykir sannað gegn eindreginni neitun ákærða að hann hafi hótað B lífláti og að brenna fjölskyldu hans. Þótt ákærði hafi verið ölvaður þykja hótanir hans hafa verið til þess fallnar að vekja ótta hjá B um velferð hans og vandamanna. Með hótunum sínum hefur ákærði því gerst sekur um brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga.

Þórir Björgvinsson, lögregluvarðstjóri, hefur lýst því að ákærði hafi í lögreglubifreiðinni á leið á lögreglustöðina, eftir að ákærði var handtekinn, hótað að skera Þóri á háls og drepa börn hans. Framburður Helga Þórs Ottesen, lögreglumanns, sem einnig hafði afskipti af ákærða og var í bifreiðinni er á sama veg. Með vætti þessara vitna, sem er greinargott og samhljóða, er sannað gegn neitun ákærða að hann hafi hótað að lífláta Þóri og börn hans. Hins vegar verður ekki ráðið af framburði þessara vitna að hótanir ákærða hafi beinst að konu varðstjórans. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir sannað að ákærði hafi ráðist með hótunum um ofbeldi á varðstjórann þar sem hann var að gegna skyldustarfi sínu við handtöku ákærða. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot sem varðar við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

III.

Svo sem hér hefur verið rakið hefur ákærði unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 106. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga, 1. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, nr. 233/2001, og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Refsingu ákærða ber að tiltaka samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði á árunum 1997 til 2003 gengist undir fjórar lögreglustjórasáttir vegna brota á almennum hegningarlögum, áfengislögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Einnig hlaut ákærði skilorðsbundna frestun ákæru vegna brota gegn 1. mgr. 217. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga. Þá hlaut ákærði dóm 15. júlí 2004 fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing ákveðin fangelsi í 45 daga skilorðsbundið í 3 ár.

Með brotum þeim sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilorð dómsins frá 15. júlí 2004. Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. almennra hegningarlaga ber að taka upp refsingu samkvæmt þeim dómi og gera ákærði nú refsingu í einu lagi vegna beggja málanna. Að þessu gættu þykir refsing ákærði hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 verður ákærða einnig gert að þola upptöku á 0,16 g af amfetamíni.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglu og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Það athugast að ákærði hefur í málinu verið sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum áfengis. Hann verður hins vegar ekki sviptur ökurétti þar sem slík krafa er ekki höfð uppi í ákæru, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan. Uppsaga dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Bjarki Þór Pétursson, sæti fangelsi í 4 mánuði.

Ákærði sæti upptöku á 0,16 g af amfetamíni.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 207.317 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar, hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.