Hæstiréttur íslands

Mál nr. 56/2016


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


                                     

Miðvikudaginn 27. janúar 2016.

Nr. 56/2016.

A

(Oddgeir Einarsson hrl.)

gegn

Félagsmálastjórn B

(Andri Andrason hdl.)

Kærumál. Nauðungarvistun

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. janúar 2016 þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 7. janúar 2016 um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi og ákvörðun yfirlæknis 8. janúar sama ár um að sóknaraðili skyldi sæta þvingaðri lyfjagjöf á sjúkrahúsinu. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindar ákvarðanir sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og yfirlæknis Landspítalans verði felldar úr gildi og þóknun skipaðs talsmanns hans vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti greidd úr ríkissjóði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun talsmanns sóknaraðila sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns,  vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 148.880 krónur, greiðist úr ríkissjóði                             

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. janúar 2016.

Með beiðni, dags. 8. janúar 2016, sem barst Héraðsdómi Reykjaness sama dag, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 7. janúar 2016 um að samþykkja nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi. Þá krefst sóknaraðili þess að ákvörðun yfirlæknis hinn 8. janúar sl. um að hann skyldi sæta þvingaðri lyfjagjöf á sjúkrahúsinu verði felld úr gildi.

Varnaraðili er Félagsmálastjórn B, kt. [...], [...], [...], sem krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 7. janúar sl. um nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi og ákvörðun yfirlæknis um að sóknaraðili skyldi sæta þvingaðri lyfjagjöf hinn 8. janúar sl. verði staðfest.

Í beiðni sóknaraðila segir að hún sé byggð á 1. og 2. mgr. 30. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Fram kom við munnlegan málflutning að sóknaraðili telji að skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. og 3. mgr. 28. gr. lögræðislaga séu ekki fyrir hendi og því beri að fella áðurgreinda ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og ákvörðun yfirlæknis úr gildi.

Samkvæmt gögnum málsins krafðist varnaraðili þess með beiðni, dags. 6. janúar 2016, að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu heimilaði nauðungarvistun sóknaraðila á sjúkrahúsi með heimild í 19. gr., sbr. 20. og 21. gr., lögræðislaga nr. 71/1997. Í beiðninni segir að sóknaraðili hafi verið greindur með geðrofssjúkdóm og að sterkur grunur sé um að geðrofseinkenni séu að versna. Jafnframt að sóknaraðili hafi beitt alvarlegu ofbeldi í veikindum sínum.

Með beiðninni fylgdi læknisvottorð C, geðlæknis á réttar- og öryggisdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, en þar segir að sóknaraðili hafi verið greindur í fyrra með geðklofasjúkdóm og fjölfíkn. Í læknisvottorðinu er greint frá viðtali læknisins við sóknaraðila þar sem fram kemur að sóknaraðili hafi í fyrstu verið gríðarlega spenntur og reiður og lítið viljað tjá sig. Hann hafi verið afar tortrygginn og vænisjúkur og verið mjög á varðbergi. Þegar liðið hafi á viðtalið hafi sóknaraðili þó róast og tjáð lækni að hann hefði verið í neyslu fíkniefna frá því í október eða nóvember sl. Þá segir í vottorðinu að persónuleiki sóknaraðila hafi gjörbreyst á stuttum tíma og frá því að neysla hófst hefði hann verið með mikið trúartal og verið dómgreindarlaus og ásakandi í garð annarra. Sóknaraðili sé að upplagi staðfastur og rólyndur, en sé í dag gjörbreyttur og alvarlega geðveikur. Þá er greint frá því í vottorðinu að sóknaraðili telji sig hafa læknast í fyrra í gegnum sitt guðlega samband. Hegðun hans hafi verið sérstök, en hann hafi kveikt á kveikjara og sagt að það væri reykelsisfórn og farið með tilvitnun í opinberunarbók Biblíunnar. Ljóst sé að sóknaraðili hafi ekkert innsæi í veikindi sín.

Niðurstaða læknisins er sú að sóknaraðili hafi undanfarna mánuði verið að veikjast aftur af aðsóknargeðklofa. Hann hafi verið æstur og látið illa að stjórn. Aðsóknarhugmyndir sóknaraðila hafi verið greinilegar og með ívafi af trúarlegum ranghugmyndum. Sóknaraðili hafi einnig virst vera með vissar mikilmennskuhugmyndir og hafi talað niður til starfsmanna og annarra. Sóknaraðili hafi að mati læknisins verið það alvarlega veikur að hann þyrfti að dvelja á sjúkrahúsi og líklegast yrði að beita hann þvingaðri lyfjagjöf. Hann hafi verið algerlega innsæislaus hvað varði hegðun sína, sjúkdómseinkenni og þörf fyrir lyfjameðferð.

Dómurinn kallaði eftir athugasemdum læknis á deild 32C á Landspítalanum og liggja fyrir í málinu athugasemdir D sérfræðings á deildinni, sem sendar voru í tölvupósti 12. janúar sl. Þar segir að sóknaraðili hafi verið greindur með geðklofasjúkdóm og sé vel þekktur á geðsviði Landspítalans. Hann hafi fyrst leitað á geðsvið árið 2010 vegna ranghugmynda og vímuefnaneyslu og verið í eftirliti hjá geðlækni. Hann hafi legið inni frá hausti 2014 til loka maí 2015, en hann hafi verið með mikil einkenni geðrofs í byrjun legunnar. Hann hafi gripið endurtekið til ofbeldis gagnvart samsjúklingum og starfsfólki. Ranghugmyndir hans hafi fyrst og fremst verið af trúarlegum toga, en einnig hafi borið á undarlegri hegðun og tortryggni. Hann hafi verið nauðungarvistaður og síðan sviptur sjálfræði í sex mánuði frá 9. október 2014 og verið meðhöndlaður gegn vilja sínum með geðrofslyfjum. Smám saman hafi hann svarað þeirri meðferð og verið til samvinnu. Hann hafi í kjölfarið farið á endurhæfingardeild á Kleppi og síðan verið í lyfjaeftirliti á göngudeild eftir útskrift. Sóknaraðila hafi gengið vel og hann farið í framhaldsendurhæfingu hjá Virk. Í lok sumars hafi hann hætt á geðrofslyfjum og hætt að mæta í eftirlit á göngudeild í október 2015.

Sóknaraðili hafi fyrst leitað á bráðaþjónustu geðsviðs hinn 3. janúar sl., en rokið út í miðju viðtali þar sem fram hafi komið talsverðar aðsóknarhugmyndir. Sóknaraðili hafi þá verið nýkominn frá Kaupmannahöfn þar sem hann hafi verið í neyslu vímuefna. Hann hafi komið sjálfviljugur með föður sínum daginn eftir eða 4. janúar sl. og lagst inn á deild 32C. Við komu hafi hann verið hátt stemmdur og léttur í lund, en vímuefni hafi mælst í þvagsýni hans. Sóknaraðili hafi ekki viljað þiggja lyfjameðferð og ekki talið sig þurfa á frekari lyfjagjöf að halda. Hann hafi verið nauðungarvistaður í 72 tíma hinn 6. janúar sl. og í kjölfarið nauðungarvistaður í 21 sólarhring. Þá hafi sóknaraðili verið sprautaður gegn vilja sínum með lyfi sem hann hafi svarað vel í síðustu innlögn. Sóknaraðili sé innsæislaus í veikindi sín og hafi greint frá því að hann væri í miklu sambandi við guð og Jesú Krist og telji að guð hafi læknað hann af ýmsum kvillum í gegnum bænir. Hann hafi komist í betra samband við guð árið 2008 og hafi bænir hans þá farið að rætast. Sóknaraðili vísi því alfarið á bug að lyfin hafi átt einhvern þátt í bata hans og hann telji að þau hafi fremur valdið sér skaða sem guð hafi nú læknað hann af. Sóknaraðili hafi ekki sýnt ofbeldisfulla hegðun nú eins og í fyrri legu, en þó átt erfitt með að hafa stjórn á sér í byrjun.

Loks segir í athugasemdum D að sóknaraðili sé með geðklofasjúkdóm og án meðferðar fái hann ranghugmyndir sem stýri hegðun hans. Í því ástandi hafi hann sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun. Hann hafi nýlega legið um lengri tíma inni á geðdeild Landspítalans vegna mjög alvarlegra veikinda. Hann hafi svarað lyfjameðferð og náð nokkuð góðum bata, en hætt töku lyfja eftir að sjálfræðissviptingu hans lauk. Nú sé hann talinn í geðrofi með stórmennskuranghugmyndir af trúarlegum toga og einnig með aðsóknarhugmyndir. Nauðsynlegt sé að hann verði vistaður áfram á geðdeild og sæti meðferð með geðrofslyfjum.

Þá kallaði dómurinn eftir athugasemdum yfirlæknis á deild 32 C á Landspítalanum vegna þvingaðrar lyfjagjafar sem sóknaraðili sætti þar hinn 8. janúar sl. og liggja fyrir í málinu athugasemdir E yfirlæknis, sem sendar voru í tölvupósti 13. janúar sl. Þar segir að sóknaraðili sé nú talinn í geðrofsástandi og að ljóst sé að án meðferðar muni honum ekki batna og miklar líkur séu á versnandi geðhag. Að mati yfirlæknis sé meðferð með geðrofslyfjum sóknaraðila nauðsynleg með hliðsjón af ástandi sóknaraðila nú og jafnframt áframhaldandi fyrirbyggjandi meðferð. Sóknaraðili verði mjög alvarlega veikur án meðferðar og stjórnist þá öll hugsun hans og hegðun af ranghugmyndum.

Geðlæknarnir E, D og C gáfu símaskýrslu fyrir dómi og staðfestu áðurgreindar athugasemdir sínar og vottorð. Vitnið D kvaðst hafa annast meðferð sóknaraðila eftir innlögn hans á deild 32C, en einnig kvaðst vitnið E hafa komið að meðferð hans sem yfirlæknir á deildinni. Vitnin kváðust því þekkja best til ástands sóknaraðila nú. Vitnið E kvaðst sem yfirlæknir á deildinni hafa tekið ákvörðun um að sóknaraðili sætti þvingaðri lyfjagjöf og hefði þeirri ákvörðun verið framfylgt eftir að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafði samþykkt nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi. Kvaðst hún telja að brýn nauðsyn hefði verið á því að sóknaraðili sætti þvingaðri lyfjameðferð þar sem ella hefði heilsu hans og batahorfum verið stefnt í voða, en sóknaraðili yrði mjög alvarlega veikur án meðferðar. Jafnframt kvaðst hún telja að án meðferðar væru líkur á því að sóknaraðili gæti með atferli sínu og hegðun stofnað lífi sínu í hættu.

Í ljósi framlagðra gagna og þess sem að framan hefur verið rakið telur dómurinn að sýnt hafi verið fram á að fullnægt hafi verið skilyrðum 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til að nauðungarvista sóknaraðila á sjúkrahúsi og því beri að staðfesta ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar um frá 7. janúar sl. Með hliðsjón af framlögðum gögnum og því sem fram kom í skýrslum áðurgreindra geðlækna fyrir dóminum telur dómurinn einnig að fullnægt hafi verið skilyrðum 3. mgr., sbr. 2. mgr., 28. gr. sömu laga til að láta sóknaraðila sæta þvingaðri lyfjagjöf á sjúkrahúsinu hinn 8. janúar sl. og því beri að staðfesta ákvörðun yfirlæknis þar um.

Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Oddgeirs Einarssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 7. janúar 2016 um að sóknaraðili, A, kt. [...], skuli vistaður á sjúkrahúsi og ákvörðun yfirlæknis um að sóknaraðili skyldi sæta þvingaðri lyfjagjöf á sjúkrahúsinu hinn 8. janúar 2016.

Þóknun talsmanns sóknaraðila, Oddgeirs Einarssonar hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.