Hæstiréttur íslands
Mál nr. 33/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 16. janúar 2007. |
|
Nr. 33/2007. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr og 106. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur en gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans væri til meðferðar fyrir Hæstarétti, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 2. maí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til þrautavara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Kröfuna um að málinu verði vísað frá héraðsdómi reisir varnaraðili á því að honum hafi ekki verið sleppt úr haldi strax eftir að Hæstiréttur kvað upp dóm sinn 12. janúar 2007 í máli nr. 29/2007, þar sem kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um framlengingu á gæsluvarðhaldi varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Þess í stað hafi varnaraðili verið handtekinn og færður fyrir héraðsdóm vegna þeirrar kröfu sem fjallað er um í hinum kærða úrskurði. Svo sem þar greinir hafði við fyrirtöku málsins í héraði verið bætt úr þeim annmarka, sem réði niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 29/2007. Í framangreindum málatilbúnaði varnaraðila kemur ekki fram, hvers vegna hann telji að greind atvik eigi að valda frávísun málsins frá héraðsdómi. Verður ekki fallist á að þau geti leitt til þeirrar niðurstöðu.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um að varnaraðili skuli sæta gæsluvarðhaldi. Verður því markaður sá tími sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó ekki lengur en til mánudagsins 2. apríl 2007 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2007.
Ríkissaksóknari krefst þess að X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir æðra dómi, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 2. maí 2007, kl. 16.00.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 13. desember sl., var dómfelldi dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir nytjastuldi, skjalafals, þjófnaði, fjársvik, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Dómfelldi sætti gæsluvarðhaldi frá 15. september sl. til uppkvaðningar dómsins á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, en frá þeim tíma til þessa dags á sama grundvelli og með vísan til 1. mgr. 106. gr. sömu laga. Dómfelldi hefur óskað áfrýjunar á dóminum og var áfrýjunarstefna gefin út 9. þ.m. og birt fyrir dómfellda næsta dag.
Að kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 10. þ.m. var dómfellda með úrskurði dómsins gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan málið væri til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands. Dómfelldi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar Íslands og með dómi réttarins í dag var gæsluvarðhaldskröfunni vísað frá héraðsdómi þar sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu væri ekki bær um að krefjast gæsluvarðhalds yfir varnaraðila þar sem forræði málsins væri hjá ríkissaksóknara. Með erindi ríkissaksóknara til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í dag var hinum síðarnefnda falið að gera kröfu um að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan málið er til meðferðar fyrir æðra dómi, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 19/1991. Fram kemur í gæsluvarðhaldkröfunni að eftir uppkvaðningu áðurnefnds hæstaréttardóms hafi dómfelldi verið handtekinn af lögreglu í fangelsinu á Litla-Hrauni. Hafi honum því aldrei verið sleppt úr haldi og hann færður beint fyrir dóm að nýju.
Dómfelldi er síbrotamaður og á að baki langan sakarferil, allt aftur til ársins 1982, og hefur margsinnis afplánað refsidóma. Dómfelldi hefur ítrekað rofið skilyrði reynslulausnar með brotum sínum sem varð m.a. tilefni úrskurðar um síbrotagæslu yfir honum 15. september sl. Verður því að telja að yfirgnæfandi líkur séu á því að dómfelldi muni halda brotastarfsemi áfram verði hann látinn laus úr gæsluvarðhaldi áður en máli hans verður lokið fyrir æðra dómi.
Dómfelldi hefur verið í gæsluvarðhaldi allt frá 15. september sl. Eftir að fyrrgreindur frávísunardómur Hæstaréttar Íslands lá fyrir voru strax gerðar ráðstafanir af hálfu ákæruvalds til að uppfyllt væru þau formskilyrði sem um er getið í dóminum. Var dómfellda því aldrei sleppt úr gæsluvarðhaldi eftir að hann var settur í það og krafa gerð á formlega réttan hátt um áframhaldandi gæsluvarðhald í beinu framhaldi af umræddum hæstaréttardómi.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra ber að taka kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Helgi I. Jónsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 2. maí 2007, kl. 16.00.