Hæstiréttur íslands
Mál nr. 360/2002
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Samverknaður
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 30. janúar 2003. |
|
Nr. 360/2002. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Gunnari Jóhanni Gunnarssyni og (Kristinn Bjarnason hrl.) Elvari Þór Sturlusyni(Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kynferðisbrot. Samverknaður. Miskabætur.
G og E voru ákærðir fyrir að hafa með ofbeldi þröngvað stúlkunni X til samræðis og annarra kynferðismaka á heimili G. Í héraðsdómi var tekið fram að G hefði borið fyrir sig algjöru minnisleysi og E og X því ein til frásagnar um hvað gerðist í herbergi G eftir að vinkona X rauk á dyr. Bar mikið á milli í frásögn þeirra. Þegar atvik málsins voru virt í heild þótti mega leggja til grundvallar vitnisburð X þrátt fyrir eindregna neitun E enda ekkert fram komið sem veikti vitnisburð hennar og drægi úr trúverðugleika hennar. Var dómur héraðsdóms um sakfellingu G og E fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 því staðfestur. Þegar litið var til ungs aldurs þeirra þótti mega una við refsiákvörðun héraðsdóms. Hins vegar var tekið fram að ótvírætt yrði að telja að háttsemi G og E hefði haft veruleg áhrif til hins verra á sálarlíf og geðheilsu X. Yrði við ákvörðun bóta til hennar heldur ekki litið fram hjá því að þeir stóðu tveir saman að atlögu gegn kynfrelsi hennar, sem var til þess fallið að auka enn á ótta hennar og vanlíðan við atburðinn og eftir hann. Þóttu miskabætur til stúlkunnar því hæfilega ákveðnar 700.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. júlí 2002 að ósk ákærðu en einnig af hálfu ákæruvaldsins og krefst hann staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærðu, en að refsing þeirra verði þyngd og þeir dæmdir sameiginlega til að greiða X 1.000.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júlí 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði Gunnar Jóhann krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds og frávísunar bótakröfu, til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar en til þrautavara að refsing hans verði milduð og fjárhæð skaðabóta lækkuð verulega.
Ákærði Elvar Þór krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds en til vara vægustu refsingar, sem lög leyfa, og lækkunar á bótakröfu.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu. Þegar litið er til ungs aldurs þeirra þykir mega una við refsiákvörðun dómsins, sbr. og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum.
Réttargæslumaður brotaþola hefur lagt fyrir Hæstarétt nýtt skjal, sálfræðiskýrslu dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar 15. janúar 2003, en hann var beðinn um að meta afleiðingar atburðarins 29. júlí 2000 fyrir stúlkuna og þörf hennar fyrir meðferð í framtíðinni. Átti sálfræðingurinn 5 viðtöl við hana á tímabilinu 3. desember 2002 til 13. janúar 2003. Er í skýrslunni greint frá ýmsum geðrænum vandamálum, sem hún eigi við að stríða. Segir þar að mjög erfitt sé að greina hver þeirra megi beinlínis rekja til nauðgunarinnar og hver eigi sér lengri sögu. Ljóst sé að hún hafi átt við töluvert þunglyndi að etja áður en til þessa atburðar kom og einnig að hún hafi verið mjög feimin og óframfærin. Í dag uppfylli hún greinilega tvö af þremur megineinkennum áfallastreitu, sem tengja megi við atburðinn. Í fyrsta lagi eigi hún erfitt með að einbeita sér, sé eirðarlaus og pirruð og eigi erfitt með svefn. Í öðru lagi forðist hún að koma nálægt því svæði þar sem atburðurinn hafi gerst og hafi mjög dregið úr ferðum sínum þangað, þar sem hún eigi þó bæði vini og ættingja. Þá virðist áhugaleysi hennar á lífinu og vonleysistilfinning hafa aukist verulega og eigi hún erfitt með að sjá fyrir sér ánægjulega framtíð. Þriðja áfallastreitueinkennið, sem er að upplifa atburðinn, sem olli áfallinu, virðist ekki eiga við hana nú. Ekki sé samt unnt að fullyrða að endurupplifanir eða sterk sálræn eða líkamleg viðbrögð, er tengist atburðinum, eigi ekki eftir að koma fram. Gera megi ráð fyrir að vandamál hennar eins og þunglyndi, kvíði, feimni, tortryggni og lítil sjálfsvirðing hafi versnað eftir að þetta gerðist. Eigi hún að geta náð tökum á þessum alvarlegu vandamálum sínum og lifað farsælu lífi í framtíðinni sé mikilvægt að hún fái sálfræðilega meðferð við hæfi. Vandamál hennar séu mjög alvarleg og geti verið erfitt og tekið langan tíma að leysa úr þeim.
Þegar litið er til þess, sem fram hefur komið í málinu, verður að telja ótvírætt, að háttsemi ákærðu hafi haft veruleg áhrif til hins verra á sálarlíf og geðheilsu stúlkunnar. Við ákvörðun bóta til hennar verður heldur ekki litið fram hjá því að ákærðu stóðu tveir saman að atlögu gegn kynfrelsi hennar, sem var til þess fallið að auka enn á ótta hennar og vanlíðan við atburðinn og eftir hann. Að þessu virtu þykja miskabætur til stúlkunnar hæfilega ákveðnar 700.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði segir, en rétt er að miða upphaf dráttarvaxta við þann tíma, er mánuður var liðinn frá því að báðum ákærðu hafði verið kynnt bótakrafa.
Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað, þó þannig að þóknun réttargæslumanns brotaþola er hæfilega ákveðin 200.000 krónur.
Ákærðu verða dæmdir til greiðslu áfrýjunarkostnaðar eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærðu, Gunnars Jóhanns Gunnarssonar og Elvars Þórs Sturlusonar, eru staðfest.
Ákærðu greiði óskipt X 700.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júlí 2000 til 1. júlí 2001, frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til 28. febrúar 2002, en frá þeim degi til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga.
Staðfest eru ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað að öðru leyti en því að þóknun réttargæslumanns brotaþola skal vera 200.000 krónur.
Ákærði Gunnar Jóhann greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Kristni Bjarnasyni hæstaréttarlögmanni, 250.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Elvar Þór greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessyni hæstaréttarlögmanni, 250.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærðu greiði óskipt þóknun Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns brotaþola, 80.000 krónur, svo og annan áfrýjunarkostnað sakarinnar.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. júní 2002
Ár 2002, miðvikudaginn 19. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er í dómhúsinu í Hafnarfirði af Ólöfu Pétursdóttur dómstjóra og Gunnari Aðalsteinssyni og Jónasi Jóhannssyni héraðsdómurum, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-735/2002: Ákæruvaldið gegn Gunnari Jóhanni Gunnarssyni og Elvari Þór Sturlusyni, sem dómtekið var 30. maí síðastliðinn.
Málið höfðaði ríkissaksóknari með ákæru útgefinni 26. mars 2002 á hendur ákærðu Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, kt. 290683-5059, Akurbraut 4, Innri-Njarðvík og Elvari Þór Sturlusyni, kt. 110583-3709, Óttuhæð 4, Garðabæ, „báðum fyrir kynferðisbrot, aðfaranótt 29. júlí 2000 á heimili ákærða Gunnars Jóhanns að Akurbraut 4, Innri-Njarðvík, með því að hafa með ofbeldi þröngvað stúlkunni X, fæddri 1983, til samræðis og annarra kynferðismaka, ákærði Gunnar Jóhann að hafa í tvígang þröngvað getnaðarlim sínum inn í leggöng stúlkunnar og meðákærði Elvar Þór að hafa, meðan á því stóð, fyrst sett getnaðarlim sinn í munn stúlkunnar og síðan lagst ofan á hana og þröngvað getnaðarlim sínum inn í endaþarm hennar.
Telst þetta varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“
Ingimar Ingimarsson héraðsdómslögmaður, skipaður réttargæslumaður Xr, kt. [...], [...], Kópavogi, krefst þess að ákærðu verði dæmdir í sameiningu til að greiða henni 1.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júlí 2000 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar vegna réttargæslustarfa í þágu stúlkunnar við rannsókn og meðferð málsins.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómslögmaður, skipaður verjandi ákærða Gunnars Jóhanns, krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök, en ellegar dæmdur til vægustu refsingar, sem lög leyfa. Þá verði framlagðri bótakröfu vísað frá dómi og allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun.
Sigurður Kári Kristjánsson héraðsdómslögmaður heldur uppi vörnum fyrir ákærða Elvar Þór og gerir sömu dómkröfur og meðverjandi hans.
I.
Aðfaranótt laugardagsins 29. júlí 2000 voru X og vinkona hennar A á rúntinum í Keflavík ásamt B, systur A og kærasta hennar, S. S var ökumaður bifreiðarinnar, en stúlkurnar voru allar við skál. Einhvern tíma nætur, líklega á bilinu 02:00-03:00, stöðvaði hann bifreiðina á plani fyrir utan verslunarmiðstöðina Kjarnann. Þar fór A að ræða við ökumann annarrar bifreiðar, M, sem hún þekkti. Í þeirri bifreið voru fleiri karlmenn, þar á meðal ákærðu í málinu. Þeir voru báðir undir áhrifum áfengis. Eftir einhverjar samræður á planinu buðu ákærðu A og X að koma yfir í bifreið þeirra. M mun því hafa ekið hinum farþegunum heim, en því næst sótt stúlkurnar. Eftir að hafa rúntað með þær og ákærðu um stund ók hann þeim fjórum heim til ákærða Gunnars Jóhanns að Akurbraut 4 í Innri-Njarðvík. Samkvæmt framburði X, M og ákærða Elvars Þórs fyrir dómi mun klukkan þá hafa verið um 04:00-04:30. Þegar inn í húsið kom settust ákærðu og stúlkurnar á stórt vatnsrúm í herbergi ákærða Gunnars Jóhanns. Þar munu þau hafa rætt saman um stund og kváðust X og ákærði Elvar Þór hafa neytt frekara áfengis. Stúlkurnar báru fyrir dómi að ákærðu hefðu síðan farið að tala um einhverja kynlífsleiki og stungið upp á því að þau myndu vera saman öll fjögur. Að sögn A hefði hún reiðst slíku tali og rokið á dyr. Ákærði Elvar Þór hefði fylgt á eftir, stöðvað hana í forstofunni og reynt að fá hana til að vera lengur, en hún verið ákveðin og farið út úr húsinu. Þaðan hefði hún gengið að verslun Hagkaupa í Njarðvík og beðið þess að verða sótt af S. Ákærði Elvar Þór kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir neinu kynlífstali inni í herbergi meðákærða, en gat þess að hann hefði móðgað A og því hlaupið á eftir henni til að biðja hana afsökunar og fá hana til að vera lengur. Hann hefði náð henni á einhverju götuhorni og rætt við hana, en án árangurs. Þaðan hefði hann gengið aftur að húsinu og farið inn til hinna.
Eftir að A fór af vettvangi hófst sú atburðarás, sem leiddi til ákæru í málinu. Ákærði Gunnar Jóhann hefur frá upphafi borið við algjöru minnisleysi um atburði næturinnar vegna ölvunar. X og ákærði Elvar Þór eru því ein til frásagnar um samskipti þeirra þriggja inni í húsinu. Að sögn X munu ákærðu hafa þröngvað henni til kynferðismaka með þeim hætti, sem lýst er í ákæru. Ákærði Elvar Þór staðhæfir hins vegar að hún hafi sjálfviljug átt kynferðislegt samneyti við meðákærða og að sjálfur hafi hann fyrst og fremst verið áhorfandi að atlotum þeirra. Meðákærði hafi síðan farið í sturtu og á meðan hafi Elvar Þór farið heim. X hafi þá legið uppi í rúmi og verið að reykja.
Fyrir liggur að X hringdi í A frá heimili ákærða Gunnars Jóhanns, mælti sér mót við hana fyrir utan Hagkaup í Njarðvík og fór þangað með leigubifreið. A bar fyrir dómi að þá hefðu verið liðnar um 30-45 mínútur frá því að leiðir þeirra skildu. X hefði verið hágrátandi í símanum. Þegar þær hittust hefði hún greint frá því grátandi að ákærðu hefðu nauðgað henni. S hefði síðan komið og tekið þær upp í bifreið sína. S staðfesti þetta fyrir dómi og bar að hann hefði hitt stúlkurnar á ný fyrir utan Hagkaup um kl. 06:00 um morguninn. X hefði verið hágrátandi og stúlkurnar greint frá því að henni hefði verið nauðgað af ákærðu. Samkvæmt vitnisburði E, Y, Z og Ö fyrir dómi greindi X þeim frá því samdægurs að henni hefði verið nauðgað um nóttina. Verður nánar vikið að vitnisburði þeirra síðar.
II.
Kl. 17:15 sama dag kom X í fylgd Y á neyðarmóttöku vegna nauðgunar á Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi. Fyrir utan biðu vinkonur hennar A og E. Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir tók á móti stúlkunni, framkvæmdi réttarlæknisfræðilega skoðun og skráði eftir henni frásögn af ætluðu broti og eigin lýsingu um ástand stúlkunnar við skoðun. Hafa skýrslur þessar verið lagðar fram í málinu og staðfestar af lækninum. Hann bar fyrir dómi að hann hefði hlýtt á frásögn stúlkunnar og skráð jafnóðum eftir henni, með sem líkustu orðalagi og hún hefði notað. Umrædd skýrsla hljóðar svo:
„[...]“
Samkvæmt vitnisburði læknisins mun X enn fremur hafa svarað því aðspurð að sá mannanna, sem hefði haft kynferðismök við hana í endaþarm, hefði einnig sett getnaðarlim sinn í munn hennar. Í samantekt læknisins um ástand stúlkunnar við skoðun er svohjóðandi skráð: „Döpur, stressuð, hálfhlær er hún lýsir atburði en er þó mjög döpur og hnýpin. Vinkona er með henni í skoðun.“
Í skýrslu læknisins um réttarlæknisfræðilega skoðun kemur fram að ekkert hafi verið athugavert við fatnað X. Við líkamsskoðun hafi fundist örlítil rispa eða sprunga fremst í opi legganga og örlítil sprunga fremst við endaþarmsop. Læknirinn bar fyrir dómi að um hefði verið að ræða „ferska áverka“, sem gætu samrýmst því að stúlkunni hefði verið nauðgað, en um það yrði ekkert fullyrt út frá skoðun, af eða á. Læknirinn kvaðst þó geta slegið því föstu að áverkinn við endaþarmsop hefði ekki getað myndast við hægðir. Fram kom að stúlkan hefði ekki heimilað skoðun í endaþarmi, en við skoðun í leghálsi hefðu fundist heillegar sæðisfrumur. Með hliðsjón af útliti sæðisfrumanna kvaðst læknirinn geta fullyrt að langlíklegast væri að stúlkan hefði haft samræði innan 24 klukkustunda frá sýnatöku og að líklegast væri að sæðisfrumurnar væru ekki meira en 12 klukkustunda gamlar.
Samkvæmt gögnum málsins mun X hafa leitað aftur á neyðarmóttökuna þriðjudaginn 1. ágúst 2000 vegna kláða og sviða í spöng milli legganga og endaþarms. Arnar Hauksson bar fyrir dómi að hún hefði greinst með sveppasýkingu, en slíkt væri ekki óeðlilegt, þar sem hún hefði fengið sýklalyf í framhaldi af fyrri læknisskoðun. Í skýrslu læknisins vegna endurkomu stúlkunnar á neyðarmóttökuna 14. ágúst 2000, sem hann staðfesti einnig fyrir dómi, kemur fram að hún hafi í fyrstu endurlifað atburði í vöku, en hafi reynt að gleyma þeim. Þá óttist hún ætlaðan árásarstað og hafi síðan ekki farið til Keflavíkur. Hún kvaðst ekki upplifa neinn dofa í viðbrögðum og sagðist enn ekki hafa sagt foreldrum sínum frá þessu. Aðspurð hvort hún fyndi til sektarkenndar eða blygðunar svaraði hún því játandi og gaf þá skýringu að hún hefði greint sinn orðið of drukkin. Aðspurð hvort hún teldi sig hafa glatað sjálfsvirðingu við nefnda atburði kvað hún sjálfsvirðingu aldrei hafa verið mikla.
III.
Næst gerðist það í málinu hinn 10. ágúst 2001 að X kom á lögreglustöð í Reykjavík í fylgd skipaðs réttargæslumanns og lagði fram kæru í málinu. Hún gaf þá skýringu á drættinum að hún hefði ekki viljað að foreldrar hennar vissu af málinu, en hún kærði nú vegna þess að vinir hennar hefðu hvatt hana til þess. Berglind Kristinsdóttir rannsóknarlögreglumaður gerði upplýsingaskýrslu um málið, en það var síðan sent til rannsóknar hjá lögreglunni í Keflavík.
A gaf skýrslu vitnis hjá lögreglu 21. ágúst 2001. Hún kvaðst greint sinn hafa verið að spjalla við ákærðu að Akurbraut 4 ásamt X þegar þeir hefðu fært í tal hvort þau ættu ekki að vera saman öll fjögur. Henni hefði fundist þetta óþægilegt og viljað fara, enda hefði hún engan áhuga haft á þessum mönnum. Hún hefði heldur ekki greint að X hefði nokkurn áhuga. X hefði þó ekki virst vera tilbúin til að fara á sama tíma. Að sögn A hefði ákærði Elvar Þór latt hana til fararinnar, en hún verið ákveðin og gengið sem leið lá að verslun Hagkaupa í Njarðvík. X hefði síðan hringt í hana um klukkustund síðar, hágrátandi og spurt af hverju hún hefði farið. Þegar þær hittust við Hagkaup hefði X verið í losti, hrædd og skjálfandi. X hefði greint frá því að hún hefði ætlað á eftir henni út úr herberginu, en uppgötvað að hún hefði gleymt töskunni sinni og því snúið til baka. Ákærðu hefðu þá hent henni á rúmið og læst herberginu. Því næst hefðu þeir nauðgað henni báðir í einu. Að sögn A hefði X ekki lýst verknaðinum í smáatriðum, enda hefðu þær báðar verið í miklu uppnámi og A haft samviskubit yfir því að hafa skilið vinkonu sína eina eftir með ákærðu.
X gaf skýrslu vitnis 28. september 2001. Hún kvað allt hafa leikið í lyndi heima hjá ákærða Gunnari Jóhanni þangað til annar hvor ákærðu hefði fitjað upp á því að þau færu öll fjögur í kynlífsleik. A hefði þá farið að rífast við ákærða Elvar Þór og í framhaldi hefði hún rokið út. Að sögn X hefði hún ætlað að elta hana og verið komin fram í forstofu þegar hún hefði áttað sig á því að farsíminn hennar hefði orðið eftir inni í herbergi ákærða Gunnars Jóhanns. Þegar hún hefði komið aftur inn í herbergið hefði Gunnar Jóhann legið á rúminu og Elvar Þór staðið við herbergisdyrnar. Hún hefði spurt um símann og ákærði Gunnar Jóhann svarað því til að hún yrði að finna hann sjálf. Í framhaldi hefði hún farið upp í rúmið til að leita að símanum, en á meðan hefði ákærði Elvar Þór lokað dyrunum og staðið fyrir framan hurðina. Ákærði Gunnar Jóhann hefði síðan spurt hana ítrekað hvort þau ættu ekki að fara í kynlífsleik og hún ávallt svarað „nei“. Hún hefði síðan legið á bakinu í rúminu þegar ákærði Gunnar Jóhann hefði sest klofvega yfir fætur hennar, rennt buxum hennar frá og dregið þær alveg niður. Á þeirri stundu hefði hún ekki veitt neina mótspyrnu, aðeins kallað „nei, nei“ og búist við því að hann myndi hætta. Í framhaldi hefði hún reynt að halda nærbuxunum uppi, en ákærða tekist að klæða hana úr þeim. Á meðan á þessu stóð hefði meðákærði Elvar Þór staðið við herbergisdyrnar og beðið félaga sinn að hætta þessu. Hann hefði ekki sinnt því heldur klætt sig úr að neðan og lagst ofan á hana. X kvaðst hafa gripið um sköp sín með annarri hendi, en ákærði Gunnar Jóhann hefði losað takið, haldið báðum höndum hennar föstum og þröngvað getnaðarlim sínum inn í fæðingarveg hennar. Eftir nokkurra mínútna samræði hefði honum orðið sáðlát. Á meðan hefði meðákærði klætt sig úr buxum og nærbuxum og gengið að rúminu. Á þeim tímapunkti hefði hún verið orðin afar hrædd og ekki þorað öðru en að hlýða ákærðu. Gunnar Jóhann hefði síðan náð að snúa henni við í rúminu og þröngvað lim sínum inn í leggöng hennar aftan frá. Hann hefði síðan hafið samræði öðru sinni, sem staðið hefði yfir í um það bil 10 mínútur. Á meðan á því stóð hefði ákærði Elvar Þór kropið við rúmið og náð að koma getnaðarlim sínum inn í munn hennar stutta stund án þess að fá sáðfall. Ákærði Gunnar Jóhann hefði síðan viljað fá hana í aðra stellingu og lagst á bakið með hana ofan á. Í þeirri stellingu hefði meðákærði lagst ofan á bak hennar og þröngvað getnaðarlimnum inn í endaþarm hennar á sama tíma og Gunnar Jóhann hefði haft við hana samræði í leggöng. Um leið og hún hefði fengið liminn inn fyrir endaþarmsop hefði hún öskrað af sársauka og ákærðu þá látið af háttsemi sinni. Elvar Þór hefði klætt sig í og farið á brott, en Gunnar Jóhann tekið fötin sín og farið fram. Sjálf hefði hún klætt sig, hringt í vinkonu sína og verið á leiðinni út þegar ákærði Gunnar Jóhann hefði komið og rétt henni 1.000 krónur fyrir leigubifreið, sem hann hefði verið búinn að panta.
Í þágu rannsóknar málsins voru enn fremur teknar vitnaskýrslur af S, H, E, Y, Ö og M. Ákærðu voru síðan handteknir 5. nóvember 2001 og færðir til yfirheyrslu.
Ákærði Elvar Þór greindi frá því að þeir félagar hefðu umrædda nótt boðið tveimur stúlkum á rúntinn og síðan farið með þeim heim til meðákærða Gunnars Jóhanns. Er þangað kom hefðu þau farið að spjalla saman inni í svefnherbergi hans, en stúlkurnar hefðu verið hressar og léttölvaðar. Ákærði hefði síðan móðgað aðra þeirra, A, og hún farið fram á gang. Á þeim tímapunkti hefði hann verið orðinn „þokkalega fullur“. Hann hefði farið á eftir henni og beðið hana afsökunar og hin stúlkan, X, fylgt á eftir. A hefði verið harðákveðin í að fara og gert svo. X hefði síðan beðið hann að hlaupa á eftir vinkonu sinni og hefði hann náð tali af henni við eitthvert götuhorn. Að þeim samræðum loknum hefði hann snúið til baka og komið að X í kynferðisathöfnum ofan á meðákærða í rúmi hans. Hann kvaðst ekki muna nánar í hvernig stellingum þau hefðu verið, en honum hefði fundist þau láta vel að hvort öðru. Aðspurður kvað hann þau bæði hafa verið klædd á þeim tímapunkti og fullyrti að meðákærði hefði ekki verið að nauðga stúlkunni. Í framhaldi hefðu þau afklæðst og ákærði skynjað með augngotum þeirra og öðru háttalagi að honum stæði til boða að vera með. Hann hefði því klætt sig úr að ofan og líklega káfað lítillega á stúlkunni og ef til vill kysst hana, en fljótlega misst allan áhuga, sest niður og kannski fengið sér sígarettu. Hann kvaðst ekki muna hvort meðákærði og stúlkan hefðu haft samfarir í rúminu, en meðákærði hefði síðan hætt atlotum sínum og farið í sturtu, en stúlkan legið áfram í rúminu og fengið sér sígarettu.
Ákærði Gunnar Jóhann kvaðst ekkert muna eftir því hvað hann hefði aðhafst umrædda nótt. Breytti engu í því sambandi þótt honum væru kynnt atriði úr skýrslum meðákærða og X. Hann kvaðst þó geta fullyrt að hann hefði ekki nauðgað einhverri stúlku um nóttina og sagðist ekki trúa slíku upp á meðákærða. Ákærði gaf þá skýringu á minnisleysi sínu að hann ætti það til að drekka of mikið með þeim afleiðingum að hann missti algjörlega minnið.
IV.
Ákærði Gunnar Jóhann kvaðst fyrir dómi ekkert muna eftir þeim atburði, sem ákært væri fyrir, en neitaði alfarið að hafa þröngvað stúlkunni X til samræðis umrætt sinn. Hann kvaðst þó ekki draga í efa þann framburð meðákærða Elvars Þórs að hann hefði átt kynferðislegt samneyti við stúlkuna, en það hefði þá verið með hennar vilja og með þeim hætti, sem meðákærði hefði lýst. Ákærði kvaðst lengi hafa átt við áfengisvandamál að stríða og væri nýkominn úr meðferð. Á umræddum tíma hefði hann drukkið ótæpilega og oft misst minnið sökum áfengisneyslu.
Ákærði Elvar Þór neitaði eindregið sök fyrir dómi og kvaðst hvorki hafa haft kynferðismök við X umrædda nótt né heldur hafa meinað henni brottför úr svefnherbergi meðákærða Gunnars Jóhanns. Stúlkan hefði aldrei sýnt á sér neitt fararsnið. Ákærði sagði þá félaga hafa verið á fylliríi um nóttina og hefði meðákærði verið ofurölvi, eins og hann hefði átt vanda til. Þeir hefðu hitt X og A á rúntinum, boðið þeim með sér á rúntinn og því næst í heimsókn til meðákærða. Er þangað kom hefðu þau sest inn í herbergi meðákærða og farið að spjalla. Ákærði kvaðst ekki muna eftir neinu kynferðistali þeirra í milli, en sagðist hafa verið fullur og móðgað A. Hún hefði rokið á dyr og hann því elt hana fram á gang og beðið hana afsökunar. X hefði fylgt á eftir. A hefði engu að síður viljað fara og yfirgefið húsið, en í framhaldi hefði X beðið hann að fara á eftir henni og telja henni hughvarf. Hann hefði því hlaupið út og náð henni við eitthvert götuhorn, spjallað við hana stutta stund og komið einn til baka um 2-3 mínútum síðar. Þegar hann hefði komið inn í herbergi meðákærða á ný hefði hann séð X ofan á meðákærða í rúminu. Þau hefðu verið í einhverju „smákeleríi“ og látið vel að hvort öðru. Ákærða minnti að þau hefðu verið fullklædd og sagði greinilegt að atlotin hefðu verið með vilja þeirra beggja. Hann hefði síðan ráðið af augngotum þeirra að þau vildu fá hann með í leikinn og í framhaldi hefði hann sest við rúmgaflinn og ef til vill kysst stúlkuna á munninn og strokið brjóst hennar lítillega á meðan hún var í atlotum við meðákærða. Að sögn ákærða hefði hann þó fljótlega misst áhuga á þessu og því sest niður og fengið sér sígarettu. Atlot hinna hefðu einnig liðið fljótt yfir og meðákærði farið í sturtu, en stúlkan legið áfram í rúminu og fengið sér sígarettu. Á þeim tímapunkti hefði ákærði verið orðinn svo drukkinn að hann hefði kvatt stúlkuna og labbað heim. Nánar aðspurður um nefnd atlot meðákærða og X kvaðst ákærði lítið hafa fylgst með þeim og einnig muna óljóst hvað þeim hefði farið á milli. Hann gæti því ekki sagt til um hvort þau hefðu verið nakin fyrir neðan mitti og ekki vita hvort samræði hefði átt sér stað. Hann kvað hins vegar mjög líklegt að þau hefðu haft samfarir í rúminu og að þær hefðu farið fram með fullum vilja stúlkunnar, enda hefði hún verið ofan á meðákærða og haft yfirhöndina í samneyti sínu við hann. Henni hefði því verið hægur vandi að hætta samförum, hefði hún kosið svo.
X bar fyrir dómi að ákærðu hefðu greint sinn boðið henni og A á rúntinn og síðan í partí heima hjá ákærða Gunnari Jóhanni. Þar hefði komið í ljós að ekki væri um partí að ræða og að þau yrðu bara fjögur á staðnum. Þau hefðu sest á stórt rúm í herbergi ákærða og verið að ræða saman á góðum nótum þegar ákærðu hefðu byrjað að tala um einhverja kynlífsleiki og þaðan af meira. Upp úr því tali hefðu A og ákærði Elvar Þór farið að rífast og hún rokið út úr herberginu. X hefði beðið Elvar Þór að fara á eftir henni og biðjast fyrirgefningar, sem hann hefði og gert. Hann hefði síðan komið til baka og sagt að A væri farin. Að sögn X hefði hún þá tilkynnt ákærðu að hún ætlaði á eftir vinkonu sinni, hlaupið út úr herberginu og verið komin fram í forstofu þegar hún hefði munað eftir símanum sínum á rúminu. Hún hefði því snúið til baka inn í herbergið og spurt ákærðu um símann. Þeir hefðu sagst ekkert vita um símann og að hún yrði að leita að honum sjálf. Hún hefði því farið upp í rúmið og verið að leita þegar ákærði Elvar Þór hefði lokað herbergisdyrunum og staðið fyrir framan þær. Ákærði Gunnar Jóhann hefði í framhaldi beðið hana að vera eftir þannig að þau gætu farið í kynlífsleiki og verið öll þrjú saman. Hún hefði svarað því neitandi. Ákærða hefði síðan tekist að fá hana til að leggjast niður í rúminu við hliðina á honum og í framhaldi náð að klæða hana úr buxum og nærbuxum. Hún hefði streist á móti, reynt að halda buxunum uppi og ítrekað sagt „nei, nei“, en hann ekki hlustað á hana. Hún hefði einnig reynt að halda fyrir sköp sín og sagt „nei, nei“, en ákærði hefði engu að síður lagst ofan á hana, náð að þröngva getnaðarlim sínum inn í fæðingarveg hennar og byrjað samfarahreyfingar. Á þeim tímapunkti hefði hún legið stjörf af hræðslu og ekki þorað að berjast um, en haldið áfram að segja „nei“. Ákærði Elvar Þór hefði fram að þessu staðið á gólfinu og fylgst með framferði meðákærða. Hann hefði nú sagt við félaga sinn: „Hættu þessu, hún vill þetta ekki“ og meðákærði svarað: „Jú, jú, hún vill þetta“ og haldið samræðinu áfram í nokkrar mínútur uns hann hefði fengið sáðlát. Ákærði Gunnar Jóhann hefði síðan viljað skipta um samfarastellingu, beðið hana að snúa sér við og fara ofan á hann. Þessu hefði hún hlýtt af tómri hræðslu. Ákærði hefði því næst haft við hana samræði öðru sinni. Er þarna var komið hefði ákærði Elvar Þór verið búinn að klæða sig úr buxunum og hann náð að þröngva getnaðarlim sínum inn í munn hennar. Þau mök hefðu ekki varað nema í smástund þegar henni hefði tekist að sveigja höfuð sitt til hliðar og losna þannig við liminn úr munninum. Ákærði hefði í framhaldi lagst ofan á hana að aftanverðu og náð að reka getnaðarliminn að hluta inn í endaþarm hennar. Við það hefði hún strax öskrað af sársauka og sagt honum að hætta. Hann hefði hlýtt því samstundis. Örskömmu síðar hefði ákærði Gunnar Jóhann hætt samræði í leggöng, staðið upp og farið út úr herberginu. Hún hefði strax klætt sig, fundið símann sinn og mælt sér mót við A fyrir utan Hagkaup í Njarðvík. Áður en hún fór hefði ákærði Gunnar Jóhann komið inn í herbergið á ný, lagt 1.000 krónur á rúmið og sagt að hann væri búinn að panta leigubíl.
X staðfesti fyrir dómi fyrri lýsingu á því hvernig ákærði Gunnar Jóhann hefði náð að koma fram vilja sínum í fyrra skiptið, en áður hafði henni verið lesinn sá framburður frá orði til orðs í vitnaskýrslu hennar hjá lögreglu 28. september 2001. Hún kvaðst síðast hafa haft samfarir fyrir hinn kærða atburð 16. júní 2000. Hún sagðist einnig hafa lifað kynlífi eftir atburðinn og á tímabili hafa átt kærasta.
A bar fyrir dómi með líkum hætti og X um aðdraganda þess að þær fóru heim til ákærða Gunnars Jóhanns. Hún kvaðst ekki hafa fundið til áfengisáhrifa þar inni. Eftir 30-45 mínútna dvöl hefði hún verið búin að fá sig fullsadda af kynlífstali ákærðu; það hefði fokið í hana og hún labbað út. Um leið hefði hún spurt X hvort hún kæmi með, en hún hefði ekki verið alveg viss. Að sögn A hefði ákærði Elvar Þór komið á eftir henni fram í forstofu og spurt af hverju hún væri að fara. Hún hefði sagt honum það, gengið út fyrir húsið og ekki rætt frekar við hann eftir það. Hún sagði því rangt, að hann hefði elt hana út og þau talað saman þar. Um 30-45 mínútum síðar hefði X hringt í hana, þar sem hún hefði staðið fyrir utan Hagkaup í Njarðvík og síðan komið til hennar í leigubíl. X hefði verið „alveg í rusli“ og skjálfandi og grátandi sagt henni frá því að ákærðu hefðu báðir nauðgað henni. Hún kvað X ekki hafa lýst háttsemi þeirra í smáatriðum og sjálf hefði hún ekki viljað spyrja vinkonu sína nánar, þar sem henni hefði liðið afar illa yfir því að hafa farið á undan henni út úr húsinu.
Auk framangreindra vitna komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins S, H, M, Y, E, Z, Ö, F, K, V, Þ, Arnar Hauksson og foreldrar X, þau G og J. Verður nú rakinn vitnisburður þeirra að svo miklu leyti, sem skipt getur máli við úrlausn á sakarefninu.
S bar fyrir dómi að hann hefði tekið A og X upp í bifreið sína fyrir utan Hagkaup í Njarðvík um kl. 06:00 margumrædda nótt. Stúlkurnar hefðu verið þögular í fyrstu, en síðan hefði X farið að hágráta og aðspurð svarað því að ákærðu hefðu nauðgað henni. Hún hefði síðan legið í fanginu á A í bifreiðinni og látið hana hugga sig.
Ö, vinkona X til margra ára, bar fyrir dómi að X hefði vakið hana með símhringingu snemma morguns laugardaginn 29. júlí 2000. X hefði verið í miklu losti og hágrátandi greint frá því að sér hefði verið nauðgað skömmu áður af tveimur strákum. Að sögn Ö hefði X ekki lýst atburðinum nánar, enda hefði hún sjálf ekki viljað spyrja hana frekar. Þó hefði komið fram að X hefði sagt „nei“ við strákana og að henni hefði verið haldið og því næst nauðgað, bæði í leggöng og endaþarm. X hefði einnig látið þess getið að hún vildi ekki segja foreldrum sínum frá þessu og að niðurlægingin væri svo mikil að hún vildi ekki leggja fram kæru.
Y, vinkona X til margra ára, bar fyrir dómi að X hefði hringt í hana á leið heim frá Keflavík umræddan dag. X hefði verið mjög langt niðri og sagt henni frá því að sér hefði verið nauðgað. Y hefði á greindum tíma verið í vinnunni, en þær hefðu hist síðar um daginn ásamt sameiginlegri vinkonu, E. X hefði grátið mikið við það tækifæri og greinilega liðið afar illa, bæði á sál og líkama. Hún hefði tjáð þeim að tveir karlmenn hefðu farið með hana inn í herbergi, haldið henni og báðir nauðgað henni samtímis. Jafnframt hefði annar þeirra fengið hana til að viðhafa munnmök. Að sögn Y hefði hún pantað tíma á neyðarmóttökunni, án vitundar og gegn vilja X og síðan fylgt henni þangað ásamt E og A.
E, vinkona X til margra ára, staðfesti fyrir dómi að hún hefði hitt X umræddan dag, en áður hefði Y verið búin að hringja í hana og segja henni frá því hvað hefði gerst. Að sögn E hefði X liðið mjög illa þegar þær hittust og hún greint sjálf frá því að sér hefði verið nauðgað af tveimur strákum. Þeir hefðu báðir „tekið hana“ og það „í bæði götin“.
Z, vinkona X til margra ára, bar fyrir dómi að X hefði hringt í hana eftir læknisskoðun á neyðarmóttökunni, en Z hefði þá verið stödd í sumarleyfi austur á landi. X hefði sagt henni frá því að sér hefði verið nauðgað fremur hrottalega af tveimur strákum, en hún myndi segja henni nánar frá því við betra tækifæri. Þær hefðu síðan hist viku síðar og X greint henni frá því að umræddir strákar hefðu verið vondir við hana og „farið í rassinn á henni og klof“. Að sögn Z hefði hún ekki viljað þrýsta mikið á vinkonu sína til að segja frá þessu í smáatriðum, enda hefði X greinilega liðið illa og hún birgt þetta inni.
V.
Eins og áður er rakið hefur ákærði Gunnar Jóhann borið fyrir sig algjört minnisleysi um hvað hann hafi aðhafst aðfaranótt laugardagsins 29. júlí 2000. Fær sá framburður vissa stoð í framburði meðákærða Elvars Þórs fyrir dómi, sem kveður Gunnar Jóhann hafa verið ofurölvi um nóttina, eins og hann hefði átt vanda til á þeim tíma. Telur dómurinn að virða beri neitun hans á sakarefninu í því ljósi.
Samkvæmt framburði ákærða Elvars Þórs fyrir dómi og vitnisburði X, A, M, S og H hittu stúlkurnar X og A ákærðu fyrir utan verslunarmiðstöðina Kjarnann í Keflavík og þáðu far í bifreið M. Ákærða og stúlkunum tveimur ber saman um að þau hafi síðan farið á rúntinn með M og í framhaldi farið heim til meðákærða Gunnars Jóhanns. Þar hafi þau farið inn í svefnherbergi meðákærða og eitt eða fleiri sest á rúm hans og farið að tala saman. Sannað er með nær samhljóða vitnisburði X og A fyrir dómi, sem er ómótmælt af hálfu ákærða, að hann og/eða meðákærði hafi síðan fært í tal við stúlkurnar hvort þær væru til í einhvers konar kynlífsleiki. Ákærða Elvari Þór og stúlkunum ber saman um að fram að þeim tíma hafi ekki verið um neinn samdrátt að ræða milli ákærðu og stúlknanna, hvorki í formi stolinna kossa né annarra atlota. Upplýst er að A hafi verið misboðið vegna nefnds talsmáta og að hún hafi því rokið á dyr. Einnig er ljóst að ákærði Elvar Þór fór á eftir henni út úr herberginu í því skyni að biðjast afsökunar og fá hana til að hætta við að fara. Ákærða og stúlkunum ber hins vegar ekki saman um hvernig þau samskipti hafi verið. Samkvæmt vitnisburði X fyrir dómi bað hún ákærða að fara á eftir A og ræða við hana, en sjálf kvaðst hún hafa orðið eftir inni í herbergi meðákærða. Sá vitnisburður samrýmist vætti A fyrir dómi, sem bar að aðeins ákærði hefði komið á eftir henni og rætt við hana í forstofu íbúðarinnar, en í framhaldi hefði hún farið út úr húsinu og ekki rætt við hann meir. Ákærði kvaðst hins vegar hafa elt A fram í forstofu og sagði X hafa fylgt á eftir. Eftir viðræður í forstofunni hefði X beðið hann að fara á eftir A út úr húsinu og reyna að fá hana til baka. Síðastgreindur vitnisburður stúlknanna styður hvor annan, svo langt sem hann nær og er trúverðugur, samanborinn við framburð ákærða, sem ekki nýtur stuðnings í öðrum gögnum málsins. Þykir því mega leggja vitnisburð stúlknanna til grundvallar um þetta tiltekna atriði. Í ljósi þeirrar niðurstöðu ber að hafna þeim framburði ákærða að hann hafi hlaupið á eftir A út úr húsinu og rætt við hana öðru sinni á einhverju götuhorni. Einnig þykir með ólíkindum sá framburður ákærða að þegar hann hafi komið aftur inn í herbergið, 2-3 mínútum síðar, hafi X ekki aðeins verið farin úr forstofunni heldur einnig verið komin upp í rúm til meðákærða og byrjuð að stunda þar einhverjar óljósar kynferðisathafnir, með ofurölvuðum manni, sem hún þekkti ekki fyrir og hafði samkvæmt framburði ákærða sjálfs ekki sýnt minnsta kynferðislegan áhuga á fram að því. Þótt ákærði hafi verið stöðugur í þessum framburði sínum telur dómurinn hann vera með slíkum ólíkindum að ekki verður á hann fallist í ljósi staðfasts vitnisburðar X við rannsókn og meðferð málsins, sem dómurinn metur trúverðugan. Að þessu virtu þykir mega leggja til grundvallar vitnisburð stúlkunnar þess efnis að hún hafi ætlað að hlaupa á eftir vinkonu sinni, en snúið aftur í herbergi meðákærða til þess eins að sækja farsímann sinn.
Ákærði Elvar Þór og X eru ein til frásagnar um hvað síðan gerðist inni í herberginu og ber mikið á milli í frásögn þeirra. Samkvæmt framburði ákærða munu X og meðákærði hafa haldið áfram atlotum í rúminu og gefið honum til kynna með augngotum að þau hefðu ekki á móti því að hann tæki einnig þátt í þeim kynferðisathöfnum. Ákærði hefur bæði hjá lögreglu og fyrir dómi gert lítið úr þátttöku sinni í þeirri atburðarás. Þó kveðst hann hafa sest við rúmgaflinn og ef til vill kysst stúlkuna á munninn og káfað lítillega á henni á meðan hún hafi verið í atlotum við meðákærða. Í framhaldi hafi hann sest niður og fengið sér sígarettu. Þá hefur framburður ákærða um athafnir meðákærða og X verið afar óljós og að vissu marki reikull. Þannig skýrði hann lögreglu frá því að þau hefðu afklæðst meðan á atlotum stóð, en fyrir dómi kvaðst ákærði ekki geta sagt til um þetta atriði. Verður að telja slíkt með miklum ólíkindum í ljósi þess að ákærði var að eigin sögn viðstaddur allan tímann. Dómurinn telur að sama skapi með ólíkindum að ákærði geti ekki borið af eða á hvort þau hafi haft samræði í rúminu eður ei, en slík háttsemi getur vart dulist þeim, sem staddur er inni í sama herbergi. Ákærði sagði um þetta atriði fyrir dómi að mjög líklegt væri að samfarir hefðu átt sér stað og að þær hefðu þá verið með fullum vilja X, sem hefði verið ofan á meðákærða og haft yfirhöndina í samneyti sínu við meðákærða. Ber þessi framburður ákærða, sem og önnur lýsing hans á atburðarás inni í herberginu, merki þess að hann greini á köflum frá því, sem hann telji vera sér og meðákærða hagstætt, en leyni öðrum atriðum, sem horft geti honum og meðákærða í óhag.
X hefur á hinn bóginn lýst atburðum inni í herberginu í megindráttum á sama veg við skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómi. Er sú lýsing í samræmi við fyrri frásögn hennar, sem Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir skráði eftir henni á neyðarmóttöku Landspítalans sama dag og hinir meintu atburðir gerðust. Við skoðun þann dag lýsti læknirinn andlegu ástandi X á þann veg að hún hefði verið mjög döpur og hnípin, stressuð og hálfhlegið er hún greindi frá atburðum. Hefur læknirinn staðfest þessa lýsingu fyrir dómi, sem og þá niðurstöðu læknisskoðunar að ferskir áverkar hefðu verið við endaþarms- og leggangaop og að fundist hefðu heillegar sæðisfrumur í leghálsi stúlkunnar. Þá liggur fyrir vitnisburður A, S, Ö, Y, E og Z fyrir dómi, en vitnin ýmist hittu X umræddan dag eða ræddu við hana gegnum síma. Bendir vitnisburður þeirra, eins og honum er áður lýst, eindregið til þess að X hafi orðið fyrir alvarlegu áfalli. Hefur ekkert komið fram í málinu um að rekja megi ástand hennar til annarra atvika en samskipta hennar við ákærðu, eins og hún lýsir þeim fyrir dómi. X hefur frá upphafi verið sjálfri sér samkvæm um hvað hafi gerst milli hennar og ákærðu. Frásögn ákærða Elvars Þórs hefur á hinn bóginn verið mun óljósari um þýðingarmikil atriði málsins og þykir framburður hans um málsatvik að svo miklu leyti, sem hann stangast á við vitnisburð X ekki trúverðugur.
Þegar framangreind atriði eru öll virt heildstætt er það álit dómsins, að þrátt fyrir eindregna neitun ákærða Elvars Þórs á sakargiftum og framburð hans fyrir dómi um þátt meðákærða Gunnars Jóhanns, megi leggja til grundvallar vitnisburð X fyrir dómi um þau atvik inni í herbergi ákærða Gunnars Jóhanns, sem hér skipta máli, enda ekkert fram komið, sem veikir vitnisburð stúlkunnar og dregur úr trúverðugleika hennar. Er því sannað að ákærðu hafi greint sinn þröngvað henni með ofbeldi til samræðis og annarra kynferðismaka; ákærði Gunnar Jóhann með því að hafa í tvígang þröngvað getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar og haft við hana samræði og meðákærði Elvar Þór með því að hafa, eftir að stúlkan var orðin lömuð af hræðslu og hætt allri mótspyrnu, misnotað sér bágindi hennar og þröngvað getnaðarlim sínum í munn hennar og síðan í endaþarm. Varðar framangreind háttsemi ákærðu við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.
VI.
Samkvæmt sakavottorði ákærða Gunnars Jóhanns hefur hann frá árinu 1999 hlotið þrjá refsidóma fyrir brot á almennum hegningarlögum og tvívegis fengið ákærufrestun. Síðast var hann dæmdur 4. janúar 2001 í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið 2 ár, fyrir þjófnað. Þá gekkst ákærði í apríl 2002 undir lögreglustjórasátt og 20.000 króna sektargreiðslu, auk sviptingar ökuréttar, fyrir of hraðan akstur.
Samkvæmt sakavottorði ákærða Elvars Þórs var hann dæmdur 27. mars 2002 í 4 mánaða fangelsi, skilorðsbundið 2 ár, fyrir líkamsárásir samkvæmt 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Brot þau, sem ákærðu eru nú sakfelldir fyrir, eru framin fyrir uppkvaðningu síðastnefndra dóma. Ber því samkvæmt reglum 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp þá dóma og fella hinar skilorðsbundnu refsingar samkvæmt dómunum inn í refsingu þá, sem ákærðu verður nú gerð hvorum um sig, sbr. reglur 78. gr. laganna.
Við ákvörðun refsingar ber einnig að líta til hinnar alvarlegu háttsemi, sem dómurinn metur svívirðilega og einkar niðurlægjandi, sérstaklega í ljósi þess að ákærðu þröngvuðu stúlkunni á tímabili til kynferðismaka í leggöng og endaþarm á sama tíma. Eru ekki efni til annars en að meta háttsemi þeirra sem samverknað í skilningi 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og horfir það til refsiþyngingar. Þá ber að hafa í huga aldur stúlkunnar, sem var tæplega 17 ára á brotadegi og hafði í grandaleysi þegið heimboð ákærðu. Fyrir liggur að þau þekktust ekki fyrir þann tíma og að ákærðu áttu ekkert sökótt við stúlkuna. Ber framferði þeirra vott um miskunnarleysi og fullkomið virðingarleysi við kynfrelsi hennar. Þeir eiga sér engar málsbætur. Engu að síður verður hér einnig að líta til aldurs ákærðu, sem voru nýlega orðnir 17 ára er þeir frömdu brot sín. Hefur það eitt áhrif til refsilækkunar í málinu.
Að öllum þessum atriðum virtum þykir refsing ákærða Gunnars Jóhanns hæfilega ákveðin fangelsi í 22 mánuði og refsing ákærða Elvars Þórs fangelsi í 2 ár, en munur á þyngd refsinganna skýrist eingöngu af eldri refsidómum, sem dæmdir eru með í málinu samkvæmt framansögðu.
VII.
Af hálfu X er þess krafist í málinu að ákærðu verði dæmdir í sameiningu til að greiða henni 1.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júlí 2000 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Kröfunni til stuðnings er vísað til a- og b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum.
Af hálfu ákærðu er þess krafist að miskabótakröfunni verði vísað frá dómi.
Ákærðu hafa verið sakfelldir samkvæmt ákæru fyrir brot á 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ber því að dæma X, sem brotaþola í málinu, miskabætur úr hendi ákærðu vegna ólögmætrar meingerðar gegn persónu hennar og friði, sbr. b-lið 26. gr. nefndra skaðabótalaga. Brot ákærðu eru svívirðileg og voru framin á auðmýkjandi hátt. Í málinu nýtur ónógra gagna um ástand stúlkunnar nú og um hugsanleg varanleg áhrif verknaðarins á hana. Þó er ljóst að slíkir atburðir, sem hér um ræðir, eru til þess fallnir að valda þeim sem fyrir verður margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Dómurinn velkist ekki í vafa um að X hafi orðið fyrir alvarlegu andlegu og tilfinningalegu áfalli, sem muni há henni um ófyrirséða framtíð. Þykja því miskabætur hæfilega ákveðnar 500.000 krónur. Skal fjárhæðin bera vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júlí 2000 til 1. júlí 2001, frá þeim degi vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til dómsuppsögudags, en frá þeim degi dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
VIII.
Samkvæmt greindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. a-lið 164. gr. sömu laga með áorðnum breytingum, ber að dæma ákærðu óskipt til að greiða þóknun Ingimars Ingimarssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns X. Með hliðsjón af fjölda þinghalda og eðli og umfangi máls þykir sú þóknun hæfilega ákveðin 300.000 krónur.
Dæma ber ákærða Gunnar Jóhann til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Lárentsínusar Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, hér fyrir dómi og þykja þau hæfilega ákveðin 300.000 krónur. Áður hefur verjandinn fengið greidda 56.025 króna þóknun vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi máls, sem ákærði greiði einnig.
Þá ber að dæma ákærða Elvar Þór til að greiða málsvarnarlaun Sigurðar Kára Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda síns við rannsókn og meðferð málsins og þykja þau hæfilega ákveðin í einu lagi 350.000 krónur.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.
Sigríður Jósefsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvalds.
DÓMSORÐ:
Ákærði Gunnar Jóhann Gunnarsson sæti fangelsi í 22 mánuði.
Ákærði Elvar Þór Sturluson sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærðu greiði óskipt X 500.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júlí 2000 til 1. júlí 2001, frá þeim degi með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til dómsuppsögudags, en frá þeim með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Ákærði Gunnar Jóhann greiði 300.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Lárentsínusar Kristjánssonar héraðsdómslögmanns.
Ákærði Elvar Þór greiði 350.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Kára Kristjánssonar héraðsdómslögmanns.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt, þar með talda 300.000 króna þóknun Ingimars Ingimarssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns X.